• Lykilorð:
  • Börn
  • Líkamsárás
  • Skilorðsbundið fangelsi og sekt
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 15. febrúar 2018 í máli nr. S-287/2017:

Ákæruvaldið

(Súsanna Björg Fróðadóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

X

(Óskar Sigurðsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 18. janúar sl., höfðaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum með ákæru 21. ágúst 2017 á hendur ákærða, X, kt. [...], [...], [...]:

Fyrir líkamsárás og brot gegn barnaverndarlögum, með því að hafa laugardaginn 20. febrúar 2016, á heimili unnustu sinnar að [...], [...], beitt ólögráða son hennar, A, kt. [...], ofbeldi, með því að hafa slegið hann utan undir tvisvar sinnum á hægri kinn, misþyrmt honum bæði andlega og líkamlega þannig heilsa hans var hætta búin. Urðu afleiðingar háttsemi ákærða þær að A hlaut vægan roða á hægri kinn.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940 og 98. gr. og 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. [---]“

Með ákæru 16. október 2017 höfðaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum annað sakamál, sem fékk málsnúmerið S-360/2017 hér fyrir dómi, gegn ákærða:

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa laugardaginn 18. mars 2017, ekið bifreiðinni LL-P72, eftir Sólvallagötunni í Reykjanesbæ til norðurs en síðan stöðvað bifreiðina, sviptur ökuréttindum og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 2.99).

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., og 1. mgr. 48. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. [---]

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 26. apríl 2017, sviptur ökurétti, ekið vinnuvélinni JL7177, á hafnarsvæðinu í Grindavík þar sem lögreglan stöðvaði aksturinn.

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þess er einnig krafist að ákærði verður dæmdur til sviptingar ökuréttar, skv. 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.

Mál nr. S-360/2017 var þingfest 18. janúar sl. og var málið þá sameinað máli þessu.

 

Kröfur ákærða:

Í málinu krefst ákærði þess að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa.

I

Ákærði kom fyrir dóm við þingfestingu málsins og neitaði sök samkvæmt ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, dagsettri 21. ágúst 2017. Þá hafnaði ákærði bótakröfu brotaþola, A, sem tekin var upp í ákærunni. Við upphaf skýrslugjafar sinnar við aðalmeðferð málsins játaði ákærði hins vegar að hafa slegið brotaþola einu sinni utan undir. Að fram kominni þeirri játningu ákærða ákvað ákæruvaldið að falla frá þeim sakargiftum í málinu að ákærði hefði gert það í tvígang. Í ljósi tilvitnaðs framburðar ákærða ákvað dómari í samráði við málflytjendur að ekki væri þörf á frekari sönnunarfærslu í málinu, sbr. 2. mgr. 166. gr. laga um meðferð sakamála.

Undir aðalmeðferð málsins lýsti skipaður réttargæslumaður brotaþola því yfir, eftir að hann hafði rætt við lögráðamann brotaþola, móður hans B, í hléi sem gert var á þinghaldinu, að hún hefði falið réttargæslumanni að falla frá bótakröfu brotaþola. Það gerði réttargæslumaður en áréttaði hins vegar kröfu sína um þóknun.

II

Ákæra lögreglustjórans á Suðurnesjum, útgefin 21. ágúst 2017:

Svo sem áður er rakið játaði ákærði við upphaf skýrslugjafar sinnar fyrir dómi við aðalmeðferð málsins að hafa slegið brotaþola einu sinni utan undir á þeim stað og tíma sem í ákærunni greinir. Að fram kominni þeirri játningu ákærða ákvað ákæruvaldið að falla frá þeim sakargiftum í málinu að ákærði hefði gert það í tvígang.

Í ljósi framburðar ákærða fyrir dómi og þeirrar breytingar sem ákæruvaldið gerði á sakargiftum samkvæmt framansögðu taldi dómari að höfðu samráði við málflytjendur ekki þörf á frekari sönnunarfærslu í málinu, sbr. 2. mgr. 166. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Á grundvelli játningar ákærða og framlagðra málsgagna þykir nægilega sannað, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008, að ákærði hafi laugardaginn 20. febrúar 2016, á heimili unnustu sinnar að [...] í [...] beitt ólögráða son hennar, brotaþola A, ofbeldi með því að slá hann utan undir á hægri kinn, með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut vægan roða á hægri kinn, sbr. framlagt læknisvottorð, dagsett 16. október 2016. Með þeirri háttsemi gerðist ákærði brotlegur við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, svo sem vísað er til í ákæru. Þar sem ekki hefur verið sýnt fram á að ákærði hafi er atvik máls gerðust haft brotaþola í sinni umsjá verður framangreind háttsemi hans aftur á móti ekki talin varða við 98. gr. barnaverndarlaga.

Ákæra lögreglustjórans á Suðurnesjum, útgefin 16. október 2017:

Við upphaf þinghalds þess sem háð var 18. janúar sl. til aðalmeðferðar játaði ákærði sakargiftir samkvæmt báðum liðum þessarar ákæru. Að mati dómsins samrýmist játning ákærða gögnum málsins. Umferðarlagabrot hans samkvæmt ákærunni teljast því sönnuð og eru þau þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

III

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins gekkst ákærði undir sektargerð lögreglustjóra 4. október 2016 þess efnis að hann greiddi 160.000 króna sekt til ríkissjóðs og sætti sviptingu ökuréttar í tvö ár frá 4. október 2016 að telja.

 Við ákvörðun refsingar ákærða vegna líkamsárásarinnar og barnaverndarlaga­brotsins verður litið til þess sem fyrir liggur um aðstæður ákærða og brotaþola nú, játningar ákærða og þess að hann hefur eftir að atvik málsins gerðust leitast við að bæta ráð sitt. Með vísan til þessa og að atvikum máls að öðru leyti virtum þykir refsing ákærða vegna umræddrar háttsemi hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi. Eftir atvikum þykir rétt að fresta fullnustu fangelsisrefsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Auk fangelsisrefsingar verður ákærða jafnframt gerð sektarrefsing vegna þeirra umferðarlaga­brota sem hann er sakfelldur fyrir í málinu. Að brotunum virtum og samkvæmt því sem áður segir um sakaferil ákærða þykir sekt hans í ljósi dómvenju réttilega ákveðin 360.000 krónur og komi 24 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

 Þar sem ölvunarakstursbrot ákærða er fyrsta ítrekun hans gegn 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og að gættu því alkóhólmagni sem mældist í blóði hans umrætt sinn, en brotið varðar við 1., sbr. 3., mgr. 45. gr., þykir rétt í samræmi við kröfugerð ákæruvalds og með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga að svipta ákærða ökurétti í fjögur ár frá 4. október 2018 að telja, en þann dag rennur ökuréttarsvipting ákærða samkvæmt áðurnefndri sektargerð sitt skeið á enda.

Á grundvelli sakfellingar ákærða, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður honum gert að greiða sakarkostnað málsins. Dæmist ákærði því til að greiða 29.400 krónur vegna öflunar áverkavottorðs og 36.369 krónur vegna töku blóðsýnis og rannsóknar á sýninu. Ákærði greiði einnig þóknun skipaðs verjanda síns, Óskars Sigurðssonar lögmanns, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Arnars Kormáks Friðrikssonar lögmanns, sem eftir umfangi málsins og með hliðsjón af tímaskýrslum lögmannanna þykir hæfilega ákveðin svo sem í dómsorði greinir.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu þeirrar refsingar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 360.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 24 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Ákærði er sviptur ökurétti í fjögur ár frá 4. október 2018 að telja.

Ákærði greiði samtals 1.246.249 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda síns, Óskars Sigurðssonar lögmanns, 674.560 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Arnars Kormáks Friðrikssonar lögmanns, 505.920 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.

 

Kristinn Halldórsson