• Lykilorð:
  • Fjárnám
  • Tryggingarbréf
  • Skuldamál

Ár 2019, miðvikudaginn 27. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er að Fjarðargötu 9, Hafnarfirði, kveðinn upp í máli nr. E-945/2019:

 

                                                Landsbankinn hf.

                                                (Guðrún Hólmgeirsdóttir lögmaður)

                                                gegn

                                                Björgu Gísladóttur

                                                og

                                                Kristjáni Pálssyni

                                                (Gísli Guðni Hall lögmaður)

d ó m u r :

Mál þetta höfðaði stefnandi, Landsbankinn hf., kt. 000000-0000, Austurstræti 11, Reykjavík, á hendur stefndu, Björgu Gísladóttur, kt. 000000-0000, Kópavogsbakka 1, Kópavogi, og Kristjáni Pálssyni, kt. 000000-0000, Bakkagerði 12, 730 Fjarðabyggð, með stefnu sem þingfest var þann 3. október 2018.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði með dómi gert að þola að fjárnám verði gert vegna skuldar Fiskislóðar 37 ehf., kt. 000000-0000, við stefnanda, að fjárhæð 201.328.452 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 03.10.2014 til greiðsludags, að frádregnum innborgunum á 35.656.916 krónum þann 07.11.2014 og 1.107.967 krónum þann 21.06.2018, inn í veðrétt samkvæmt tryggingarbréfi nr. [...], útgefnu þann 18.07.2008, upphaflega að höfuðstólsfjárhæð 20.000.000 króna, með grunnvísitölu 271,1 stig, sem breytist í samræmi við vísitölu neysluverðs, áhvílandi á fasteign stefndu að Þrastarási 71, Hafnarfirði, fnr. 225-0820.

Einnig er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi. Auk þess er krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda. Að auki er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda. 

Málsatvik:

Samkvæmt gögnum málsins sótti ÞJ II ehf., nú Fiskislóð 37 ehf., kt. 000000-0000, um myntveltureikning þann 10.08.2007 hjá stefnanda. Í umsókninni kemur fram að sótt var um að fá að opna myntveltureikning f.h. ÞJ II ehf. nr. [...] í Landsbanka Íslands við útibú Landsbanka Íslands hf., kt. 000000-0000, að Austurstræti 11, Reykjavík, samkvæmt þeim skilmálum sem um hann giltu og umsækjandi hafði þegar kynnt sér. Var reikningurinn í mynt CHF. Kemur fram í umsókninni að tilgangur reikningsins sé vegna atvinnurekstrar og uppruni fjármuna sé hjá lántaka. Þá kemur fram að áætluð mánaðarleg velta reikningsins sé minni en 25.000.000 króna. Þeir sem höfðu heimild til að ávísa og taka út af reikningnum voru Þormóður Jónsson og Páll Kristjánsson. Gilti umsóknin frá 13. mars 2007 en er undirrituð 10. ágúst 2007. Þá liggur fyrir yfirlit yfir myntveltureikning nr. [...] fyrir tímabilið 31.12.2008 til 19.02.2009 þar sem fram kemur að fært hafi verið frá síðasta yfirliti CHF 2.627.382.84, skuldavextir CHF 8.436,80 og vanskilakostnaður CHF 7,78. Í stjórn ÞJ II ehf. voru Páll Kristjánsson og Þormóður Jónsson.

Þann 18. júlí 2007 undirritaði Þormóður Jónsson, sem stjórnarmaður í ÞJ II ehf. og þinglýstur eigandi, auk maka þinglýsts eiganda, tryggingarbréf að fjárhæð 20.000.000 króna auk dráttarvaxta, verðbóta, lögbundinna vanskilaálaga, kostnaðar við kröfugerð, innheimtu- og málskostnaðar, kostnaðar af fjárnámsgerð og frekari fullnustugerðum, annars kostnaðar sem af vanskilum kynni að leiða og aukagreiðslna, svo sem útlagðra tryggingariðgjalda vegna hins veðsetta. Var tryggingarbréfinu þinglýst þann 27. júlí 2007 á annan veðrétt fateignarinnar Einihlíðar 12 í Hafnarfirði. Þann 14. maí 2008 fór fram veðflutningur á ofangreindu tryggingarbréfi og var það flutt yfir á fasteign að Þrastarási 71 í Hafnarfirði og þinglýst á 1. veðrétt eignarinnar. 

Þann 21. febrúar 2000 veitti sýslumaðurinn í Hafnarfirði Páli S. Kristjánssyni heimild til setu í óskiptu búi eftir lát konu hans. Var fasteign dánarbúsins m.a. fasteignin að Einihlíð12 í Hafnarfirði. Skiptayfirlýsing var gefin út þann 17. mars 2008 þar sem Páll Kristjánsson var eigandi að 50 hundraðshlutum auk 1/3 hlut Einihlíðar 12 og Kristján Pálsson að 2/3 hlutum.

Þann 16. maí 2008 samþykktu þinglýstir eigendur að Einihlíð 12 í Reykjavík og þinglýstir kaupsamningshafar, Kristján Pálsson og Björg Gísladóttir, að Þrastarási 71 í Hafnarfirði, veðflutning þannig að ofangreint tryggingarbréf að fjárhæð 20.000.000 króna var tryggt með 1. veðrétti í fasteigninni að Þrastarási 71 í Hafnarfirði. Var fasteignin Einihlíð 12 í Reykjavík á sama tíma leyst undan veðböndum.

Þann 4. júlí 2008 afsöluðu Kristján Pálsson og Páll Kristjánsson einbýlishúsinu að Einihlíð 12 í Reykjavík til kaupenda. Þann sama dag undirrituðu Kristján Pálsson og Björg Gísladóttir samning sem kaupendur íbúðar að Þrastarási 71 í Hafnarfirði. Tekið er fram í afsalinu að áhvílandi veðskuldir séu yfirteknar eins og þær standi við áætlaðan afhendingardag, þ.e. framreiknaður höfuðstóll í skilum og án áfallinna vaxta. Var seljandi eignarinnar að Þrastarási einn kaupenda fasteignarinnar að Einihlíð 12 í Reykjavík. Samkvæmt þessum tímasetningum hafði veðflutningur tryggingarbréfsins átt sér stað þegar stefndi Kristján seldi hluta sinn í Einihlíð 12 og keypti eignina að Þrastarási ásamt Björgu Gísladóttur.

Þann 17.04.2012 var eiganda reikningsins [...] sent bréf þar sem fram kom að myntveltureikningurinn hafi verið endurútreiknaður í samræmi við lög nr. 151/2010 um breytingar á lögum nr. 38/2001, sem kveða á um endurútreikning lána með ólögmætri gengistryggingu. Miðaði endurútreikningurinn við lægstu óverðtryggðu vexti sem Seðlabanki Íslands birtir, sbr. 10. gr. sömu laga. Staða myntveltureikningsins fyrir endurútreikning var neikvæð um 254.911.202 krónur en eftir endurútreikning var staða reikningsins neikvæð um 201.315.862 krónur, en endurútreikningur miðaðist við 16.04.2012. Við endurútreikning fékk reikningurinn nr. [...] nýtt númer, nú samkvæmt yfirdrætti á veltureikningi nr. [...] í útibúi Landsbankans. Þann 11. október 2012 í máli nr. 467/2011 kvað Hæstiréttur upp dóm þess efnis að yfirdráttarlán á gjaldeyrisreikningum væru gild lán í erlendum gjaldmiðli. Samkvæmt dómnum er ljóst að endurútreikningur myntveltureikningsins var umfram skyldu bankans. Yfirdráttarskuldin var því ekki endurreiknuð frekar. Þann 21.10.2014 ráðstafaði stefnandi handveðsettri innistæðu á bankareikningi nr. [...], að fjárhæð 35.656.916 krónur, inn á skuldina. Þá var 1.107.967 krónum ráðstafað inn á skuldina þann 21.06.2018.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum þann 21.06.2016 var bú Fiskislóðar 37 ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Lýsti stefnandi kröfum í þrotabúið. Engar eignir voru í búinu og lauk skiptum á því þann 21.01.2013, skv. 155. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991, án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur.

