• Lykilorð:

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness 24. janúar 2018 í máli nr. S-194/2017:

Ákæruvaldið

(Katrín Hilmarsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

Andra Má Elfarssyni

 

Mál þetta, sem dómtekið var 8. janúar 2018, er höfðað með ákæru útgefinni af héraðssaksóknara 19. maí 2017 á hendur Andra Má Elfarssyni, kt. 000000-0000, Bjarmalandi 3, Sandgerði, „fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 13. nóvember 2016 utan við verslun 10/11 við Hafnargötu í Reykjanesbæ, slegið lögreglumanninn A, sem þar var við skyldustörf, með krepptum hnefa í vinstri kjálka og hrækt á lögregluhúfu hans. Af þessu hlaut A skrámu yfir vinstra kjálkabeini og eymsli í kjálkann.“

Þetta er talið varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Hinn 15. september 2017 var mál nr. S-280/2017, sem var höfðað á hendur ákærða með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á Suðurnesjum hinn 31. júlí 2017, sameinað þessu máli, sbr. heimild í 1. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þar eru ákærða gefin að sök eftirtalin brot:

 

1. Umferðarlagabrot með því að hafa, laugardaginn 20. ágúst 2016, ekið bifreiðinni [...] norður Reykjanesbraut, við Grænás í Reykjanesbæ, án ökuréttar og undir áhrifum ávana- og fíkniefna og þannig óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega (í blóði mældist tetrahýdrókannabínól 1,8 ng/ml).

Þetta er talið varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a og 1. mgr. 48. umferðarlaga nr. 50/1987,  sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

 

2. Umferðarlagabrot með því að hafa, laugardaginn 10. desember 2016, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna austur Austurbraut og inn á gatnamót við Þjóðbraut án þess að virða stöðvunarskyldu (í blóði mældist tetrahýdrókannabínól 0,8 ng/ml auk þess sem amfetamín mældist í þvagi).

Þetta er talið varða við 1. mgr. 5. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a, og 1. mgr. 48. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, allt skv. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Einnig er þess krafist að ákærði verði dæmdur til sviptingar ökuréttar, skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.

 

Ákærði krefst sýknu af ákæru 19. maí 2017 en vægustu refsingar er lög leyfa vegna brota sem honum eru gefin að sök í ákæru 31. júlí 2017. Þá gerir verjandi ákærða kröfu um hæfileg málsvarnarlaun.

 

Ákæra 19. maí 2017

I.

            Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að hinn 13. nóvember 2016 hafi borist tilkynning frá Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra um hópslagsmál fyrir utan verslun 10/11 að Hafnargötu 55 í Reykjanesbæ. Er lögreglumenn komu á vettvang hafi átökin verið yfirstaðin en nokkur fjöldi fólks verið á vettvangi. Aðili hafi komið að lögreglumanni [...], B, og sagt að vinur hans hefði orðið fyrir líkamsárás og hafi aðilinn verði beðinn um að vísa lögreglu á árásarþola. Á norðurhlið verslunarinnar hafi verið C. Hann hafi verið blóðugur í andliti og með skurð á enni. Hann hafi verið töluvert ölvaður en þó verið vel viðræðuhæfur. Hann hafi skýrt frá því að hafa lent í átökum við „Andra boxara“ sem hefði kýlt hann í andlitið og sparkað í hann. Lögreglumaður [...], A, og [...], D, hafi farið og rætt við Andra, ákærða í máli þessu, en hann hafi verið inni í versluninni 10-11. Ákærði hafi verið nokkuð ölvaður og ekki viljað ræða mikið við lögreglu. Ákærði hafi neitað að hafa verið í átökum stuttu áður og sagt að hann vissi ekki hvað lögregla væri að tala um. Ákærði hafi verið nokkuð móður er lögregla ræddi við hann og verið með skrámur á höndum og með áverka á höfði. Ákærði hafi verið klæddur í hvítan bol og dökkar gallabuxur. Þegar ákærða hafi verið kunngert að lögregla vildi ræða við hann á lögreglustöðinni á Hringbraut hafi hann orðið ósamvinnuþýður, æstur og ógnandi í garð lögreglumanna A og D. Ákærði hafi verið ósáttur við að fara á lögreglustöðina og farið aftur inn í verslunina til þess að ræða við kærustu sína. Lögreglumenn A og D hafi farið á eftir ákærða og tjáð honum að hann yrði að koma með lögreglu. Ákærði hafi gengið aftur út og á leiðinni hafi ákærði snúið sér að lögreglumanni A og slegið hann með krepptum hnefa í vinstri kjálka með hægri hendi. Ákærði hafi þá verið handtekinn og færður í lögreglutök og í handjárn. Er ákærði hafi verið í handjárnum og fyrir utan lögreglubifreiðina hafi hann hrækt á lögregluhúfu lögreglumanns A. Ákærði hafi verið færður inn í lögreglubifreiðina og verið kynnt réttarstaða handtekinna manna og ástæða handtökunnar. Ákærði hafi haldið áfram að vera ógnandi og hótað lögreglumanni A. Ákærði hafi sagt að hann vissi hvar lögreglumaðurinn ætti heima og að hann myndi ekki gleyma þessu. Ákærði hafi einnig sagt að hann vildi mæta lögreglumanninum í bardaga því að hann myndi berja hann. Ákærði hafi verið fluttur á lögreglustöðina við Hringbraut og verið vistaður í fangaklefa. Þá kemur fram í frumskýrslu lögreglu að lögreglumaður A hafi blóðgast lítillega við höggið og verið aumur í kjálkanum. 

            Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu sama dag, 13. nóvember 2016. Ákærði kvaðst hafa verið fyrir utan verslunina 10-11 ásamt unnustu sinni. Hann hafi séð einhverja vera að slást fyrir utan verslunina og skipt sér af því og aðskilið þá. Þá hefðu tveir menn ráðist á hann. Líklega hafi annar þeirra verið C. Ákærði hefði verið felldur í jörðina en hann hefði náð að snúa sér við og snúa annan manninn niður og slegið hann eitthvað. Þessu hafi lokið og ákærði farið inn í verslun 10-11 en þá hafi lögreglan komið og rætt við hann. Ákærði hafi bara viljað fara en lögreglumenn sagt að hann þyrfti að koma með þeim. Ákærði hafi farið og ætlað að tala við kærustu sína. Lögreglumennirnir hefðu elt hann og rifið í hann og sagst vera að handtaka hann. Annar lögreglumaðurinn hefði haldið í bol ákærða en ákærði hefði kippt handlegg sínum í burtu. Í framhaldi af því hafi ákærði verið handtekinn með því að annar lögreglumannanna lagði hann á hurðina á lögreglubílnum og handjárnaði hann. Þegar lögreglumaðurinn hafi verið að handtaka ákærða hafi lögreglumaðurinn hrækt á hnakka ákærða. Lögreglumaðurinn hefði síðan sagt á leiðinni á lögreglustöðina að ákærði hefði kýlt hann í andlitið, en ákærði hefði aldrei gert það. Ákærði kvaðst hafa verið beittur miklu harðræði þegar hann hafi verið handjárnaður. Það hafi verið mikið snúið upp á hendur hans og að hann teldi að langatöng vinstri handar væri brotin eftir þetta. Þá hafi hann fengið för á báða úlnliði eftir handjárnin. Ákærði neitaði því að hafa haft í hótunum við lögreglumennina.

            Fyrir liggur læknisvottorð E, dags. 25. desember 2016, um komu lögreglumanns [...], A, á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hinn 13. nóvember 2016. Þar kemur fram að lögreglumaðurinn hafi verið með „abrasion of head, part unspecified“ og „tognun og ofreynslu á liði og bönd annarra og ótilgreindra hluta höfuðs“. Þá segir í vottorðinu að lögreglumaðurinn hafi kvartað undan eymslum í vinstri kjálka og við að tyggja. Einnig hafi hann verið með hruflaða húð og skrámur yfir vinstra kjálkabeinni.

II.

