• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Hótanir
  • Fangelsi
  • Hluti refsingar skilorðsbundinn og hluti óskilorðsbundinn

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 19. janúar 2018 í máli nr. S-359/2017:

Ákæruvaldið

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

Bryar Abubakir Namali

(Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 5. desember sl., höfðaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum með ákæru 13. október 2017 á hendur ákærða, Bryar Abubakir Namali, fæddum 10. mars 1984;

„fyrir brot gegn útlendingalögum, með því að hafa skipulagt og aðstoðað A, fd. [...], B, fd. [...] og börn þeirra tvö, C, fd. [...] og D, fd. [...], við að koma ólöglega hingað til lands þann 13. september 2017. Aðstoðaði ákærði framangreinda aðila, fjölskyldu frá Írak, við að ferðast með ólögmætum hætti, frá Þýskalandi til Íslands með fyrirhugaðan áfangastað í Dublin á Írlandi. Bókaði ákærði ferðir fyrir framangreinda fjölskyldu þann 12. september 2017 frá Kaupmannahöfn til Íslands með flugi nr. WW903 og fylgdi þeim hingað til lands. Ákærði hafði jafnframt á sama tíma, þann 12. september 2017, bókað og greitt farmiða fyrir fjölskylduna áfram til Dublin á Írlandi með flugi nr. WW854 með fyrirhugaða brottför síðdegis þann 13. september 2017. Bókaði ákærði ferðir fyrir fjölskylduna á öðrum nöfnum en þeirra eigin, á nöfnunum R, S, T og Q, allt rúmensk nöfn, í þeim tilgangi að ferðast með skipulögðum og ólögmætum hætti hingað til lands og áfram til Dublin á Írlandi.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 3. mgr. 116. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 en til vara við f. lið 2. mgr. 116. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Með ákæru 8. nóvember 2017 höfðaði héraðssaksóknari sakamál, sem fékk málsnúmerið S-412/2017 hér fyrir dómi, gegn ákærða;

„fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa laugardaginn 21. október 2017, í strætisvagni nr. 14 sem ekið var frá Hlemmi í Reykjavík, hótað A, en ákærða er með ákæruskjali lögreglustjórans á Suðurnesjum dagsettu 13. október 2017 gefið að sök að hafa smyglað honum ásamt eiginkonu hans og tveimur dætrum þeirra hingað til lands þann 13. september 2017, með því að segja við  A að hann og eiginkona hans, B, yrðu að breyta framburði sínum í tengslum við málið því ákærði væri  á leið í fangelsi í sex ár vegna þeirra og að  A, B og dætur þeirra yrðu send til Þýskalands þar sem að „samtökin“ væru stór, um 100 manns, og  A þyrfti því að hugsa um sig og fjölskyldu sína. Hótanirnar voru til þess fallnar að A óttaðist um líf og heilbrigði sitt, eiginkonu sinnar og dætra. 

Telst þetta varða við 108. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Mál nr. S-412/2017 var þingfest 10. nóvember sl. og var málið þá sameinað máli þessu.

 

Kröfur ákærða:

Í málinu krefst ákærði þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds. Til vara krefst ákærði þess að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist, sem ákærði sætti frá 24. október 2017 til 8. desember 2017, verði dregin frá refsingu hans að fullri dagatölu.

I

Málsatvik – ákæra lögreglustjórans á Suðurnesjum, útgefin 13. október 2017:

Síðla dags 13. september 2017 var ákærði tekinn í tollskoðun eftir komu til landsins með flugi WW903 frá Kaupmannahöfn, Danmörku. Í tösku sem ákærði var með fundust þýsk kennivottorð flóttamanna, auk leikfanga og fatnaðar. Flóttamanna­skilríkin voru á nöfnum A og B. Gildistími skilríkjanna var liðinn.

Í frumskýrslu lögreglu er eftir ákærða haft að hann hefði komið hingað til lands til að heimsækja vin sinn. Hefði ákærði áformað að dveljast hjá vini sínum í fjóra daga. Töskuna hefði ákærði sagt vera í eigu kúrdísks félaga síns sem verið hefði honum samferða frá Kaupmannahöfn ásamt konu og tveimur börnum. Fjölskylduna kvað ákærði hafa stansað á efri hæð flugstöðvarinnar til að nærast og hefðu þau beðið ákærða um að taka töskuna. Ákærði hefði síðan ætlað að hitta fjölskylduna í farangurssal flugstöðvarinnar.

Við skoðun lögreglu á flugbókun fjölskyldunnar kom í ljós að ákærði hafði greitt flugfarið fyrir hana. Samkvæmt frumskýrslu gaf ákærði á því þær skýringar að hann hefði hitt fjölskylduna í Svíþjóð. Fjölskyldan hefði áður búið í Þýskalandi en væru Kúrdar eins og hann. Ákærði hefði ákveðið að hjálpa löndum sínum með því að greiða farmiða þeirra hingað til lands og áfram til Dublinar með greiðslukorti sínu. Fjölskyldan hefði endurgreitt honum fargjöldin í reiðufé. Í tilvitnaðri skýrslu lögreglu er ákærði sagður hafa neitað því aðspurður að hafa verið að smygla fólkinu til Dublinar. Eftir að hafa tekið niður upplýsingar um ákærða og fjölskylduna ákvað lögregla að leyfa ákærða að halda för sinni áfram.

Skömmu eftir að ákærði yfirgaf flugstöðina kom fyrrnefnd fjölskylda í tollsal stöðvarinnar. Eftir að lögregla hafði rætt við fjölskylduföðurinn, A, var tekin um það ákvörðun að hafa uppi á ákærða og handtaka hann. Var ákærði handtekinn í flugstöðinni tveimur dögum síðar er hann var á leið í flug aftur til Kaupmannahafnar.  og fjölskylda hans sóttu um hæli á Íslandi sama dag og þau komu til landsins.

Á þágu rannsóknar málsins tók lögregla skýrslur af A og konu hans, B. Greindi  svo frá að fjölskyldunni hefði verið synjað um hæli í Þýskalandi og hefðu þau því greitt aðila fé fyrir að koma þeim til Írlands með viðkomu á Íslandi. Annar maður hefði síðan fylgt þeim til Íslands. Vegna ferðarinnar hefði fjölskyldan fengið afhent rúmensk vegabréf sem fylgdarmaðurinn hefði tekið af þeim þegar þau voru komin um borð í flugvélina. B lýsti atvikum með áþekkum hætti og eiginmaður hennar. Hún sagðist þó ekki hafa séð nein skilríki.

Skýrslur voru einnig teknar af ákærða í þágu rannsóknarinnar. Við skýrslugjöf 15. september sl. greindi ákærði svo frá að hann hefði komið fjölskyldunni, sem hann kvaðst ekkert þekkja, til aðstoðar að beiðni vinar síns. Staðfesti ákærði að hann hefði bókað og greitt flugfar fyrir fjölskylduna frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur og þaðan til Dublin. Ákærði gaf skýrslu að nýju 4. október sl. Kom þá meðal annars fram hjá ákærða að nafn vinar hans, sem beðið hefði hann um að aðstoða fjölskylduna, væri Allan, en hann væri Íraki, búsettur í Malmö í Svíþjóð. Þá sagði ákærði rangan þann framburð  að hann hefði tekið vegabréfin af fjölskyldunni um borð í flugvélinni.

Málsatvik – ákæra héraðssaksóknara útgefin 8. nóvember 2017:

Hinn 23. október 2017 kom A í móttökumiðstöð hælisleitenda við Bæjarhraun í Hafnarfirði og kvaðst vilja draga framburð sinn fyrir lögreglu til baka þar sem hann hræddist afleiðingar þess héldi hann framburði sínum í málinu til streitu. Skýrði  lögreglu svo frá að tveimur dögum áður hefði hann hitt mann, sem  nefndi Dirin, í strætisvagni á leið 14. Maðurinn hefði haft í hótunum við  vegna framburðar hans hjá lögreglu varðandi aðstoð sem fjölskyldu hans hefði verið veitt við að ferðast hingað til lands. Hann hefði meðal annars nefnt að ef Aog fjölskylda hans væru með fingraför skráð í Þýskalandi yrðu þau send þangað aftur frá Íslandi. Þar yrði tekið á móti þeim og framburðar þeirra gegn Dirin hefnt. Hjá lögreglu var  sýnd ljósmynd af ákærða og staðfesti hann að um væri að ræða nefndan Dirin.

Degi síðar hafði E, lögfræðingur hjá Rauða krossinum á Íslandi, samband við lögreglu og upplýsti að  hefði einnig greint henni frá hótunum ákærða í garð fjölskyldunnar, sem settar hefðu verið fram í strætisvagni um hádegisbil 21. október 2017.

B gaf skýrslu hjá lögreglu vegna umrædds atviks. Sagðist hún lítið hafa heyrt af orðaskiptum eiginmanns síns og ákærða. Hún hefði þó heyrt ákærða tala um að þau yrðu að breyta framburði sínum, ella myndi hann lenda í fangelsi í sex ár. B kvaðst hafa upplifað þessi orð ákærða sem hótun og hefðu þau valdið henni hræðslu og hún óttast að börnum hennar yrði unnið mein, færi svo að fjölskyldan yrði send aftur til Þýskalands.

Í þágu rannsóknar málsins aflaði lögregla myndskeiðs úr eftirlitsmyndavél í umræddum strætisvagni. Á myndskeiðinu má sjá að A og fjölskylda voru í vagninum þegar ákærði kom inn í hann 21. október 2017, kl. 13:39. Með ákærða inn í vagninn kom F. Gaf hann skýrslu fyrir lögreglu í þágu rannsóknar málsins. Kvaðst F hafa hitt ákærða á Hlemmi fyrir tilviljun og farið samtímis honum inn í strætisvagninn. F sagði ákærða hafa rætt við fjölskyldu í vagninum og vísað til þess að hann væri mögulega á leið í sex ára fangelsi vegna þess að þau hefðu ásakað hann um að smygla þeim inn í landið. F sagðist hins vegar aðspurður ekki hafa heyrt neinar hótanir. Eftir að út úr vagninum kom kvað F ákærða hafa greint honum frá því að hann hefði hitt fjölskylduna á flugvellinum eftir komuna hingað til lands. Ákærði hefði tekið tösku fyrir þau þar sem hjónin hefðu þurft að gefa börnum sínum að borða. Hjónin hefðu síðan borið ákærða þeim sökum við lögreglu að hafa smyglað þeim til landsins.

II

Ákærði sagðist fyrir dómi starfa við það að aka leigubíl í Svíþjóð. Um málsatvik samkvæmt ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum frá 13. október 2017 bar ákærði að honum hefði borist símtal frá Allan, kunningja sínum, sem innt hefði ákærða eftir því hvort hann ætti handbæra fjármuni á bankareikningi. Ákærði hefði svarað þeirri fyrirspurn játandi. Allan hefði þá spurt ákærða að því hvort hann gæti gert honum þann greiða að bóka flugfarmiða fyrir fjölskyldu frá Danmörku til Íslands. Ákærði hefði sagt það vera vandræðalaust af sinni hálfu og hefði hann beðið Allan um nöfn fólksins. Í kjölfarið hefði ákærði fengið uppgefin nöfn fjögurra einstaklinga. Ákærði hefði kannað verð á netinu og síðan bókað farmiða fyrir fólkið. Vegabréfanúmer hefðu ekki verið nauðsynleg við bókunina og því hefði ákærði ekkert hugsað út í hver staða þeirra mála væri hjá fólkinu. Aðspurður kvaðst ákærði ekkert hafa þekkt til fjölskyldunnar þegar hann fékk beiðnina. Sagði hann ranglega eftir sér haft í frumskýrslu lögreglu að fólkið sjálft hefði beðið hann um að panta farmiðana. Það hefði hann aldrei sagt. Orð hans hefðu greinilega verið misskilin. Vísaði ákærði í því sambandi til þess að enginn túlkur hefði verið viðstaddur á flugvellinum þegar lögregla ræddi við hann og að sjálfur talaði hann mjög litla ensku.

