• Lykilorð:
  • Skuldamál

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 9. febrúar 2018 í máli nr. E-656/2017:

Ármannsfell ehf.

(Ingólfur Kristinn Magnússon lögmaður)

gegn

Já iðnaðarmönnum Art2b verkstæði ehf.

 (Ágúst Þórhallsson lögmaður)

 

           Mál þetta var þingfest 28. júní 2017 og tekið til dóms 25. janúar sl. Stefnandi er Ármannsfell ehf., Selvogsgrunni 24, Reykjavík, en stefndu eru Já iðnaðarmenn Art2b verkstæði ehf., Dalshrauni 4, Hafnarfirði.

           Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmdir til að greiða skuld að fjarhæð 632.630 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. apríl 2017 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar.

          Af hálfu stefndu er krafist sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

                                                                        I

            Stefndu eru verktakafyrirtæki sem sinnir ýmsum viðhaldsverkefnum við byggingar. Í febrúar 2017 auglýstu stefndu tvær lausar stöður hjá fyrirtækinu, annars vegar starf verkstjóra og hins vegar starf aðstoðarframkvæmdarstjóra. Vignir Björnsson, fyrirsvarsmaður stefnanda, sem er byggingarfræðingur og húsasmíðameistari að mennt, sótti um báðar stöðurnar. Fyrirsvarsmaður stefndu, Jóhann Ingólfsson, setti sig í samband við Vigni og varð úr að Vignir hóf störf hjá stefndu 13. mars 2017. Enginn skriflegur ráðningarsamningur var gerður og deila aðilar um efni hins munnlega samnings. Starf Vignis fólst í því að fara á væntanlega verkstaði, tak út ný verk og gera tilboð í þau. Þá fólst starf hans ennfremur í verkstjórn, þ.e. að fylgjast með þeim verkum sem tilboð hafði verið gert í. Vignir starfaði hjá stefndu í eina viku. Stefnandi gerði stefndu reikning vegna vinnu Vignis, dags. 1. apríl 2017, og segir í honum að reikningurinn sé vegna vinnu byggingarfræðings í 60 klukkustundir með 8.500 krónum fyrir tímann. Stefnandi hefur lagt fram í málinu sundurliðaða skýrslu um þann tímafjölda sem unninn var á hverjum verkstað.

            Vignir sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að aðilar hafi samið um að hann ynni hjá stefndu í verktöku í nafni stefnanda og jafnframt hafi þeir samið um tímagjald að fjárhæð 8.500 krónur. Samkomulag hafi verið um að stefndu legðu stefnanda til bifreið, enda hafi mikil keyrsla fylgt starfinu.

            Fyrirsvarsmaður stefndu, Jóhann Jónas Ingólfsson, sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að Vignir hafi verið ráðinn til að taka verk út, gera tilboð í þau og fylgjast með framgangi þeirra sem verkstjóri. Þeir hafi samið um að Vignir fengi 900.000 krónur í mánaðarlaun og að það væru heildarlaun hans en yfirvinna yrði ekki greidd. Aldrei hafi verið rætt um að Vignir yrði undirverktaki hjá stefndu. Þegar Vignir var hættur störfum hjá stefndu kvaðst Jóhann hafa reiknað út laun hans og útbúið launaseðil. Hann hafi síðan sent Vigni tölvubréf og óskað eftir upplýsingum um bankareikning hans til þess að leggja launin inn en fengið þau svör að Vignir hafi ekki gert ráðningarsamning við stefndu og að stefndu bæri að greiða stefnanda samkvæmt reikningi sem væri kominn í innheimtu.

            Stefnandi byggir mál sitt á því að samið hafi verið um að stefnandi væri undirverktaki hjá stefndu. Þá er byggt á meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga. Kröfu sína um dráttarvexti styður stefnandi við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Krafa um málskostnað byggist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 19/1991.

            Stefndu krefjast sýknu vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndu kannast ekki við að hafa verið í samningssambandi við stefnanda sem er einkahlutafélag. Engin gögn hafi verið lögð fram í málinu sem gefi slíkt til kynna. Vignir hafi gengið til starfa hjá stefndu á sama hátt og aðrir launþegar hjá stefndu. Þá hafi Vignir fengið til afnota bifreið og áhöld til þess að nota við vinnu sína hjá stefndu. Hann hafi tekið við skipunum frá framkvæmdastjóra stefndu eða verkstjóra stefndu. Verktakasamband hafi því ekki verið milli aðila.

                                                                        II

            Eins og að framan er rakið vann Vignir Björnsson, fyrirsvarsmaður stefnanda, hjá stefndu í eina viku. Vignir og Jóhann Ingólfsson, fyrirsvarsmaður stefndu, gerðu munnlegt samkomulag um ráðningarkjör og deila þeir nú um hvernig þeim var háttað. Heldur stefnandi því fram að verktakasamband hafi verið milli aðila en stefndu mótmæla því og segja að samið hafi verið um föst mánaðarlaun við Vigni.

            Stefnandi hefur sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi tekið að sér verk fyrir stefndu í verktöku. Fyrir liggur að Vignir sótti um tvær stöður hjá stefndu og var það upphaf að samningssambandi þeirra. Enginn skriflegur samningur var gerður. Af gögnum málsins virðist Vignir hafa tekið við fyrirmælum sinna yfirboðara hjá stefndu um hvaða verk skyldi vinna hverju sinni. Þá útveguðu stefndu stefnanda bifreið til afnota. Framangreint bendir ekki til þess að stefnandi hafi tekið að sér verk í verktöku. Stefnandi hefur því ekki lagt fram haldbær rök fyrir þeirri staðhæfingu sinni að verktakasamband hafi verið milli aðila málsins.      

            Ekkert samningssamband er því milli aðila máls þessa. Ber því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í málinu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

            Eftir þessari niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur og hefur þá ekki verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.

            Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

                                                            Dómsorð

            Stefndu, Já iðnaðarmenn Art2b verkstæði ehf., skulu vera sýknir af kröfum stefnanda, Ármannsfells ehf., í málinu.

            Stefnandi greiði stefndu 200.000 krónur í málskostnað.

 

Gunnar Aðalsteinsson