• Lykilorð:
  • Hjón
  • Ógilding samnings
  • Samningur

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 4. október 2018 í máli nr. E-1288/2017:

A

(Herdís Þorgeirsdóttir lögmaður)

gegn

B

(Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður)

 

Mál þetta var þingfest 13. desember 2017 og tekið til dóms 7. september sl. Stefnandi er A, […], […], en stefndi er B, […], […].

Stefnandi gerir þær dómkröfur að samningur um skilnaðarkjör vegna fjárskipta aðila við skilnað þeirra að borði og sæng, dagsettur 20. janúar 2015, og staðfestur af sýslumanni sama dag, verði felldur úr gildi. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu og málskostnaðar.

I

Málsaðilar, sem eru frá Litháen, gengu í hjónaband 31. desember 2005. Þau eiga tvö börn, fædd 2008 og 2011. Þau fengu leyfi til skilnaðar að borði og sæng 23. janúar 2015. Samningur þeirra um fjárskipti er dagsettur 20. janúar 2015 og með málsókn þessari krefst stefnandi ógildingar á samningnum.

Stefnandi segir að á meðan á hjúskap þeirra stóð hafi það komið í hlut hennar að annast um börnin meðfram því sem hún hafi unnið við ræstingar á Hrafnistu og stundum á gistiheimili um helgar. Stefndi hafi m.a. unnið við að kaupa bíla, gera þá upp og selja. Auk þess hafi hann unnið sem iðnaðarmaður við hellulagnir, smíði o.fl. Þann tíma sem aðilar voru í hjúskap hafi þau skipt reikningum heimilisins alveg til helminga, þ.m.t. afborgunum af áhvílandi lánum vegna kaupa á 144 fm parhúsi að […]. Þau hafi verið með sinn bankareikninginn hvort og stefnandi borgað alla reikninga til helminga á við gagnaðila þótt hún hefði mun lægri tekjur. Leikskólagjöld og önnur útgjöld vegna barnanna hafi komið í hennar hlut að greiða. Síðustu ár hjúskapar hafi stefndi verið hættur að skipta sér af fjölskyldu sinni og látið stefnanda alfarið um að axla ábyrgð á börnum þeirra.

Hinn 12. ágúst 2014 hafi skilnaðarmál aðila verið tekið fyrir hjá sýslumanninum í […] þar sem óskað hafi verið skilnaðar að borði og sæng. Ekki hafi verið lagður fram samningur um skilnaðarkjör. Málinu hafi verið frestað og aðilum bent á að óska eftir nýjum tíma hjá fulltrúa sýslumanns þar sem þau myndu mæta ásamt túlki sem þau skyldu útvega sjálf. Stefnandi tali hvorki né skilji íslensku.

Stefndi hafi ekki sinnti framfærsluskyldu sinni gagnvart fjölskyldunni um árabil og ekkert fé látið af hendi rakna til stefnanda eða barnanna eftir samvistarslit. Stefnandi hafi reynt að vinna einnig um helgar til að fá aukatekjur. Hún hafi hvorki getað farið til tannlæknis sjálf né með börnin vegna fjárskorts. Þá hafi fjárhagur hennar ekki leyft að börnin stunduðu tómstundir eða fengju nokkuð umfram brýnustu nauðsynjar. Það hafi því skipt stefnanda miklu máli að fá úrskurð um að stefndi greiddi meðlag með börnunum.

Hinn 20. janúar 2015 hafi aðilar mætt hjá sýslumanni og hafi stefndi þá verið tilbúinn með samning um skilnaðarkjör og með lögfræðing með sér. Stefnandi hafi ekki haft ráð á að fá túlk sér til aðstoðar. Stefnandi hafi verið aðþrengd vegna fjárhagserfiðleika, félagslega einangruð, sjálfsmat hennar skert og hún kviðið framtíðinni. Einu tekjurnar hafi verið fyrir ræstingar á […]. Stefnandi hafi því séð þann eina kost í stöðunni að ganga að þeim kjörum sem gagnaðili lagði til. Í samkomulagi aðila sé stefnda gert að greiða einfalt meðlag með börnunum en nær allar eignir búsins komi í hans hlut, þ.e. fasteignin að […] með áhvílandi lánum og fjórar bifreiðar af fimm sem ekkert verðmat fylgdi. Stefnandi skyldi fá eina af þremur Mercedes Benz bifreiðum búsins. Þá bifreið hafi hún ekki fengið afhenta, heldur tíu ára gamla Renault-bifreið, árgerð 2005, sem metin sé á 90.000 kr. í skattframtali 2016. Samkvæmt samningi aðila skyldi stefndi yfirtaka áhvílandi lán, rúmlega 28.000.000 króna, sem hafi verið tæpum fjórum milljónum króna lægra en fasteignamat hússins. Engar upplýsingar hafi legið fyrir um markaðsverð fateignarinnar eða lausafjármuna.

II

Stefndi lýsir atvikum svo að það sé ekki rétt að aðilar hafi skipt útgjöldum til helminga á sambúðartíma. Staðreyndin sé sú að stefndi hafi borið hitann og þungann af öllum útgjöldum og rekstri heimilisins. Er fasteignin að […] var keypt í júlí 2006 hafi stefndi t.d. lagt alfarið út fyrir því sem vantaði upp á til viðbótar láni sem aðilar tóku en fasteignin hafi verið skráð á nafn beggja aðila. Kaupverð eignarinnar hafi verið 23.500.000 krónur og lán, sem aðilar hafi tekið til þess að fjármagna kaupin, hafi verið var skráð á nafn beggja aðila.

Húsið að […] hafi verið byggt árið 2006. Eignina hafi verið hægt að fá afhenta fokhelda eða tilbúna undir tréverk. Aðilar hafi valið að fá hana afhenta tilbúna undir tréverk. þ.e. án allra innréttinga, gólfefna og innanhússfrágangs að öllu verulegu leyti. Ætla megi að kostnaðurinn við að fullgera slíka eign sé að lágmarki 100.000 krónur hver fermetri. Eftir að aðilar fengu eignina afhenta hafi stefndi unnið baki brotnu við að fullgera eignina. Hann hafi lagt til alla þá fjármuni sem fóru í það sem og vinnu. Þessa sé einskis getið í stefnu málsins. Við þetta hafi verðmæti eignarinnar aukist. Eftir efnahagshrunið haustið 2008 hafi hins vegar markaðsverð eignarinnar lækkað en áhvílandi lán hækkað. Hafi aðilar lent í erfiðleikum með að standa í skilum.

Ekki sé rétt að stefndi hafi alfarið látið stefnanda um ábyrgð á börnum þeirra en vissulega hafi meirihluti þeirra skyldna lent á stefnanda þar sem stefndi hafi unnið gríðarlega mikið til að sjá fjölskyldunni farborða auk þess að vinna að fasteign fjölskyldunnar. Samvistir aðila vegna þessara anna, m.a. við að sjá fjölskyldunni farborða, hafi minnkað og það mögulega átt stærstan þátt í að aðilar slitu samvistum í maí 2014.

Við fyrirtöku skilnaðarmálsins hjá sýslumanni 12. ágúst 2014 hafi aðilum verið bent á að til að fá leyfi til skilnaðar að borði og sæng þyrftu þau að leggja fram samkomulag um skilnaðarkjör, þar á meðal um skipan forsjár og umgengni við börnin, sem og um fjárskipti. Aðilar hafi rætt málið og komist að þeirri niðurstöðu að farsælast væri að þau fengju sér sameiginlegan lögmann. Vinnufélagi stefnda hafi bent honum á að tala við C hdl., en stefndi hafi ekki þekkt til lögmannsins. Þau hafi bæði farið á fund lögmannsins í því skyni að fá hann til að ganga frá samningi um skilnaðarkjör í samræmi við þeirra hugmyndir. Stefnandi hafi fundað mest með lögmanninum en stefndi lítið. Aðilar hafi verið sáttir um efni skilnaðarsamningsins frá upphafi. Stefnandi hafi lýsti því strax yfir að hún hygðist flytja af landi brott til síns heimalands og að hún vildi taka börn þeirra með. Stefndi hafi hins vegar ætlað að búa áfram á Íslandi. Í ljósi hagsmuna beggja aðila, sem og barnanna, hafi farið svo að aðilar sömdu um að stefnandi fengi fulla forsjá beggja barna auk lögheimilis en stefndi umgengnisrétt. Fasteign búsins kæmi í hans hlut. Sú ákvörðun hafi einnig átt sér þá skýringu að stefndi hafði lagt til mest fé og vinnu vegna fasteignarinnar og hafi aðilum þótt best í ljósi allra atvika að ganga skyldi þannig frá málinu. Hvað varði bifreiðar, sem í hlut aðila komu, hafi þær allar verið nánast verðlausar og skipt litlu sem engu máli fyrir samninginn. Með samningnum hafi stefndi samþykkt að taka yfir allar áhvílandi skuldir en sem fyrr segi hafi skuldir verið að sliga aðila.

Aðilar hafi mætt með skilnaðarsamninginn til sýslumanns 20. janúar 2015. Því sé ranglega haldið fram í stefnu að stefndi hafi mætt þangað með sinn lögmann og það komið stefnanda á óvart því að í endurriti fyrirtökunnar sé bókað að aðilar hafi báðir mætt auk C hdl. og að hann væri mættur til að aðstoða málsaðila, þ.e.a.s. báða aðila. Því er mótmælt að stefnandi hafi ekki skilið efni samningsins þar sem hún tali ekki íslensku því í endurriti skýrslutökunnar sé bókað að fyrirtakan hafi farið fram á ensku að ósk aðila og þeir skilið það sem fram fór. Sýslumaður hafi gætt að leiðbeiningarskyldu sinni, sbr. endurritið. Í kjölfarið hafi aðilar gengið frá samningnum. Í ljósi framanritaðs séu engin efni til að fallast á kröfu stefnanda um ógildingu samningsins.

III

Stefnandi byggir kröfu sína á hendur stefnda annars vegar á meginreglum hjúskaparréttarins um fjárskipti hjóna og hins vegar á reglum fjármunaréttar um ógilda löggerninga, sérstaklega III. kafla samningalaga nr. 7/1936 með síðari breytingum. Stefnandi krefst þess að samningur sá er var staðfestur af sýslumanni hinn 20. janúar 2015 að því er varðar fjárskipti þeirra verði ógiltur með dómi, enda hafi sá þáttur samningsins bersýnilega verið ósanngjarn á þeim tíma er til hans var stofnað með vísan til 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og hafi hann gengið í berhögg við helmingaskiptareglu hjúskaparlaganna, sbr. 103. gr. Stefnandi byggir kröfu sína um ógildingu fyrst og fremst á því að skilnaðarsamningurinn sé tilkominn vegna misneytingar, sbr. 31. gr. samningalaganna, þar eð jafnræði hafi ekki verið með aðilum og stefndi hafi notfært sér þann aðstöðumun gróflega í ávinningsskyni sem sé ógildingarástæða samkvæmt 36. gr. sömu laga.

            Samkvæmt samningnum hafi nær allar eignir búsins komið í hlut mannsins, húseign með áhvílandi skuldum og fjórar bifreiðar af fimm. Í samningnum sé ekki getið um innbú eða önnur verðmæti er tengist atvinnustarfsemi stefnda. Ekkert verðmat hafi verið lagt á bifreiðarnar sem tilgreindar séu í samningnum. Hvað varði fasteignina hafi aðeins verið lagt til grundvallar fasteignamat en ekki mat fasteignasala á raunverulegu markaðsverði fasteignarinnar á þeim tíma er samningur var gerður. Áhvílandi skuldir hafi verið 28.200.000 krónur en fasteignamatið rúmar 32.000.000 króna. Markaðsverð á húseigninni í janúar 2015 samkvæmt mati fasteignasala hafi verið um 39.000.000 króna. Samkvæmt samningnum hafi stefndi yfirtekið áhvílandi skuldir. Skýr hjúskapareign beggja samkvæmt því séu rúmar 10.000.000 króna fyrir utan andvirði fimm bifreiða sem hvergi komi fram. Samkvæmt þessu sé ljóst að stefndi hafi fengið í sinn hlut 10.00.000-13.000.000 króna en stefnandi andvirði einnar bifreiðar sem metin sé á 90.000 krónur.

Á fundi með sýslumanni hinn 20. janúar 2015 hafi stefndi verið mættur með skilnaðarsamning og lögfræðing með sér og látið að því liggja að lögfræðingurinn yrði þeim báðum til aðstoðar. Stefnandi hafi ekki haft túlk og verið grandlaus gagnvart áformum stefnda. Hún hafði hrakist af heimilinu með tvö ung börn þeirra nokkrum mánuðum áður eftir að hafa búið við harðræði af hálfu stefnda árum saman. Stefndi hafi notfært sér bágindi stefnanda gróflega í ávinningsskyni. Hann hafi sjálfur búið í þægindum í húsi þeirra á meðan hún hafðist við í bílskúr með börnin og átti vart til hnífs og skeiðar. Í grandleysi sínu og basli hafi stefnandi horft til þess eins að með því að ganga frá skilnaðarsamningi fengi hún loks meðlag greitt með börnunum og gæti séð þeim fyrir nauðþurftum. Stefnandi hafi á þessu tímabili verið félagslega einangruð og örvæntingarfull. Hún hafi engan haft til að ráðfæra sig við, verið kvíðin vegna framtíðarinnar og með lítið sjálfstraust.

            Stefndi hafi einnig verið grandvís um fákunnáttu stefnanda og hafi nýtti sér reynsluleysi hennar í ávinningsskyni. Hvað varði efni samningsins sé hann alfarið runninn undan rifjum stefnda sem hafi notið aðstoðar lögmanns við gerð hans, enda ljóst að ef jafnræði hefði ríkt með aðilum hefði stefnandi aldrei samþykkt að gefa eftir nær alla sína hjúskapareign. Stefnandi sé ómenntuð, vinni við ræstingar, tali ekki íslensku og hafi ákveðið að ganga að samningnum í örvæntingu sinni. Stefnandi hafi ekki verið í stakk búin til að meta hvort fyrirliggjandi upplýsingar gæfu raunsanna mynd af skírri hjúskapareign hennar. Það segi sína sögu um ójafnræði aðila að stefnandi, sem hafi verið skráður lántaki fyrir megninu af áhvílandi skuldum, hafi ekki áttað sig á að verðmæti eigna var mun hærra en áhvílandi skuldir. Þótt nær þrjú ár séu liðin frá gerð samnings hafi stefndi ekki fært lánin yfir á sitt nafn. Stefndi greiði af ofangreindum lánum en hafi einhverra hluta vegna ekki fengið þau færð yfir á sitt nafn.

            Stefndi hafi notfært sér það að stefnandi var honum háð um framfærslu og hafi hún átt engra annarra úrkosta völ í því basli sem hún var í en að ganga frá fjárskiptum svo hún gæti brauðfætt börnin.

Þeir hagsmunir sem stefndi hafi haft af því að ljúka samningnum með þeim hætti sem gert var hafi verið verulegir. Hann hafi fengið húseignina í sinn hlut, fjórar bifreiðar og allt innbú og hvað það annað sem ekki komi fram í samningi en líkur bendi til að hafi verið til staðar sökum atvinnustarfsemi stefnda (tölva, verkfæri o.fl. tengt starfi hans). Stefndi hafi verið grandvís við samningsgerðina og mátt vera ljóst að verulegt misvægi var á milli þess ávinnings sem hann hafði af fjárskiptunum og þess lítilræðis sem kom í hlut konunnar.

Stefnandi telur að þau skilyrði sem verði að uppfylla samkvæmt ákvæði 31. gr. samningalaganna til að krefjast ógildingar séu til staðar og því óheiðarlegt að bera samninginn fyrir sig, sbr. 36. gr. sömu laga. Stefnandi vísar til 14. kafla hjúskaparlaga nr. 31/1933, sérstaklega 2. mgr. 95. gr. og 103. gr. Krafa um ógildingu á þeim kafla samningsins er varði fjárskipti byggist á 31. gr. laga nr. 7/1936 með síðari breytingum, sbr. einnig 36. gr. sömu laga. Einnig er vísað til skráðra og óskráðra meginreglna samningaréttar. Krafan um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyld og beri henni því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Varðandi varnarþing vísast til 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991.

IV

Stefndi byggir í fyrsta lagi á því að ákvæði 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 komi ekki til álita í málinu þar sem sá árs frestur, sem mælt sé fyrir um í lögunum um höfðun dómsmáls, sé liðinn. Í lagarökum í stefnu sé vísað til 95. gr. hjúskaparlaga, sbr. 103. gr., en stefndi telur þau ákvæði ekki koma til álita við úrlausn málsins. Komi því ekki til álita að leysa úr málinu m.t.t. þess hvort samningurinn hafi verið „bersýnilega ósanngjarn“, í skilningi 95. gr. hjúskaparlaga, og þar með hvort efnislegt inntak samningsins hafi verið ósanngjarnt. Verði því einungis leyst úr málinu á grundvelli almennra reglna sem gildi um fjármunaréttarsamninga, m.a. 31. gr. samningalaga, sem stefnandi vísi til, og fjalli um misneytingu.

Byggt er á því af hálfu stefnda að samningur aðila um skilnaðarkjör sé bindandi. Engin efni standi til þess að víkja frá meginreglu laga um skuldbindingargildi samninga og engin efni standi til að ógilda samning aðila um skilnaðarkjör. Aðilar hafi gengið af fúsum og frjálsum vilja frá skilnaðarsamningi þeim sem fyrir liggi undirritaður og staðfestur í málinu. Því sé alfarið hafnað að samningurinn sé „bersýnilega ósanngjarn“ eða aðrar ástæður geti leitt til ógildingar hans. Ekkert slíkt hafi verið leitt í ljós í málinu. Þvert á móti sé samningurinn sanngjarn fyrir báða aðila að öllu virtu. Sönnunarbyrðin um að samningurinn sé „bersýnilega ósanngjarn“ eða að hann skuli ógilda af öðrum ástæðum hvíli á stefnanda. Þá sönnunarbyrði hafi stefnandi ekki axlað.

Stefndi byggir á því að í fræðum og framkvæmd dómstóla sé viðurkennt að ekki dugi að benda á það eitt og sér að vikið hafi verið frá helmingaskiptareglu hjúskaparlaga því taka verði tillit til heildarsamnings aðila.

Í stefnu komi fram að stefnandi byggi kröfu sína „fyrst og fremst“ á því að skilnaðarsamningurinn sé tilkominn vegna misneytingar, ekki hafi verið jafnræði með aðilum og stefndi hafi notfært sér aðstöðumun gróflega í ávinningsskyni. Fyrir þessum fullyrðingum, sem séu rangar, hafi stefnandi sönnunarbyrði sem hún hafi ekki axlað. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á nokkurs konar misneytingu, né að ekki hafi verið jafnræði með aðilum eða aðstöðumunur. Svo sem rakið sé í málavaxtalýsingu hafi aðilar leitað sameiginlega til lögmanns um gerð skilnaðarsamnings þrátt fyrir fullyrðingar stefnanda um annað. Sá lögmaður hafi gætt hagsmuna beggja við gerð samningsins og kveði sjálfur að hann hafi raunar hitt konuna oftar en manninn. Enginn aðstöðumunur eða ójafnræði hafi því verið með aðilum. Athygli veki að stefnandi hafi ekki lagt fram endurrit úr hjónaskilnaðarbók sýslumanns frá 20. janúar 2015 en þar komi ýmislegt fram sem stangist á við málatilbúnað stefnanda.

Í stefnu sé fullyrt að nær allar eignir búsins hafi komið í hlut mannsins. Staðreyndin sé hins vegar sú að eina eign búsins, sem að einhverju marki gat talist hafa verðmæti, hafi verið fasteignin að […]. Allar bifreiðarnar, sem taldar séu upp í samningnum, hafi verið verðlausar. Engin þeirra sé lengur í umferð og sumar hafi verið óskráðar árum saman fyrir gerð samningsins. Í raun hafi verið um bílhræ að ræða sem hafi verið notuð í varahluti. Réttilega komi fram í stefnu að stefnandi hafi keypt bilaðar bifreiðar, lagfært þær og selt. Við fjárskipti aðila hafi hvor aðili um sig fengið eina gangfæra og skráða bifreið í sinn hlut. Í raun hafi stefndi verið að gera stefnanda greiða með því að taka á sig ábyrgð á þeim bifreiðum sem í hans hlut komu þar sem þessum bílhræjum hafi eingöngu fylgt kvaðir og kostnaður. Öðrum eignum hafi ekki verið til að dreifa utan innbús, sem aðilar hafi skipt með sér, þótt ekki sé getið um það í samningnum.

Fasteignin að […] hafi verið tilbúin undir tréverk er aðilar keyptu hana árið 2006. Frá þeim tíma hafi stefndi unnið við að lagfæra fasteignina en því hafi ekki verið lokið þegar aðilar slitu samvistum. Á eigninni hafi við skiptin hvílt 28.200.000 krónur og aðilar átt í verulegum vandræðum með afborganir af því láni. Aðilar hafi því samið um að stefndi myndi yfirtaka lánið gegn því að fasteignin kæmi í hans hlut auk þess sem stefnandi fengi fulla forsjá yfir börnum þeirra og lögheimili. Ágreiningslaust sé að stefndi hafi greitt af hinu áhvílandi láni frá skilnaði aðila.

Stefndi byggir á því að ósannað sé hvert hafi verið verðmæti fasteignarinnar á þeim tíma sem samningurinn var gerður. Sannarlega sé engin sönnun um verðmæti eignarinnar árið 2015, enda komi fram í því verðmati að fasteignasali hafi aldrei skoðað eignina og byggi verðmat sitt eingöngu á upplýsingum frá lögmanni stefnanda. Verði raunar að telja það furðu sæta að stefnandi skuli höfða dómsmál á grundvelli slíks „verðmats“.

Stefndi telur það þó engu breyta hvort eigin hafi verið 39.000.000 króna virði árið 2015 eða verðgildi hennar verið álíka og áhvílandi lán eða jafnvel fasteignamat eignarinnar. Samningurinn verði ekki „bersýnilega ósanngjarn“ við það í ljósi framanritaðs. Aðilar hafi einfaldlega ákveðið að stefndi tæki áhættuna af því að yfirtaka áhvílandi lán og eignina en stefnandi fengi forsjá barna þeirra og lögheimili, enda hafi hún ætlað að flytja af landi brott og ekki viljað taka við eigninni.

Því sé mótmælt að stefndi hafi nýtt sér meint bágindi stefnanda. Sú málsástæða sé raunar lítt eða ekkert rökstudd í stefnu málsins en allar fullyrðingar stefnanda um þetta séu ósannaðar. Lögmaður beggja aðila hafi gert samninginn að þeirra ósk og í samræmi við þeirra hugmyndir. Allur texti við fyrirtökuna hjá sýslumanni hafi verið lesinn upp og þýddur á ensku að ósk aðila og leiðbeiningarskyldu verið gætt. Því sé það fráleitt og beinlínis rangt að stefnda hafi ekkert vitað, ekkert skilið og ekki verið í neinni aðstöðu til að samþykkja annað en samning sem hafi verið saminn einhliða af stefnda og hans lögmanni. Þá hafi lögmaðurinn upplýst að hann hafi fundað meira með stefnanda en stefnda um málið. Hún hafi því haft næg tækifæri til að lýsa því yfir að hún hefði verið beitt órétti.

Stefndi mótmælir því að hafa nýtt sér reynsluleysi stefnanda í ávinningsskyni og að hafa verið grandvís um meinta fákunnáttu stefnanda. Lykilatriði sé að aðilar, þar á meðal stefnandi, hafi notið lögmannsaðstoðar við gerð samningsins en hvorugur aðili málsins hafi sérstaka þekkingu eða reynslu af gerð slíkra samninga. Því sé ekki um að ræða að stefndi hafi haft einhverja yfirburði í því sambandi sem hann hafi nýtt sér í sína þágu. Ekki sé rétt að stefnandi sé algerlega ómenntuð, a.m.k. hafi stefndi ekki meiri menntun en stefnandi, en báðir aðilar hafa grunnmenntun frá sínu heimalandi, vinni bæði ófaglærð störf og tali íslensku álíka mikið. Bæði tali þokkalega ensku. Því hafi ekki verið ójafnræði með aðilum og á hvorugan hallað.

Því sé haldið fram í stefnu að stefnandi hafi verið stefnda háð um framfærslu og hún ekki átt aðra kosti „í því basli“ en að gera umræddan samning eins og hann liggur fyrir. Þessi málsástæða stangast hins vegar á við aðrar fullyrðingar í stefnunni um að stefndi hafi ekkert lagt til heimilisins af sínum tekjum og stefnandi þurft að sjá um að kaupa inn fyrir heimilið. Ágreiningslaust er að stefnandi var útivinnandi þegar aðilar slitu samvistir. Í stefnu segir að hún hafi gegnt a.m.k. tveimur störfum og hún ráðið sínu sjálfsaflafé. Hún var því ekki háð stefnda um framfærslu. Fullyrðing þess efnis er beinlínis röng og verður ekki lögð til grundvallar við úrlausn málsins.

Líkt og rakið hafi verið hafi verið góðar og gildar ástæður fyrir því að stefndi fékk fasteignina í sinn hlut. Það hafi hins vegar verið eina eignin sem var til skipta, utan innbús, sem aðilar hafi skipt með sér. Bifreiðarnar hafi verið algerlega verðlausar. Engum verkfærum hafi verið til að dreifa sem talist gætu hafa verðgildi.

Hafi það verið svo, sem fullyrt sé í stefnu málsins, að stefnandi hafi í örvæntingu ákveðið að gera umræddan samning til að meðlagsgreiðslur gætu hafist sem fyrst, sé ekkert sem útskýrir hvers vegna stefnandi hafi beðið í tæp þrjú ár með að krefjast ógildingar á samningnum. Stefnandi hafi sýnt verulegt tómlæti varðandi málshöfðun.

Rétt er að aðilar hafa ekki gengið formlega frá skjölum sem samningur þeirra um skilnaðarkjör fjalli um. Þannig hafi ekki verið gengið frá því að stefndi tæki yfir á sitt nafn áhvílandi lán á fasteigninni, þótt ágreiningslaust sé að hann hafi greitt af láninu og haldið því í skilum frá skilnaði aðila. Aðilar hafi heldur ekki gengið frá yfirlýsingu um að eignarhlutur stefnanda skyldi færður á nafn stefnda. Því sé stefnandi enn skráð eigandi 50% hluta fasteignarinnar. Úr þessu hvoru tveggja þurfi að bæta en hafi engin áhrif á gildi skilnaðarsamningsins.

Samkvæmt framanrituðu hefur stefnandi ekki fært sönnur á að skilyrði 31. gr. samningalaga nr. 7/1936, né önnur ákvæði þeirra laga, t.d. 36. gr. laganna, né skilyrði almennra reglna fjármunaréttarins fyrir ógildingu samninga séu fyrir hendi. Því ber að hafna kröfu stefnanda.

Loks sé bent á að stefnandi geri kröfu um að samningur aðila verði felldur úr gildi í heild sinni á grundvelli misneytingar og almennra reglna um fjármunaréttarsamninga. Með því sér þess í raun einnig krafist að ógilt verði með dómi skipan forsjár og umgengni aðila en telja verður að rétt hefði verið að gera kröfu um að aðeins sá hluti samningsins, sem fjallar um fjárskipti aðila, yrði felldur úr gildi. Kröfu um að allur samningurinn verði felldur úr gildi í heild sinni sé að mati stefnda að öllum líkindum ekki hægt að gera á grundvelli almennra reglna fjármunaréttarins, enda sé ekki rökstutt í stefnu hvers vegna eigi að fella úr gildi þann hluta samningsins sem fjalli um forsjá, umgengni og lögheimili barnanna. Þótt stefndi geri ekki sjálfur kröfu um frávísun málsins vegna þessa sé hugsanlega tilefni fyrir dómara til að meta frávísun ex officio.

Stefndi vísar sérstaklega til meginreglu laga um skuldbindingargildi samninga, vísað er til 95. gr. hjúskaparlaga, samningalaga nr. 7/1936 o.fl. Um málskostnað er vísað til 129. sbr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

 V

Eins og að framan er rakið gengu aðilar, sem bæði eru frá Litháen, í hjónaband 31. desember 2005. Þau eiga tvö börn, fædd 2008 og 2011. Þau fengu leyfi til skilnaðar að borði og sæng 23. janúar 2015. Hinn umdeildi samningur þeirra um fjárskipti er dagsettur 20. janúar 2015. Eins árs frestur til að höfða mál til ógildingar á samningnum á þeim grunni að hann sé bersýnilega ósanngjarn er liðinn, sbr. 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Með málssókn þessari freistar stefnandi þess að fá ákvæði samnings aðila, er varðar fjárslit þeirra við skilnað, felldan úr gildi eftir almennum reglum sem gilda um fjármunaréttarsamninga á grundvelli 31. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Í samningi aðila um skilnaðarkjör, sem lagður var fram hjá sýslumanni í fyrirtöku 20. janúar 2015, segir í 4. gr. að eignir búsins séu fasteignin […], […], sem sé að fasteignarmati 32.050.000 krónur en áhvílandi lán að fjárhæð 28.200.000 krónur. Þá eru taldar upp sem eign búsins fimm bifreiðar, Chevrolet Lacetti, Renault Trafic og þrjár bifreiðar af gerðinni Mercedes Benz. Kveðið var á um að allar bifreiðarnar yrðu eign stefnda að undanskilinni einni Mercedes-bifreið sem skyldi falla í hlut stefnanda. Í 4. gr. samningsins segir að aðilum hans sé kunnugt um að samkvæmt 1. mgr. 6. gr. og 103. gr. laga nr. 31/1993 gildi svokölluð helmingaskiptaregla sem meginregla um skipti hjóna. Bókað var í fyrirtöku hjá sýslumanni að gætt hefði verið leiðbeiningarskyldu gagnvar aðilum.

Úr varð að stefnandi fékk í sinn hlut aðra bifreið en framangreinda Mercedes-bifreið. Af hálfu stefnda er því haldið fram að allar framangreindar bifreiðir, sem taldar eru upp í samningi aðila, hafi verið verðlausar og ógangfærar, sumar óskráðar. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á verðgildi þeirra eða annarra muna, sem hún heldur fram að hafi tilheyrt búinu, og verður því að miða við í málinu að deila aðila lúti einvörðungu að fasteigninni.

Ekki er deilt um að áhvílandi skuldir á húsinu við skilnað aðila voru að fjárhæð 28.200.000 krónur. Deilt er hins vegar um markaðsverð eignarinnar í janúar 2015. Stefnandi hefur aflað utanréttarmats fasteignsalans D, annars vegar dagsett 12. desember 2017 og hins vegar dagsett 15. janúar 2018. Þessi verðmöt eru samhljóma um að markaðsverð fasteignarinnar í janúar 2015 hafi verið 39.000.000 króna. Í fyrra matinu segir að ekki hafi verið unnt að skoða eignina, heldur hafi verið byggt á upplýsingum lögmanns stefnanda um ástand eignarinnar svo og teikningum og myndum. Niðurstaða hafi verið fundin með þeirri aðferða að finna markaðsverð eignarinnar á skoðunardegi og reikna til janúar 2015 miðað við kaupverðsvísitölu Þjóðskrár Íslands. Í seinna mati hafi eignin ekki heldur verið skoðuð en þá hafi legið fyrir fyllri upplýsingar frá stefnanda um ástand eignarinnar í janúar 2015. Sömu aðferðafræði og í fyrra mati hafi verið beitt í seinna mati og niðurstaðan orðið sú sama, að markaðsverð fasteignarinnar hafi verið 39.000.000 krónur í janúar 2015.

Í stefnu er því haldið fram að lögmaður á vegum stefnda hafi útbúið samning aðila um skilnaðarkjör en í skýrslutökum fyrir dómi upplýstist að C hdl. var af báðum aðilum fenginn til verksins. Enda var bókað í fyrirtöku hjá sýslumanni að lögmaðurinn væri mættur til að aðstoða aðila. Í skýrslu stefnanda fyrir dómi kom m.a. fram að aðilar hefðu hitt lögmann sinn einu sinni fyrir fyrirtökuna hjá sýslumanni. Hún kvaðst þá fyrst hafa séð samninginn. Fyrirtakan hafi farið fram á ensku og bókun fulltrúa sýslumanns hafi verið þýdd á ensku. Hins vegar hafi samningur aðila um skilnaðarkjör, sem hafi verið lagður fram hjá sýslumanni, ekki verið þýddur á ensku. Hún hafi ekki skilið ákvæði samningsins um eignaskipti. Stefnandi sagði í skýrslu sinni að aðilar hafi rætt um sín á milli í aðdraganda skilnaðarins að stefndi myndi fullklára húsið og síðan yrði það selt og þá fengi hún einhvern hluta af andvirði þess. Stefndi sagði aftur á móti skýrslu sinni fyrir dómi að aðilar hafi verið ásáttir um að fá einn lögmann til þess að ganga frá samningi þeirra í milli um skilnaðarkjör. Þau hafi hitt lögmanninn nokkrum sinnum. Hann minnti að ákvæði samningsins hefði verið þýtt á ensku fyrir þau við fyrirtökuna hjá sýslumanni. C hdl. taldi að hann hefði verið ráðinn af báðum aðilum til þess að semja samning um skilnaðarkjör. Hann mundi ekki hvað aðilar höfðu hist oft hjá honum. Hann taldi að hann hefði rætt meira við stefnanda en stefnda um skilnaðarkjör en það hafi stafað af því að hún hefði verið betri í ensku en stefndi. Hann hafi bent stefnanda á að í gildi væri helmingaskiptaregla og að samningurinn væri óvenjulegur varðandi skiptingu eigna. Hann hafi einnig bent henni á að hennar hlutur væri minni en hlutur stefnda en hún hafi engu að síður viljað ganga frá samningi með þessum hætti.

Ekki fer milli mála að skilnaðarsamningur aðila felur í sér töluvert frávik frá helmingaskiptareglu hjúskaparlaga nr. 31/1993. Hins vegar gildir reglan um samningsfrelsið og er hjónum heimilt að ráðstafa hagsmunum sínum við skilnað eins og þau sjálf kjósa. Krafa stefnanda er annars vegar reist á misneytingarákvæði 31. gr. samningalaga nr. 7/1936, á þeim grunni að stefndi hafi notað sér bágindi og fákunnáttu stefnanda og að hún hafi verið honum háð. Hins vegar er krafa stefnanda byggð á 36. gr. samningalaga um að ósanngjarnt sé að bera samninginn fyrir sig.

Að mati dómsins hefur ekki verið sýnt fram á að aðstöðumunur eða ójafnræði hafi verið með aðilum en stefnandi hefur sönnunarbyrðina fyrir því. Ekki hefur heldur verið sýnt fram á að stefndi hafi nýtt sér reynsluleysi stefnanda í ávinningskyni, að hann hafi verið grandvís um meinta fákunnáttu hennar eða að hún hafi verið honum háð, sbr. 31. gr. samningalaga. Sé samningur ógiltur með stoð í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 er vikið frá þeirri grundvallarreglu að samninga beri að efna. Sá sem krefst þess verður að sýna fram á að það verði talið ósanngjarnt að viðsemjandinn beri samninginn fyrir sig vegna stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina eða atvika, sem síðar komu til, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Þegar það er virt að stefnandi naut aðstoðar lögmanns við samningsgerðina, sem vakti athygli hennar á helmingaskiptareglu hjúskaparlaga og að hún væri að bera skarðan hlut frá borði, er ekki unnt að fallast á með stefnanda að samningur aðila um fjárslit þeirra í milli verði ógiltur á grundvelli 1. mgr. 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.

Samkvæmt framansögðu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda í málinu. Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli aðila.

Gunnar Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, B, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, A, í málinu.

Málskostnaður fellur niður.

Gunnar Aðalsteinsson