Þá bar ákærði að þegar hann hefði verið að bóka flugmiðana fyrir fjölskylduna, og hann séð hversu ódýrt farið var, hefði honum verið hugsað til vinar síns G, sem hann væri búinn að þekkja lengi. G sagði ákærði búsettan á Íslandi en áður hefði hann búið í Svíþjóð. Ákærði hefði heimsótt G í júlí 2017 og hann þá notað tækifærið og skoðað landið. Aðspurður neitaði ákærði því að hafa komið oftar til Íslands en í þessi tvö skipti. Ákærði kvaðst hafa haft samband símleiðis við G sem hvatt hefði ákærða til þess að slást í för með fjölskyldunni og dveljast hjá honum í tvo daga hér á landi. Ákærði hefði tekið vin sinn á orðinu og bókað far fyrir sig einnig. Þegar ákærði hefði verið búinn að bóka far fyrir fjölskylduna frá Danmörku til Íslands hefði Allan haft samband við hann að nýju og óskað eftir því að hann bókaði einnig far fyrir fjölskylduna frá Íslandi til Dublin, sama dag. Ákærði hefði orðið við þeirri beiðni Allan. Kvað ákærði kostnaðinn við farmiðakaupin frá Íslandi til Dublin hafa verið 11.500 SEK.

Skömmu eftir þetta hefði ákærði hitt Allan sem endurgreitt hefði honum, í reiðufé, þá fjármuni sem ákærði hefði látið út fyrir farmiðakaupunum. Peningana hefði ákærði strax lagt inn í hraðbanka og hefði ákærði fengið kvittun fyrir innlegginu. Kvaðst ákærði enga þóknun hafa fengið fyrir að aðstoða fólkið, hvorki eftir að hann hafði bókað miðana né síðar. Hann hefði einungis fengið útlagðan kostnað endurgreiddan samkvæmt framansögðu.

Ákærði sagðist hafa hitt fjölskylduna á flugvellinum í Kaupmannahöfn 13. september 2017. Dagana á undan, 11. og 12. september, kvaðst ákærði hafa verið við vinnu í Malmö. Á flugvellinum hefði hann rétt fólkinu farseðlana og aðstoðað það við að tékka sig inn. Aðspurður kvaðst ákærði enga vitneskju hafa haft um ferðaskilríki fólksins. Öll hefðu þau svo farið um borð í flugvélina til Íslands.

Þegar ákærði og fjölskyldan hefðu komið á veitingasvæðið á annarri hæð flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli hefði fjölskyldufaðirinn sagt að börnin þyrftu að fá að borða. Ákærði hefði þá boðist til þess að fara niður og taka tösku fjölskyldunnar af færibandinu svo að hún myndi ekki glatast. Hann hefði ætlað að hitta fjölskylduna niðri þegar börnin væru búin að fá að borða. Þegar niður kom hefði lögregla haft afskipti af ákærða og innt hann eftir því hvort hann ætti töskuna. Hann hefði sagt svo ekki vera. Lögreglumennirnir hefðu farið yfir innihald töskunnar. Þar hefðu meðal annars verið gögn sem borið hefðu með sér að fjölskyldan væri írösk og að hún hefði dvalist í Þýskalandi. Einnig hefði þar verið að finna lestarmiða vegna ferðar frá Þýskalandi til Danmerkur. Eftir að hafa skoðað innihald töskunnar hefði lögregla sagt ákærða að hann yrði að hafa hana með sér út. Ákærði hefði þá ítrekað að hann ætti ekki töskuna heldur fjölskylda sem hann ætti von á niður í farangurssalinn hvað úr hverju. Lögregla hefði þrátt fyrir þær skýringar sagt ákærða að hafa töskuna með sér út, sem hann hefði gert. Fyrir utan flugstöðina hefði ákærði hitt vin sinn G. Lögreglu sagði ákærði einnig hafa rætt við G og fengið hjá honum persónu­upplýsingar. Af flugvellinum hefðu þeir farið heim til G. Þar hefði ákærði dvalið í tvo daga. Þegar ákærði hefði ætlað heim til sín að þeim tíma liðnum hefði hann verið handtekinn á flugvellinum.

Um atvik 21. október 2017, sbr. ákæru héraðssaksóknara frá 8. nóvember 2017, bar ákærði að hann hefði haft símasamband við mann að nafni F og spurt hann þess hvort hann vissi um sundstað sem hægt væri að sækja. Í kjölfarið hefðu þeir mælt sér mót á Hlemmi þaðan sem þeir hefðu ætlað að vera samferða í sund. Frá Hlemmi hefðu ákærði og F tekið sér far með strætisvagni á leið 14. Eftir að hafa greitt fargjaldið hefði ákærði komið auga á A í vagninum.  A hefði staðið upp og tekið í hönd ákærða. Þeir hefðu síðan sest niður gegnt hvor öðrum.  A hefði spurt ákærða að því hvað hann væri að gera hér enn og ákærði svarað hlæjandi: „Ég er bara hér vegna ykkar ...“ og hann bætt því við að lögregla teldi hann hafa smyglað A og fjölskyldu hans til landsins. Hann hefði enn fremur látið þess getið að slík háttsemi varðaði sex ára fangelsi. B, kona A, hefði þá snúið sér að ákærða og sagt hlæjandi: „Af hverju ætti þetta að vera þannig, við höfum bara sagt ... að þú hafir hjálpað okkur.“ Ákærði hefði svarað og sagt að lögreglan ætti eftir að kanna málið hjá Interpol, sem og aðstæður allar, og því yrði fljótlega allt í fína lagi. Frekari samskipti kvaðst ákærði ekki hafa átt við hjónin í vagninum, enda hefðu þeir F einungis ferðast með honum skamman veg.

