• Lykilorð:
  • Verksamningur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness 12. desember 2018 í máli nr. E-431/2018:

Framkvæmdir og ráðgjöf ehf.

(Hulda Rós Rúriksdóttir lögmaður)

gegn

húsfélaginu Breiðvangi 18, 20 og 22

(Jón Auðunn Jónsson lögmaður)

 

            Mál þetta var höfðað 7. maí 2018 og dómtekið 26. nóvember s.á. Stefnandi er Framkvæmdir og ráðgjöf ehf., Laufrima 71, Reykjavík. Stefndi er húsfélagið Breiðvangi 18, 20 og 22, Breiðvangi 18, Hafnarfirði.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 1.600.530 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.166.220 krónum frá 19. ágúst 2017 til 17. september 2017, en af 1.600.300 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá gerir stefnandi kröfu um málskostnað.

            Stefndi krefst aðallaga sýknu af kröfum stefnanda en til vara að kröfur verði lækkaðar. Jafnframt gerir stefndi kröfu um málskostnað.

I.

Málsatvik eru þau að með verksamningi, dags. 7. júlí 2016, tók stefnandi að sér fyrir stefnda hönnun, umsjón og eftirlit með framkvæmdum við fasteignina að Breiðvangi 18-22 í Hafnarfirði. Til grundvallar framkvæmdunum lá ástands- og kostnaðarmat frá stefnanda, dags. 9. mars 2016, þar sem fyrirhuguðum framkvæmdum var lýst og kostnaður við þær áætlaður, 71.700.000 krónur, miðað við að svalir yrðu lokaðar. Fyrirsvarsmaður stefnanda er Viðar Austmann tæknifræðingur.

Samkvæmt samningnum átti stefnandi að sjá um að nýtt útlit yrði teiknað á glugga á austurhlið og á suðurgafl hússins, sjá um að teikna svalalokun á allar svalir austurhliðar og miða við B-lokun svala, afla tilboða í framkvæmdina, hafa umsjón með útboðum og greiða kostnað við þau. Stefnandi skyldi í kjölfarið semja f.h. stefnda við bjóðendur sem ættu bestu tilboð í verkið. Þá skyldi stefnandi jafnframt hafa eftirlit með framkvæmdaaðilum í verkinu, s.s yfirfara tæknilegar upplýsingar, hafa eftirlit með því að efni sem framkvæmdaaðilar hygðust nota við verkið væri í samræmi við staðla og útboðsgögn og hafa eftirlit með réttri notkun efnanna. Þá bar stefnanda að hafa eftirlit með vinnubrögðum þeirra og umgengni framkvæmdaaðila á verkstað. Einnig bar stefnanda að hafa umsjón með að gerðar yrðu nauðsynlegar úttektir á verkinu og að lokaúttekt færi fram, yfirfara og samþykkja f.h. stefnda reikninga, yfirfara tímaáætlanir og efnispantanir, miðla upplýsingum milli verkkaupa og framkvæmdaaðila um breytingar, viðbætur og aukaverk og hafa umsjón með lokauppgjöri við framkvæmdaaðila. Loks skyldi stefnandi sitja verkfundi á einnar til tveggja vikna fresti og halda verkfundargerð um það sem skipti máli fyrir verkið. Verktími var áætlaður út viku 35 árið 2017.

            Fyrir verkskyldur samkvæmt samningnum átti stefndi að greiða stefnanda 6.203.000 krónur auk virðisaukaskatts, í sjö greiðslum. Fyrsta greiðsla að fjárhæð 1.100.000 krónur átti að vera 1. október 2016 eða við lok hönnunar. Önnur greiðsla að fjárhæð 900.000 krónur hinn 15. janúar 2017 eða við lok útboðs. Þriðja greiðsla var að fjárhæð 700.500 krónur hinn 1. mars 2017 eða samkvæmt framvindu verksins og síðan mánaðarlega sama fjárhæð til og með 1. ágúst 2017.

            Eins og áður segir gerði stefnandi ástands- og kostnaðarmat vegna framkvæmdanna, dags. 9. mars 2016. Einnig útbjó hann útboðsgögn og samnings­skilmála vegna framkvæmdanna. Í framhaldi þess var gerður samningur við verktaka. Nánar tiltekið var hinn 18. nóvember 2016 gerður verksamningur við Skelina byggingavörur ehf. um svalalokanir, að fjárhæð 16.945.939 krónur, og átti verktími að vera frá 1. júlí til 7. ágúst 2017. Einnig var gerður verksamningur við Múr og málningarþjónustuna ehf. um önnur verk sem tilgreind voru í útboðslýsingu, að fjárhæð 46.466.572 krónur. Verktími átti að vera frá 3. apríl til 7. ágúst 2017. 

Á meðan framkvæmdir stóðu yfir hélt fyrirsvarsmaður stefnanda níu verkfundi, þar sem farið var yfir þá vinnu sem stóð yfir og það sem viðkom þeim. Fyrsti verkfundur var haldinn 3. apríl og sá síðasti 1. ágúst 2017. 

            Stefnandi kveður að verktíminn hafi framlengst. Á því tímamarki sem síðasti verkfundur hafi verið haldinn hafi eina ókláraða verk Múrs og Máls ehf. verið að setja steníplötu á húsið. Þegar stefnandi hafi farið að ganga á verktakann um það hvenær ljúka ætti verkinu hafi verktakinn upplýst að hann hefði gert samning við formann húsfélagsins, Geir Gunnlaugsson, um að breyta og setja málaða plötu í stað steníplötunnar. Stefnandi hefði þá rætt við fyrri formann húsfélagsins, Egil Skúlason, og eftir nokkrar viðræður milli manna hefði orðið úr að steníplata yrði sett upp. Þetta hafi haft í för með sér að ekki hafi verið hægt að klára verkið á tilsettum tíma. Ekkert samráð hafi verið haft við stefnanda vegna alls þessa. Þá segir stefnandi að hann hafi gert allt sem í hans valdi stóð til að hinn verktakinn, Skelin ehf., kláraði verk sitt á umsömdum tíma. Verktakinn hafi átt að klára verkið 1. september 2017 en þegar stefnandi hafi gengið eftir því við verktakann að klára verk sitt á umsömdum tíma hafi verktakinn borið því við að Geir Gunnlaugsson hefði sagt að svo framarlega sem þeir kláruðu verkið um haustið þá skipti það hann ekki máli hvenær þeir myndu klára það. Þannig hafi blasað við að formaður húsfélagsins hafi verið í sambandi við verktakann án nokkurs samráðs við stefnanda. Þá hafi formaður húsfélagsins tekið ákvarðanir með verktakanum um frágang á svölum og um verklok án þess að bera það undir stefnanda.

            Jafnframt segir stefnandi að eftir að aðilar gerðu með sér verksamning hafi stefndi ákveðið viðbót við verkframkvæmdir, en hefði það legið fyrir við gerð verksamningsins milli aðila hefði samningsupphæðin verið hærri.

            Stefndi heldur því hins vegar fram að viðbætur við verkið hafi legið fyrir frá fyrsta degi. Þannig hafi legið fyrir á fyrsta verkfundi 1. apríl 2017 að stefndi óskaði eftir að fá tvær lúgur í þakið til viðbótar við það sem hafi verið ákveðið og að fá tilboð í að saga gat úr einum stigagangi hússins upp í þak. Magnbreytingar hafi falist í að bæta við tveimur þaklúgum og gluggum á norðurgafli. Á verkfundi 9. maí 2017 hafi verið ákveðið að bæta einum nagla í hvert borð í borðaklæðningu þaks. Á verkfundi 1. ágúst 2017 hafi verið bókað að allir gluggar væru komnir upp og búið að mála helming þeirra og að steníklæðning væri á leiðinni. Búið væri að setja niðurfallsrör og niðurföll á svalir og að verktaki stefndi að því að ljúka verkinu fyrir 9. ágúst. Þrátt fyrir að nokkur vinna hafi verið eftir hjá Múr og málningarþjónustunni ehf. og um mánaðarvinna hjá Skelinni ehf., hafi stefnandi lýst því yfir í fundargerðinni að þetta væri síðasti verkfundurinn. Engir verkfundir hefðu verið haldnir eftir þetta og stefnandi ekki fylgst frekar með framkvæmdum en af ýmsum ástæðum hefði loka­frágangur dregist fram í nóvember. Þá hafi stefnandi ekki staðið að lokaúttekt og ekki komið að lokauppgjöri við verktakana.

            Stefnandi gaf út reikning nr. 216, dags. 19. ágúst 2017, sem um er deilt í máli þessu, að fjárhæð 700.500 krónur, eða 868.620 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Skýring á reikningnum er: „Greiðsla skv. samkomulagi.“ Jafnframt gaf stefnandi út annan reikning sama dag, nr. 217, að fjárhæð 240.000 krónur auk virðisaukaskatts, samtals 297.600 krónur vegna „viðbótarframkvæmda“. Þá gaf stefnandi út reikning nr. 231, dags. 17. september 2017, að fjárhæð 350.250 krónur, auk virðisaukaskatts, samtals 434.310 krónur, vegna „framlengingar á verkinu“.

            Stefndi taldi framangreinda útgáfu reikninga stefnanda og fjárhæð þeirra vera ranga og bað um álit kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa vegna ágreinings aðila. Í áliti nefndarinnar frá 7. júní 2018 í máli nr. 79/2017 taldi nefndin að stefnanda væri samkvæmt samningi aðila ekki heimilt að gefa út reikning 19. ágúst 2017 fyrir þeim verkþáttum sem ekki væri enn lokið. Stefnanda bæri því að fella niður dráttarvexti af þeim reikningi frá útgáfudegi. Þá taldi nefndin að stefnanda bæri að lækka kröfu sína um greiðslu vegna viðbótarframkvæmda um helming. Loks taldi nefndin að stefnda bæri að greiða stefnanda 200.000 krónur vegna framlengingar verksins, gegn því að stefnandi afhenti stefnda tímaskýrslu eða sundurliðaðan reikning sem skýrði kostnaðarauka vegna aukinnar vinnu seljanda.

            Eins og áður segir höfðaði stefnandi mál þetta 7. maí 2018 og krefst þess að stefndi greiði framangreinda þrjá reikninga.

            Við aðalmeðferð málsins gaf Viðar Austmann skýrslu af hálfu stefnanda og Geir Gunnlaugsson af hálfu stefnda. 

II.

Stefnandi byggir á því að aðilar hafi gert með sér samning um verk sem stefnandi skyldi vinna og þiggja greiðslu fyrir samkvæmt verksamningi, dagsettum 7. júlí 2016. Samkvæmt samningnum skyldi síðasta greiðslan innt af hendi 1. ágúst 2017 eða samkvæmt framvindu verksins. 

Vinna stefnanda samkvæmt verksamningi aðila hafi framlengst af ástæðum sem stefnandi hafi ekkert haft um að segja. Formaður húsfélagsins, Geir Gunnlaugsson, hafi tekið ýmsar ákvarðanir sem stefnandi hafi engu ráðið um. Vegna þeirrar framlengingar hafi vinna stefnanda aukist og stefnandi sent stefnda reikning vegna framlengingar.

Stefnandi hafi sent reikning að fjárhæð 700.500 krónur, auk virðisaukaskatts, og jafnframt sent samhliða reikning vegna „viðbótarframkvæmda“ að fjárhæð 240.000 krónur auk virðisaukaskatts. Þá hafi stefnandi sent reikning vegna framlengingar verksins, dags. 17. september 2017, að fjárhæð 350.250 krónur, auk virðisaukaskatts. Þessir þrír reikningar hafi ekki verið greiddir þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir stefnanda. Stefnandi hafi því ekki haft önnur ráð en að stefna máli þessu fyrir dóm. Aðrir reikningar samkvæmt samningi aðila hafi verið greiddir.

Nánar um þau viðbótarverk sem hafi verið ákveðin segir stefnandi að hugmynd hafi verið um að skipta út gluggum á norðausturgafli hússins. Talsverð umræða hafi orðið um þá hugmynd og niðurstaðan orðið sú að bæta við átta gluggum á gaflinum. Stefnandi hafi fengið það hlutverk að útvega verktaka teikningar af gafli hússins þar sem merkt væri inn á hvaða gluggum skyldi skipta út.

Þá hafi formaður húsfélagsins óskað eftir því á verkfundi að bætt yrði við tveimur þaklúgum á húsið en einungis ein þaklúga hafi verið á húsinu. Útboð hafi tekið mið af því að ein þaklúga yrði endurnýjuð.

Þegar búið hafi verið að rífa bárujárnsklæðningu af þaki hafi komið í ljós að timburklæðning hafi verið illa negld og vantað allt að 50-70% af neglingu í timburþakklæðningu. Við gerð verksamnings við stefnanda hafi verið gert ráð fyrir að húsið væri byggt samkvæmt reglugerðum og því ekki talin ástæða til annars en að gera ráð fyrir að svo væri einnig með þak og að allt væri eins og reikna mátti með þar. Engar ábendingar hefðu komið frá stefnda um að reikna mætti með öðru. Stefnandi hafi tilkynnt stefnda um ástand þaksins þegar það hafi legið fyrir og stefndi ákveðið að láta yfirfara alla neglinguna á þakinu og bæta.

Engar upplýsingar hafi legið fyrir um að það vantaði niðurföll á tvær svalaraðir á húsinu. Útboð hafi ekki gert ráð fyrir að bæta þyrfti þeim við. Stefnda hafi verið tilkynnt um stöðu mála með niðurföllin og stefndi óskað eftir því að sett yrðu niðurföll á þessar svalir.

Þá hafi formaður stefnda óskað eftir tilboði í að láta setja manngengt op í plötu frá stigagangi svo að hægt væri að komast upp á þak hússins. Talsverð vinna hafi verið lögð í útfærslur á frágangi og leitað eftir tilboði í framkvæmdina. Verktaki hafi skilað inn tilboði í verkið sem hafi verið yfirfarið af stefnanda.

Jafnframt hafi formaður húsfélagsins óskað eftir því við annan verktakann, Skelina ehf., að svalalokun yrði breytt. Í stað þess að setja lokun eins og hún hafi verið hönnuð og samþykkt hjá byggingarfulltrúa yrði sett gler og útfærslu breytt verulega. Þessar viðræður á milli formanns húsfélagsins og Skeljarinnar ehf. hafi verið án alls samráðs við stefnanda en breytingin hafi haft í för með sér kostnaðarauka á framkvæmdinni auk þess sem útfæra þurfti og breyta og aðlaga útfærslu að nýjum óskum formannsins. Talsverð vinna hafi átt sér stað af hálfu stefnanda bæði vegna eftirlits með þessu og við útfærslur.

Stefnandi segir að allar þessar framkvæmdir hafi verið utan verksamnings við stefnanda og verksamning við verktakann og hafi stefndi sérstaklega óskað eftir þessu á verkfundum. Verktaka hafi verið greitt fyrir öll þessi viðbótarverk og stefnandi hafi haft fullt eftirlit og umsjón með þessari viðbót stefnda, eins og öðru því sem gert var í þessu verki.

Stefnandi telur sig hafa gert allt sem honum bar samkvæmt verksamningi aðila og efnt sínar skyldur samkvæmt honum. Stefndi hafi hins vegar vanefnt samninginn með því að greiða ekki reikning, dags. 19. ágúst 2017, vegna vinnu stefnanda, 700.500 krónur auk virðisaukaskatts. Þá hafi stefndi einnig vanefnt að greiða fyrir vinnu stefnanda við viðbótarverk sem stefndi hafi ákveðið að skyldu framkvæmd á meðan á verktíma stóð, samkvæmt reikningi 19. ágúst 2017, að fjárhæð 240.000 krónur auk virðisaukaskatts. Þá hafi stefndi ekki greitt fyrir vinnu stefnanda vegna framlengingar verksins samkvæmt reikningi 17. september 2017, að fjárhæð 350.250 krónur auk virðisaukaskatts.

Stefnandi byggir á því að það sé meginregla samningaréttar að samninga skuli halda. Í samkomulagi aðila sé hvergi vikið að samningsforsendum né gefi atvik til kynna að forsendur samkomulagsins hafi brostið með nokkrum þeim hætti sem heimili stefnda að vanefna það. 

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglu samningaréttar um skuldbindingar­gildi samninga og verksamnings sem aðilar gerðu með sér vegna vinnu stefnanda.

Krafa um málskostnað er byggð á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

III.

            Stefndi byggir á því að hvergi í verksamningi aðila sé að finna tengingu þóknunar stefnanda við umfang verksins. Þar sé heldur ekki að finna fyrirvara um hækkun endurgjalds vegna aukaverka eða breytinga á verkinu. Þá sé í samningnum enginn fyrirvari um viðbótargreiðslu ef verkið tæki lengri tíma en út viku 35. Telur stefndi að stefnandi eigi engar frekari kröfur á hendur sér. Hann hafni því öllum þremur reikningum stefnanda, sem kröfur hans byggjast á.

Hvað varðar reikning stefnanda nr. 216, dags. 19. ágúst 2017, að fjárhæð 868.620 krónur, byggir stefndi á því að stefnandi hafi vanefnt samningsskyldur sínar gagnvart stefnda stórlega. Í fyrsta lagi hafi verktími þess verks sem stefnandi tók að sér átt að vera til 1. september 2017. Stefnandi hafi hins vegar farið frá verkinu mánuði fyrr eða hinn 1. ágúst sama ár, en þá hafi hann haldið sinn síðasta verkfund. Eftir það hafi stefnandi sinnt engum af þeim verkum sem lýst sé í verksamningi aðila.  Stefnandi hafi þannig hlaupið frá verkinu þótt umtalsverður hluti framkvæmdanna hafi þá verið óunninn. Til dæmis megi nefna að verktími Skeljarinnar ehf. við svalalokunina hafi þá aðeins verið hálfnaður, sé tekið mið af verksamningi aðila. Stefnandi hafi enga skýringu gefið á því af hverju hann hljóp þannig frá verkskyldum sínum mánuði áður en umsaminn verktími hans var runninn út. Engar ástæður séu heldur sjáanlegar sem réttlæti slíkt brotthlaup. Verkið hafi eftir þetta ekki verið undir eftirliti tæknimanns en það hafi jú verið tilgangur stefnda með ráðningu stefnanda að tryggja slíkt eftirlit allt til loka verksins. Brotthlaup stefnanda frá verkinu 1. ágúst 2017 geri það að verkum að hann eigi ekki rétt á neinni greiðslu fyrir ágústmánuð. Reikningur hans sé því tilhæfulaus.

Sýknukrafa stefnda er einnig byggð á því að stefnandi hafi vanrækt sum þau verkefni sem hann tók að sér og sum hafi hann hreinlega ekki unnið. Ljóst sé að eftirlit hans með verkþætti Skeljarinnar ehf. hafi verið nánast ekkert og samskipti hans við verktakann mjög takmörkuð. Forsvarsmaður verktakans hefði lýst því svo að forsvarsmaður stefnanda hefði forðast að tala við hann.

Í verksamningi aðila hafi stefnandi tekið að sér að hanna svalalokunina og fá hana samþykkta af byggingaryfirvöldum. Þetta hafi hann ekki gert. Einu teikningarnar sem hann hafi látið vinna séu þær sem fylgdu útboðslýsingunni. Forsvarsmaður Skeljarinnar ehf., sem sé tæknifræðingur að mennt, hafi hannað og útfært frágang lokunarinnar. Hann hafi teiknað hana upp og þær teikningar verið lagðar fyrir byggingarfulltrúa til samþykktar.

Stefnandi hafi skuldbundið sig til þess að hafa umsjón með því að nauðsynlegar úttektir yrðu gerðar á verkinu og að lokaúttekt færi fram. Þetta hafi hann ekki gert. Það hafi verið byggingarstjóri verksins sem óskaði eftir lokaúttektinni og verið viðstaddur hana. Ekki forsvarsmaður stefnanda.

Stefndi bendir á að stefnandi hafi skuldbundið sig í verksamningi aðila til þess að hafa umsjón með lokauppgjöri framkvæmdaaðila. Þetta hafi hann ekki gert. Hann hafi hvorki kallað eftir uppgjörum frá þessum aðilum né gert neitt lokauppgjör fyrir verkkaupa. Stefndi hafi gert þetta verk á endanum upp sjálfur án aðkomu stefnanda.

Af þessu megi ljóst vera að stefnandi hafi í raun hætt að efna verksamninginn 1. ágúst 2017. Hann eigi því ekki kröfu til að fá greitt fyrir síðasta mánuð verktímans, auk þess sem hann hafi vanefnt einstakar skyldur sínar, eins og rakið hefur verið.

Um reikning nr. 217, dags. 19. ágúst 217, að fjárhæð 297.600 krónur, segir stefndi að engar skýringar hafi fylgt þessum reikningi og engin tímaskrá hafi verið afhent til stuðnings kröfugerðinni og fjárhæð hennar. Ítrekað hafi verið skorað á stefnanda að leggja fram tímaskrá eða önnur gögn sem sýni fram á að viðbótarframkvæmdir hafi aukið á nauðsynlegt vinnuframlag hans, umfram það sem samið var um í samningi aðila. Stefnandi hafi ekki orðið við þeim áskorunum.

