• Lykilorð:
  • Laun
  • Uppsagnarfrestur
  • Uppsögn
  • Vinnulaunamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 14. febrúar 2018 í máli nr. E-570/2017:

 

Ásgeir Örn Ásgeirsson

(Guðmundur Birgir Ólafsson lögmaður)

gegn

Einari Ágústssyni & Co ehf.

(Ágúst Þórhallsson lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem þingfest var 7. júní sl. og dómtekið 6. febrúar sl., var höfðað með stefnu birtri 29. maí 2017.

            Stefnandi er Ásgeir Örn Ásgeirsson, kt. 000000-0000, Flétturima 1, Reykjavík. Stefndi er Einar Ágústsson & Co ehf., kt. 000000-0000, Dalvegi 16d, Kópavogi.

Stefnandi krefst þess að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða honum laun og orlof að fjárhæð 985.306 krónur auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af 178.950 krónum frá 1. júlí 2016 til 1. ágúst 2016 en frá þeim degi af stefnufjárhæð til greiðsludags. 

Þess er krafist að dæmt verði að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 1. janúar 2015 en síðan árlega þann dag.

Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins, en málskostnaðarreikningur verður lagður fram við aðalflutning málsins ef til hans kemur. Krafist er vaxta af málskostnaði skv. 3. kafla vaxtalaga frá 15. degi eftir uppkvaðningu dóms til greiðsludags. Einnig er krafist virðisaukaskatts af málskostnaði þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur.

            Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að fjárkrafa stefnanda verði lækkuð. Þá er krafist málskostnaðar.

Málsatvik.

Samkvæmt gögnum málsins réð stefndi stefnanda til starfa hjá stefnda frá og með 15. febrúar 2016. Var stefnandi ráðinn sem framkvæmdastjóri sölusviðs og var í 100% starfshlutfalli. Voru umsamin laun 450.000 krónur á mánuði. Samkvæmt gögnum málsins og frásögnum aðila af starfslokum stefnanda ber þeim ekki saman um það hvort stefnandi hafi sagt sjálfur upp störfum eða hvort stefndi hafi sagt stefnanda fyrirvaralaust upp störfum. Stefnandi kveður að honum hafi verið sagt að yfirgefa fyrirtækið fyrirvaralaust og skila lyklum þann 20. júní 2016 en stefndi kveður stefnanda ekki hafa mætt til vinnu eftir að honum hafi verið sagt að gera það.  

            Stefnandi leitaði til VR sem hafði samband við stefnda með tölvupósti þann sama dag. Í framhaldi sendi VR bréf þann 10. ágúst 2016 til stefnda og lögmaður stefnanda þann 22. ágúst 2016.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir kröfu sína á því að hann hafi hafið störf hjá stefnda þann 15. febrúar 2016 en hafi verið sagt upp störfum einhliða og fyrirvaralaust þann 20. júní 2016. Hafi vinnuframlagi hans á uppsagnarfresti verið hafnað. Samkvæmt gr. 12.1 í kjarasamningi VR og SA segi að uppsagnarfrestur starfsmanns sem starfað hafi hjá sama fyrirtæki í þrjá mánuði eða meira sé einn mánuður bundinn við mánaðamót.

            Uppsagnarfresti stefnanda hafi því lokið í lok júlí 2016 og því sé gerð krafa um laun í uppsagnarfresti fyrir júlímánuð 2016 að fjárhæð 450.000 krónur og ógreidd laun vegna júní 2016, 162.000 krónur. Gerð sé krafa um áunnið orlof sem sé 10,17% vegna júní 2016, samtals 16.475 krónur. Þá sé gerð krafa um áunnið hlutfall af orlofs- og desemberuppbót en fullar uppbætur miðist við 45 vinnuvikur. Full orlofsuppbót samkvæmt kjarasamningi fyrir árið 2016 sé 46.500 krónur og hafi stefnandi áunnið sér samtals 4.133 krónur. Full desemberuppbót samkvæmt kjarasamningi fyrir árið 2016 sé 82.000 krónur og hafi stefnandi áunnið sér samtals 6.933 krónur.

            Einnig gerir stefnandi kröfu um miskabætur skv. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að fjárhæð 300.000 krónur vegna meiðandi framkomu stefnda í garð stefnanda við framkvæmd uppsagnar. Stefndi hafi gert stefnanda að skila lyklum og taka saman dót sitt og vísað honum eða eftir atvikum leitt hann út í tvígang af vinnustaðnum fyrir framan aðra starfsmenn og gert honum að hypja sig. Stefndi hafi bæði gengið óþarflega hart fram við framkvæmd uppsagnarinnar ásamt því að framganga hans hafi verið niðurlægjandi, meiðandi með því að kalla hann aftur til vinnu í þeim eina tilgangi að vísa honum út aftur. Framkoman hafi falið í sér ólögmæta meingerð gagnvart persónu og æru stefnanda.

            Krafa stefnanda sundurliðast þannig:

            Vangreidd laun vegna júní 2016                                             162.000 krónur.

            Orlof vegna júní 2016                                                   16.475 krónur.

            Laun í uppsagnarfresti vegna júlí 2016                                   450.000 krónur.

            Orlof vegna júlí 2016                                                                45.765 krónur.

            Orlofsuppbót 2017                                                                      4.133 krónur.

            Desemberuppbót                                                                         6.933 krónur.

            Miskabætur skv. b-lið 1. mgr. 26. gr. skbl.                             300.000 krónur.

            Samtals                                                                                    985.306 krónur.

Stefnandi byggir á því að samkvæmt gr. 1.9 í kjarasamningi VR og SA sem gildi frá 1. maí 2015 eigi laun að greiðast fyrsta dag eftir að mánuði þeim lýkur sem laun séu greidd fyrir. Að auki skuli vinnuveitandi greiða áunnið orlof til launþega við lok ráðningarsambands skv. 8. gr. orlofslaga nr. 30/1987.

Þar sem innheimtutilraunir, samanber bréf frá VR þann 10. september 2016 og ítrekunarbréf frá lögmanni stefnanda þann 28. september 2016, hafi ekki borið árangur hafi málshöfðun þessi verið nauðsynleg.

Stefnandi byggir á því að sú háttsemi stefnda að bera hann út í tölvupósti til starfsmanna Háskólans í Reykjavík hafi verið meiðandi og lítillækkandi fyrir stefnanda.

Stefnandi styður kröfur sínar við lög nr. 7/1936 um samningsbrot o.fl., meginreglur kröfuréttar, meginreglur vinnuréttar, kjarasamninga VR og vinnuveitenda og bókanir sem teljist hluti kjarasamninga. Kröfuna um miskabætur styður stefnandi við skaðabótalög nr. 50/1993. Kröfuna um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við 6. og 12. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 og kröfuna um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 129. gr. 4. tl. um vexti af málskostnaði. Þá er krafist virðisaukaskatts af málskostnaði þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda. Dómkrafa stefnanda sé að mati stefnda byggð upp á tveimur þáttum. Um sé að ræða vangreidd laun í júní 2016, orlof í júní 2016, laun í uppsagnarfresti í júlí 2016, orlof í júlí 2016, orlofsuppbót 2017 og desemberuppbót 2016. Stefndi telur að stefnanda hafa aldrei á neinum tímapunkti verið sagt upp störfum og aldrei verið gert að hætta störfum fyrirvaralaust, skila lyklum eða öðrum eigum eins og haldið sé fram í stefnu. Stefnandi hafi hins vegar hætt sjálfviljugur, skilað af sér lyklum og viðskiptakorti, ekki mætt til fundar við eiganda og rokið út úr húsinu og seinna sama dag neitað að koma til starfa. Því telur stefndi að sýkna eigi hann af þeim fjárkröfum sem gerðar séu. Þær aðgerðir sem fyrirsvarsmaður stefnda, Árni Grétar Gunnarsson, réðst í, þ.e. að boða stefnanda á fund með staðfestingu á menntun, hafi verið óhjákvæmilegar og til þess gerðar að bregðast við þeirri umræðu sem upp hafði komið á  vinnustaðnum. Árni hafi fyrir hönd stefnda gert það eina rétta í stöðunni, að óska eftir fundi með stefnanda og óska eftir að prófskírteinið yrði lagt fram svo að hægt væri að leysa málin strax.

Stefnanda hafi verið gefinn kostur á því að leggja fram skírteinið og skýra sitt mál gagnvart eiganda en stefnandi hafi tekið þann pól í hæðina að mæta ekki til fundarins og skila af sér lyklum og öðrum gögnum. Með engu móti sé hægt að líta á að stefnanda hafi verið sagt upp störfum, heldur þvert á móti hafi það verið stefnandi sjálfur sem gekk sjálfviljugur út úr sinni vinnu með þeim hætti að skila öllum skilríkjum og lyklum.