Ákærði neitaði því aðspurður að hafa nefnt við  að fingraför fjölskyldunnar væru á skrá í Þýskalandi og að hann yrði sendur þangað. Ákærði sagði einnig rangt að hann hefði vísað til þess að „samtökin“ í Þýskalandi væru mjög stór og  yrði því að hugsa um sig og fjölskyldu sína.

III

A skýrði svo frá fyrir dómi að fjölskylda hans hefði sett sig í samband við smyglara í þeim tilgangi að  komast burt frá Þýskalandi. Þá hefði legið fyrir ákvörðun þarlendra yfirvalda um að synja umsókn fjölskyldunnar um hæli og við þeim blasað að verða send aftur til Írak. Sá aðili sem vitnið hefði leitað til hefði sagst vera reiðubúinn til þess að aðstoða fjölskylduna gegn greiðslu að fjárhæð 3.000 evrur í reiðufé. Vinur vitnisins hefði haft milligöngu í þessum samskiptum. Fyrirhugaðan áfangastað fjölskyldunnar sagði vitnið hafa verið Ísland.

Eftir að fjölskyldan hafði látið greiðsluna af hendi hefðu þau fengið skilaboð þess efnis að daginn eftir ættu þau að fara til fundar við aðila nærri landamærum Þýskalands og Danmörku, í borg sem heiti Flensburg. Þegar fjölskyldan kom þangað með lest um kl. 21:00 að kvöldi hefðu þau hitt aðila sem kynnt hefði sig sem Dirin og vitnið staðfesti fyrir dómi að væri ákærði í máli þessu. Kvaðst hann hafa þekkt ákærða sem þann aðila sem hann hefði áður verið búinn að ræða við símleiðis varðandi millifærslu áðurnefndrar greiðslu. Hann hefði verið í sambandi við einn annan aðila vegna fararinnar. Ákærði hefði vísað fjölskyldunni á gistingu í húsi í þorpi nærri Flensburg. Þar hefði fjölskyldan dvalist í tvo daga ásamt ákærða. Ákærði hefði afhent fjölskyldunni fölsuð rúmensk vegabréf. Ákærði hefði síðan ekið þeim til Danmerkur. Á leiðinni hefðu þau ekið um landamærastöð. Þar hefði ákærði haft orð fyrir þeim. Hefði hann sagt fjölskylduna vera ferðamenn sem myndu koma með honum aftur til baka til Þýskalands.

Í Danmörku hefði fjölskyldan gist í eina nótt á hóteli í Kaupmannahöfn. Ákærði hefði bókað gistinguna og séð um að greiða fyrir hana. Sjálfur hefði ákærði ekki gist á hótelinu. Áður en hann yfirgaf fjölskylduna hefði hann sagst ætla yfir til Svíþjóðar en að hann myndi koma til baka daginn eftir og sækja fjölskylduna á hótelið.

Vitnið sagði ákærða hafa útvegað flugmiða fyrir fjölskylduna til Íslands. Á flugvellinum hefði ákærði haft orð fyrir þeim. Hann hefði meðal annars sagt starfsstúlku að vitnið og fjölskylda þess væru ferðamenn og að þau myndu snúa aftur til Danmerkur að lokinni dvöl á Íslandi. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa afhent ákærða neina fjármuni. Fyrrnefnda 3.000 evra greiðslu hefði hann afhent öðrum aðila áður en þau héldu af stað í ferðina frá Þýskalandi.

Þegar til Íslands kom hefðu börn vitnisins verið orðin svöng. Ákærði hefði sagt vitninu og konu þess að gefa börnunum að borða og hann sagst ætla að hitta þau aftur þegar börnin væru búin að matast. Ákærði hefði síðan látið sig hverfa og þau ekki séð hann aftur. Áður hefði ákærði tekið fölsuðu vegabréfin af þeim. Þau hefðu þá verið stödd á veitingastað í flugstöðinni. Fjölskyldan hefði beðið ákærða lengi en þegar þau hefðu talið útséð með að hann kæmi aftur hefðu þau lagt af stað í gegnum flugstöðina. Þau hefðu síðan verið handtekin er þau komu í tollskoðun.

Um atvik 21. október 2017 bar vitnið að það hefði verið ásamt fjölskyldu sinni í strætisvagni við Hlemm þegar ákærði hefði komið inn í vagninn. Ákærði hefði sest á móti vitninu og sagt í spurnartón: „Ha, eruð þið enn þá hér?“ Ákærði hefði síðan spurt vitnið þess af hverju þau væru að gera honum þetta? Hann ætti von á sex ára fangelsisdómi vegna framburðar þeirra hjóna. Ákærði hefði sagt að þau yrðu að breyta framburði sínum með þeim hætti að þau þekktu ekki ákærða og hefðu aldrei hitt hann. Gerðu þau það ekki yrði þess hefnt. Ákærði og aðilar honum tengdir myndu ekki fyrirgefa þeim, héldu þau við framburð sinn í málinu. Hefði ákærði vísað til þess að fingraför vitnisins og annarra fjölskyldumeðlima væru skráð í Þýskalandi og því yrði hægt að hafa uppi á þeim þegar þau yrðu send til baka og ná þannig fram hefndum. Enn fremur sagði vitnið haft hafa verið samband við bróður þess og sambærilegum hótunum komið á framfæri við hann. Þá hefði vitnið haft af því spurnir að aðilar í Þýskalandi hefðu verið að spyrjast fyrir um hvort vitnið væri komið til baka frá Íslandi.

Vitnið sagði þau hjónin hafa verið mjög hrædd eftir að þau hittu ákærða í strætisvagninum og þau ekki náð að festa svefn nóttina á eftir. Kom fram hjá vitninu að það hefði sett upp öryggishnapp heima hjá fjölskyldunni vegna þessa atviks.

B kvaðst hafa farið 10. september 2017 ásamt fjölskyldu sinni með lest til bæjar nærri landamærum Þýskalands og Danmerkur. Við komuna hefði ákærði tekið á móti fjölskyldunni. Hefði fjölskyldan gist í tvær nætur í þorpi nærri landamærunum og hefði ákærði verið með þeim allan tímann. Þaðan hefðu þau farið akandi yfir til Danmerkur, þar sem þau hefðu gist eina nótt á hóteli. Ákærði hefði ekki gist á sama stað og fjölskyldan þá nótt. Hann hefði sótt þau daginn eftir og farið með þau á flugvöllinn. Þar hefði ákærði komið fram fyrir þeirra hönd og séð um öll samskipti. Þau hefðu síðan flogið saman til Íslands.

Vitnið sagðist hafa yfirgefið Þýskaland ásamt fjölskyldu sinni þar sem þeim hefði verið synjað um landvistarleyfi og verið gert að yfirgefa landið. Vitnið sagði þau hafa greitt fyrir ferðina en ákærði séð um að panta farmiðana. Nánar um fyrirkomulagið gat vitnið ekki borið og sagði A hafa séð um öll samskipti vegna ferðarinnar.

Eftir lendingu í Keflavík kvað vitnið þau  hafa gefið börnunum að borða. Ákærði hefði sagst ætla að sjá um farangur fjölskyldunnar.

Hinn 21. október 2017 kvaðst vitnið hafa verið í strætisvagni þegar ákærði hefði komið inn í vagninn. Vitnið hefði heyrt ákærða ræða við  og segja að hann ætti von á sex ára fangelsisdómi vegna framburðar vitnisins og  hjá lögreglu. Hann hefði einnig sagt að þau  ættu að bera um að þau þekktu ekki ákærða. Sagði vitnið það sem gerðist í strætisvagninum hafa vakið hjá því hræðslu.

H lögreglumaður sagðist hafa haft afskipti af ákærða í tollsal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar eftir komu hans til landsins 13. september 2017. Ákærða sagði vitnið hafa gefið þá sögu að hann hefði hitt fjölskylduna í Svíþjóð. Þau væru Kúrdar en hefðu áður verið búsett í Þýskalandi. Ákærði hefði ákveðið að veita þessum samlöndum sínum hjálp. Samskipti sín við ákærða kvað vitnið hafa farið fram á ensku og dönsku. Kom fram hjá vitninu að skilningur ákærða á ensku hefði verið lítill og því hefði vitnið farið yfir í það að tala við hann á sinni „skóladönsku“.

Vitnið staðfesti að ákærða hefði verið heimilað, eftir viðræður við lögreglu, að hafa tösku meðferðis, sem ákærði hefði sagt vera í eigu fyrrnefndrar fjölskyldu. Áður hefði lögregla og tollgæsla verið búin að kanna innihald töskunnar. Vitnið sagði hins vegar rangt, sem sækjandi hafði eftir ákærða, að lögregla hefði lagt fyrir hann að taka töskuna með sér, beinlínis skipað honum að gera það. Það hefði lögregla ekki gert. Þegar ákærða hefði verið heimilað að halda för sinni áfram hefði fjölskyldan verið einhvers staðar uppi í flugstöðvarbyggingunni. Lögregla hefði einfaldlega ekki haft mannskap til að leita að fjölskyldunni þar og því gert ráðstafanir til þess að hún yrði stöðvuð þegar hún kæmi inn í tollsalinn.

Framlagða skýrslu, sem vitnið ritaði vegna afskipta af ákærða í flugstöðinni, kvaðst vitnið hafa ritað einhverjum dögum eftir að atvikin gerðust. Skýrsluna hefði vitnið unnið eftir bókunum í LÖKE.

I lögreglumaður sagði A hafa komið á lögreglustöðina að Bæjarhrauni 18 og óskað eftir því að fá að ræða við lögreglumann. Vitnið hefði rætt við  sem lýst hefði atviki þar sem ákærði kom inn í strætisvagn og ógnaði honum.  kvað vitnið hafa virst hræddan um sig um fjölskyldu sína. Vitnið hefði því vísað málinu til frekari meðferðar innan lögreglunnar.

E lögmaður kvaðst fyrir dómi gegna því hlutverki að vera talsmaður A og B við meðfærð hælismáls þeirra hjá Útlendingastofnun. Vitnið sagði  hafa haft samband við vitnið að eigin frumkvæði og viljað tala við það um smyglarann, ákærða í málinu, sem verið hefði að ónáða þau B. Vitninu hefði virst  vera óttasleginn og hann haft áhyggjur af sér og fjölskyldu sinni. Hann hefði greint þannig frá atvikum að fjölskyldan hefði verið að fara í strætó þegar ákærði hefði birst í vagninum. Ákærði hefði haft í hótunum við A. Ákærði hefði meðal annars sagt að hann skyldi hugsa um fjölskyldu sína. Þau orð hefði  skilið sem hótun.

