• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Umferðarlagabrot

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 28. mars 2019 í máli nr. S-624/2018:

 

Ákæruvaldið

(Sonja Hjördís Berndsen saksóknarfulltrúi)

gegn

Hjalta Guðmundssyni

(Þorgils Þorgilsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem var tekið til dóms 1. mars 2019, höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með ákæru 4. desember 2018, á hendur Hjalta Guðmundssyni, kt. 000000-0000, [...]; ,,fyrir eftirtalin umferðarlagabrot, með því að hafa:

I.

Þriðjudaginn 12. september 2017 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti um gatnamót Safamýrar og Háaleitisbrautar í Reykjavík.

II.

Föstudaginn 27. október 2017 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti um Hverfisgötu við Þjóðleikhúsið í Reykjavík.

III.

Fimmtudaginn 16. nóvember 2017 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti um Reykjanesbraut við Hamraborg í Kópavogi.

IV.

Mánudaginn 24. september 2018 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti norður Selásbraut við Vindás í Reykjavík.

Telst háttsemin í öllum tilfellum varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Af hálfu ákærða er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsing verði skilorðsbundin. Þá gerir verjandi ákærða kröfu um hæfilega þóknun sér til handa.

 

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið þau brot sem honum eru gefin að sök og var farið með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig í stuttu máli um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við framlögð sakargögn, að hann hafi gerst sekur um þau brot sem honum eru gefin að sök og eru þau réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákærum. Ákærði hefur því unnið sér til refsingar.

Ákærði er fæddur [...] og á samkvæmt framlögðu sakavottorði að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 2016. Við ákvörðun refsingar í máli þessu hefur eftirfarandi áhrif: Með sektargerð lögreglustjóra 4. nóvember 2016 samþykkti ákærði greiðslu sektar og að sæta ökuréttarsviptingu í tvö ár fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, vörslur fíkniefna og akstur sviptur ökurétti. Með dómi 16. júní 2017 var ákærði dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og fyrir að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti í sex skipti. Ákærði framdi fjóra sviptingarakstra af sex áður en hann gekkst undir áðurnefnda sektargerð frá 4. nóvember 2016 og var honum því gerður hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga hvað þau brot varðaði. Ákærði var dæmdur í fimm mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, og til greiðslu sektar sektar, með dómi 6. apríl 2018 fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, og fyrir að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti í fjögur skipti. Með dómnum var áðurnefndur skilorðsdómur frá 16. júní 2017 tekinn upp og dæmdur með samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga. Brot þau sem ákærði var sakfelldur fyrir í málinu voru öll, fyrir utan einn akstur sviptur ökurétti 14. júlí 2017, framin fyrir uppkvaðningu áðurnefnds skilorðsdóms frá 16. júní 2017.

Brot þau sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir í máli þessu samkvæmt liðum I-III  í ákæru voru framin fyrir uppkvaðningu fyrrnefnds dóms frá 6. apríl 2018 og verður ákærða gerður hegningarauki hvað þau brot varðar samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá verður áðurnefndur skilorðsdómur frá 6. apríl 2018 nú tekinn upp og ákærða dæmd refsing í einu lagi samkvæmt 60. gr., sbr. 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt því sem að framan greinir um sakaferil ákærða og að brotum hans virtum, sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði. Eftir atvikum þykir mega fresta fullnustu 5 mánaða af refsingunni og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærða gert að greiða sakarkostnað málsins, sem er þóknun skipaðs verjanda hans, Þorgils Þorgilssonar lögmanns, sem þykir með hliðsjón af umfangi málsins hæfilega ákveðin 126.480 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

Ákærði, Hjalti Guðmundsson, sæti fangelsi í átta mánuði, en fresta skal fullnustu fimm mánaða refsingarinnar og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá dómsuppsögu haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Ákærði greiði 126.480 krónur í sakarkostnað, sem er þóknun skipaðs verjanda hans, Þorgils Þorgilssonar lögmanns.

 

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir