• Lykilorð:
  • Miskabætur
  • Rán
  • Skaðabætur
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness 10. apríl 2019 í máli nr. S-628/2018:

Ákæruvaldið

(Auðbjörg Lísa Gústafsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Bartosz Wilk

(Brynjólfur Eyvindsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var þann 5. apríl sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 4. desember 2018 á hendur:

 

                        „Bartosz Wilk, kt. 000000-0000,

                        [Hafnarfirði],

 

fyrir eftirgreind hegningarlagabrot:

 

I.

Þjófnaði með því að hafa:

 

  1. Mánudaginn 23. október 2017 í verslun ÁTVR, Dalvegi 2, Kópavogi, stolið einni flösku af Martini Bianco, að verðmæti kr. 1.599.

 

2.      Aðfaranótt sunnudagsins 15. apríl 2018 í félagi við nafngreindan aðila, brotist inn í skrifstofur og lager verslunar Tæknibæjar að [...], með því að spenna upp glugga á annarri hæð, farið þar inn og stolið þaðan 7 Lenovo fartölvum, samtals að söluverðmæti kr. 684.570.

Telst brot þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

II.

Rán í félagi við nafngreindan aðila, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 14. apríl 2018 í undirgöngum við Tjarnarvelli á móts við Bónus í Hafnarfirði, hótað A með því að slá hann í andlitið með krepptum hnefa og leggja skrúfjárn að hálsi hans, tekið af honum Samsung S-7 síma, Casio armbandsúr og veski sem innihélt ýmis verðmæti og neytt hann til að gefa upp pinnúmer símans og öryggisnúmer debetkortsins og í kjölfarið kl. 6:48 stolið  kr. 3.175 úr hraðbanka Íslandsbanka við Strandgötu 8-10 í Hafnarfirði, með heimildarlausri notkun debetkorts A og öryggisnúmeri reikningsins, sem ákærði hafði komist yfir svo sem rakið er.

Teljast brot þessi varða við 252. gr. og 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

III.

Tilraun til fjársvika með því að hafa, föstudaginn 6. apríl 2018 í félagi við nafngreindan aðila í verslun Byko, Breidd, [...], tekið saman ýmis verkfæri í versluninni að söluandvirði kr. 191.900 og gert tilraun til að fá vörurnar reiknisfærðar á viðskiptareikning Bortækni ehf. án þess að hafa til þess heimild en starfsfólk verslunarinnar bar kennsl á mennina vegna fyrri afskipta og neituðu þeim um viðskiptin.

Telst brot þetta varða við 248. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa:

Þá gerir Erla Skúladóttir, hdl., f.h. Áfengis-/tóbaksverslunar ríkisins, kt. 000000-0000, vegna ákæruliðar I.1, kröfu um að ákærði verði dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð kr. 1.599, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð frá 23. október 2017 til 1. desember 2017. Eftir það er krafist dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga til greiðsludags. Að auki er krafist lögmannskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðar- reikningi, sem áskilinn er réttur til að leggja fram síðar.

Vegna ákæruliðar II. Þess er krafist að sakborningur, greiði brotaþola, kr. 868.850, auk vaxta, samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 14. apríl, þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.“

 

            Í þinghaldi þann 5. apríl sl. játaði ákærði skýlaust öll framangreind brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum málsgögnum að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og brotin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

            Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa. Þá var af hálfu ákærða fallist á framangreindar bótakröfur í málinu, utan þess að krafist var lækkunar á miskabótakröfu vegna ákæruliðar nr. II, þar sem ákærði hefði sjálfur ekki beinlínis gengið í skrokk á brotaþola, heldur samverkamaður hans, sbr. dómur Héraðsdóms Reykjaness í máli S-385/2018 frá 9. nóvember 2018 og gögn málsins þar að lútandi.

Í ljósi framangreinds var farið með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga, auk þess sem Arnar Vilhjálmur Arnarsson lögmaður færði einnig fram rök fyrir bótakröfum brotaþola A ákærða, sbr. ákæruliður II.

            Ákærði er fæddur í [...]. Samkvæmt framlögðu sakarvottorði, dags. 28. nóvember 2018, þá var ákærði þann 29. mars 2017 dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í 60 daga fangelsi skilorðsbundið til tveggja ára fyrir brot gegn 244. gr. hgl., auk þar tilgreindra brota gegn vopnalögum og umferðarlögum. Liggur því fyrir að ákærði hefur nú með framangreindum brotum sínum nú rofið skilorð samkvæmt þeim dómi og verður sá því dæmdur upp í þessu máli, sbr. 57., 60. og 77. gr. alm. hgl. Hins vegar verður ekki séð af fyrirliggjandi sakarvottorði að ákærði eigi frekari brotaferil að baki.

            Með hliðsjón af öllu hér framansögðu um brot og sakarferil ákærða, sem og með hliðsjón af 2. mgr. 70. gr. alm. hgl., sbr. dómur í máli samverkamanns hans í áðurnefndu máli S-385/2018 frá 9. nóvember 2018, þá þykir hæfileg refsing ákærða nú vera ákveðin fangelsi í 8 mánuði, en fresta skal þó fullnustu refsingar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Hvað varðar einkaréttarkröfur sem hafðar eru uppi í málinu þá hefur ákærði fallist á bótakröfu ÁTVR, vegna ákæruliðar I.1, og verður hann því dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð kr. 1.599, auk vaxta og dráttarvaxta er þar greinir. Þar sem umræddri kröfu hefur alfarið verið haldið til haga af fulltrúa ákæruvalds í málinu þá þykja ekki efni til þess að dæma hér sérstakan málskostnað vegna þessa kröfuliðar.

            Enn fremur hefur ákærði hér fyrir dómi gengist við ábyrgð sinni til þess að bæta tilgreint fjártjón sem hann og samverkamaður hans urðu valdir að gagnvart brotaþola, A, sbr. framangreind einkaréttarkrafa tengd ákærulið II. En samkvæmt sundurliðun er þar um að ræða munatjón, alls að fjárhæð 168.850 krónur, sem ákærði hefur hér gengist við því að bera ábyrgð á gagnvart brotaþolanum.

Hvað varðar síðan miskabótakröfu sama brotaþola, að fjárhæð 700.000 krónur, þá liggja hér ekki fyrir ótvíræð gögn í málinu um ætlaðan miska hans með tilliti til afleiðinga brotsins. Verður því hér að meta miska brotaþolans að álitum með hliðsjón af því sem þó liggur fyrir um að atlagan sem ákærði tók þátt í gagnvart brotaþola hafi ótvírætt falið í sér ólögmæta meingerð og verið til þess fallin að valda brotaþola verulegri vanlíðan. Þykja miskabætur sem ákærða verður gert að greiða til brotaþolans með hliðsjón af framansögðu vera hæfilega ákveðnar 300.000 krónur.

Nema því dæmdar bætur til brotaþola A 468.850 krónum.

Auk framangreinds, þá verður einnig fallist á kröfur brotaþola um viðmið vaxta og dráttarvaxta sem í ákæru greinir, enda hefur þeim ekki verið sérstaklega andmælt.

Auk framangreinds verður ákærða jafnframt gert að greiða greiða málsvarnar- þóknun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar lögmanns, 150.000 krónur sem og 44.900 krónur í annan sakarkostnað. Þá verður ákærða hér einnig gert að greiða málskostnað brotaþola, A, að kröfu lögmanns hans, sem þykir hér vera hæfilega ákveðinn sem 200.000 krónur, allt að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti mál þetta Auðbjörg Lísa Gústafsdóttir aðstoðarsaksóknari.

            Pétur Dam Leifsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                            D ó m s o r ð :

            Ákærði, Bartosz Wilk, sæti fangelsi í 8 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærði greiði brotaþola, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, 1.599 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð frá 23. október 2017 til 1. desember 2017, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga til greiðsludags.

            Ákærði greiði brotaþola, A, 468.850 krónur, auk vaxta, samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 14. apríl 2018 til 3. mars 2019, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

            Ákærði greiði brotaþola, A, 200.000 krónur í málskostnað.

            Ákærði greiði enn fremur málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar lögmanns, 150.000 krónur, sem og 44.900 krónur í annan sakarkostnað.

 

 

                                                            Pétur Dam Leifsson