• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Skilorð

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness mánudaginn 1. október 2018 í máli nr. S-297/2018:

Ákæruvaldið

(Pétur Hrafn Hafstein saksóknarfulltrúi)

gegn

X

(Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 5. september sl., höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 24. maí 2018 á hendur ákærðu, X, kt. […],  […],  […];

fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa fimmtudaginn 14. september 2017 á horni Ægisgötu og Bárugötu í Reykjavík hótað lögreglumönnunum A, B og C, sem þar voru við skyldustörf, lífláti og hótað því að fara heim til lögreglumannsins C og drepa börnin hennar og með því að hafa, í kjölfarið um borð í lögreglubifreið á vettvangi, reynt að sparka í höfuð lögreglumannsins C og sparkað í bringu og hægri upphandlegg lögreglumannsins B.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Kröfur ákærðu í málinu eru þær að henni verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa.

I

Ákærða játaði brot sitt samkvæmt ákæru héraðssaksóknara við þingfestingu málsins. Í ljósi þess ákvað dómari að fara með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og taka það til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærðu hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga.

Játning ákærðu samrýmist framlögðum gögnum og telst brot hennar því sannað. Brot ákærðu varðar við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/140, svo sem réttilega er vísað til í ákæru.

II

Sakaferill ákærðu er lítill og hefur engin áhrif á ákvörðun refsingar hennar nú. Svo sem fyrr var rakið játaði ákærða sök án undandráttar við þingfestingu málsins. Þá upplýsti ákærða að hún hefði alfarið látið af neyslu fíkniefna í kjölfar þess að atvik máls gerðust. Sú fullyrðing hennar er studd framlögðu læknisvottorði.

Að broti ákærðu virtu og með vísan til þess sem að framan er rakið þykir refsing hennar hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði. Eftir atvikum þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Engan sakarkostnað leiddi af rannsókn málsins og rekstri þess hér fyrir dómi, en skipaður verjandi afsalaði sér þóknun fyrir verjandastarfann.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Ákærða, X, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Kristinn Halldórsson