   Þann 29. júlí 2013 og 16. desember 2015 var stefndu sent innheimtubréf svo og áminning þann 28. október 2014. Þann 11. febrúar 2016 var í Héraðsdómi Reykjavíkur þingfest mál stefnanda á hendur stefndu, mál nr. E-445/2016. Í því máli krafðist stefnandi þess að honum yrði heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt samkvæmt framangreindu tryggingarbréfi vegna skuldar samkvæmt framangreindum veltureikningi. Í kjölfar m.a. dóms Hæstaréttar í máli nr. 649/2016 ákvað stefnandi að fella málið niður, þar sem ekki var með skýrum hætti tilgreint fyrir hvaða fjárkröfu bankinn krefðist að sér yrði heimilað að gera fjárnám fyrir í veðréttindum sínum skv. tryggingarbréfinu. Var málið því fellt niður þann 02. febrúar 2018.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því að kröfur hans á hendur Fiskislóð 37 ehf. njóti veðréttar í áðurgreindri fasteign stefndu á grundvelli fyrrgreinds tryggingarbréfs. Fiskislóð 37 ehf. skuldi stefnanda meira en sem nemi hámarki tryggingarbréfsins og því beri að heimila stefnanda að gera fjárnám inn í þann veðrétt sem stefnandi á í eignarhlutum stefndu í umræddri fasteign fyrir kröfum stefnanda. Fiskislóð 37 ehf. sé skuldari samkvæmt áðurgreindum veltureikningi en ekki sé unnt að höfða mál í héraði gegn þrotabúinu, skv. 116. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi hafi ekki tryggt sér aðfararhæfa kröfu á hendur félaginu áður en bú þess var tekið til gjaldþrotaskipta og sé stefnanda því nauðsynlegt að fá dóm um að honum sé heimilað fjárnám í umræddri fasteign stefnda að því marki sem veðtryggingin tekur til dómkröfunnar samkvæmt ákvæðum tryggingarbréfs nr. [...].

Stefnandi byggir á því að framangreint tryggingarbréf sé allsherjarveð og hafi hvorki að geyma beina aðfararheimild, skv. 1. gr. laga um aðför nr. 90/1989, gagnvart stefndu, sem veðeigendum, né beina uppboðsheimild skv. 6. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991. Sé stefnanda því nauðsynlegt að höfða mál þetta til þess að fá aðfararhæfan dóm fyrir kröfu sinni til þess að unnt sé að gera fjárnám í fasteign stefndu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, og eftir atvikum í kjölfarið að selja hinu veðsettu eign nauðungarsölu til fullnustu kröfu stefnanda.

Stefnandi byggir málsókn sína á tryggingarbréfi nr. [...] og skilmálum þess, sem og myntveltureikningi nr. [...]. Stefnandi byggir einnig á dómafordæmum Hæstaréttar í dómasafni 1943, blaðsíðu 4, hæstaréttardómi nr. 235/1997 og nr. 90/1999 um fullnustu á veðrétti þegar málavextir eru með þeim hætti sem um ræðir í þessu máli. Enn fremur vísar stefnandi til dóms Hæstaréttar 27. janúar 2011 í máli nr. 313/2010, m.a. að því er varðar kröfugerð.

Staða skuldarinnar samkvæmt yfirdrætti á reikningi nr. [...] sé að fjárhæð 201.328.452 krónur auk dráttarvaxta og kostnaðar, að frádregnum innborgunum að fjárhæð 35.656.916 krónur og 1.107.967 krónur. Vísitala neysluverðs til verðtryggingar í september 2018 sé 454,6 stig og sé uppreiknuð staða höfuðstóls tryggingarbréfs nr. [...] því 33.537.440 krónur.

Stefnandi krefst þess að dráttarvextir af höfuðstól skuldar Fiskislóðar 37 ehf. við stefnanda reiknist frá 03. október 2014 til greiðsludags, en upphafsdagur dráttarvaxtakröfunnar sé sá dagur þegar fjögur ár voru fram að þingfestingu þessa máls.

Hvað aðild Landsbankans hf. varði þá tók Fjármálaeftirlitið (FME), með heimild í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., þá ákvörðun að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. Ákvörðun FME um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf., kt. 000000-0000, til Nýja Landsbanka Íslands hf., kt. 000000-0000, nú Landsbankinn hf., kt. 000000-0000, er dagsett þann 09.10.2008.

