• Lykilorð:
  • Eignaspjöll
  • Líkamsárás
  • Miskabætur
  • Fangelsi
  • Hluti refsingar skilorðsbundinn og hluti óskilorðsbundinn
  • Upptaka

            Ár 2019, fimmtudaginn 24. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er í húsnæði Héraðsdóms Suðurlands að Austurvegi 4, Selfossi af Hirti O. Aðalsteinssyni héraðsdómara í málinu nr. S-417/2018: 

 

Ákæruvaldið

(Katrín Hilmarsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

Adam Borzynski

(Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður)

 

 

kveðinn upp svohljóðandi

 

dómur:

           

Mál þetta, sem dómtekið var þann 17. janúar sl., er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dagsettri 13. september 2018, á hendur ákærða, Adam Borzynski, kt. 000000-0000, til heimilis að Breiðhellu 16, Hafnarfirði.

 

 „fyrir eftirgreind hegningarlaga og sérrefsilagabrot framin að Breiðhellu 16 í Hafnarfirði, aðfaranótt sunnudagsins 17. september 2017:

I.

Sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa á framangreindu heimili sínu, slegið A, kt. 000000-0000, fjórum sinnum með sleggju, sem vó rúm 4 kílógrömm, vinstra megin á brjóstkassa og slegið hann með krepptum hnefa í andlitið, með þeim afleiðingum að hann rifbeinsbrotnaði, hlaut vægt lungnamar og marðist á vinstri kinn.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

Eignaspjöll, með því að hafa fyrir utan heimili sitt slegið með sleggju í afturhurð bifreiðarinnar [...], með þeim afleiðingum að rúða í hurðinni brotnaði. 

Telst þetta varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga.

III.

Lyfja- og tollalagabrot, með því að hafa haft í vörslum sínum 768 stykki af sterum (óþekkt efni), 100 stykki af lyfinu Oxymetholone og 1,0 millilítra af Testosterone stungulyfi, sem ákærði flutti ólöglega hingað til lands, en honum gat ekki dulist að ólöglegt væri að flytja lyfin til landsins,  og án þess að fyrir lægi markaðs- og lyfsöluleyfi Lyfjastofnunar, en lögreglan fann lyfin við leit á heimili ákærða.

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 7. gr., 1. mgr. 20. gr., 32. gr. og 34. gr., sbr. 1. mgr. 49. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, og 51. gr., sbr. 68. gr. lyfsölulaga nr. 30/1963, og 170. gr. og 171. gr., sbr. 169. gr. tollalaga nr. 88/2005.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Krafist er upptöku á sleggju, sbr. 1. tl. 1. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga. Þá er krafist upptöku á 768 stykkjum af sterum, 100 stykkjum af lyfinu Oxymetholone og 1,0 millilítra af Testosterone stungulyfi, sbr. 3. mgr. 49. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, 2. mgr. 68. gr. lyfsölulaga nr. 30/1963 og 181. gr. tollalaga nr. 88/2005.

 

Einkaréttarkrafa:

 

Af hálfu A, kt. 000000-0000, er gerð sú krafa að ákærði greiði honum skaðabætur, sbr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, vegna sjúkrakostnaðar, lyfjakostnaðar og kostnaðar vegna skemmda á ökutæki hans, samtals að fjárhæð 206.372 kr. Þá er krafist greiðslu miskabóta, skv. 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, að fjárhæð 3.000.000 kr. auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, frá 17. september 2017, en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu bótakröfunnar til greiðsludags. Loks er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“

           

             Ákærði neitar sök samkvæmt ákæruliðum I og II en játar sök samkvæmt ákærulið III.

            Ákærði krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins vegna ákæruliða I og II en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa vegna ákæruliðar III. Þá krefst hann þess að bótakröfu verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af henni og til þrautavara að hún verði lækkuð verulega.

            Dómstólasýslan hefur falið dómaranum meðferð máls þessa.

 

Málavextir.

 

Aðfaranótt sunnudagsins 17. september 2017 kom brotaþoli á slysa- og bráðamóttöku Landspítala og kvaðst hafa orðið fyrir líkamsárás og hefði hamri sennilega verið beitt. Brotaþoli kvaðst hafa verið á skemmtistað ásamt vinnufélögum sínum þegar maður hafi birst og farið að tala um íþrótt sem hann væri að æfa og hafi allir farið heim til mannsins. Þar hafi maðurinn reiðst og ráðist að brotaþola og lamið hann þremur höggum með sleggju í vinstri síðu og kýlt hann í andlitið. Hafi brotaþoli náð sleggjunni og hann og kærasta hans síðan náð að forða sér og aka að slysadeildinni. Brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu daginn eftir og þá skýrði hann nánar frá atvikum og kvað ákærða hafa verið að tala um það í samkvæminu að hann hefði verið að berja fólk í Póllandi. Hafi ákærði í lokin staðið upp, drukkið staup og náð í stóran hamar. Hafi hann slegið til brotaþola og hafi þrjú af höggunum hitt brotaþola. Þegar brotaþoli hafi verið að hlaupa út hafi hann fengið högg í augað en honum og kærustu hans hafi tekist að flýja inn í bifreið þeirra. Hafi ákærði þá komið og brotið rúðu í bifreiðinni með hamrinum. Hann kvað ákærða hafa misst hamarinn og hafi brotaþoli þá sett hamarinn inn í bifreiðina. Síðan hafi brotaþoli verið keyrður beint upp á spítala. Lögreglan fór á vettvang og lagði hald á þau efni sem lýst er í ákæru og hefur ákærði kannast við að vera eigandi þeirra. Þá var lagt hald á sleggju sem reyndist 76 cm að heildarlengd, lengd skeftis var 70 cm og breidd þess 3 cm. Þyngd sleggjunnar reyndist vera 4019,42 g. Ákærði var ekki á vettvangi þegar lögreglan kom þangað en hann var handtekinn síðar sama dag og færður í fangageymslu. Samkvæmt lögregluskýrslu voru ekki greinileg ummerki um átök á vettvangi en brotið glas hafi verið við sófaborð og blóðkám á gólfi svefnherbergis. Þá hafi ekki verið teljandi áverkar á ákærða og blóð hafi ekki fundist á fötum hans.

Ákærði var yfirheyrður daginn eftir og kvaðst saklaus af því að hafa ráðist á brotaþola. Hann kvað þau sem voru í samkvæminu vera að ljúga upp á sig en vissi ekki ástæðu þess. Hann kannaðist við að eiga sleggju sem hann kvaðst nota til æfinga. Ákærði var yfirheyrður aftur hjá lögreglu þann 19. desember sama ár og neitaði enn sök.

Brotaþoli var skoðaður á slysadeild og samkvæmt læknisvottorði B, sérfræðings á slysa- og bráðadeild, var brotaþoli með mjög mikla verki. Hann hafi verið með fjögur ferningslaga för vinstra megin á brjóstkassa hliðlægt. Þar hafi hann verið mjög aumur við þreifingu. Lungnahlustun hafi verið eðlileg en kviður nokkuð harður við þreifingu. Þá hafi sést mar á vinstri kinn. Tölvusneiðmynd af brjóstkassa hafi sýnt brot í níunda rifi og vægt lungnamar þar undir.

                       

 

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

 

             Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði verið við drykkju á heimili sínu umrætt sinn ásamt fleira fólki. Hann kvað hafa komið til slagsmála en hann kvaðst ekki hafa séð þau, en hann kvaðst hafa heyrt fólkið rífast. Hann kvað brotaþola hafa verið þarna, fólkið hafi farið og lögreglan síðan komið á staðinn. Ákærði kannaðist við að eiga sleggju sem lagt var hald á í málinu og kvaðst hann hafa geymt hana bak við rúm sitt í stofunni. Hann kvað sleggjuna hafa verið sýnilega öllum sem þarna voru. Ákærði kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis og grunaði hann að eitthvað hefði verið sett út í drykk hans því hann myndi ekki vel eftir kvöldinu. Ákærði kannaðist ekki við að hafa slegið brotaþola með sleggju og þá kvaðst hann ekki hafa séð neinn ráðast á brotaþola. Hann kvaðst hafa heyrt fólkið tala um tryggingasvik og hvað það væri auðvelt að fá tryggingabætur á Íslandi og grunaði hann að þetta hefði allt verið sett á svið. Ákærði kvaðst aldrei beita ofbeldi og neitaði því að hann hefði ráðist á brotaþola án þess að hann myndi eftir því. Þá neitaði ákærði því að hafa brotið rúðu í bifreið eins og honum er gefið að sök.

            Brotaþoli skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði verið í samkvæmi ásamt kærustu sinni og fleira fólki á heimili ákærða. Drukkið hafi verið áfengi og hafi allt gengið mjög vel þar til þau hafi ætlað að fara heim. Hafi ákærði þá allt í einu náð í stóra sleggju sem var við hliðina á rúminu hans og slegið brotaþola með henni þrisvar til fjórum sinnum í líkamann. Þegar hann hafi reynt að fara niður stigann hafi ákærði farið á eftir honum og kýlt hann í andlitið. Þegar brotaþola og kærustu hans hafi tekist að komast inn í bílinn hafi ákærði komið á eftir með sleggjuna og náð að brjóta tvær rúður í bifreiðinni með sleggjunni. Brotaþoli kvaðst hafa séð hvar ákærði hafi hent sleggjunni bak við bílastæðið og kvaðst brotaþoli hafa tekið sleggjuna, í fyrstu til þess að nota hana á ákærða en hann hafi verið stöðvaður og þá hafi hann sett hana í bifreiðina í þeim tilgangi að afhenda hana lögreglu sem sönnunargagn. Brotaþoli kvaðst ekki hafa þekkt ákærða og aldrei séð hann áður. Hann kvað ekkert ósætti hafa verið milli fólks í samkvæminu. Hann kvaðst engin orðaskipti hafa átt við ákærða áður en hann hafi sótt sleggjuna. Hann kvað ákærða hafa talað um að hann hefði verið æfa bardagaíþrótt en hann hafi verið ölvaður. Brotaþoli kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis. Hann kvað atlögu ákærða aðeins hafa beinst gegn sér. Hann kvaðst ekki hafa séð sleggjuna fyrr en ákærði tók hana undan rúminu. Hann neitaði því að atburðurinn hefði verið settur á svið til þess að svíkja út bætur.

            Vitnið C skýrði svo frá fyrir dómi að hún hefði verið í samkvæminu með kærasta sínum og fleira fólki. Hún kvaðst ekki hafa þekkt ákærða. Hún kvað allt hafa gengið vel til að byrja með, fólkið hafi drukkið áfengi en vitnið kvaðst hafa verið bílstjóri og því ekki drukkið. Þegar þau hafi ætlað að fara heim hafi ákærði staðið upp, náð í stóra sleggju og slegið í áttina að brotaþola. Hafi hann slegið brotaþola nokkrum sinnum og hafi höggin lent í líkama hans. Hafi þau hlaupið niður en ákærða hafi áður tekist að kýla brotaþola í andlitið. Þau hafi farið inn í bifreiðina og hafi ákærði þá komið með sleggjuna og brotið afturrúðu í bifreiðinni. Hafi farþegum þar rétt tekist að verjast glerbrotum. Hún kvað ákærða hafa sótt sleggjuna þar sem hún hafi verið við vegg milli gluggans og rúmsins, en hún hafi ekki verið sýnileg þar. Hún kvað ákærða hafa verið undir áhrifum áfengis og hann hafi virst brjálast eftir að hann hafði drukkið síðasta drykkinn. Hún neitaði því að atburðurinn hefði verið settur á svið til þess að svíkja út bætur.

