• Lykilorð:
  • Börn
  • Kynferðisbrot
  • Miskabætur
  • Nauðgun
  • Fangelsi

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 23. janúar 2018 í máli nr. S-285/2017:

Ákæruvaldið

(Hrafnhildur M. Gunnarsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Brynjólfur Eyvindsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 28. nóvember 2017, höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 14. ágúst 2017 á hendur ákærða, X, kt. [...], [...],[...];

fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn barni, með því að hafa í tvö skipti á tímabilinu júlí til ágúst 2016, á heimili sínu að [...] í [...], með ólögmætri nauðung er fólst meðal annars í aldurs-, þroska- og aðstöðumun, látið dóttur sína A sem þá var fimm ára gömul, snerta getnaðarlim sinn og fróa sér, og í sömu skipti snert kynfæri stúlkunnar með fingrum sínum og fróað sjálfum sér í návist hennar.

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Einkaréttarkrafa:

B, kt. [...], gerir þá kröfu fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar, A, kt. [...], að ákærði greiði A kr. 3.000.000.- auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 14. ágúst 2016 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðar­reikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Kröfur ákærða í málinu eru þær aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvalds en til vara að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa og að refsingin verði bundin skilorði. Hvað bótakröfu brotaþola varðar krefst ákærði þess aðallega að kröfunni verði vísað frá dómi en til vara að krafan verði stórlega lækkuð. Þá krefst verjandi hæfilegrar þóknunar sér til handa að mati dómsins sem greiðist úr ríkissjóði.

I

Hinn 23. ágúst 2016 lagði Barnaverndarnefnd [...] fram kæru vegna meints kynferðisbrots ákærða gegn fimm ára dóttur hans, A, brotaþola í máli þessu. Í kærunni var til þess vísað að daginn áður hefði brotaþoli verið hjá ömmusystur sinni, C, og stúlkan þá greint frá því að stundum þegar hún og pabbi hennar væru tvö ein nuddaði hún á honum typpið. Stúlkan hefði jafnframt sagt að ákærði nuddaði á henni klobbann og stundum potaði hann fingri inn. Þá hefði brotaþoli talað um að hún bleytti pabba sinn. Í kærunni kom fram að C hefði hljóðritað hluta samtals hennar og stúlkunnar.

Skýrsla var tekin af móður brotaþola, B, hjá lögreglu 30. ágúst 2016 vegna málsins. Sagðist B frétt af málinu hjá móðursystur sinni, áðurnefndri C, 22. sama mánaðar. Stúlkan hefði greint C frá umræddum atvikum og hefði hún tekið hluta frásagnar stúlkunnar upp. B kvaðst hafa rætt við dóttur sína að kvöldi þessa sama dags og hefði stúlkan þá greint henni frá því að ákærði hefði látið hana koma við typpið á sér og fiktað í „pjöllunni“ á henni. Brotaþoli hefði sagt þetta hafa gerst tvisvar til þrisvar sinnum.

Brotaþoli gaf skýrslu fyrir dómi í Barnahúsi 9. september 2016. Þar kom meðal annars fram hjá stúlkunni að hún hefði snert typpið á pabba sínum og hvernig hún gerði það. Þá sagði stúlkan ákærða hafa snert „klobbann“ á henni. Brotaþoli lýsti því einnig hvernig ákæri hefði sjálfur snert typpið á sér. Er nánari reifun á framburði stúlkunnar að finna í III. kafla dómsins.

Í kjölfar skýrslutöku í Barnahúsi gekkst brotaþoli undir almenna læknisskoðun á Landspítala háskólasjúkrahúsi 28. september 2016. Skoðunin leiddi ekkert í ljós sem benti til þess að brotaþoli hefði verið beitt kynferðislegu áreiti eða ofbeldi „... en útilokar það að sjálfsögðu ekki“, svo sem tekið er til orða í vottorði D barnalæknis og E kvensjúkdómalæknis sem skoðuðu stúlkuna.

Undir rannsókn málsins tók lögregla skýrslu vitnis af áðurnefndri V. C heimilaði lögreglu að afrita upptöku sem hún gerði af fyrrgreindu samtali hennar og brotaþola 22. ágúst 2016. Á upptökunni segist brotaþoli meðal annars hafa nuddað typpið á ákærða. Þá segir stúlkan ákærða hafa skoðað „klobbann minn“ og potað og fiktað í honum. Hann hefði sett puttann inn, en ekki langt.

II

Ákærði kom fyrir dóm við þingfestingu málsins 5. október sl. og neitaði sök. Þá hafnaði hann bótakröfu brotaþola. Við upphaf aðalmeðferðar lýsti ákærði því yfir að þessi afstaða hans væri óbreytt. Sagði hann ásakanir á hendur honum vera á misskilningi byggðar. Vísaði ákærði í því sambandi til eftirfarandi tilvika í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins.

Fyrst greindi ákærði frá tilviki þar sem brotaþoli hefði í ógáti tekið uppþvottalög af vaski á baðherberginu á heimili ákærða að [...] í [...] og notað hann sem sápu er hún hefði verið í baði. Afleiðingin hefði verið mikill sviði og roði á kynfærasvæði. Ákærði kvaðst hafa tekið sturtuhaus og skolað lögin af. Hann hefði síðan borið aloe vera á ytri barma kynfæra stúlkunnar. Ákærði hefði síðan upplýst dóttur sína um að þessa sápu ætti bara að nota í eldhúsinu. Hún væri ekki góð á líkamann.

Öðru tilviki kvaðst ákærði muna eftir þar sem þau feðginin hefðu verið í sturtu heima hjá ákærða að [...]. Stúlkan hefði þá verið með vökvunarkönnu sem hún hefði haldið undir typpinu á ákærða og verið að safna í hana sápuvatni, sem runnið hefði af ákærða í könnuna, án þess að ákærði veitti því strax athygli. Skyndilega hefði brotaþoli gripið í typpið á ákærða í örstutta stund. Ákærði sagði sér hafa brugðið við þetta, hann snúið sér undan og síðan sagt stúlkunni að svona gerði maður ekki. Rámaði ákærða í að hann hefði rætt þetta atvik við unnustu sína. Spurður út í ummæli þess efnis í skýrslugjöf fyrir lögreglu að þetta atvik hefði gerst „[...]“, þar sem hann hefði áður búið með unnustu sinni, kvað ákærði þau ummæli röng. Þetta atvik hefði ekki átt sér stað þar. Sagðist ákærði ekki geta skýrt af hverju hann hefði greint frá með þessum hætti hjá lögreglu. Spurður um hvort hann gæti skýrt þann framburð stúlkunnar að hvítt vatn hefði komið úr typpi hans umrætt sinn sagðist ákærði gera ráð fyrir að um hefði verið að ræða sápu sem komið hefði úr hárinu á honum.

Þriðja tilvikinu lýsti ákærði svo að brotaþoli hefði eitt sinn þegar þau hefðu verið í sundi, gripið í typpið á honum þegar hann var að sápa sig. Þetta kvað ákærði hafa gerst í [...]. Um nákvæma tímasetningu gat ákærði ekki borið en þó kom fram hjá honum að hann hefði verið búsettur að [...] er það atvik gerðist. Ákærði taldi það geta verið rétt, sem fram komi í framlagðri upplýsingaskýrslu lögreglu að þangað hefði hann flutt 1. júlí 2016.

Áður en mál þetta kom upp sagði ákærði samband þeirra feðginanna hafa verið mjög gott og stúlkan verið hjá honum í umgengni aðra hverja helgi. Samband sitt við móður brotaþola kvað ákærði hafa verið ágætt þangað til hann kynntist núverandi unnustu sinni, F, sem hann taldi mögulega hafa verið sumarið 2015. Eftir það hefði viðmót móðurinnar og sambandið við hana versnað. Var á ákærða að skilja að síðasta helgin sem brotaþoli hefði dvalist hjá honum hefði verið 12.-14. ágúst 2016. Hann hefði enga umgengni haft við stúlkuna eftir að mál þetta kom upp.

Ákærði sagði brotaþola oft hafa komið í íbúðina við [...] og hún verið búin að eignast tvær vinkonur í næsta húsi. Ákærði kvaðst ekki muna hvort þau feðginin hefðu farið saman í bað í íbúðinni, en sagði mögulegt að svo hefði verið. Ákærði minntist þess hins vegar að þar hefðu þau ítrekað farið þar saman í sturtu.

Fram kom hjá ákærða fyrir dómi að skömmu áður en mál þetta kom upp sumarið 2016 hefði brotaþoli eitt sinn greint honum frá því að hún hefði séð konu sleikja typpi í tölvunni hjá móður sinni. Þegar stúlkan greindi frá þessu hefðu þau ákærði verið að leika sér saman fyrir utan heimili hans að [...]. Ákærði kvaðst hafa sagt unnustu sinni frá þessari frásögn stúlkunnar. Hann hefði hins vegar ekkert rætt þetta við móður hennar. Þegar sækjandi bar undir ákærða þau ummæli hans við skýrslugjöf hjá lögreglu 31. ágúst 2016 að stúlkan hefði greint honum frá þessu þegar þau voru í baði síðustu helgina sem hún dvaldi hjá honum, þ.e. dagana 12.-14. ágúst 2016, sagði ákærði: „Já ókey. ... Ég bara man ekki eftir þessu en það getur svo sem vel verið. Mig minnti að við hefðum verið úti sko, úti í garði.“

III

A

Undir rannsókn málsins var tekin skýrsla af brotaþola, A, fyrir dómi í Barnahúsi. Þar greindi brotaþoli frá því að hún hefði sagt ömmusystur sinni, C, frá því að hún hefði „mátt snerta typpið“ á pabba sínum. Það hefði hún gert í baði. Þá hefði ákærði líka mátt „... snerta klobbann minn en það bara kitlaði.“ Þetta hefði gerst í tvö skipti inni á klósetti heima hjá pabba hennar á meðan þau voru í baði. Hún hefði þá verið fimm ára. Ákærði hefði sagt stúlkunni að hafa hljótt á meðan hann var að gera þetta. Unnustu pabba síns sagði brotaþoli hafa verið frammi er þessi atvik gerðust.

Þegar brotaþoli var spurð að því hvernig hún hefði snert typpið á pabba sínum lýsti hún því þannig með látbragði að hún kreppti fingur að lófa og hreyfði höndina upp og niður. „Og eftir smá stund að þá kemur svona hvítt vatn upp úr því ...“ sagði stúlkan. Spurð að því hvernig hún vissi að það kæmi hvítt vatn upp úr typpinu svaraði brotaþoli: „Af því að ég er búin að prufa þetta. ... Og ég er líka búin að sjá það þegar pabbi er búinn að gera þetta.“ Spurð um hvert það fór sem kom upp úr typpinu svaraði brotaþoli: „Það fór bara niður í baðið.“ Stúlkan bar að það hefði verið lítið vatn í baðinu en þegar að pabbi hennar hefði verið kominn ofan í hefði næstum sullast út úr því, svo fullt hefði baðið orðið.

Sérstaklega spurð um hvort þeirra það hefði verið sem var að gera „eitthvað“ við typpið þegar það kom „eitthvað“ upp úr því svaraði stúlkan: „Ég held að það væri pabbi, ég get ekki gert svona lengi og hratt eins og pabbi ...“ Spurð að nýju um hvernig ákærði hefði borið sig að kreppti stúlkan fingur að lófa og hreyfði höndina upp og niður. Typpið sagði brotaþoli hafa verið langt.

Brotaþoli kannaðist aðspurð ekki við að hana hefði einhvern tímann sviðið í klofið. Þá kannaðist hún heldur ekki við það hafa einhvern tímann séð alsbert fólk í tölvum eða sjónvarpi. Varðandi það hvar pabbi hennar hefði búið er atvik máls gerðust bar vitnið að við hliðina á því húsi byggju tvær vinkonur hennar.

Þess var ekki kostur, sbr. 2. mgr. 112. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að dómari sá sem brotaþoli gaf skýrslu sína fyrir á rannsóknarstigi málsins í Barnahúsi tæki sæti í dómi í málinu vegna starfsloka dómarans.

B

Í þágu málsmeðferðarinnar aflaði ákæruvaldið vottorðs G sálfræðings, sem dagsett er 27. nóvember 2017, og varðar meðferð brotaþola sem hófst í kjölfar skýrslutöku af stúlkunni í Barnahúsi. Í vottorðinu segir meðal annars svo:

Brotaþoli hefur tjáð sig greiðlega um líðan sína tengda ætluðu broti og hefur stúlkan ávallt verið samkvæm sjálfri sér og frásagnir hennar í samræmi við það sem áður hefur komið fram. ...

Lýsir hún á mjög grafískan hátt, rétt eins og í skýrslutökunni með handahreyfingum hvernig hún snerti typpi föður síns og hvernig hann tók svo sjálfur við og hvernig það sprautaðist úr typpinu í baðið. ... Hefur það endurtekið gerst í viðtölunum að brotaþoli ræðir atvikið með þessum hætti, að fyrra bragði og í frjálsri frásögn, og afsakar hún þá gjarnan pabba sinn og talar um að hann hafi ekki gert neitt rangt og að hann hafi alveg mátt gera þetta. Hún hefur tjáð sig um þessar athafnir bæði í orðum, með handahreyfingum og í gegnum leik. ... „pabbi spurði mig hvort ég vildi snerta typpið hans og ég vissi ekki hvort ég mætti það en hann leyfði mér það og svo snerti hann klobbann minn með puttunum sínum en ég var ekkert búin að leyfa honum það“ sýndi hún svo með handahreyfingum hvernig hún átti samkvæmt leiðbeiningum pabba að snerta typpið og sagði hann síðan hafa gert sjálfur því hún hafi ekki getað gert nógu hratt. Segir brotaþoli að hvítt piss hafi komið úr typpinu ...

 

Í vottorðinu segir enn fremur að brotaþola hafi orðið tíðrætt um það að pabbi hennar hefði ekki gert neitt rangt, í það minnsta ekkert meira en hún sjálf því að hann hefði snert klobbann hennar en hún líka typpið hans. Að lokum, með mikilli fræðslu, hafi stúlkan þó fallist á að það sem ákærði hefði gert hafi verið rangt þar sem hann sé fullorðinn og þekki reglurnar en hún sé aðeins barn. Hafi stúlkan gjarnan notað það orðalag að kalla það sem pabbi hennar gerði mistök.

Samantekt og álit sálfræðingsins er síðan að finna í niðurlagi vottorðsins. Þar segir svo:

Brotaþoli virðist hafa komist í kynni við kynferðislegar athafnir löngu áður en hún hafði þroska til að takast á við slíkt og getur það haft áhrif á tengslamyndun til framtíðar t.d. varðandi hitt kynið. Slík reynsla sem samræmist ekki reynsluheimi barnsins getur breytt sýn þeirra á umhverfið og annað fólk, auk þess sem sjálfsmynd þeirra getur skaðast. Þegar meintur gerandi kemur úr nærumhverfi barnsins eins og í tilfelli brotaþola þar sem meintur gerandi er faðir hennar, geta afleiðingar oft orðið alvarlegri þar sem meiri sjálfsásakanir, skömm og sektarkennd koma gjarnan fram síðar meir. Brot foreldris gegn barni sínu þýðir mikinn trúnaðarbrest í samskiptum og hefur í för með sér að viðhorf til samfélagsins og fjölskyldu raskast. Þegar um svo náin tengsl er að ræða getur meðferð tekið mun lengri tíma en almennt er gert ráð fyrir.

Eins ber að geta að afleiðingar kynferðisbrota eru oft langvarandi og algengt er að fólk glími við afleiðingar slíkra brota á mismunandi skeiðum lífsins, t.d. á unglingsárum, í tengslum við kynlíf, meðgöngu eða fæðingar og í tengslum við áföll síðar á lífsleiðinni. Það er því með engu móti hægt að útiloka að þrátt fyrir að stúlkan sýni ekki skýr merki um vanlíðan nú að hún þurfi síðar á lífsleiðinni að leita sér frekari sérfræðiaðstoðar. Þvert á móti gætu þessi viðbrögð hennar nú orðið til þess að hún upplifi tilfinningu um sektarkennd og skömm síðar sem gæti þurft að vinna úr. Börn geti upplifað slíkar tilfinningar ef þeim finnst þau hafa samþykkt meint brot og verið sjálfviljugir þátttakendur í kynferðislegum athöfnum með fullorðnum aðila og enn frekar ef sá aðili er nátengdur barninu. Að vinna úr slíkum tilfinningum er gjarnan meginviðfangsefni í meðferð fullþroska einstaklinga sem upplifað hafa kynferðisofbeldi í æsku.

Brotaþoli hefur verið samkvæm sjálfri sér í meðferðarviðtölum og tjáð sig greiðlega um ætlað brot og líðan sína því tengdu bæði í frjálsri frásögn og í gegnum leik. Margt af því sem fram hefur komið samrýmist því sem alþekkt er á meðal ungra barna sem sætt hafa kynferðisofbeldi. Þess ber einnig að geta að algengt er að afleiðingar kynferðisofbeldis komi fram á unglingsárum, í tengslum við kynlíf og barnsfæðingar og í kjölfar annarra áfalla á lífsleiðinni. Þá ber að hafa í huga að þótt stúlkan uppfylli ekki greiningarskilmerki áfallastreituröskunar nú er ekki hægt að útiloka greiningu áfallastreituröskunar síðar á lífsleiðinni í tengslum við ætlað brot. Viðtölum við stúlkuna er ekki lokið og munu þau halda áfram um óákveðinn tíma.

 

G kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og staðfesti og skýrði vottorð sitt. Fram kom hjá vitninu að viðtöl hennar við stúlkuna hefðu farið fram í hennar heimabyggð, fyrst á leikskóla stúlkunnar og síðar í grunnskólanum eftir að hún hóf þar nám. Viðtölin sagði vitnið vera orðin 25 talsins en meðferðinni væri ekki lokið.

Vitnið sagði brotaþola hafa verið skýra og greinargóða í viðtölunum. Væri það mat vitnisins að stúlkan væri á undan jafnöldrum sínum í málþroska og að mörgu leyti þroska almennt. Í viðtölunum hefði hún staðfest frásögn sína í skýrslutökunni í Barnahúsi, bæði í frjálsri frásögn og í leik. Tók vitnið sérstaklega fram að í viðtölunum hefði hún ekki spurt brotaþola út í umrædd atvik, enda það ekki tilgangur meðferðarinnar að staðfesta það sem fram hefði komið í viðtölunum. Brotaþola hefði verið mjög hugleikið að hún hefði gert alveg jafn rangt og pabbi hennar. Stúlkan hefði gert sömu mistökin, hún hefði líka snert einkastaði hans. Vitnið kvað brotaþola hafa verið mjög sannfærandi af svona ungu barni að vera og hún verið staðföst í frásögn sinni. Þá hefðu lýsingar hennar verið mjög myndrænar. „Hún er að lýsa eigin reynsluheimi en ekki einhverju sem að hún hefði getað haft hugmyndir um á annan hátt.“ Það sagði vitnið hafa verið mjög skýrt „... af því að þetta er svo endurtekið og hún er svo upptekin af þessu.“

Vitnið sagði brotaþola elska pabba sinn mjög mikið og sakna hans mikið. Það hefði ítrekað komið fram í viðtölunum. Vitnið kvað stúlkuna mjög klára og sagði hana tengja saman það að hún hefði sagt frá og það að hún fái ekki að hitta pabba sinn.

IV

B bar fyrir dómi að brotaþoli hefði verið hjá móðursystur hennar, C, og þær verið á leið í sund þegar stúlkan hefði greint frænku sinni frá brotum ákærða gagnvart henni. C hefði tekið upp hluta samtals hennar og brotaþola og síðar um kvöldið hefði hún sýnt vitninu upptökuna.

Að kvöldi þessa sama dags kvaðst vitnið hafa rætt við brotaþola og stúlkan þá endurtekið frásögn sína. Nánar sagði vitnið brotaþola hafa greint frá því að ákærði hefði leyft henni að snerta á sér typpið. Brotaþoli hefði sýnt vitninu hvernig hún hefði „leikið“ við typpið með því að hreyfa höndina upp og niður. Látbragð stúlkunnar hefði verið líkt fróun. Þá hefði brotaþoli sagt ákærða hafa „... verið að pota eitthvað í klobbann á henni.“ Sérstaklega spurð af vitninu hefði brotaþoli sagt það hafa gerst nokkrum sinnum þegar stúlkan hefði verið í baði með ákærða á heimili hans að [...] í [...]. Hefðu þau verið ein inni á baðherberginu. Vitnið kvaðst hafa spurt brotaþola að því hvort þetta hefði gerst þegar hún var síðast hjá föður sínum, sem hefði verið helgina 12.-14. ágúst 2016, en stúlkan svarað því neitandi.

Fram kom hjá vitninu að þegar brotaþoli hefði verið búin að greina frá þessum atvikum hefði vitnið ætlað að ræða þau frekar. Stúlkan hefði þá sagst ekki nenna að tala meira um þetta og hún viljað tala um eitthvað annað. Sagðist vitnið hafa orðið fyrir miklu áfalli vegna frásagnar brotaþola, sem komið hefði því algerlega í opna skjöldu. Eftir að málið var tilkynnt til lögreglu kvaðst vitnið ekkert hafa rætt það frekar við brotaþola, enda fengið þau skilaboð frá lögreglu að það skyldi vitnið ekki gera.

Vitnið kvaðst hafa greint mjög miklar hegðunarbreytingar hjá brotaþola fyrr um sumarið, mögulega um mánaðamótin júní/júlí 2016. Mikill pirringur hefði komið fram hjá stúlkunni og hún verið uppstökk. Jafnframt hefði brotaþoli orðið afskaplega viðkvæm og sofið illa, hún fengið martraðir. Vanlíðan stúlkunnar hefði verið mikil. Fyrst hefði vitnið skrifað þessar breytingar á skort á rútínu á meðan sumarfrí var á leikskólanum. Þessar breytingar hefðu hins vegar verið miklu meiri en svo að þær gætu skýrst af því einu. Aðspurt sagðist vitnið ekki vera í nokkrum vafa um að framangreindar breytingar tengdust umræddum atvikum. Vitnið kvað fram hafa komið hjá stúlkunni að henni þætti slæmt „... að pabbi sinn gerði þessi mistök.“ Hjá stúlkunni gætti reiði vegna þessa sem hún tæki út á öðrum.

Aðspurt sagði vitnið engar deilur hafa verið á milli sín og ákærða varðandi forræði stúlkunnar eða umgengni við hana þegar málið kom upp. Frásögn sem ákærði segðist hafa eftir brotaþola um að stúlkan hefði séð upptöku af konu sjúga karlmannstyppi í tölvu vitnisins sagði vitnið ekki eiga við rök að styðjast. Þá kannaðist vitnið alls ekkert við það að brotaþoli hefði sýnt kynfærum óeðlilegan áhuga.

C, ömmusystir brotaþola, kvaðst gegnum tíðina hafa verið í töluverðu sambandi við stúlkuna. Umrætt sinn kvaðst vitnið hafa verið á leið í sund með brotaþola þegar stúlkan hefði upp úr þurru og að eigin frumkvæði sagt vitninu frá því að pabbi hennar hefði verið að þukla og nudda kynfæri hennar. Þau hefðu verið stödd á heimili ákærða er þetta gerðist. Kom fram hjá vitninu að stúlkan hefði þegar hún sagði frá farið með hendurnar í klofið á sér og sýnt með látbragði hvað pabbi hennar hefði gert. Vitnið sagðist hafa frosið við að heyra frásögn brotaþola. Hún hefði síðan beðið stúlkuna um að endurtaka frásögn sína og hefði vitnið tekið þá frásögn upp. Að því loknu hefði brotaþoli ekki viljað ræða þetta frekar og vitnið og hún farið í sund eins og til hafði staðið.

Eftir sundferðina hefði brotaþoli farið að spyrja vitnið að því hvort því þætti það eðlilegt ef hún myndi snerta kynfæri þess. Vitnið sagðist hafa svarað því afdráttarlaust neitandi. Vitnið hefði sagt stúlkunni að það svæði væri einkasvæði hvers og eins. Brotaþoli hefði þá greint vitninu frá því að hún hefði snert ákærða, strokið honum og nuddað. Vitnið sýndi með handahreyfingu hvernig stúlkan hefði hreyft höndina upp og niður er hún lýsti þeim athöfnum.

Fram hefði komið hjá stúlkunni að þau tilvik sem um ræddi hefðu verið nokkur. Í kjölfar síðara samtalsins við brotaþola kvaðst vitnið hafa hringt í 112, neyðarlínuna, og óskað eftir leiðbeiningum um hvernig það ætti að bregðast við frásögn stúlkunnar. Vitninu hefði þá verið gefið samband við Barnaverndarnefnd [...].

Fyrr um sumarið kvaðst vitnið hafa orðið vart við breytta hegðun hjá stúlkunni sem það hefði þá tengt við sumarfrí og það rót sem því fylgdi. Hinni breyttu hegðun lýsti vitnið svo að stúlkan hefði oft reiðst mjög af engu tilefni. Hún orðið brjáluð, öskrað, gargað og grenjað. Stúlkan hefði verið óörugg og viðkvæm og lítið þurft til að koma henni úr jafnvægi. Tengdi vitnið þessar breytingar á brotaþola og líðan hennar við þau atvik sem um ræðir í málinu.

