• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Ærumeiðingar

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness 2. október 2018 í máli nr. S-120/2018:

Ákæruvaldið

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Þórður Már Jónsson lögmaður)

 

Mál þetta er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, útgefinni 12. marz 2018, á hendur X, kt. 000000-0000, [...]

I.(008-2016-10371)

fyrir eftirgreind hegningarlagabrot sem hér greinir:

1.  Fyrir ólögmæta nauðung og líkamsárás, gagnvart B, kt. 000000-0000, fyrrverandi eiginkonu sinni með því að hafa, þann 6. ágúst 2016, ruðst inn á heimili hennar að [...], með ofbeldi tekið B hálstaki og ítrekað hrint, slegið, kýlt og sparkað í líkama hennar, þar á meðal í andlit og búk hennar.

Telst þetta varða við 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

2.  Fyrir líkamsárás gagnvart C, kt. 000000-0000, dóttur sinni með því að hafa, á sama tíma og sama stað, hrint henni á eldhúsinnréttingu og slegið hana utan undir með þeim afleiðingum að C þurfti að láta sauma nokkur spor í hnakkann og hljóðhimnan sprakk.

Telst þetta varða við og 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

3.  Fyrir stórfelldar ærumeiðingar, með því að hafa með þeirri háttsemi sem lýst er í ákæruliðum 1-2, ítrekað móðgað og smánað B og C.

Telst þetta varða við 233. gr. b. almennra hegningarlaga nr 19/1940.

 

II.(008-2017-16202)

4.  Fyrir líkamsárás gagnvart D, kt. 000000-0000, syni sínum með því að hafa, þann 4. nóvember 2017 að [...] í [...], hrint honum á sjónvarp og því hafi D hafi þurft að verja sig með því að halda í X og með þeim afleiðingum að þeir falla í gólfið þannig að D lendir með vinstri rasskinn á borvél er liggur á gólfinu með þeim afleiðingum að hann fær högg sem leiðir upp í vinstri mjóbak og niður í læri.

Telst þetta varða við og 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkröfur:

Af hálfu B, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni bætur að fjárhæð kr. 1.018.824 með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. ágúst 2016 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Verði brotaþola ekki skipaður réttargæslumaður gerir hann auk þess kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar vegna lögmannsaðstoðar brotaþola að skaðlausu að meðtöldum virðisaukaskatti, samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram á síðari stigum málsins eða samkvæmt mati dómsins.

Af hálfu C er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð kr. 506.500 ásamt vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 6. ágúst 2016 til þess dags er mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar, og dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 6. gr. vaxtalaga. Þá er gerð krafa til þess að réttargæslumanni verði ákveðin þóknun vegna réttargæslu skv. ákvörðun dómsins, sbr. 48. gr. laga nr. 88/2008.“

Fyrir dómi játaði ákærði sök samkvæmt ákæru. Með játningu sinni, sem fær stoð í gögnum málsins og ekki þykir ástæða til að draga í efa, er ákærði sannur að sök og hefur unnið sér til refsingar. Háttsemi hans samkvæmt 1. og 2. tl. I. ákæruliðar og II. ákærulið varðar við 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga. Brot ákærða samkvæmt ákærunni beinast að fyrrverandi eiginkonu hans og börnum hans og er það að sjálfsögðu alvarlegt. Þá verður að horfa til þess að brotin, sem fjallað er um í ákærunni, verða ekki í einum atburði heldur tveimur. Brotin í fyrri ákærulið voru framin á sama stað og tíma, en brotið, sem fjallað er um í síðari ákærulið, er framið rúmu ári síðar. Á hinn bóginn verður að horfa til þess að ákærði játar sök skýlaust. Fram kom hjá ákærða fyrir dómi að hann hefði verið í miklu andlegu ójafnvægi en eftir það þann atburð, sem fjallað er um í II. ákærulið, hafi hann hætt áfengisdrykkju. Væru hann og brotaþolar búnir að sættast og ættu nú gott samband.  Af sakaferli ákærða skal þess getið að í febrúar 2017 gekkst hann undir sátt vegna umferðarlagabrots og fól sáttin í sér greiðslu 180.000 króna sektar og sviptingu ökuréttar í tvö ár. Brot sín nú, samkvæmt fyrri ákærulið, framdi ákærði í ágúst 2016, og verður honum vegna þeirra nú ákveðinn hegningarauki. Verður refsing ákærða nú ákveðin fangelsi í átta mánuði en fullnustu sex mánaða af refsingunni frestað skilorðsbundið og falli hún niður að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Í málinu eru einkaréttarkröfur tveggja brotaþola. Ákærði hefur framið ólögmæta meingerð gegn brotaþolunum og ber þar bótaábyrgð. Verður ákærða gert að greiða hvorum bótakrefjanda 500.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir, en ekki liggja fyrir í málinu næg gögn um útlagðan kostnað brotaþolanna. Bótakröfur voru kynntar 22. maí 2017. Ákærða verður gert að greiða málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Þórðar Más Jónssonar lögmanns, og þóknun réttargæzlumanns brotaþola, Úlfars Guðmundssonar lögmanns, 210.800 krónur til hvors lögmanns með virðisaukaskatti. Loks verður honum greitt að greiða annan sakarkostnað sem samkvæmt yfirliti lögreglustjóra nemur 28.000 krónum.

Af hálfu ákæruvaldsins fór Alda Hrönn Jóhannsdóttir saksóknarfulltrúi með málið. Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

 

Ákærði, X, sæti fangelsi í átta mánuði. Fullnustu sex mánaða af refsingunni skal frestað og niður falli hún að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði B 500.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. ágúst 2016 til 22. júní 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði C 500.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. ágúst 2016 til 22. júní 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Þórðar Más Jónssonar lögmanns, þóknun réttargæzlumanns brotaþola, Úlfars Guðmundssonar lögmanns, 210.800 krónur til hvors lögmanns og 28.000 króna annan sakarkostnað.

 

Þorsteinn Davíðsson