Stefndi áréttar að tilboð stefnanda í upphafi og samningur aðila hafi á engan hátt verið tengt magntölum í verkinu. Enginn fyrirvari hafi verið gerður um það að greiða þyrfti stefnanda aukalega ef magn einstakra verkþátta reyndist verða meira eða ef aukaverk bættust við á verktímanum. Öll viðbótarverk hafi verið samþykkt á verkfundum og stefndi aldrei gert kröfu um að verklaun hans yrðu hækkuð vegna þeirra. Stefnandi hafi aldrei gert stefnda viðvart um að hann teldi sig eiga rétt til viðbótargreiðslna vegna þessara aukaverka. 

Beri hér að hafa í huga að eitt af verkefnum stefnanda samkvæmt verksamningi aðila hafi verið að miðla upplýsingum milli verkkaupa og vertaka um breytingar, viðbætur, aukaverk o.þ.h. Samningur aðila hafi því beinlínis gert ráð fyrir viðbótum og aukaverkum án þess að vikið væri að því einu orði að það gæti haft áhrif á réttarsamband þeirra. Stefnandi hafi samið verksamning aðila einhliða enda sé hann sérfræðingurinn á þessu sviði. Stefnandi verði því að bera hallann af því ef honum hefur láðst að taka slíkt endurskoðunarákvæði inn í samninginn.

Þá bendir stefndi á að í stefnu séu tilteknir verkþættir sem stefnandi segi að feli í sér viðbót við verkið og sem hann áskilji sér þóknun fyrir. Fyrst nefni hann að ákveðið hafi verið að bæta við átta gluggum á gaflinum. Ákvörðun um þetta hafi verið tekin áður en framkvæmdir hófust og stefnandi engar athugasemdir gert við þá ákvörðun. Um þetta hafi verið bókað á fyrsta verkfundi 3. apríl 2017. Þessi viðbót hafi ekki aukið umfang verks stefnanda sem neinu nemur. Engrar viðbótarhönnunar hafi verið þörf og eftirlitsferðum ekki fjölgað. Ekki hafi verið þörf á máltöku og ekki hafi verið haldnir sérstakir verkfundir vegna þessarar viðbótar. Breytingin hafi falist í því að stjórnarmaður í húsfélaginu hafi gengið á milli eigenda íbúða sem snúa til norðurs og kallað eftir óskum þeirra um gluggaskipti. Hann hafi safnað þeim saman og merkt inn á teikningu sem sýndi hvaða glugga ætti að skipta um. Eina aðkoma stefnanda að þessu máli hafi verið að áframsenda þessa teikningu til verktakans sem hafi séð um afganginn. Kröfu stefnanda um viðbótargreiðslu vegna þessarar breytingar sé því alfarið hafnað. 

Meginröksemd stefnanda fyrir því að honum beri viðbótargreiðsla vegna þessarar fjölgunar glugga virðist vera sú að verktakinn hafi fengið greitt aukalega fyrir sína vinnu við ísetningu glugganna. Engu máli skipti hér þótt verktakinn hafi fengið greitt fyrir þessa viðbótarvinnu. Ekkert samband sé þar á milli.

Strax á fyrsta verkfundi hafi verið bókað að stefndi vildi hafa þrjár þaklúgur í stað einnar eins og stefnandi hafði gert ráð fyrir. Það hafi þótt til óþæginda að hafa ekki lúgu úr þakinu niður í hvern stigagang. Forsvarsmenn stefnda hafi í raun undrast að stefnandi hefði ekki gert ráð fyrir þessu í útboðslýsingu sinni. Stefnandi hafi tekið undir þessa kröfu og þetta verið ákveðið. Engin breyting hafi orðið á umfangi verks stefnanda við þessa breytingu. Hafa verði hér í huga að verið var að skipta um járn á öllu þakinu. Eina breytingin hafi verið sú að í stað venjulegrar þakplötu hafi verið sett niður plata sem á var lúga. Platan hafi verið útbúin í blikksmiðju og stefnandi hvergi komið að gerð hennar. Hann hafi ekkert eftirlit haft með framleiðslu hennar né ásetningu hennar á þakið, umfram það sem hann hafði með öllum öðrum plötum á þakinu. Engin viðbótarhönnun eða teiknivinna hafi verið framkvæmd vegna þessa.

Stefndi segir varðandi þriðja liðinn í kröfugerð stefnanda samkvæmt þessum reikningi að það veki athygli að stefnandi kvarti undan því að verkkaupi hafi ekki gert honum viðvart um að neglingu á þakklæðningu væri ábótavant. Stefnandi hafi í upphafi verið ráðinn til að skoða allt ytra byrði hússins, meta ástand þess og gera tillögur um úrbætur. Stefnandi sé sérfræðingur á þessu sviði og hafi verið greitt fyrir að vinna þessa vinnu. Það sé fráleitt að gera þá kröfu að ófaglærðir íbúar í húsinu hafi vitað eitthvað um það hvernig neglingu á borðaklæðningu undir þakinu væri háttað eða um ástand klæðningarinnar almennt.