F, unnusta ákærða, sagði þau ákærða vera í sambúð að [...] í [...]. Vitnið kvað ákærða hafa flutt inn til þess í júlí 2016.

Fram kom hjá vitninu að ávallt þegar það hefði verið heima og ákærði baðað brotaþola þá hefðu baðherbergisdyrnar verið opnar. Ákærða sagði vitnið alltaf hafa verið klæddan þegar hann baðaði dóttur sína og kannaðist vitnið ekki við að ákærði hefði nokkru sinni farið með stúlkunni í bað eða sturtu.

Vitnið sagðist oft hafa farið með ákærða og brotaþola í sund í [...]. Í annað af tveimur fyrstu skiptunum kvað vitnið ákærða hafa greint vitninu frá því að brotaþoli hefði gripið í typpið á honum í búningsklefanum. Ákærði hefði sagst hafa skammað stúlkuna fyrir það. Hann hefði sagt stúlkunni að þetta væri rangt og að þetta mætti hún ekki gera. Sambærilegt tilvik hefði einnig gerst einhverju sinni í sturtu. Hvar ákærði og brotaþoli voru þá stödd kvaðst vitnið ekki vita.

Þá greindi vitnið frá því að eitt sinn þegar það hefði komið heim úr vinnu hefði ákærði sagt frá því að brotaþoli hefði fengið uppþvottalög í klofið sem valdið hefði sviða. Vitnið hefði ráðlagt ákærða að skola klof stúlkunnar sem hann hefði og gert. Nóttina á eftir hefði brotaþoli ekki getað sofið og hún grátið. Hefði ákærði sagt vitninu frá því að hann hefði þá hringt í móður stúlkunnar og leitað ráða hjá henni. Aðspurt kvaðst vitnið sjálft ekki hafa orðið vitni að því símtali.

V

Í málinu er ákærða gefin að sök nauðgun og kynferðisbrot gegn barni, með því að hafa í tvö skipti á tímabilinu júlí til ágúst 2016, á heimili sínu að [...] í [...], með ólögmætri nauðung er falist hafi meðal annars í aldurs-, þroska- og aðstöðumun, látið dóttur sína, A, sem þá hafi verið fimm ára gömul, snerta getnaðarlim sinn og fróa sér, og í sömu skipti snert kynfæri stúlkunnar með fingrum sínum og fróað sjálfum sér í návist hennar.

Ákærði neitar sök. Framburður hans fyrir dómi er rakinn í kafla II hér að framan. Hefur ákærði sagt sakargiftir á hendur honum vera á misskilningi byggðar. Í skýrslu sinni vísaði ákærði til þriggja tilvika sem á honum var að skilja að hann teldi geta verið ástæðu þessa misskilnings. Um framburð ákærða varðandi þau tilvik vísast til þess sem áður er rakið í tilvitnuðum kafla dómsins.

Sakargiftir í málinu samkvæmt ákæru eru reistar á framburði brotaþola sem hún gaf fyrir dómi í Barnahúsi. Við þá skýrslugjöf kom fram hjá stúlkunni að hún hefði sagt ömmusystur sinni frá því að hún hefði „mátt snerta typpið“ á pabba sínum. Það hefði hún gert í baði. Þá hefði ákærði líka mátt „... snerta klobbann minn en það bara kitlaði.“ Þetta hefði gerst í tvö skipti inni á klósetti heima hjá pabba hennar á meðan þau voru í baði. Hún hefði þá verið fimm ára. Ákærði hefði sagt stúlkunni að hafa hljótt á meðan hann var að gera þetta. Þegar brotaþoli var spurð að því hvernig hún hefði snert typpið á pabba sínum lýsti hún því þannig með látbragði að hún kreppti fingur að lófa og hreyfði höndina upp og niður. „Og eftir smá stund að þá kemur svona hvítt vatn upp úr því ...“ sagði stúlkan. Spurð að því hvernig hún vissi að það kæmi hvítt vatn upp úr typpinu svaraði brotaþoli: „Af því að ég er búin að prufa þetta. ... Og ég er líka búin að sjá það þegar pabbi er búinn að gera þetta.“ Spurð um hvert það fór sem upp úr typpinu kom svaraði brotaþoli: „Það fór bara niður í baðið.“ Sérstaklega spurð um hvort þeirra það hefði verið sem var að gera „eitthvað“ við typpið þegar það kom „eitthvað“ upp úr því svaraði stúlkan: „Ég held að það væri pabbi, ég get ekki gert svona lengi og hratt eins og pabbi ...“ Spurð að nýju um hvernig ákærði hefði borið sig að kreppti stúlkan fingur að lófa og hreyfði höndina upp og niður. Typpið sagði brotaþoli hafa verið langt.

Svo sem fram kemur í kafla IV hér að framan greindi ömmusystir brotaþola, C, svo frá fyrir dómi að er hún hefði verið á leið í sund með brotaþola 22. ágúst 2016 hefði stúlkan upp úr þurru og að eigin frumkvæði sagt vitninu frá því að pabbi hennar hefði verið að þukla og nudda kynfæri hennar. Þau hefðu verið stödd á heimili ákærða er það gerðist. Kom fram hjá vitninu að stúlkan hefði þegar hún sagði frá farið með hendurnar í klofið á sér og sýnt með látbragði hvað pabbi hennar hefði gert. Bað vitnið stúlkuna um að endurtaka frásögn sína og tók vitnið hluta frásagnar hennar upp og liggur sú upptaka frammi í málinu. Eftir sundferðina hefði brotaþoli farið að spyrja vitnið að því hvort því þætti það eðlilegt ef hún myndi snerta kynfæri þess. Vitnið sagðist hafa svarað því afdráttarlaust neitandi og sagt stúlkunni að það svæði væri einkasvæði hvers og eins. Brotaþoli hefði þá greint vitninu frá því að hún hefði snert ákærða, strokið honum og nuddað. Sýndi vitnið með handahreyfingu hvernig stúlkan hefði hreyft höndina upp og niður er hún lýsti þeim athöfnum.

Að kvöldi þessa sama dags greindi C móður brotaþola, B, frá því sem stúlkan hafði sagt henni og sýndi henni fyrrnefnda upptöku. Fyrir dómi bar C að um kvöldið hefði hún rætt við dóttur sína og hefði stúlkan þá endurtekið frásögn sína. Nánar sagði vitnið stúlkuna hafa greint frá því að ákærði hefði leyft henni að snerta á sér typpið. Brotaþoli hefði sýnt vitninu hvernig hún hefði „leikið“ við typpið með því að hreyfa höndina upp og niður. Látbragð stúlkunnar hefði verið líkt fróun. Þá hefði brotaþoli sagt ákærða hafa „... verið að pota eitthvað í klobbann á henni.“ Stúlkan hefði sagt þetta hafa gerst nokkrum sinnum þegar hún hefði verið í baði með ákærða á heimili hans að [...] í [...] og hefðu þau verið ein inni á baðherberginu.

Vætti móður brotaþola og ömmusystur hennar er framburði brotaþola til stuðnings. Þá fær frásögn stúlkunnar jafnframt eindregna stoð í vottorði G sálfræðings, sem dagsett er 27. nóvember 2017, en efni vottorðsins er reifað í kafla III.B hér að framan. Í vottorðinu er meðal annars til þess vísað að brotaþoli hafi í viðtölum á mjög grafískan hátt, rétt eins og í skýrslutökunni í Barnahúsi, lýst atvikum með handahreyfingum. Hafi það endurtekið gerst í viðtölunum að brotaþoli ræddi atvikið með þessum hætti, að fyrra bragði og í frjálsri frásögn. Þá segir í vottorðinu að svo virðist sem brotaþoli hafi komist í kynni við kynferðislegar athafnir löngu áður en hún hafði þroska til að takast á við slíkt. Stúlkan hafi verið sjálfri sér samkvæm í meðferðarviðtölum og tjáð sig greiðlega um ætluð brot og líðan sína þeim tengdum, bæði í frjálsri frásögn og í gegnum leik. Margt af því sem fram hafi komið hjá brotaþola samrýmist því sem alþekkt sé á meðal ungra barna sem sætt hafa kynferðisofbeldi.

Frásögn brotaþola fær einnig stoð í framburði G fyrir dómi. G sagði viðtöl hennar við brotaþola vera orðin 25 talsins og væri meðferðinni ekki lokið. Hún sagði brotaþola hafa verið skýra og greinargóða í viðtölunum. Tók G sérstaklega fram að í viðtölunum hefði hún ekki spurt brotaþola út í umrædd atvik, enda það ekki tilgangur meðferðarinnar að staðfesta það sem fram hefði komið í skýrslutökunni. Brotaþola hefði verið mjög hugleikið að hún hefði gert alveg jafn rangt og pabbi hennar. Hún hefði gert sömu mistökin, hún hefði líka snert einkastaði hans. G kvað brotaþola hafa verið mjög sannfærandi af svona ungu barni að vera og hún verið staðföst í frásögn sinni. Þá hefðu lýsingar stúlkunnar verið mjög myndrænar. „Hún er að lýsa eigin reynsluheimi en ekki einhverju sem að hún hefði getað haft hugmyndir um á annan hátt.“ Það sagði G hafa verið mjög skýrt „... af því að þetta er svo endurtekið og hún er svo upptekin af þessu.“

Eins og rakið hefur verið liggur fyrir stöðugur og greinargóður framburður brotaþola af þeim atvikum sem ákæra máls þessa tekur til. Svo sem fram kom hjá G sálfræðingi fyrir dómi hefur stúlkan lýst atvikum sem vandséð er að hún hefði getað lýst með þeim hætti sem hún gerði öðruvísi en að hafa upplifað þau sjálf. Skýringar þær sem ákærði hefur gefið á frásögn stúlkunnar fá hins vegar hvorki haldbæra stoð í framburði vitna né framlögðum gögnum. Með vísan til þessa og alls framangreinds er það mat dómsins að framburður brotaþola sé afar trúverðugur og í góðu samræmi við framburð annarra vitna og framlögð gögn í málinu. Þykir því mega slá því föstu með vísan til framburðar brotaþola og þess sem honum er til stuðnings samkvæmt framansögðu, gegn neitun ákærða, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Er háttsemi ákærða þar réttlega heimfærð til refsiákvæða, en fallast verður á það með ákæruvaldinu að í þeim aldurs-, þroska og aðstöðumun sem var á ákærða og brotaþola hafi falist ólögmæt nauðung í skilningi 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

VI

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins á ákærði lítinn sakaferill að baki, sem ekki hefur áhrif á ákvörðun refsingar hans í málinu.

