• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Líkamsárás
  • Líkamstjón
  • Miskabætur
  • Fangelsi
  • Umferðarlagabrot
  • Upptaka
  • Ökuréttarsvipting

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness mánudaginn 15. október 2018 í máli nr. S-146/2018:

Ákæruvaldið

(Súsanna Björg Fróðadóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Unnsteinn Örn Elvarsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 3. október 2018, höfðaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum með ákæru 19. mars 2018 á hendur X, kt. 000000-0000, [...], nú að [...], fyrir eftirgreind hegningarlaga-, fíkniefnalaga- og umferðarlagabrot;

 

I.(008-2016-2636)

„Fyrir líkamsárás, gagnvart A, kt. 000000-0000 fyrrverandi sambýliskonu sinni með því að hafa, þann 29. febrúar 2016, á heimili hennar að [...],[...], slegið   og kýlt A í andlitið með þeim afleiðingum að hljóðhimnan á hægra eyra var rofin og efri vinstri vígtönn losnaði frá tannholdinu.

Telst þetta varða við1. mgr  218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                                                                  II. (008-2017-9677)

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, laugardaginn 24. júní 2017, ekið bifreiðinni [...], austur Reykjanesbrautina, ekki með ökuréttindi og undir áhrifum ávana- og fíkniefna (tetrahýdrókannabínól í blóði mældist 8,5 ng/ml) og því verið óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega.

Telst háttsemi þessi varða við 48. gr. og 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr. a., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

                                                                III. (008-2017-10326)

Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa fimmtudaginn, 21. janúar 2018, haft í vörslum sínum, samtals 4,10 g af kannabisefnum, er lögregla fann í fimm pokum í vinstri buxnavaxa við öryggisleit á ákærða þar sem hann var handtekin á Faxabraut í Reykjanesbæ.

Telst háttsemi þessi varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og reglugerð nr. 233/2001, um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerð nr. 490/2001, reglugerð nr. 248/2002 og reglugerð nr. 848/2002.

                                                                  IV. (008-2017-11496)

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, mánudaginn 31. júlí 2017, ekið bifreiðinni [...], vestur Faxabraut í Reykjanesbæ, ekki með ökuréttindi og undir áhrifum ávana- og fíkniefna (tetrahýdrókannabínól í blóði mældist 4,7 ng/ml) og því verið óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega.

Telst háttsemi þessi varða við 48. gr. og 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr. a., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987

Þá er þess einnig krafist að ákærði verði dæmdur til sviptingar ökuréttar, skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.

                                                                  V. (008-2017-14206)

Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa fimmtudaginn, 21. janúar 2018, haft í vörslum sínum, til sölu og dreifingar samtals 84,23 g af kannabisefnum og tvær töflur af E, er lögregla fann í íþróttatösku vegna öryggisleitar á ákærða þar sem hann var handtekin að Faxabraut í Reykjanesbæ.

Telst háttsemi þessi varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og reglugerð nr. 233/2001, um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerð nr. 490/2001, reglugerð nr. 248/2002 og reglugerð nr. 848/2002.

Vegna ákæruliða III. og V. er þess krafist að gerð verði upptæk 88,23 g af kannabisefnum og 2 ecstacy töflur samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Af hálfu A er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni „1.354.535,- krónur í skaða- og miskabætur auk vaxta af 252.458,- krónum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en  af 1.102.077 krónum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. febrúar 2016 til 14. apríl 2016 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 1.267.677 frá þeim degi til 4. júní 2018, en af 1.354.535 frá þeim degi til greiðsludags.“ Að auki krefst hún þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar vegna lögmannsaðstoðar, samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram á síðari stigum, eða að mati dómsins. 

Við upphaf aðalmeðferðar málsins óskaði fulltrúi ákæruvaldsins bókað að fallið væri frá þeirri lýsingu í V. ákærulið að ákærði hefði haft þau fíkniefni sem þar um ræðir til sölu og dreifingar.

Ákærði neitar sök samkvæmt  I. lið ákærunnar og krefst sýknu. Til vara krefst hann þess að honum verði ekki gerð refsing, en til þrautavara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsing verði þá bundin skilorði. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að skaðabætur verði verulega lækkaðar. Að því er varðar ákæruliði II. – IV. kveðst hann játa sök og krefst vægustu refsingar sem lög heimila. Hið sama gildir um V. lið ákærunnar, með þeim breytingum sem ákæruvaldið hefur gert á orðalagi þess ákæruliðar. Loks krefst hann málsvarnarlauna úr ríkissjóði. Ákærði samþykkir á hinn bóginn upptöku þeirra fíkniefna sem krafist er.

Málsatvik

Hinn 29. febrúar 2016 kom brotaþoli, A, á lögreglustöðina í Reykjanesbæ til að leggja fram kæru á hendur fyrrverandi sambýlismanni sínum, X, ákærða í máli þessu, vegna líkamsárásar og heimilisofbeldis sem hún kvaðst hafa sætt af hans hálfu fyrr um daginn á heimili hennar að [...]. Samkvæmt framburði hennar var ákærði nýkominn til landsins úr meðferð sem hann sótti í Svíþjóð. Ákærða vantaði samastað og ákvað brotaþoli að leyfa honum að hafa heimili hjá sér.

Brotaþoli sagði að aðdragandi þessa atviks hafi verið sá að hún hafi spurt ákærða hvort hann gæti passað fyrir hana á meðan hún færi í afmæli, en við það hefði ákærði reiðst mjög og slegið hana fast utan undir á hægri vanga með vinstri hendi. Í framhaldi af því hafi ákærði farið niðrandi orðum um hana við dóttur hennar. Sagðist brotaþoli þá hafa ýtt við ákærða og hafi hann þá lamið hana í andlitið með krepptum hnefa á vinstri vanga. Brotaþoli leitaði læknisaðstoðar í kjölfar atviksins og liggja fyrir vottorð frá læknum um áverka brotaþola. Reyndist hún vera með tvö göt á hljóðhimnu á hægra eyra, eitt stórt sem var fjórðungur af neðri aftari hluta hljóðhimnu, en hitt mjög lítið í framhluta hljóðhimnu, fyrir miðju. Auk þessa var vígtönn vinstra megin brotin.  

Ákærði var handtekinn og færður til skýrslutölu hjá lögreglu 1. mars 2016. Lýsti hann helstu málsatvikum og atburðarás með sama hætti og brotaþoli. Hins vegar neitaði hann því að hafa slegið brotaþola tvisvar og sagðist einungis hafa slegið hana í eitt sinn þegar hún ýtti við honum. Þá sagðist hann ekki hafa kýlt brotaþola með krepptum hnefa heldur hafi hann slegið hana lófahöggi, með vinstri lófa á hægri vangann og eyrað.

Ákærði hefur játað sök samkvæmt ákæruliðum II ­- V og verður því látið nægja að skírskota til málsatvika í ákæru að því er þá ákæruliði varðar, sbr. 4. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008.

Framburður fyrir dómi

Ákærði neitaði því að hafa kýlt brotaþola með krepptum hnefa, en viðurkenndi að hafa slegið hana með flötum lófa. Hann sagði að þau hafi verið að rífast vegna þess að hún væri á leiðinni til Egilsstaða á djammið. Sagði hann að brotaþoli hefði ýtt við honum og hann þá dottið aftur fyrir sig á náttborð í svefnherbergi íbúðarinnar. Í sömu svifum kvaðst hann hafa slegið brotaþola með flötum lófa á vinstri vangann. Höggið hafi ekki verið fast og sagðist ákærði hafa verið að verja sig. Hann sagði það ekki rétt að hann hafi slegið hana með vinstri lófa, heldur hafi það verið með hægri lófa, enda sé hann rétthentur. Í kjölfarið kvaðst hann hafa staðið upp og pakkað fötum sínum saman á meðan brotaþoli var enn að ráðast á hann. Ákærði sagðist muna eftir því að hafa farið í bað áður en til þessa kom.   

Aðspurður um skýringar á áverkum brotaþola sagði ákærði að tennur brotaþola hafi verið  slæmar og hafi verið að molna. Þannig hafi brotaþoli getað misst tönn við minnsta högg. Ákærði kvaðst ekki kunna skýringar á áverkum á hljóðhimnu brotaþola. Borin var undir ákærða frásögn hans í lögregluskýrslu 1. mars 2016, og sagði hann þar rangt eftir sér haft að hann hafi slegið brotaþola með vinstri lófa á hægri vangann og eyrað.

Ákærði sagði að hann og brotaþoli hafi verið sambýlisfólk á þeim tíma sem atvik máls áttu sér stað og eigi þau barn saman. Ákærði tók fram að hann hafi verið í neyslu, en sé núna edrú og kominn með fasta vinnu.

