• Lykilorð:
  • Verksamningur
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness, miðvikudaginn 17. október 2018, í máli nr. E-167/2018:

Verkís hf.

(Pétur Már Jónsson hdl.)

gegn

Fashion Group ehf.

(Lárus Sigurður Lárusson hdl.)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 21. september 2018, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjaness með stefnu birtri 22. febrúar 2018.

Stefnandi er Verkís hf., kt. 000000-0000, Ofanleiti 2, 103 Reykjavík. Stefndi er Fashion Group ehf., kt.000000-0000, Hallakri 2b, 210 Garðabæ.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi greiði honum skuld að fjárhæð 6.711.436 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 1.074.459 krónum frá 20. febrúar 2017 til 22. mars 2017, af 3.131.197 krónum frá 22. mars 2017 til 24. apríl 2017, af 5.848.793 krónum frá 24. apríl 2017 til 9. febrúar 2018 og af 6.711.436 krónum frá 28. febrúar 2018 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, að teknu tilliti til framlagðs málskostnaðarreiknings.

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að krafa stefnanda verði lækkuð að mati dómsins. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að teknu tilliti til framlagðs málskostnaðarreiknings.

 

I

Málsatvik

Stefnandi annast verkfræðistarfsemi, stefndi er byggingarverktaki. Stefndi leitaði til stefnanda, eins og stundum áður, vegna tveggja verkefna sem hann vann þá að. Fólst fyrra verk stefnanda í því að aðstoða stefnda við breytingu á stálvirki að Kletthálsi 5 í Reykjavík. Ekki er ágreiningur um reikning stefnanda vegna þess verks, að fjárhæð 321.134 krónur, en samkvæmt greinargerð stefnda hefur hann kosið að greiða hann ekki, ef í ljós kæmi síðar að hann ætti gagnkröfu á hendur stefnanda.

 Síðara verkið varðar fasteignina að Hádegismóum 8 í Reykjavík, og er ágreiningur aðila einkum um það verk. Um nefnt verk liggur fyrir samningur aðila, dagsettur 11. febrúar 2016. Samkvæmt samningnum var gert ráð fyrir því að verkefninu yrði lokið á árinu 2016, en upplýst er að því var ekki lokið fyrr en vorið 2017, eða í maí það ár.

Aðila málsins greinir á um það hversu víðtækt verkefni stefnanda var samkvæmt samningnum, og þá sérstaklega hvað varðar hönnunarþátt verksins, og hvar verkið bar að inna af hendi. Ljóst er að aðkoma stefnanda eða annarrar íslenskrar verkfræðistofu var nauðsynleg vegna svonefnds „Þjóðarviðauka“, sem snýr meðal annars að útreikningi á áhrifum vinda, snjós og jarðskjálfta á mannvirki, enda hafði stefndi ákveðið að flytja inn stálvirki í bygginguna frá Lettlandi.

Í nefndum samningi aðila segir: „Verkís er íslenskur ráðgjafi FG vegna burðarþolshönnunar. Izoterm er stálframleiðandi og sér um hönnun og gerð burðarvirkjauppdrátta, ásamt allri smíðateikningu. Þjónusta Verkís er vegna aðstoðar við undirverktaka FG, Izoterm við útreikninga og teikningar burðavirkis. Izoterm afhendir útreikninga og teikningar til FG, sem afhendir verkkaupa sínum.“ Þá kemur fram undir liðnum kostnaður í samningnum: „Gert er ráð fyrir að ferða og fæðiskostnaður vegna ferða erlendis verði greiddur beint af Fashion Group.“

Samkvæmt gögnum málsins leitaði stefndi til annarrar verkfræðistofu, S. Saga-Verkfræðistofu, líklega í seinni hluta mars 2017, að kröfu verkkaupa að sögn stefnda. Skilaði sú verkfræðistofa skýrslu, „Athugun á burðarþoli og stöðugleika stálgrindarbyggingar“, dags. 19. apríl 2017. Af gögnum málsins má sjá að stefnandi er í apríl 2017 enn að vinna í verkefninu fyrir stefnda, og ekki er að sjá að honum hafi verið tilkynnt um aðkomu seinni verkfræðistofunnar. Stefndi telur að hann hafi þurft að leita til annarrar verkfræðistofu þar sem álagsforsendur stefnanda hafi verið rangar, auk annarra forsenduútreikninga, og ráðgjafarvinnan tafist um marga mánuði. Stefndi hefur ekki þrátt fyrir innheimtutilraunir stefnanda greitt eftirstöðvar reikninga framangreindra verkefna.

Í málinu liggja fyrir umkrafðir reikningar og tímaskráningar, viðskiptayfirlit, samningur um ráðgjöf og hönnun samkvæmt ÍST 35 um verkið að Hádegismóum, dags. 11. febrúar 2016, tölvupóstsamskipti, verkfræðigögn og útreikningar. Aðilaskýrslu gaf Freygarður Jóhannsson, framkvæmdarstjóri stefnda, vitnaskýrslur gáfu Girts Celms, forstjóri byggingarsviðs SIA Emimar í Lettlandi, undirverktaka Izoterm, Hannes Örn Jónsson byggingartæknifræðingur hjá verkfræðistofu VSB, og Kristján G. Sveinsson, starfsmaður stefnanda.

 

II

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að hann eigi ógreidda kröfu á hendur stefnda skv. framlögðum reikningum. Annars vegar er reikningur að fjárhæð 321.134 krónur vegna Klettháls 5 og tímaskráning honum samhliða, sem stefndi hafi ítrekað viðurkennt réttmæti á og lofað greiðslu, og hins vegar reikningar og tímaskráningar vegna ráðgjafarvinnu gagnvart erlendri verkfræðistofu við burðarþolshönnun á stálvirki að Hádegismóum 8 í Reykjavík, en um það verk hafi aðilar málsins gert með sér samning, dags. 11. febrúar 2016.

Stefnandi kveður síðara verkið hafa verið nokkuð umfangsmikið og stefndi greitt inn á það með greiðslum dagana 6. og 17. febrúar 2017 og 2. maí 2017, og þannig gert upp hluta kostnaðar samkvæmt öðrum reikningum en þeim sem nú sé stefnt út af. Stefndi hafi hins vegar andmælt þeim reikningum sem nú sé stefnt út af á ýmsa vegu, m.a. með því að verkið hafi verið ófullnægjandi, að umsjónarmaður þess hafi látið af störfum hjá stefnanda og að stefndi hafi ekki farið utan í tengslum við efndir samningsins. Stefnandi hafnar öllu framangreindu og telur þau andmæli tilhæfulaus. Hafi óánægja stefnda fyrst komið fram í lok maí 2017 þegar hann hafi fundað með stefnanda vegna vanskila stefnda, en þá hafi vinnu stefnanda verið því sem næst lokið. Hafi verið reynt að miðla málum og koma til móts við óánægju stefnda, m.a. með því að ekki yrði gjaldfærður reikningur á hendur honum vegna vinnu í apríl 2017. Þrátt fyrir að stefnandi hafi talið að slíkt samkomulag hafi komist á hafi stefndi ekkert greitt. Þar sem stefndi hafi ekki staðið við greiðslur sé gerð sú krafa að honum verði einnig gert að greiða fyrir vinnu stefnanda í apríl 2017, og skýri það hve seint reikningur nr. 125849 hafi verið gefinn út. Þar sem þeim reikningi hafi ekki formlega verið komið á framfæri við stefnda, sé ekki krafist vaxta af honum fyrr en frá og með þingfestingardegi málsins að telja.

Stefnandi telur að í tölvupóstsamskiptum milli starfsmanna stefnda og stefnanda komi fram að stefndi hafi ekki gert athugasemdir við útgefna reikninga þessa máls, né hafi hann óskað eftir því að stefnandi léti af vinnu sinni fyrir hann. Þvert á móti hafi hann í lok mars 2017 áréttað að stefnandi héldi áfram vinnu sinni. Hafi stefnda að lokum verið sent innheimtubréf, dags. 2. október 2017, án árangurs.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og efndir fjárskuldbindinga en þær reglur fái stoð í lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Kröfu um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum, sbr. 6. gr. og 12. gr. laganna. Stefnandi byggir á því að málskostnaðarkrafan sé bótakrafa og í samræmi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 og 1. mgr. 130. gr., og um varnarþing er vísað til 33. gr. sömu laga.

III

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu sína fyrst og fremst á því að stefnandi hafi aldrei lokið því verki sem um hafi verið samið, og stefndi því aldrei fengið þá vöru í hendur sem nú sé verið að krefja hann um greiðslu fyrir. Sú vinna sem stefnandi hafi innt af hendi hafi reynst ófullnægjandi og ónothæf að mati annarra verkfræðinga og hönnuða sem að verkinu komu, og því hafi stefndi þurft að leita annað. Hafi stefndi í því sambandi þurft að leita til S.Saga ehf. verkfræðistofu til þess að láta framkvæma umþrætt verk. Fyrir vikið hafi orðið tafir á heildarverkinu, þ.e. uppsetningu stálgrindarhúss fyrir Brimborg. Af þessu hafi stefndi haft mikinn kostnað sem hann hafi ekki fengið bættan. Stefndi telur að engin skilyrði séu fyrir því að stefnandi geti nú krafið stefnda um fulla greiðslu fyrir verk sem hafi aldrei verið unnið.

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi vanrækt aðrar mikilvægar samningsskyldur sem hafi torveldað skil stefnda á verksamningum við viðskiptavini sína. Þannig hafi verið skilyrði að starfsmenn stefnanda myndu mæta á hönnunar- og ráðgjafarfundi í Riga í Lettlandi. Hafi tilgangurinn einkum verið sá að koma upplýsingum, m.a. um upphaflegar hönnunarforsendur, skýrt og skilmerkilega til skila. Þetta hafi verið forsenda fyrir verkinu og ákvörðunarástæða sem stefndi hafi gert stefnanda grein fyrir í öndverðu. Þrátt fyrir það hafi stefnandi ekki staðið við framangreint og aðeins mætt á einn fund í Riga. Vegna þessa hafi orðið tafir á verkinu sem hafi leitt til kostnaðar fyrir stefnda, enda hafi hann verið bundinn af verksamningi um skil á húsinu.

Kröfu sína um að dómurinn lækki kröfu stefnanda byggir stefndi á sömu rökum og að framan greinir. Í ljósi þess að stefnandi hafi vanefnt samning sinn við stefnda og ekki uppfyllt samningsskyldur sínar, þá eigi stefndi rétt á afslætti. Sá afsláttur þurfi að taka tillit til þess kostnaðar sem stefndi hafi haft af því að fá annan aðila til að klára það verk sem stefnandi hefði átt að sinna, tafa sem hafi orðið vegna vanefnda stefnanda og kostnaðar sem stefndi hafi orðið fyrir vegna vanefndanna, þar með talinn lögfræðikostnaður. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi í raun viðurkennt vanefndir sínar með því að bjóða stefnda afslátt eins og fram komi í stefnu með því að innheimta ekki fyrir vinnu í apríl 2017. Sá afsláttur hafi aftur á móti verið langt frá því sem stefndi hafi átt rétt á, og því hafi ekki verið hægt að fallast á hann og geri stefndi kröfu um helmingsafslátt í það minnsta.

Hvað varðar reikning stefnanda nr. 117243 að fjárhæð 321.134 krónur, vegna vinnu í þágu annars verks fyrir stefnda, þá hafi stefndi ekki viljað greiða þann reikning ef í ljós kæmi að hann ætti gagnkröfu á hendur stefnanda, s.s. vegna kostnaðar af vanefndum og töfum stefnanda, sem hann gæti þá skuldajafnað. Af þeim sökum hafi stefndi alla tíð lagt áherslu á að leysa úr framangreindum ágreiningi milli aðila, og í því skyni m.a. reynt að ná sáttum utan réttar.

Um lagarök vísar stefndi til meginreglna samninga- og kröfuréttar. Málskostnaðarkrafan styðst við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Forsendur og niðurstöður

Ágreiningur aðila snýr einkum að útgefnum reikningum tengdum verkfræðistörfum stefnanda fyrir stefnda sem tengjast byggingu hússins að Hádegismóum 8 í Reykjavík. Greinir aðila á um hvaða verk stefnandi hafi átt að inna af hendi fyrir stefnda.

Í máli stefnda fyrir dómi kom fram að stefnandi hafi verið „yfirhönnuður“ eða „hönnunarstjóri“ stálgrindarinnar sem til stóð að setja upp hér á landi. Í samningi aðila um nefnt verk, dags. 11. febrúar 2016, segir að stefnandi sé íslenskur ráðgjafi stefnda vegna burðarþolshönnunar. Erlendur aðili sjái um hönnun og gerð burðarvirkja-uppdrátta ásamt allri smíðateikningu, og sé þjónusta stefnanda fólgin í aðstoð við undirverktaka stefnda, erlent félag, við útreikninga og teikningar burðavirkis.

Í greinargerð stefnda kemur fram að stálgrindarhúsin séu að langmestu leyti framleidd í Lettlandi sem og hönnun þeirra. Hafi stefnda borið nauðsyn til þess að leita liðsinnis verkfræðistofu í þeim tilgangi að fá öll hönnunargögn þýdd og yfirfarin til að sannreyna að þau standist lög og reglur þar um hér á landi. Í dómsskjölum sem stafa frá stefnda sjálfum er að finna nafn þess erlenda aðila sem sagður er hönnuður stálgrindarinnar. Upplýst er að önnur íslensk verkfræðistofa, sem stefndi leitaði síðar til, fékk öll hönnunargögn stálgrindarinnar send frá þeim aðila, án nokkurrar aðkomu eða vitneskju stefnanda um það, að því er séð verður.

Með vísan til framangreinds liggur ekki annað fyrir en að verk stefnanda hafi átt að vera í samræmi við framangreindan samning aðila, sem ráðgjöf og aðstoð.

Stefndi byggir jafnframt á því að það hafi verið forsenda að stefnandi myndi vinna verkið í Lettlandi með hönnuði og efnisframleiðanda, og hafi stefnandi vanrækt samningsbundna skyldu sína að þessu leyti. Í nefndum samningi aðila, undir liðnum kostnaður, kemur fram að gert sé ráð fyrir að ferða- og fæðiskostnaður vegna ferða erlendis verði greiddur beint af stefnda. Engin samningsákvæði er hins vegar að finna um að stefnanda hafi borið að vinna verkið í Lettlandi að öllu eða einhverju leyti. Undir rekstri málsins hefur ekki verið upplýst frekar um þá samningsbundnu skyldu, og er því ekki hægt að fallast á nefnda málsástæðu stefnda.

Engin gögn hafa verið lögð fram í málinu um að stefnandi hafi ekki sinnt því verki sem honum var falið samkvæmt nefndum samningi, svo sem mat dómkvaddra matsmanna. Hafa reikningar stefnanda vegna Hádegismóa 8 því ekki verið hraktir. Þá er ekki ágreiningur um réttmæti reiknings stefnanda vegna Klettháls 5, og engin gögn verið lögð fram í málinu um mögulega gagnkröfu eða uppgjör.

Í málflutningi kom fram af hálfu stefnda að stefnandi væri stór og öflug verkfræðistofa sem hefði útbúið samning aðila, og hafi stefndi ekki notið neinnar lögfræðiaðstoðar við þá samningsgerð. Nefnd málsástæða er ekki í greinargerð stefnda og var ekki rökstudd frekar við flutning málsins. Staðreynt er að stefndi, sem hefur mikla reynslu á þessu sviði, leitaði eftir þjónustu stefnanda, eins og hann hafði oft gert áður, og var samningur aðila gerður á staðlað eyðublað. Að mati dómsins er ekkert í málinu sem gefur tilefni til að ætla að misneyting eða aðrar ógildingarástæður liggi að baki þeirri samningsgerð.

Stefndi krefst lækkunar á kröfum stefnanda, ekki síst þar sem hann hafi þurft að leita til annarrar verkfræðistofu til að ljúka verki stefnanda. Upplýst er að stefndi leitaði í lok mars 2017 til annarrar verkfræðistofu. Engin gögn liggja hins vegar fyrir um að stefndi hafi þá eða síðar tilkynnt stefnanda um það, og hafi stefnandi því unnið áfram að verkinu eftir þann tíma. Þar sem ekki liggur annað fyrir en að stefnandi hafi uppfyllt samningsskyldur sínar er ekki hægt að fallast á rétt stefnda til afsláttar af reikningum stefnanda.

Með vísan til framangreinds verður stefnda gert að greiða stefnanda stefnukröfu málsins, með dráttarvöxtum eins og krafist er eins, og um getur í dómsorði.

Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Bogi Hjálmtýsson kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, Fashion Group ehf., greiði stefnanda, Verkís hf., skuld að fjárhæð 6.711.436 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 1.074.459 krónum frá 20. febrúar 2017 til 22. mars 2017, af 3.131.197 krónum frá 22. mars 2017 til 24. apríl 2017, af 5.848.793 krónum frá 24. apríl 2017 til 9. febrúar 2018, og af 6.711.436 krónum frá 28. febrúar 2018 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 600.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                             Bogi Hjálmtýsson