• Lykilorð:
  • Eignaspjöll
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness 10. apríl 2019 í máli nr. S-629/2018:

Ákæruvaldið

(Katrín Hilmarsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

Y

Z

(Jóhannes Albert Kristbjörnsson lögmaður)

Þ

(Brynjólfur Eyvindsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var þann 21. mars síðastliðinn var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dags. 6. desember 2018 á hendur:

 

„Y, kennitala 000000-0000,

[...],

X [...],

Z, kennitala 000000-0000,

[...], og

Þ, kennitala 000000-0000,

[...],

 

fyrir neðangreind hegningarlagabrot aðfaranótt sunnudagsins 8. maí 2016 sem hér greinir:

I.

Á hendur Y og Þ fyrir þjófnað og eignaspjöll, með því að hafa í félagi brotist inn í gróðrarstöðina Glitbrá að [...], Sandgerði, með því að brjóta gler í hurð og á suðurhlið hússins, og stolið þaðan kókómjólk og kexi að óþekktu verðmæti.

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

II.

Á hendur Y og Þ fyrir þjófnað, með því að hafa í félagi brotist inn í áhaldahús Sandgerðisbæjar að [...], Sandgerði, og stolið þaðan slökkvitæki að óþekktu verðmæti.

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga.

 

III.

Á hendur X og Þ fyrir þjófnað og eignaspjöll, með því að hafa í félagi brotist inn í fiskvinnsluna Nesfisk að [...], Garði, með því að brjóta glugga á suðvesturhlið hússins, valdið skemmdum innandyra á tveimur kaffibrúsum, síma, stól, kaffivél, tveimur kæliskápum, tveimur örbylgjuofnum, stjórnborði loftpressu, hurð, stimpilklukku, borði, eldhúsinnréttingu, hitablásara, þvottavél, skáp, hillu, rafmagnstöflu og búsáhöldum, en áætlað tjón af eignaspjöllunum nam yfir 1,5 milljón króna, og með því að hafa stolið þaðan exi og mótorhjólahjálmi að óþekktu verðmæti.

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. og 2. mgr., sbr. 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga.

 

IV.

Á hendur X, Z og Þ fyrir tilraun til þjófnaðar með því að hafa í félagi brotist inn í áhaldaskúr Sandgerðisbæjar við [...], Sandgerði, í því skyni að stela þaðan bensíni, og að auki á hendur X fyrir brennu og eignaspjöll með því að hafa hellt bensíni á tjalddúk sem geymdur var í skúrnum, borið eld að og valdið með því eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu og yfirgripsmikla eyðingu á eignum Sandgerðisbæjar, en áhaldaskúrinn og allir þeir munir sem í honum voru geymdir eyðilögðust og nam áætlað tjón af brunanum tæpum 20 milljónum króna.

Telst háttsemi ákærðu allra varða við 1. mgr. 244. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga og háttsemi X að auki við 2. mgr., sbr. 1. mgr. 164. gr. og 2. mgr., sbr. 1. mgr. 257. gr. sömu laga.“

           

Við þingfestingu málsins, þann 11. febrúar sl., þá játaði ákærði Y brot sín samkvæmt ákæruliðum I-II og ákærði Z játaði þá brot sín samkvæmt ákærulið IV. Ákærði X játaði þá einungis innbrot varðandi ákærulið III, en neitar þjófnaði, en varðandi ákærulið IV kvaðst hann viðurkenna tilraun til þjófnaðar en neitaði því að hafa orðið valdur að brennu og eignarspjöllum. Í þinghaldi 21. mars sl. játaði síðan ákærði Þ þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.

            Í ljósi framangreinds, það er þess að allir hinir ákærðu utan X höfðu þá játað skýlaust þau brot sem lýst er á hendur þeim í ákæru, þá ákvað dómari að með vísan til 2. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 að skilja málið í sundur, þannig að þáttur X yrði dæmdur sérstaklega, og fékk mál hans þá númerið S-232/19, og sætti þessi háttur við áframhaldandi meðferð máls ekki andmælum af hálfu málsaðila.

            Með því að hinir ákærðu er eftir standa þá í málinu, þeir Y, Z og Þ, hafa því allir játað brot sín í ákæru skýlaust og dómari telur ekki ástæður til að draga játningar þeirra í efa, um að þær séu sannleikanum samkvæmar, er ákveðið að fara með mál þeirra samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála og var það því tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjendum og ákærðu hafði verið gefin kostur á því að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar að jöfnu. Af hálfu ákærðu er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa auk þess sem skipaðir verjendur krefjast málsvarnarlauna sér til handa.

            Ákærði Þ hefur skýlaust játað brot sín, sbr. ákæruliðir I, II, III og IV. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Ákærði Þ er fæddur í [...] og hefur samkvæmt sakarvottorði, dags. 3. desember 2018, til þessa ekki gerst sekur um nein afbrot.

            Fyrir liggur að ákærði Þ á hlut að máli í brotum sem lýst er í öllum framangreindum liðum ákæru. Samkvæmt framansögðu þykir hæfileg refsing ákærða Þ fyrir umrædd brot hans vera fangelsi í 5 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Þá verður Þ dæmdur til að greiða hluta sakarkostnaðar sem og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, eins og í dómsorði greinir.

Ákærði Y hefur skýlaust játað brot sín, sbr. ákæruliðir I og II. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Ákærði Y er fæddur í [...] og hefur samkvæmt sakarvottorði, dags. 3. desember 2018, til þessa ekki gerst sekur um nein afbrot.

Fyrir liggur að af hálfu ákæruvaldsins er með hliðsjón af ungum aldri ákærða Y, skýlausri játningu hans og hreinum sakarferli, lagt til að honum verði nú aðeins gerð refsing í formi fésektar. Samkvæmt framansögðu þá þykir hæfileg refsing ákærða Y fyrir umrædd brot hans vera hæfilega ákveðin sekt að fjárhæð 250.000 krónur, sem renni til ríkissjóðs og greiðist innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en ákærði sæti ella vararefsingu fangelsi í 18 daga. Þá verður Y og dæmdur til þess að greiða tiltekinn hluta sakarkostnaðar eins og í dómsorði greinir.

Ákærði Z hefur skýlaust játað brot sitt, sbr. ákæruliður IV. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Ákærði Z er fæddur í [...] og hefur hann samkvæmt sakarvottorði, dags. 3. desember 2018, til þessa ekki gerst sekur nein um afbrot.

Fyrir liggur að af hálfu ákæruvaldsins er með hliðsjón af ungum aldri ákærða Z, skýlausri játningu hans sem og hreinum sakarferli, auk takmarkaðs hlutar hans í því broti sem hann hefur þó gerst sekur um, fallist á þau sjónarmið verjanda hans að ákærða verði að sinni ekki gerð sérstök refsing, sbr. 2. og 5. töluliður 1. mgr. 74. gr. alm. hgl. Er af hálfu dómsins fallist á þessi sjónarmið hvað ákærða varðar, en honum verður þó gert að greiða tiltekinn hluta sakarkostnaðar sem og einnig málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, eins og hér í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Katrín Hilmarsdóttir saksóknarfulltrúi.

 

            Pétur Dam Leifsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                            D ó m s o r ð :

            Ákærði, Þ, sæti fangelsi í 5 mánuði, en fresta skal þó fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærði Þ greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns Brynjólfs Eyvindssonar lögmanns, 150.000 krónur og 28.529 krónur í annan sakarkostnað.

            Ákærði, Y, greiði sekt að fjárhæð 250.000 krónur, sem renni til ríkissjóðs og greiðist innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en ákærði sæti ella sem vararefsingu fangelsi í 18 daga.

            Ákærði Y greiði einnig 28.528 krónur í sakarkostnað.

            Frestað er ákvörðun refsingar varðandi Z og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði Z greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Alberts Kristbjörnssonar lögmanns, 150.000 krónur, auk 28.528 króna vegna annars sakarkostnaðar.

                                                            Pétur Dam Leifsson