Brotaþoli sagði að ákærði hafi verið nýkominn úr meðferð í Svíþjóð. Hafi hann vantað samastað og því hafi hann búið á heimili hennar. Hún kvaðst hafa ætlað í afmæli og því beðið ákærða um að passa fyrir sig, en þá hafi hann orðið brjálaður og öskrað á sig. Því næst hafi hann  farið í bað, en er hann kom upp úr því hafi hann farið niðrandi orðum um brotaþola við dóttur hennar. Kvaðst hún þá hafa ýtt við ákærða, en hann í sama vetfangi slegið hana með flötum lófa í andlitið eða á vangann, en mundi ekki á hvorn vangann það var. Kvaðst hún eingöngu muna eftir einu höggi, en tók fram að langt væri um liðið.

Borinn var undir brotaþola framburður hennar hjá lögreglu 29. febrúar 2016, þar sem hún sagði að ákærði hefði fyrst slegið hana með flötum lófa, en síðan með krepptum hnefa, og sagðist brotaþoli kannast við þá frásögn og væri hún rétt. Hún sagði að afleiðingar árásarinnar hafi verið þær að hún hafi fengið tvö göt á hljóðhimnu, auk þess sem tönn hefði brotnað. Áverkar á hljóðhimnunni hafi gróið, en þeir hefðu getað orðið varanlegir. Aðspurð um ástand tannarinnar fyrir árásina sagði brotaþoli að hún hafi ekki verið laus heldur hafi höggið sem hún fékk orðið til þess að tönnin brotnaði.  Brotaþoli kvaðst í dag vera hvekkt og að hún sé enn að vinna úr andlegum afleiðingum árásarinnar.

Vitnið B rannsóknarlögreglumaður gaf skýrslu í gegnum síma. Hann staðfesti að brotaþoli hafi greint honum frá því að hún hafi leitað til tannlæknis og á bráðamóttöku vegna árásarinnar. 

Vitnið C læknir gaf skýrslu í gegnum síma. Vitnið staðfesti að hafa ritað læknabréf sem liggur frammi í málinu. Sagðist vitnið hafa skoðað brotaþola 29. febrúar 2016, sama dag og meint líkamsárás átti sér stað, og hafi brotaþoli sagt sér að barnsfaðir hennar hefði lamið hana tvisvar sinnum í andlitið. Sagði vitnið að brotaþoli hafi nánast ekkert heyrt á hægra eyra, auk þess sem vinstri vígtönn hafi verið laus og hangandi. Hann taldi að skemmdir aftarlega á tönninni hafi valdið því að hún var ekki föst fyrir. Þá sagðist hann hafa tekið eftir minniháttar bólgum á þessum svæðum.

Vitnið D læknir gaf skýrslu í gegnum síma. Vitnið sagði áverka á brotaþola samræmast því að hún hafi fengið þungt högg á hlið andlits eða beint á eyra. Vitnið tók fram að stærra gatið á hljóðhimnunni hafi tekið nokkra mánuði að gróa. Vitnið staðfesti að hafa ritað framlagt vottorð, dagsett 20. maí 2016.

Vitnið E tannlæknir gaf einnig skýrslu í gegnum síma. Vitnið tók fram að tannlæknir sem starfaði á stofu hans, F að nafni, hafi skoðað brotaþola við fyrstu komu, en hann hafi meðhöndlað brotaþola í kjölfarið. Sagði vitnið að tönnin hafi verið klofin með vertical sprungu, en þó hafi hún hangið í tannholdinu þegar brotaþoli kom fyrst. Vitnið kvað tönnina hafa verið veiklaða fyrir, en að brotið í tönninni benti til þess að eitthvað utanaðkomandi hafi komið til. Þá sagði vitnið að í sjúkraskýrslu væri ritað að greinilegur áverki eða bólga hafi verið á efri vör brotaþola, vinstra megin.  

Niðurstaða

Fyrir dómi lýsti ákærði tildrögum átaka við brotaþola með sama hætti og brotaþoli. Þá viðurkenndi hann að hafa slegið brotaþola einu sinni með flötum lófa hægri handar á vinstri vanga hennar, en neitaði því að hafa kýlt hana með krepptum hnefa. Við sama tækifæri var ákærði einnig spurður um áverka á brotaþola og sagði hann að brotaþoli hafi haft slæmar tennur og því hafi hún getað misst tönn við minnsta högg. Ekki kvaðst hann hins vegar kunna skýringar á áverkum á hljóðhimnu í hægra eyra brotaþola. Í skýrslu sem tekin var af ákærða eftir handtöku 1. mars 2016 sagðist ákærði hins vegar hafa slegið brotaþola með vinstri lófa á hægri vangann og eyrað, og hafi það verið eina höggið sem hann veitti henni. Fyrir dómi sagði ákærði að rangt væri eftir sér haft í skýrslu lögreglunnar, og hélt sig við þann framburð að hafa slegið brotaþola með flötum lófa hægri handar á vinstri vanga hennar. Í hljóðupptöku af skýrslu ákærða hjá lögreglu, sem dómari hefur hlýtt á, segist hann engu að síður hafa slegið brotaþola með flötum lófa vinstri handar á hægri vanga og eyrað á henni.  

Brotaþoli sagði fyrir dómi að ákærði hefði í umrætt sinn slegið hana með flötum lófa í andlitið eða á vangann, en mundi ekki á hvorn vangann það var. Þá sagðist hún aðeins muna eftir einu höggi, en langt væri um liðið.

Í kæruskýrslu hjá lögreglu 29. febrúar 2016 er haft eftir brotaþola að ákærði hafi slegið hana utan undir, á hægri vanga með vinstri hendi. Hafi höggið verið fast, enda væri ákærði mjög handsterkur. Hafi þetta gerst þegar ákærði kom úr baði og brotaþoli vildi ræða við hann. Eftir þetta kvaðst brotaþoli hafa sagt ákærða að fara út af heimilinu, en ákærði hafi þá viðhaft niðrandi orð um sig við dóttur hennar. Kvaðst brotaþoli þá hafa ýtt við ákærða, en ákærði hafi þá kýlt hana í andlitið. Ákærði hafi síðan neitað að yfirgefa íbúðina, en óskað eftir að brotaþoli æki honum heim til móður hans, sem brotaþoli hafi síðan gert. Að því loknu sagðist brotaþoli hafa farið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til skoðunar. Í sömu lögregluskýrslu var brotaþoli beðin um að lýsa síðara atvikinu og gerði hún það með þessum orðum samkvæmt hljóðupptöku sem dómari hefur hlýtt á: „Þetta gerðist svo hratt, hann kýldi mig bara, ég veit samt ekkert hvernig ég fór að því að brjóta tönnina, en ég er með rifna hljóðhimnu og er búin að láta skoða það. Ég þarf að fara aftur til læknis í fyrramálið í Reykjavík.“ Nánar spurð hvernig ákærði kýldi hana svaraði hún þannig: „Hann sneri sér bara og ýtti í mig og kýldi mig með krepptum hnefa á hægri vanga. Fyrst slær hann eitthvað frá sér og kýlir mig síðan, en tönnin er samt hérna megin og svo er þetta eyrað á mér.“ Í skýrslu lögreglunnar er ritað að ákærði hafi kýlt brotaþola með krepptum hnefa í andlitið, n.t.t. á vinstri vanga, en samkvæmt hljóðupptöku segir brotaþoli hægri vanga, en virðist engu að síður benda á „þetta svæði“ þ.e. þeim megin sem tönnin brotnaði, og á þá við vinstri vanga. Fyrir dómi var framburður brotaþola hjá lögreglu borinn undir hana og kvaðst hún þá kannast við lýsinguna og sagði hún þá lýsingu rétta.

Eins og áður greinir leitaði brotaþoli læknisaðstoðar strax eftir árás ákærða og liggur fyrir vottorð læknisins C um skoðun á brotaþola. Í vottorði hans er haft eftir brotaþola að barnsfaðir hennar hafi lamið hana tvisvar sinnum í andlitið. Jafnframt lýsir læknirinn þar áverkum á brotaþola, annars vegar rofi á hljóðhimnu á hægra eyra, og hins vegar lafandi og lausri vígtönn vinstra megin. Þá segir þar að minniháttar bólgur séu á yfirborði á þessum svæðum. Læknirinn staðfesti vottorð sitt fyrir dómi og hið sama gerði læknirinn D, sem skoðaði áverka á eyra brotaþola 1. mars 2016. Vitnið E tannlæknir, sem einnig gaf skýrslu fyrir dómi, tók fram að annar tannlæknir sem þá starfaði á stofu hans hefði skoðað brotaþola við fyrstu komu, 1. mars 2016, en kvaðst sjálfur hafa meðhöndlað brotaþola í kjölfarið. Þá sagði vitnið að í sjúkraskýrslu væri ritað að greinilegur áverki eða bólga væri á efri vör brotaþola, vinstra megin.  

Samkvæmt því sem að framan greinir þykir ljóst að áverkar á brotaþola samrýmast fullkomlega þeim lýsingum lýsingum hennar að ákærði hafi í umrætt sinn slegið hana og kýlt í andlitið. Í því ljósi, en einnig að teknu tilliti til trúverðugs framburðar brotaþola, þykir fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hann er sakaður um í I. ákærulið og er þar rétt heimfærð til refsiákvæða.   

Áður er fram komið að ákærði hefur játað sök samkvæmt ákæruliðum II - V, en þá með þeirri breytingu sem ákæruvaldið gerði á orðalagi V. liðar ákærunnar. Er háttsemi hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

Ákærði er fæddur í [...] og á samkvæmt framlögðu sakavottorði að baki nokkurn sakaferil, sem hefur þó ekki áhrif við ákvörðun refsingar hans nú. Við ákvörðun refsingar verður hins vegar til þess litið að árás hans á brotaþola samkvæmt I. lið ákæru var bæði fólskuleg og unnin án tilefnis, auk þess sem hún beindist að höfði brotaþola. Þá horfir það til refsiþyngingar samkvæmt 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að ákærði og brotaþoli bjuggu saman á þeim tíma sem atvik áttu sér stað og eiga þau saman eitt barn. Til málsbóta horfir aftur á móti að ákærði viðurkenndi skýlaust þau brot sem greinir í II. - V. lið ákæru. Þá ber að taka tillit til þess að brot ákærða samkvæmt I. lið ákæru var framið 29. febrúar 2016, en ákæra var gefin út 19. mars 2018, eða rúmum tveimur árum síðar. Hafa engar haldbærar skýringar komið fram á þessari töf á málsmeðferð. Að þessu gættu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 5 mánuði, sem bundin verður skilorði á þann veg sem í dómsorði greinir.

Í samræmi við kröfu ákæruvaldsins og með vísan til 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, verður ákærði sviptur ökurétti í 18 mánuði frá birtingu dóms þessa að telja. Jafnframt verður með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni, sbr. og 2. mgr. 14. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitskyld efni, fallist á upptöku á haldlögðum fíkniefnum.

Af hálfu brotaþola er krafist skaða- og miskabóta að fjárhæð 1.354.535 krónur. Krafan sundurliðast þannig að útlagður sjúkrakostnaður vegna tannviðgerðar nemur alls 86.858 krónum, þjáningabætur nema 165.600 krónum og miskabætur 1.000.000 króna. Þá er krafist lögmannskostnaðar vegna ritunar kröfunnar að fjárhæð 102.077 krónur. Í samræmi við ákvæði 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola sjúkrakostnað, 86.858 krónur, auk miskabóta samkvæmt a-lið 1. mgr. 26. gr. sömu laga, sem teljast hæfilegar 500.000 krónur. Krafa um þjáningabætur brotaþola er ekki studd neinum gögnum og telst því vanreifuð. Verður henni vísað frá dómi. Ákærði verður dæmdur til greiðslu vaxta eins og nánar greinir í dómsorði, svo og málskostnaðar vegna lögmannsaðstoðar við brotaþola, sem telst hæfilegur 280.000 krónur.

Samkvæmt framlögðum yfirlitum nemur sakarkostnaður lögreglu alls 253.351 krónu. Með hliðsjón af úrslitum málsins og vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærði dæmdur til greiðslu þeirrar fjárhæðar, auk málsvarnarlauna til skipaðs verjanda síns, Unnsteins Arnar Elvarssonar  lögmanns, 463.760 krónur. Við ákvörðun lögmannsþóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 5 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði er sviptur ökurétti í 18 mánuði frá birtingu dóms þessa að telja.

Upptæk eru gerð 88,23 grömm af kannabisefnum og 2 ecstacy töflur.

Ákærði greiði A 586.858 krónur, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 500.000 krónum frá 29. febrúar 2016 til 24. maí 2018, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til 4. júní 2018, en af 586.858 krónum frá þeim degi til greiðsludags, svo og lögmannskostnað að fjárhæð 280.000 krónur.

Kröfu brotaþola um þjáningabætur er vísað frá dómi.

Ákærði greiði 717.111 krónur í sakarkostnað, þar af 463.760 krónur í málsvarnarlaun til skipaðs verjanda síns, Unnsteins Arnar Elvarssonar lögmanns.

                             

                                                                                    Ingimundur Einarsson