• Lykilorð:
  • Loforð
  • Umboð
  • Skuldamál

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness mánudaginn 28. janúar 2019 í máli nr. E-417/2018:

Kvarnir ehf.

(Marteinn Másson lögmaður)

gegn

Geymslusvæðinu ehf.

(Atli Már Ingólfsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 4. desember 2018, er höfðað 30. apríl 2018.

Stefnandi er Kvarnir ehf., Álfhellu 9, Hafnarfirði.

Stefndi er Geymslusvæðið ehf., Hraungörðum, Hafnarfirði.

Endanlegar kröfur stefnanda eru að stefndi greiði honum 2.059.181 krónu, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 79.280 krónum frá 13. maí 2016 til 10. júní 2016, en af 175.515 krónum frá þeim degi til 10. júlí 2016, en af 260.865 krónum frá þeim degi til 10. ágúst 2016, en af 331.421 krónu frá þeim degi til 10. september 2016, en af 419.616 krónum frá þeim degi til 10. október 2016, en af 504.966 krónum frá þeim degi til 10. nóvember 2016, en af 591.161 krónu frá þeim degi til 10. desember 2016, en af 676.511 krónum frá þeim degi til 10. janúar 2017, en af 764.706 krónum frá þeim degi til 10. febrúar 2017, en af 852.901 krónu frá þeim degi til 10. mars 2017, en af 932.561 krónu frá þeim degi til 10. apríl 2017, en af 1.020.756 krónum frá þeim degi til 10. maí 2017, en af 1.106.106 krónum frá þeim degi til 10. júní 2017, en af 1.194.301 krónu frá þeim degi til 10. júlí 2017, en af 1.279.651 krónu frá þeim degi til 10. ágúst 2017, en af 1.367.846 krónum frá þeim degi til 10. september 2017, en af 1.456.041 krónu frá þeim degi til 10. október 2017, en af 1.541.391 krónu frá þeim degi til 10. nóvember 2017, en af 1.629.586 krónum frá þeim degi til 10. desember 2017, en af 1.714.936 krónum frá þeim degi til 10. janúar 2018, en af 1.803.131 krónu frá þeim degi til 10. febrúar 2018, en af 1.891.326 krónum frá þeim degi til 10. mars 2018, en af 1.970.986 krónum frá þeim degi til 10. apríl 2018, en af 2.059.181 krónu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að fjárhæð 92.772 krónur og 110.776 krónur þann 17. júlí 2017 og innborgun að fjárhæð 98.116 krónur 15. ágúst 2017, sem dragast frá kröfunni miðað við stöðu hennar á innborgunardögum.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

I

Í stefnu segir að stefnandi sé fyrirtæki sem leigi út og selji margs konar byggingarvörur, svo sem byggingarpalla og byggingarkrana, steypumót og íhluti fyrir þau, og margt fleira, og þjóni stórum hópi viðskiptavina í byggingariðnaði.

Í september 2015 seldi stefndi notuð steypumót af gerðinni Ringer til […] á […] ásamt 982 mótaklemmum og öðrum fylgihlutum. Í ljós kom að mótaklemmurnar voru fyrir svonefnd MEVA-mót en ekki fyrir Ringer-steypumót. Lenti stefndi af þeim sökum í vandræðum gagnvart […], sem þurfti nauðsynlega á mótaklemmunum að halda vegna byggingarframkvæmda.

Aðila greinir á um málsatvik. Í greinargerð stefnda segir að forsvarsmaður […] hafi haft samband við forsvarsmann stefnda í mars 2016 og óskað eftir því að hann hefði milligöngu um að taka á leigu mótaklemmur fyrir […] sem pössuðu á steypumót sem seld voru 2015 þar sem félagið gat ekki nýtt sér þær klemmur sem höfðu fylgt með í sölunni. Í stefnu segir að forsvarsmaður stefnda hafi haft samband við forsvarsmenn stefnanda í apríl 2016 og óskað eftir því að fá leigðar mótaklemmur. Hafi hann fengið leyfi hjá stefnanda til þess að senda pöntun með tölvupósti, þar sem hann hafi ekki komst í starfsstöð stefnanda til þess að kvitta fyrir leigunni. Hafi hann ætlað að koma síðar til að ganga frá leigusamningnum.

Forsvarsmaður stefnda, Ástvaldur Óskarsson, sendi starfsmanni stefnanda pöntun í tölvupósti 7. apríl 2016. Þar segir orðrétt: „Staðfesti hér með pöntun á leigu 200 doka klemmum fyrir […], Klára frágang á þessu við Steingrím þegar hann kemur til landsins.“ Sama dag var gerður leigusamningur á nafn stefnda vegna pöntunarinnar og mótaklemmurnar síðan sendar til […]. Sendi stefnandi klemmurnar með Flytjanda, sbr. vörufylgibréf númer […]. Í samningnum segir meðal annars að Ástvaldur hafi pantað klemmurnar vegna „[…]“ og að þær hafi verið keyrðar á „[…].“ Undir samninginn ritar A fyrir hönd stefnanda. Af hálfu stefnda var samningurinn ekki undirritaður.

Stefnandi gaf mánaðarlega út reikninga vegna leigu á mótaklemmunum og sendi stefnda. Í stefnu segir að forsvarsmenn stefnanda hafi í september 2016 farið til stefnda vegna vanefnda á leigugreiðslum og hafi hann óskað þess að beðið yrði með innheimtuaðgerðir. Stefnandi sendi stefnda viðvörun um innheimtuaðgerðir 26. október 2016 og innheimtubréf 15. nóvember 2016. Þá var stefna vegna kröfunnar birt á heimili fyrirsvarsmanns stefnda 29. nóvember 2016.

Í stefnu segir að um miðjan janúar 2017 hafi þess verið óskað af hálfu stefnda að hann fengi að greiða 100.000 krónur á mánuði inn á leiguskuldina. Í samtölum forsvarsmanna málsaðila í janúar og febrúar 2017 hafi komið skýrt og ítrekað fram af hálfu stefnanda að hann hefði litið svo á að stefndi hefði verið og væri leigutaki að mótaklemmunum. Á sama tíma hafi stefnandi sett frekari innheimtuaðgerðir í biðstöðu á meðan stefndi hafi reynt að greiða úr málinu sín megin frá.

Þann 17. júlí 2017 greiddi stefndi tvær greiðslur inn á kröfu stefnanda, annars vegar 92.772 krónur og hins vegar 110.776 krónur. Þá greiddi stefndi 98.116 krónur inn á kröfuna 15. ágúst 2017.

Í tölvubréfi frá lögmanni stefnda til stefnanda 30. október 2017 kemur fram að stefndi hafi óskað eftir því fyrir […] að fá afhentar á leigu 200 doka klemmur. Hafi stefndi ekki óskað eftir leigu á klemmunum fyrir sig og hafi því ekki verið leigutaki að klemmunum. Þá segir að stefndi hafi greitt inn á kröfu stefnanda vegna samkomulags við […] þrjá reikninga fyrir apríl, maí og júní 2016 en skýrt hafi komið fram að […] væri með mótin og bæri ábyrgð á þeim. Loks segir í bréfinu að stefndi hafi reynt að fá […] til að skila mótunum eða greiða þá reikninga sem stefnandi hafi sent stefnda en án árangurs. 

Þann 31. október 2017 gerði stefnandi stefnda tilboð um að selja honum 200 mótaklemmur fyrir 1.761.800 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Með bréfi 2. nóvember 2017 til stefnda krafðist stefnandi greiðslu samkvæmt samningi 7. apríl 2016 um leigu á 200 mótaklemmum og reikningum útgefnum í lok hvers mánaðar á leigutímanum. Höfuðstóll kröfu í vanskilum nam þann dag 1.361.806 krónum auk dráttarvaxta og kostnaðar. Í bréfinu segir að stefnandi líti ekki svo á að stofnast hafi til samningssambands milli stefnanda og […], enda hafi Ástvaldur Óskarsson ekki haft skriflegt umboð til þess að skuldbinda félagið gagnvart stefnanda. Í svarbréfi lögmanns stefnda 14. nóvember 2017 var greiðslu kröfunnar hafnað og bent á að stefndi væri ekki leigutaki samkvæmt samningnum og hafi stefnanda verið kunnugt um það. Var skorað á stefnanda að fella kröfuna niður og beina henni að réttum leigutaka og þeim aðila sem stefnandi sendi vörurnar til.

Lögmaður stefnanda sendi tölvupóst til B hjá […] 28. nóvember 2017 og leitaði eftir upplýsingum um það hvort fyrir hendi væri samkomulag við Ástvald fyrir hönd stefnda um að hann útvegaði mótaklemmur hjá stefnanda í stað þeirra sem ekki pössuðu fyrir þau steypumót sem stefndi seldi […]. Enn fremur hvort Ástvaldur eða stefndi hefði umboð frá […] til að leigja mótaklemmurnar. Loks var B spurður að því hvort hann liti svo á að Ástvaldur hefði látið senda mótaklemmurnar til […] til eignar til að uppfylla samningsskyldur stefnda til […]. Í svarbréfi B fyrir hönd […] 29. nóvember 2017 kemur fram að Ástvaldur hafi ekki haft umboð frá […] til að útvega mótaklemmurnar.

Með bréfi til stefnanda 10. janúar 2018 fór stefndi fram á að reikningar vegna vangoldinnar leigu yrðu felldir niður og þess í stað yrðu gefnir út reikningar á […]. Því hafnaði stefnandi með bréfi 17. janúar 2018. Í bréfi lögmanns stefnda til […] 23. mars 2018 segir að verði stefnda stefnt til greiðslu á leiguskuld við stefnanda áskilji stefndi sér rétt til að stefna […] inn í málið og eða heimta skaðabætur úr hendi […] verði stefndi dæmdur til að greiða stefnanda leigukröfuna.

II

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að hann hafi í góðri trú leigt stefnda tilgreindan fjölda af mótaklemmum samkvæmt pöntun forsvarsmanns stefnda eftir viðræður hans við forsvarsmenn stefnanda í byrjun apríl 2016. Hafi pöntunin eftir það verið staðfest í tölvupósti 7. apríl 2016. Heldur stefnandi því jafnframt fram að með pöntuninni hafi stefndi skuldbundið sig til þess að hlíta samningsskilmálum, einkum þeim almennu reglum leiguréttar að greiða umkrafið leigugjald á réttum tíma og að skila leigumunum í ásættanlegu ástandi að leigutíma loknum. Þá heldur stefnandi því fram að allt frá því að forsvarsmaður stefnda hafi ámálgað það að hann þyrfti að fá mótaklemmur leigðar hafi stefnandi litið svo á að stefndi væri leigutakinn, enda engum öðrum viðsemjanda til að dreifa. Stefnandi bendi á að það hafi verið forsvarsmaður stefnda sem hafi átt í viðræðum við forsvarsmenn stefnanda um leiguna og að það hafi verið forsvarsmaður stefnda sem hafi staðfest pöntunina 7. apríl 2016. Stefnandi bendi einnig á að enginn annar aðili hafi komið að þessum viðræðum og pöntun, hvorki beint né með því að veita forsvarsmanni stefnda umboð til samningsgerðar fyrir sína hönd. Í þessu sambandi leggi stefnandi áherslu á að […] hafi ekki átt neina aðkomu að málinu, hvorki við pöntun leigumuna né á síðari stigum málsins, t.d. með leigugreiðslum.

Stefnandi hafi útbúið leigusamning á nafn stefnda. Allir leigureikningar hafi verið stílaðir á nafn stefnda. Vegna greiðsludráttar hafi stefnandi sótt á stefnda um greiðslu reikninga og hafi stefndi greitt inn á leigukröfuna og haldi stefnandi því fram að með því hafi stefndi ótvírætt staðfest samningsaðild sína og greiðsluskyldu.

Að öllu framangreindu virtu telji stefnandi ekkert í málsatvikum og fyrirliggjandi gögnum bera annað með sér en að stefndi hafi tekið á sig samningsskuldbindingar vegna leigu á mótaklemmunum og beri þannig samningsbundna greiðsluskyldu vegna útgefinna reikninga. Stefndi hafi hvorki mótmælt né gert athugasemdir við fjölda leigðra mótaklemma, einingaverðin á leigureikningunum eða umkrafða leigu að öðru leyti samkvæmt útgefnum reikningum. Kveðst stefnandi líta svo á að ekki sé ágreiningur um þessa þætti málsins. Samkvæmt framlögðu yfirliti nemi heildarkrafan 2.059.181 krónu sem sé stefnukrafa málsins.

Verði komist að þeirri niðurstöðu að stefndi sé ekki samningsbundinn stefnanda vegna leigðra mótaklemma haldi stefnandi því fram að stefndi beri bótaábyrgð gagnvart sér með því að taka mótaklemmurnar á leigu fyrir hönd […], án þess að hafa umboð til slíks löggernings eða án nokkurs atbeina […] að öðru leyti, þannig að bindandi væri fyrir félagið. Pöntunin hafi ekki verið gerð með heimild og í umboði […] og að því hafi ekki komist á samningssamband milli stefnanda og […]. Stefnandi bendi á að samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga hvíli sönnunarbyrði á þeim sem kemur fram sem umboðsmaður annars aðila um að hann hafi haft umboð til þess að gera bindandi samning fyrir hönd þess aðila. Stefnandi telji að hann eigi þá bótakröfu á hendur stefnda fyrir sömu fjárhæð og nemi samanlögðum fjárhæðum útgefinna reikninga, eða 2.059.181 krónu, að viðbættum dráttarvöxtum. Bótakrafa stefnanda byggist að öðru leyti á almennu skaðabótareglunni, þar sem stefndi hafi valdið honum fjárhagslegu tjóni með gáleysi eða ásetningi með pöntun á hinum leigðu mótaklemmum án þess að hafa til þess umboð þriðja aðila er skuldbatt gæti þann aðila.

Dómkrafa stefnanda byggist á útgefnum leigureikningum þannig að höfuðstóll kröfunnar hækkar um fjárhæð leigureiknings hvers mánaðar og dráttarvextir reiknist á samanlagða fjárhæð höfuðstóls á tilgreindum eindaga hvers reiknings.

Hvað lagarök varðar styður stefnandi dómkröfur sínar við almennar reglur íslensks samninga- og kröfuréttar um stofnun og skuldbindingargildi samninga, skyldu skuldara til réttra efnda á réttum tíma og heimild kröfuhafa til að beita lög- og samningsbundnum vanefndaúrræðum vegna vanefnda skuldara. Stefnandi vísar einnig til meginreglna íslensks leiguréttar hvað varðar leigugreiðslur, leigutíma og skil á hinu leigða. Stefnandi styður kröfur sínar enn fremur við meginreglu laga nr. 7/1936, sem meðal annars kemur fram í 1. mgr. 25. gr. laganna um umboð, um veitingu umboðs, gildi umboðsins og ábyrgð umboðsmanns ef umboð, sem hann telur sig hafa til löggerningsgerðar, reynist ógilt eða hafi aldrei verið til staðar. Vísað er til lagagreinarinnar að því er sönnunarbyrði varðar. Þá styður stefnandi kröfur sínar við hina almennu reglu í samninga- og kröfurétti um að skuldara í samningssambandi beri að greiða uppsett verð fyrir þjónustu nema hann sýni fram á að krafan sé ósanngjörn, en regla þessi fær meðal annars stoð í 45. gr. laga um lausafjárkaup. Loks styður stefnandi kröfur sínar, eftir atvikum, við almennu skaðabótaregluna, verði ekki talið að stofnast hafi leigusamningssamband milli aðila, en að stefndi sé hins vegar bótaskyldur vegna umboðsleysis hans. Krafa um dráttarvexti styðst við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa stefnanda um málskostnað styðst við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sérstaklega 129. og 130. gr. laganna.

III

Krafa stefnda um sýknu er byggð á því að hann hafi að beiðni […] haft milligöngu um pöntun á 200 mótaklemmum frá stefnanda. Stefnanda hafi strax í upphafi verið kynnt fyrir hvern vörurnar væru og hver væri leigutaki eins og komi fram í tölvupósti 7. apríl 2016. Jafnframt hafi stefnandi sent vörurnar til […]en ekki til stefnda. Stefnanda hafi því frá upphafi verið kunnugt um það hver væri notandi varanna og réttur leigutaki. Stefndi sé því ekki réttur aðili að máli þessu.

Í stefnu sé því haldið fram að stefnandi hafi „í góðri trú“ leigt stefnda 200 mótaklemmur samkvæmt pöntun fyrirsvarsmanns stefnda, fyrst í síma sem síðan hafi verið staðfest í tölvupósti. Með pöntuninni hafi stefndi skuldbundið sig til að hlíta samningsskilmálum þeim sem fram komi í leigusamningi stefnanda og almennum reglum leiguréttar og greiða leigugjald á réttum tíma og skila leigumunum í ásættanlegu ástandi að leigutíma loknum. Stefndi hafi aldrei ritað undir leigusamning og hafði ekki séð framlagðan leigusamning fyrr en mál þetta hafi komið upp. Stefndi hafi því aldrei undirgengist tilvitnaða leiguskilmála stefnanda. Byggt sé á því að stefndi hafi ekki getað verið í „góðri trú“ með að stefndi væri leigutaki þar sem hann hafi í upphafi verið meðvitaður um það fyrir hverja vörurnar hafi verið ætlaðar og sent þær sjálfur til þriðja aðila en ekki til stefnda.

Þá kveðst stefndi mótmæla því að með því að greiða reikninga frá stefnanda vegna vörunnar hafi stefndi viðurkennt í verki að vera réttur leigutaki varanna. Stefnandi láti eins og ekkert hafi gerst á því ári sem hafi liðið frá útgáfu fyrstu reikninga hans þann 29. apríl 2016 og 31. maí 2016 og þar til stefndi hafi greitt reikninga 17. júlí og 15. ágúst 2017. Í millitíðinni hafi stefndi átt samskipti við stefnanda og félagið […] þar sem stefndi hafi mótmælt reikningunum, en í kjölfar samkomulags við stefnanda og notanda varanna og réttan leigutaka, […], hafi stefndi greitt þrjá reikninga í trausti þess að aðrir reikningar væru felldir niður og stefnandi hæfi innheimtu hjá […]. Stefnanda hafi ávallt verið kunnugt um að greiðsla stefnda á reikningunum væri liður í að ná sáttum í málinu en væri ekki viðurkenning á greiðsluskyldu stefnda.

Stefndi kveðst hafa haft milligöngu um að panta 200 mótaklemmur fyrir […], en hafi ekki verið umboðsmaður félagsins, eins og stefnanda hafi verið kunnugt um. Stefndi hafi ekki látið að því liggja að hann væri með umboð frá […] til að skuldbinda félagið, heldur hafi stefndi talið að stefnandi myndi síðar ganga frá leigusamningi við […] sem hafi tekið vörurnar á leigu eins og eðlilegir viðskiptahættir kveði á um. Í 25. gr. laga nr. 7/1936 komi fram að sá sem komi fram sem umboðsmaður annars manns ábyrgist að hann hafi nægilegt umboð. Í 2. mgr. 25. gr. komi einnig fram að þetta gildi þó eigi, ef þriðji maður vissi eða mátti vita, að sá maður er gerninginn gerði, hafði eigi nægilegt umboð. Stefnandi hafi vitað eða mátt vita að stefndi hafi ekki haft umboð frá […] og hafi því borið að ganga formlega frá undirritun leigusamnings áður en stefnandi hafi sent vörurnar frá sér til félagsins, enda hafi stefnanda verið fullkunnugt um hver væri notandi varanna. Rétt sé að benda á að […] hafi í verki samþykkt leigu á mótaklemmunum frá stefnda þar sem félagið hafi tekið við klemmunum og hafi að því að best sé vitað notað þær allt fram til þessa dags.

Stefndi kveðst ekki hafa ritað undir leigusamning í eigin nafni ef hann hefði verið borinn undir hann þar sem leigutaki sé þar ekki rétt tilgreindur. Stefnandi hafi reyndar aldrei óskað eftir því að stefndi kæmi á starfsstöð hans til að rita undir leigusamning. Öllum málsástæðum er varði umboðsskort sé mótmælt og því að stefndi hafi gefið til kynna að hann gæti skuldbundið […]. Stefndi hafi einungis haft milligöngu um pöntun varanna og látið þess getið frá upphafi og gengið út frá því að leigusamningur væri í kjölfarið undirritaður af hálfu réttra aðila.

Þá kveðst stefndi byggja á því að þegar stefnanda hafi orðið ljóst að reikningar hafi ekki verið greiddir og að stefndi hafi ekki talið sig vera réttan leigutaka, eins og ítrekað komi fram í samskiptum aðila, sbr. til dæmis erindi lögmanns stefnda frá 30. nóvember 2017, hafi stefnanda borið að takmarka tjón sitt, enda hafði hann þá afhent vörur án þess að undirritaður leigusamningur lægi fyrir. Með athafnaleysi sínu og tómlæti hafi stefnandi því hugsanlega orðið fyrir mun meira tjóni en ella hefði verið. Hafi stefnanda samkvæmt reglum skaðabótaréttar borið að innkalla vörurnar hjá þeim sem hann hafi sent þær til eða kalla eftir því að viðkomandi félag ritaði undir leigusamning. Það hafi stefnandi ekki gert. Í þessu sambandi bendi stefndi á að í leigusamningsformi sem stefnandi hafi lagt fram hafi stefnandi heimild til að ná í og fjarlægja leigða muni úr vörslum leigutaka.

Í framlögðum leigusamningi séu ekki tilgreind lok leigutíma. Því sé það svo að ef stefnda verði gert að greiða dómkröfu þessa máls sé þar með lögð á hann greiðsluskylda samkvæmt leigusamningi sem hann hafi ekki undirritað og hafi ekki neinn endatíma. Það væri sérstakt í ljósi þess að stefnandi hafi afhent vörurnar til þriðja aðila sem neiti að skila þeim, en stefnandi hafi ekki gert neinn reka að því að innheimta þær hjá honum.

Stefnandi hafi hagað sér með gáleysislegum hætti í viðskiptum og hvorki gætt að því við afhendingu á vörum sínum að fyrir lægi undirritaður leigusamningur, né að farið væri eftir ákvæðum samningsforms stefnda sjálfs, fyrst hann telji stefnda vera réttan leigutaka, en þar komi fram að leigutaka sé óheimilt án samþykkis leigusala að veita öðrum afnot af hinu leigða án samþykkis leigusala. Stefndi byggi á því að sýkna beri hann af kröfu um greiðslu umkrafinna reikninga þar sem hann sé hvorki leigutaki né notandi varanna.

Stefndi kveðst heldur ekki geta borið bótaábyrgð á hugsanlegu tjóni stefnanda þar sem stefnandi sjálfur hafi nú í langan tíma ekki reynt með neinum hætti að takmarka tjón sitt eins og honum sé í lófa lagið með því að innkalla eða sækja vörurnar. Stefnandi hafi frá upphafi vitað að stefndi væri einungis milligöngumaður um að panta vörurnar en að þriðji aðili væri leigutaki og notandi varanna. Byggt sé á því að samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar hafi stefnanda borið þegar í stað að kalla inn vörur sínar eða óska eftir því við þann sem hann hafi sent vörurnar að sá hinn sami greiddi reikninga og ritaði undir leigusamning þegar stefnandi hafi verið upplýstur um að stefndi teldi sig ekki vera leigutaka að þeim. Tómlæti stefnanda í þessum efnum sé hróplegt og enn í dag hafi stefnandi ekki gert reka að því að takmarka tjón sitt. Því beri jafnframt að sýkna stefnda á grundvelli reglna skaðabótaréttar af bótakröfu í máli þessu.

Stefndi mótmælir upphafsdegi dráttarvaxtakröfu málsins. Þá kveðst stefndi ekki hafa haft nein tök á að taka afstöðu til þess fjölda mótaklemma sem afhentar hafi verið þar sem hann hafi aldrei haft þær undir höndum.

Stefndi vísar til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um stofnun og skuldbindingargildi samninga. Þá vísar stefndi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Byggt er á reglum skaðabótaréttar um eigin sök, gáleysi og takmörkun tjóns. Krafa stefna um málskostnað styðst við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilaskýrslu Steingrímur Örn Ingólfsson, aðstoðarframkvæmdastjóri stefnanda, og Ástvaldur Óskarsson, framkvæmdastjóri stefnda, svo og vitnin C og B.

Við munnlegan málflutning var af hálfu stefnda meðal annars vísað til aðildarskorts til stuðnings kröfum hans. Sætti þessi málsástæða stefnda andmælum stefnanda sem of seint fram komin. Lögmaður stefnda andmælti því að um nýja málsástæðu væri að ræða og vísaði til þess að í greinargerð stefnda væri sýknukrafa hans byggð á aðildarskorti. Í greinargerð stefnda er meðal annars vísað til þess til stuðnings sýknukröfu stefnda að stefnanda hefði þegar í upphafi verið gerð grein fyrir því fyrir hvern þær vörur væru sem stefndi pantaði hjá stefnanda og hver væri leigutaki. Því hafi stefnanda verið frá upphafi kunnugt um hver notaði vörurnar og væri réttur leigutaki. Væri stefndi því ekki réttur aðili að málinu. Samkvæmt þessu er ekki fallist á það með stefnanda að um nýja málsástæðu hafi verið að ræða.

Í máli þessu er deilt um það hver eigi að greiða leigu fyrir 200 mótaklemmur sem stefnandi sendi […] samkvæmt skriflegri pöntun frá fyrirsvarsmanni stefnda, Ástvaldi Óskarssyni framkvæmdastjóra, með tölvupósti 7. apríl 2016. Þar segir orðrétt: „Staðfesti hér með pöntun á leigu 200 doka klemmum fyrir […], Klára frágang á þessu við Steingrím þegar hann kemur til landsins.“ Eftir að pöntunin barst til stefnanda afgreiddi starfsmaður stefnanda, A, umbeðna vöru í samráði við Steingrím Örn Ingólfsson, sem þá var staddur í útlöndum. Að beiðni Ástvalds voru klemmurnar sendar til […] sem greiddi flutningskostnaðinn.

Málatilbúnaður stefnanda er reistur á því að stefndi hafi tekið klemmurnar á leigu af stefnanda og því beri honum að greiða umkrafðar leigugreiðslur, en stefndi hafnar því og vísar til þess að stefndi hafi pantað klemmurnar fyrir […] og eigi það félag að greiða leiguna að frátöldum þremur mánuðum sem stefndi greiddi stefnanda í júlí og ágúst 2016.

Upplýst er í málinu að stefndi seldi […] í september 2015 steypumót og íhluti til byggingar, þar á meðal 982 mótaklemmur. Þær klemmur sem stefndi afhenti […] reyndust ekki passa fyrir steypumótin, utan örfárra. Svo fór að […] endursendi klemmurnar til stefnda og krafðist þess að fá afhentar mótaklemmur sem pössuðu fyrir þau mót sem stefndi hafði selt […].

Vitnið B, framkvæmdastjóri B, sagði fyrir dómi að hann hefði keypt steypumót og 982 mótaklemmur af stefnda og greitt án tafar fyrir vörurnar. Í ljós hefði komið að aðeins 17 klemmur hefðu passað á mótin en hinar hefðu verið endursendar til stefnda. Kvaðst vitnið hafa krafið stefnda um klemmurnar því að ekki hefði verið hægt að nota steypumótin nema með klemmunum. Hefði stefndi leitast við að afhenda réttar klemmur eftir kvörtun frá vitninu og fundið átta klemmur, en lítið hefði verið að marka upplýsingar frá stefnda. Á endanum var vitninu tilkynnt að 200 mótaklemmur yrðu sendar norður, en vitnið kvaðst ekki muna hvort Ástvaldur Óskarsson hefði tilkynnt vitninu þetta eða afgreiðslumaður hjá honum. Neitaði vitnið því aðspurt að það hefði veitt Ástvaldi umboð til að leigja mótaklemmur hjá stefnanda fyrir […]. Vitnið sagðist hafa litið svo á að stefndi hefði afhent fyrirtækinu klemmurnar samkvæmt samningi þeirra en enn vantaði 765 klemmur.

Fyrir dómi sagði Ástvaldur Óskarsson, framkvæmdastjóra stefnda, að komið hefði upp ágreiningur á milli stefnda og […] vegna viðskipta þeirra á milli með steypumót og mótaklemmur. Hefði stefndi selt […] klemmur sem ekki pössuðu við mótin og hefði […] krafist þess að fá réttar klemmur í stað þeirra sem pössuðu ekki. Greindi Ástvaldur frá því fyrir dómi að hann hefði „haft milligöngu um að leigja klemmur frá stefnanda“ af því að stefndi hefði ekki getað útvegað […] nógu margar klemmur.

Í skýrslu Steingríms Arnar Ingólfssonar fyrir dómi kom fram að Ástvaldur Óskarsson hefði hringt á skrifstofu stefnanda og óskað eftir því að fá leigðar 200 mótaklemmur. Kvaðst Steingrímur hafa verið í útlöndum þegar Ástvaldur hringdi, en „hleypt pöntuninni í gegn“ eftir samtal við Ástvald í síma þar sem Ástvaldur hefði sagt að stefndi hefði lent í vandræðum eftir viðskipti við […] og þyrfti að skaffa honum mótaklemmur eftir að hafa selt félaginu klemmur sem pössuðu ekki. Sagði Steingrímur að Ástvaldur hefði lofað að koma og ganga frá málinu þegar Steingrímur væri kominn til landsins, en hann hefði ekki staðið við það. Hefði Ástvaldur beðið um verð í klemmurnar og Steingrímur skilið það þannig að stefndi ætlaði að leigja klemmurnar eða kaupa þær.

Krafa stefnda um sýknu er byggð á því að stefndi hafi að beiðni […] haft milligöngu um pöntun á 200 mótaklemmum frá stefnanda og hafi stefnanda verið kynnt það þegar í upphafi fyrir hvern vörurnar væru og hver væri leigutakinn. Bendir stefndi á að stefnandi hafi sent klemmurnar til […] en ekki til stefnda. Hefði stefnanda því frá upphafi verið kunnugt um hver væri að nota vörurnar og væri réttur leigutaki þeirra. Stefndi væri því ekki réttur aðili að málinu.

Samkvæmt því sem að framan er rakið liggur fyrir í málinu að framkvæmdastjóri stefnda, Ástvaldur Óskarsson, pantaði tilgreindan fjölda af mótaklemmum á leigu hjá stefnanda og staðfesti pöntunina með tölvupósti 7. apríl 2016, en þar segir að pöntunin sé gerð fyrir […]. Af málatilbúnaði stefnda verður helst ráðið að hann telji sig hafa haft umboð frá […] til að útvega félaginu mótaklemmur á kostnað þess, en því hafnaði vitnið B, framkvæmdastjóri félagsins aðspurður fyrir dómi.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga ber þeim, sem kemur fram sem umboðsmaður annars manns, að ábyrgjast að hann hafi nægilegt umboð. Sanni hann það ekki að hann hafi slíkt umboð eða að gerningur sá, sem hann gerði, hafi verið samþykktur af þeim manni, sem hann taldi sig hafa umboð frá eða að gerningurinn sé af öðrum ástæðum skuldbindandi fyrir þann mann, skal hann bæta það tjón, sem þriðji maður verður fyrir við það að gerningnum verði eigi beitt gegn þeim sem sagður var vera umbjóðandi.

Að mati dómsins hefur stefndi ekki, gegn neitun vitnisins B, fært fyrir því haldbær rök að framkvæmdastjóri stefnda hafi haft umboð til þess að skuldbinda […]. Sönnunarbyrði um það hvílir á stefnda, sbr. fyrrnefnda 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1936. Hefur stefndi ekki axlað þá byrði og verður ekki hjá því komist við úrlausn málsins að miða við það að Ástvaldur Óskarsson hafi komið fram fyrir hönd hins stefnda félags þegar hann pantaði 200 mótaklemmur hjá stefnanda. Breytir engu fyrir þá niðurstöðu þótt hann hafi látið þess getið í fyrrnefndum tölvupósti að klemmurnar væru „fyrir […]“ og þá ekki að þær hefðu verið sendar annað en á starfsstöð stefnda. Í staðfestingu stefnda á pöntuninni lofar Ástvaldur því að ganga frá málinu við stefnanda þegar Steingrímur kæmi til landsins. Það gerði Ástvaldur ekki og verður stefndi að bera hallann af því. Mátti stefnandi því gera ráð fyrir því að stefndi væri að panta klemmurnar í eigin nafni samkvæmt pöntun fyrirsvarsmanns stefnda, sem tæki á sig skuldbindingu vegna leigunnar og kostnað af því. Er það niðurstaða dómsins að fallast á það með stefnanda að stefndi hafi tekið á sig skuldbindingar sem óhjákvæmilega fylgdu því að leigja klemmurnar, þar með talda þá skyldu að greiða leigu fyrir afnotin af klemmunum. Stefndi gaf loforð, bæði í símtali við Steingrím Örn og með fyrrnefndri skriflegri pöntun á klemmunum, um að ganga frá viðskiptunum við stefnanda þegar Steingrímur væri kominn til landsins. Það hundsaði stefndi og kom sér þannig undan því að axla ábyrgð á pöntuninni. Fyrir liggur að stefndi greiddi umkrafða þriggja mánaða leigu til stefnanda, leigu fyrir apríl, maí og júní 2016, með tveimur greiðslum 17. júlí og 15. ágúst 2017. Verður ekki hjá því komist að líta svo á að stefndi hafi með því staðfest greiðsluskyldu sína og aðild að samningi við stefnanda um leigu á 200 klemmum.

