• Lykilorð:
  • Erfðaskrá
  • Erfðir
  • Fjármál hjóna
  • Fjárskipti
  • Séreign
  • Hjón - Annað
  • Slit á fjárfélagi hjóna

 R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Reykjaness, þriðjudaginn  9. apríl  2019, í máli nr. Q-3/2018:

 

A

(Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)

gegn

B

(Lára V. Júlíusdóttir lögmaður)

 

Mál þetta barst dóminum 20. september 2018 með bréfi skiptastjóra, C lögmanns, dagsettu 19. sama mánaðar. Málið var þingfest 24. október 2018 og tekið til úrskurðar 26. mars 2019. Þann 11. janúar 2019 barst dóminum ný krafa, Q-2/2019, frá sama skiptastjóra vegna sömu skipta og var það mál sameinað eldra máli og þau rekin saman. Varð dráttur á flutningi málsins vegna sáttatilrauna aðila. Málskot þetta byggist á 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

Sóknaraðili er A, kt. 000000-0000, [...]. Varnaraðili er B, kt. 000000-0000, [...].

Sóknaraðili gerir eftirfarandi kröfur: Aðallega að viðurkennt verði að við fjárskipti sóknaraðila og varnaraðila skuli teljast séreign sóknaraðila 52,36% fasteignarinnar [...], og allt sem komið hefur í stað hennar, þar með talin öll fasteignin að [...].

Til vara er þess krafist að við fjárslit aðila verði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 104. gr. laganna og sóknaraðila verði heimilað að taka að óskiptu eftirtaldar eignir:  a. 52,36% fasteignarinnar [...], b. alla fasteignina að [...].

Til þrautavara er þess krafist að við fjárslit aðila verði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga samkvæmt  ákvæðum 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga og sóknaraðila verði heimilað að taka að óskiptu fasteignina að [...].

Sóknaraðili krefst þess að við skipti aðila verði því hafnað að draga frá hjúskapareign varnaraðila skuld hans við Lánasjóð íslenskra námsmanna eins og hún var [...], eða aðra og lægri fjárhæð.

Sóknaraðili krefst þess að viðurkennd verði endurgjaldskrafa hennar á hendur varnaraðila samkvæmt 2. mgr. 107. gr. laga nr. 31/1993 vegna verðmætisrýrnunar [...], frá því að varnaraðili fékk umráð eignarinnar árið 2010.

Í síðari ágreiningi aðila eru kröfur sóknaraðila þær að vikið verði frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 með heimild í 1. mgr. 104. gr. laganna og að sóknaraðila verði heimilað að taka að óskiptu 52,6% fasteignarinnar [...]og alla fasteignina að [...].

Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila auk virðisaukaskatts.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að fjárskipti milli aðila fari fram samkvæmt helmingaskiptareglu hjúskaparlaga nr. 31/1993. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Munnlegur málflutningur fór fram þann 26. mars sl. og var málið tekið til úrskurðar að honum loknum.

Málsatvik.

Aðilar máls þessa eru ekki sammála um málsatvik og verða þau rakin eins og þau liggja fyrir í gögnum málsins og greinargerðum eftir því sem við á.

Aðilar máls þessa kynntust árið 1990 eða 1991 en hófu sambúð í júlí 1993 og gengu síðan í hjónaband á árinu 1994.

Þann 13. júlí 1993 undirrituðu aðilar máls þessa kaupsamning um tveggja herbergja íbúð við [...]. Var kaupverðið 7.900.000 krónur, sem greiddist með yfirteknum lánum að eftirstöðvum 4.904.651 króna og greiðslu peninga á tæpu ári, samtals 2.995.349 krónur.

Þann 18. mars 1996 greiddi móðir sóknaraðila fimm börnum sínum út fyrir fram greiddan arf, hverju að fjárhæð 802.909 krónur. Í skýringum í erfðafjárskýrslunni segir að móðir erfingja sitji í óskiptu búi. Hún eigi 1/5 hluta í landi [...] og hyggist á næstunni skipta þeirri eign jafnt á milli barna sinna í samræmi við reglur erfðalaga. Nú greiði hún út, sem fyrirframgreiddan arf, alls 5/11 hluta af eign sinni í sameigninni [...], til fimm barna sinna. Síðar hyggist hún greiða út fyrirframgreiddan arf til barna sinna, A, B, C og G auk barnabarns. Hefur umrædd arfsgreiðsla verið sem nam 1,82% eignarhlut sóknaraðila í [...]sem síðan var selt 19. janúar 1999.

Þann 6. janúar 1998 seldu aðilar móður sóknaraðila ofangreinda íbúð samkvæmt afsali 5. maí 1998. Segir ekkert um söluverð en yfirteknar skuldir eru sagðar tvö lán, upphaflega samtals að fjárhæð 2.658.000 krónur, vísitölutryggð. Þann sama dag undirrituðu aðilar og móðir sóknaraðila kaupsamning um [...] en móðir sóknaraðila var seljandi hússins. Var kaupverðið 10.800.000 krónur, yfirteknar áhvílandi skuldir 188.193 krónur og útborgun, samtals 7.681.807 krónur, greidd út í peningum á fimm mánuðum. Þá gáfu kaupendur út  fasteignaveðbréf að fjárhæð 2.930.000 krónur til seljanda.

            Þann 19. janúar 1999 undirrituðu eigendur að [...]kauptilboð í landið og var söluverðið 680.000.000 króna. Var móðir sóknaraðila eigandi að 10,9 hundraðshluta og sóknaraðili að 1,82 hundraðshluta.

            Í gögnum málsins liggur fyrir yfirlit vegna vinnu varnaraðila fyrir móður sóknaraðila á árunum 1996 til 1999. Kemur þar fram að unnið var vegna fyrirframgreiðslu arfs árið 1996 og 1999 auk annarra starfa sem varnaraðili tilgreinir.

            Í bréfi 13. mars 2000 sem varnaraðili sendi til endurskoðanda móður sóknaraðila er farið yfir uppgjör þeirra í milli vegna fasteignaviðskipta aðila á íbúð í [...].

            Með bréfi 12. júlí 2000 frá varnaraðila til endurskoðanda móður sóknaraðila fór varnaraðili yfir greiðslur og fjárhagslegt uppgjör, m.a. vegna erfðafjárskatts, vinnu hans fyrir móður sóknaraðila o.fl.

            Þann 20. október 2000 undirrituðu aðilar kaupsamning vegna [...]. Var kaupverðið 23.300.000 krónur, yfirteknar áhvílandi skuldir 1.118.870 krónur, útgefið fasteignaveðbréf 4.000.000 króna og útborgun á rúmlega sex mánaða tímabili 18.181.130 krónur.

            Afrit kaupsamnings frá 26. júlí 2001 liggur fyrir í málinu þar sem aðilar máls þessa selja raðhúsið að [...] til þriðja aðila. Var söluverðið 16.900.000 króna. Voru yfirteknar áhvílandi skuldir að fjárhæð 4.900.726 krónur og gáfu kaupendur út fasteignaveðbréf að fjárhæð 3.350.000 krónur. Kaupsamningsgreiðslur voru að fjárhæð 8.649.274 krónur.

            Skjal dagsett 22. apríl 2001 sem stafar frá varnaraðila vegna greiðslna varnaraðila í þágu móður sóknaraðila liggur fyrir. Áritað er á skjalið og staðfest af varnaraðila að móðir sóknaraðila hafi greitt honum kröfuliði nr. eitt og tvö í skjalinu.

            Þann 26. febrúar 2004 sendi lögmaður móður sóknaraðila varnaraðila bréf þar sem hann krafði varnaraðila um andvirði húsbréfa að fjárhæð 2.194.476 krónur vegna kaupa sóknar- og varnaraðila á [...]. Segir í bréfinu að varnaraðili hafi fengið móður sóknaraðila til að framselja varnaraðila húsbréfin. Húsbréfin hafi varnaraðili síðan selt en ekki staðið móður sóknaraðila skil á andvirði þeirra. Með bréfi þann 11. mars 2004 sendi lögmaður móður sóknaraðila lögmanni sóknaraðila bréf og bauð ákveðin málalok vegna uppgjörs þeirra í millum. Með bréfi lögmanns sóknaraðila þann 30. mars 2004 til lögmanns móður sóknaraðila var kröfum á hendur sóknaraðila af hálfu móður hennar hafnað og tekið fram að um lán hafi verið að ræða og því mótmælt sérstaklega að vextir komi til skuldajöfnunar á móti fyrirframgreiðslu arfs.

Þann 2. september 2005 undirritaði [...], móðir sóknaraðila, erfðaskrá þar sem fram kemur að allur arfur til skylduerfingja hennar, barna og barnabarna verði séreign þeirra. Hefur erfðaskrá þessi ekki verið vefengd.

Fyrir liggur í skjölum málsins söluyfirlit og verðmat á einbýlishúsinu að [...] dagsett 23. október 2009 og er söluverð sagt 59.500.000 krónur.

Afrit af erfðafjárskýrslu frá 30. desember 2010 liggur fyrir þar sem sóknaraðili fékk í arf 1.000.000 króna frá móður sinni.

Þann 4. mars 2013 sóttu aðilar um skilnað að borði og sæng hjá sýslumanninum í [...]. Lá þá fjárskiptasamningur ekki fyrir. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þann 23. mars 2016 var bú aðila tekið til opinberra skipta til fjárslita.

Erfðafjárskýrsla dagsett 24. júní 2013 liggur fyrir þar sem móðir stefnanda arfleiðir m.a. börn sín að 4.500.000 krónum hvert.

Verðmat dagsett 9. maí 2016 vegna [...], liggur fyrir þar sem fram kemur að fasteignamat eignarinnar sé 59.850.000 krónur og áætlað markaðsverð 62.100.000 krónur. Eru aðilar þinglýstir eigendur til helminga.

Verðmat dagsett 9. maí 2016 vegna [...], liggur fyrir þar sem fram kemur að fasteignamat eignarinnar sé 36.550.000 krónur og áætlað markaðsverð 47.000.000 króna.

Þann 25. febrúar 2016 ritaði E bréf þar sem fram kemur að þann 2. september 2005 hafi F leitað til hans og kveðst hafa eftir F að orðalag í erfðaskránni frá 2005, „Allur arfur til skylduerfingja minna, barna og barnavarna verður séreign þeirra“, hafi átt að vera í áðurgerðri erfðaskrá sem gerð var á árinu 1995 og það hafi verið hennar vilji á þeim tíma.

Á fundi skiptastjóra þann 18. apríl 2016 var farið yfir helstu eignir búsins og skuldir. Var bókað eftir konunni að maðurinn hafi greitt henni 24.200.000 krónur á árinu 2010 og taldi hún að maðurinn ætti eftir að klára uppgjör fjárslita og enn standi upp á að klára helmingaskipti. Þá er bókað eftir konunni að hluti eignarinnar að [...] sé séreign samkvæmt erfðaskrá og tekið jafnframt fram að hún áskildi sér rétt til endurgjaldskröfu vegna framkvæmda við þá fasteign.

Fundur var haldinn hjá skiptastjóra 19. janúar 2017 og voru verðmöt fasteignanna að [...] og [...]lögð fram. Lagði skiptastjóri fram á þeim fundi tillögur sínar að fjárskiptum búsins milli aðila.

Á fundi skiptastjóra þann 21. febrúar 2017 er bókað um ágreining aðila um fjárskipti á búi þeirra.

Á skiptafundi þann 9. janúar 2019 var fjallað um kröfu konunnar um skáskipti þannig að vikið yrði frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga. Var þeirri kröfu mótmælt af hálfu varnaraðila. Var þeim ágreiningi vísað til héraðsdóms og var ágreiningurinn sameinaður fyrra máli.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila.

Sóknaraðili byggir aðalkröfu sína á því að við kaupin á [...], sem keypt hafi verið fyrir 23.300.000 krónur þann 20. október 2000, hafi hún lagt fram í peningum 12.200.000 krónur. Það fé hafi hún fengið fyrir 1,82% hlut sinn í [...], sem seldur hafi verið í byrjun árs 1999 fyrir 680 milljónir króna. Eignarhluta þennan í [...] hafi sóknaraðili fengið í arf frá móður sinni, F. Arfurinn hafi átt, samkvæmt fyrirmælum arfleifanda, að verða séreign erfingja. Varnaraðili, sem sé lögfræðingur, hafi veitt tengdamóður sinni lögfræðiþjónustu við arfleiðsluna og hafi því þekkt þennan skýra og ótvíræða vilja tengdamóður sinnar um að arfur til sóknaraðila skyldi verða séreign hennar. Varnaraðili, sem hafi fengið greidda þóknun fyrir þessa lögfræðiþjónustu við tengdamóður sína, hafi hins vegar látið undir höfuð leggjast að ganga frá arfleiðslunni með þeim hætti sem vilji arfleifanda stóð til og honum hafi borið að fara eftir og tryggja að arfleiðslan væri í samræmi við erfðalög. Þegar móðir sóknaraðila hafi komist að því að lögmaður hennar og tengdasonur, sem hún hafði treyst fyrir ýmsum hagsmunum sínum öðrum, hafði ekki gengið frá arfleiðslunni með þeim hætti, sem honum hafði borið að gera, hafi hún á árinu 2005 látið ganga frá erfðaskrá, þar sem séreign sóknaraðila hafi verið staðfest. Varnaraðili, sem hafði allt frá árinu 1996 þekkt fyrirmæli arfleiðanda varðandi arfinn til sóknaraðila, verði að teljast bundinn af þeim á grundvelli 2. mgr. 37. gr. erfðalaga nr. 8/1962, beint eða með lögjöfnun. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. beri að framkvæma erfðaskrárákvæði, sem sannað sé að fyrir mistök eða misritun hafi orðið annars efnis en arfleifandi vildi, í samræmi við vilja arfleifanda, ef auðið er að staðreyna afleiðsluviljann. Óumdeilt sé að varnaraðili hafi veðsett [...], eftir sambúðarslit 2010, en fasteignin hafi þá nánast verið veðbandalaus og metin á 59,5 milljónir króna. Að teknu veðláni hafi varnaraðili greitt sóknaraðila 24,4 milljónir króna. Það fé hafi sóknaraðili notað til að kaupa [...]. Kaupverð [...], hafi verið 30 milljónir króna, þar af hafi ríflega fimm milljónir verið yfirteknar skuldir. Sóknaraðili hafi fengið fyrirframgreiddan arf árið 2010, sem hún hafi notað til endurbóta á [...], auk þess sem hún hafi notað tekjur sínar til að standa straum að kostnaði við þá eign. [...]sé því séreign sóknaraðila.

Sóknaraðili styður kröfur sínar um skáskipti við það að helmingaskipti [...] og [...] séu ósanngjörn, þar sem megineignarmyndun á hjúskapartímanum hafi orðið til vegna sölu sóknaraðila á 1,82% hlut í [...] sem sóknaraðili hafi erft eftir stofnun hjúskapar. Sóknaraðili hafi því á hjúskpartíma aðila flutt í búið verulega miklu meira en varnaraðili. Eingarhluturinn í [...] hafi átt að vera séreign sóknaraðila og um það hafi varnaraðila verið kunnugt, þar sem hann hafi veitt arfleifanda lögfræðiaðstoð við arfleiðsluna gegn gjaldi, en ekki farið að fyrirmælum hans. Þremur árum eftir arfleiðsluna hafi sóknaraðili og aðrir eigendur [...] selt landið fyrir 680 milljónir króna. Salan hafi skilað sóknaraðila um 12,2 milljónum nettó, þ.e. eftir greiðslu alls kostnaðar. Óumdeilt sé að sóknaraðili hafi lagt fé þetta í kaup á einbýlishúsinu að [...], sem keypt var 20. október 2000. Kaupverð [...] hafi verið 23,3 milljónir.

Sóknaraðili byggir á því að fyrir úrslit máls þessa skipti lengd hjúskapar aðila engu, þar sem í lögskýringargögnum með gildandi hjúskparlögum komi fram sá vilji löggjafans að rýmka skilyrði þess að heimila skáskipti við hjúskaparslit. Samkvæmt eldri reglu, sem var að finna í 57. gr. laga nr. 60/1972, hafi verið heimilt að víkja frá helmingaskiptareglu við hjúskaparslit, ef hjúskapur hafi staðið í stuttan tíma og ekki leitt til fjárhagslegrar samstöðu. Löggjafinn taldi reglu þessa of takmarkandi, og hafi því með 104. gr. hjúskaparlaga verið sett ákvæði um heimild til að halda utan skipta arfi og gjafafé sem öðru hjóna félli í skaut eftir hjúskaparstofnunina. Það hafi ekki verið ætlun löggjafans að tengja þessa nýju reglu hinum gömlu skilyrðum 57. gr. laga nr. 60/1972 um fjárhagslega samstöðu og lengd hjúskapar. Þvert á móti hafi tilgangur löggjafans verið að rýmka ákvæðið, eins og tekið sé fram í greinargerð með frumvarpinu.

Sóknaraðili byggir á því að við beitingu 104. gr hjúskaparlaga í máli þessu beri aðeins að líta til þess að sóknaraðili hafi lagt fram 12,2 milljónir króna til kaupa á [...]. Fé þetta hafi verið söluandvirði eignar sem hún hafði erft og sá arfur hefði átt að vera séreign sóknaraðila, eins og varnaraðila hafi verið fullkunnugt um. Af síðastgreindu leiði að bersýnilega sé ósanngjarnt gagnvart sóknaraðila að [...], komi til skipta með henni og varnaraðila samkvæmt helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga.  Sóknaraðili bendi á að 12,2 milljónir króna hafi verið liðlega 67% af þeim rúmlega 18 milljónum króna, sem greiddar hafi verið með peningum, öðru en lánsfé við kaupin á [...]. 

Sóknaraðili byggir á því að bæði sé óeðlilegt og ósanngjarnt að varnaraðili hagnist á helmingaskiptum þegar svo standi á sem í tilviki hennar og varnaraðila. Sóknaraðili byggir á því að  ákvæði síðari málsliðar 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga hafi átt að ná til tilvika eins og þeirra sem mál þetta snúist um.

Sóknaraðili bendir einnig á að við úrlausn máls þessa verði líka að horfa til þess að varnaraðila hafði, sem lögmanni arfleifanda, verið treyst fyrir því að ganga frá arfleiðslunni í samræmi við þann vilja arfleifanda að arfurinn yrði séreign sóknaraðila.

Þá verði við úrlausn máls þessa jafnframt að horfa til þess að móðir sóknaraðila hafði selt sóknaraðila og varnaraðila fasteign sína að [...], við lágu verði árið 1998. Þessa eign hafi þau selt á markaðsverði árið 2001 og hagnast verulega. Í raun hafi verið í þessu fólginn stuðningur móður við dóttur. Eignamyndun í íbúðarhúsnæði á hjúskapartíma aðila hafi því að stærstum hluta orðið til annars vegar vegna arfs, sem féll sóknaraðila í skaut, og hins vegar vegna hagstæðra fasteignaviðskipta við móður sóknaraðila.

Eins og kröfugerð sóknaraðila beri með sér sé þess einungis krafist að eignir sem aflað var eftir sölu eignarhluta sóknaraðila í [...], sem gerði aðilum kleift að eignast [...], verði haldið utan skipta. Ekki er gerð samsvarandi krafa af hálfu sóknaraðila varðandi aðrar eignir sem aðilar málsins eignuðst á meðan fjárhagsleg samstaða var með þeim og meðan hjúskapur þeirra varði.

Sóknaraðili gerir þá kröfu að námslán, sem varnaraðili tók til að standa straum af greiðslu skólagjalda við tvo erlenda háskóla, komi ekki til frádráttar við skiptin. Varnaraðili hafi stundað nám við [...] fyrir hjúskap, og árin [...] við [...]. Námslán varnaraðila séu því í þremur hlutum og sé höfuðstóll nýrri lána ósnertur og vex með verðbótum og vöxtum þar til eldri lán séu uppgreidd. Fjárhagur varnaraðila og sóknaraðila hafi í raun aldrei verið sameiginlegur og þegar sóknaraðili hafi stundað nám í [...]hafi hún verið með fjölskylduna á framfæri mestallan tímann.

Varnaraðili hafi sótt nám í [...]ári síðar, þ.e. [...], og verið með fjölskylduna á framfæri fyrstu fjóra mánuðina, en þá hafi sóknaraðili flutt með börnin til Íslands. Námslán varnaraðila hafi því að litlu leyti verið til framfærslu fjölskyldunnar. Meginþorri námslána varnaraðila felist í háum skólagjöldum hjá London [...] annars vegar og [...] hins vegar. Námslán séu tekin til öflunar „verðmæta“ sem ekki komi til skipta við slit hjúskapar. Skuldir sem verði til vegna öflunar „verðmæta“ sem ekki geta komið til skipta eigi ekki að draga frá verðmæti annarra eigna viðkomandi aðila við fjárslit vegna skilnaðar. Þetta eigi sérstaklega við um lán sem séu tekin vegna hárra skólagjalda. Fjárfesting varnaraðila vegna þekkingar úr dýru námi hafi skilað sér til hans frá því að sambúð lauk 2010 og hafi honum gengið vel frá þeim tíma með ráðgjafafyrirtæki sitt og hefur sóknaraðili í engu notið þess. Sóknaraðili hafi ekki haft sömu tækifæri til að afla jafn ríkulegra tekna. Það hljóti því að teljast ósanngjarnt að há námslán, sérstaklega vegna dýrra skólagjalda, komi til frádráttar hjúskapareign maka sem í engu fái notið þeirra verðmæta sem þau skópu og ætti að meta þau á móti framlegð í starfi m.v. núverandi stöðu, enda beint samhengi á milli verðmætaöflunar í dag og þeirrar fjárfestingar sem lagt var upp með þegar námslánin voru tekin.

Sóknaraðili krefst viðurkenningar á endurgjaldskröfu á hendur varnaraðila þar sem hann hefur rýrt hjúskapareign sína með því m.a. að viðhalda ekki verðmæti [...], eins og glöggt megi ráða af verðmati á eigninni, sem í dag sé verðmetin á aðeins 62,1 milljón króna.

Um lagarök vísar sóknaraðili m.a. til 99., 100., 101., 103., 1. og 2. mgr. 104. og 2. mgr. 107. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, 37. gr. erfðalaga nr. 8/1962, beint eða samkvæmt lögjöfnun. Um málskostnað er vísað til 129., sbr. 130., gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og varðandi virðisaukaskatt til laga nr. 50/1988.

Málsástæður og lagarök varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Varnaraðili krefst þess að helmingaskiptum verði beitt við skipti á búi aðila miðað við eignir og skuldir þegar sótt var um skilnað hjá sýslumanni þann [...]. Til vara er gerð krafa um að helmingaskiptum verði beitt við skipti á búi aðila miðað við eignir og skuldir þegar sótt var um skilnað hjá sýslumanni [...]með því fráviki að varnaraðili yfirtaki öll hlutabréf í [...]. við fjárskiptin miðað við innborgað hlutafé.

Jafnframt gerir varnaraðili kröfu um málskostnað úr hendi sóknaraðila auk virðisaukaskatts.

Varnaraðili hafnar öllum framkomnum kröfum sóknaraðila í málinu og vísar til megin­reglna 6. og 103. gr. hjúskaparlaga um helmingaskipti, svo og þeirra reglna skiptaréttarins sem snúa að fjárskiptum á búi við skilnað. Í XIV. kafla hjúskaparlaga nr. 31/1993 sé ítar­lega greint frá því með hvaða hætti fjárskipti við skilnað skulu fara fram. Meðal annars sé ljóst að miða skuli fjárskipti við eignir og skuldir aðila þann dag er fyrst var leitað til sýslu­manns vegna skilnaðar.

Kröfugerð sóknaraðila sé enn fremur svo óskýr að erfitt er fyrir varnaraðila að átta sig á henni og því hljóti að koma til skoðunar hjá dómara að vísa einstaka kröfum frá dómi ex officio með vísan til 80. gr. laga um meðferð einkamála.

Kröfu sóknaraðila um að aðallega verði viðurkennt að við fjárskipti sóknaraðila og varnaraðila skuli teljast sem séreign sóknaraðila 52,36% fasteignarinnar [...], og allt sem komið hefur í stað þess, þar með talin öll fasteignin að [...], sé mótmælt. Rökin fyrir þessari kröfu séu þau að peningar fyrir þessum kaup­um hafi verið arfur sem hún hafi fengið og hafi skv. fyrirmælum arfláta átt að vera séreign hennar í hjúskap.

Kröfu sóknaraðila um að til vara sé þess krafist að við fjárslit aðila verði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga og sóknaraðila verði heimilað að taka að óskiptu eftirtaldar eignir: a. 52,36% fast­eign­arinnar [...], b. alla fasteingina að [...], sé mótmælt.