Ákveðið hafi verið að fela verktakanum sem tók járnið af og var að klæða þakið upp á nýtt að auka við neglinguna. Verk þetta hafi ekki krafist hönnunar og ekki eftirlits umfram það sem eðlilega fylgdi endurbyggingu þaksins. Vinna stefnanda hafi ekkert aukist við þessa aukaklæðningu. Stefnandi hafi aldrei áskilið sér þóknun vegna þessa. Greiðsla til verktaka vegna viðbótarvinnunnar hafi engin áhrif á samning aðila þessa máls. Kröfu stefnanda um viðbótargreiðslu vegna þessa sé því hafnað.

Stefndi bendir á að í rökstuðningi stefnanda fyrir aukagreiðslu vegna niðurfalla á svalir segi stefnandi að engar upplýsingar hafi legið fyrir um að það vantaði niðurföll á tvær svalaraðir á húsinu. Útboð hafi því ekki gert ráð fyrir að það þyrfti að bæta þeim við. Hafa beri hér í huga að stefnandi hafi tekið að sér að skoða allt ytra byrði hússins sem fagmaður. Við venjulega sjónskoðun hafi þessi staðreynd með niðurföllin blasað við. Stefnandi hafi sjálfur lagt til að svölunum yrði lokað. Stefnanda hafi því borið að ráðleggja stefnda með nauðsynlegar ráðstafanir sem slíkum framkvæmdum fylgja óhjákvæmilega. Þeirra á meðal sé að tryggja að vatn lokist ekki inni á svölunum. Stefnandi hafi einn borið alfarið ábyrgð á þessum mistökum. Þess utan tekur stefndi fram að stefnandi hafi hvorki hannað eða teiknað neitt í sambandi við þessa niðurfallalögn. Verktakinn hafi séð um þetta frá upphafi til enda og vinna stefnanda ekkert aukist við þetta.

Á fyrsta verkfundi hafi verið bókað að verkkaupi óskaði eftir tilboði í að saga gat úr lofti eins stigagangsins upp í þakið. Á þriðja verkfundi hafi verið bókað að stefndi tæki tilboði í að saga þetta gat og setja lúgu með stiga. Verkið hafi loks verið unnið um miðjan nóvember 2017 eða þremur og hálfum mánuði eftir að stefnandi fór frá verkinu, tæpum þremur mánuðum eftir að stefndi gaf út umræddan reikning og rúmum tveimur mánuðum eftir að stefnandi setti reikninginn í innheimtu hjá Motus.

Ástæða þessa dráttar hafi verið að undirverktaki sem sérhæfir sig í steinsögun hafi sífellt vanefnt loforð sitt um að koma og saga gatið í plötuna. Það hafi ekki verið fyrr en svona löngu seinna sem hann loks mætti til verksins. Forsvarsmaður stefnanda hafi ekkert komið að samskiptum við þennan undirverktaka eða haft yfir höfuð nokkra vitneskju um þessa þróun mála enda hafi hann ekki leitað eftir henni.

Stefnandi hafi ekki hannað þetta gat enda hafi það ekki þarfnast hönnunar.  Stefnandi hafi heldur ekki hannað lúguna. Hún hafi verið keypt í Byko tilbúin til uppsetningar. Augljóst sé einnig að stefnandi hafi hvergi komið að verkinu sjálfu, þ.e.a.s. söguninni og ísetningunni, þar sem hann hafi þá löngu verið farinn frá verkinu.  Stefnandi hafi ekki gert minnstu tilraun til að sýna fram á að verk hans í þjónustu stefnda hafi aukist vegna þessarar viðbótar. Kröfu þessari sé því hafnað sem tilhæfulausri með öllu.

Stefndi segir að frásögn stefnanda í stefnu af því hvernig ákveðið hafi verið að breyta svalalokuninni, þannig að í stað blikkplötu í hluta lokunarinnar væri notað gler, sé rétt svo langt sem hún nær. Íbúum hafi þótt blikkplatan skerða útsýni og vera til óprýði. Verktakinn hafi fallist á þessi sjónarmið og sett gler í stað blikks. Einungis hafi verið um breytt efnisval að ræða, en ekki viðbót eða aukaverk. Útfærsla lokunarinnar hafi ekki breyst. Stefnandi hafi ekki á neinu stigi komið að þessari breytingu. Hún hafi ekki krafist hönnunar frá stefnanda enda hafi hann ekki hannað þá útfærslu af svalalokuninni sem notuð var og samþykkt af byggingaryfirvöldum. Stefnandi hafi ekkert eftirlit haft með þessari framkvæmd umfram það sem almennt fólst í skyldum hans samkvæmt samningi aðila þessa máls. Stefndi áréttar að stefnandi hafi haft lítið sem ekkert eftirlit með störfum Skeljarinnar ehf. og boðað fulltrúa hennar aðeins á verkfund í upphafi en svo aldrei eftir það. Þessi breyting á efnisvali skapi stefnanda engan rétt til viðbótargreiðslu úr hendi stefnda.

Stefndi segir að það sé sameiginlegt öllum framangreindum liðum að stefnandi hafi ekki sýnt fram á aukið vinnuframlag sitt eða rökstutt með nokkrum hætti í hverju það fólst. Þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir hafi hann ekki lagt fram tímaskýrslur eða önnur gögn sem búi að baki þessari kröfugerð og útfærslu hennar í fjárhæðum.

