• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Þjófnaður

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 22. janúar 2019 í máli nr. S-446/2018:

 

Ákæruvaldið

(Guðmundur Þ. Steinþórsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Almari Erni Ívarssyni

 

            Mál þetta, sem var tekið til dóms 9. janúar 2019, höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með ákæru 25. september 2018 á hendur Almari Erni Ívarssyni, kt. 000000-0000, [...]; ,,fyrir þjófnaðarbrot, með því að hafa:

  1. Föstudaginn 24. nóvember 2017, í verslun Elko í Lindum, Skógarlind 2, Kópavogi, stolið Piooner bíltæki að andvirði kr. 34.995,- sem ákærði tók úr pakkningum, faldi tækið innanklæða og gekk með út úr versluninni.
  2. Miðvikudaginn 27. desember 2017, í verslun Toys´r´us, Smáratorgi 3, stolið leikfangadróna að andvirði kr. 19.999,- sem ákærði faldi innanklæða og gekk með út úr versluninni.
  3. Þriðjudaginn 27. febrúar 2018, í verslun Hagkaups í Kringlunni, Reykjavík, stolið tveimur ilmvötnum að andvirði kr. 14.798,- sem ákærði setti í úlpuvasa og gekk með út úr versluninni.

Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði krefst vægustu refsingar sem lög leyfa.

 

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið þau brot sem honum eru gefin að sök og var farið með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig í stuttu máli um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við framlögð sakargögn, að hann hafi gerst sekur um þau brot sem honum eru gefin að sök og eru þau réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Ákærði hefur því unnið sér til refsingar.

Ákærði er fæddur [...] og hefur samkvæmt framlögðu sakavottorði í alls níu skipti sætt refsingu vegna þjófnaðarbrota frá árinu 2010. Þar af var ákærða í þrígang gerð skilorðsbundin refsing fyrir þjófnaðarbrot frá árinu 2012 og í öllum tilvikum rauf ákærði skilorð með sams konar brotum.

Samkvæmt framansögðu um sakaferil ákærða og að brotum hans virtum, sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga. Ekki eru efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Engan sakarkostnað leiddi af rannsókn málsins eða meðferð þess fyrir dómi.

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

            Ákærði, Almar Örn Ívarsson, sæti fangelsi í 60 daga.

 

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir