• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Nytjastuldur
  • Skaðabætur
  • Umferðarlagabrot
  • Upptaka
  • Ökuréttarsvipting

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness mánudaginn 12. febrúar 2018 í máli nr. S-381/2017:

Ákæruvaldið

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

Patreki Snæ Sigurðarsyni

(Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 31. janúar 2018, en endurupptekið 9. febrúar sama ár og þá tekið til dóms á ný, höfðaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum á hendur Patreki Snæ Sigurðarsyni, kt. 000000-0000, Greniteigi 6, Reykjanesbæ, en dvalarstað að Álftatjörn 3, einnig í Reykjanesbæ, með ákæru 23. október 2017, svohljóðandi;

 

fyrir eftirtalin brot;

I.

1.      Nytjastuld, með því að hafa föstudaginn 14. ágúst 2015, í heimildarleysi, notað bifreiðina [...], sem tekin hafði verið ófrjálsri hendi frá bifreiðastæði við Ármúla 2 skömmu áður og ekið henni á ljósastaur við Ármúla 25, Reykjavík.

Mál nr. 007-2015-47353

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

II.

Umferðarlagabrot, með því að hafa:

 

2.    Þriðjudaginn 26. janúar 2016, ekið bifreiðinni [...], óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, (í þvagi fannst tetrahýdrókannabínólsýra) vestur Vatnsnesveg í Keflavík.  

Mál nr. 008-2016-881

3.    Föstudaginn 21. apríl 2017, ekið bifreiðinni [...], óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og  fíkniefna, (í blóði mældist amfetamín 40 ng/ml, MDMA 20 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 6,3 ng/ml) austur Vesturlandsveg og suður Reykjanesbraut í Reykjavík uns aksturinn var stöðvaður sunna við Bústaðarveg.

Mál nr. 007-2017-20582

4.    Sunnudaginn 14. maí 2017, ekið bifreiðinni [...], óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og  fíkniefna, (í blóði mældist amfetamín 330 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 1,0 ng/ml) um Víkurbraut, af Hrannargötu og inn á Hafnarsvæðið við Keflavíkurhöfn, í Keflavík og síðan suður Bakkastíg í Njarðvík, uns aksturinn var stöðvaður. 

Mál nr. 008-2017-7373

5.    Sunnudaginn 18. júní 2017, ekið bifreiðinni [...], undir áhrifum áfengis og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og  fíkniefna, (í blóði mældist vínsandi 1,03 ‰ og kókaín 75 ng og ) vestur Reykjanesbraut í Njarðvík með 145 km/klst., á vegakafla austan við Innri-Njarðvík, þar sem leyfður hámarkshraði var 90 km/klst.

Mál nr. 008-2017-9325.

6.    Miðvikudaginn 12. júlí 2017,  ekið bifreiðinni [...], óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, (í blóði mældist amfetamín 205 ng/ml, MDMA 130 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 0,9 ng/ml) austur Reykjanesbraut við Vogastapa. 

Mál nr. 008-2017-10601

Teljast brot þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, þá telst háttsemi í ákærulið 5 einnig varða við 2. mgr. 37. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006, allt sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 

III.

Fíkniefnalagabrot með því að hafa:

 

7.      Fimmtudaginn 13. júlí 2016, haft í vörslum sínum, 4,72 g af amfetamíni,  sem lögregla fann í vörslum hans þar sem hann var farþegi  í bifreiðinni [...], sem var stöðvuð við Grænásbraut 720, Reykjanesbæ.  

Mál nr. 008-2016-9340

8.    Föstudaginn 21. apríl 2017, haft í vörslum sínum, 1,37 g af maríhúana, sem ákærði framvísaði er lögregla stöðvaði hann við akstur bifreiðinnar [...] á Reykjanesbraut sunnan við Bústaðarveg í Reykjavík

Mál nr. 007-2017-20582

9.      Laugardaginn 15. júlí 2017, haft í vörslum sínum, 4,54 g af maríhúana,  sem lögregla fann við leit á honum við handtöku þar sem hann var inni á veitingastaðnum H-30, Hafnargötu 30 Keflavík.

Mál nr. 008-2017-10745

 

Teljast brot þessi varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og reglugerð nr. 233/2001, um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerð nr. 490/2001, reglugerð nr. 248/2002 og reglugerð nr. 848/2002. 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar, skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006.  Jafnframt að gerð verði upptæk ofangreind fíkniefni, 5,91 g af maríhúana og 4,72 g af amfetamíni, allt samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 10/1997 og 68/2001, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. 

 

Einkaréttarkrafa:

Í málinu gerir A, kt. 000000-0000,  vegna [1. tl. hér að ofan] þá kröfu að ákærða verði gert að greiða kröfuhafa skaðabætur að fjárhæð kr. 300.000, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað, eða hinn 14. ágúst 2015, og þar til mánuður er liðinn frá birtingu krafnanna, en síðan dráttarvexti, sbr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.“

 

II

Ákærði kom fyrir dóminn, játaði sök og samþykkti upptöku tilgreindra fíkniefna. Krafðist hann vægustu refsingar sem lög leyfa. Hann viðurkenndi jafnframt bótaskyldu vegna einkaréttarkröfu A, en lagði fjárhæð skaðabóta í mat dómsins.

Játning ákærða fær stoð í gögnum málsins og er ekki ástæða til að draga í efa að hún sé sannleikanum samkvæm. Samkvæmt því er sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir og er þar rétt heimfærð til refsiákvæða. Með vísan til 164. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, verður dómur lagður á málið án frekari sönnunarfærslu.

Ákærði er fæddur í [...] árið 1999 og hefur samkvæmt sakavottorði ekki áður sætt refsingum. Við ákvörðun refsingar verður til þess horft að ákærði var ungur að árum er hann framdi brot sín og hefur nú skýlaust játað þau fyrir dómi. Þá hefur hann viðurkennt bótaskyldu vegna áðurgreindrar bótakröfu. Er þetta virt ákærða til refsimildunar. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði, sem bundin skal skilorði eins og nánar greinir í dómsorði. Ákærði skal jafnframt sviptur ökurétti í þrjú ár frá birtingu dómsins að telja. Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 verður einnig fallist á upptöku tilgreindra fíkniefna, 5,91 g af maríhúana og 4,72 g af amfetamíni.

Eins og áður segir hefur ákærði viðurkennt bótaábyrgð vegna áðurnefndrar skaðabótakröfu kröfuhafa, en leggur fjárhæð bóta í mat dómara. Krafan er að fjárhæð 300.000 krónur og er vegna tjóns á bifreið kröfuhafa, er ákærði ók henni á ljósastaur við Ármúla 25 í Reykjavík. Að sögn kröfuhafa nemur fjárhæðin verðgildi bifreiðarinnar, en krafan er að öðru leyti ekki studd neinum gögnum. Í málinu liggja þó fyrir ljósmyndir lögreglu af bifreiðinni eftir óhappið og virðist hún mikið skemmd. Þar sem ákærði hefur á hinn bóginn viðurkennt bótaskyldu sína verða bætur til kröfuhafa ákveðnar hæfilegar 150.000 krónur, auk vaxta og dráttarvaxta svo sem nánar greinir í dómsorði. Þar sem ekki verður séð á fyrirkalli hvaða dag það var birt ákærða verður upphafsdagur dráttarvaxta ákveðinn einum mánuði eftir fyrri dómtöku málsins, eða 28. febrúar 2018.

Samkvæmt framlögðu yfirliti nemur sakarkostnaður vegna lögreglurannsókna alls 654.365 krónum. Með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 68. gr. laga nr. 49/2016, verður ákærði dæmdur til greiðslu þeirrar fjárhæðar, auk þóknunar til skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, sem ákveðin er 280.000 krónur. Hefur þá verið tekið tilliti til greiðslu virðisaukaskatts.  

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

Ákærði, Patrekur Snær Sigurðarson, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. 

Ákærði er sviptur ökurétti í þrjú ár frá birtingu dómsins að telja.

Upptæk skulu gerð 5,91 g af maríhúana og 4,72 g af amfetamíni.

Ákærði greiði A 150.000 krónur í skaðabætur, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 14. ágúst 2015 til 28. febrúar 2018, en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 934.365 krónur í sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 280.000 krónur.     

 

Ingimundur Einarsson