• Lykilorð:
  • Fyrning

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 17. apríl 2018 í máli nr. E-3326/2016:

 

Vogun hf.

(Jóhannes Bjarni Björnsson lögmaður)

gegn

Björgólfi Thor Björgólfssyni

(Reimar Snæfells Pétursson lögmaður)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 11. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Vogun hf., [...], á hendur Björgólfi Thor Björgólfssyni, [...], með stefnu dags. 21. september 2016.

            Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda 366.285.018 kr. með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 198.295.020 kr. frá 17. febrúar 2006 til 7. mars 2007, en af 195.775.020 kr. frá þeim degi til 27. desember 2007, en af 366.285.018 kr. frá þeim degi til 1. nóvember 2016, en með dráttarvöxtum af þeirra fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

            Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

            Stefndi gerði einnig kröfu um frávísun málsins frá dómi en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði 30. maí 2017.

            Í fyrirtöku málsins 30. nóvember 2017 var ákveðið að sakarefninu yrði skipt og er því í þessum þætti málsins fjallað um þá málsástæðu stefnda að krafa stefnanda sé fyrnd.

            Krafa stefnanda í þessum þætti málsins er sú að kveðið verði á um það með dómi að krafa hans sé ekki fyrnd.

            Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

 

I

            Stefnandi krefst þess í málinu að stefnda verði gert að greiða honum skaðabætur vegna tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna tvennra kaupa á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. Annars vegar var um að ræða kaup stefnanda 16. febrúar 2006 á hlutabréfum að nafnvirði 6.300.000 á genginu 31,35 fyrir samtals 198.295.020 kr. Uppgjör viðskiptanna fór fram 17. febrúar 2006. Hins vegar voru kaup stefnanda 19. desember 2007 á hlutabréfum að nafnverði 4.735.376 kr. á genginu 35,9 fyrir samtals 170.509.998 kr. Uppgjör vegna kaupanna fór fram 27. desember 2007.

            Stefnandi telur að gögn málsins sýni að á þeim degi sem hann keypti fyrrgreind hlutabréf hafi stefndi með saknæmum hætti haldið frá honum og öðrum markaðsaðilum upplýsingum um að Samson eignarhaldsfélag ehf. (hér eftir Samson) færi með meirihluta atkvæða á hluthafafundum í Landsbanka Íslands hf. og að bankinn hefði stundað umfangsmiklar lánveitingar til félaga sem voru undir stjórn stefnda. Stefnandi telur að sú staða að Samson fór með meirihluta atkvæða á hluthafafundum í Landsbanka Íslands hf. hefði átt að leiða annars vegar til þess að Landsbankinn teldist vera dótturfélag Samsons og hins vegar til þess að Samson hefði verið skylt að gera öðrum hluthöfum kauptilboð (yfirtökutilboð) í hlutabréf þeirra. Fyrrgreindar upplýsingar hafi verið mikilvægar fyrir alla sem vildu fjárfesta í hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf.

            Stefndi hafnar kröfum stefnanda og tekur fram að verið sé að krefjast bóta fyrir tjón vegna hluta sem stefnandi keypti í Landsbanka Íslands hf.; líkt og stefndi, sem aldrei tók sæti í bankaráði Landsbankans, hafi borið einhverja stjórnunarábyrgð á bankanum. Stefndi kveður viðskiptin hafa farið fram fyrir opnum tjöldum og að atburðarásin hafi verið einföld, en stefnandi reyni að flækja hana. Stefndi telur ekki lagalegar forsendur fyrir málatilbúnaði stefnanda og telur hann kröfur stefnanda ekki aðeins vera fyrndar, heldur horfi stefnandi m.a. fram hjá meginreglum laga um takmarkaða ábyrgð hluthafa. 

 

II

            Helstu málsástæður stefnanda eru eftirfarandi:

            Í fyrsta lagi byggist krafa stefnanda á vanreifun málsástæðu stefnda um fyrningu. Stefndi hafi vísað til lagaákvæða en í engu getið um málsástæður þær sem hann byggi á. 

            Í annan stað byggir stefnandi á því að lög nr. 14/1905 eigi við í málinu og kröfur hans séu því ófyrndar. Skaðabótakrafa hafi stofnast þegar hin bótaskylda háttsemi átti sér stað og miðist gjaldkræfni kröfunnar að jafnaði við sama tímamark, samanber 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007. Þó geti gjaldkræfni bótakröfu miðast við síðara tímamark en stofndagurinn miðast við, ef tjón kemur fram síðar eða ekki er hægt að staðreyna það.

            Stefnandi byggir á því að hin bótaskylda háttsemi stefnda hafi verið hafin þegar stefnandi keypti hlutabréf í Landsbanka Íslands 16. febrúar 2006 og 19. desember 2007 og stofndagurinn eigi að miðast við þau tímamörk.

            Í þriðja lagi tekur stefnandi fram að eigi að byggja á lögum nr. 150/2007, þá hafi stefnandi höfðað málið um kröfuna innan fjögurra ára frá því að hann fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð bar á því og bar að afla sér slíkra upplýsinga, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007.

            Stefnandi heldur því fram að hann hafi slitið fyrningu þegar hann höfðaði mál um kröfuna, það er þegar stefndi mætti við þingfestingu stefnu málsóknarfélags hinn 27. október 2015.

            Þá bendir stefnandi á að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er kom út 12. apríl 2010 hafi gefið stefnanda tilefni til gagnaöflunar, en skýrslan sjálf hafi ekki sjálfstætt sönnunargildi.

            Þá liggi fyrir í málinu að umfangsmikil gagnaöflun hafi farið fram hjá LBI hf. og hafi lögmaður stefnanda ekki fengið gögnin afhent fyrr en 16. febrúar 2015.

            Einnig hafi verið höfðað vitnamál til gagnaöflunar samkvæmt beiðni 21. september 2012 og skýrslutökur ekki farið fram fyrr en 11. og 13. mars 2014, en mikill ágreiningur hafi verið á milli aðila sem skýri þann drátt sem varð á málinu.

            Stefnandi telur ljóst að hann hafi ekki haft nægar upplýsingar til stuðnings kröfum sínum fyrr en 16. febrúar 2015 og séu kröfurnar því augljóslega ekki fyrndar, hvort sem miðað sé við málshöfðun málsóknarfélagsins eða þingfestingu þessa máls.

 

III

            Helstu málsástæður stefnda eru eftirfarandi.

            Í fyrsta lagi hafnar stefndi því að málsástæða hans um fyrningu sé vanreifuð. Hann telur að málsástæðan sé sett fram á skýran og gagnorðan hátt og það séu ekki gerðar ríkari kröfur um að fyrningarmálsástæða sé rökstudd sérstaklega umfram það að nefna fyrningu á nafn.

            Í öðru lagi byggir stefndi á því að lög nr. 150/2007 eigi við í málinu og séu því allar kröfur stefnanda fyrndar. Bótakrafa stofnist ekki fyrr en tjón hafi átt sér stað. Í þessu tilviki hafi það orðið 7. október 2008, en þá urðu hlutabréfin verðlaus. Stefndi byggir á því að kröfuréttindi stefnanda, eins og þeim sé lýst í stefnu, geti vart hafa stofnast fyrr en eftir gildistöku laga nr. 150/2007.

            Í þriðja lagi byggir stefndi á því að fyrningu hafi fyrst verið slitið þegar málið var höfðað í september 2016. Stefndi hafnar því að viðurkenningarkrafa í hópmálssókn í eldra máli, sem þingfest var 15. október 2015, hafi rofið fyrningu.

            Þá byggir stefnandi í fjórða lagi á því að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti um málshöfðun. Tjónið hafi orðið 7. október 2008 og stefnanda borið að hefjast handa svo fljótt sem auðið yrði. Það sé alveg sama hvort fyrningarfrestur sé talinn byrja að líða 7. október 2008 (við bankahrunið), 12. apríl 2010 (er rannsókn lauk á falli ísl. bankanna, sbr. lög nr. 142/2008), 18. nóvember 2010 (er hugmynd að málshöfðun kom í opinbera umræðu), 12. september 2011 (er auglýst var eftir þátttöku í hópmálssókn) eða við síðara tímamark áður en fjögur ár voru til rofs fyrningar. Allar kröfur hafi verið fyrndar þegar málið var höfðað.

            Að lokum heldur stefndi því fram að vaxtakrafan sé fyrnd og breyti þá engu hvort eldri eða yngri lögin verði talin eiga við.

 

IV

            Hinn 16. febrúar 2006 og 19. desember 2007 festi stefnandi kaup á hlutabréfum í Landsbankanum. Stefnandi tapaði hlutabréfum þessum í bankahruninu. Hann telur að hann eigi skaðabótakröfu á hendur stefnda vegna tapsins. Í þessum þætti málsins er deilt um það hvort dómkrafan sé fyrnd. Stefnandi byggir á því að krafan fyrnist á 10 árum, sbr. 4. gr. laga nr. 14/1905, og sé hún því ófyrnd. Stefndi hafnar því og byggir á því að lög nr. 150/2007 eigi við og að krafan fyrnist á fjórum árum og sé hún því fyrnd.

            Stefnandi byggir á því að krafa stefnda um fyrningu sé vanreifuð í greinargerð. Greinargerð stefnda ber skýrlega með sér að hann telji kröfuna fyrnda þegar málið var höfðað og einnig að fyrningarfresturinn sé fjögur ár, samanber 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Þá kemur skýrlega fram í greinargerðinni að stefndi byggir á 2., 3. og 9. gr. laga nr. 15/2007. Greinargerðin er hvað þetta varðar sett fram á skýran og gagnorðan hátt, samanber 2. mgr. 99. gr. laga um meðferð einkamála. Við munnlegan málflutning var síðan gerð nánari grein fyrir þessari málsástæðu. Eins og gögn málsins liggja fyrir og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í málinu nr. 548/2014 verður að telja að krafa stefnda sé studd rökum um fyrningu og er því hafnað að um vanreifun sé að ræða.

            Í fyrstu þarf að taka afstöðu til þess hvort skaðabótakrafa stefnanda sé krafa utan eða innan samninga. Kaup stefnanda á hlutabréfum í bankanum eru byggð á samningi. Hins vegar verða hlutabréfin verðlaus við hrun bankakerfisins í október 2007. Bankahrunið var algjörlega óháð því samningssambandi sem var til staðar við hlutabréfakaupin. Tjónið verður vegna atburða/hamfara er gengu yfir þjóðina alveg óháð samningssambandi aðila. Dómurinn lítur því svo á að um sé að ræða skaðabótakröfu utan samninga.

            Í eldri skaðabótalögum nr. 14/1905 var ekki að finna sérákvæði um skaðabótakröfur og fyrndust því slíkar kröfur á 10 árum, samanber 2. tl. 4. gr. þeirra laga. Þá var upphaf fyrningarfrests miðað við 1. mgr. 5. gr. laganna, það er frá þeim degi er krafan varð gjaldkræf. Þó hefur í dómum Hæstaréttar verið talið að miða eigi við síðara tímamark, ef tjón kemur fram síðar eða ekki er hægt að staðreyna tjónið, samanber hér til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málunum nr. 197/2000 og 578/2014. Eins og atvikum málsins er háttað telur dómurinn að ekki eigi að miða upphaf fyrningarfests við kaupdag hlutabréfanna heldur þegar tjónið kom fram.

            Í lögum nr. 150/2007, sem gildi tóku 1. janúar 2008, er nýmæli um fyrningu skaðabótakrafna. Í 9. gr. laganna er kveðið á um að krafa um skaðabætur fyrnist á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk „nauðsynlegar upplýsingar um tjónið“ og þann sem ábyrgð ber á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Ákvæðið tekur m.a. til skaðabóta utan samninga. Samkvæmt þessu ákvæði miðast stofnun kröfunnar ekki við kaupin á hlutabréfunum, svo sem stefnandi heldur fram, heldur er miðað við tjónið, það er krafa um skaðabætur fyrnist á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið.

            Í athugasemd með frumvarpi sem varð að lögum nr. 150/2009 segir um 9. gr. að upphaf fyrningar skuli telja frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgur var fyrir því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Er því hér um huglægt atriði að ræða. Þá segir að almennt hafi þó verið litið svo á að fyrningarfresturinn byrji að líða þegar tjónþoli fékk eða bar að afla sér nauðsynlegra upplýsinga um fyrrgreinda tvo þætti, þ.e. tjónið sjálft og þann sem ábyrgðina bar. Í athugasemdunum segir svo: „Þá fyrst hefur verið talinn grundvöllur fyrir hann til að setja fram kröfu sína um bætur. Hann getur hins vegar ekki setið aðgerðalaus eða borið við vanþekkingu sinni á réttarstöðu sinni. Fyrningarfrestur samkvæmt ákvæði 9. gr. fer því ekki eftir persónubundinni vitneskju einstakra tjónþola um réttarstöðu sína, heldur eftir því hvenær tjónþoli bjó yfir þeirri vitneskju að honum væri fært að leita fullnustu kröfu sinnar. Einstaklingsbundin vitneskja um lagareglur ræður ekki fyrningarfresti hér frekar en öðrum lagaskilyrðum.“

            Telja verður að upphaf fyrningarfrestsins sé sá dagur er bankahrunið varð, þ.e. 7. október 2008. Þá hafi stefnandi vitað að hrunið myndi leiða til tjóns fyrir hann. Ætla má að það hafi ekki tekið stefnanda langa yfirlegu að gera sér grein fyrir því hver að hans mati bæri ábyrgð á ætluðu tjóni hans.

            Samkvæmt 15. gr. laga nr. 150/2008 er fyrningu slitið með málssókn kröfuhafa á hendur skuldara til að fá dóm fyrir kröfunni. Dómsmál þetta var höfðað með stefnu birtri í nóvember 2016. Er krafan því löngu fyrnd. Sömuleiðis var krafan löngu fyrnd við þingfestingu stefnu málsóknarfélagsins hinn 27. október 2015.

            Með vísan til þess sem að framan greinir er niðurstaða málsins sú að krafa stefnanda er fyrnd. Samkvæmt þessari niðurstöðu og með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað svo sem greinir í dómsorði.

            Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

            Stefndi er sýknaður af kröfu stefnanda.

            Stefnandi, Vogun hf., greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.

 

                                                            Sigrún Guðmundsdóttir.