Stefndi hafnar reikningi stefnanda nr. 231, vegna framlengingar á verki, að fjárhæð 434.310 krónur. Verksamningur aðila hafi ekki verið framlengdur og stefnandi ekki verið beðinn um að veita stefnda frekari þjónustu eftir að verktímanum lauk. Hafi stefnandi skipt sér eitthvað af verkinu eftir 1. september þá sé stefnda um það ókunnugt og hljóti þá að vera um óumbeðinn erindrekstur að ræða af hálfu stefnanda. Stefnandi eigi ekki rétt á greiðslu fyrir eitthvert verk sem hann segist hafa unnið en aldrei verið óskað eftir að hann ynni. Síðasti verkfundur hafi verið haldinn 1. ágúst 2017 eða mánuði áður en umsömdum verktíma stefnanda lauk. Stefndi kannist ekki við að hafa þegið neina þjónustu frá stefnanda eftir það.

Reikningur þessi sé sama marki brenndur og hinn fyrri. Enginn rökstuðningur hafi komið fram fyrir því að verk stefnanda hafi verið framlengt. Heldur sé ekki komið fram hvað stefnandi telur að verkið hafi framlengst mikið. Engin tímaskrá eða önnur gögn liggi frammi um það og fjárhæðin, 350.250 krónur, sé ekki rökstudd með nokkrum hætti.

Í stefnu nefnir stefnandi það sem ástæðu tafarinnar að formaður stefnda hafi ákveðið í samráði við verktakann að notast við steníplötu í öðrum lit og mála hana.  Síðan hafi aftur verið hætt við það. Hið rétta í þessu sé að formaður stefnda hafi komist að því rétt um það leyti er verki Múr og Mál ehf. átti að ljúka að steníplata í réttum lit væri ekki til í landinu og væri ekki í pöntun. Í því sambandi sé rétt að hafa í huga að eftirlit með efnisöflun og efnisvali hafi verið ein af verkskyldum stefnanda.  Verktakinn hafi stungið upp á því að taka plötu í öðrum lit og mála hana. Formaður stefnda hafi samþykkt það fyrir sitt leyti en með fyrirvara um samþykki stjórnar húsfélagsins. Fallið hafi verið frá þessum fyrirætlunum strax daginn eftir og rétta platan pöntuð hjá BYKO. Engin töf hafi því verið á verkinu af þessum völdum.

Umrædd plata sé hins vegar ekki enn komin til landsins af þeirri einföldu ástæðu að hún sé ekki lengur framleidd í réttum lit. Niðurstaðan hafi því verið sú að í uppgjöri stefnda við verktakann hafi þessi verkliður verið felldur út og ekki greitt neitt fyrir hann. Staðfesti það enn betur hversu fjarstæðukennt það sé að umræða um þessa plötu í júlímánuði 2017 hafi valdið því að ekki hafi verið hægt að klára verkið á tilsettum tíma, þ.e.a.s. fyrir 1. september sama ár.

Stefndi byggir á því að lög um þjónustukaup nr. 42/2000 eigi við í lögskiptum aðila enda sé stefndi neytandi í skilningi laganna þótt hann sé fulltrúi þeirra einstaklinga sem eigi íbúðir í húsinu. Stefnandi hafi ekki fullnægt skyldum sínum samkvæmt 8. gr. laganna þegar og ef hann taldi að hann væri að fara að vinna önnur verk en þau sem féllu undir samninginn. Þá hefði honum borið að tilkynna stefnda það og óska eftir fyrirmælum hans. Ákvæði 2. mgr. 8. gr. laganna eigi hér ekki við.

Stefndi áréttar að stefnandi hafi ekki gert fyrirvara um verð í samningi þeim sem hann hafi samið einhliða og lagt fyrir stefnda. Ákvæði 31. gr. laganna eigi því ekki við hér enda stafi krafa hans heldur ekki af verðhækkunum heldur sé stefnandi að heimta greiðslu fyrir verk sem hann hafi ekki unnið og ekki verið beðinn um að vinna.

Stefnandi hafi heldur ekki fullnægt skyldum þeim sem á hann séu lagðar í 34. gr. laganna um þjónustukaup. Hafi hann talið að hann hafi veitt stefnda þjónustu umfram það sem honum bar samkvæmt samningi hefði hann ekki aðeins átt að gera viðvart um það eins og segir í 31. gr. heldur hafi honum borið að leggja fram ítarlega sundurliðaðan reikning ásamt rökstuðningi fyrir því í hverju hækkunin fælist. Stefnandi hafi ekkert slíkt gert heldur sent stefnda órökstudda reikninga sem engar skýringar hafi fylgt. Þegar þeir hafi ekki verið greiddir hafi hann sett reikningana þegar í stað í löginnheimtu.

Varakrafa stefnda um lækkun krafna stefnanda byggist á sömu rökum og sjónarmiðum og rakin hafa verið fyrir aðalkröfu hans að breyttu breytanda.

Stefndi mótmælir sérstaklega dráttarvaxtakröfu stefnanda. Stefnandi geri kröfu um dráttarvexti frá útgáfudegi reikninganna, en samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 sé ekki heimilt að heimta dráttarvexti á slíkar kröfur fyrr en mánuður er liðinn frá því að skuldari var sannanlega krafinn um greiðslu kröfunnar. Áður en mánuður var liðinn frá útgáfu reikninga nr. 216 og 217 hafi stefnandi tekið þá út úr heimabanka sínum og sett þá í löginnheimtu. Stefndi hafi þannig verið hindraður í að greiða þessa reikninga, hefði hann kosið að gera það. Vegna þessa beri að hafna kröfu stefnanda um dráttarvexti af þessum fjárhæðum.

