• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 16. apríl 2019 í máli nr. S-119/2019:

 

Ákæruvaldið

(Kristmundur Stefán Einarsson saksóknarfulltrúi)

gegn

Arnari Inga Jónssyni

(Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 12. apríl sl., höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með ákæru 26. febrúar 2019 á hendur ákærða, Arnari Inga Jónssyni, kt. 000000-0000, Norðurbakka 9b í Hafnarfirði;

„fyrir eftirtalin umferðar- og fíkniefnalagabrot:

I.

1. Fíkniefnalagabrot með því að hafa, þriðjudaginn 8. ágúst 2017, haft í vörslum sínum 0,63 g af amfetamíni, sem fannst við líkamsleit lögreglu á ákærða, við vegamót Eyrarlands og Bústaðavegar í Reykjavík og lagt var hald á.

Telst brot þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

II.

2. Umferðarlagabrot með því að hafa, föstudaginn 9. febrúar 2018, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist 220 ng/ml af MDMA, 50 ng/ml af metýlfenídat og 0,6 ng/ml af tetrahýdrókannabínólsýru, í þvagi mældist amfetamín, MDMA, metýlfenídat, kókaín og tetrahýdrókannabínólsýra) vestur Háaleitisbraut í Reykjavík, við Skipholt, uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

Teljast brot þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

 

3. Fíkniefnalagabrot með því að hafa, á þeim tíma sem greinir í 1. tl., haft í vörslum sínum 1,17 g af maríhúana sem fannst við líkamsleit lögreglu á ákærða og lagt var hald á.

Telst brot þetta varða við 2., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

III.

4. Umferðarlagabrot með því að hafa, fimmtudaginn 22. mars 2018, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa lyfja (í blóði mældist 63 ng/ml af klónazepam) og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í þvagi mældist amfetamín, metýlfenídat og tetrahýdrókannabínólsýra) um Korngarða í Reykjavík, við hús nr. 2, uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

Teljast brot þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 44. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a., og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

IV.

5. Umferðarlagabrot með því að hafa, föstudaginn 23. mars 2018, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa lyfja (í blóði mældist 56 ng/ml af klónazepam) og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í þvagi mældist amfetamín, metýlfenídat og tetrahýdrókannabínólsýra) norður Reykjanesbraut í Kópavogi, móts við Löður, uns ákærði ók aftan á bifreiðina RI-313, sem ekið var norður Reykjanesbraut, og ákærði síðan yfirgefið vettvanginn fótgangandi uns lögregla fann hann skömmu síðar og handtók.

Teljast brot þessi varða við 1. mgr. 10. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr., 44. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a., og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

V.

6. Umferðarlagabrot með því að hafa, föstudaginn 6. apríl 2018, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa lyfja (í blóði mældist 62 ng/ml af díazepam, 38 ng/ml af klónazepam, 105 ng/ml af nordíazepam, 480 ng/ml af oxazepam og 4,3 ng/ml af pregabalin, í þvagi mældist pregabalin) og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í þvagi mældist tetrahýdrókannabínólsýra) um Hringbraut í Reykjavík, uns ákærði ók aftan á bifreiðina [...] við gatnamót Hringbrautar og Hofsvallagötu, og ákærði síðan yfirgefið vettvanginn fótgangandi uns lögregla fann hann skömmu síðar og handtók.

Teljast brot þessi varða við 1. mgr. 10. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr., 44. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a., og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og sviptingar ökuréttar, skv. 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006. Þess er jafnframt krafist að gerð verði upptæk framangreind fíkniefni samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“

Kröfur ákærða í málinu eru þær að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða hæfilegrar þóknunar sér til handa vegna verjandastarfans.

 

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði hefur játað sakargiftir og var málið tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Með vísan til 2. málsliðar 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 kemur ekki að sök þótt 3. töluliður í kafla II í ákæru vísi, hvað varðar tímasetningu þess brots ákærða, til 1. töluliðar, en þar hefði með réttu átt að vísa til 2. töluliðar í kafla II í ákæru.

Ákærði er fæddur í [...]. Samkvæmt sakavottorði ákærða á hann umtalsverðan sakaferil að baki. Ákærði hefur nú í fimmta sinn verið fundinn sekur um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Þá er ákærði nú í sjötta sinn fundinn sekur um að aka sviptur ökuréttindum.

Ákærði sætir um þessar mundir fangelsisvist. Í gögnum málsins liggur fyrir vottorð um að hegðun ákærða meðan á afplánun hefur staðið hafi verið til fyrirmyndar. Verður að virða ákærða þetta til málsbóta, sbr. 8. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þá þykir mega líta til þess að ákærði hefur skýlaust játað brot sín fyrir dómi.

Að öllu framangreindu virtu og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Í ljósi sakaferils ákærða eru engin efni til þess að skilorðsbinda refsingu hans.

Með vísan til tilvitnaðra ákvæða laga nr. 50/1987 í ákæru, sbr. einkum 3. mgr. 101. gr. laganna, ber að árétta ævilanga sviptingu ökuréttar ákærða.

Þá verða fíkniefni gerð upptæk eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði.

Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarþóknun verjanda síns sem ákveðin er með virðisaukaskatti í dómsorði.

Dóm þennan kveður upp Arnaldur Hjartarson héraðsdómari.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Arnar Ingi Jónsson, sæti fangelsi í 15 mánuði.

Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttinda ákærða.

Ákærði sæti upptöku á 0,63 g af amfetamíni og 1,17 g af maríhúana.

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar, 295.120 krónur. Þá greiði ákærði 1.139.091 krónu í annan sakarkostnað.

 

                                                                        Arnaldur Hjartarson