Stefnandi byggir kröfur sínar á meginreglum kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga og fullnustu á veðrétti kröfueiganda. Einnig er vísað til samningsveðlaga nr. 75/1997, einkum 3. mgr. 4. gr., 5. gr., 1. mgr. 9. gr. og 15. til 20. gr. laganna og til laga nr. 90/1991 um meðferð einkamála. Þá er vísað til laga nr. 90/1989 um aðför en samkvæmt lögunum er stefnanda nauðsynlegt að fá dóm um heimild til aðfarar svo að fullnusta megi veðið með aðför og síðar nauðungarsölu. Þá vísast til ákvæða tryggingarbréfsins og þeirra lagaákvæða sem þar er vísað til. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur og ber honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. Varðandi varnarþing vísast til 1. mgr. 42. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Hvað varðar samaðild stefndu er vísað til 18. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um aðild stefnanda vísast til 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og til ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins.

Málsástæður og lagarök stefndu.

Stefndu krefjast sýknu í máli þessu. Stefndu kveðast aldrei hafa fengið öll gögn málsins frá stefnanda þrátt fyrir áskorun þess efnis, síðast í greinargerð sinni. Stefndu hafi ekki verið aðilar að viðskiptum við stefnanda að öðru leyti en að þau hafi verið veðsalar. Til þess að geta tekið afstöðu til kröfu stefnanda þurfi þau allar upplýsingar sem liggi að baki viðskiptum milli stefnanda og Fiskislóðar 37 ehf. Þá þurfi þau að sjá frumrit af öllum skjölum er varði ábyrgð þeirra sem veðsalar.

Kveða stefndu að eins og málið horfi við þeim hafi Páll Kristjánsson og Þormóður Jónsson sótt um gengistryggt lán hjá stefnanda til kaupa á lóðum við Fiskislóð 35-37 í Reykjavík snemma árs 2007 og fengið tryggingar fyrir því láni í formi innistæðu á veðsettum bankareikningi. Hafi bankinn veitt lán til kaupanna og fengið umræddar tryggingar. Í millibilsástandi hafi lánveiting verið í formi skammtímafjármögnunar á yfirdráttarreikningi. Bankinn hafi aldrei staðið við þau lánsloforð til þess að framkvæmdir gætu hafist heldur kallað Pál og Þormóð á fund seinnipart sumars 2007, þegar krónan hafði veikst og lausafjárerfiðleikar farnir að gera vart við sig í bankanum, og krafist meiri trygginga en áður hafði verið farið fram á vegna gengisbreytinga, og hótað því að fella skammtímalánið niður ef þeir kæmu ekki með viðbótartryggingu og það þegar í stað. Þarna hafi þeim verið stillt alveg upp að vegg og þeir horft upp á að tapa öllu því sem þeir höfðu lagt í fjárfestinguna. Við þessar aðstæður hafi þeir lagt fram viðbótarveð, Páll í formi fasteignatryggingarinnar sem mál þetta sé út af. Páll sé ekki eigandi fasteignarinnar og sé um að ræða móðurarf sonar hans, Kristjáns, og telji stefndu að bankanum hafi verið það ljóst. Veð stefndu komi þó ekki til fyrr en í maímánuði 2008.

Stefndu byggja á því að ógilda beri veðsetninguna með vísan til reglu samningaréttarins um brostnar forsendur, 33. og eða 36. gr. samningalaganna nr. 7/1936.  Byggja þau einkum á eftirfarandi í því sambandi:

1. Bankinn hafi ekki staðið við veitt lánsloforð, sem sé ástæða þess að ekki tókst að búa til verðmæti úr fjárfestingunni.  Fjárfestingin hafi, eðli máls samkvæmt, verið ákveðin á þeirri forsendu að téð lán yrði veitt. Vísast til dóms Hæstaréttar í máli nr. 258/2017 til samanburðar.

2. Lán á svokölluðum myntveltureikningi var hugsað sem bráðabirgðafyrirkomulag þar til gengið yrði frá formlegri lánveitingu en allt hafi þetta verið samkvæmt ráðleggingum bankans.

3. Lánið hafi verið gengistryggt lán, andstætt ófrávíkjanlegum ákvæðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Það athugist að það mun aldrei hafa verið gengið formlega frá lánveitingunni, en þetta hafi verið forsendur hennar, og forsendur fyrir því að bankinn krafðist án nokkurs fyrirvara aukinna trygginga – trygginga sem mál þetta snúist um.