            Ákærði mætti ekki við aðalmeðferð málsins. Vitnið A lögreglumaður, brotaþoli í málinu, gaf skýrslu fyrir dómi og skýrði frá því að hafa fengið útkall í verslunina 10-11 við Hafnargötu í Reykjanesbæ vegna hópslagsmála. Brotaþoli hefði ásamt tveimur öðrum lögreglumönnum farið á vettvang og fundið mann blóðugan í andliti. Lögreglumennirnir hefðu rætt við vitni sem hefðu bent á ákærða sem geranda og upplýst að ákærði hefði farið inn í verslunina. Brotaþoli kvaðst hafa rætt við ákærða inni í versluninni og ákærði hefði verið æstur. Þeir hefðu farið út og ákærði ekki viljað kannast við nein átök. Ákærði hefði hins vegar verið móður og verið með áverka á hnúum og ljóst að hann hefði verið í átökum. Ákærði hafi ekki viljað ræða við lögreglu og farið aftur inn í verslunina. Brotaþoli  kvaðst hafa farið inn á eftir honum og beðið ákærða um að ræða við lögreglu en ákærði hefði verið með hótanir. Brotaþoli kvaðst hafa passað sig á því að snerta ekki ákærða. Ákærði hefði svo gengið að anddyri verslunarinnar og brotaþoli gengið á eftir honum. Í dyrunum hefði ákærði snúið sér við og kýlt brotaþola snöggt í vinstri vangann. Brotaþoli sagði að hann og ákærði hefðu haldið áfram út og og farið að lögreglubifreið sem var þar fyrir utan. Þar hefði ákærði verið settur í handjárn. Einnig sagði vitnið að ákærði hefði þar hrækt á sig. Enn fremur greindi brotaþoli frá því að hann hefði hlotið áverka eftir ákærða og verið með eymsli í kjálka nokkra daga eftir þetta.

            Vitnið D lögreglumaður skýrði frá því að óskað hafi verið eftir aðstoð lögreglu vegna slagsmála við umrædda verslun og vitnið farið á vettvang ásamt tveimur öðrum lögreglumönnum. Þegar þeir hafi komið á vettvang hafi þeir fengið upplýsingar hjá vitnum um að ákærði hefði verið gerandi í slagsmálunum. Ákærði hefði svo verið handtekinn fyrir að slá lögreglumann, brotaþola í máli þessu. Vitnið kvaðst ekki hafa séð það atvik en vitnið sagði að það hefði séð hráka á húfu brotaþola.

            Vitnið E lögreglumaður sagði að tilkynnt hefði verið um hópslagsmál við umrædda verslun. Vitnið og tveir aðrir lögreglumenn hefðu farið á vettvang. Vitni á vettvangi hefðu upplýst að gerandi væri inni í versluninni. Lögreglan hefði tekið ákærða tali og ákærði verið æstur. Farið hafi verið með ákærða út og rætt við hann. Vitnið kvaðst ekki hafa séð þegar ákærði kýldi brotaþola eftir að hafa farið aftur inn í verslunina. Vitnið kvaðst hins vegar hafa séð hráka á húfu brotaþola. Þá sagði vitnið að ákærði hafi ekki verið beittur harðræði af hálfu lögreglu.

III.

            Ákærði neitaði sök í þinghaldi 3. október 2017 hvað varðar brot gegn valdstjórninni. Ákærði mætti ekki fyrir dóm við aðalmeðferð málsins til að gefa skýrslu. Hjá lögreglu hélt ákærði því fram að lögreglumaður hefði rifið í hann og ætlað að handtaka hann. Lögreglumaðurinn hefði haldið í bol ákærða en ákærði hefði kippt handlegg sínum í burtu. Þá hélt ákærði því fram að við handtöku hefði lögreglumaðurinn hrækt á sig. Ákærði neitaði því að hafa slegið lögreglumanninn eða hrækt á hann.

Brotaþoli, lögreglumaðurinn A, hefur lýst því að hafa farið inn í umrædda verslun og rætt við ákærða sem hafi verið æstur. Þeir hefðu svo farið út en ákærði ekki viljað kannast við að hafa verið í slagsmálum þrátt fyrir að hann hefði verið móður og með áverka á hnúum. Ákærði hafi ekki viljað ræða við lögreglu og farið aftur inn í verslunina. Brotaþoli hefði farið inn á eftir ákærða og beðið hann að ræða við lögreglu. Ákærði hefði gengið að dyrunum og brotaþoli farið á eftir honum. Skyndilega hefði ákærði snúið sér við og kýlt brotaþola í vinstri kjálka. Ákærði hefði seinna hrækt á brotaþola.

