• Lykilorð:
  • Einkahlutafélög
  • Fjártjón
  • Gáleysi
  • Hlutabréf
  • Hlutafé
  • Hlutafjárhækkun
  • Hluthafi
  • Húsbóndaábyrgð
  • Löggiltir endurskoðendur
  • Orsakatengsl
  • Sönnun
  • Sönnunarbyrði
  • Sönnunargögn
  • Sönnunarmat
  • Verðmat
  • Sýkna

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 22. júní 2018 í máli nr. E-3330/2017:

Ferðaþjónustan Óseyri ehf.

(Hilmar Gunnlaugsson lögmaður)

gegn

PricewaterhouseCoopers ehf.

(Gestur Jónsson lögmaður)

 

 

I.

Mál þetta var höfðað 13. október 2017 og dómtekið 4. júní 2018. Stefnandi er Ferða­þjónustan Óseyri ehf., Norðurtúni 24, Fljótsdalshéraði. Stefndi er Pricewater­houseCoopers ehf., Skógarhlíð 12, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða honum 15.000.000 króna auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr., sbr. 12. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu af þeirri fjárhæð frá 27. janúar 2014 til 26. febrúar 2017 og dráttarvaxta sam­kvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 12. gr. sömu laga, frá 26. febrúar 2017 til greiðsludags. Til vara er þess krafist að viðurkennd verði bótaskylda stefnda vegna tjóns stefnanda er leiddi af þeirri ákvörðun hans að fjárfesta í hlutafé í einkahlutafélaginu Scanco fyrir 15.000.000 króna veturinn 2013–2014. Þá er þess jafnframt krafist að stefndi greiði stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti.

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi máls­kostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu samkvæmt framlögðu máls­kostnaðar­yfirliti.

 

II.

Málsatvik:

Með hluthafasamningi 22. janúar 2014 varð samkomulag milli stefnanda og Birgis Arnar Birgissonar, Gunnars Einarssonar og Valdimars Hilmarssonar um að stefn­­andi kæmi að eignarhaldi að Scanco ehf., sem nýr hluthafi á grundvelli fyrir­hugaðrar hlutafjáraukningar í félaginu, en hinir þrír síðarnefndu voru hluthafar í félag­inu fyrir. Samkvæmt samningnum var lagt til grundvallar að stefnandi keypti nýtt hluta­­fé samkvæmt áskriftarsamningi að nafnvirði 214.268 krónur af félaginu fyrir sam­­tals 15.000.000 króna eða 70 krónur á hlut. Að lokinni hlutafjárhækkun var mið­að við að stefnandi ætti 30% hlutafjár í félaginu.

Í samningnum var tilgangur félagsins sagður vera heildsala og dreifing á íþrótta­vörum á Íslandi, Norðurlöndum og í Evrópu. Markmið félagsins var sagt vera að ná meira en 10 milljóna króna EBITDA-hagnaði fyrir árið 2014 og meira en 30 milljóna króna hagnaði fyrir árið 2015. Þá var arðgreiðslustefna félagsins sögð vera með þeim hætti að samningsaðilar hefðu komið sér saman um viðskiptaáætlun fyrir félagið en jafn­framt var tekið fram að gengju áætlanir eftir um 30 milljóna króna EBITDA-hagnað fyrir árið 2015 þá skyldi félagið greiða út 10 milljónir króna til hluthafa félagsins í arð vegna þess árs. Tekið var fram í samkomulaginu að með hugtakinu EBITDA (e. Earnings Before Interests, Taxes, Depreciation and Amortization) væri átt við hagnað fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, nánar tiltekið afgang eftir alla venju­­­lega rekstrarliði, þar með talin laun eigenda.

Með bankamillifærslu til Scanco ehf. 27. janúar 2014 greiddi stefnandi fyrir hluta­­­bréfin í einu lagi, 15 milljónir króna. Með tilkynningu Scanco ehf. til fyrirtækja­skrár ríkisskattstjóra, sem var móttekin 1. apríl 2014 en dagsett 22. janúar sama ár, var til­­­kynnt um framangreinda hlutafjárhækkun og tekið fram að hlutaféð væri að fullu greitt með peningum. Jafnframt var fyrirtækjaskrá þennan sama dag tilkynnt um breyt­ingu á stjórn félagsins frá og með 22. janúar 2014, meðal annars að fyrirsvarsmaður stefn­anda, Ívar Ingimarsson, hefði tekið sæti í stjórn félagsins sem meðstjórnandi.

Að sögn stefnanda mun aðdragandinn að framangreindum hlutabréfakaupum hafa verið með þeim hætti að hluthafar í Scanco ehf., sem fyrir voru, hefðu skorað á hann um haustið 2013 að koma að félaginu sem fjárfestir. Félagið hefði að sögn stefnanda verið tiltölulega nýbyrjað í rekstri og það vaxið töluvert, auk þess sem gert hefði verið ráð fyrir áframhaldandi vexti þess.

Að sögn stefnanda hefði fyrirsvarsmaður hans, fyrrgreindur Ívar, á haust­mánuðum 2013 fengið sent til sín skjal merkt stefnda og með forsíðunni SCANCO Desktop Valuation, dagsett 31. október 2013. Skjalið hefði verið sagt unnið á grund­velli ársuppgjörs 2012 og níu mánaða uppgjörs 2013 og það verið kynnt fyrir Ívari sem verðmat óháðs aðila. Í skjalinu hefði komið fram sú spá að gríðarlegur vöxtur yrði á veltu Scanco ehf., og að rekstrartekjur félagsins myndu aukast úr áætluðum 58 milljónum króna á árinu 2013 í áætlaðar 828 milljónir á árinu 2016. Virði rekstrar hefði verið metið á tæplega 73 milljónir króna og skuldir sagðar vera 12,5 milljónir króna. Virði eigin fjár hefði verið talið nema ríflega 60 milljónum króna en að teknu tilliti til seljanleikaafsláttar hefði virði eiginfjár verið metið á ríflega 51 milljón króna.

Að sögn stefnanda hefði hann ákveðið, á grundvelli skjalsins frá stefnda, að taka til­boði um kaup á nýjum hlutum í félaginu sem áður greinir. Hefði framan­greind fjár­festingarákvörðun alfarið verið byggð á upplýsingum í verðmati stefnda og tal annarra hlut­hafa um félagið sem vænlegan fjárfestingarkost hefði ekki öðlast trú­verðugleika fyrr en honum hefði verið kynnt verðmatið. Að sögn stefnanda hefði verðmatið borið þess merki að vera unnið af starfsmönnum stefnda og það verið án allra fyrirvara stefnda um staðhæfingar í skjalinu, þar með talið áætlanir sem þar hefðu verið kynntar og það mat sem lagt hefði verið á Scanco ehf. Þá hefði Scanco ehf., að sögn stefnanda, átt að vera skuldlaust eftir kaup hlutabréfanna, þar sem um hefði verið að ræða nýtt hluta­­fé, miðað við framangreindar upplýsingar um skulda­stöðu, sem hefðu meðal annars stafað frá stefnda.

Að mati stefnda munu atvik málsins hafa verið með nokkuð öðrum hætti varðandi það verðmat sem látið var af hendi vegna Scanco ehf. Að sögn stefnda hefði Birgir Örn Birgisson, þáverandi stjórnarformaður og eigandi í Scanco ehf., leitað til Halldórs Þor­­kelssonar, þáverandi sviðsstjóra fyrirtækjaráðgjafar stefnda, í október 2013, og óskað eftir því að unnið yrði fyrir hann verðmat á félaginu. Samningur hefði ekki verið gerður milli hans og Scanco ehf. um gerð verðmats og engin þóknun boðin eða áskilin fyrir vinnuna. Hefði Grétari Brynjólfssyni, ráðgjafa á fyrir­tækjasviði stefnda, verið falið að vinna verðmatið og hann síðan verið í samskiptum við Birgi Örn. Að sögn stefnda hefði Birgir Örn óskað eftir því í þeim samskiptum að Grétar gæfi honum gróft mat á því á hvaða verðbili verðmæti félagsins gæti legið. Hann hefði tekið að sér að vinna takmarkað verðmat byggt á upp­lýsingum frá Scanco ehf. í þeim tilgangi að stjórn­endur og eigendur félagsins hefðu útreikninga í höndunum á hugsanlegu verð­mæti félagsins miðað við gefnar forsendur.

