• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Umferðarlagabrot
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 17. október 2018 í máli nr. S-244/2018:

 

Ákæruvaldið

(Auðbjörg Lísa Gústafsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Brynjari Helga Guðmundssyni

(Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður)

 

          Mál þetta, sem var tekið til dóms 19. september 2018 höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með ákæru 22. maí 2018 á hendur Brynjari Helga Guðmundssyni, kt. 000000-0000, [...]: ,,Fyrir eftirfarandi brot:

I.

Umferðarlagabrot með því að hafa:

1.      Að kvöldi þriðjudagsins 11. júlí 2017 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökuréttindum um Vesturberg í Reykjavík, þar sem lögregla hafði afskipti af honum á móts við hús nr. [...]

2.      Sunnudaginn 6. ágúst 2017 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökuréttindum um Vífilstaðaveg í Garðabæ, þar sem lögregla hafði afskipti af honum.

3.      Mánudaginn 7. ágúst 2017 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökuréttindum suður Fjarðargötu í Hafnarfirði á vegarkafla við Reykjavíkurveg, þar sem lögregla hafði afskipti af honum.

4.      Aðfaranótt laugardagsins 12. ágúst 2017 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökuréttindum um Vesturgötu á Akranesi, þar sem lögregla hafði afskipti af honum framan við hús nr. [...].

5.      Að morgni laugardagsins 12. ágúst 2017 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökuréttindum um Vesturlandsveg á vegarkafla við Fossháls í Reykjavík, þar sem lögregla hafði afskipti af honum.

6.      Að morgni laugardagsins 24. ágúst 2017 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökuréttindum, án skráningarmerkja og án lögboðinnar vátryggingar suður Vesturlandsveg, þar sem lögregla hafði afskipti af honum á móts við Korpu.

            Teljast brot þessi varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og brot skv. ákærukafla I.6 einnig við 1. mgr. 63. gr. og 1. mgr. 93. gr. sömu laga.

II.

            Þriðjudaginn 18. júlí 2017, í verslun Elko, Skógarlind 2 í Kópavogi, stolið Sandström bílhleðslutæki að verðmæti kr. 3.495 og „bluetooth“ heyrnartólum að verðmæti kr. 14.995, allt samtals að verðmæti kr. 18.490.

            Telst brot þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

            Þann 19. september 2018 var mál nr. S-372/2018 sameinað máli þessu þessu, sbr. heimild í 1. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Málið höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með ákæru útgefinni 14. ágúst 2018:

            ,,fyrir eftirfarandi brot:

I.

            Þjófnað í félagi við ónafngreindan aðila með því að hafa, miðvikudaginn 28. febrúar 2018, í verslun Elko, Skógarlind 2 í Kópavogi, stolið einni talstöð og þremur ferðahleðslutækjum, allt samtals að verðmæti kr. 23.980.

            Telst brot þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

            Umferðarlagabrot með því að hafa,  mánudaginn  4. júní 2018 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökuréttindum um Reykjanesbraut við álverið í Straumsvík í Hafnarfirði uns lögregla stöðvaði aksturinn á móts við [...].

            Telst brot þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

            Af hálfu ákærða er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá gerir verjandi ákærða kröfu um hæfilega þóknun sér til handa.

 

            Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið þau brot sem honum eru gefin að sök og var farið með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig í stuttu máli um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við framlögð sakargögn, að hann hafi gerst sekur um þau brot sem honum eru gefin að sök og eru þau réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákærum. Ákærði hefur því unnið sér til refsingar.

            Ákærði er fæddur [...] og á samkvæmt framlögðu sakavottorði að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 2013. Ákærði gekkst undir tvær sáttir hjá lögreglustjóra 24. júní 2013 og var þá annars vegar gerð 50.000 króna sekt vegna brots gegn lögum um ávana- og fíkniefni og hins vegar 140.000 króna sekt vegna ölvunaraksturs, auk þess sem ákærði var sviptur ökurétti í tólf mánuði. Ákærði var dæmdur til greiðslu sektar að fjárhæð 38.000 krónur með dómi Héraðsdóms Reykjaness 10. janúar 2014 fyrir fíkniefnalagabrot. Ákærði var dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, og var gert að greiða 200.000 krónur í sekt, auk þess sem ákærði sviptur ökurétti í tvö ár með dómi Héraðsdóms Reykjaness 9. október 2014 fyrir þjófnað, akstur sviptur ökurétti og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, en með dómnum var ákærði jafnframt sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 12. febrúar 2015 var ákærði dæmdur í tveggja mánaða fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt fyrir akstur bifreiðar sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Með dómnum var ákærði jafnframt sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot. Ákærði var dæmdur í 75 daga fangelsi og ævilöng ökuréttarsvipting hans var áréttuð með dómi Héraðsdóms Reykjaness 27. júlí 2015 fyrir að aka bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana- og fíkniefna, en með sama dómi var ákærði jafnframt sakfelldur fyrir þjófnað. Umferðarlagabrotið framdi ákærði 1. janúar 2015, eða fyrir uppkvaðningu áðurnefnds dóms frá 12. febrúar 2015, og var honum því gerður hegningarauki að því leyti samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 4. mars 2016 var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir þjófnað.

            Ákærði hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir að hafa í sjö skipti ekið bifreið sviptur ökurétti, þar af í eitt skipti án skráningarmerkja og án lögboðinnar vátryggingar. Þá hefur ákærði verið sakfelldur fyrir tvö þjófnaðarbrot sbr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar þykir mega líta til þess að ekki var um að tefla mikil verðmæti. Þá horfir skýlaus játning ákærða honum til málsbóta. Að framangreindum sakaferli og að brotum ákærða virtum, sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fimm mánaða fangelsi.

            Samkvæmt 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærða gert að greiða sakarkostnað málsins, sem er þóknun skipaðs verjanda hans, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, sem þykir með hliðsjón af umfangi málsins hæfilega ákveðin 210.800 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

            Ákærði, Brynjar Helgi Guðmundsson, sæti fangelsi í fimm mánuði.

            Ákærði greiði 210.800 krónur í sakarkostnað, sem er þóknun skipaðs verjanda hans, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns.

 

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir