• Lykilorð:
  • Skuldamál

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 2. október 2018 í máli nr. E-1127/2017:

 

Vatnsvod ehf.

(Sigurður Rúnar Birgisson lögmaður)

gegn

Ó.Ó. Verktökum ehf.

(Daníel Reynisson lögmaður)

                       

Mál þetta var þingfest 8. nóvember 2017 og tekið til dóms 11. september sl. Stefnandi er  Vatnsvod ehf., Ástúni 10, Kópavogi, en stefndi er Ó.Ó. Verktakar ehf., Njarðargötu 1, Njarðvík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.438.400 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 607.600 krónum  frá 26. nóvember 2016 til 16. desember 2016, af  1.438.400 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum eftirfarandi innborgunum inn á kröfuna: 42.400 krónur þann 2. janúar 2017, 100.000 krónur þann 5. desember 2007 og 1.993 krónur þann 4. september 2018. 

Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar.

I

Stefnandi kveður kröfuna byggða á tveimur reikningum, annan að fjárhæð 607.600 krónur, útgefinn 26. nóvember 2016, og hinn að fjárhæð 830.800 krónur, útgefinn 16. desember 2016. Stefnandi sé pípulagningarfyrirtæki sem sérhæfi sig í alhliða pípulögnum, uppsetningu hitunar- og loftræstikerfa ásamt fleiru því tengdu. Reikningarnir séu vegna vinnu og þjónustu stefnanda til handa stefnda í nóvember 2016 og desember 2016 eins og lýst sé í framlögðum reikningum.  Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.

            Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fái m.a. lagastoð í 45., 47. og 54 gr. laga nr. 50/2000 og lögum nr. 42/2000. Um gjalddaga kröfunnar er einkum vísað til meginreglu 49. gr. laga nr. 50/2000. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu með síðari breytingum.  Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Varðandi varnarþing er vísað til 33. gr. laga nr. 91/1991.

II

Stefndi kveðst hafa greitt stefnanda fyrir þjónustu hans 2.340.740 krónur með bankamillifærslum á tímabilinu 6. október 2016 til 2. janúar 2017.  Sé miðað við útgáfudag  fyrri reiknings stefnanda þann 26. nóvember 2016 hafi stefndi greitt stefnanda samtals 1.157.780 krónur.

Stefndi bendir á að um hafi verið að ræða vinnu eins manns en ekki efniskostnað eða neitt slíkt. Stefndi kveður umfang vinnu stefnanda hafa verið mun minna en gefið sé til kynna með framlögðum reikningum. Sé reikningur fyrir desember 2016 t.a.m. gefinn út 16. desember 2016 og telur stefndi að útilokað sé að stefnandi hafi á umræddu tímabili innt af hendi þá vinnu sem samsvarar þeim tímafjölda er þar sé að finna.

Þá telur stefndi að gæði vinnu starfsmanns stefnanda hafi verið verulega ábótavant.

Stefndi byggir kröfu sína á því að krafa stefnanda um endurgjald fyrir vinnu starfsmanns stefnanda sé bersýnilega ósanngjörn. Stefndi hafi þegar greitt stefnanda sanngjarnt endurgjald fyrir vinnu sína. Reikningar þeir, sem krafan byggist á, séu auk þess rangir og ótrúverðugir. Þá hafi gæði vinnu stefnanda ekki uppfyllt þær kröfur sem stefndi hafi mátt vænta.

Ágreiningslaust sé að stefnandi hafi tekið að sér vinnu í þágu stefnda. Ekki hafi verið samið um ákveðið endurgjald fyrir verkið í heild, heldur hafi verið um svokallaða tímavinnu eða reikningsvinnu að ræða, líkt og algengt sé í tilfelli iðnaðarmanns. Þrátt fyrir slíkt fyrirkomulag sé ljóst að stefnda sé ekki skylt að greiða það verð sem stefnandi setur upp fyrir þjónustu sína ef það er of hátt og þ.a.l. ósanngjarnt.

Framlögðum reikningum, sem stefnukrafa byggist á, er mótmælt af hálfu stefnda. Ósannað sé að nokkur fótur sé fyrir upphæð framlagðra reikninga og mótmælir stefndi sér í lagi tímafjölda samkvæmt reikningi útgefnum 16. desember 2016. Engin frekari gögn, s.s. tímaskýrslur, liggi fyrir til stuðnings reikningum stefnanda.  Því er hafnað að aðili geti með svo einföldum hætti og án nokkurs rökstuðnings haft sjálfdæmi um það hvert endurgjald verks skuli vera og varpað sönnunarbyrði um annað á gagnaðila sinn.

Þá sé það grundvallaratriði að tekið verði tillit til þeirra greiðslna sem stefndi innti sannarlega af hendi til stefnanda vegna þjónustu hans.

Með vísan til framangreinds telur stefndi að hann hafi þegar uppfyllt greiðsluskyldu sína gagnvart stefnanda vegna þeirrar þjónustu hans sem um ræðir í máli þessu. Stefndi hafi þannig þegar greitt stefnanda sanngjarnt endurgjald fyrir umrædda þjónustu og að stefnandi hafi með engu móti sýnt fram á hið gagnstæða.

Jafnvel þó svo að ekki verði fallist á aðalkröfu stefnda um sýknu telur hann óhjákvæmilegt að dómkröfu stefnanda beri að lækka verulega að mati dómsins. Um málsástæður stefnda í varakröfu vísast alfarið til málsástæðna stefnda í heild í aðalkröfu.

Um lagarök er vísað til kaupalaga nr. 50/2000 og meginreglna kröfuréttar og verktakaréttar. Er einkum vísað til þeirrar meginreglu verktakaréttar að hafi eigi verið samið fyrirfram um ákveðið endurgjald fyrir verk, beri verkkaupa að greiða það verð sem verktaki setji upp ef eigi má telja það verð ósanngjarnt, sbr. lögjöfnun frá 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup.  Enn fremur er vísað til ÍST 30 og sjónarmiða sem staðallinn byggir á. Hvað varðar málskostnaðarkröfu stefnda er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 130. gr. þeirra laga. Þá styðst krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun við lög nr. 50/1998 um virðisaukaskatt.

III

Fram kom við aðalmeðferð málsins að reikningar stefnanda eru vegna vinnu eins manns, eiganda stefnanda, vegna vinnu hans við pípulagnir í verki sem stefndi var með í verktöku. Að sögn fyrirsvarsmanns stefnda, Óskars Óskarssonar, var verkstjóri á vegum stefnda á verkstað sem fylgdist með verkinu.

Hinir umkröfðu reikningar stefnanda eru allir vegna tímavinnu starfsmanns stefnanda og er ekki ágreiningur um tímagjald. Fjöldi stunda er sundurgreindur  fyrir dag hvern í fylgiskjölum með kröfunni.

Sýknukrafa stefnda er í fyrsta lagi reist á því að reikningar stefnanda séu rangir og ótrúverðugir. Um viðskipti aðila gildir meginregla 45. gr. laga nr. 50/2000 um að hafi ekki verið samið um kaupverð skuli kaupandi greiða það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er. Hvílir sönnunarbyrðin fyrir því að umkrafið verð sé ósanngjarnt á þeim sem heldur slíku fram. Stefnda hefur ekki tekist sú sönnun, hvorki með mati né með öðrum hætti. Reyndar hefur stefndi ekki lagt fram nein gögn þessari staðhæfingu sinni til sönnunar.  Þá er einnig til þess að líta að stefndi gerði ekki athugasemdir við reikninga stefnanda fyrr en rúmu ári eftir útgáfu þeirra en það fer í bága við ákvæði 47. gr. laga nr. 50/2000.  Í öðru lagi ber stefndi það fyrir sig að verk stefnanda sé gallað að einhverju leyti en hefur ekki að neinu leyti rökstutt í hverju sá galli sé fólginn eða leitt í ljós umfang hans. Er því þessi málsástæða stefnda haldlaus með öllu. Loks byggir stefndi á því að hann hafi greitt inn á verkið en af hálfu stefnanda er því haldið fram að tilgreindar greiðslur stefnda séu greiðslur vegna eldri reikninga en varði ekki vinnu stefnanda í nóvember og desember 2016. Af framlögðum gögnum málsins verður ekki séð að stefndi hafi greitt inn á reikning stefnanda fyrir vinnu starfsmanns stefnanda í nóvember og desember 2016. Verður því ekki séð gegn mótmælum stefnanda að þessi málsástæða stefnda eigi við rök að styðjast.   

Þegar allt framangreint er virt verður krafa stefnanda tekin til greina að öllu leyti. Eftir þeim úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 580.000 krónur. Ekki hefur þá verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari dæmir mál þetta.

DÓMSORÐ

Stefndi, Ó. Ó. Verktakar ehf., greiði stefnanda, Vatnsvod ehf., 1.438.400 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 607.600 krónum  frá 26. nóvember 2016 til 16. desember 2016, af 1.438.400 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum eftirfarandi innborgunum inn á kröfuna: 42.400 krónur þann 2. janúar 2017, 100.000 krónur þann 5. desember 2007 og 1.993 krónur þann 4. september 2018. 

Stefndi greiði stefnanda 580.000 krónur í málskostnað.

 

                                                            Gunnar Aðalsteinsson