Stefndi telji því að hann hafi ekki sagt stefnanda upp störfum, þvert á móti hafi stefnandi brotið ráðningarsamning sinn og neitað að koma aftur til vinnu þrátt fyrir að hafa verið beðinn um það. Því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Varðandi vangreidd laun í júní 2016 þá liggur fyrir að stefnandi hafi fengið greitt fyrir nákvæmlega þá daga sem hann vann hjá stefnda. Stefnandi ákvað sjálfviljugur að mæta ekki til starfa þrátt fyrir að vera skyldugur til þess og þar af leiðandi geti stefnandi ekki farið fram á nein laun fyrir þá daga sem hann ekki mætti til vinnu. Sama eigi við um orlof fyrir júní 2016. Þá telur stefndi að hann eigi ekki að greiða laun í uppsagnarfresti þegar stefnandi sjálfur hlaupi úr vinnu og standi þannig ekki við ráðningarsamning sinn. Kröfum um orlof, orlofsuppbót og desemberuppbót sé hafnað með sömu rökum og einnig sem ósönnuðum.

Þá hafnar stefndi kröfu um miskabætur og krefst sýknu af þessum lið. Sönnunarbyrðin fyrir miskabótum hvíli á stefnanda og þurfi hann að sanna í fyrsta lagi að hann hafi orðið fyrir tjóni og hvert tjón hans sé. Í öðru lagi að um hafi verið að ræða saknæma háttsemi af hálfu stefnda og í þriðja lagi að tjón stefnanda verði rakið til háttsemi stefnda, þ.e. orsakatengsl. Ekkert af þessu sé sannað.

Stefndi vísar til meginreglna kröfuréttar, meginreglna vinnuréttar, kjarasamnings VR og vinnuveitanda og bókana sem teljast hluti kjarasamninga og meginreglna laga um sönnun í einkamálum. Varðandi kröfu um málskostnað vísar stefndi til 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Skýrslur fyrir dómi.

Stefnandi, fyrirsvarsmaður stefnda og vitnið Birgir Hólm Logason gáfu skýrslu fyrir dóminum. 

Forsendur og niðurstaða.

Ekki er tölulegur ágreiningur í máli þessu. Þá er ekki ágreiningur um að stefnandi hafi verið ráðinn sem framkvæmdastjóri sölusviðs hjá stefnda í febrúar 2016. Ágreiningur aðila snýst um það hvor hafi sagt starfi stefnanda upp, stefndi eða stefnandi, og rift með því ráðningasamningi aðila þann 20. júní 2016.

            Stefndi kvað fyrir dóminum að stefnandi hafi staðið sig vel í vinnu fyrir utan að hann hafi ekki kunnað á excel-forritið sem sé nauðsynlegt verkfæri í hans stöðu. Stefndi hafi komist að því í vikunni áður en stefnandi lét af störfum. Stefndi sendi Háskóla Reykjavíkur tölvupóst og óskaði eftir afriti af prófskírteini stefnanda um að hann hefði lokið prófi frá viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Við þeirri beiðni varð skólinn ekki og óskaði stefndi þá eftir afriti af skírteini þessu frá stefnanda. Samkvæmt stefnanda neitaði stefndi að móttaka afrit af prófskírteini hans daginn eftir þegar stefnandi framvísaði því.

            Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi mánudaginn 20. júní 2016 rekið sig út úr fyrirtækinu og sagt sér að skila lyklum að því. Stefnandi kveðst hafa afhent stefnda lyklana. Stefndi staðfesti að lyklarnir hafi verið í skúffu fyrirtækisins og hann hafi síðan haldið starfsmannafund þann sama dag þar sem hann tilkynnti að stefnandi væri ekki lengur starfsmaður fyrirtækisins. Þá kvaðst stefndi, fyrir dóminum, hafa skipt um skrá í útidyrahurð fyrirtækisins sama kvöld því að mögulega væri stefnandi með fleiri lykla í sínum vörslum.

            Stefndi mun í framhaldi hafa hringt í vitnið Birgi og sagt honum frá stöðu mála. Fyrir dóminum kvaðst vitnið hafa sagt stefnda að þeir mættu ekki við því að missa stefnanda þar sem hann væri góður sölumaður og þeir sammælst um að stefndi hringdi í stefnanda og byði honum að koma aftur til starfa sem sölumaður. Fyrir dóminum kannaðist stefndi í fyrstu ekki að hafa hringt í stefnanda en kvaðst síðar hafa gert það. Kemur það einnig fram í tölvupósti frá stefnda að hann hafi hringt í stefnanda.