Í kjölfar samtalsins við  kvaðst vitnið hafa upplýst lögregluna á Suðurnesjum um það sem fram hefði komið hjá honum. Vitnið hefði í framhaldinu haft milligöngu um skýrslugjöf  og konu hans hjá lögreglu.

Spurt um hvert A og B yrðu send, fengju þau ekki hæli hér á landi, kom fram hjá vitninu að færi svo mætti gera ráð fyrir því að þau yrðu send til Íraks, þaðan sem þau kæmu, þar sem Þýskaland hefði þegar hafnað umsókn þeirra um hæli.

J lögreglumaður kom fyrir dóm og staðfesti að hann hefði tekið skýrslu vitnis af F í málinu, en hljóðupptaka af skýrslunni og skrifleg samantekt vitnisins af skýrslutökunni liggja frammi í málinu.

Vitnið kvaðst undir rannsókn málsins hafa fengið uppgefið hjá ákærða símanúmer aðila að nafni Allan, sem vitnið sagði lögreglu ekki vita hver væri. Kom fram hjá vitninu að lögregla hefði ekki hringt í það númer. Þá hefði lögregla heldur ekki kallað eftir upplýsingum um aðilann.

Ekki reyndist unnt að taka skýrslu vitnis af F fyrir dómi þar sem honum hafði verið vísað úr landi er aðalmeðferð málsins fór fram.

IV

Ákæra lögreglustjórans á Suðurnesjum, útgefin 13. október 2017:

Ákærða er í ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum gefið að sök brot gegn gegn útlendingalögum, með því að hafa skipulagt og aðstoðað A, B, og börn þeirra tvö, C og D við að koma ólöglega hingað til lands 13. september 2017. Í ákærunni er ákærði sagður hafa aðstoðað nefnda aðila, fjölskyldu frá Írak, við að ferðast með ólögmætum hætti frá Þýskalandi til Íslands með fyrirhugaðan áfangastað í Dublin á Írlandi, svo sem nánar er rakið í ákæru. Ákærði neitar sök.

Upplýst er í málinu og óumdeilt að 12. september 2017 bókaði ákærði ferðir fyrir áðurnefnda fjóra einstaklinga frá Kaupmannahöfn til Íslands með flugi nr. WW903. Einnig liggur fyrir að degi síðar flaug fjölskyldan frá Kaupmannahöfn hingað til lands ásamt ákærða. Þá er upplýst með fyrirliggjandi bókunarupplýsingum og framburði ákærða, A og B að það var ákærði sem sá um að greiða farmiða fjölskyldunnar. Jafnframt hefur verið í ljós leitt með þeim bókunar­upplýsingum sem lögregla aflaði að ákærði bókaði jafnframt ferð fyrir fjölskylduna áfram til Dublin á Írlandi með flugi nr. WW854, með fyrirhugaða brottför síðdegis 13. september 2017. Þá er upplýst að ákærði bókaði ferðirnar fyrir hjónin og börn þeirra á öðrum nöfnum en þeirra eigin, en fyrir liggur með títtnefndum bókunarupplýsingum að fólkið var bókað í ferðirnar tvær á nöfnunum Marian Bratu, Mirela Bratu, Mihaela Bratu og Aniela Bratu.

Í kafla II hér að framan er ítarlega reifaður framburður ákærða varðandi það hvernig það atvikaðist að hann bókaði áðurnefndar tvær ferðir fyrir fjölskylduna og flaug hingað til lands með sömu flugvél og þau frá Kaupmannahöfn. Þannig kom meðal annars fram hjá ákærða að hann hefði hitt fjölskylduna á flugvellinum í Kaupmannahöfn 13. september 2017, en dagana á undan, 11. og 12. september sl., sagðist hann hafa verið við vinnu í Malmö. Á flugvellinum hefði hann rétt fólkinu farseðlana og aðstoðað það við að tékka sig inn. Hann hefði hins vegar enga vitneskju haft um ferðarskilríki þess.

Vitnin A og B báru fyrir dómi með allt öðrum hætti en ákærði um framangreind atriði. A skýrði svo frá að fjölskyldan hefði sett sig í samband við smyglara í þeim tilgangi að komast burt frá Þýskalandi, en þá hefði legið fyrir ákvörðun þarlendra yfirvalda um að synja umsókn þeirra um hæli og við þeim blasað að verða send aftur til Írak. Sá aðili sem vitnið hefði leitað til hefði sagst vera reiðubúinn til þess að aðstoða fjölskylduna gegn greiðslu að fjárhæð 3.000 evrur. Eftir að fjölskyldan hafði látið þá greiðslu af hendi hefðu þau fengið skilaboð um að daginn eftir ættu þau að fara til fundar við aðila í Flensburg, nærri landamærum Þýskalands og Danmörku. Þegar fjölskyldan hefði komið þangað með lest um kvöldið hefðu þau hitt aðila sem kynnt hefði sig sem Dirin, er  staðfesti fyrir dómi að væri ákærði í málinu. Þá kvaðst  hafa þekkt ákærða sem þann aðila sem hann hefði áður verið búinn að ræða við símleiðis varðandi millifærslu áðurnefndrar greiðslu. Ákærði hefði vísað fjölskyldunni á gistingu í húsi í þorpi nærri Flensburg. Þar hefði fjölskyldan dvalist í tvo daga ásamt honum. Ákærði hefði afhent fjölskyldunni fölsuð rúmensk vegabréf og síðan ekið þeim til Danmerkur. Fjölskyldan hefði gist í eina nótt á hóteli í Kaupmannahöfn og hefði ákærði bókað gistinguna og séð um að greiða fyrir hana. Sjálfur hefði ákærði ekki gist á hótelinu. Ákærði hefði sótt þau á hótelið daginn eftir og farið með þeim á flugvöllinn. Skömmu eftir lendingu á Keflavíkur­flugvelli 13. september sl. hefði ákærði horfið og þau ekki séð hann aftur. Áður hefði hann tekið fölsuðu vegabréfin af þeim.

