• Lykilorð:
  • Nauðgun

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness 4. janúar 2019 í máli nr. S-69/2018:

Ákæruvaldið

(Fanney Björk Frostadóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 9. nóvember 2018, er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 2. febrúar 2018, á hendur X, kt. 000000-0000, [...], „fyrir nauðgun, með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 7. ágúst 2016, að [...], þar sem B lá sofandi í hjónaherbergi, stungið fingrum inn í leggöng hennar en ákærði notfærði sér að stúlkan var sofandi og gat þannig ekki spornað við verknaðinum. Ákærði lét ekki af háttseminni fyrr en hann varð þess áskynja að B var vöknuð og fór þá inn annað svefnherbergi í húsnæðinu þar sem lögregla handtók ákærða skömmu síðar.

Teljast brot ákærða varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu E kt. 000000-0000 fyrir hönd ólögráða dóttur hans, B kt. 000000-0000, er gerð krafa um að ákærði verði dæmdur til að greiða B miskabætur að fjárhæð 1.500.000 kr. auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 7. ágúst 2016 og þar til mánuður er liðinn frá birtingardegi bótakröfunnar, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Gerð er krafa um að dráttarvextir leggist við höfuðstól miskabóta á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001.“

Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Til vara krefst hann vægustu refsingar og að fullnustu hennar verði frestað skilorðsbundið. Hann krefst þess að bótakröfu verði vísað frá en hún ella lækkuð. [...].

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu voru lögregluþjónar kallaðir út klukkan 03:53 hinn 7. ágúst 2016 vegna hugsanlegs kynferðisbrots sem framið hefði verið á fimmtán ára stúlku, B, brotaþola í málinu. Samkvæmt tilkynningu væri eldri bróðir vinkonu brotaþola, C, gerandinn en hvorki nafn hans né brotavettvangur hefðu komið fram í upphaflegri tilkynningu. Lögregla hafði samband við brotaþola og fékk hjá henni upplýsingar um brotavettvang, sem væri [...] og fór lögregla þegar þangað. Samkvæmt frumskýrslunni tók brotaþoli á móti lögreglu í dyrunum og sagði svo frá að þær C hefðu verið sofandi í rúmi og brotaþoli svo vaknað við að eldri bróðir C væri að „putta“ brotaþola. Er haft eftir brotaþola að hún þekki manninn ekkert. Í framhaldi af þessu hafi brotaþoli farið út í lögreglubifreið en rannsóknarlögregluþjónn verið kallaður út. Inni í íbúðinni hafi C bent lögreglu „á brotavettvang, svefnherbergi í norðausturherbergi íbúðarinnar og herbergi, sem er strax á hægri hönd þegar komið er inn í íbúðina, þar sem hún sagði X bróður sinn [ákærða í máli þessu] vera.“

Í frumskýrslunni, sem G lögregluþjónn ritar undir, segir næst: „Ég opnaði hurðina að herberginu og voru ljósin slökkt þar inni. Ég kveikti ljósin og sá þá [ákærða] liggjandi í rúminu með sæng yfir sér. [Ákærði] var aðeins klæddur í nærbuxur undir sænginni. Ég ávarpaði  [ákærða] og kynnti [honum] þá að hann væri handtekinn vegna gruns um kynferðisbrot gagnvart [brotaþola]. [Ákærða voru kynnt réttindi handtekins manns.] [Ákærði], sem virtist nokkuð ölvaður, sagðist ekkert kannast við að hafa gerst brotlegur kynferðislega gagnvart neinni stelpu og ekki skilja hvað væri í gangi. Sagðist hann hafa verið í brúðkaupi um kvöldið og síðan hafa farið á [...] [...] áður en hann hafi farið þarna að [...] þar sem móðir hans býr til að gista. Sagðist hann hafa komið þangað og farið og náð í sæng inn í svefnherbergið og síðan farið inn í herbergið þar sem hann gisti til að sofa. Ég bað [ákærða] um að hafa hendur sjáanlegar og síðan voru bréfpokar settir utan um hendur [hans].“ Þá segir í frumskýrslunni að brotaþoli hafi verið flutt á neyðarmóttöku Landspítalans en ákærði á lögreglustöð þar sem tekið hafi verið úr honum blóð og hann gefið þvagsýni. Hann hafi blásið í alkóhólmæli og niðurstaða mælingarinnar orðið 0,58 mg/l. Tekið hafi verið fíkniefnapróf og niðurstaða þess orðið neikvæð. Ákærði hafi næst verið færður á lögreglustöðina á Hverfisgötu þar sem lögreglufulltrúi í tæknideild hafi tekið stroksýni af höndum hans og samanburðarsýni úr munni. Hafi hann því næst verið fluttur að nýju [...] í fangaklefa þar sem læknir hafi tekið stroksýni af kynfærum hans.

Samkvæmt skýrslu rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, dags. 18. ágúst 2016, um alkóhólákvörðun í sýnum úr ákærða, var áfengismagn í blóði 1,36‰ en 1,84‰ í þvagi.

Í málinu liggur endurrit af samtali brotaþola og starfsmanns Neyðarlínunnar umrædda nótt. Samkvæmt því heilsar brotaþoli og segir svo, eftir að henni hefur verið heilsað á móti: „Ég vaknaði við bróður vinkonu minnar upp í rúminu hjá okkur og að putta mig. Og ég er ógeðslega hrædd.“ Eftir þetta er henni gefið samband við lögreglu. Segir hún lögreglunni það sama. Er hún í samtalinu meðal annars spurð hvort hún sé komin út úr húsinu og svarar: „Nei, ég þori ekki fram. Hann var allsber frammi og kom inn og kveikti ljósið því hann var ekki viss um hvort ég væri vakandi eða ekki.“

Með bréfi til M sálfræðings, dags. 29. ágúst 2016, fól lögregla honum að framkvæma sálfræðimat á ákærða. Skyldi sálfræðingurinn kanna „sálrænt heilbrigðisástand [ákærða], hugarástand, siðferðisvitund og siðferðisviðhorf, viðhorf til kvenna og almenna kynhegðun, þar með talið hvort [ákærði hefði] kynferðislegar hvatir til barna eða stúlkna á unglingsaldri.“ Var þetta gert með samþykki ákærða.

Í niðurstöðum skýrslu sálfræðingsins, dags. 30. september 2016, segir meðal annars: „Varðandi geðheilsu þá greinist [ákærði] með [...] Þá er hann greindur með ADHD en þau einkenni virðast ekki verulega hamlandi í dag og ljóst er að lyfjameðferð er að bera árangur. Að öðru leyti koma ekki fram geðræn vandamál. [Ákærði] virðist ágætlega aðlagaður að samfélaginu, hann er virkur og stundar íþróttir og vinnu. Engin merki eru um andfélagsleg viðhorf og ekki er saga um andfélagslega hegðun eða alvarlegan hegðunarvanda í æsku. Ekki koma fram neinar vísbendingar um neikvæð eða óeðlileg viðhorf til kvenna og hann neitar kynferðislegum hvötum til ungra stúlkna. Hann lýsir einnig í raun venjulegri kynhegðun í gegnum tíðina og var m.a. í margra ára sambandi.“

Með bréfi til L sálfræðings, dags. 6. október 2016, óskaði lögregla eftir að hún kannaði „sálrænt heilbrigðisástand [brotaþola], þroska hennar, hugarástand og trúverðugleika, sálrænar afleiðingar meints brots, líðan í kjölfar meints brots og framtíðarhorfur.“ Var þetta gert með samþykki lögráðamanns brotaþola. Í niðurstöðum L, dags. 21. október 2016, segir að samkvæmt gögnum hafi brotaþoli verið „greind með ADHD og Mótþróaþrjóskuröskun.“ Hún virðist hafa glímt við kvíða og depurð um lengri tíma. [...] Þá segir meðal annars: „Fann [brotaþoli] fyrir ótta er hún vaknaði við það að maður var að snerta kynfæri hennar. Kvennaskoðun í kjölfarið var henni erfið og hefur hún átt erfitt með að fara í slíkar skoðanir eftir að meint brot átti sér stað. Sjálfsmynd hennar virtist hafa beðið hnekki og fannst [brotaþola] hún vera ógeðsleg og ekki geta gert neitt rétt. Þetta eru þekkt viðbrögð hjá þolendum kynferðisbrota.“ Niðurstöður sjálfsmatskvarða bendi til að brotaþoli glími við alvarlega geðlægð, miðlungs alvarlegan kvíða og verulega streitu. „Þjónustuþörf hennar [sé] frá miðlungs upp í alvarlega þjónustuþörf sem [bendi] til verulegra sálrænna erfiðleika.“ Viðtöl og niðurstöður sjálfsmatskvarða hafi sýnt að brotaþoli glímdi við fjölmörg önnur einkenni sem þekkt séu meðal þolenda kynferðisbrota. „Í kjölfar meints kynferðisbrots hafa tilfinningar [brotaþola] verið óstöðugar. Suma daga á hún erfitt með að finna fyrir tilfinningum og aðra daga er hún mjög viðkvæm, kvíðin og döpur. Í fyrstu var hún ákveðin í að láta þetta ekki hafa áhrif á sig og skipulagði tíma sinn á þann veg að hún hefði nóg að gera og gæti því ekki hugsað um það sem gerðist. Kvíði sem [brotaþoli] hafði glímt við um hríð, jókst verulega eftir meint brot ásamt því að hún glímdi við depurð. Fékk hún ítrekaðar martraðir sem tengdust því kynferðisbroti sem hún kvaðst hafa orðið fyrir. Því er ljóst að það kynferðisbrot sem [brotaþoli] kveðst hafa orðið fyrir hefur haft veruleg áhrif á sálræna líðan hennar og getu til að taka þátt í daglegu lífi.“

Brotaþoli gekkst undir skoðun á neyðarmóttöku umrædda nótt. Í skýrslu K læknis, sem annaðist skoðunina, segir: „Ung stúlka sem var í heimsókn hjá vinkonu sinni [...] og fór í háttinn um 0200, en vaknar við ónot í vagina og að bróðir vinkonunnar ca. 30 ára sem hafði verið í brúðkaupsveislu er með fingur uppi í leggöngum hennar. Hann hættir og fer þegar hún rumskar við og fer inn til sín, en kemur aftur nakinn í gættina á herbergi hennar nær í sæng og kveikir ljósið eins og til að gá hvort hún sofi, og slekkur og fer inn til sín. Henni var verulega brugðið og hringdi strax í lögregluna. Hafði lent áður í því í [...] að drengur hafði sett fingur í leggöng hennar en ekki kært þá og vissi því strax að hún myndi strax kæra þetta. Við skoðun er hún skýr og yfirveguð en var verulega brugðið við þetta. Ekki finnast neinir ytri áverkar né áverkar við leggöng eða barma, en tekin eru lífsýni frá ytri og innri börmum, frá húð við sníp og barma ofan hans. Og frá leggangsopi fremst. [...] Hún er í fylgd stjúpmóður sinnar [...]. Fer heim með stjúpmóður.“

Í móttökuskýrslu hjúkrunarfræðingsins J segir meðal annars: „Gisti hjá vinkonu. Fór að sofa um 02:00 í sama rúmi og vinkona hennar. Vaknaði um 04:00 við óþægindi og áttaði sig á að hann var með fingur í leggöngum hennar. Þá kipptist hún til og hann tók fingurna út og labbaði hratt fram. Að sögn brotaþola kom hann svo nokkrum mínútum síðar, og stóð allsnakinn í dyragættinni, fylgdist með henni, kveikti og slökkti ljós. Sá að hún var vakandi, fór inn á bað og svo inn til sín. Þá hringdi brotaþoli á lögreglu sem ók henni á [neyðarmóttöku].“ Þá segir: „Brotaþoli gefur skýra og góða frásögn en segir að hún hafi verið í sjokki eftir atburðinn og varð líka hrædd um að hann kæmi aftur og gerði eitthvað meira. Er ekki með neina áverka. Teknar nærbuxur og strok frá kynfærum. Afþakkar sálfræðiþjónustu, en fær upplýsingar um hana og veit að hún getur skipt um skoðun.“ Loks segir í skýrslunni: „Engin áfengis, eða vímuefnaáhrif sjáanleg. Engin neysla að sögn brotaþola.“

