• Lykilorð:
  • Fangelsi
  • Skilorð
  • Útivist
  • Þjófnaður

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 3. október 2018 í máli nr. S-315/2018:

Ákæruvaldið

(Guðmundur Þ. Steinþórsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Mamuka Metreveli

 

Mál þetta, sem dómtekið var 5. september sl., höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með ákæru 5. júní 2018 á hendur ákærða, Mamuka Metreveli, fæddum […], með dvalarstað að Airport Inn, Reykjanesbæ;

„fyrir þjófnaðarbrot, með því að hafa:

1)        Þriðjudaginn 15. ágúst 2017, í verslun Nettó að Miðvangi 41, Hafnarfirði, í félagi við A, fd. […] og B, fd. […], stolið matvöru samtals að andvirði kr. 27.190,-

Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Mál 007-2017-47209

 

2)        Sunnudaginn 8. október 2017, í verslun 66° norður í Skeifunni, Reykjavík, í félagi við C, fd. […], stolið tveimur útivistarjökkum af gerðinni Vatnajökull, samtals að andvirði kr. 66.000,-

Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Mál 007-2017-61183

 

3)        Mánudaginn 9. október 2017, í verslun Elko í Skeifunni, Reykjavík, í félagi við C, fd. […], stolið Sennheiser heyrnartólum að andvirði kr. 11.895,-

Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Mál 007-2017-61183

 

4)        Fimmtudaginn 21. desember 2017, í verslun Hagkaupa að Larsenstræti 5, Selfossi, í félagi við D, fd. […]og E, fd. […], stolið varningi samtals að andvirði kr. 112.881,-  Nánar tiltekið var um að ræða eftirfarandi:

 

Munanr.

Lýsing

Andvirði kr.

456113

Weather Report parkaúlpa

13.999

456115

Weather Report dúnúlpa

8.999

456116

F&F úlpa

7.490

456119

Dolce&Gabbana ilmvatn

14.999

456120

Emperio Armani ilmvatn

11.399

456121

DKNY ilmvatn

10.399

456122

Gucci ilmvatn

12.699

456123

Michael Kors ilmvatn

11.999

456124

Lancome ilmvatn

9.999

456125

Textile straumsnúra

999

 

Multi trimmer hársnyrtitæki, 2 stk

9.900

Samtals kr.

112.881

 

 

 

Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Mál 318-2017-14003

 

5)        Þriðjudaginn 9. janúar 2018, í verslun Bónus að Smiðjuvegi, Kópavogi, í félagi við
D, fd. […] og E, fd. […], stolið 11 pakkningum af kjúklingabringum, samtals að verðmæti kr. 16.255,-.

Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Mál 007-2018-3400

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Forsendur og niðurstaða:

Fyrirkall í máli þessu var gefið út 29. júní 2018 og birt ákærða 30. ágúst 2018. Við þingfestingu málsins 5. september sl. sótti ákærði ekki þing og var málið þá dómtekið á grundvelli 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með vísan til þess ákvæðis verður dómur lagður á málið þrátt fyrir útivist ákærða þar sem framlögð gögn þykja nægileg til sakfellingar og önnur skilyrði ákvæðisins eru einnig uppfyllt í málinu. Brot ákærða teljast því sönnuð og varða þau við tilgreint lagaákvæði í ákæru.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærða ekki áður verið gerð refsing. Refsing ákærða þykir eftir fyrirmælum 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og að brotum hans virtum réttilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði. Eftir atvikum þykir mega fresta fullnustu refsingar ákærða og skal refsingin falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Með vísan til sakfellingar ákærða, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður honum gert að greiða sakarkostnað málsins. Ákærði dæmist því til að greiða þóknun tilnefnds verjanda á rannsóknarstigi málsins, Sverris Sigurjónssonar lögmanns, sem með hliðsjón af fyrirliggjandi tímaskýrslu þykir hæfilega ákveðin svo sem í dómsorði greinir.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Mamuka Metreveli, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði þóknun tilnefnds verjanda á rannsóknarstigi málsins, Sverris Sigurjónssonar lögmanns, 137.020 krónur.

 

Kristinn Halldórsson