• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fangelsi
  • Skilorð
  • Umferðarlagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness 21. mars 2019 í máli nr. S-36/2019:

Ákæruvaldið

(Einar E. Laxness aðstoðarsaksóknari)

gegn

Genri Aslajevas

 

 

            Mál þetta, sem dómtekið var þann 7. mars 2019, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 22. janúar 2019 á hendur:

 

„Genri  Aslajevas, kt. 000000-0000, Kirkjuvegi 4, Hafnarfirði,

 

fyrir eftirtalin brot  framin  á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2018:

 

1. Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 22. október ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 2,43 ‰) og án þess að  hafa ökuskírteini meðferðis, vestur Arnarnesveg síðan Smárahvammsveg og inn Hlíðarsmára í Kópavogi, þar sem akstri lauk.

M. 007-2018-71778

 

Telst brot þetta varða við  1.,  sbr. 3. mgr., 45. gr. og 1. mgr. 48. gr.,  allt  sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.

 

2. Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa sunnudaginn 28. október ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum áfengis og fíkniefna óhæfur til að stjórna henni örugglega (í blóði mældist vínandamagn 1,65‰ og tetrahýdrókannabínól 3,0 ng/ml), án þess að hafa meðferðis ökuskírteini og haft of stutt bil á milli bifreiða, vestur Höfðabakka í Reykjavík aðrein frá Vesturlandsvegi, með þeim afleiðingum að bifreiðin keyrði aftan á bifreiðina AY-U25, þar sem akstri lauk.

M.  007-2018-73120

 

Telst brot þetta varða við 3. mgr. 14. gr., 1., sbr. 3. mgr. 45.,  1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a, og  1. mgr. 48. gr., allt  sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.

 

3.  Fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 4. nóvember 2018 ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum fíkniefna óhæfur til að stjórna henni örugglega (í blóði mældist kókaín 150 ng/ml, MDMA 295 ng/ml, metamfetamín 40 ng/ml, og tetrahýdrókannabínól 6,8 ng/ml) og án þess að hafa meðferðis ökuskírteini, austur Suðurlandsbraut í Reykjavík, á mót við hús nr. 6 við Rofabæ,  þar sem lögregla stöðvaði aksturinn, jafnframt á sama tíma haft í vörslum sínum 0,68 g af kókaíni, sem lögregla fann eftir leit. 

M.  007-2018-75072

 

Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a, og  1. mgr. 48. gr., allt  sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 við 2., sbr. 4. og 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni  nr. 65/1974.

 

4. Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 12. nóvember 2018 ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum áfengis og fíkniefna óhæfur til að stjórna henni örugglega (í blóði mældist vínandamagn 2,02 ‰ og  tetrahýdrókannabínól 1,9  ng/ml) og án þess að hafa meðferðis ökuskírteini, austur Bæjarháls í Reykjavík við Rofabæ, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn. 

M.  007-2018-77425

 

Telst brot þetta varða við 1., sbr. 3. mgr. 45., 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a, og  1. mgr. 48. gr., allt  sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44, 1993 og 18. gr. laga nr. 66, 2006 og að 0,68 g af kókaíni , sem lagt var hald á, verði gert upptækt samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“

Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins 7. mars sl. og boðaði ekki forföll en í fyrirkalli sem birt var á lögheimili ákærða var tekið fram að yrði ekki sótt þing af hans hálfu mætti hann búast við því að fjarvist hans yrði metin til jafns við það að hann viðurkenndi að hafa framið þau brot sem hann væri ákærður fyrir og að dómur yrði lagður á málið að honum fjarstöddum, sbr. 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Með vísan til ofanritaðs og gagna málsins að öðru leyti telur dómurinn þannig sannað að ákærði hafi framið þau brot sem ákært er út af og eru brot hans réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

Ákærði er fæddur [...]. Samkvæmt sakavottorði hans hefur hann ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi.

Með hliðsjón af öllu hér framangreindu þá er refsing ákærða Genri Aslajevas ákveðin 30 daga fangelsi. En fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði er sviptur ökuréttindum í 4 ár og 9 mánuði frá birtingu dóms að telja.

Fíkniefni verða gerð upptæk eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði.

Ákærði greiði 440.165 krónur í sakarkostnað.

            Pétur Dam Leifsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                            D ó m s o r ð :

Ákærði, Genri Aslajevas, sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði er sviptur ökurétti í 4 ár og 9 mánuði frá birtingu dóms þessa að telja.

Ákærði sæti upptöku á 0,68 g af kókaíni.

Ákærði greiði 440.165 krónur í sakarkostnað.

 

                                                            Pétur Dam Leifsson