            Vitnið D skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið í samkvæmi með kunningjum sínum heima hjá ákærða og hafi verið neytt áfengis þar. Hafi allt gengið vel þar til ákærði hafi staðið upp og ráðist á brotaþola að ástæðulausu og slegið hann með sleggju í rifbeinin en hann kvaðst ekki hafa séð hann slá brotaþola í andlitið. Hafi sleggjan verið bak við rúm við gluggavegginn. Vitnið sá mynd af umræddri sleggju í dóminum og taldi hana líkjast þeirri sleggju sem ákærði notaði. Hann kvað ákærða hafa verið undir miklum áfengisáhrifum, en brotaþoli hafi ekki verið undir eins miklum áhrifum áfengis. Hann kvað engan ágreining hafa verið milli ákærða og brotaþola. Hafi allir flúið út úr íbúðinni eftir þetta en ákærði hafi elt þau með sleggjuna og hafi hann brotið afturrúðu bifreiðar með sleggjunni. Hafi vitninu rétt tekist að verja höfuð konu sinnar þegar rúðan brotnaði. Vitnið mundi ekki hvernig á því stóð að sleggjan endaði í fórum brotaþola.

Hann neitaði því að atburðurinn hefði verið settur á svið til þess að svíkja út bætur.

            Vitnið E kom fyrir dóm en gat ekkert borið um málsatvik. Hann kvaðst hafa drukkið mikið áfengi og því ekkert muna eftir þessu kvöldi. Hann mundi hvorki eftir rifrildi né slagsmálum. 

            Vitnið B bráðalæknir staðfesti læknisvottorð sitt fyrir dómi. Hann kvað áverka brotaþola samrýmast því að hann hefði verið sleginn með sleggju, en fjögur ákomumerki hefðu verið á honum, þá hefði hann verið með vægt lungnamar. Það hefði ekki verið skráð í vottorðið og hefði þar verið um yfirsjón að ræða. Hans mat var að um sérstaklega hættulega líkamsárás hefði verið að ræða. Hann kvað brotaþola ekki hafa hlotið lífshættulega áverka og taldi vitnið hann hafa sloppið vel. 

            Vitnið F lögreglumaður kom fyrir dóm og staðfesti afskipti sín af máli þessu. Hann kvað ákærða ekki hafa verið heima þegar lögreglan kom á vettvang. Við leit í húsnæðinu hafi fundist sterar sem lagt hafi verið hald á.

            Vitnið G lögreglumaður kom fyrir dóm og staðfesti afskipti sín af máli þessu. Hún kvaðst hafa verið á vakt á slysadeildinni og hefði brotaþoli lýst því að ráðist hefði verið á hann með sleggju. Þá hafi kærasta brotaþola lýst atvikum og hefði komið fram að ákærði hefði átt hlut að máli.

 

Niðurstaða.   

 

            Ákærða er í máli þessu gefið að sök í I. lið ákæru að hafa slegið brotaþola með sleggju í brjóstkassa og með krepptum hnefa í andlitið með þeim afleiðingum er í ákæru greinir. Þá er honum gefið að sök í öðrum lið ákærunnar að hafa slegið með sleggju í afturhurð bifreiðar með þeim afleiðingum að rúða brotnaði. Ákærði neitar sök samkvæmt þessum ákæruliðum en hann játar sök samkvæmt III. lið ákæru og telst því sannað að hann hafi gerst sekur um lyfja- og tollalagabrot eins og nánar er rakið í ákæru. Um málavexti að því er þennan ákærulið varðar er vísað til ákæruskjals og er háttsemi hans þar rétt færð til refsiákvæða.

            Ákærði neitar því að hafa slegið brotaþola með sleggju og þá neitar hann að hafa brotið rúðu í bifreið með sleggju. Hann kannast við að hafa verið við drykkju á heimili sínu umrætt sinn ásamt fleira fólki. Hann kvað hafa komið til slagsmála en hann kvaðst ekki hafa séð þau, en hann kvaðst hafa heyrt fólkið rífast. Hann grunaði að fólkið hefði sett allt þetta á svið til þess að svíkja út tryggingabætur. Brotaþoli hefur borið að ákærði hafi tekið sleggju og slegið hann með henni þrisvar til fjórum sinnum í líkamann og þá hafi hann jafnframt slegið brotaþola í andlitið. Brotaþoli segir ákærða einnig hafa brotið rúðu í bifreiðinni með sleggjunni. Vitnið C skýrir frá á sama hátt og brotaþoli og kveður hún ákærða hafa slegið brotaþola nokkrum sinnum með sleggju í líkamann. Þá hafi ákærði kýlt brotaþola í andlitið og brotið rúðu í bifreiðinni með sleggju. Vitnið D skýrði svo frá að ákærði hafi ráðist á brotaþola að ástæðulausu og slegið hann með sleggju í rifbeinin en hann kvaðst ekki hafa séð hann slá brotaþola í andlitið. Þá kvað hann ákærða hafa brotið rúðu í bifreiðinni með sleggju. Vitnið B bráðalæknir kvað áverka brotaþola samrýmast því að hann hefði verið sleginn með sleggju, en fjögur ákomumerki hefðu verið á honum. Sýnd var mynd í dóminum af áverka á síðu brotaþola og að mati dómsins gat áverkinn vel samrýmst því að hann væri af völdum umræddrar sleggju. Að mati dómsins voru vitni þau sem komu fyrir dóm trúverðug og ekkert þeirra kannaðist við að um samantekin ráð hefði verið að ræða af þeirra hálfu um að setja atburðinn á svið í því skyni að svíkja út bætur. Þá ber til þess að líta að ákærði kom fyrst með þessa skýringu í framburði sínum fyrir dómi en hann minntist ekkert á þetta í þau tvö skipti sem hann gaf skýrslu hjá lögreglu. Ber að hafna þessum framburði ákærða sem tilhæfulausum.

            Þegar virtur er samhljóða framburður framangreindra vitna sem fær stoð í öðrum gögnum málsins er að mati dómsins nægilega sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæruliðum I og II og þar þykir rétt færð til refsiákvæða.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði ekki áður sætt refsingu.  

Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í níu mánuði en rétt þykir að fresta fullnustu sex mánaða af refsingunni og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með vísan til þeirra lagaákvæða er í ákæru greinir ber að fallast á upptökukröfu líkt og nánar greinir í dómsorði.

Brotaþoli gerir kröfu um skaðabætur úr hendi ákærða og er krafa hans þannig sundurliðuð að krafist er greiðslu á 206.372 krónum vegna sjúkrakostnaðar, lyfjakostnaðar og skemmda á ökutæki, sbr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá er krafist miskabóta að fjárhæð 3.000.000 króna skv. 1. mgr. 26. gr. sömu laga auk málskostnaðar. Brotaþoli byggir á því að um alvarlega líkamsárás hafi verið að ræða sem sé til þess fallin að valda miska og í raun heppilegt að ekki hafi farið verr. Hafi verið beitt þungu vopni og við mat á fjárhæð miskabóta beri að líta til þess hversu alvarlegt brotið sé og hver upplifun brotaþola sé og loks til umfangs tjónsins. Að mati dómsins er skaðabótakrafa brotaþola nægum gögnum studd og verður hún tekin til greina. Háttsemi ákærða gagnvart brotaþola var til þess fallin að valda honum miska og þykir hann eiga rétt á miskabótum úr hendi ákærða skv. 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Þykja miskabætur til brotaþola hæfilega ákveðnar 600.000 krónur og bera þær vexti eins og í dómsorði greinir.

Þá ber með vísan til 1. mgr. 233. gr., sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talinn útlagðan kostnað, 86.210 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 569.160 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Unnsteins Arnar Elvarssonar lögmanns, 621.860 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

 Hjörtur O. Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

 

Ákærði, Adam Borzynski, sæti fangelsi í níu mánuði en fullnustu sex mánaða af refsingunni er frestað og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði sæti upptöku á sleggju, 768 stykkjum af sterum, 100 stykkjum af lyfinu Oxymetholone og 1,0 millilítra af Testosterone stungulyfi.

Ákærði greiði brotaþola, A, kt. 000000-0000, 806.372 krónur auk vaxta af 600.000 krónum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, frá 17. september 2017, en síðan dráttarvöxtum skv. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá 12. nóvember 2018 til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talinn útlagðan kostnað, 86.210 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 569.160 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Unnsteins Arnar Elvarssonar lögmanns, 621.860 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                       

                                                                                                Hjörtur O. Aðalsteinsson