Í skýrslunni metur hjúkrunarfræðingurinn andlegt og líkamlegt ástand brotaþola við komu með því að merkja í þar til gerða reiti. Er þar merkt við að brotaþoli hafi verið „í tilfinningalegu jafnvægi“, „yfirveguð“ og „þreytt“, en jafnframt merkt við að hún hafi ekki verið meðal annars „í losti“, „dofin“, „fjarræn“ og „eirðarlaus“. Í samantekt hjúkrunarfræðingsins segir: „Engir áverkar og er í ágætu jafnvægi. Er brugðið, en getur gefið góða sögu. Góð samvinna í skoðun.“ Loks er getið um lyf sem brotaþoli taki en hún sé „með þunglyndi, kvíða, ADHD og mótþróaþrjóskuröskun.“

Undir rannsókn málsins voru sýni send til DNA greiningar hjá sænskri rannsóknarstofu. Var þar um að ræða nærbuxur brotaþola, sýni sem tekin höfðu verið úr kynfærum brotaþola við rannsókn hjá neyðarmóttöku og stroksýni af báðum höndum ákærða. Með fylgdu til samanburðar sýni frá þeim báðum, ákærða og brotaþola. Í skýrslu I, sérfræðings hjá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, dags. 14. nóvember 2016, segir að sýnin af höndum ákærða hafi haft sama DNA snið og að það hafi verið eins og hjá ákærða sjálfum. Sýni úr buxum brotaþola hafi haft sama DNA snið og hún. Í sýnum frá kynfærum brotaþola hafi engar sáðfrumur verið og ekki annað DNA en samskonar og hennar sjálfrar.

Fyrir liggur í málinu upptaka úr búkmyndavél lögregluþjónsins G frá handtöku ákærða og samskiptum þeirra í framhaldi af henni. Verður vikið að upptökunni í niðurstöðukafla dómsins.

Skýrslur fyrir dómi

Ákærði sagðist hafa byrjað daginn á að fara [...] að leika knattspyrnu. Eftir leikinn, um miðjan daginn, hefði hann ekið [...] þar sem sér hefði verið boðið í brúðkaup. Móðir ákærða ætti heima [...] og hefði hann verið búinn að þiggja boð hennar um gistingu um nóttina. Sjálf yrði móðirin í útilegu um nóttina og skyldi ákærði sofa í hennar rúmi. Í íbúðinni yrði einnig systir ákærða, á sextánda ári, er þar ætti heima. Eftir brúðkaupið, um tvöleytið um nóttina, hefði ákærði farið á bar og verið þar til þrjú eða hálf fjögur og haldið þar áfram að drekka. Hefði hann þá verið orðinn „vel ölvaður“ og hefði þá gengið heim til móður sinnar. Þar hefði hann farið rakleitt inn í herbergi móður sinnar og þá tekið eftir að þar svaf systir hans „og einhver önnur manneskja“. Ákærði hefði spurt systur sína hvort hún væri vakandi en hún neitað svo hann hefði ekki viljað trufla hana frekar og því farið fram og ætlað að sofa í herbergi hennar. Rúm hennar hefði þá verið fullt af „fötum og dóti og einhverju drasli“ og ákærði því farið í næsta herbergi, herbergi yngri bróður síns, og þar verið autt rúm, hvorki sæng né koddi. Ákærði hefði þá farið í herbergi fósturbróður síns og þar verið sama saga. Móðir ákærða hefði greinilega tekið sængurnar og koddana með sér í útileguna. Ákærði hefði þá farið að nýju í herbergi móður sinnar og þá tekið eftir sæng við rúmgaflinn. Ákærði hefði þá setzt á rúmið, orðinn mjög þreyttur og ölvaður, og í staðinn fyrir að teygja sig eftir sænginni hefði hann lagzt í rúmið, nánar til tekið velt sér þar á magann. Hefði hann þá fundið að hægri hönd sín færi „utan í manneskju“ og hefði dregið höndina til baka. Hann hefði ekki orðið var við hvort manneskjan vaknaði. Ákærði hefði tekið sængina og gengið með hana inn í herbergi fósturbróður síns og ákveðið að sofa þar. Þá hefði sig vantað kodda og því farið aftur inn í herbergi móður sinnar til að athuga hvort þar væri laus koddi. Hann hefði kveikt ljós en þá séð að „manneskjan sem lá síðan við hliðina á systur [ákærða] rumskaði í rúminu við það að ljósið kviknaði“ og hefði ákærði því strax slökkt. Hann hefði þá farið aftur og reynt að finna sér eitthvað annað og loks fundið einhvern púða og farið í rúm fósturbróður síns. Þangað hefði systir sín svo komið og spurt hvað hann hefði verið að gera í herbergi móður þeirra og ákærði hefði svarað að þar hefði hann verið að leita að sæng og kodda. Hún hefði sagt að í herbergi þeirra væri koddi og hefði ákærði haldið að hún kæmi með koddann en sjálfur hefði hann sofnað. Næsta sem hann vissi væri að G lögregluþjónn stæði yfir sér.

Ákærði sagði að miðað við legu sína í rúminu hefði það ekki verið systir hans heldur hin manneskjan sem hönd sín hefði farið á í rúminu. Hann hefði séð tvær manneskjur í rúminu en það að leggjast hefði verið „ómeðvitað“ vegna þreytu. Hann hefði fundið að hann „snerti bert hold þannig að væntanlega sængin ekki verið yfir allri manneskjunni“.

Ákærði sagðist aðspurður ekki hafa hugmynd um hvers vegna hann hefði spurt systur sína hvort hún væri vakandi.

Ákærði sagðist ekki hafa farið inn á baðherbergi áður en hann hefði farið að sofa. Hann væri vanur að bursta tennur fyrir svefninn en það gleymdist oft þegar hann drykki áfengi.

Ákærði sagðist muna skýrt eftir atvikum næturinnar.

Ákærði sagðist engar skýringar hafa á framburði brotaþola, þau þekktust ekki neitt.

Ákærði sagði að fyrst eftir að málið hefði komið upp hefði hann verið mjög óviss og kvíðinn. Hann hefði talið málið mjög óréttlátt. Síðan hefði þessi tilfinning dofnað. Hann sagðist vita vel að hann hefði ekki gert það sem hann væri sakaður um og væri því orðinn „afslappaðri“. Væri sér líka nauðsynlegt að vera rólegur enda væri hann með tourette og við kvíða og álag blossuðu einkenni þess upp.

 

Vitnið B, brotaþoli, sagðist hafa verið með C, systur ákærða, og vinkonum hennar að skemmta sér í [...]. Þær C og þriðja stúlka hefðu eftir það tekið strætisvagn [...] og um kvöldið heim til C. Þær C hefðu svo farið að sofa í rúmi foreldra C. Um nóttina hefði brotaþoli vaknað við að ákærði væri „að putta“ hana. Nánar spurð sagði hún að sér hefði liðið „eins og ég sé að dreyma“ en svo hefði hún fundið fyrir miklum „þrýstingi niðri, þannig að ég svona vakna bara og kippi mér við og þá bara um leið og ég kippi mér við þá fer hann, stendur upp og labbar fram.“ Nánar spurð sagði brotaþoli ákærða hafa verið með tvo fingur inni í sér. Ákærði hefði verið undir sæng brotaþola „með sinn líkama“ en C legið við hlið brotaþola.

Brotaþoli sagði ákærða einnig hafa komið í herbergið til að ná í sæng. Hann hefði staðið „í hurðinni, allsber“, og horft á brotaþola. Þá hefði hann einnig farið inn á salerni. Brotaþoli tók fram að hún myndi ekki í hvaða tímaröð þetta hefði verið. Hún hefði beðið, „frosin“, þangað til hann hefði verið farinn inn herbergi og þá hefði hún hringt til lögreglu. Brotaþoli kvaðst telja ákærða hafa verið í nærbuxum þegar hann hefði verið í rúminu en þegar hann hefði staðið í dyrunum hefði hann verið allsnakinn. Nánar spurð sagði hún ákærða hafa litið út fyrir að vera nakinn en hún myndi þó ekki eftir að hafa séð kynfæri hans.

Vitnið sagðist ekki hafa heyrt til ákærða inni á baðherberginu en hafa séð hann fara þangað inn. Nánar spurð sagðist hún ekki muna hvort hún hefði heyrt hljóð eins og frá rennandi vatni úr krana eða þegar hleypt væri niður úr salerni.

Brotaþoli sagðist hafa legið á bakinu í rúminu en ákærði verið milli fóta hennar. Hún hefði ekki séð hvað hann gerði, enda hefði hann verið undir sænginni, en fundið fyrir því. Þetta hefði verið mjög óþægilegt og hún vaknað „við þrýstinginn“. Þetta hefði verið „í allar áttir“ og „mjög skrýtið“. Ákærði hefði litið út fyrir að vera „rosalega ruglaður á því“.

 Brotaþoli sagðist hafa fundið fyrir þrýstingnum „hálfsofandi, þannig að hann hættir ekki fyrr en ég kippi mér við og vakna“. Hún vissi því ekki hversu lengi þetta hefði staðið.

Brotaþoli sagðist hafa reynt að segja C, áður en ákærði hefði verið kominn inn í herbergið þar sem hann svaf, hvað hún hefði vaknað við. C hefði varla vaknað en svarað því til að hún ætlaði að berja ákærða. C hefði ekki vaknað fyrr en brotaþoli hefði talað við lögregluna, en brotaþoli hefði þurft að fá hjá henni heimilisfangið.

Brotaþoli sagði þær C hafa drukkið áfengi um daginn. Lögreglan hefði spurt sig um það og þá hefði hún logið því að hún hefði ekki drukkið. Ástæðan hefði verið sú að faðir hennar hefði nýlega fengið henni nýjan síma, með þeim skilmálum að drykki hún áfengi tæki hann símann aftur. Hún hefði alls ekki viljað missa símann og því ekki sagt rétt frá. Hefði hún séð mjög eftir því.

Brotaþoli sagðist ekki vita hversu mikið þær hefðu drukkið. „Þetta var bara einhver flaska“. Hún hefði fundið á sér en orðið „eiginlega ekkert full“. C hefði hins vegar orðið drukkin og því átt erfitt með að vakna. Flaskan hefði verið lítil með glærum vökva. Um fjögurleytið um daginn hefði brotaþoli reykt „eina jónu“.

Brotaþoli sagðist hafa hringt til stjúpmóður sinnar, D, úr lögreglubifreiðinni, en móðir sín hefði á þessum tíma verið í [...].

Brotaþoli sagðist eftir þetta hafa verið dofin og fljótlega hafa hætt í skólanum, sofið, borðað sælgæti og hætt að tala við vini sína. Þær C töluðu saman „á snap“ en hittust lítið sem ekkert, þrátt fyrir áform um slíkt.

Brotaþoli var spurð um það sem getið er í læknisskýrslu af neyðarmóttöku, þess efnis að hún hefði orðið fyrir kynferðisbroti í [...]. Hún sagði það misskilning, hún hefði ekki orðið fyrir slíku þar.

 

Vitnið C, systir ákærða, sagði þær brotaþola hafa verið vinkonur síðan í barnaskóla. Umrætt kvöld hefðu þær farið heim til ömmu brotaþola en þaðan að hitta vin vitnisins. Þær hefðu verið úti til um miðnættis eða eitthvað lengur, farið svo heim til vitnisins og fljótlega farið að sofa, en brotaþoli hefði fengið að gista hjá vitninu. Ákærði hefði komið heim, komið inn í herbergið og hefði ýtt við vitninu „til að athuga með sæng og kodda“. Eftir það hefði hann gengið út en vitnið sofnað aftur. Stuttu síðar hefði vitnið vaknað við að brotaþoli væri að hringja í lögregluna. Brotaþoli hefði þá sagt sér „að hann hefði puttað hana“ og vitnið þá fengið áfall. Vitnið hefði farið inn í herbergi ákærða og spurt hann hvað hann hefði verið að gera í svefnherberginu og hann svarað að hann hefði verið að leita að sæng og kodda.  Vitnið hefði farið aftur og svo hefði lögreglan komið. Vitnið hefði ekki sagt ákærða hvað brotaþoli hefði sagt hann hafa gert.

Vitnið sagði þær brotaþola ekki hafa verið búnar að drekka áfengi þegar þær fóru að sofa.

Vitnið sagði að daginn eftir hefði hún farið til [...] en móðir hennar hefði hringt til sín og sagt brotaþola hafa komið á heimilið að „sækja eitthvað dót“ sem hún hefði átt þar.

 

Vitnið D, stjúpmóðir brotaþola, sagði brotaþola hafa hringt til sín um miðja nótt. Fyrst hefði vitnið ekkert heyrt, svo ekkasog og því næst hefði brotaþoli sagt: „Ég er í lögreglubíl“, eða eitthvað í þá átt. Vitnið sagðist ekki muna næstu atburðarás nákvæmlega, en fljótlega, annað hvort í þessu símtali eða næsta, hefði brotaþoli sagt sér að hún „vaknaði við eitthvað skrýtið, fattar svo að það er eitthvað upp í leggöngum, kippist til og þá fattar hún að hann er í rúminu á milli þeirra og hann virðist vera var við að hún vakni og fer fram. Hún segist hafa orðið rosalega, rosalega hrædd og hann hafi svo komið aftur og staðið allsnakinn í dyrunum, horft á sig og hún hélt að hann kannski bara ekki séð sig inni í herberginu, af því að það var náttúrulega myrkur í herberginu, og kveikt og slökkt ljósið og þá séð að hún var vakandi greinilega og farið fram á klósett“. Þá hefði brotaþoli hringt til lögreglu.

Vitnið hefði síðar um nóttina farið og hitt brotaþola á neyðarmóttöku. Þá hefði brotaþoli verið „dauf í dálkinn“. Væru það viðbrögð hennar við vanlíðan.

Vitnið sagði að sér dytti ekki í hug að trúa ekki frásögn brotaþola.

 

Vitnið E, faðir brotaþola, sagði konu sína hafa sagt sér af málinu. Fljótlega eftir atvikið hefði hann farið með brotaþola í skýrslutöku hjá lögreglu og í því samhengi hefðu þau rætt málið, en vitnið sagðist ekki muna hvenær það hefði verið nákvæmlega. Hefði brotaþoli þá sagt að hún hefði „vaknað við þennan mann, eitthvað að gera sér“ og að eftir það hefði hún hringt til lögreglu.

Vitnið sagði aðspurt að vel gæti verið að einhvern tíma hefði verið talað um það við brotaþola að síminn kynni að vera tekinn af henni ef hún drykki áfengi.

Vitnið sagðist ekki efast um frásögn brotaþola.

 

Vitnið F, móðir brotaþola, sagði dóttur sína hafa hringt til sín umrædda nótt og þá verið stödd í lögreglubifreið. Hefði brotaþoli sagt sér að „eitthvað alvarlegt [hefði] komið fyrir“ og að „hún hafi vaknað við það að bróðir vinkonu sinnar hafi verið að putta hana og að hún væri á leið [...] í skoðun uppi á spítala“. Brotaþoli hefði einnig sagt að þegar ákærði hefði orðið var við að hún vaknaði hefði hann farið fram en hún reynt að vekja vinkonu sína, en sú hefði í svefnrofunum sagt eitthvað á þá leið að hún ætlaði að berja ákærða og svo haldið áfram að sofa. Ákærði hefði kveikt ljós frammi eða inni á baðherbergi og svo komið aftur í dyragættina og litið inn, nakinn, eins og til að athuga hvort brotaþoli væri vakandi, en svo farið inn í annað herbergi, að því er brotaþoli héldi.

Vitnið sagði að síðar hefði brotaþoli lítið viljað tala um atvikið og líðan sína. Hún hafi frekar orðið eins og dofin. Hún hefði átt „þungt tímabil“ og orðið einangruð. Vitnið hefði reynt að spyrja hana um málið en brotaþoli lokað á það. Brotaþoli hefði áður verið þunglynd og átt erfitt félagslega en hefði verið búin að rífa sig upp. Eftir þetta hefði hún farið niður aftur og verið rúmliggjandi í langan tíma.

Vitnið sagði brotaþola mjög hreinskilna og að engin ástæða væri til að trúa henni ekki.

 

Vitnið G lögregluþjónn staðfesti skýrslu sína. Vitnið sagði brotaþola hafa tekið á móti lögreglu við komu í íbúðina. Hefði brotaþoli þá sagt „að bróðir vinkonu sinnar hafi puttað sig þegar hún var sofandi“. Vitnið hafi boðað H rannsóknarlögregluþjón á vettvang og svo farið inn í íbúðina. Vitnið hefði vakið ákærða og kynnt honum ástæðu komu lögreglunnar og verið með honum þar til rannsóknarlögregluþjónn hefði komið og tekið við rannsókn málsins. Ákærði hefði litið út fyrir að vera hissa á komu lögreglunnar. Hann hefði legið undir sæng og, að því er vitnið minnti, aðeins klæddur í nærbuxur. Ákærði hefði litið út fyrir að vera ölvaður og „eins og maður er þegar lögreglan mætir inn í herbergið hjá þér um miðja nóttu“.

Vitnið sagði að bréfpokar hefðu verið settir utan um hendur ákærða þegar rannsóknarlögregluþjónninn hefði verið kominn á vettvang. Kvaðst vitnið telja ákærða hafa verið fluttan þannig og handjárnaðan af vettvangi.

Vitnið sagðist ekki muna hvort baðherbergi hússins hefði verið skoðað. Vitnið hefði ekki athugað hvort vaskur væri blautur eða sturta hefði verið notuð.

 

Vitnið H rannsóknarlögregluþjónn sagði bréfpoka hafa verið setta yfir hendur ákærða og límt fyrir. Baðherbergi íbúðarinnar hefði ekki verið kannað sérstaklega. Vitnið sagði að sig minnti að baðherbergið væri mjög skammt frá herberginu þar sem stúlkurnar hefðu sofið. Ef legið væri í rúmi þess herbergis sæist ekki inn á baðherbergið.

Vitnið sagði að systir ákærða hefði verið „í sjokki“ en annars hefði ekki verið slæmt ástand á stúlkunum. Brotaþoli hefði verið „nokkuð svona brött“ og hefði getað „tjáð sig um þetta“. Nánar spurt sagðist vitnið eiga við að brotaþoli hefði hæf til viðræðu við lögreglu. Vitnið hefði ekki séð skýr merki þess að þær væru undir áhrifum áfengis. Vitnið hefði átt stutt samtal við ákærða sem hefði verið eins og maður sem er kominn heim að lokinni drykkju.

Vitnið sagði lögregluþjóna hafa metið viðbrögð ákærða á vettvangi svo að hann hefði verið „hissa og ekki alveg að skilja þetta“. Hann hafi verið rólegur og enga tilburði haft til að streitast á móti.

 

Vitnið I, sérfræðingur í tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagðist hafa fengið gögn frá neyðarmóttöku til skoðunar og hafa haft milligöngu um að senda sýni til rannsóknar. Til rannsóknar hefðu verið send stroksýni sem aflað hefði verið á neyðarmóttöku og stroksýni af höndum ákærða. Þá hefðu nærbuxur brotaþola verið rannsakaðar. Niðurstöður rannsókna hefðu orðið þær að stroksýni af höndum ákærða hefðu verið „samkennd við hann sjálfan“, og engar sáðfrumur hefðu komið í ljós í nærbuxum eða sýnum frá brotaþola af neyðarmóttöku. Í kynfærum brotaþola hefði eingöngu komið í ljós DNA brotaþola.

Vitnið sagði að það, að ekki hefði mátt finna DNA úr ákærða í leggöngum brotaþola, merkti ekki að hann hefði ekki sett fingur sinn þangað. Þegar sýnið væri tekið væri bómullarpinna strokið yfir mjúkan þekjuvef og magn DNA frá brotaþola væri svo miklu meira en það sem gæti komið frá grunuðum að erfðaefni hins grunaða „drukknaði“.

Vitnið sagði að „ágætis líkur“ ættu að vera á því að finna DNA úr brotaþola á fingri ákærða, hefði hann farið með fingur í leggöng hennar, „að því gefnu að hann hafi ekki náð að þvo sér eða skola hendur áður en sýnataka er framkvæmd“. Hefði hann náð að þvo sér minnkuðu líkurnar til muna. Alltaf væri möguleiki að finna efni, en líkurnar minnkuðu.

Vitnið sagði að ef ekki fyndist DNA úr brotaþola á fingrum ákærða þá ætti annað hvort við, hann hefði ekki farið með fingurinn í leggöngin eða hann hefði eftir það þvegið sér eða náð að strjúka efnið af, áður en sýni væru tekin. Erfitt væri að fullyrða hvort nægt gæti að nudda fingrum í föt og slíkt, vatnsþvottur væri mun áhrifameiri. Vitnið sagði, sérstaklega spurt, að ef ákærði hefði nuddað höndunum innan í bréfpokunum hefði „eitthvað [farið] í pokann en ég mundi telja að það væri líklegt að við myndum finna eitthvað.“ Sama mætti segja um handafálm í sæng í svefni og slíkt, það myndi ekki eyða öllum sýnum. Nánar spurt sagði vitnið: „Það er erfitt að fullyrða, en ef að ekkert finnst að þá mundi ég segja að mestar líkur eru á að annað hvort fór hann ekki, gerði hann þetta ekki, eða hann hefur náð að þrífa sig.“

Vitnið sagðist vera með meistaragráðu í réttarvísindum og hefðu DNA-greiningar verið sérsvið sitt.

 

Vitnið J, hjúkrunarfræðingur á neyðarmóttöku, staðfesti skýrslu sína.

 

Vitnið K læknir sagði brotaþola hafa lýst því að hún hefði vaknað við að fingur hefði verið kominn í leggöng hennar og hefði sér brugðið mikið. Síðar hefði „einstaklingurinn“ komið aftur nakinn og kveikt ljós til að athuga hvort hún væri sofandi.

Vitnið sagði brotaþola hafa verið í miklu uppnámi og ákveðna í að kæra.

Vitnið sagði að engir líkamlegir áverkar hefðu komið í ljós í skoðuninni, „bara andlegt uppnám“. Ekki kæmu nauðsynlega áverkar af því ef farið væri með fingur í leggöng sofandi konu sem væri „slök og [á] ekki von á neinu“. Ef slíkt væri gert harkalega, til dæmis með snúningum fingra, væru meiri líkur á sjáanlegum ummerkjum. Slíkt væri þó ekki víst.

Vitnið sagði að „undir venjulegum kringumstæðum“ myndi sofandi kona vakna um leið og farið væri með fingur inn í leggöngin.

Vitnið kvaðst telja brotaþola segja rétt frá.

 

Vitnið L sálfræðingur staðfesti vottorð sitt. Vitnið sagðist hafa átt fjögur viðtöl við brotaþola gegnum „Skype“. Viðtölin hefðu fyrst og fremst verið vegna sálfræðilegs mats en ekki meðferðar. Brotaþoli hefði verið sjálfri sér samkvæm og lýsingar hennar lifandi og sjónrænar. Fram hefði komið hjá brotaþola að hún hefði áður glímt við ýmsa erfiðleika en á þessum tíma talið sig hafa verið komna „á góðan stað“. Eftir þetta atvik hefðu bæði brotaþoli og móðir hennar talið hana hafa farið „mörg skref“ til baka.

 

Vitnið M sálfræðingur sagðist hafa unnið mat á ákærða. Ákærði hefði lýst atvikinu af sinni hálfu með sama hætti og hann hefði gert í yfirheyrslu lögreglu. Vitnið hefði talið ákærða trúverðugan í frásögn sinni. Vitnið hefði talið ákærða „opinn og heiðarlegan varðandi sína líðan og svona sitt líf“ en hefði ákveðna tilhneigingu til að viðurkenna ekki galla í eigin fari.

Vitnið sagði að ekki hefðu komið í ljós neinir áhættuþættir sem bent gætu til að ákærði hefði óeðlilegan áhuga á börnum. Ákærði hefði alfarið neitað að hafa kynferðislegan áhuga á unglingsstúlkum og vitnið hefði ekki tekið eftir neinu í hans sögu sem benti til annars. Vitnið kvaðst ekki hafa séð merki um neinar óeðlilegar hvatir hjá ákærða.

Vitnið sagði að einstaklingar sem hefðu verið greindir með ADHD væru hvatvísir og í áhættuhópi að verða með brotaferil. Oft væri þetta fólk á lyfjum og neytti stundum áfengis ofan í lyfin. Væri „talað um að fólk afhamlist“.

 

Vitnið N lögregluþjónn sagði brotaþola hafa tekið á móti lögreglunni við komu í íbúðina. Vitnið hefði farið með brotaþola út í lögreglubifreið og þar hefði brotaþoli sagt sér frá málinu. Brotaþoli hefði einnig reynt að hringja til móður sinnar. Vitnið hefði síðar farið inn og rætt við systur ákærða sem hefði verið í „miklu uppnámi yfir þessu öllu“.

