• Lykilorð:
  • Umferðarlagabrot
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness 30. nóvember 2018 í máli nr. S-405/2018:

Ákæruvaldið

(Pétur Hrafn Hafstein saksóknarfulltrúi)

gegn

A

(Ásta Björk Eiríksdóttir lögmaður)

 

 

Mál þetta er höfðað með tveimur ákærum héraðssaksóknara á hendur A, kt. 000000-0000, [...]. Fyrri ákæra er gefin út 6. september 2018 og er „fyrir eftirgreind hegningar-, umferðar- og lögreglulagabrot, framin um hádegisbil mánudaginn 25. júlí 2016 í Innri-Njarðvík, Reykjanesbæ:

Með því að hafa er ákærði ók bifreiðinni [...] með ólögráða son sinn, B, kt. 000000-0000, án öryggis- og verndarbúnaðar í framsæti bifreiðarinnar sem búin er uppblásanlegum öryggispúða fyrir framan sætið, ekki sinnt fyrirmælum lögreglu um að stöðva bifreiðina sem gefin voru til kynna með forgangsljósum og háljósum lögreglubifreiðarinnar, svo að eftirför lögreglu eftir bifreiðinni hófst, og ekið án nægilegrar tillitssemi og varúðar, án þess að gefa stefnuljós og án þess að miða ökuhraða við aðstæður og hraðatakmarkanir í þéttbýli, er vegir voru blautir vegna rigningar, sem hér greinir:

Ákærði ók bifreiðinni frá heimili sínu að [...] til suðurs, beygði til vinstri austur [...] þar sem ákærði jók hraðann töluvert og beygði því næst til vinstri norður [...] þar sem lögregla gaf ákærða merki um að stöðva bifreiðina án árangurs, sem fyrr greinir, en ók þess í stað á mikilli ferð eftir götunni í átt að [...] að gatnamótum [...] og [...] þar sem ákærði beygði til hægri, án þess að virða biðskyldu, en umferð var um gatnamótin í umrætt sinn og gangandi vegarendur nærri, en á þessum tímapunkti voru sírenur lögreglubifreiðarinnar virkjaðar og hljóðmerki gefin. Þá ók ákærði á miklum hraða austur [...], til hægri suður [...], til vinstri austur [...], án þess að virða biðskyldu, til hægri suður [...], til hægri norður [...], án þess að virða biðskyldu, til hægri austur [...], til vinstri norður [...] og þaðan þvert yfir bifreiðarstæðið við söluturninn [...], [...], til norðvesturs og aftur út á [...] til vesturs, án þess að hægja á ferð sinni á gatnamótunum,  þvert yfir [...] og upp á gangstétt hægra megin við akbraut, sem ákærði ók eftir að næstu gatnamótum við [...] þar sem hann sneri aftur út á akbrautina og ökumaður bifreiðar úr gagnstæðri átt vék til hliðar til að forðast árekstur. Ákærði hélt akstri sínum áfram á mikilli ferð vestur [...] þar sem lögregla reyndi að stöðva för hans með því að aka inn í vinstri hlið bifreiðar ákærða, rétt áður en komið var að gatnamótum [...] og [...], þar sem umferð var í umrætt sinn, og ákærði reyndi að beygja til vinstri suður [...] án árangurs en ók þess í stað upp á gangstétt og inn á grasblett aftan við strætóskýli sem þar stendur, yfir göngustíg og inn á bifreiðarstæðið við [...] þar sem ákærði ók eftir stæðinu til vesturs og aftur út á [...] til vesturs að [...] þar sem ákærði snarhemlaði svo að lögreglubifreiðin hafnaði aftan á bifreið hans. Ákærði hélt akstrinum áfram til vinstri inn [...], yfir gangstétt og inn á bifreiðastæðið við [...] þar sem hann ók í svigakstri suður bifreiðarstæðið, aftur yfir gangstétt og inn á [...] til suðurs, til vinstri inn [...] til austurs þar sem bifreiðinni var ekið á kant og svo til hægri suður [...] gegn akstursstefnu að heimili ákærða, [...], þar sem lögregla reyndi á ný að stöðva för hans með því að aka inn í hægri hlið bifreiðar ákærða sem beygði í sömu andrá til hægri í átt að [...] þannig að bifreiðarnar rákust harkalega saman og lögreglubifreiðin hafnaði á kyrrstæðri bifreið, [...], sem stóð í innkeyrslunni utan við heimili ákærða þar sem hann stöðvaði för sína í innkeyrslunni og akstri lauk.

Með akstrinum raskaði ákærði umferðaröryggi á alfaraleið og stofnaði á ófyrirleitinn hátt lífi og heilsu B, sem var farþegi í bifreið hans, í augljósan háska, svo og annarra vegfarenda, þar á meðal lögreglumanna sem reyndu að stöðva aksturinn.

Telst þetta varða við 1. mgr. 168. gr. og 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 5. gr. a., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr., 1. mgr. 25. gr., 2. mgr. 31. gr., 1. mgr. 36. gr., sbr. a., c., d. og h. liði 2. mgr. sömu greinar, 1. mgr. 37. gr. og 6. mgr., sbr. 2. og 3. mgr., 71. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og við 19. gr., sbr. 41. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.“

Síðari ákæra er gefin út 27. september 2018 og er „fyrir þjófnað, með því að hafa þriðjudaginn 22. mars 2016, stolið snyrtivörum úr verslun Lyfju að Krossmóum 4, Reykjanesbæ, nánar tiltekið RT Bold metal Xmas förðunarpenslasetti og Men Expert pure & matt andlitskremi, samtals að fjárhæð kr. 14.440,-. Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“ Ríkissaksóknari fól héraðssaksóknara meðferð málsins 12. september 2018. Málin voru sameinuð.

Ákærði kom fyrir dóm og játaði sök samkvæmt ákærum. Hann krefst vægustu refsingar sem lög leyfi.

Með játningu sinni, sem fær stoð í gögnum málsins, telst ákærði sannur að sök og hefur unnið sér til refsingar en háttsemi hans er rétt færð til refsiheimilda. Af sakaferli ákærða er þess að geta að hann var í október 2010 dæmdur í eins árs fangelsi fyrir brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga. Í september 2011 var hann dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir brot gegn 231., 1. mgr. 217. og 1. mgr. 244. gr. sömu laga. Í marz 2012 gekkst ákærði undir sátt sem fól í sér 130.000 króna sekt fyrir brot gegn 2. mgr. 37. gr. umferðarlaga og var jafnframt sviptur ökurétti í einn mánuð. Hinn 28. ágúst 2014 gekkst ákærði undir tvær sáttir vegna brots gegn 45. gr. a umferðarlaga, fólu þær í sér samtals 280.000 sekt og sviptingu ökuréttar í átján mánuði.

Brot ákærða samkvæmt fyrri ákæru eru alvarleg en ákærði lagði ungan son sinn í umtalsverða hættu auk þess sem hætta skapaðist fyrir lögregluþjóna og aðra vegfarendur.

Brot ákærða voru framin á árinu 2016 en ákæra var gefin út í september 2018.

Ákærði játar hreinskilnislega sök í málinu. Hann lýsti iðrun sinni fyrir dómi og fyrir liggur að það hefur hann einnig gert opinberlega. Hann hefur komið fram í fjölmiðlum og lýst erfiðleikum sínum vegna fíkniefnanotkunar og þannig reynt að verða öðrum til varnaðar. Hann lagðist inn til meðferðar á vegum SÁÁ fáum dögum eftir atvikið sem fjallað er um í fyrri ákæru. Hann hafði samband við brotaþola síðari ákæru, lýsti iðrun sinni og hefur greitt brotaþola verðmæti þess sem ákæran snýst um. Hann byggir á að líf sitt sé nú í mun betri skorðum en verið hafi á þeim tíma er atvik málsins urðu. Hann sé nú hættur allri fíkniefnanotkun og sé fjölskyldumaður í fullri vinnu. Í málinu liggur bréf vinnuveitanda hans þar sem borið er mikið lof á ákærða, bæði sem starfsmann og persónu. Er ljóst af bréfinu að ákærði er í miklum metum á vinnustað sínum.

Eins og áður segir var brot ákærða samkvæmt fyrri ákæru alvarlegt og olli umtalsverðri hættu, þótt engum hafi orðið meint af. Að mati dómsins hefur ákærði lagt sig mjög fram um að bæta fyrir brot sín og koma lífi sínu til betri vegar. Þegar á allt er horft verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í fjóra mánuði en rétt þykir að fullnustu hennar verði allri frestað og falli hún niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð. Óhjákvæmilegt er að svipta ákærða ökurétti og verður hann sviptur ökurétti í þrjá mánuði. Ákærða verður gert að greiða málsvarnarþóknun verjanda síns á rannsóknarstigi og fyrir dómi, Ástu Bjarkar Eiríksdóttur lögmanns, 337.280 krónur með virðisaukaskatti, 9.220 króna aksturskostnað verjandans og 34.917 króna annan sakarkostnað. Af hálfu ákæruvaldsins fór Pétur Hrafn Hafstein saksóknarfulltrúi með málið. Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

 

Ákærði, A, sæti fangelsi í fjóra mánuði. Fullnustu refsingarinnar skal frestað og niður skal hún falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940.

Ákærði er sviptur ökurétti í þrjá mánuði.

Ákærði greiði 337.280 króna þóknun verjanda síns, Ástu Bjarkar Eiríksdóttur lögmanns, 9.220 króna aksturskostnað verjandans og 34.917 króna annan sakarkostnað.

                                                     Þorsteinn Davíðsson