Við ákvörðun refsingar ákærða er til þess að líta að brotaþoli var einungis 5 ára er ákærði braut gegn henni. Brot ákærða voru alvarleg og nýtti hann sér þá yfirburðastöðu sem hann hafði gagnvart dóttur sinni. Skal litið til þessara atriða við ákvörðun refsingar ákærða, sbr. 1., 2., 6. og 7. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Þá horfa hin nánu fjölskyldutengsl sem eru á milli ákærða og brotaþola honum sérstaklega til refsiþyngingar, sbr. 3. mgr. 70. gr. sömu laga.

 Brot gegn 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga varða fangelsi ekki skemur en í 1 ár og allt að 16 árum. Með vísan til þess sem að framan er rakið og að virtum dómafordæmum Hæstaréttar Íslands þykir refsing ákærða réttilega ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.

VII

Í málinu krefst brotaþoli miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 3.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. ágúst 2016, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi er liðinn var mánuður frá birtingu bótakrakröfunnar.

Samkvæmt framansögðu hefur dómurinn slegið því föstu að ákærði hafi brotið gegn fimm ára gamalli dóttur sinni svo varði við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með hinni refsiverðu háttsemi hefur ákærði bakað sér bótaábyrgð gagnvart brotaþola á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Bætur fyrir miska skulu ákvarðaðar eftir því sem sanngjarnt þykir og við mat á fjárhæð þeirra skal einkum líta til alvarleika brotsins, sakarstigs brotamanns, huglægrar upplifunar brotaþola og loks umfangs tjónsins. Í dómaframkvæmd hefur því verið slegið föstu að brot af því tagi sem hér um ræðir séu almennt til þess fallin að valda þeim sem fyrir verður sálrænum erfiðleikum. Þá eru hin nánu fjölskyldu­tengsl sem eru á milli ákærða og brotaþola til þess fallin að auka verulega á miska hennar.

Við mat á miskabótum til handa brotaþola þykir mega líta til vottorðs G sálfræðings frá 27. nóvember 2017, en efni vottorðsins er reifað í kafla III.B hér að framan. Í vottorðinu kemur meðal annars fram að afleiðingar kynferðisbrota séu oft langvarandi og algengt sé að fólk glími við afleiðingar slíkra brota á mismunandi skeiðum lífsins, t.d. á unglingsárum, í tengslum við kynlíf, meðgöngu eða fæðingar og í tengslum við áföll síðar á lífsleiðinni. Því sé með engu móti hægt að útiloka, þrátt fyrir að brotaþoli sýni ekki skýr merki um vanlíðan nú, að hún þurfi síðar á lífsleiðinni að leita sér frekari sérfræðiaðstoðar. Þvert á móti gætu viðbrögð hennar nú orðið til þess að hún upplifi tilfinningu um sektarkennd og skömm síðar sem gæti þurft að vinna úr. Börn geti upplifað slíkar tilfinningar ef þeim finnst þau hafa samþykkt meint brot og verið sjálfviljugir þátttakendur í kynferðislegum athöfnum með fullorðnum aðila, og enn frekar ef sá aðili er nátengdur barninu. Þótt brotaþoli uppfylli ekki greiningarskilmerki áfallastreitu­röskunar í dag sé því ekki hægt að útiloka greiningu áfallastreituröskunar síðar á lífsleiðinni í tengslum við brot ákærða.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykja miskabætur til handa brotaþola réttilega ákvarðaðar 1.700.000 krónur. Um vexti og dráttarvexti af kröfunni fer svo sem í dómsorði greinir, en krafan var birt ákærða 26. október 2016, sbr. framlagða lögregluskýrslu dagsetta þann dag.

VIII

Með vísan til sakfellingar ákærða, sbr. 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður honum gert að greiða allan sakarkostnað málsins. Ákærði dæmist því til að greiða sakarkostnað samkvæmt framlögðu yfirliti héraðssaksóknara, dagsettu 28. nóvember 2017, samtals 113.000 krónur. Ákærði greiði einnig þóknun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar lögmanns, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sigurðar Freys Sigurðssonar lögmanns, en þóknun hvors þeirra um sig þykir að gættu umfangi málsins hæfilega ákveðin svo sem í dómsorði greinir.

Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Kristinn Halldórsson, sem dómsformaður, Ástríður Grímsdóttir og Bogi Hjálmtýsson. Fyrir uppsögu dómsins var gætt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.

Ákærði greiði samtals 1.483.200 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar lögmanns, 737.800 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sigurðar Freys Sigurðssonar lögmanns, 632.400 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.

Ákærði greiði brotaþola, A, 1.700.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. ágúst 2016 til 26. nóvember 2016, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

 

Kristinn Halldórsson

Ástríður Grímsdóttir

Bogi Hjálmtýsson