• Lykilorð:
  • Hegningarauki
  • Líkamsárás
  • Miskabætur
  • Fangelsi
  • Skilorð

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 3. október 2018 í máli nr. S-23/2018:

Ákæruvaldið

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Jón Bjarni Kristjánsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 19. september 2018, höfðaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum með ákæru 11. janúar 2018 á hendur X, kt. 000000-0000, [...], en áður að [...],

       „fyrir líkamsárás og heimilisofbeldi, með því að hafa, þann 20. desember 2015, á sameiginlegu heimili þeirra að [...], Reykjanesbæ, tekið um handleggi sambýliskonu sinnar og fyrrverandi eiginkonu, A, kt. 000000-0000, og haldið höndum hennar og ýtt henni upp að sjóðandi heitum ofni með þeim afleiðingum að A hlaut 2. stigs brunasár og mögulega að einhverju leyti 3. stigs bruna á hægri upphandlegg og mar á vinstri upphandlegg.

       Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1981.“

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þá krefst A, kt. 000000-0000, skaðabóta úr hendi ákærða, að fjárhæð 1.375.148 krónur, ásamt vöxtum af 1.050.000 krónum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. desember 2015 til þess dags er liðinn verður mánuður frá því að krafan var kynnt ákærða, en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. IV. kafla laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. laganna af 1.375.148 krónum til greiðsludags.

Ákærði neitar sök og krefst aðallega sýknu. Til vara krefst hann þess að honum verði ekki gerð refsing, en til þrautavara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsing verði þá bundin skilorði. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að skaðabætur verði verulega lækkaðar. Loks krefst hann málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

Málsatvik

Hinn 20. október 2016 kom brotaþoli, A, á lögreglustöðina í Reykjanesbæ og lagði fram kæru á hendur fyrrum eiginmanni sínum, X, ákærða í máli þessu, vegna líkamsárásar á fyrrverandi heimili þeirra að [...] í desember 2015. Sagði brotaþoli að ákærði hefði þá ýtt henni utan í heitan miðstöðvarofn og haldið henni þar með þeim afleiðingum að hún hlaut brunasár á upphandlegg. Hafi hún þurft að leita sér læknisaðstoðar vegna brunasársins og meðferðar við því.

Lögreglan tók skýrslu af brotaþola 27. október 2016. Sagði brotaþoli að atvik þessa máls hefðu átt sér stað að morgni 20. desember 2015, en hún og fyrrum eiginmaður hennar, ákærði, hefðu verið að drekka kvöldið áður. Hafi hún setið við tölvu á eldhúsborðinu, en borðið hafi staðið við miðstöðvarofn á vegg. Hafi þau verið að rífast um gamalt fjölskyldumál þegar ákærði hafi gengið henni, en hún þá sagt ákærða að hún myndi kýla hann ef hann kæmi nálægt henni. Ákærði hafi þá ýtt í vinstri hlið hennar þannig að hægri upphandleggur hennar fór utan í ofninn og ofnkranann. Hafi ákærði haldið henni þannig að hún gat ekki hreyft sig, en ofninn hafi verið mjög heitur. Kvaðst brotaþoli hafa heyrt þegar skinnið sprakk og hún fundið mikla sviðaverki. Þegar ákærði sleppti henni kvaðst brotaþoli hafa grýtt tölvuskjánum í gólfið og farið inn á baðherbergið þar sem hún sá brunasárið. Að því loknu sagðist brotaþoli hafa hringt í dóttur sína sem fór með henni á spítalann þar sem gert var að sárum hennar. Eftir þetta og allt fram í mars hafi hún þurft að hitta hjúkrunarfræðing vegna meðferðar á sárinu.

Fram kom í máli brotaþola að hún og ákærði hafi verið skilin að lögum löngu fyrir þetta atvik, en þau hafi þó búið saman. Ekki kvaðst brotaþoli vita ástæðu þess að hún hafi ekki kært líkamsárásina fyrr en nú, en sagðist hafa verið frosin og kvalin og á verkjalyfjum. Hún bætti við að hún þyrfti alltaf að fela sárið og gæti ekki farið í hvaða föt sem væri. Fannst henni sem ákærði hefði eyðilagt á henni handlegginn og því hafi hún ákveðið að kæra þetta nú.

Meðal gagna málsins er vottorð læknis um komu brotaþola á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 20. desember 2015 og síðari læknismeðferð hennar. Um áverka brotaþola segir þar: „Bruni þar sem húð hefur flest af á utanverðum hægri upphandlegg. Ca 7x10 cm. Mest 2 stigs en mögulega eitthvað 3 stigs bruni.“ Málinu fylgja einnig ljósmyndir af áverkum brotaþola.

Ákærði var yfirheyrður af lögreglu 8. desember 2016 og sagðist þá aðeins hafa verið að verjast árás brotaþola, en hún hafi ítrekað ráðist á hann. Hafi hann aðeins haldið höndum hennar föstum og keyrt hana niður í stól, en hún hafi þá farið utan í ofninn sem hann hafi ekki vitað um. Sagðist hann ekki hafa ætlað að brenna hana og tók fram að hann væri ekki geðveikur.

Framburður fyrir dómi

Ákærði sagði að hann og brotaþoli hafi haft í hyggju að reyna sambúð að nýju og hafi þau verið búin að vera saman í tvo til þrjá mánuði þegar sá atburður varð sem í ákæru greinir. Í umrætt sinn hafi þau byrjað að drekka seint um kvöld og hafi þau drukkið saman um ½ lítra af vodka. Um nóttina hafi hann setið við tölvu við eldhúsborðið, en brotaþoli í sófa í samliggjandi stofu, og hafi þau verið að rífast. Brotaþoli hafi komið arkandi að honum og ráðist á hann með miklu offorsi. Hafi hann þá staðið upp, gripið um handleggi hennar og haldið henni frá sér svo hún gæti ekki kýlt hann, og ýtt henni niður í stól við eldhúsborðið. Ekki kvaðst hann minnast þess að brotaþoli hafi snert miðstöðvarofninn sem verið hafi við hliðina á stólnum, og neitaði því algerlega að hafa fært brotaþola í átt að ofninum í því skyni að brenna hana. Ekki kvaðst hann heldur geta sagt til um hve lengi hann hélt brotaþola fastri, en bætti því við að það hafi verið þangað til hún róaðist og slakaði á. Á meðan hafi brotaþoli ekki getað losað sig eða notað hendurnar til að kýla hann. Þá sagðist ákærði ekki hafa tekið eftir því að brotaþoli væri kvalin á meðan á þessu stóð, hún hafi hvorki grátið né gefið frá sér önnur hljóð. Þegar ákærði sleppti takinu sagði hann að brotaþoli hafi farið aftur í sófann, brett þar upp hægri ermina og öskrað að hún væri þar öll rauð. Hafi hann séð að hún var rauð á handleggnum. Eftir þetta hefði brotaþoli hringt í dóttur sína og yfirgefið heimilið. Ákærði sagðist aldrei hafa lagt hendur á brotaþola í sambandi þeirra, hins vegar  hefði hann oft þurft að halda henni frá sér svo hún gæti ekki kýlt hann. Ákærði sagðist ekkert hafa leitt hugann að hitastigi á umræddum ofni, hann hafi ýmist verið heitur eða kaldur.    

Borinn var undir ákærða framburður hans hjá lögreglu þar sem hann sagðist hafa haldið brotaþola þannig að hún hafi farið utan í ofninn. Hann sagði þetta rétt að því leyti að hann hafi haldið henni frá sér þannig að hún hafi lent á ofninum, en án þess að hann hafi vitað af ofninum eða nokkuð getað gert við því að hún lenti þar.

Brotaþoli greindi frá því að hún og ákærði hafi í umrætt sinn verið að drekka. Hann hafi setið við tölvuna á eldhúsborðinu, en hún í sófanum. Þegar ákærði fór á salernið kvaðst hún hafa sest við tölvuna, en hann þá sest í sófann. Einhver leiðindi hafi komið upp þeirra í milli sem endaði með því að ákærði hafi komið vaðandi að henni, mjög ógnandi. Hafi hún þá sagt að ef hann kæmi nær henni myndi hún kýla hann. Ákærði hefði þá tekið í vinstri upphandlegg hennar og ýtt henni þannig að hún lagðist að ofninum og ofnkrananum. Hafi hún fundið fyrir sviða og miklum sársauka og barist um, en ekki getað hreyft sig þar sem ákærði hafi haldið henni fastri. Ekki hafi hún heldur getað gefið frá sér hljóð vegna sársauka, en hún hafi heyrt þegar skinnið sprakk á handleggnum á henni. Ekki gat hún sagt til um hve lengi henni var haldið við ofninn né hve heitur ofninn var í umrætt sinn. Þegar ákærði sleppti henni sagðist brotaþoli hafa grýtt tölvuskjánum í gólfið og hlaupið inn á baðherbergi þar sem hún sá svöðusár á handleggnum. Að því búnu hafi hún hringt í dóttur sína og beðið hana um að sækja sig. Hafi hún ekið henni á heilsugæsluna í Keflavík þar sem gert var að sárum hennar. Sárið hafi gróið illa og kvaðst hún margoft hafa þurft að koma á heilsugæsluna vegna þess.

Brotaþoli var að því spurð hvers vegna hún hafi ekki lagt fram kæru á hendur ákærða fyrr en tæpum tíu mánuðum eftir umrætt atvik. Hún sagði að ástæða þess hafi verið sú að hún hafi verið stressuð og hrædd og vart með sjálfri sér í langan tíma. Þá hafi hún verið að bíða eftir því að ákærði sýndi einhverja iðrun og bæðist afsökunar, en af því hafi ekki orðið. Brotaþoli var loks að því spurð hvort hún teldi að ákærði hafi haft þann ásetning að ýta henni að ofnkrananum og sagðist hún ekki telja að svo hafi verið. Þá kom fram í máli hennar að ákærði hafi aldrei áður í þeirra sambandi lagt á hana hendur.

Vitnið B, dóttir brotaþola, gaf einnig skýrslu fyrir dóminum. Hún sagðist hafa verið sofandi þegar móðir hennar hringdi í hana grátandi og bað um að verða sótt. Þegar hún kom á staðinn hafi móðir hennar staðið grátandi, titrandi og í geðshræringu fyrir utan húsið, klædd í úlpu, en aðeins í annarri erminni. Hafi hún séð að móðir hennar var öll í sárum á handleggnum og hafi hún beðið sig um að aka sér strax upp á spítala. Hafi móðir hennar sagt að X hafi haldið henni upp við ofn. Á spítalanum hafi læknir tekið á móti þeim, gefið móður hennar morfínsprautur og gert að sárum hennar. Eftir það kvaðst vitnið hafa ekið móður sinni heim til vitnisins, en daginn eftir hafi þær mæðgur aftur farið á spítalann til frekari meðferðar á sárinu. Vitnið sagðist hafa tekið eftir því að móðir hennar hafi verið að drekka þegar hún sótti hana í umrætt sinn og hafi áfengi verið nokkuð áberandi í sambandi hennar og ákærða.

Vitnið C læknir staðfesti að hafa ritað læknisvottorð sem liggur frammi í málinu og dagsett er 8. nóvember 2016. Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um hve lengi þyrfti að halda manni að ofni til þess að hann hlyti brunasár af því tagi sem brotaþoli hlaut, né hve heitur ofninn þyrfti að vera til að slíkt gerðist. Þó taldi hann ljóst að ofninn þyrfti að vera vel heitur og tók fram að slíkt sár hlytist ekki af því að rekast í ofninn. Hann sagði einnig ólíklegt að hægt væri að valda sjálfum sér slíkum skaða, án þess að viðkomandi sýndi viðbrögð eða hrykki frá ofninum.

Niðurstaða

Við upphaf aðalmeðferðar í máli þessu, 4. júní 2018, lagði fulltrúi ákæruvaldsins fram myndaskýrslu lögreglunnar, með ljósmyndum af miðstöðvarofni í eldhúsi íbúðarinnar að [...] í Reykjanesbæ, en skipaður verjandi ákærða hafði áður óskað eftir ljósmyndum af vettvangi, og dómari tekið undir þá ósk. Við skýrslutöku af brotaþola fyrir dómi þann dag voru henni sýndar ljósmyndirnar. Brotaþoli upplýsti þá að myndirnar væru ekki af þeim miðstöðvarofni sem um er fjallað í málinu, enda væru þær teknar í eldhúsi íbúðar að [...], en hún og ákærði hefðu búið að [...]. Að fengnum þessum upplýsingum, svo og í ljósi þess að fresta þurfti aðalmeðferð þar sem tvö vitni ákæruvaldsins höfðu boðað forföll, óskaði dómari eftir því að teknar yrðu ljósmyndir af vettvangi og ofninum í íbúðinni að [...], og þær lagðar fram við framhald aðalmeðferðarinnar. Verjandi ákærða óskaði þá bókað að hann andmælti öflun frekari sönnunargagna undir rekstri málsins og eftir að aðalmeðferð væri hafin. Við framhald aðalmeðferðar, 19. september sl., lagði ákæruvaldið svo fram ljósmyndir af miðstöðvarofninum að [...], svo og grunnmynd af íbúðinni.Við sama tækifæri óskaði fulltrúi ákæruvaldsins eftir því að bókuð yrði sú leiðrétting á ákæru að vettvangur meints brots væri að [...] í Reykjanesbæ. Verjandi óskaði þá bókað að lögreglan hefði ekki aflað ljósmynda af vettvangi, eins og óskað hafði verið eftir. Jafnframt gerði hann þá athugasemd að ekki væri um innsláttarvillu að ræða í ákæru, „heldur hafi lögregla misfarið með vettvang á öllum stigum“.

Í tilefni af ofanrituðu skal áréttað að öflun umbeðinna ljósmynda var upphaflega að frumkvæði verjanda og tók dómari undir þá beiðni. Við skýrslutöku af brotaþola við upphaf aðalmeðferðar kom hins vegar í ljós að ljósmyndirnar voru ekki af réttum miðstöðvarofni, enda teknar í rangri íbúð. Í stað þess að endurupptaka málið eftir dómtöku þess samkvæmt heimild í 168. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, og þar sem fyrir lá að fresta þyrfti aðalmeðferð málsins vegna forfalla tveggja vitna, óskaði dómari eftir því að aflað yrði nýrra ljósmynda á réttum vettvangi meints brots. Samkvæmt 2. mgr. 110. gr. sömu laga var dómara það heimilt, enda var gagnaöflunin liður í því að upplýsa málið. Er því ekkert hald í mómælum verjanda við öflun nýrra ljósmynda, svo sem dómari mælti fyrir um. Hinu sama gegnir um leiðréttingu ákæruvaldsins á vettvangi meints brots, enda telur dómurinn að vörn ákærða hafi ekki í neinu verið áfátt af þeim sökum, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008.

Sýknukrafa ákærða byggist einkum á því að ósannað sé að hann hafi valdið brotaþola þeim áverkum sem í ákæru greinir. Hvorki ákærði né brotþoli hafi leitt hugann að miðstöðvarofninum, hvað þá að hann hafi verið svo heitur að valdið gæti þeim áverkum sem brotaþoli varð fyrir. Þá hafi ákærði heldur ekki haft ásetning til að ýta brotaþola að ofninum í því skyni að hún hlyti af líkamsáverka. Telur ákærði að áverkarnir hafi verið slys sem hann beri ekki ábyrgð á.

Ákærði byggir einnig á því að hann hafi í umrætt sinn verið að verjast yfirvofandi árás af hálfu brotaþola, en hún hafi sagst ætla að kýla hann. Um refsilausa nauðvörn hafi því verið að ræða af hálfu ákærða, sbr. 12. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Eins og áður greinir sagði ákærði fyrir dómi að hann hefði gripið um handleggi brotaþola til að varna því að hún kýldi hann, ýtt henni niður í stól og haldið henni þar fastri þangað til hún róaðist. Þá sagðist hann ekki minnast þess að brotaþoli hafi snert ofninn. Í skýrslu sinni hjá lögreglu 8. desember 2016 sagði ákærði hins vegar að stóllinn hafi verið við borðið og miðstöðvarofninn upp við vegg. Hann hafi haldið brotaþola frá sér og þá hafi hún bara farið utan í ofninn, án þess að hann gæti nokkuð gert við því. Við sama tækifæri var ákærði spurður hvort hann hafi vitað að ofninn eða ofnkraninn hafi verið heitur og svaraði hann því þannig: „Ég vissi ekkert um það. Ofninn var náttúrulega heitur en ég vissi ekki að hún væri upp við ofninn. Ég var bara að halda henni og hún fer óvart utan í ofninn“. Brotaþoli sagði aftur á móti, bæði í skýrslu sinni hjá lögreglu og fyrir dómi, að hún hafi setið í stólnum þegar ákærði kom vaðandi að henni, tók í vinstri upphandlegg hennar og ýtti henni þannig að hún lagðist að ofninum og ofnkrananum.

Þrátt fyrir lítilsháttar misræmi í frásögn aðila af upphafi átaka þeirra, er ekki ágreiningur um að brotaþoli hlaut mikið brunasár á hægri upphandlegg þegar hún lagðist að heitum miðstöðvarofninum. Er það staðfest með framlögðu læknisvottorði og ljósmyndum af áverkum, sem eru meðal gagna málsins. Á ljósmyndunum má einnig sjá augljóst mar á vinstri upphandlegg brotaþola, og styrkir það framburð hennar um að ákærði hafi tekið í upphandlegg hennar og ýtt henni þannig að ofninum og ofnkrananum. Gegn neitun ákærða verður trúverðugur framburður brotaþola lagður til grundvallar sem sönnun fyrir því að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í ákæru.

Brotaþoli sagði fyrir dómi að hún teldi að ákærði hafi ekki haft ásetning til þess að ýta henni að heitum ofninum eða ofnkrananum. Þótt ósannað sé að ákærði hafi vitað að ofninn væri jafn heitur og raunin var, breytir það þó engu um þá staðreynd að ákærði réðst með ofbeldi að brotaþola í umrætt sinn, ýtti henni niður í stól og hélt henni fastri um stund við ofninn, þannig að hún hlaut töluvert líkamstjón af. Nægir sú háttsemi til þess að það verði virt honum til sakar samkvæmt 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ekki er unnt aða fallast á að verknaður ákærða hafi réttlæst af neyðarvörn.

Ákærði er fæddur í [...] árið [...]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur hann ekki áður gerst sekur um ofbeldisbrot. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness [...] var hann hins vegar dæmdur í 15 mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, auk fésektar, fyrir skattalagabrot. Var sá dómur hegningarauki við dóm sama dómstóls, sem kveðinn var upp [...], vegna brota gegn sömu lagaákvæðum og hann var þá sakfelldur fyrir.

Brot það er ákærði er nú sakfelldur fyrir var framið áður en fyrrnefndur dómur var kveðinn upp, [...], og hófst rannsókn málsins fyrir lok skilorðstíma hans. Í samræmi við fyrirmæli 60. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 verður því sá dómur tekinn upp og ákærða gerð refsing í einu lagi fyrir bæði brotin. Að því gættu, svo og með hliðsjón af 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Þar sem töluverður dráttur varð á rannsókn málsins og útgáfu ákæru, án þess að ákærði eigi þar nokkra sök á, þykir mega skilorðsbinda refsinguna eins og nánar greinir í dómsorði.

Af hálfu brotaþola er krafist miskabóta að fjárhæð 1.000.000 króna, auk 50.000 króna vegna aðgerðar á brotaþola. Brot ákærða var til þess fallið að valda brotaþola miklum líkamlegum þjáningum, auk andlegrar vanlíðunar og kvíða, og vísast í því efni til framlagðs læknisvottorðs og vottorðs félagsráðgjafa vegna viðtala við brotaþola. Samkvæmt því, og með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur sem þykja hæfilega ákveðnar 400.000 krónur, auk vaxta eins og í dómsorði greinir. Þar sem engin gögn fylgja kröfu brotaþola um greiðslu vegna aðgerðar verður þeirri kröfu vísað frá dómi.  Ákærði verður hins vegar dæmdur til greiðslu þóknunar réttargæslumanns brotaþola, Ástu Bjarkar Eiríksdóttur lögmanns, sem ákveðst 250.000 krónur.

Samkvæmt framlögðu yfirliti nemur sakarkostnaður lögreglu 28.000 krónum. Með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærði dæmdur til greiðslu þeirrar fjárhæðar, auk málsvarnarlauna til skipaðs verjanda síns, Jóns Bjarna Kristjánssonar lögmanns, sem ákveðst 750.000 krónur. Við ákvörðun lögmannsþóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 18 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði A 400.000 krónur, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. desember 2015 til 23. mars 2018, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar að fjárhæð 250.000 krónur.

Ákærði greiði 778.000 krónur í sakarkostnað, þar af 750.000 krónur í málsvarnarlaun til verjanda síns, Jóns Bjarna Kristjánssonar lögmanns.

                                                                     

                                                                                          Ingimundur Einarsson