• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar
  • Hegningarauki
  • Játningarmál
  • Nytjastuldur
  • Fangelsi
  • Þjófnaður
  • Ökuréttarsvipting
  • Ölvunarakstur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness mánudaginn 28. janúar 2019 í máli nr. S-612/2018:

Ákæruvaldið

(Elín Hrafnsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Julius Blauzdziunas

(sjálfur)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 22. janúar 2019, höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu á hendur Julius Blauzdziunas, kt. 000000-0000, Reykjavíkurvegi 68, Hafnarfirði, en dvalarstað að Helgalandi 3, Reykjavík, með svohljóðandi ákæru 20. nóvember 2018 fyrir eftirtalin umferðar- og hegningarlagabrot:

 

I

„Umferðarlagabrot í Reykjavík á árinu 2018 með því að hafa:

1.  Að kvöldi laugardagsins 13. janúar ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði mældist 2,13 ‰) um Hringbraut  uns aksturinn var stöðvaður við gatnamót Hringbrautar og Birkimels.

M. 007-2018-2694

2.  Laugardaginn 16. júní ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti vestur Vesturlandsveg við Vog uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

M. 007-2018-47813

3.  Aðfaranótt mánudagsins 6. ágúst ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði mældist 1,74 ‰) vestur Tryggvagötu uns aksturinn var stöðvaður á Geirsgötu við Grófina.

M. 007-2018-53158

 

II

Hegningarlagabrot:

1.  Þjófnað með því að hafa laugardaginn 4. mars 2017 í vínbúð ÁTVR Þverholti 2 Mosfellsbæ tekið flösku af Finlandia vodka, að andvirði kr. 7.599,-, úr hillu verslunarinnar og stungið inn á sig, athafnað sig frekar í versluninni og síðan farið af afgreiðslukassa verslunarinnar og greitt fyrir aðra vöru sem hann var með en gengið síðan út úr versluninni án þess að greiða fyrir vodkaflöskuna.

M. 007-2017-011849

2.  Þjófnað með því að hafa föstudaginn 30. júní 2017 í vínbúð ÁTVR Þverholti 2 Mosfellsbæ tekið flösku af Ballantine‘s finest, að andvirði kr. 8.799,-, úr hillu verslunarinnar og stungið inn á sig athafnað sig frekar í versluninni og síðan farið að afgreiðslukassa verslunarinnar og greitt fyrir aðra vöru sem hann var með en gengið síðan út úr versluninni án þess að greiða fyrir Ballantine‘s flöskuna, sem hann greiddi síðan daginn eftir er verslunarsjórinn bar upp á hann þjófnaðinn.

M. 007-2017-38683

3.  Nytjastuld með því að hafa að kvöldi þriðjudagsins 13. janúar 2018 í heimildarleysi tekið bifreiðina LJ-643 þar sem hún var í bifreiðastæði á Eiðistorgi og ekið henni þaðan og eins greinir í kafla I lið 1.

M. 007-2018-2912

4.  Þjófnað með því að hafa þriðjudaginn 27. mars 2018 í verslun Krónunnar Nóatúni 17, Reykjavík tekið matar- og drykkjarvörur úr hillum verslunarinnar að andvirði kr. 51.599,- og sett í körfu en síðan gengið framhjá afgreiðslukassa og út úr versluninni án þess að greiða fyrir vörurnar.

007-2018-19575

 

Teljast brot í öllum liðum kafla I varða við 1. mgr. 48. gr., og brot í liðum 1 og 3 auk þess við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðalaga nr. 50/1987 en brot í lið 1, 2 og 4 kafla II við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brot í lið 3 kafla II við 1. mgr. 259. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar  og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006.

Vegna liðar 1 kafla II gerir Erla Skúladóttir hdl, fyrir hönd kröfuhafa A ÁTVR, kröfu um að ákærða verði gert að greiða kröfuhafa skaðabætur að fjárhæð kr. 7.599,- auk vaxta skv. 8. gr. l. nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð, frá 4. mars 2017 til 9. apríl 2017. Eftir það er krafist dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. laganna til greiðsludags. Að auki er krafist lögmannskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, sem áskilinn er réttur til að leggja fram síðar.“

 

II

Við þingfestingu málsins játaði ákærði skýlaust þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og krafðist vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá samþykkti hann bótakröfu ÁTVR. 

Játning ákærða fær stoð í gögnum málsins og er ekki ástæða til að draga í efa að hún sé sannleikanum samkvæm. Samkvæmt því er sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru er lýst og er þar rétt heimfærð til refsiákvæða. Með vísan til 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður dómur lagður á málið án frekari sönnunarfærslu, en látið nægja að skírskota til ákæru um atvik málsins, sbr. 4. mgr. 183. gr. sömu laga.

Ákærði er fæddur í [...]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði sakaskrár gekkst hann undir greiðslu sektar að fjárhæð 175.000 krónur hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 1. desember 2017 vegna brota á umferðarlögum, og var þá jafnframt  sviptur ökurétti í 18 mánuði. Hinn 22. desember sama ár var hann síðan með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur dæmdur í 60 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir þjófnað. Við ákvörðun refsingar hans nú ber að dæma honum hegningarauka við þann dóm, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga, vegna þeirra brota sem hann er sakaður um samkvæmt 1. og 2. tölulið II. kafla ákæru, en bæði voru þau framin áður en sá dómur var kveðinn upp. Með öðrum brotum samkvæmt ákæru hefur hann hins vegar rofið skilorð áðurnefnds dóms. Að þessu gættu, en jafnframt að teknu tilliti til skýlausrar játningar ákærða, þykir hæfileg refsing hans fangelsi í fjóra mánuði. Þá verður ákærði, með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum, sviptur ökurétti í fimm ár.

Eins og áður segir samþykkti ákærði bótakröfu ÁTVR þótt kröfuhafi hafi ekki sótt þing við þingfestingu málsins. Verður hann því dæmdur til greiðslu hennar, auk vaxta, eins og nánar greinir í dómsorði, en upphaf dráttarvaxta miðast við 28. desember 2017. Var þá liðinn mánuður frá því krafan var kynnt honum. Á hinn bóginn verður hann ekki dæmdur til greiðslu þóknunar til lögmanns kröfuhafa. Með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærði dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar lögreglu, 48.510 króna, en annan sakarkostnað leiddi ekki af meðferð málsins.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

Ákærði, Julius Blauzdziunas, sæti fangelsi í fjóra mánuði.

Ákærði er sviptur ökurétti í fimm ár frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði ÁTVR 7.599 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá 4. mars 2017 til 28. desember 2017, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, til greiðsludags. 

Ákærði greiði 48.510 krónur í sakarkostnað.

 

Ingimundur Einarsson