• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness mánudaginn 3. desember 2018 í máli nr. S-346/2018:

 

Ákæruvaldið

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Jóni Þór Eymundssyni

(Sveinn Andri Sveinsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem var tekið til dóms 5. nóvember 2018, höfðaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum með ákæru 25. júní 2018 á hendur Jóni Þór Eymundssyni, kt. 000000-0000, óstaðsettum í hús, en með dvalarstað [...]:

,,fyrir umferðarlagabrot með því að hafa, miðvikudaginn 28. febrúar 2018, ekið bifreiðinni [...], sviptur ökuréttindum og undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði (29 ng/ml tetrahýdrókannabínól í blóði) og því ekki verið fær um að stjórna bifreiðinni örugglega, vestur Reykjanesbraut við Beykidal, Reykjanesbæ.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006, og 3. gr. laga nr. 24/2007 og 1. mgr. 48. gr. laga nr. 50/1987, allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar, sbr. 1. mgr. 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993, lög nr. 57/1997 og lög nr. 69/2007.“

Við fyrirtöku málsins 9. október 2018 var mál nr. S-423/2018 sameinað máli þessu, sbr. heimild í 1. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Málið höfðaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum með ákæru, útgefinni 24. september 2018:

,,fyrir umferðarlagabrot með því að hafa, föstudaginn 29. júní 2018, ekið bifreiðinni [...], sviptur ökuréttindum og undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði (6,7 ng/ml af tetrahýdrókannabínól og 210 ng/ml af amfetamíni í blóði) og því ekki verið fær um að stjórna bifreiðinni örugglega, norður Hringbraut inn á Hólmbergsbraut, Reykjanesbæ.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006, og 3. gr. laga nr. 24/2007 og 1. mgr. 48. gr. laga nr. 50/1987, allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar, sbr. 1. mgr. 101. gr. og 102. gr.  umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993, lög nr. 57/1997 og lög nr. 69/2007.“

Af hálfu ákærða er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá gerir verjandi ákærða kröfu um hæfilega þóknun sér til handa.

 

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið þau brot sem honum eru gefin að sök og var farið með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig í stuttu máli um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við framlögð sakargögn, að hann hafi gerst sekur um þau brot sem honum eru gefin að sök og eru þau réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákærum. Ákærði hefur því unnið sér til refsingar.

Ákærði er [...] og hefur margsinnis sætt refsingu vegna brota á umferðarlögum nr. 50/1987. Við ákvörðun refsingar í máli þessu verður litið til þess að með sektargerð lögreglustjóra 25. febrúar 2004 samþykkti ákærði greiðslu sektar og að sæta sviptingu ökuréttar í tólf mánuði vegna ölvunaraksturs og aksturs sviptur ökurétti. Með dómi 22. september 2004 var ákærði dæmdur til greiðslu sektar að fjárhæð 800.000 krónur og var gert að sæta sviptingu ökuréttar í fjögur ár og sex mánuði fyrir akstur undir áhrifum áfengis, akstur sviptur ökurétti og hraðakstur. Ákærði var dæmdur í 30 daga fangelsi með dómi 26. nóvember 2004 fyrir akstur sviptur ökurétti í október sama ár. Með dómi 12. október 2005 var ákærði dæmdur í 60 daga fangelsi fyrir akstur sviptur ökurétti og hraðakstur. Ákærði var dæmdur í 45 daga fangelsi, skilorðbundið til þriggja ára, fyrir fíkniefnalagabrot með dómi 12. apríl 2006. Með dómi 24. apríl 2006 var ákærði dæmdur í 90 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir þjófnaðarbrot. Ákærði var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi með dómi 15. desember 2006 fyrir akstur sviptur ökurétti og hraðakstur. Með dómi 15. október 2007 var ákærði dæmdur í sex mánaða fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt, fyrir akstur sviptur ökurétti, akstur undir áhrifum áfengis og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna auk nytjastuldar. Með dómnum voru áðurnefndir skilorðsdómar frá 12. apríl 2006 og 24. apríl 2006 dæmdir upp og ákærða gerð refsing í einu lagi samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði var dæmdur í fimm mánaða fangelsi og ævilöng ökuréttarsvipting hans var áréttuð með dómi 18. nóvember 2008 fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Með dómi 4. júlí 2012 var ákærði dæmdur í 60 daga fangelsi fyrir að aka bifreið sviptur ökurétti í mars sama ár. Ákærði var dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir akstur sviptur ökurétti með dómi 5. október 2012. Brotið framdi ákærði fyrir uppkvaðningu fyrrnefnds dóms frá 4. júlí 2012, og var ákærða því gerður hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði var dæmdur í sjö mánaða fangelsi og ævilöng ökuréttarsvipting hans var áréttuð með dómi 19. febrúar 2013 fyrir akstur sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Ákærða var veitt reynslulausn 2. ágúst 2014 í eitt ár á eftirstöðvum refsingar 150 daga samkvæmt fyrrnefndum dómum frá 4. júlí 2012, 5. október 2012 og 19. febrúar 2013.

Samkvæmt því, og að framangreindum sakaferli og brotum ákærða virtum, sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og með hliðsjón af skýlausri játningu ákærða þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði.

Með vísan til 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga er ævilöng ökuréttarsvipting ákærða áréttuð.

Samkvæmt 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar sem, samkvæmt framlögðum yfirlitum sækjanda um slíkan kostnað og með stoð í öðrum gögnum, nemur samtals 298.442 krónum. Þá greiði ákærði þóknun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar lögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 210.800 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

            Ákærði, Jón Þór Eymundsson, sæti fangelsi í 12 mánuði.

            Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

Ákærði greiði 509.242 krónur í sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar, 210.800 krónur.

 

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir