• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Ærumeiðingar

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness 10. apríl 2019 í máli nr. S-632/2018:

Ákæruvaldið

(Súsanna Björg Fróðadóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Jóhannes Albert Kristbjörnsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var þann 4. apríl sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 6. febrúar 2018 á hendur:

 

„X, kt. 000000-0000

[...]

I. 

fyrir eftirgreind hegningarlagabrot gagnvart eiginkonu sinni, A, kt. 000000-0000, framin á árinu 2017, sem hér greinir:

 

  1. Fyrir líkamsárás, gagnvart A með því að hafa, þann 7. janúar 2017, á heimili þeirra [...], kýlt hana nokkrum höggum með krepptum hnefa í andlit og rifið í hár hennar, þannig að hún flúði út á svalir sem eru á þriðju hæð og hékk þar þar til að nágranni á hæðinni fyrir neðan greip hana og kippti henni inn á sínar svalir. Afleiðingar A af þessu eru að hún hlaut bólgur og hruflur við hægra auga og mjög bólgið hægra hné.

 

Telst þetta varða við 217. gr.almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

  1. Fyrir stórfelldar ærumeiðingar, með því að hafa með þeirri háttsemi sem lýst er í ákærulið 1 ítrekað móðgað og smánað A

 

Telst þetta varða við 233. gr. b. almennra hegningarlaga nr 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

            Verjandi ákærða, er neitar sök samkvæmt ákæru, krefst sýknu, en verði ákærði sakfelldur þá krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

 

I.

Í frumskýrslu lögreglu, dags. 7. janúar 2017, er því lýst að brotaþoli, A, hafi komið á lögreglustöðina á Hringbraut í Reykjanesbæ um kl. 21.20. hafi hún þá verið grátandi og greinilega mikið niðri fyrir. Erfiðlega hafi gengið að skilja hana þar sem hún tali takmarkaða íslensku. Kvaðst hún hafa orðið fyrir líkamsárás af hendi eiginmanns hennar, ákærða X, en hann hafi verið mjög ógnandi og ráðist á hana með höggum. Hafi hún náð að flýja út um svalir á 3. hæð í íbúð þeirra en einhver á hæð fyrir neðan hafi þá gripið um fætur hennar og aðstoðað hana á milli hæða. Þetta hafi ekki verið í fyrsta sinn sem ákærði beitti hana ofbeldi. Brotaþoli kvaðst vilja kæra ákærða og hún því næst færð á HSS til skoðunar.

Í rannsóknarskýrslu lögreglu, dags. 13. nóvember 2018, er því lýst að brotaþoli hafi komið á stöð lögreglu á Suðurnesjum 7. janúar 2017 og tilkynnt um líkamsárás sem hún hefði orðið fyrir af hendi eiginmanns hennar, ákærða þá fyrr um kvöldið að heimili þeirra að [...]. Er þar haft eftir brotaþola að ákærði hafi verið mjög ógnandi og ráðist á hana með höggum. Brotaþoli hafi náð að flýja út um svalir á heimili sínu á 3. hæð. Nágranni á hæðinni fyrir neðan hafi þá gripið um fætur hennar og hjálpað henni að komast milli hæða. Eftir að lögreglu barst síðan tilkynning um líkamsárás og heimilisofbeldi í húsinu fór hún á vettvang með lykla brotaþola og hitti þar nágrannann, vitnið B er kvaðst hafa gripið brotaþola á svölunum, en því næst fór lögregla inn í íbúð brotaþola og handtök ákærða í þágu rannsóknar málsins. 

Skýrsla var tekin af brotaþola hjá lögreglu daginn eftir, 8. janúar 2018. Kvaðst hún hafa farið að heiman upp úr hádegi en þegar hún snéri heim hafi ákærði verið að drekka áfengi og hann síðan verið ógnandi, kýlt hana í höfuðið og rifið í hár hennar. Hún hafi þá flúið út á svalir og reynt að loka svalahurðinni á eftir sér en ákærði komið á eftir henni. Hafi hún þá orðið hrædd við hann og því klifrað upp á svalahandrið en kvaðst ekki viss um hvort hún hafi klifrað fram af svölunum eða ákærði hrint henni. Hafi hún síðan hangið utan á svalahandriðinu þar til nágranni á hæð fyrir neðan hafi aðstoðað hana inn á hans svalir. Við skýrslutöku hjá rannsóknardeild sama dag bar brotaþoli einnig um það að ákærði hefði umræddan dag verið með læti, hlustandi á tónlist og kallað hana illum nöfnum. Hafi þetta ágerst eftir að hún snéri heim á ný og hún þá hótað að fara út ef ákærði myndi ekki láta af þessu. Hafi ákærði þá reiðst og byrjað að lemja hana. Hún hafi komist undan og út á svalir en ákærði komið á eftir og náð taki á jakka hennar. Hún hafi þá farið yfir handriðið án þess að geta skýrt það frekar en verið hjálpað af nágranna á hæð fyrir neðan að komast inn á þær svalir. Kvað hún ákærða hafa kýlt sig nokkrum sinnum þá um kvöldið í andlitið með krepptum hnefa.

Skýrsla var tekin af ákærða hjá rannsóknardeild lögreglu þann 8. janúar 2017 eftir að hann hafði verið handtekinn og vistaður í fangaklefa. Er þar haft eftir ákærða að brotaþoli hafi verið að heiman í umrætt sinn en eftir að hún hafi snúið heim á ný hafi þeim orðið sundurorða og hún kallað hann öllum illum nöfnum. Síðan hafi hún farið út á svalir og ætlað að hoppa fram af og hann þá farið á eftir henni. Hún hafi þá farið fram af svölunum og hangið með andlitið að svölunum. Hann hafi þá gripið í hendur hennar og slakað henni niður þar sem nágranninn niðri var kominn út og til hjálpa henni inn á þær svalir. Hann kvaðst síðan hafa verið inni hjá sér þar til lögregla hafi komið og handtekið hann. Ákærði kvaðst fyrir lögreglu kannast við að þau hjón væru oft að rífast en hann hafi ekki beitt hana líkamlegu eða andlegu ofbeldi. Sjáanlegir áverkar á brotaþola hafi ekki verið eftir hann heldur hafi hún getað hlotið þá þegar hún hafi klifrað og hangið fram af svölunum. Ákærði játaði að hafa neitt áfengis í umrætt sinn en hann hafi ekki slegið til brotaþola né heldur hótað henni.

Tekin var skýrsla hjá rannsóknardeild lögreglu þann 13. nóvember 2018 af vitninu B. Hann hafi verið heima með fjölskyldu sinni þegar hann hafi heyrt öskur líkt og verið væri að meiða einhvern. Hann hafi þá litið út og séð brotaþola hanga niður af svölunum fyrir ofan. Hann hafi þá komið út og litið upp og séð þar ákærða á svölunum en hann hafi þá dregið sig til baka inn í íbúð sína. Kvaðst vitnið hafa gripið um fætur brotaþola og náð henni niður á svalirnar. Hún hafi þá ekki viljað hringja í lögreglu en haldið um mjöðm eða rifbein og sagt nei í sífellu. Hún hafi sýnilega verið í miklu uppnámi en síðan farið út úr íbúðinni. Nokkru síðar hafi ákærði komið og spurt vitnið um hvað brotaþoli væri eða hvert hún hefði farið. Vitnið hafi þá tjáð ákærða að brotaþoli væri farin og síðan spurt hann hvað hefði gerst en ákærði þá sagt að brotaþoli væri veik. Vitninu hafi þótt ákærði vera reiður og ógnandi. Ákærði hafi síðan komið aftur og þeir vitnið hafi þá ræðst við á stigaganginum og ákærði þá haft höndina innanklæða undir órenndri peysu og þá tjáð vitninu að hann ætti að passa sig. Ákærði hafi síðan verið kominn aftur inn í íbúð sína þegar lögreglan hafi komið. Vitnið kvaðst síðan hafa rætt við brotaþola um viku síðar og hún þá þakkað honum fyrir og tjáð honum að ákærði hefði drukkið og hagað sér eins og aldrei áður en hann væri nú kominn í meðferð og þetta færi batnandi. Vitnið kvaðst síðan enn hafa hitt brotaþola um viku eftir það samtal og hún þá sagst eiginlega ekkert muna eftir þessu. 

