• Lykilorð:
  • Fangelsi
  • Umferðarlagabrot

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 26. mars 2019 í máli nr. S-41/2019:

Ákæruvaldið

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Sigurbirni Adam Baldvinssyni 

Mál þetta, sem þingfest var 25. mars 2019 og dómtekið sama dag, höfðaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum með ákæru 28. janúar 2019 á hendur Sigurbirni Adam Baldvinssyni, kt. 000000-0000, Víðigerði, 816 Ölfusi,

„fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, fimmtudaginn 29. mars 2018, ekið bifreiðinni [...] norður Njarðarbraut, Reykjanesbæ, sviptur ökuréttindum.

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins og boðaði ekki forföll, en í fyrirkalli sem var ásamt ákæru löglega birt honum 27. febrúar 2019, var tekið fram að yrði ekki sótt þing af hans hálfu mætti hann búast við því að fjarvist hans yrði metin til jafns við það að hann viðurkenndi að hafa framið það brot sem hann væri ákærður fyrir og að dómur yrði lagður á málið að honum fjarstöddum, sbr. 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Með vísan til ofanritaðs og gagna málsins að öðru leyti telur dómurinn þannig sannað að ákærði hafi framið það brot sem hann er sakaður um í ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

Ákærði er fæddur í [...] og á að baki nokkuð langan sakaferil sem nær allt til ársins 2003, en á þeim tíma hefur hann oftsinnis verið fundinn sekur um brot á umferðarlögum. Hinn 21. maí 2013 gekkst hann undir sátt hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu með greiðslu 60.000 króna sektar vegna sama brots og hann er nú ákærður fyrir. Með viðurlagaákvörðun í Héraðsdómi Reykjaness 28. september 2017 féllst hann einnig á greiðslu sektar að fjárhæð 100.000 krónur vegna sama brots.  Að teknu tilliti til þessa ákveðst refsing hans nú fangelsi í 30 daga.

Engan sakarkostnað hefur leitt af meðferð málsins.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

Ákærði, Sigurbjörn Adam Baldvinsson, sæti fangelsi í 30 daga.

Ingimundur Einarsson