B bar fyrir dómi að 10. september sl. hefði fjölskyldan farið með lest til bæjar nærri landamærum Þýskalands og Danmerkur. Við komuna þangað hefði ákærði tekið á móti þeim. Hefði fjölskyldan gist í tvær nætur í þorpi nærri landamærunum og hefði ákærði verið með þeim allan tímann. Þaðan hefðu þau farið akandi yfir til Danmerkur, þar sem þau hefðu gist eina nótt á hóteli. Ákærði hefði ekki gist á sama stað og fjölskyldan þá nótt. Hann hefði sótt þau daginn eftir og farið með þau á flugvöllinn. Þar hefði ákærði komið fram fyrir þeirra hönd og séð um öll samskipti fyrir þau. Fjölskyldan og ákærði hefðu síðan flogið saman til Íslands 13. september sl.

Að mati dómsins er framburður vitnanna A og B því eindregið til stuðnings að ákærði hafi skipulagt ferð þeirra umrætt sinn og aðstoðað þau og börn þeirra tvö við að koma ólöglega hingað til lands 13. september sl. með þeim hætti sem lýst er í ákæru. Framburður ákærða í málinu um að hann hafi eingöngu verið að gera vini sínum greiða með því að bóka far fyrir fjölskylduna og að hann hafi fyrst hitt þau á flugvellinum í Kaupmannahöfn 13. september sl. er í skýrri andstöðu við vætti A og B. Framburður vitnanna samrýmist að mati dómsins því vel sem upplýst er og óumdeilt í málinu samkvæmt framansögðu. Eru framlagðar kvittanir úr sænskum hraðbanka og skrifleg yfirlýsing vinnuveitanda ákærða ekki til þess fallnar að draga úr sönnunargildi framburðar vitnanna. Á grundvelli framburðar þeirra, sem dómurinn metur trúverðugan í ljósi alls framangreinds, þykir því mega slá því föstu gegn neitun ákærða, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum og áður var lýst.

Í ákæru lögreglustjóra er umrædd háttsemi ákærða aðallega talin varða við 3. mgr. 116. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Svo sakfellt verði fyrir brot gegn ákvæðinu þurfa að hafa verið færðar sönnur á að ákærði hafi staðið að skipulagðri starfsemi til að aðstoða útlendinga við að koma ólöglega til landsins eða til annars ríkis. Að mati dómsins hefur ákæruvaldið ekki fært á það viðhlítandi sönnur að ákærði hafi staðið að slíkri starfsemi. Sú háttsemi ákærða, sem dómurinn telur ákæruvaldið hafa fært sönnur á samkvæmt framansögðu, verðu því ekki heimfærð til 3. mgr. 116. gr. laga um útlendinga heldur verður háttsemi hans talin varða við f-lið 2. mgr. 116. gr. laganna, svo sem vísað er til í ákæru til vara, en samkvæmt ákvæðinu varðar það sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef maður af ásetningi eða stórfelldu gáleysi aðstoðar útlending við að koma ólöglega hingað til lands eða til annars ríkis. Ákærði verður því sakfelldur fyrir brot á því ákvæði.

Ákæra héraðssaksóknara útgefin 8. nóvember 2017:

Ákærða er í ákæru héraðssaksóknara gefið að sök brot gegn valdstjórninni, með því að hafa laugardaginn 21. október 2017, í strætisvagni nr. 14 sem ekið var frá Hlemmi í Reykjavík, hótað A með því að segja við  að hann og eiginkona hans, B, yrðu að breyta framburði sínum í tengslum við mál það sem ákæra lögreglustjórans á Suðurnesjum frá 13. október 2017 tekur til því ákærði væri á leið í fangelsi í sex ár vegna þeirra og að A, B og dætur þeirra yrðu send til Þýskalands þar sem að „samtökin“ væru stór, um 100 manns, og  þyrfti því að hugsa um sig og fjölskyldu sína. Í ákærunni er vísað til þess að hótanirnar hafi verið til þess fallnar að  óttaðist um líf og heilbrigði sitt, eiginkonu sinnar og dætra. Ákærði neitar sök.

Upplýst er í málinu með framburði A, B og ákærða og framlögðu myndskeiði úr eftirlitsmyndavél að ákærði kom þann dag sem í ákæru greinir inn í strætisvagn, sem ekið var leið 14, en  og B voru fyrir í vagninum. Á tilvitnuðu myndskeiði má sjá að í kjölfarið heilsuðust ákærði og A og síðan settist ákærði niður nærri A.

Fyrir dómi bar ákærði að eftir að hann settist niður hefði  spurt hann að því hvað hann væri að gera hér enn og ákærði svarað hlæjandi: „Ég er bara hér vegna ykkar ....“ Ákærði hefði síðan bætt því við að lögregla teldi hann hafa smyglað A og fjölskyldu hans til landsins og látið þess getið að slík háttsemi varðaði sex ára fangelsi. B hefði þá snúið sér að ákærða og sagt hlæjandi: „Af hverju ætti þetta að vera þannig, við höfum bara sagt ... að þú hafir hjálpað okkur.“ Ákærði hefði svarað og sagt að lögreglan ætti eftir að kanna málið betur, meðal annars hjá Interpol,  og því yrði allt fljótlega í fína lagi. Frekari samskipti kvaðst ákærði ekki hafa átt við hjónin í strætisvagninum, enda hefði hann einungis ferðast skamman veg með vagninum. Neitaði ákærði því að hafa nefnt við  að fingraför fjölskyldunnar væru á skrá í Þýskalandi og að hann yrði sendur þangað. Ákærði sagði einnig rangt að hann hefði vísað til þess að „samtökin“ í Þýskalandi væru mjög stór og  yrði því að hugsa um sig og fjölskyldu sína.

Frásögn A af samtali hans og ákærða var með allt öðrum hætti en frásögn ákærða. A sagði ákærða hafa sest á móti honum og sagt í spurnartón: „Ha, eruð þið enn þá hér?“ Ákærði hefði síðan innt  eftir því af hverju þau væru að gera honum þetta. Hann ætti von á sex ára fangelsisdómi vegna framburðar þeirra hjóna. Ákærði hefði sagt að þau yrðu að breyta framburði sínum með þeim hætti að þau þekktu ekki ákærða og hefðu aldrei hitt hann. Gerðu þau það ekki yrði þess hefnt. Ákærði og aðilar honum tengdir myndu ekki fyrirgefa þeim, héldu þau við framburð sinn í málinu. Ákærði hefði vísað til þess að fingraför  og annarra fjölskyldumeðlima væru skráð í Þýskalandi og því yrði hægt að hafa uppi á þeim þegar þau yrðu send til baka og ná þannig fram hefndum. Enn fremur sagði A haft hafa verið samband við bróður sinn og sambærilegum hótunum komið á framfæri við hann. Þá hefði A haft af því spurnir að aðilar í Þýskalandi hefðu verið að spyrjast fyrir um hvort hann væri kominn til baka frá Íslandi. A sagði þau hjónin hafa verið mjög hrædd eftir að þau hittu ákærða í strætisvagninum og þau ekki náð að festa svefn nóttina á eftir.

B lýsti atvikum þessum svo að eftir að ákærði kom inn í vagninn hefði hún heyrt hann ræða við A  og segja að hann ætti von á sex ára fangelsisdómi vegna framburðar þeirra  hjá lögreglu. Hann hefði einnig sagt að þau A ættu að bera um að þau þekktu ekki ákærða. Sagði B það sem gerðist í strætisvagninum hafa vakið hjá henni hræðslu.

Við mat á trúverðugleika framburðar ákærða og vitnanna tveggja verður að horfa til þess sem áður var slegið föstu um með hvaða hætti A, B og börn þeirra tvö komu hingað til lands og þátt ákærða í því. Þá liggur fyrir að  fór í kjölfar þess að fjölskyldan hitti ákærða í strætisvagninum og tilkynnti atvikið til lögreglu. Lýstu I lögreglumaður, sem tók á móti A á lögreglustöð, og E lögmaður, er gegnt hefur því hlutverki að vera talsmaður A og B við meðfærð hælismáls þeirra hjá Útlendinga­stofnun, því að A  hefði virst óttasleginn og hræddur um sig og fjölskyldu sína er hann greindi frá samskiptum sínum við ákærða í strætisvagninum. Sjálfur lýsti  fyrir dómi þeirri hræðslu sem hjá honum hefði vaknað. Þá bar B einnig að það sem gerðist í strætisvagninum hefði vakið hjá henni hræðslu. Að öllu þessu gættu þykir sannað með trúverðugum framburði A og því sem honum er til stuðnings samkvæmt framansögðu, gegn neitun ákærða, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008, að ákærði hafi fyrrnefndan dag í strætisvagni á leið nr. 14 hótað A  með þeim hætti sem í ákæru héraðssaksóknara greinir í þeim tilgangi að fá hann og eiginkonu hans til þess að breyta framburði sínum fyrir lögreglu í tengslum við mál það sem ákæra lögreglustjórans á Suðurnesjum frá 13. október sl. tekur til. Voru hótanirnar til þess fallnar að  óttaðist um líf og heilbrigði sitt, eiginkonu sinnar og dætra. Með þessari háttsemi sinni braut ákærði gegn 108. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, svo sem réttilega er vísað til í ákæru héraðssaksóknara.

V

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærða ekki áður verið gerð refsing hér á landi. Þá er upplýst að sakaferill hans í Svíþjóð er smávægilegur. Samkvæmt því og að brotum ákærða virtum þykir refsing hans, að teknu tilliti til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, hæfilega ákveðin fangelsi í níu mánuði. Eftir atvikum þykir mega fresta fullnustu sex mánaða af refsingunni og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Til frádráttar refsingu ákærða, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, kemur gæsluvarðhald sem hann sætti frá 24. október 2017 til 8. desember 2017 að fullri dagatölu.

Á grundvelli sakfellingar ákærða, sbr. 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður honum gert að greiða sakarkostnað málsins. Ákærði dæmist því til að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, og einnig þóknun fyrri verjenda sinna, lögmannanna Jóhannesar Alberts Kristbjörnssonar og Halldórs Heiðars Hallssonar, sem eftir umfangi málsins og því er fyrir liggur um vinnu lögmannanna þykir hæfilega ákveðin svo sem í dómsorði greinir. Ákærði greiði einnig útlagðan ferðakostnað þeirra tveggja síðastnefndu.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppsögu dómsins var gætt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Bryar Abubakir Namali, sæti fangelsi í níu mánuði en fresta skal fullnustu sex mánaða af refsingunni og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 24. október 2017 til 8. desember 2017 að fullri dagatölu.

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 548.080 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum. Ákærði greiði einnig þóknun verjenda sinna á fyrri stigum málsins, lögmannanna Jóhannesar Alberts Kristbjörnssonar, 231.880 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, og Halldórs Heiðars Hallssonar, 442.680 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum. Ákærði greiði enn fremur útlagðan ferðakostnað Jóhannesar Alberts, 20.570 krónur, og Halldórs Heiðars 11.000 krónur.

 

Kristinn Halldórsson