Að sögn stefnda hefði hann í desember 2013 sent verðmat, sem hann hefði unnið vegna Scanco ehf., til Sævars Helgasonar, hugsanlegs fjárfestis, að beiðni Sævars, en hann hefði á þeim tíma sýnt félaginu áhuga eftir að hafa setið fund með fyrrgreindum Halldóri og forsvarsmönnum Scanco ehf. skömmu áður þar sem félagið hefði verið kynnt sem fjárfestingarkostur. Umrætt skjal, sem hefði verið sent, hefði verið merkt stefnda og með forsíðunni SCANCO Fjárhagsupplýsingar, dagsett 31. október 2013. Skjalið hefði verið sent sem svokallað desktop verðmat en það merki takmarkað verð­mat og sé um að ræða útreikning á grundvelli gefinna forsendna án þess að sá sem reiknar gangi úr skugga um eða meti réttmæti forsendnanna. Hefði verðmatið verið sent með fyrirvara og ekki verið við það miðað að starfsmenn hans kynntu fjárhags­upplýsingar fyrir mögulegum fjárfestum. Þá hefði tilgangurinn með verð­matinu, að sögn stefnda, verið að stilla saman hugmyndir starfsmanna hans og væntingar seljenda í aðdraganda sölu á hlutafé í Scanco ehf. Í skjalinu til Sævars hefði verið tekið fram að rekstraráætlun fyrir árin 2013–2016 hefði verið unnin af stjórn­endum Scanco ehf. Þá hefði verið tekið fram í sambandi við verðmatið á félaginu að notaður hefði verið hár veginn fjármagnskostnaður í ljósi áætlana stjórnenda félags­ins um mikinn tekjuvöxt. For­­sendurnar sem legið hefðu til grundvallar útreikn­ing­unum á verðmæti félagsins hefðu því byggst á gögnum og áætlunum stjórnenda Scanco ehf. Þá hefði stefndi, áður en verðmatið var sent út, gætt þess að Sævar væri meðvitaður um eðli matsins. Á grund­velli þeirra upplýsinga og áætlana sem starfs­mönnum stefnda hefðu verið veittar hefði virði rekstrar Scanco ehf. verið reiknað 84.594.800 krónur og skuldir félagsins verið tilgreindar 23.800.000 krónur.

Að sögn stefnda hefði fyrrgreindum Halldóri, þáverandi sviðsstjóra fyrirtækja­ráðgjafar stefnda, fyrst með tölvuskeyti frá Birgi Erni, í janúar 2014, verið tilkynnt um mikinn áhuga Ívars Ingimarssonar, fyrirsvarsmanns stefnanda, um aðkomu að Scanco ehf., sem líklegur fjárfestir. Halldór hefði á þessum tíma ekki verið í neinum sam­skiptum við Ívar og hið sama hefði átt við um aðra starfsmenn stefnda. Samskipti milli Halldórs og Ívars hefðu fyrst átt sér stað í mars 2016 í tengslum við annað verkefni og ótengt Scanco ehf.

Bréf frá lögmanni stefnanda til stefnda, í aðdraganda málshöfðunarinnar, dagsett 26. október 2016, þar sem fullyrt hefði verið að stefnandi hefði fjárfest í Scanco ehf. á grundvelli meints verðmats stefnda, skjals sem fylgt hefði bréfinu, hefði að sögn stefnda komið honum í opna skjöldu. Starfsmenn hans hefðu ekki kannast við skjalið sem fylgt hefði bréfinu og ekki talið það koma frá sér. Stefndi telji augljóst við skoðun á skjalinu að ekki hafi verið unnið með sömu tölur og gert var við samantekt fjár­hags­upplýsinganna sem komu frá stefnda og Grétar hefði unnið fyrir stjórnendur og eigendur Scanco ehf. og lágu til grundvallar verðmatinu sem sent hefði verið til Sævars. Þá hefði blasað við starfsmönnum stefnda að uppsetning skjalsins hefði ekki sam­­­rýmst því sem lagt væri til grundvallar hjá stefnda. Gögn frá starfsmönnum stefnda hefðu ávallt verið sett fram í láréttu formi (e. landscape) í PowerPoint en ekki í lóð­réttu formi (e. portrait) líkt og verðmatið sem borist hefði frá lögmanninum.