Meðal gagna málsins er læknisvottorð C, dags. 24. júní 2018, þar sem lýst er skoðun C læknis á brotaþola við komu á HSS. Er þar lagt til grundvallar að eiginmaður brotaþola hafi ráðist á hana með höggum, hún kastað sér fram af þriðju hæð, lent á svölum 2. hæðar og sé afar bólgin á hægra hné og eigi erfitt með að stíga í fótinn. Við skoðun greinist bólga og hrufla við hægra auga og mjög bólgið hægra hné, en brot greindist ekki við skoðun. 

Í málinu liggur einnig fyrir að brotaþoli hafi farið fram á brottvísun ákærða af heimili og nálgunarbann gagnvart honum, sbr. a.-b. liður 1. mgr. 4. gr., sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 85/2011, en ákærði hafi neitað að gera tímabundinn samning í þá veru. Liggur fyrir að lögreglustjóri varð við því með vísan til þessa atviks og annars þann 27. desember 2016, sbr. fyrirliggjandi ákvörðun birt ákærða þann 8. janúar 2017. Vísast varðandi þennan þátt málsins enn fremur til úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness í máli R-[...] þar sem umrædd ákvörðun um brottvísun ákærða af heimili frá 5. febrúar 2017 var staðfest og enn fremur nálgunarbann hans til 3. júlí 2017. 

 

II.

Ákærði kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Aðspurður lýsti ákærði atvikum svo að þau hjón hafi verið að rífast í umrætt sinn en hann ekki lagt hendur á brotaþola og hún þá ekki hlotið áverka. Hún hafi hlaupið út á svalir og ætlað að stökkva niður en hann farið á eftir og gripið í jakka hennar og hönd og haldið henni þannig í nokkra stund áður en nágranni á neðri hæð hafi komið og togað hana inn á svalir hjá honum. Brotaþoli hafi síðan verið farin en lögreglan komið og handtekið hann. Brotaþoli sé eiginkona hans. Ákærði kvaðst hafa drukkið nokkra bjóra umræddan dag og þeim brotaþola orðið sundurorða en man þó ekki hvers vegna. Ekki hafi komið til átaka. Ákærði kvað ekki rétt að hann hafi gripið í hár brotaþola og slegið hana. Hann kvaðst ekki geta útskýrt af hverju brotaþoli hefði afráðið að hlaupa út á svalir og stökkva niður. Hún hafi, eftir að hann hafi náð taki á henni, hrópað á hann að sleppa henni ekki. Kvaðst ákærði ekki vita við hvað hún hafi verið hrædd. Svona hafi aldrei gerst áður. Ákærði kvaðst ekki vita hví brotaþoli hafi farið á lögreglustöð. Hann kvaðst ekki kannast við að hafa rifið í hár brotaþola og kýlt hana í andlit, það væri ekki rétt. Ákærði kvaðst hafa óttast að brotaþoli kynni að slasa sig þegar hún hafi farið fram af svalahandriðinu og þess vegna reynt að bjarga henni. Þá taldi ákærði að þeir minniháttar áverkar í andliti og bólga í hné hljóti að hafa orðið til þegar brotaþoli hafi hangið utan á svölunum. Daginn eftir hafi dóttir þeirra hjóna borið um að engir áverkar hafi verið á andliti brotaþola. Þau hjón búi nú saman á ný eftir að honum hafi verið vísað af heimilinu í sjö mánuði.  Ákærði kvaðst hafa sleppt brotaþola yfir svölunum þegar nágranninn hafi náð taki á henni og sagt honum að sleppa takinu.

Brotaþoli kom fyrir dóminn og gaf skýrslu í málinu og naut hún til þess eftir atvikum aðstoðar D túlks. Brotaþoli lýsti því að hún hefði áður greint frá því að hún vildi ekki kæra ákærða og vildi taka þetta mál allt til baka, en sér þá verið tjáð að það væri ekki mögulegt. Ákærði hafi í umrætt sinn verið aðeins drukkinn og þau tvö verið búin að rífast mikið. Hún hafi ekki greint rétt frá atvikum en verið æst og þetta verið erfiður tími fyrir þau bæði. Brotaþoli kvaðst vilja taka þetta allt til baka eins og hún orðaði það. Aðspurð kvaðst brotaþoli ekki hafa áhuga á því að rifja frekar upp umrædda atburði en þau ákærði hefðu lært af mistökum sínum og þetta hafi verið afar erfiður tími fyrir þau, en hún kvaðst ekki vilja tjá sig frekar um málið.

Vitnið, E fyrrum lögreglumaður, kom fyrir dóminn og staðfesti þar frumskýrslu lögreglu, dags. 7. janúar 2017, sem hann hafi ritað. Hann kvaðst hafa verið á lögregluvarðstofunni á Hringbraut í Reykjanesbæ þegar brotaþoli hafi komið þangað. Kvaðst vitnið muna að erfitt hafi verið að skilja brotaþola og aðspurður kvaðst hann muna að hún hafi verið í uppnámi. Vitnið kvaðst hafa unnið í lögreglu í 25 ár og að ekki væri algengt að brotaþolar heimilisofbeldis kæmu þannig sjálfir á lögreglustöð til að kæra. Vitnið kvaðst að öðru leyti sjálfur ekki hafa verið vitni af þeim meintu atvikum sem ákæra snýr að í málinu.

Vitnið, F lögreglumaður, kom fyrir dóminn. Vitnið lýsti þeirri aðkomu sinni að hann hafi, eftir að brotaþoli hafi komið á lögreglustöðina, farið með hana til skoðunar á sjúkrahúsi HSS og hann síðan í framhaldi af því tekið af henni upplýsingaskýrslu. Vitnið kvaðst muna það að brotaþoli hafi talað óskýra íslensku og verið hrædd og í uppnámi og því verið erfitt að fá greinargóðan framburð. Staðfesti vitnið umrædda upplýsingaskýrslu sína sem hann gerði, dags. 8. janúar 2017. Vitnið kvaðst ekki hafa farið á vettvang umrætt kvöld né hafi hann verið vitni að þeim atburðum er ákærða væri gefið að sök það er líkamsárás eða móðgunum. Aðspurður kvaðst vitnið muna eftir tungumálaerfiðleikum við umrædda skýrslutöku.

Vitnið C læknir gaf skýrslu um síma og kvaðst muna eftir því að hafa tekið á móti brotaþola á sjúkrahúsi HSS þann 7. janúar 2017. Kvaðst vitið muna það að brotaþoli hafi komið í fylgd lögreglu og virst þögul og hrædd. Eftir skoðun hans og samtöl hafi komið í ljós að brotaþoli hafi verið beitt einhverju ofbeldi á heimili sínu. Fyrst í stað hafi hún ekki viljað tala en síðar greint frá því að eiginmaður hennar hafi neytt áfengis og orðið viðskotaillur og ráðist að henni. Hún hafi þá ekki séð sér annan kost en að kasta sér fram af svölum sem hafi verið á 3. hæð. Miðað við skoðun hafi hún slengst utan í svalirnar og svo lent á jörðinni og hún verið verulega bólgin á hægra hné og vart getað stigið í fótinn auk þess sem hún hafi verið eitthvað hrufluð við hægra gagnauga. Myndir hafi verið teknar af hægra fæti sem ekki hafi þó sýnt beinbrot. Vitnið kvaðst muna hversu hrædd brotaþoli hafi verið og í áfalli og að hún hafi lýst því fyrir honum að hún hafi óttast um líf sitt og þess vegna kastað sér fram af svölunum. Vitnið staðfesti aðspurður að læknanótur sínar lægju fyrirliggjandi læknaskýrslu í málinu til grundvallar. Vitnið kvaðst alls ekki geta útilokað það að umræddir áverkar brotaþola og þar á meðal á gagnauga hafi stafað af falli af svölunum. Vitnið lýsti því að ekki hafi verið gerð athugun á brotaþola með tilliti til sjálfsvígshættu, en brotaþoli hafi tekið skýrt fram að það hafi verið vandamál heima fyrir og að ráðist hafi verið á hana, þannig að hún hafi ekki verið ein og kastað sér fram af svölum, en þetta hafi verið hennar lýsing á atburðum. Vitnið lýsti því að brotaþoli hefði fyrst verið þögul en síðan brotnað niður og sagt honum frá árás. Brotaþoli hafi þá lýst því skýrt og greinilega að eiginmaður hennar hafi ráðist á hana og upplifun vitnisins verið sú að brotaþoli hafi verið mjög hrædd.  

Vitnið B gaf skýrslu. Aðspurður lýsti vitnið því fyrir dómi að hann og kona hans hafi verið að svæfa börn þeirra í svefnherbergi þegar kona hans hefði heyrt öskur og farið fram í stofu þar sem svalirnar séu. Þar hafi hún séð fætur standa niður og kallað á vitnið sem hafi þá komið að og farið út á svalir og tekið um fæturna til þess að reyna að lyfta þeim upp. Brotaþoli hafi þá hangið utan í handriði á svölunum. Þá hafi vitnið beðið konu sína að koma með stól sem hún hafi gert og af honum hafi vitnið reynt að ýta brotaþola upp sem ekki hafi gengið og hann þá togað hana inn á svalirnar hjá sér. Brotaþoli hafi þá sest niður á stólinn og haldið um síðuna og sagt að hún fyndi til verkja. Vitnið kvað brotaþola ekki hafa dottið þarna á svölunum. Vitnið hafi þá viljað spyrja brotaþola hvað hafi gerst en hún þá aðeins svarað með því að segja ítrekað nei. Vitninu þótti brotaþoli hafa verið í miklu uppnámi. Þegar vitnið hafi svo litið upp hafi hann séð ákærða draga sig til baka. Þá hafi þau farið inn og vitnið þá sagt konu sinni að hringja yrði á lögreglu en þá hafi brotaþoli farið úr íbúðinni. Vitnið hafi fylgt henni eftir en misst sjónar á henni. Þá hafi þau ákveðið að hringja í eiganda íbúðarinnar og hún hringt í umsjónarmann og sá hringt í lögreglu. Þá hafi síðan ákærði komið og spurt vitnið hvar brotaþoli væri. Vitnið hafi þá spurt ákærða hvað hefði gerst en ákærði þá sagt að brotþoli væri veik og hann síðan farið. Eftir um 10-15 mínútur hafi ákærði svo komið aftur og bankað að dyrum og þá verið með aðra höndina innan klæða. Vitnið hafi þá orðið nokkuð áhyggjufullur og farið fram á gang og lokað dyrum að íbúðinni. Ákærði hafi þá ítrekað spurt um hvar brotaþoli væri og vitnið þá tjáð honum að hún hefði verið þar en farið þaðan. Hafi ákærði þá sagt við vitnið að hann ætti að vera svolítið varkárari. Vitnið hafi þá spurt hvað hann ætti við og ákærði þá sagt að þeir Pólverjar ættu að reyna að lifa saman í sátt og samlyndi. Aðspurður kvaðst vitnið þá hafa haft nokkurn beyg af ákærða. Þá hafi umsjónarmaðurinn komið í húsið og síðan eigandi hússins og þeir staðið þar niðri í gangi og spurt hvort allt væri í lagi og vitnið þá tjáð þeim að svo væri ekki og vísaði þar til ákærða er þar var. Vitninu hafi þá fundist ákærði vera ógnandi í fasi en ákærði síðan farið inn til sín en af honum hafi verið megn áfengisþefur. Eigandinn og umsjónarmaðurinn hafi þá sagt að best væri að láta lögregluna ræða við ákærða. Lögreglan hafi síðan komið og fengið hjá sér upplýsingar en síðan farið inn í íbúð ákærða og fært hann út þaðan. Vitnið tjáði að eiginkona hans hafi eftir þetta ekki talið sig örugga í húsinu. Aðspurður taldi vitnið að brotaþoli hafi verið í uppnámi og hædd í umrætt sinn en lítið viljað tjá sig. Þá kvaðst vitnið ekki hafa séð ákærða kýla brotaþola í andlitið né toga í hár hennar. Enn fremur kvaðst vitnið ekki muna eftir viðlíka áberandi hávaðalátum í húsinu áður. 

