• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Skjalabrot
  • Upptaka
  • Ökuréttarsvipting

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness mánudaginn 28. janúar 2019 í máli nr. S-547/2018:

Ákæruvaldið

(Einar E. Laxness aðstoðarsaksóknari)

gegn

Sigurði Hilmari Hansen

(sjálfur)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 22. janúar 2019, höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu á hendur Sigurði Hilmari Hansen, kt. 000000-0000, Bæjarholti 5, Hafnarfirði, með svohljóðandi ákæru 30. október 2018, fyrir eftirtalin brot framin á árinu 2017 og 2018, nema annað sé tekið fram; 

„1. Fyrir umferðar- og vopnalagabrot, með því að hafa að kvöldi fimmtudagsins 24. ágúst 2017, ekið bifreiðinni [...], óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 20 ng/ml og metýlfenídat 2 ng/ml) Árskógsstrandarveg í Dalvíkurbyggð í átt að Ólafsfjarðarvegi,  þar sem lögregla stöðvaði aksturinn, jafnframt á sama tíma haft þrjá hnífa (bitvopn blað lengra en 12 sm, stungvopn, dúkahníf) í vörslum sínum, sem lögregla fann eftir leit í bifreiðinni. 

M.  316-2017-7255

Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a.,  sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og við 1. og 2. mgr. a.- og b.- liðar 30. gr., sbr. 36. vopnalaga nr. 16/1998.

 

2. Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa föstudaginn 1. september 2017, ekið bifreiðinni [...], óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 150 ng/ml og metýlfenídat 25 ng/ml) vestur Strandgötu í Hafnarfirði á bílstæði við verslunarmiðstöðina Fjörðinn,  þar sem lögregla stöðvaði aksturinn. 

M.  007-2017-51629

Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a.,  sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/ 1987.

 

3. Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa að morgni föstudagsins 27. október 2017, ekið bifreiðinni [...], óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 1100 ng/ml, metamafetamín 25 ng/ml og metýlfenídat 20 ng/ml) suður Kringlumýrarbraut  í Reykjavík, Hafnarfjarðaveg gegnum Kópavog að Olís í Garðabæ, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

M. 007-2017-65709

Telst brot þetta varða við  1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a.,  sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 

4. Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 14. janúar 2018, ekið bifreiðinni [...], óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 1200 ng/ml og metýlfenídat 85 ng/ml) suður Vesturlandsveg við afleggjara að Ölveri Hvalfjarðarsveit,  þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

M. 313-2018-943

Telst brot þetta varða við  1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.

 

5. Fyrir skjala-, umferðar- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa að kvöldi þriðjudagsins 16. janúar 2018 ekið bifreiðinni [...], óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 360 ng/ml) og undir skráningarmerkjunum [...], en skráningarmerkin tilheyrðu bifreiðinni Mistsubishi Pajero Sport (árgerð 2000), og ekið bifreiðinni [...] þannig vitandi að hún væri  með röngum skráningarmerkjum á Reykjanesbraut í Hafnarfirði við Kaplakrika þar sem lögregla stöðvaði aksturinn, jafnframt á sama tíma haft í vörslum sínum 0,09 g af amfetamíni sem lögregla fann í veski ákærða.  

M. 007-2018-3426

Telst brot þetta varða við  1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/ 1987, og 2., sbr. 5. og 6. gr. laga  um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974.

 

6.  Fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 4. mars 2018 ekið bifreiðinni [...] óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 1100 ng/ml og kókaín 40 ng/ml) norður Jaðarsel í Reykjavík og svo norður Breiðholtsbraut við Suðurfell, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn, jafnframt á sama tíma haft í vörslum sínum 2,32 g af amfetamíni og 1 stk. MDMA, sem fannst eftir leit lögreglu í úlpuvasa ákærða.

M. 007-2018-13536

Telst brot þetta varða við  1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, og við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga  um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974.

 

7. Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 10. apríl 2018, ekið bifreiðinni [...], óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 120 ng/ml og metamafetamín 25 ng/ml og MDMA 20 ng/ml) og án þess að hafa ökuskírteinis meðferðis, norður Kringlumýrarbraut í Reykjavík við gatnamót Miklubrautar, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

M. 007-2018-22631

Telst brot þetta varða við  1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr.,  allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.

 

8. Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa mánudaginn 21. maí 2018 ekið bifreiðinni [...] óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 475 ng/ml og metamfetamín 80 ng/ml) Vífilstaðaveg í Garðabæ norður Reykjanesbraut á móts við Hnoðraholt, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

M. 007-2018-33810

Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, og við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga  um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974.

 

9. Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa laugardaginn 16. júní 2018, ekið bifreiðinni [...], óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 715 ng/ml) vestur Reykjanesbraut austan við Grindavíkurafleggjara, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

M. 008-2018-10014

Telst brot þetta varða við  1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 

10. Fyrir skjala- umferðar- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 3. júní 2018 ekið bifreiðinni [...], ótryggðri, óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 290 ng/ml og metamfetamín 45 ng/ml) undir skráningamerkjunum [...], en skráningarmerkin tilheyrðu annarri óþekktri bifreið og ekið bifreiðinni [...] þannig vitandi að hún væri  með röngum skráningarmerkjum suður Strandgötu í Hafnarfirði við Víkingastræti, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn, jafnframt á sama tíma haft í vörslum sínum 1,30 g af amfetamíni og 3,44 g af maríhúana-kannabis, sem fannst eftir leit lögreglu í bifreiðinni.

M. 007-2018-37755

Telst brot þetta varða við  1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19 /1940, 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a,  1. mgr. 93. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, og við  2., sbr. 5. og 6. gr. laga  um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974.

 

11. Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa föstudaginn 10. ágúst 2018, ekið bifreiðinni [...], óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 380 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 0,9 ng/ml) austur Gvendargeisla í Reykjavík við Þórðarsveig, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

M. 007-2018-054493

Telst brot þetta varða við  1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

       Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44, 1993 og 18. gr. laga nr. 66, 2006 og að 3,71 g af amfetamíni,  1. stk MDMA og 3,44 g af maríhúana-kannabis,  sem lagt var hald á, verði gert upptækt samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/ 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 og að þrír hnífar (stunguvopn) verði gerðir  upptækir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998.“ 

II

Við þingfestingu málsins óskaði ákæruvaldið eftir því að leiðrétta 10. ákærulið þannig að í stað bílnúmersins [...] eigi að standa [...]. Þá féll ákæruvaldið frá því að ákærði hefði gerst sekur um vopnalagabrot samkvæmt 1. ákærulið, svo og kröfu þess um upptöku á þremur hnífum sem fundust í vörslum ákærða 24. ágúst 2017. Að teknu tillit til þessara breytinga játaði ákærði skýlaust þau brot sem hann er sakaður um og féllst á upptöku tilgreindra fíkniefna. Krafðist hann vægustu refsingar.

Játning ákærða fær stoð í gögnum málsins og er ekki ástæða til að draga í efa að hún sé sannleikanum samkvæm. Samkvæmt því er sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru er lýst, að teknu tilliti til ofangreindra breytinga, og er þar rétt heimfærð til refsiákvæða. Með vísan til 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður dómur lagður á málið án frekari sönnunarfærslu, en látið nægja að skírskota til ákæru um atvik málsins, sbr. 4. mgr. 183. gr. sömu laga.

Ákærði er fæddur í [...]. Sakaferill hans samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar hans nú. Hins vegar ber að líta til þess að ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir fjölda umferðar- og fíkniefnalagabrota, auk tveggja skjalabrota, sbr. 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem öll voru framin á tæpu einu ári, eða frá 24. ágúst 2017 til 10. ágúst 2018. Til málsbóta horfir þó að ákærði gekkst greiðlega við brotum sínum. Að þessu gættu þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 90 daga. Þá verður ákærði, með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum, sviptur ökurétti í fimm ár. Enn fremur verða gerð upptæk tilgreind fíkniefni; 3,71 g af amfetamíni, 1 stk. MDMA og 3,44 g af maríhúana-kannabis. Með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærði loks dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar lögreglu, sem alls nemur 1.200.571 krónu, en annan sakarkostnað leiddi ekki af meðferð málsins.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

Ákærði, Sigurður Hilmar Hansen, sæti fangelsi í 90 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti í fimm ár frá birtingu dómsins að telja.

Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 3,71 g af amfetamíni, 1 stk. MDMA og 3,44 g af maríhúana-kannabis.

Ákærði greiði 1.200.571 krónu í sakarkostnað.

 

Ingimundur Einarsson