Vitnið sagðist ekki muna annað úr samtali þeirra brotaþola en stæði í skýrslu.

Vitnið sagðist ekki hafa orðið vör við að brotaþoli væri undir áhrifum áfengis. Hún hefði verið í uppnámi og ráðvillt.

Vitnið sagðist hafa tekið við af félaga sínum, G, við að sitja yfir ákærða þar til rannsóknarlögreglumaðurinn tæki við rannsókn málsins. Hefði vitnið gætt ákærða á meðan þeir töluðu saman. Vitnið sagðist ekki muna eftir neinum sérstökum samskiptum við ákærða á þeim tíma.

Loks hefði vitnið ekið brotaþola á neyðarmóttöku.

 

Niðurstaða

Ljóst er að aðfaranótt 7. ágúst 2016 kom ákærði inn í herbergi þar sem fyrir voru sofandi systir hans og vinkona hennar, brotaþoli. Þá verður að telja ljóst að í rúmi þeirra hafi hann snert brotaþola. Sjálfur segir hann hönd sína óvart hafa farið í bert hold en hann þá dregið hana til baka og staðið upp, en brotaþoli segir hann hafa sett fingur í leggöng sín. Stendur þar orð gegn orði.

Ekki er ástæða til að efa að ákærða hafi verið boðin gisting í íbúðinni en móðir hans mun hafa verið í útilegu. Hefur ekkert komið fram um að óeðlilegt væri að ákærði kæmi inn í umrætt svefnherbergi að leita sér sængur og kodda.

Engir áverkar sáust við læknisskoðun á brotaþola en K læknir sagði fyrir dómi ekki þyrftu að koma neinir sjáanlegir áverkar þótt farið væri inn í leggöng sofandi konu. Verður engin sérstök ályktun dregin af þessari niðurstöðu læknisskoðunarinnar.

K sagði jafnframt fyrir dómi að sofandi kona myndi undir venjulegum kringumstæðum vakna við það er fingur færi inn í leggöng hennar. Af því má ráða, að hafi fingur ákærða farið í leggöng brotaþola, sé fremur ólíklegt að hann eða þeir hafi verið þar lengi áður en hún vaknaði.

Brotaþoli hafði samband við lögreglu örskömmu eftir að ákærði yfirgefið herbergi hennar og skömmu síðar var hann handtekinn. Strax í samtali við Neyðarlínu og lögreglu sagði brotaþoli sömu sögu og endurtók meginatriði hennar við stjúpmóður sína, móður sína, lækni og hjúkrunarfræðing neyðarmóttöku og loks fyrir dómi, þar sem hún var trúverðug. Dóminum þykir ákaflega ósennilegt að þegar brotaþoli vaknaði umrædda nótt hafi hún myndað með sér ásetning um að bera rangar og alvarlegar sakir á ákærða, sér frekar lítt kunnan bróður vinkonu sinnar, og að hún hafi í framhaldinu gert svo í símtali við Neyðarlínu, samtali við lögreglu, símtölum við stjúpmóður og móður, og loks við lækni og hjúkrunarfræðingi á neyðarmóttöku. Brotaþoli hefur verið sjálfri sér samkvæm allan tímann og þykir skýr framburður hennar veita ákærunni verulega stoð.

Þrátt fyrir það, sem hér hefur verið sagt, liggur fyrir að brotaþoli sagði ekki að öllu leyti rétt frá umrædda nótt, en hún kvaðst hvorki hafa neytt áfengis né annarra vímuefna. Fyrir dómi sagðist hún bæði hafa drukkið áfengi með vinkonu sinni og reykt „eina jónu“ fyrr um daginn. Sagðist hún mjög sjá eftir að hafa sagt lögreglu rangt frá og gaf á því þá skýringu sem rakin hefur verið. Sú skýring fékk stoð í skýrslu föður hennar fyrir dómi. Þessi skýring hennar er trúleg og að henni athugaðri þykir það, að hún hafi í upphafi ekki verið hreinskilin að þessu leyti, ekki skipta máli við mat á trúverðugleika hennar að öðru leyti.

 

Ákærði fyrir sitt leyti hefur einnig verið samkvæmur sjálfum sér frá upphafi og var trúverðugur fyrir dómi. Hann neitar eindregið sök og hefur alla tíð gert.

 

Bæði ákærði og brotaþoli gengust undir próf og viðtöl við sálfræðing. Bæði voru sjálfum sér samkvæm í viðtölunum. Sálfræðingurinn L segir að viðtöl og sjálfsmatskvarðar brotaþola sýni að hún glími við mörg einkenni sem algeng séu hjá þolendum kynferðisbrota. Hún hefði áður verið greind með ADHD og mótþróaþrjózkuröskun og hefði glímt við depurð og kvíða lengi. Móðir brotaþola sagði að hún hefði áður átt erfitt en verið búin að rífa sig upp. Eftir atvikið hefði hún farið niður aftur. Sálfræðingurinn M fann engar vísbendingar um andfélagslega hegðun hjá ákærða eða neikvæð eða óeðlileg viðhorf til kvenna. Þessi atriði þykja ekki ráða úrslitum við sönnun á því hvort ákærði hafi framið það brot sem hann er sakaður um í málinu.

 