 

III.

Ákærða er gefið að sök, líkamsárás og ærumeiðingar í garð brotaþola, eins og nánar er lýst í ákæru. Ákærði neitar hins vegar sök í málinu varðandi báða ákæruliði.

Svo sem rakið er að framansögðu og með vísan til fyrirliggjandi gagna málsins þá hefur ákærði, bæði fyrir lögreglu sem og hér fyrir dómi, staðfastlega neitað því að hafa viðhaft þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákærulið I, það er að hafa kýlt brotaþola nokkrum höggum með krepptum hnefa í andlit og rifið í hár hennar, sem síðan hafi leitt til þess að hún hafi afráðið að hlaupa út á svalir í búð þeirra á 3. hæð og farið þar yfir handriðið þar sem að nágranni aðstoðaði hana svo við að komast niður.  Þá neitar ákærði sök varðandi ákærulið II, sem að öðru leyti er lítt studdur gögnum.

Fyrir liggur í málinu að brotaþoli gaf skýrslu hér fyrir dómi þar sem hún lýsti því yfir að hún hafi til þessa ekki greint rétt frá atvikum málsins þar sem þau ákærði hafi verið að rífast í umrætt sinn og hún því viljað draga kæru til lögreglu í málinu til baka. Liggur og fyrir að engir aðrir en brotaþoli og ákærði voru sjónarvottar að því er gerðist í íbúð þeirra áður en brotaþoli hleypur út á svalirnar og fer þar yfir handriðið. Vitnisburðir annarra í málinu byggja síðan alfarið á því hvað brotaþoli tjáði þeim um málsatvik umræddan dag, 7. janúar 2017, sem að hún segir nú ekki rétt vera. Er ákæra í málinu heldur ekki studd öðrum haldbærum gögnum þar sem að ekki verður með líkum staðreynt að framangreindir áverkar ákærðu, meiðsli á fæti og lítilsháttar bólga á gagnauga, hafi ekki komið til þegar hún fer yfir handriðið á svölunum, sem lýst er.      

Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála þá hvílir á ákæruvaldinu sönnunarbyrði um sekt ákærða og um atvik sem telja má honum í óhag. Í 1. mgr. 109. gr. laganna er einnig kveðið á um það að dómari meti hverju sinni hvort nægileg sönnun sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða, vitnisburður annarra og sýnileg sönnunargögn hafi.

Með hliðsjón af öllu framangreindu, og þegar gögn málsins hafa verið virt heildstætt, þá er það mat dómsins að ekki liggi fyrir í málinu nægilega sönnun fyrir því að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í málinu. Hefur ákæruvaldið því ekki axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvílir og ber því hér að sýkna ákærða af kröfu ákæruvaldsins, bæði hvað varðar I og II ákærulið í málinu.

Með vísan til 2. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 þá skal allur sakarkostnaður málsins, þar með talin málsvarnarlaun og útlagður kostnaður skipaðs verjanda ákærða að teknu tilliti til virðisaukaskatts, greiddur úr ríkissjóði sem nánar greinir í dómsorði.

Fyrir hönd ákæruvaldsins fór með mál þetta Súsanna Björg Fróðadóttir aðstoðarsaksóknari.

            Pétur Dam Leifsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                            D ó m s o r ð :

 

            Ákærði, X, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

            Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, en þar með talin eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóhannesar Alberts Kristbjörnssonar, 316.000 krónur og útlagður kostnaður verjanda ákærða vegna málsins, alls 80.045 krónur.   

 

                                                            Pétur Dam Leifsson