            Stefnandi kveðst hafa mætt hjá stefnda aftur daginn eftir eða á þriðjudeginum og þá eftir að hafa ráðfært sig við VR um stöðu sína. Hafi hann því haft með sér uppsagnareyðublað til undirritunar fyrir stefnda en stefndi tekið því illa og í tölvupósti frá stefnda til starfsmanns VR að kvöldi 21. júní 2016 segir um það:  „Þá bað ég hann nú að hypja sig aftur og fylgdi honum út úr húsinu.“ Er þetta í samræmi við frásögn stefnanda.

            Með tölvupósti þann 22. júní 2016 lagði starfsmaður VR til að menn sættust og að stefnandi legði fram sitt vinnuframlag og væri stefnandi tilbúinn til þess. Í niðurlagi svars stefnda morguninn eftir segir að stefnandi hafi komið þar við áðan og byrjað að matast fyrir framan afgreiðsluborð þar niðri: „Ég endurtók leikinn frá í gær og leiddi hann út úr húsinu.“ Staðfesti stefndi þennan tölvupóst frá sér fyrir dómi. Þá er þessi frásögn í samræmi við framburð stefnanda.

            Stefndi heldur því fram að kunnátta stefnanda á excel-forrit hafi ekki verið nægjanleg til að hann gæti sinnt starfi sínu og inntur eftir því fyrir dómi hvort honum hafi staðið til boða að sækja námskeið til að bæta úr því neitaði stefndi því.

            Eins og mál þetta liggur fyrir telur dómurinn fullsannað að stefndi hafi, með framkomu sinni um að henda stefnanda út eða vísa honum út úr fyrirtækinu í þrígang á þremur dögum, allt á þeim forsendum að stefnandi hafi ekki kunnað nægjanlega fyrir sér í excel, sagt ráðningasamningi aðila upp fyrirvaralaust og án nægjanlegs tilefnis eða aðvörunar. Engin gögn hafa verið lögð fram um að stefndi hafi haft réttmæta ástæðu til að segja ráðningasamningnum upp fyrirvaralaust á þeim forsendum sem hann ber fyrir sig. Telur dómurinn lögfulla sönnun fram komna um að stefndi hafi á ólögmætan hátt sagt stefnanda fyrirvaralaust upp störfum með háttsemi sinni. Því til staðfestu er framburður stefnda sjálfs um að hann hafi skipt um læsingar á fyrirtækinu ef ske kynni að stefnandi hefði fleiri lykla í fórum sínum.

Stefnandi hóf störf hjá stefnda 15. febrúar 2016. Reynslutími var þrír mánuðir. Eftir þann tíma hafði stefnandi áunnið sér eins mánaðar uppsagnarfrest sem byrjaði að líða um næstu mánaðamót frá uppsögn, sbr. gr. 12.1 í kjarasamningum milli VR og SA. Ber stefnanda því að fá greidd laun út þann mánuð sem uppsögnin fór fram auk eins mánaðar að auki á uppsagnarfresti. Verður krafa stefnanda um vangreidd laun á uppsagnarfresti því tekin til greina eins og segir í dómsorði.

            Stefnandi krefst miskabóta að fjárhæð 300.000 krónur úr hendi stefnda vegna ólögætra meingjörða. Því mótmælir stefndi.

            Í tölvupósti sem stefndi sendi á starfsmann Háskólans í Reykjavík þann 14. júní 2016 fer stefndi fram á upplýsingar um það hvort stefnandi hafi stundað eða lokið B.Sc gráðu í viðskiptafræði við háskólann. Daginn eftir ítrekaði stefndi fyrirspurn sína hjá skólanum og segir m.a.: „En er það t.d. möguleiki að maður sem kann ekki að margfalda saman tvær tölur í excel sé með lokapróf í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík?“ Sama dag er stefnda svarað í tölvupósti og hann upplýstur um að ekki sé heimilt að veita þær upplýsingar sem stefndi óskar eftir en er bent á að ræða við yfirmann í skólanum. Þann 20. júní 2016 sendi stefndi tölvupóst á Einar Hreinsson, forstöðumann við kennslusvið hjá Háskólanum í Reykjavík, sem hafði kennsluvið/nemendabókhals í cc. Segir í tölvupóstinum: „Enn hefur ekkert svar borist varðandi fyrirspurn mína um Ásgeir Örn Ásgeirsson. Ég á mjög erfitt með að bíða lengur eftir því. Hann hefur ráðið sig hér í stjórnunarstarf undir þeim formerkjum að hann sé viðskiptafræðingur frá ykkar skóla. Það blasir við að hann kann ekkert í excel, kann ekki að marfalda tvær tölur. Einnig blasir við mér að hann er ekki að nýta sér stjórnunarlega eða aðra þekkingu sem hann ætti að hafa vald á nýútskrifaður viðskiptafræðingur úr skóla. Undirritaður er eigandi og framkvæmdastjóri Einars Ágústssonar & Co ehf sem er öflug heildverslun með byggingavörur. Ásgeir er hér ráðinn sem framkvæmdastjóri sölusviðs og hefur mannaforráð 4-5 manna. Hann vann hér frá miðjum febrúar við hlið fráfarandi framkvæmdastjóra sem sölumaður, með það að markmiði að læra sem mest af honum og leysa hann svo af hólmi, en viðkomandi var að láta hér af störfum. Núna er hann búinn að vera nokkrar vikur undir minni stjórn og við blasir að hann hefur enga þekkingu á einu né neinu. Það er auðvitað algjörlega útilokað mál að vera með stjórnanda sem ekki notar excel eða önnur office verkfæri. Hér fer allt þannig fram, viðskiptaáætlanir, tilboð og yfirleitt öll samskipti. Ég er sjálfur oftast með um 5-10 skjöl opin sem ég er að vinna eitthvað með. Hjálagt eru hans upplýsingar sem hann gaf okkur þegar hann sótti um starfið, en ekkert prófskýrteini fylgdi. Ég hef ekki gengið eftir því hjá honum, sneri mér fyrst til ykkar. Fyrir mér er það grafalvarlegt mál ef hann hefur komist í gegnum nám hjá ykkur með þessa þekkingu. Og ljóst að hann hefur þegar valdið EinariÁ tjóni, því hann er þegar kominn fram yfir reynslutíma í starfi og núna kostnaðarsamt og álitshnekki að segja honum upp. Ég ætlaði með ráðningu hans að fá mér inn mikla nýja þekkingu í stjórnun og viðskiptaháttum, en það er ljóst að það verður ekki með þessum manni. Endilega svarið mér sem fyrst.“

            Staðfesti stefndi að framangreindur tölvupóstur stafaði frá honum og kvaðst aðspurður fyrir dóminum myndi gera þetta nákvæmlega sama aftur ef hann lenti í þeirri stöðu.

            Stefndi sendi ofangreindan tölvupóst á yfirmann nemendaskrár ásamt öðru starfsfólki við Háskólann í Reykjavík þar sem stefnandi sannanlega stundaði nám og lauk prófi frá viðskiptadeild. Stefndi upplýsti sjálfur í tölvupóstinum að hann hefði þá ekki leitað til stefnanda sjálfs með þessar upplýsingar.

            Með þessari háttsemi sinni niðurlægði stefndi stefnanda við ótilgreinda aðila vísvitandi og var með meiðandi ummæli um hann án þess að gefa stefnanda kost á að svara fyrir sig. Þá lítur dómurinn svo á að framkoma stefnda við að segja stefnanda upp störfum með þeim hætti sem lýst er hér að framan hafi einnig verið meiðandi fyrir stefnanda. Hefur stefndi, með þessari háttsemi, bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda.

            Verður krafa stefnanda um að stefndi greiði honum miskabætur á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 tekin til greina eins og segir í dómsorði og þykir krafan hófleg.

            Að þessum niðurstöðum fengnum og með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 1.000.000 króna í málskostnað.

Ekki eru efni til að dæma að dráttarvextir leggist við höfuðstól á tólf mánaða fresti, eins og krafist er í stefnu, með vísan til 12. gr. laga nr. 38/2001.

 

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, Einar Ágústsson & Co ehf., greiði stefnanda, Ásgeiri Erni Ásgeirssyni, 985.306 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af 178.950 krónum frá 1. júlí 2016 til 1. ágúst 2016 en af 985.306 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

            Stefndi greiði stefnanda 1.000.000 króna í málskostnað.

             

 

                                                            Ástríður Grímsdóttir