Lögregla kom að ákærða þar sem hann svaf, skömmu eftir atvikið í svefnherbergi íbúðarinnar. Var hann vakinn, handtekinn og vaktaður þar til rannsóknarlögregluþjónn var kominn á vettvang. Voru pokar settir yfir hendur ákærða og í framhaldinu tekin stroksýni sem send voru til rannsóknar. Niðurstaða hennar reyndist sú að engin erfðaefni fundust þar frá brotaþola. Fram kom hjá I, sérfræðingi hjá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að góðar líkur væru á að finna erfðaefni úr brotaþola á fingrum ákærða, hefði hann farið með fingur í leggöng hennar. Þær líkur minnkuðu hins vegar verulega ef hann þvæði hendurnar áður en sýni yrðu tekin. Verður af skýrslu vitnisins dregin sú ályktun að annað hvort hafi ákærði skolað hendurnar eftir atvikið og fyrir sýnatöku, eða þá að telja verður umtalsverðar líkur á að fingur hans hafi ekki farið inn í leggöng brotaþola. Brotaþoli hefur sagt í málinu, bæði umrædda nótt og fyrir dómi, að ákærði hafi farið inn á baðherbergi eftir að hafa verið í svefnherberginu. Ákærði hefur hins vegar, bæði við yfirheyrslu hjá lögreglu og fyrir dómi, neitað því. Fyrir dómi sagðist brotaþoli ekki hafa heyrt til ákærða inni á baðherberginu og ekki muna hvort hún hefði heyrt einhver hljóð, svo sem frá rennandi vatni. Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hvílir sönnunarbyrði um sekt ákærða, sem og önnur atvik, sem telja má honum í óhag, á ákæruvaldinu en ekki hinum ákærða. Verður að hafa þessa meginreglu sakamála í huga við mat á þessu og öðrum atriðum málsins. Lögregla kom á vettvang en engin athugun fór af hennar hálfu fram á baðherberginu, svo sem á því hvort þar hefði stuttu áður verið notaður vaskur.

Í málinu liggur upptaka úr búkmyndavél G lögregluþjóns, er kom á vettvang og handtók ákærða og stóð yfir honum þar til rannsóknarlögreglumaðurinn H kom í húsið, en lögregluþjónninn N fylgdist með ákærða á meðan  þeir G og H báru saman bækur sínar. Samkvæmt upptökunni vekur G ákærða, handtekur hann og kynnir honum réttarstöðu hans. Ákærða er tjáð að hann sé grunaður um kynferðisbrot og að hann eigi að halda kyrru fyrir í rúminu. Ákærði spyr ítrekað hvað sér sé gefið að sök en lögregluþjónninn segir að bíða skuli rannsóknarlögregluþjóns. Lögregluþjónninn segir ákærða að hafa hendurnar ofan á sænginni. Alloft ber ákærði hendur að höfði sér og rótar í hári og er þá jafnan beðinn um að hafa hendur kyrrar. Fyrir dómi sagði ákærði að hann væri með tourette-sjúkdóm og væri þessi hreyfing sér mjög töm þegar hann væri undir álagi. Ákæruvaldið kvaðst ekki andmæla þessu. Þykja ekki verða dregnar neinar sérstakar ályktanir af þessum hreyfingum hans. Þegar upptakan í heild er skoðuð þykir ekkert sérstakt óeðlilegt við viðbrögð og hegðun ákærða en hafa verður í huga að hann er vakinn á heimili móður sinnar, þar sem honum hafði verið heimiluð gisting, er undir áhrifum áfengis, og yfir honum stendur einkennisklæddur lögregluþjónn og tjáir honum að hann sé handtekinn vegna gruns um kynferðisbrot.

Svo sem áður segir hefur brotaþoli verið sjálfri sér samkvæm frá upphafi málsins og að mati dómsins mjög trúverðug. Ekki er hins vegar til að dreifa öðrum haldbærum sönnunargögnum til stuðnings ákærunni. Lögregla rannsakaði hendur ákærða skömmu eftir atvikið en þar fundust engin erfðaefni brotaþola. Brotaþoli segir ákærða hafa farið inn á baðherbergi en veit ekki hvort eða hvað hann gerði þar. Hann segist ekki hafa farið þangað. Baðherbergið var ekki rannsakað um nóttina. Þótt alls ekki sé útilokað að ákærði hafi í raun farið á baðherbergið og þrifið hendurnar áður en þær voru stuttu síðar rannsakaðar, verður því ekki slegið föstu gegn neitun hans, en vafa um þetta atriði og önnur ber í ljósi meginreglu sakamálaréttarfars að skýra ákærðum einstaklingi í hag. Niðurstaða rannsóknar á höndum ákærða sannar ekki að hann hafi ekki framið það brot sem hann er sakaður um, en veldur vissulega vafa um það. Ákærði hefur verið sjálfum sér samkvæmur frá upphafi málsins og að sínu leyti trúverðugur. Í 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er kveðið á um að sönnunarbyrði um sekt hans, og hvaðeina annað sem talið yrði honum í óhag, hvíli á ákæruvaldinu en ekki ákærða. Af 1. mgr. 109. gr. sömu laga verður ráðið að sönnunin þarf að vera sterkari en svo að hún verði vefengd með skynsamlegum rökum. Samkvæmt 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar telst ákærður maður saklaus, svo lengi sem sekt hans hefur ekki verið sönnuð. Brotaþoli hefur verið sjálfri sér samkvæm og trúverðug. Framhjá hinu verður ekki horft að ákærði hefur einnig verið trúverðugur og sjálfum sér samkvæmur. Hann var handtekinn mjög skömmu eftir atvikið og þá gerðar ráðstafanir til að rannsaka hendur hans, með þeirri niðurstöðu sem rakin hefur verið. Þótt með hinum skýra framburði brotaþola hafi töluverðar líkur verið færðar að sekt ákærða er, að öllu framangreindu athuguðu, enn á henni sá vafi sem skylt er að skýra ákærða í hag. Verður ekki talið að gegn neitun ákærða, allt frá upphafi málsins, hafi verið færð fram lögfull sönnun að sekt hans og ber því að sýkna hann af ákærunni. Samkvæmt því ber að vísa einkaréttarkröfu frá dómi en gera ríkissjóði að greiða sakarkostnað, þar á meðal þóknun skipaðs verjanda ákærða, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 1.550.000 krónur, skipaðs réttargæzlumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur lögmanns, 463.760 krónur, og Margrétar Gunnlaugsdóttur lögmanns, sem áður hafði sinnt þeim starfa, 189.720 krónur. Hver þóknun er ákveðin með virðisaukaskatti. Gætt var 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008. Af hálfu ákæruvalds fór Fanney Björk Frostadóttir aðstoðarsaksóknari með málið. Þorsteinn Davíðsson kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

 

Ákærði, X, er sýkn af ákæru í máli þessu.

Einkaréttarkröfu er vísað frá dómi.

Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði þar með þóknun skipaðs verjanda ákærða, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 1.550.000 krónur, þóknun skipaðs réttargæzlumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur lögmanns, 463.760 krónur, og þóknun Margrétar Gunnlaugsdóttur lögmanns, sem áður hafði sinnt þeim starfa, 189.720 krónur.

 

Þorsteinn Davíðsson