• Lykilorð:
  • Kröfuréttur
  • Samningur
  • Skuldajöfnuður
  • Skuldamál

Ár 2019, þriðjudaginn 22. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er að Fjarðargötu 9, Hafnarfirði, kveðinn upp í máli nr. E-815/2018:

 

Steinmark prentsmiðja 

(Dóris Ósk Guðjónsdóttir lögmaður)

gegn

Hönnunarhúsinu ehf.

(Eiríkur Gunnsteinsson lögmaður)

 

svofelldur

 

d ó m u r :

Mál þetta, sem þingfest var 19. september 2018 og dómtekið 18. janúar sl., var höfðað með stefnu, birtri 8. ágúst 2018. 

            Stefnandi er Steinmark, kt. 000000-0000, Dalshrauni 24, Hafnarfirði. Stefndi er Hönnunarhúsið ehf., kt. 000000-0000, Bæjarhrauni 2, Hafnarfirði.

            Stefnandi gerir þá dómkröfu að stefndi greiði stefnanda skuld að fjárhæð 484.875 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 237.569 krónum frá 15. ágúst 2014 til 22. júní 2015 en af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

            Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda auk málskostnaðar.

Málsatvik.

Samkvæmt gögnum málsins voru stefnandi og stefndi í viðskiptasambandi til margra ára. Fyrirsvarsmaður stefnanda og eigandi er einnig eigandi Keilis útgáfufélags ehf. Samkvæmt hreyfingaryfirliti skuldunauta í bókhaldi stefnda var hann í viðskiptum bæði við stefnanda og Keili til margra ára. Koma fram á yfirlitinu greiðslur til stefnanda í nokkrum færslum auk þess sem fjölmargar færslur eru þar með skýringunum „innb. Keilir“. Á yfirlitinu kemur m.a. fram í apríl 2008 „Greidd r. Steinmark v/70“. Í mars 2012 „Prentun á bæklingum Steinmark“. Í júní 2012 „Prentun á Ratleikskorti“. Í september 2014 er færsla: Prentun á ratleikskorti“. Í júní 2016 er færsla „Skuldjöfnun Steinmark 247.306“. Engin gögn liggja hins vegar fyrir í málinu um þau viðskipti af hálfu stefnanda. Á reikningi stefnanda að fjárhæð 237.569 krónur frá 15. ágúst 2014, sem liggur fyrir í málinu, segir: „Prentvinnsla skurður og brot á Ratleikskorti 3500 stk. og stafrænt  v/Hafnarfjarðarkirkju 19/2-18/3-1/4 og 23/4, 2x10 stk. og 2x 20 stk.“ Á reikningi frá 22. júní 2015 að fjárhæð 247.556 krónur segir: „Prentvinnsla á Ratleikskorti 3500 stk. og Stafrænt fyrir Hafnarfjarðarkirkju …“  Í tölvupósti frá stefnda til stefnanda þann 9. júní 2016 segir: „Sæll, Er sami díll og í fyrra á Ratleikskortinu? 3.500 stk. og skuldajöfnun við Keili? Annar helmingur tilbúinn á eftir og seinni síðla á morgun ...“ Svaraði stefnandi samdægurs þannig: „Já en var upplagið ekki minna? ...“

Skýrslur fyrir dómi.

Guðni Gíslason, fyrirsvarsmaður stefnda, gaf skýrslu fyrir dóminum og verður vitnað til framburðar hans eftir því sem þörf þykir.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefndi skuldi honum og eigi ógreidda tvo reikninga, þann fyrri útgefinn 15. ágúst 2014 að fjárhæð 237.569 krónur og þann seinni útgefinn 22. júní 2015 að fjárhæð 247.306 krónur vegna vinnu stefnanda fyrir stefnda. Stefndi hafi ekki greitt reikningana þrátt fyrir innheimtuviðvörun þann 18. júlí 2018. Mótmælir stefnandi því að samkomulag hafi verið á milli aðila að reikningunum yrði skuldajafnað á móti reikningum sem Keilir útgáfufélag ehf. ætti á hendur stefnda. Engin lagaheimild hafi verið til þess, engar yfirlýsingar um skuldajöfnuð og ekkert samkomulag um að umþrættum reikningum útgefnum á hendur stefnda mætti skuldajafna á móti reikningum stefnda á hendur Keili. Mótmælti stefnandi því að tölvupóstur frá 9. júní 2016 hafi nokkurt sönnunargildi í málinu en þar komi ekkert fram um hvaða reikninga stefndi ætti við en þeir reikningar sem krafið væri um í þessu máli væru frá árunum 2014 og 2015. Því væru skilyrði skuldajafnaðar ekki fyrir hendi gegn mótmælum stefnanda. Ekkert lægi fyrir hvaða reikninga stefndi ætti við í umræddum tölvupósti. Engu skipti í máli þessu að sami eigandi sé að stefnanda og Keili útgáfufélagi ehf. Byggir stefnandi á meginreglu kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga, sbr. 45., 47. og 51. gr. laga nr. 50/2000. Um gjalddaga kröfunnar er vísað til 49. gr. sömu laga og krafan um dráttarvexti er byggð á III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Þá er byggt á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 vegna málskostnaðar.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að umræddum reikningum hafi verið skuldajafnað á móti skuld stefnanda við stefnda og áritaðir þannig í bókhaldi stefnda. Aðilar hafi átt í áralöngu viðskiptasambandi og ætíð haft þann háttinn á að stefnandi hafi skuldajafnað reikningum útgefnum á stefnda á móti reikningum sem stefndi hafi átt á hendur Keili útgáfufélagi enda sami eigandi að báðum félögunum. Stefndi hafi fært til bókar í bókhaldi sínu að umþrættum reikningum hafi verið skuldajafnað á móti kröfum á hendur Keili. Kvað stefndi fyrirsvarsmann stefnanda og Keilis hafa haft fullt umboð til að samþykkja slíka skuldajöfnun, þó svo að hún hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um skuldajöfnun almennt, og framfylgja slíku samkomulagi aðila.

Þá byggði stefndi á tómlæti en hann kvað stefnanda engan reka hafa gert að því að innheimta kröfurnar fyrr en eftir nýgenginn dóm Héraðsdóms Reykjaness uppkveðinn þann 4. júní sl. þar sem Hönnunarhúsið ehf. stefndi Keili útgáfufélagi ehf. til greiðslu reikninga. Hafi sú krafa verið tekin til greina í héraði en nýgenginn dómur Landsréttar hafi sýknað Keili vegna tómlætis stefnanda í því máli. Stefndi kveðst nú einnig byggja á því að stefnandi hafi sýnt af sér slíkt tómlæti í þessu máli að sýkna beri stefnda. Engin tilraun hafi verið gerð í öll þessi ár til að innheimta reikningana fyrr en í júní 2018. Því sé krafa stefnanda fallin niður sökum tómlætis.

            Stefndi byggir kröfur sínar á meginreglum kröfu- og samningaréttar og vísar til laga um meðferð einkamála, m.a. vegna málskostnaðar. 

Forsendur og niðurstaða.

Mál þetta snýst um tvo reikninga sem stefnandi gaf út í júní 2015 og ágúst 2016, samtals að fjárhæð 484.875 krónur. Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að um langvarandi viðskiptasamband hafi verið að ræða á milli stefnanda, stefnda og Keilis útgáfufélags ehf. en sú venja hafi myndast á milli þessara aðila að skuldajafna reikningum frá stefnanda á móti reikningum sem stefndi átti á hendur Keili útgáfufélagi ehf., en sami eigandi hafi verið að stefnanda og Keili. Þessu til stuðnings lagði stefndi fram tölvupóst sem getið er að framan og hreyfingarlista yfir skuldunauta sína.

            Stefnandi byggir á því að aldrei hafi verið samið um skuldajöfnun á umkröfðum reikningum og mótmælir því að ofangreindur tölvupóstur sé sönnun um slíkt. Ekki sé getið um hvaða reikninga sé um að ræða, útgáfudaga né fjárhæðir. Því séu skilyrði skuldajöfnunar ekki fyrir hendi. Reikningarnir séu ógreiddir og ófyrndir.

            Stefndi byggir eingöngu á því að stefndi skuldi stefnanda ekkert, reikningarnir hafi verið gerðir upp með samkomulagi aðila um að skuldajafna þeim á móti skuldum Keilis við Hönnunarhúsið. Mótmælir stefnandi þessu. Þá byggði stefndi á tómlæti við aðalmeðferð málsins og mótmælti stefnandi þeirri málsástæðu sem of seint fram kominni. Stefndi kvaðst hafa byggt á þeirri málsástæðu í greinargerð sinni með orðunum: „... enda hafði stefnandi ekki gert neina tilraun til þess að innheimta umrædda reikninga fyrr en Keilir útgáfufélagi ehf. var gert að greiða stefnda útistandandi kröfu með áðurnefndum dómi …“ Mótmælti stefnandi því að í þessari setningu fælist málsástæða sem byggðist á tómlæti og hafi stefnandi ekki getað byggt málatilbúnað sinn vegna tómlætis á þessari setningu í greinargerð.

            Eins og mál þetta er lagt fyrir dóminn, telur dómurinn stefnda ekki hafa sýnt fram á að ofangreindur tölvupóstur sanni að samkomulag hafi legið fyrir í júní 2016 um að skuldajafna mætti umþrættum reikningum á móti kröfum stefnda á hendur Keili útgáfufélagi ehf. Breytir engu þótt sami aðili sé eigandi beggja félaganna en hvor aðili fyrir sig er sjálfstæður lögaðili. Þá telur dómurinn þá málsástæðu að sýkna beri stefnda sökum tómlætis of seint fram komna þar sem hún er óljós í greinargerð og ekki þannig úr garði gerð að hún uppfylli skilyrði 2. mgr. 90. gr. laga nr. 91/1991 þar sem segir m.a. að stefndi skuli lýsa í greinargerð sinni á gagnorðan og skýran hátt málsástæðum stefnda og öðrum atvikum sem þar þurfi að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst, auk þess að vísa til helstu lagaákvæða eða réttarreglna sem stefndi byggi málatilbúnað sinn á. Stefndi vísaði í greinargerð sinni til meginreglna kröfuréttar og samningaréttar og til laga um meðferð einkamála. Af þessum málatilbúnaði verður ekki ráðið að ein af málsástæðum stefnda hafi verið tómlæti. Gegn mótmælum stefnanda er þessi málsástæða of seint fram komin. Ekki er ágreiningur um fjárhæðir, fyrningu né upphafsdag vaxta.

            Af öllu ofangreindu virtu verða dómkröfur stefnanda teknar til greina eins og segir í dómsorði.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð.

Stefndi, Hönnunarhúsið ehf., greiði stefnanda, Steinmark, 484.875 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6.  gr. laga nr. 38/2001 af 237.569 krónum frá 15. ágúst 2014 til 22. júní 2015 en af 484.875 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

            Stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.

             

 

Ástríður Grímsdóttir.

Rétt endurrit staðfestir

Héraðsdómur Reykjaness  22.1.2019.