4. Það hafi verið óeðlilegt af bankanum að krefjast viðbótartrygginga við þær aðstæður sem uppi hafi verið.  Fyrirvari hafi enginn verið og þetta farið fram á lokuðum fundi sem stefndu hafi ekki setið, og engin bréf verið send. Hafi þetta verið andstætt góðum viðskiptaháttum og venjum, sem fjármálafyrirtækjum beri að fara eftir, sbr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þá liggi ekki ljóst fyrir stefndu á hverjum fjárhagslegum forsendum viðbótartryggingar hafi verið krafist á umræddu tímamarki, en eftir því sem stefndu komast næst hafi það verið vegna gengisbreytinga, sem einmitt styði að um gengistryggt lán hafi verið að ræða, þannig hafi lánveitingin verið hugsuð, það hafi verið vilji aðila, þó svo að bankinn hafi á hverjum tíma haft í hendi sér að ákveða formið á lánveitingunni. Í þessum efnum hafi lánþeginn verið háður ákvörðunum bankans.

5. Eftir þau ár sem liðin séu frá bankahruninu haustið 2008 liggi ljóst fyrir hverjar meginorsakir þess hafi verið. Þær megi allar rekja til viðskiptahátta bankanna sjálfra. Þær helstu séu:

1. Markaðsmisnotkun þeirra. Nú þegar hafi verið dæmt að háttsemi Landsbanka Íslands hf. á verðbréfamarkaði hafi ekki verið annað en skipulögð og kerfisbundin markaðsmisnotkun og refsiverð sem slík, samkvæmt 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr., laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.  Sem sönnun um þetta vísi stefndu til dóms Hæstaréttar í máli nr. 842/2014, en þar sé reifað í löngu máli að brot lykilstjórnenda bankans, m.a. forstjóra, hafi verið umfangsmikil, þaulskipulögð og staðið yfir í langan tíma. Þau hafi leitt til alvarlegrar röskunar á verðbréfamarkaði með víðtækum afleiðingum fyrir fjármálmarkaðinn hér á landi og allan almenning, tjónið verði ekki metið til fjár.  Þótt ákærutímabil hafi einungis náð aftur til 1. nóvember 2007 megi ráða af forsendum dómsins að háttsemin sem um ræði hafi varað miklu lengur aftur í tímann heldur en ákærutímabilið.

2.  Með nýlegum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1463/2014, uppkveðnum 19. febrúar 2016, sé sýnt hvernig Landsbanki Íslands hf. hafi í engu skeytt um hagsmuni viðskiptamanna sinna.

3. Veiting gengistryggðra lána. Lánamarkaður á Íslandi einkenndist af óhæfilegum vaxtamun milli lána í íslenskri mynt og lána í erlendri mynt / gengistryggðra lána. Samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 hafi gengistryggð lán beinlínis verið bönnuð, en rökin fyrir því banni voru að með slíkum lánum, einkum og sér í lagi til almennings, væri fjármálastöðugleika í landinu ógnað. Íslensku bankarnir hafi fundið sér einhvers konar leið út úr þessu, með því að veita almenningi lán sem sögð voru „jafnvirðislán“ eða „myntkörfulán“, og þá án nokkurs tillits til þess hvort lánþegar hefðu einhverjar tekjur í erlendum myntum til að standa undir greiðslubyrðinni. Enda hafi það jafnan verið þannig að lánin voru reiknuð í íslenskum krónum, og innheimt í íslenskum krónum. Tilgreining erlendra mynta hafi þjónað þeim tilgangi að vera gengisviðmiðun, þar sem bankarnir veltu áhættu af gengisbreytingum yfir á lánþegann. Þetta hafi þeir gert í ótrúlega miklum mæli og án nokkurs tillits til fjármálastöðugleika, og þar með getu fólks til að bera áhættuna. Svo virðist sem Landsbanki Íslands hf. hafi verið í fararbroddi hér á landi í þessum lánveitingum, en nú þegar liggi fyrir margir dómar Hæstaréttar í málum er varði lánveitingar bankans, sem dæmdar hafa verið ólögmætar. Stefndu fullyrða að þessar lánveitingar hafi samtals numið mörg hundruð milljörðum íslenskra króna.   

4. Með óeðlilegum lánsviðskiptum við Seðlabanka Íslands hafi verið búið svo um hnútana að bankarnir, þ.m.t. Landsbanki Íslands hf., hafi haft óheftan aðgang að lausafé frá Seðlabanka Íslands fyrir milligöngu þriðja aðila, oft Sparisjóðabanka Íslands hf. Fyrirkomulagið á lánveitingu hafi þá verið þannig að þessi þriðji aðili hafi fengið lán frá Seðlabankanum, sem hann hafi endurlánað bönkunum gegn skuldaviðurkenningu þeirra, sem þriðji aðilinn hafi aftur sett sem veð til Seðlabankans. Með þessu móti var að nokkru farið fram hjá reglu 1. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001, sem áskilur að Seðlabankinn veiti eingöngu lán gegn veði, eða ella neyðarlán eftir öðrum ákvæðum. Með þessari aðferð hafi verið farið fram hjá þessari reglu með því að skuldaviðurkenningar bankanna hafi ekki verið eiginleg veð, þar sem þeir voru í reynd sjálfir lántakendurnir. Þessi viðskipti hafi leitt til hundraða milljarða tjóns fyrir ríkissjóð er yfir lauk. Með þessu fyrirkomulagi hafi bankarnir séð við lausafjárvanda sínum, þ.e. í íslenskum krónum, en á móti hafi þetta verið enn ein rótin að gengisfalli íslensku krónunnar. Nánar um þessi viðskipti vísa stefndu til upplýsinga í dómi Hæstaréttar í máli nr. 130/2016 og umfjöllunar í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir og aðdraganda falls íslenska fjármálakerfisins, en lagðar eru fram sem dskj. 18 orðréttar tilvitnanir í skýrsluna.

6. Stefndu vísa til samkomulags Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja f.h. aðildarfélaga sinna, Sambands íslenskra sparisjóða f.h. sparisjóða, Neytendasamtakanna og viðskiptaráðherra af hálfu stjórnvalda um samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001. Það hafi verið markmið samkomulagsins, og nú laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009, að draga úr vægi einstaklingsábyrgða, hvort sem væri í formi sjálfskuldarábyrgðar eða veðsetningar. Þó svo að samkomulagið eigi ekki beint við eins og gildissviðs þess er skilgreint, þá sé rétt að líta til þessara markmiða og þá einkum og sér í lagi þegar litið sé til þess hvernig bankinn hafi staðið að því að komast yfir veðið sem um ræðir án þess að hafa staðið við sitt.

7.  Það sem að framan hefur verið sagt um íslensku bankana á allt sérstaklega við um Landsbanka Íslands hf., sem var umsvifamikill í öllum þeim viðskiptum sem hér hafa verið gagnrýnd.  Samkvæmt því sem að framan hefur verið rakið fá stefndu ekki betur séð en að forsendur þess að bankinn krafðist viðbótartrygginga úr hendi Páls Kristjánssonar, þ.e. tryggingarinnar sem mál þetta snýst um, megi rekja til viðskiptahátta bankans sjálfs, og án þess að hann hafi nokkru skeytt um hagsmuni lántakandans og hvað þá stefndu, sem eingöngu voru veðsalar. Bankinn átti að vita betur í ljósi upplýsinga sem hann hafði um áhættu, sem lántakandinn, forsvarsmenn hans og hvað þá stefndu höfðu ekki. Hagsmunir stefndu voru því fyrir borð bornir í þessum viðskiptum og telja stefndu það jafnframt vera líklega skýringu þess hvernig bankinn bar sig að í því að komast yfir trygginguna, og hvers vegna bankinn hefur ekki orðið við kröfum lögmanns stefndu um að afhenda öll gögn bankans um viðskiptin.

8.  Stefndu árétta að þó svo að krafa stefnanda sé sett fram í nafni Landsbankans hf., þ.e. nýja bankans, þá hafi hann ekki öðlast ríkari rétt gagnvart stefndu en fyrirrennari hans hafi átt og að stefndi hafi ekki orðið fyrir neinum mótbárumissi fyrir framsal kröfunnar. Stefndu byggja á því að það sé bæði óheiðarlegt og bersýnilega ósanngjarnt af stefnanda að halda fram kröfunni gegn þeim eins og hann geri. Stefndu byggja á að þegar þessi atvik og aðstæður séu virt í heild séu skilyrði til að ógilda veðsetninguna á grundvelli 33. og/eða 36. gr. samningalaganna.