Eins og fram er komið verður stefndi að bera hallann af því að hafa ekki staðið við loforð um að ganga frá málinu þegar Steingrímur Örn kæmi til landsins. Fullyrti Steingrímur Örn það fyrir dómi að Ástvaldur hefði ekki gefið það til kynna þegar hann pantaði klemmurnar að hann ætlaði að leigja klemmurnar fyrir […], ekki á þeim tíma, en sú skýring hefði komið fram síðar og hefði Ásvaldur óskað eftir því við stefnanda að leigan yrði færð á […] því að stefndi hefði aðeins átt að greiða þriggja mánaða leigu, en […] hefði átt að taka við eftir það. Sagði Steingrímur að því hefði verið hafnað eftir samtal við B hjá […], sem hefði sagt að hann hefði keypt klemmur af stefnda. Að mati dómsins er ekki með neinu móti unnt að líta svo á að stefndi hafi getað skuldbundið […] til að greiða mánaðarlega leigu fyrir þær klemmur sem um ræðir. Eins og staðfest hefur verið með framburði aðila og vitna vanefndi stefndi samning þann sem hann gerði við […] að því er varðar afhendingu á umsömdum fjölda af mótaklemmum sem stefndi seldi fyrirtækinu og því stoðar ekki fyrir stefnda að vísa til þess að með því að móttaka klemmurnar frá stefnanda hafi […] í reynd samþykkt leigu á klemmunum. Á það verður ekki fallist með stefnda.

Af hálfu stefnda er vísað til þess að þegar stefnanda hafi orðið ljóst að reikningar fyrir leigu á klemmunum hafi ekki verið greiddir og að stefndi taldi sig ekki réttan leigutaka hafi stefnanda borið að takmarka tjón sitt, enda hafi hann afhent vörur án þess að skriflegur leigusamningur lægi fyrir. Með athafnaleysi og tómlæti sínu hafi stefnandi hugsanlega orðið fyrir meira tjóni en ella hefði verið. Á þetta verður ekki fallist með stefnda og nægir í þeim efnum að vísa til þess að fyrirsvarsmaður stefnda pantaði klemmurnar á leigu hjá stefnanda, lét senda þær til […] og lofaði að ganga frá málinu síðar. Samkvæmt framburði Steingríms Arnar fyrir dómi samþykkti hann það frávik, þá staddur í útlöndum, að heimila starfsmanni stefnanda að afgreiða vöruna án samnings. Var það gert á grundvelli loforðs frá fyrirsvarsmanni stefnda um að ganga frá málinu. Að mati dómsins stóð það stefnda nær að standa við gefin fyrirheit og ganga frá málinu við stefnanda. Á það við um skilmála samnings eins og lok leigutíma og önnur atriði sem stefndi taldi að skiptu hann máli. Það gerði stefndi ekki og verður að bera hallann af því.

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður stefnda gert að greiða stefnanda umkrafða mánaðarlega leigu fyrir mótaklemmurnar. Krafa stefnanda nemur 2.059.181 krónu án dráttarvaxta. Í skýrslu Steingríms Arnar fyrir dómi kom fram að fjárhæð mánaðarlegrar leigu fyrir klemmurnar væri almennt markaðsverð. Mánaðarleg fjárhæð leigunnar hefur ekki sætt athugasemdum af hálfu stefnda og er ekkert annað það fram komið í málinu en að leigan sé sanngjörn og eðlileg. Fyrir liggur að stefndi greiddi í júlí og ágúst 2017 þrjár greiðslur inn á skuldina samtals 301.664 krónur (92.772 + 110.776 + 98.116 krónur). Nema eftirstöðvar kröfunnar því 1.757.517 krónum. Verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda þá fjárhæð með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. desember 2017 til greiðsludags. Í ljósi atvika málsins þykir rétt að krafa stefnanda beri dráttarvexti frá þeim degi þegar mánuður er liðinn frá innheimtubréfi því sem stefnandi sendi stefnda 2. nóvember 2017.

Eftir þessum úrslitum málins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn að virtu umfangi málsins 800.000 krónur.

Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Geymslusvæðið ehf., greiði stefnanda, Kvörnum ehf., 1.757.517 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. desember 2017 til greiðsludags og 800.000 krónur í málskostnað.

 

Jón Höskuldsson