Kröfu sóknaraðila um að til þrautavara sé þess krafist að við fjárslit aðila verði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga og sóknaraðila verði heimilað að taka að óskiptu fasteignina að [...], sé mótmælt.

Varnaraðili kveður að framangreindar kröfur eigi ekki við nein rök að styðjast þar sem forsenda þeirra allra sé arfur sem sóknaraðili hafi fengið greiddan fyrir fram mörgum árum fyrir skilnað og eigi nú að standa utan skipta með einhverjum hætti. Þessu sé hafnað, enda hafi umræddur arfur ekki verið kvaða­bundinn sem séreign sóknaraðila. Það sé rangt að við arfgerninginn 1996 hafi komið fram vilji móður sóknaraðila um séreign.

Það sé fyrst núna, um sex árum eftir að þau hjónin hafi óskað eftir skilnaði að borði og sæng, um níu árum eftir að þau slitu samvistir og 23 árum eftir umræddan fyrirframgreiddan arf, að sóknaraðili setur fram þá fullyrðingu eða skoðun sína að varnaraðili hafi með einhverjum hætti vanrækt að bregðast við meintri ósk móður sóknaraðila um að hinn fyrirframgreiddi arfur skyldi vera séreign sóknaraðila. Varnaraðili sé furðulostinn yfir þessum málflutningi og hafnar þessum ásök­unum. Með sama hætti hafi aldrei komið fram vilji hjá foreldrum varnaraðila að framlög þeirra til aðila ættu að vera séreign, né hafi nokkru sinni komið fram vilji hjá aðilum sjálfum um að einhver tiltekinn hluti eigna þeirra ætti að vera séreign.

Með hliðsjón af þessu og því hvernig aðilar blönduðu saman fjárhag sínum allt sambúðar- og hjúskapartímabil þeirra, 1993-2010, sé enginn vafi um að eignir þeirra séu allt hjúskapareignir. Þarna hafi verið um að ræða árs sambúð (1993-94) og síðan nítján ára hjónaband (1994-2013) þar til sótt var um skilnað að borði og sæng. Á þessu samtals tveggja áratuga tímabili blönduðust fjármunir hjónanna allt tímabilið 1993-2010, bæði vegna almennrar framfærslu fjölskyldunnar, ferðalaga, kaupa á húsgögnum, greiðslu trygginga, svo og vegna margs konar viðskipta á þessu langa tímabili. Þar megi nefna kaup á ýmsum hluta­bréfum og verðbréfum, kaup á bifreiðum, alls sex bílum, meðan á hjónabandinu stóð, kaup á nokkrum fasteignum, auk hárra fjárhæða í afborganir lána allan þennan tíma.

Sóknaraðili byggi á því að meta eigi tiltekinn gerning fyrir 23 árum sem séreign hennar og/eða að sanngirnisrök eigi að leiða til frávika frá helmingaskiptareglu henni til handa. Þessu sé alfarið hafnað. Staðreyndin sé sú að allt sambúðartímabil hjón­anna árin 1993-2010 hafi þau blandað fjárhag sínum saman og hafi ekki tilgreint neinn hluta sem séreign. Það sé einnig rangt sem lögmaður sóknaraðila fullyrði að óumdeilt sé að sókn­ar­aðili hafi lagt fram tilteknar 12,2 milljónir til kaupa á [...]. Á þessu langa tímabili (þ.m.t. allt tímabilið 1999-2010) hafi hjónin stundað, eins og áður sagði, margs ­konar viðskipti með fasteignir, verðbréf, bíla o.s.frv. og höfðu engan aðskilnað á því hvað laun þeirra fóru í og sérgreindu ekki með neinum hætti hver það var sem greiddi afborg­anir lána eða greiddi upp há lán. Útilokað sé að rekja greiðslur eða fjármálagerninga þeirra hjóna, hvort sem er 17 ár (1993-2010) eða 11 ár (1999-2010) aftur í tímann, og slá því föstu að fyrirframgreiddur arfur upp á u.þ.b. 900 þúsund árið 1996 liggi í dag óhreyfður eða lítt hreyfður sem miklu meiri verðmæti í tiltekinni eða til­tekn­um fast­eign­um. Hið rétta sé að hjónin hafi bæði lagt fram margvísleg verðmæti og öll sín laun í sam­eigin­legan fjárhag sinn í hjónabandi sem stóð lengi yfir. Ekki séu fyrir hendi aðstæður sem kalli á að víkja skuli frá helmingaskiptum.

Niðurstaða þessa máls hljóti að vera sú að ekki sé tilefni til að verða við kröfum sóknaraðila um séreign og ekki felst nein sanngirni í öðru en helmingaskiptum.

Sóknaraðili krefst þess að við skipti aðila verði því hafnað að draga frá hjúskapareign varnaraðila skuld hans við Lánasjóð íslenskra námsmanna eins og hún var [...], eða aðra og lægri fjárhæð. Þessu sé hafnað, enda séu skuldir við LÍN hluti af skuldum sem koma til skipta í hjúskap eins og hverjar aðrar skuldir og dragist frá eignum maka eftir því sem segir í 100. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Þessi krafa gangi því gegn ákvæði 100. gr. hjúskaparlaga. 

Þar sem helmingaskiptareglan sé meginregla við hjúskaparslit þurfi eitthvað til að koma svo að hægt sé að víkja frá henni. Annaðhvort verði aðilar að hafa sammælst um slíkt eða ákvæði hjúskaparlaga að heimila slík frávik. Ekkert slíkt sé til staðar hér. Hvorki sé sam­komu­lag um skáskipti, kaupmáli til staðar né neitt tilefni vegna sanngirnissjónarmiða fyrir dóminn að fallast á slíkt, hvorki með vísan til 102. gr. hjúskaparlaga né 104. gr. laganna.

Sóknaraðili krefst þess að viðurkennd verði endurgjaldskrafa hennar á hendur sóknaraðila samkvæmt 2. mgr. 107. gr. laga nr. 31/1993 vegna verðmætisrýrnunar [...], frá því að varnaraðili fékk umráð eignarinnar árið 2010.

Varnaraðili kveður þessa kröfu svo óljósa og óskýra að engin leið sé að átta sig á því hvernig hægt sé að verða við henni. Sóknaraðili hefur ekki tiltekið hvaða skortur á viðhaldi það er sem hún vísar þarna til né hefur hún tiltekið eða rökstutt um hvaða fjárhæð er þarna að ræða. Því hlýtur að verða að vísa þessari kröfu frá ex officio.

Varnaraðili hefur allt frá sambúðarslitum 2010 verið í góðri trú um að fasteignin [...] kæmi í hans hlut við fjárskiptin og að um það hafi verið samið munnlega milli aðila strax árið 2010 og að fasteignin [...] kæmi í hlut sóknaraðila. Af þeim sökum hafi varnaraðili ekki fylgst með ástandi eða mögulega nauðsynlegu viðhaldi á [...] og geti því ekki á þessu stigi metið hvort eðlilegt sé að gera kröfu á sóknar­aðila vegna mögulega vanrækts viðhalds á þeirri fasteign. Af sömu ástæðu hefur varnar­aðili aldrei af fyrra bragði rætt mögulegt nauðsynlegt viðhald á fasteigninni [...] við sóknaraðila. Því sé þess krafist að þessari kröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi.

Um lagarök að öðru leyti en að framan er greint vísar varnaraðili til hjúskaparlaga nr. 31/1993, einkum 6. og 103. gr., svo og XIV. kafla þeirra í heild sinni svo og XIV. kafla laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991. Um málskostnað er vísað til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 svo og laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Forsendur og niðurstaða.

Sóknaraðili máls þessa krefst þess að við opinber skipti til fjárslita milli aðila skuli teljast til séreignar sóknaraðila 52,36% fasteignarinnar að [...] og allt það sem hefur komið í stað hennar, þar með talin öll fasteignin að [...].

             Þegar aðilar máls þessa gengu í hjúskap á árinu 1994 giltu hjúskaparlög nr. 31/1993 um eignir þeirra. Enginn kaupmáli var gerður um eignir þeirra og voru því eignir og skuldir sem þau færðu í búið hjúskapareign þeirra. Þar á meðal var íbúðin að [...], sem þau höfðu keypt árinu áður á 7.900.000 krónur. Var framlag þeirra 2.995.349 krónur auk þess að yfirtaka áhvílandi lán að eftirstöðvum 4.904.651 króna. Á árinu 1996 greiddi móðir stefnanda börnum sínum út fyrirframgreiddan arf og var hlutur stefnanda 802.909 krónur sem nam 1,82% eignarhluta í [...]. Engin gögn liggja fyrir um það að sóknaraðili hafi látið þá fjármuni renna sérstaklega til séreignarmyndunar eða aðilar hafi gert kaupmála þar um.

            Þann 6. janúar 1998 fóru fram makaskipti á íbúð aðila máls þessa og móður sóknaraðila þannig að sóknar- og varnaraðili keyptu raðhúsið af móður sóknaraðila að [...] á 10.800.000 krónur og móðir sóknaraðila keypti íbúðina við [...]. Engin gögn liggja fyrir í málinu um hvert söluverð íbúðarinnar við [...] var og að hvaða leyti eign sóknar- og varnaraðila í íbúðinni var sem greiðsla upp í raðhúsið. Sóknaraðili hefur haldið því fram að raðhúsið hafi verið selt á undirverði en engin gögn hafa verið lögð fram um verðgildi hússins á þeim tíma sem það var selt. Gegn mótmælum varnaraðila verður að hafna þessari málsástæðu sóknaraðila.

            Þann 19. janúar 1999 seldi sóknaraðili 1,82% hluta sinn í [...] og var söluverð landsins 680.000.000 króna. Samkvæmt því hefur sóknaraðili fengið tæplega 12.400.000 krónur fyrir sinn hlut.

            Í október 2000 keyptu aðilar einbýlishús að [...] fyrir 23.300.000 krónur. Þá seldu þau raðhús sitt við [...] ogi í júlí 2001 fyrir 16.900.000krónur. Var nettóeign þeirra í [...] við söluna 8.649.274 krónur en nettóeign þeirra við kaupin á [...] 18.181.130 krónur. Í öllum tilvikum voru bæði sóknar- og varnaraðili kaupendur eða seljendur að 50% hluta þeirra fasteigna sem þau fjárfestu í.

            Á framangreindu tímabili voru bréfaskriftir á milli varnaraðila og lögmanns móður sóknaraðila svo og lögmanns hennar um ýmis uppgjör vegna framangreindra viðskipta sem hún kom að. Þá er óumdeilt að varnaraðili, sem er lögfræðingur, vann fyrir móður sóknaraðila við gerð erfðafjárskýrslna, sölu á [...] og fleira á árunum 1996 til 1999.

            Ekkert er í gögnum málsins á öllu framangreindu tímabili um að fyrirframgreiddur arfur til sóknaraðila hafi átt að vera séreign hennar. Þvert á móti verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að sá arfur sem greiddur var út á þessu tímabili hafi farið inn í sameiginlegan fjárhag aðila án þess að vera að neinu leyti sundurgreindur, s.s. með auknum eignarhluta sóknaraðila í fasteignum sem þau keyptu. Þá var í bréfaskriftum á milli lögmanna aðila aldrei minnst á að fyrirframgreiddur arfur til sóknaraðila ætti að vera séreign hennar.

            Sóknaraðili byggir kröfu sína um að séreign hennar eigi að grundvallast á fyrirframgreiddum arfi frá móður hennar. Byggir hún á því að varnaraðili, sem hafi verið lögfræðilegur ráðgjafi móður hennar, hafi átt að setja séreignarkvöðina inn í erfðaskrá sem móðir hennar gerði á árinu 1996. Varnaraðili hafi ekki farið að fyrirmælum móður sóknaraðila þá, þar sem hann hafi látið undir höfuð leggjast að ganga frá erfðaskrá sem kvæði á um að arfurinn og allt sem í stað hans kæmi skyldi vera séreign sóknaraðila. Engin gögn hafa verið lögð fram þessu til staðfestu né erfðaskrá frá árinu 1995 eða 1996. Þá byggir sóknaraðili á yfirlýsingu löggilts endurskoðanda móður sóknaraðila frá 25. febrúar 2016 þar sem fram kemur að það hafi verið vilji móður sóknaraðila þegar hún gerði erfðaskrá 1995 að þar kæmi fram að allur arfur til skylduerfingja hennar, barna og barnabarna, yrði séreign þeirra. Erfðaskrá frá árinu 1995 liggur ekki fyrir í málinu og hefur tilvitnað skjal enga þýðingu við úrlausn máls þessa. Gegn mótmælum varnaraðila er ósannað að hann hafi átt að setja í erfðaskrá móður sóknaraðila á árinu 1995 umþrætt séreignaákvæði.

Samkvæmt 77. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 skulu ákvarðanir um að arfur sé sér­eign vera í erfðaskrá. Þann 2. september 2005 undirritaði móðir sóknaraðila erfðaskrá þar sem fram kemur að allur arfur til skylduerfingja hennar, barna og barnabarna skuli verða séreign þeirra. Var erfðaskráin vottuð af tveimur arfleiðsluvottum svo og af lögbókanda.

            Telur dómurinn að allt fram að þeim tíma er erfðaskráin var undirrituð 2. september 2005 hafi það verið vilji beggja aðila að eignir sem komu í bú þeirra hafi átt að vera hjúskapareign en engin gögn bera það mér sér að fyrirframgreiddur arfur hafi átt að vera séreign sóknaraðila. Gildir því 54. gr. laga nr. 31/1993 um þær eignir sem voru til í búi aðila allt til 2. september 2005.

            Eins og rakið er að framan hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að framlag hennar við eignamyndun á sambúðartímanum til 2. september 2005 hafi átt að vera séreign hennar, hvorki samkvæmt erfðaskrá né samningi aðila. Þá getur erfðaskráin sem móðir sóknaraðila undirritaði þann dag ekki haft afturvirk áhrif á réttarstöðu aðila, hafi þeir ekki samið svo sérstaklega um sjálfir. Gegn mótmælum varnaraðila verður ekki fallist á það með sóknaraðila að 52,63% hlutur fasteignarinnar að [...] teljist til séreignar hennar við fjárslit á búi þeirra. Að þeirri niðurstöðu fenginni verður ekki byggt á 75. gr. laga nr. 31/1993 um að verðmæti sem komi í stað séreignar,verði einnig séreign.

            Sóknaraðili krefst þess til vara, ef aðalkrafa hennar verður ekki tekin til greina, að við fjárskiptin verði 104. gr. hjúskaparlaga beitt þannig að sóknaraðila verði heimilt að taka 52,6% eignarinnar að [...] og alla fasteignina að [...]utan skipta. 

            Eins og rakið er að framan hefur dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að ósannað sé að sóknaraðili hafi lagt til við kaup á [...] meiri fjármuni en varnaraðili eða að hlutur hennar við sölu á [...] hafi farið til kaupa á fasteigninni.

Á árinu 2010 ákváðu aðilar að slíta samvistir og festi sóknaraðili kaup á fasteign að [...]. Var kaupverðið 30.000.000 króna. Tók varnaraðili lán að fjárhæð 24.200.000 krónur í þeim tilgangi að greiða sóknaraðila helmingshlut hennar í fasteign aðila að [...] sem varnaraðili bjó í en sóknaraðili flutti í [...]. Var lánið tryggt með veði í [...]. Í lok þess árs fékk sóknaraðili fyrirframgreiddan arf að fjárhæð 1.000.000 króna sem hún kveðst hafa nýtt í viðhald á [...] og endurbætur. Því hefur ekki verið haldið fram að sóknaraðili standi straum af afborgunum vegna lántöku við kaup á [...].

Samkvæmt 53. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 skiptast eignir hjóna í hjúskapareignir og séreignir sem geta verið samningsbundnar eða lögmæltar. Samkvæmt 54. gr. s.l. verður eign maka hjúskapareign nema sérstakar heimildir standi til annars. Á þetta við um eignir sem maki flytur í búið við hjúskaparstofnun eða öðlast síðar og gegnir einu með hverjum hætti eignar er aflað að lögum. í 55. gr. s.l. segir að séreign geti myndast með kaupmála hjóna eða hjónaefna, sbr. 74., 75. og 76. gr., eða fyrir ákvörðun gefanda eða arfleiðanda, sbr. 77. gr. Þá geti séreign verið lögmælt, sbr. 94. gr. svo og ákvæði annarra laga þar um. Í 77. gr. s.l. segir að gefandi eða arfleiðandi geti ákveðið að gjöf eða arfur, þar á meðal skylduarfur, skuli vera séreign í hjúskap gjafþega eða erfingja með því efni er greinir í 74. gr. Í 75. gr. s.l. segir að verðmæti, sem komi í stað séreignar, verði einnig séreign, svo og arður af þessum verðmætum, nema annars sé getið í kaupmála eða í fyrirmælum gefanda eða arfleifanda.

            Í 104. gr. laga nr. 31/1993 segir að víkja megi frá reglum um helmingaskipti og ákvæðum um skipti á séreign ef skipti yrðu að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna. Eigi þetta einkum við þegar tekið sé tillit til fjárhags hjónanna og lengdar hjúskapar, svo og ef annað hjóna hefur flutt í búið verulega miklu meira en hitt við hjúskapastofnun eða hefur síðar erft fé eða fengið það að gjöf frá öðrum en maka sínum.

            Aðilar skildu að borði og sæng á árinu 2013. Eins og rakið er að framan hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að fasteignin að [...] hafi verið fjármögnuð af henni umfram varnaraðila. Ágreiningslaust er að varnaraðili fjármagnaði með lántöku stærsta hluta eignarinnar [...]. Ekkert hefur komið fram í málinu um að sanngirni mæli með því að vikið verði frá helmingaskiptareglu hjúskaparlaga og skáskiptum beitt varðandi þessar eignir búsins. Gegn mótmælum varnaraðila verður þessari kröfu sóknaraðila því hafnað.

Til þrautavara krefst sóknaraðili þess að við fjárslit aðila verði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga og sóknaraðila verði heimilað að taka að óskiptu fasteignina að [...].

Að fenginni niðurstöðu í aðal- og varakröfu sóknaraðila hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að hún hafi fjármagnað umrædda fasteign umfram varnaraðila og að regla 103. gr. hjúskaparlaga eigi ekki við þannig að beita eigi 1. mgr. 104. s.l. við fjárskipti þeirra í millum. Þar segir að víkja megi frá reglum um helmingaskipti og ákvæðum um skipti á séreign ef skipti yrðu að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna. Eigi þetta einkum við þegar tekið sé tillit til fjárhags hjónanna og lengdar hjúskapar, svo og ef annað hjóna hefur flutt í búið verulega miklu meira en hitt við hjúskaparstofnun eða hefur síðar erft fé eða fengið það að gjöf frá öðrum en maka sínum.

Samkvæmt gögnum málsins og skattframtölum aðila fyrir árin 2009 til 2015 hafa tekjur aðila verið sambærilegar. Þá fóru báðir aðilar í framhaldsnám og menntuðu sig. Nokkrar eignir eru til í búi aðila en aðilar voru gift í 19 ár. Á þeim tíma myndaðist fjárhagsleg samstaða milli þeirra og hefur ekki verið sýnt fram á það að sóknaraðili hafi flutt í búið verulega miklu meiri eignir eða fé en varnaraðili við hjúskaparstofnun eða síðar erft fé eða fengið það að gjöf frá öðrum en maka sínum sem máli skiptir við fjárhagsuppgjör aðila. Sá fyrirframgreiddi arfur sem sóknaraðila hefur tæmst á sambúðartímanum, samkvæmt gögnum málsins, er 802.909 krónur eða 1,82% í [...] 18. mars 1996. Engin gögn staðfesta það þó sérstaklega utan viljayfirlýsing arfleifanda í erfðafjárskýrslunni um að það sé hluti hennar í landinu. Þá fékk sóknaraðili 1.000.000 króna 30. desember 2010. Verður ekki talið að um sé að ræða verulega mikið  fé í ljósi eignastöðu aðila við sambúðarslit og skilnað að borði og sæng. Þá er fullyrt af varnaraðila að foreldrar hans hafi styrkt aðila við fyrstu íbúðarkaupin en engin gögn eru því til staðfestu frekar en ákvörðun um séreignir sóknaraðila. Verður þessari málsástæðu sóknaraðila því hafnað. Telur dómurinn sóknaraðila ekki hafa sýnt fram á að skilyrði 104. gr. hjúskaparlaga séu uppfyllt svo og að sanngirnisrök mæli með því að [...] sé haldið utan skipta.

Sóknaraðili krefst þess að við skipti aðila verði því hafnað að draga frá hjúskapareign varnaraðila skuld hans við Lánasjóð íslenskra námsmanna eins og hún var 4. mars 2013, eða aðra og lægri fjárhæð. Ekkert í gögnum málsins sýnir um hvaða námsskuldir er að ræða. Einu gögnin sem staðfesta að skuldir við Lánasjóð íslenskra námsmanna séu fyrir hendi eru skattframtöl aðila. Á skattframtali aðila fyrir tekjuárið 2013 kemur fram að eftirstöðvar skuldar við LÍN vegna skuldabréfs nr. [...] séu 5.867.917 krónur. Eftirstöðvar skuldar við LÍN vegna skuldabréfs nr. [...] séu 1.923.718 krónur og skuld við LÍN, skuldabréf nr. [...], sé að eftirstöðvum 5.703.269 krónur. Engin frekari gögn styðja þessa kröfu sóknaraðila og er hún í andstöðu við 80. gr. laga nr. 91/1991. Er krafan svo vanreifuð að vísa ber henni frá dómi ex officio.

Að lokum krefst sóknaraðili þess að viðurkennd verði endurgjaldskrafa hennar á hendur varnaraðila samkvæmt 2. mgr. 107. gr. laga nr. 31/1993 vegna rýrnunar verðmætis [...], frá því að varnaraðili fékk umráð eignarinnar árið 2010. Þessari kröfu er hafnað af hálfu varnaraðila.

Í gögnum málsins liggur fyrir söluyfirlit vegna [...] frá 23. október 2009. Var áætlað markaðsverð eignarinnar 59.500.000 krónur, brunabótamat 48.850.000 krónur og fasteignamat samtals 48.200.000 krónur. Þá liggur fyrir verðmat vegna sömu eignar frá 9. maí 2016. Var söluandvirði hússins þá sagt 62.100.000 krónur. Brunabótamat 59.350.000 krónur og fasteignamat samtals 59.850.000 krónur. Engin önnur gögn hafa verið lögð fram í máli þessu sem endurgjaldskrafan getur grundvallast á. Er krafan því ódómtæk og ber að vísa henni frá dómi ex officio.

Í síðari ágreiningi aðila sem barst dóminum þann 11. janúar sl. var ágreiningur um það hvort víkja eigi frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 með heimild í 1. mgr. 104 gr. sömu laga og sóknaraðila heimilað að taka að óskiptu 52,6% fasteignarinnar [...] og alla fasteignina að [...].

Er krafa þessi byggð á sömu forsendum og varakrafa í fyrri ágreiningi aðila, þ.e. að byggja eigi á því að sóknaraðili hafi lagt fram séreign sína, 12,2 milljónir króna, til kaupa á [...]. Er krafa þessi efnislega sú sama og varakrafa sóknaraðila í aðalkröfu. Er vísað til fyrri rökstuðnings við úrlausn þeirrar kröfu.

Samkvæmt öllu framangreindu virtu er öllum kröfum sóknaraðila hafnað utan þeirra sem vísað er frá dómi.

                    Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða dómsins að um skipti á búi aðila skuli fara eftir helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 samkvæmt kröfu varnaraðila.

          Að þessum niðurstöðum fengnum ber sóknaraðila að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.  

          Ástríður Grímsdóttir  héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

 

Úrskurðarorð:

Kröfu sóknaraðila um að viðkennt verði, við fjárskipti sóknar- og varnaraðila, að 52,36% fasteignarinnar að [...] og allt sem komið hefur í stað eignarinnar, þar með talin öll fasteignin að [...], skuli vera séreign sóknaraðila, er hafnað.

Kröfu sóknaraðila um að við fjárslit aðila verði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga og sóknaraðila verði heimilað að taka að óskiptu 52,36% fasteignarinnar [...], og alla fasteignina að [...], samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga utan skipta, er hafnað.

Kröfu sóknaraðila um að vikið verði frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga og sóknaraðila verði heimilt að taka að óskiptu fasteignina að [...] er hafnað.

Kröfu sóknaraðila um að skuld varnaraðila við Lánasjóð íslenskra námsmanna, eða lægri fjárhæð, verði ekki dregin frá hjúskapareign aðila við fjárskipti þeirra er vísað frá dómi.

Kröfu sóknaraðila um að viðurkennd verði endurgjaldskrafa hennar á hendur varnaraðila skv. 2. mgr. 107. gr. laga nr. 31/1993 er vísað frá dómi.

            Sóknaraðili greiði varnaraðila 400.000 krónur í málskostnað.