9. Stefndu byggja einnig á því, a.m.k. þar til annað kemur í ljós, að undirritanir til staðfestingar á veðrétti séu ekki fullnægjandi gildar undirritanir. 

Krafa um málskostnað er gerð með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Forsendur og niðurtaða.

Í máli þessu er ágreiningur aðila um hvort víkja beri til hliðar tryggingarbréfi sem að ofan er rakið á grundvelli 33. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 eða hvort stefndu séu bundin af veðsetningunni og efnislega af tryggingarbréfinu.

            Ekki er ágreiningur í málinu um fjárhæðir né útreikninga. Stefndu byggja á því í greinargerð að undirritanir til staðfestingar á veðrétti séu ekki fullnægjandi gildar undirritanir og jafnframt var skorað á stefnanda að leggja fram frumrit veðflutningsins. Það var ekki gert heldur liggur eingöngu fyrir ljósrit af þinglýstu eintaki. Stefndu komu ekki fyrir dóminn og voru undirritanir þeirra ekki bornar undir þau. Þar sem ekki hefur verið sýnt fram á að draga megi undirritanir stefndu í efa, verður ekki fjallað frekar um þessa málsástæðu stefndu.

            Eins og rakið er í málavaxtakaflanum undirrituðu þáverandi stjórnarmenn ÞJ II ehf. umsókn hjá stefnanda um myndveltureikning. Var sú umsókn samþykkt af stefnanda. Í kjölfarið undirrituðu þeir tryggingarbréf til tryggingar öllum skuldum og fjárskuldbindingum ÞJ II ehf., hvort sem þær voru samkvæmt víxlum, lánssamningum, skuldabréfum, yfirdrætti á tékkareikningi, hvers konar ábyrgðum og ábyrgðarskuldbindingum eða í hvaða öðru formi sem var, á hvaða tíma sem var og í hvaða gjaldmiðli sem var, allt að fjárhæð 20.000.000 króna, auk dráttarvaxta, verðbóta, lögbundinna vanskilaálaga, kostnaðar við kröfugerð, innheimtu og málskostnað, kostnaðar af fjárnámsgerð og frekari fullnustugerðum, annars kostnaðar sem af vanskilum kann að leiða og aukagreiðslna, svo sem útlagðra tryggingariðgjalda vegna hins veðsetta. Var ofangreind fjárhæð bundin vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við grunnvísitölu 271,1 og skyldi taka breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs miðað við þá grunnvísitölu en þó aldrei miðast við lægri vísitölu en grunnvísitölu tryggingarbréfsins. Var fasteignin að Einihlíð 12 í Reykjavík veðsett með 2. veðrétti. Í kjölfar þess eða þann 10. ágúst 2007 sótti stjórnarmaður ÞJ II ehf. um myndveltureikning hjá stefnanda og var umsóknin nr. [...]. Þann 27. janúar 2009 var millifært af reikningnum CHF 2.627.382.64 og þann 18. febrúar s.á. var reikningnum lokað. Eins og rakið er að framan var skuld ÞJ II. ehf. endurreiknuð  í samræmi við lög nr. 151/2010 um breytingar á lögum nr. 38/2001. Er ekki ágreiningur um útreikningana eins og segir að framan.

            Þann 16. maí 2008 undirrituðu stefndu skjal með heitinu „Veðflutningur. Ný veðsetning og veðbandslausn.“ Kom fram í skjalinu að ÞJ II ehf. væri skuldari, höfuðstóll 20.000.000 króna, útgáfudagur 18. júlí 2007, tiltekin grunnvísitala og af hvaða eign var verið að flytja lánið. Var nýtt veð fyrir skuldinni Þrastarás 71 í Hafnarfirði, íbúð 01-002. Voru stefndu þá kaupsamningshafar. Stefndi Kristján, sem er sonur Páls Kristjánssonar, var einnig eigandi að hluta að Einihlíð 12, þar sem tryggingarbréfið hafði áður hvílt á. Þegar stefndu undirrituðu afsal fyrir íbúðinni að Þrastarási 71 var tryggingarbréfið þá þegar áhvílandi á eigninni. Telur dómurinn að stefndu hafi verið fullljóst, þegar þau samþykktu veðflutninginn svo og undirrituðu afsal fyrir eigninni án þess að gera athugasemdir við að tryggingarbréfið væri áhvílandi, hver sú ábyrgð og áhætta var að veita heildarveð í fasteign sinni. Ekki hefur verið reynt að sýna fram á annað fyrir dómi.

            Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi ekki staðið við veitt loforð, sem sé ástæða þess að ekki hafi tekist að búa til verðmæti úr fjárfestingunni. Stefndu hafa ekki fært neitt fram um það fyrir dóminum að loforð stefnanda hafi ekki verið efnd. Gegn mótmælum stefnanda verður að hafna þessari málsástæðu stefndu. Þá hafa stefndu ekki sýnt fram á að umþrætt trygging hafi átt að vera bráðabirgðafyrirkomulag. Verður þessari málsástæðu stefndu því hafnað. Þá er þeirri málsástæðu stefndu um að yfirdrátturinn hafi verið gengistryggt lán hafnað en stefndu hafa ekki sýnt fram á að svo hafi verið. Þrátt fyrir það þá endurreiknaði stefnandi lánið umfram skyldu í ljósi genginna dóma Hæstaréttar þar um. Þá hafa stefndu ekki sýnt fram á að lánveitingin eða tryggingin fyrir henni hafi verið andstæð góðum viðskiptaháttum og venjum, sem fjármálafyrirtækjum beri að fara eftir, sbr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

            Stefndu telja að samkomulag Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja o.fl. frá 1. nóvember 2001 eigi ekki við í máli þessu en líta beri til þeirra markmiða sem stefnt var að við gerð þess samnings. Eins og margdæmt er um, þá gildir samkomulagið um skuldir og veðsetningar einstaklinga en ekki fyrirtækja.

            Stefndu byggja kröfur sínar um sýknu á 33. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Eins og mál þetta er búið hafa stefndu ekki sýnt fram á að veðsetning tryggingarbréfsins á Þrastarás 71 hafi verið ósanngjörn. Stefndu mótmæltu kröfu stefnanda ekki á neinn hátt fyrr en við þingfestingu málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í máli nr. E-455/2016, eða í átta ár, þrátt fyrir ítrekuð innheimtubréf og áminningar. Þá skiptir ekki máli í lögskiptum aðila staða þeirra en ekki hefur verið sýnt fram á að stefndu hafi átt undir högg að sækja eða verið í nauðbeygðri stöðu gagnvart stefnanda þegar þau samþykktu veðflutninginn. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að atvik máls á þeim tíma hafi verið með þeim hætti að stefndu hafi verið nauðbeygð til að undirrita veðflutninginn. Þá er ekkert í málinu, síðar til komið, sem heimfært verður undir 33. gr. eða 36. gr. laga nr. 7/1936. Verður að öllu ofansögðu virtu að hafna þessum málsástæðum stefndu. 

            Í greinargerð og við aðalmeðferð málsins rakti lögmaður stefndu m.a. aðdraganda bankahrunsins og aðkomu íslensku bankanna að því í löngu máli sem hefur enga þýðingu fyrir úrlausn máls þessa. Er slíkur skriflegur málflutningur í greinargerð andstæður 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991. 

   Að öllu framangreindu virtu verður dómkrafa stefnanda tekin til greina.

   Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verða stefndu dæmd in solidum til að greiða stefnanda 500.000 krónur í málskostnað. Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

   Ástríður Grímsdóttir kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ.

Stefndu, Björgu Gísladóttur og Kristjáni Pálssyni, er skylt að þola að fjárnám verði gert í fasteigninni að Þrastarási 71, fastanr. 225-0820, í Hafnarfirði fyrir fjárhæð sem nemur 201.328.452 krónum auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 3. október 2014 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að fjárhæð 35.656.916 krónur þann 7. nóvember 2014 og 1.107.967 krónur þann 21. júní 2018, inn í veðrétt samkvæmt tryggingarbréfi nr. [...], útgefnu þann 18.07.2007, upphaflega að höfuðstólsfjárhæð 20.000.000 króna, með grunnvísitölu 271,1 stig.

Stefndu greiði, in solidum, stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.

 

Ástríður Grímsdóttir