Fyrir liggja upptökur úr eftirlitsmyndavélum, bæði fyrir utan verslunina og inni í versluninni. Þar kemur skýrt fram að þegar brotaþoli ræddi við ákærða inni í versluninni snerti brotaþoli ekki ákærða og tók ekki í bol hans, heldur var það ákærði sem ýtti við brotaþola. Þegar brotaþoli gekk á eftir ákærða, sem var á leið út úr versluninni, sneri ákærði sér í dyrunum snögglega við og kýldi brotaþola í andlitið að tilefnislausu. Framburður ákærða er í engu samræmi við það sem sést á upptökunni úr eftirlitsmyndavél verslunarinnar. Upptakan staðfestir hins vegar frásögn brotaþola. Þá liggur fyrir læknisvottorð sem staðfestir áverka á brotaþola. Er því sannað að ákærði hafi slegið brotaþola, sem var þar við skyldustörf sem lögreglumaður, með krepptum hnefa í vinstri kjálka. Þá hefur brotaþoli greint frá því að ákærði hafi hrækt á hann og hafa tvö vitni fyrir dómi, lögreglumennirnir B og D, greint frá því að hafa séð hráka á lögregluhúfu brotaþola. Er því sannað að ákærði hafi hrækt á húfu brotaþola. Ákærði er því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin í sök í ákæru 19. maí 2017 og með þeim afleiðingum sem þar greinir. Brot ákærða er rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.

 

Ákæra 31. júlí 2017.

Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að hann er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

Refsing og sakarkostnaður.

            Ákærði er fæddur í [...]. Samkvæmt sakavottorði ákærða var honum með sátt gert að greiða 75.000 króna sekt fyrir brot gegn 1., sbr. 2., mgr. 45. gr. a og 48. gr. umferðarlaga (ekið án þess að endurnýja ökuskírteini sitt). Jafnframt var hann sviptur ökurétt í fjóra mánuði frá 8. september 2017. Ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir umferðarlagabrot og brot gegn valdstjórninni. Umferðarlagabrot ákærða samkvæmt I. kafla ákæru 31. júlí 2017 var framið fyrir framangreinda sátt og er því um hegningarauka að ræða. Umferðarlagabrot samkvæmt II. kafla ákæru var hins vegar framið eftir að ákærði gekkst undir sáttina og er því um ítrekun að ræða hvað varðar það brot. Brot ákærða gegn valdstjórninni er einnig framið eftir sáttina. Er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði, skilorðsbundið í tvö ár, og 255.000 króna sekt til ríkissjóðs sem greiðist innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja, en ákærði sæti ella fangelsi í 18 daga. Ákærði skal jafnframt sviptur ökurétti í tvö ár og tvo mánuði frá birtingu dóms að telja.

            Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til að greiða sakarkostnað málsins, alls 463.441 krónu. Samkvæmt yfirliti um sakarkostnað vegna umferðarlagabrots 10. desember 2016 er um að ræða kostnað vegna blóðtökuvottorðs og matsgerðar Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, samtals 165.210 krónur. Kostnaður vegna umferðarlagabrots 20. ágúst 2016 er samtals 88.631 króna. Samkvæmt yfirliti um sakarkostnað vegna ákæru 19. maí 2017 er um að ræða kostnað vegna læknisvottorðs og komu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, samtals 9.600 krónur. Þóknun verjanda er hæfilega ákveðin 200.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

            Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

 

D ó m s o r ð:

Ákærði, Andri Már Elfarsson, greiði 255.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja, en sæti ella fangelsi í 18 daga.

Ákærði sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærði er sviptur ökurétti í tvö ár og tvo mánuði frá birtingu dóms að telja.

            Ákærði greiði 463.441 krónu í sakarkostnað, þar með talin 200.000 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Snorra Sturlusonar héraðsdómslögmanns.

 

Sandra Baldvinsdóttir