Um lagarök vísar stefndi til ákvæða samnings aðila, almennra reglna kröfuréttarins um skuldbindingargildi loforða og laga nr. 42/2000 um þjónustukaup, einkum 8., 31. og 34. gr. þeirra laga. Um dráttarvaxtakröfur stefnanda vísar stefndi til ákvæða 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

            Krafa um máls­kostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um með­ferð einka­mála.

IV.

            Eins og rakið hefur verið gerðu aðilar með sér samning, dags. 7. júlí 2016, þar sem stefnandi tók að sér fyrir stefnda hönnun, umsjón og eftirlit með framkvæmdum við fasteignina að Breiðvangi 18, 20 og 22. Til grundvallar framkvæmdunum lá kostnaðarmat frá stefnanda, dags. 9. mars 2016, þar sem kostnaður við framkvæmdir var áætlaður 71.700.000 krónur. Samkvæmt samningi aðila átti stefnandi að fá greitt 6.2013.000 krónur fyrir vinnu sína.

            Reikningur stefnanda nr. 216, dags. 19. ágúst 2017, að fjárhæð 700.500 krónur, auk virðisaukaskatts, samtals 868.620 krónur, um „greiðslu skv. samkomulagi“, virðist vera byggður á sjöundu greiðslunni sem stefnda bar að greiða stefnanda samkvæmt samningi aðila, þ.e. lokagreiðslan. Stefndi hefur neitað að greiða reikninginn og heldur því fram að stefnandi hafi farið frá verkinu 1. ágúst 2017 og engum verkum sinnt eftir það, en gert hafi verið ráð fyrir því í samningi aðila að verktími stefnanda væri til 1. september 2017. Samkvæmt gögnum málsins og tölvupósti stefnanda til verktaka virðist stefnandi hafi haldið áfram eftirliti með verktökum og farið á verkstað eftir 1. ágúst 2017. Stefnandi vanefndi hins vegar samning aðila með því að hafa ekki umsjón með að lokaúttekt færi fram og með lokauppgjöri við framkvæmdaaðila. Að öllu þessu virtu þykir rétt að stefndi greiði stefnanda helming af reikningi nr. 216, dags. 19. ágúst 2017, þ.e. 434.310 krónur.

            Stefnandi krefst þess einnig að stefndi greiði tvo aðra reikninga, sem stefndi telur sér ekki skylt að greiða. Annar reikningurinn er nr. 217, dags. 19. ágúst 2017, að fjárhæð 240.000 krónur auk virðisaukaskatts, samtals 297.600 krónur, vegna „viðbótarframkvæmda“, og hinn reikningurinn er nr. 231, dags. 17. september 2017, að fjárhæð 350.250 krónur, auk virðisaukaskatts, samtals 434.310 krónur, vegna „framlengingar á verkinu“. Í þessu sambandi verður að líta til þess að samkvæmt samningi aðila bar stefnanda m.a. að miðla upplýsingum milli verkkaupa og framkvæmdaaðila um breytingar, viðbætur og aukaverk. Þá var verktími stefnanda „áætlaður“ út viku 35 árið 2017. Þannig var gert ráð fyrir því í samningi aðila að stefnandi kæmi að samskiptum við framkvæmdaaðila um breytingar á verki, viðbætur og aukaverk og var ekki gert sérstaklega ráð fyrir því í samningnum að stefnanda bæri aukalega þóknun vegna slíkra „viðbótarverka“ eða ef verktími yrði eitthvað lengri. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup, og ÍST 30:2012, sem vísað var til í samningi aðila, bar stefnanda að tilkynna stefnda ef um viðbótarkostnað eða verk hjá stefnanda væri að ræða sem félli ekki undir samning aðila. Gegn mótmælum stefnda er með öllu ósannað að stefnandi hafi gert það. Þá hefur stefnandi ekki þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir stefnda skilað tímaskýrslum eða gert fullnægjandi grein fyrir í hverju þessi aukakostnaður felst þannig að réttlætanlegt sé að stefnandi fái greitt umfram samning aðila, en viðbótarframkvæmdir og framlenging á verktíma var óveruleg og rúmast innan þess sem samningur aðila gerði ráð fyrir. Er því fallist á með stefnda að honum beri ekki að greiða þessa tvo reikninga.

            Samkvæmt framansögðu ber stefnda að greiða stefnanda 434.310 krónur, en dráttarvextir skulu reiknast frá dómsuppsögu.

            Við ákvörðun málskostnaðar ber að líta til þess að stefnandi hefur unnið málið að nokkru og tapað því að nokkru. Að þessu virtu og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem er hæfilega ákveðinn 350.000 krónur.

            Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari, ásamt meðdómsmönnunum Ástríði Grímsdóttur héraðsdómara og            Jóni Ágústi Péturssyni,  byggingartæknifræðingi og húsasmíðameistara.

 

D ó m s o r ð:

            Stefndi, húsfélagið Breiðvangi 18, 20 og 22, greiði stefnanda, Framkvæmdum og ráðgjöf ehf., 434.310 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá dómsuppsögu til greiðsludags.

            Stefndi greiði stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.

 

Sandra Baldvinsdóttir

Ástríður Grímsdóttir

Jón Ágúst Pétursson