Með tölvuskeyti Halldórs Þorkelssonar til lögmanns stefnanda 9. nóvember 2016 hefði fyrrgreindu erindi lögmannsins verið svarað og meðal annars tekið fram að ráð­gjöf stefnda til Scanco ehf. hefði einungis verið ætluð eigendum félagsins vegna áforma um sölu þess. Um óformlegt verðmat hefði verið að ræða þar sem fyrirvarar hefðu verið gerðir um áreiðanleika. Í viðhengi með tölvuskeytinu fylgdi verðmat, nánar tiltekið skjal unnið af stefnda með fjárhagsupplýsingunum sem starfsmenn stefnda hefðu kynnt fyrir tveimur hópum fjárfesta sem sýnt hefðu Scanco áhuga á sínum tíma. Stefnda hefði ekki verið kunnugt um að skjalið hefði verið notað til að kynna öðrum Scanco ehf. og hefði svo verið þá hefði það ekki verið borið undir stefnda.

Við aðalmeðferð gáfu Ívar Ingimarsson, fyrirsvarsmaður stefnanda, og Friðgeir Sigurðsson, fyrirsvarsmaður stefnda, aðilaskýrslu. Þá gáfu vitnaskýrslur Halldór Þor­kels­­son, fyrrverandi sviðsstjóri fyrirtækjaráðgjafar stefnda, og Gunnar Einarsson, hlut­hafi í Scanco ehf. Vísað verður til framburðar þeirra eftir því sem þurfa þykir í niður­stöðukafla dómsins. Hið sama á við um það sem fram kemur í framlögðum dóm­skjöl­um.

 

III.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda:

Í stefnu greinir að aðal- og varakrafa byggi á sömu málsástæðum hvað varðar meinta bótaskyldu stefnda gagnvart stefnanda. Stefnandi byggir á því að hann hafi orðið fyrir bótaskyldu tjóni vegna saknæmrar háttsemi starfsmanna stefnda sem hafi orðið í starfsemi stefnda. Starfsmenn stefnda, sem stefndi beri ábyrgð á, hafi valdið stefnanda tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti. Þá hafi tjónið verið sennileg af­leiðing af háttsemi starfsmannanna og raskað hagsmunum sem verndaðir séu með skaða­­bótareglum. Að þessu virtu tekur stefnandi fram að hann byggi á almennu sakar­reglunni og reglunni um vinnuveitendaábyrgð sem séu ríkar grundvallarreglur í íslensk­­um skaðabótarétti utan samninga.

Stefnandi telur einsýnt að það hafi verið ásetningur starfsmanna stefnda að gera um­­rætt verðmat sem hafi grundvallað fjárfestingarákvörðun stefnanda. Stefnandi telur að fyrir liggi staðfesting yfirmanns hjá stefnda um að stefnda hafi verið það ljóst að til hafi staðið að selja hlutafé í Scanco ehf. og að stefndi hafi komið að þeim áformum vegna fyrrgreinds ásetnings starfsmanna hans. Því hafi legið fyrir að skjalið yrði notað í viðræðum við áhugasama kaupendur. Verðmatið hafi verið rækilega merkt stefnda og án allra fyrirvara um það hvernig staðhæfingar, áætlanir og ályktanir voru fengnar. Að því virtu hefði stefnda mátt vera ljóst að sá sem fengi skjalið í hendur myndi treysta því að starfsmenn hans hefðu gert þessar upplýsingar að sínum og staðreynt þær.

Stefnandi vísar til þess að starfsmenn stefnda séu sérfræðingar í fjármála- og fjárfestingarráðgjöf. Starfsmönnum stefnda hefði því mátt vera augljós sú afleiðing af dreifingu á verðmatinu að ráðgjöf og trúverðugleiki stefnda myndi gera það að verk­um að verðmatið yrði notað sem grundvallarskjal í viðskiptum með hlutafé í Scanco ehf. Stefnandi telur að stefndi hafi ekki svarað áskorunum um að upplýsa hvaðan hann hafi fengið þær upplýsingar sem fram komi í skjalinu og því verði ekki önnur ályktun dregin en að starfsmenn stefnda hafi beinlínis haft aðgang að frumupplýsingum um Scanco ehf. og sett verðmatið saman á grundvelli þeirra skjala. Að öðrum kosti hefðu þeir sett fyrirvara í skjalið, en dæmi séu um að það hafi verið gert hjá stefnda. Stefn­andi telur því augljóst að meta verði þær afleiðingar, nánar tiltekið að stefnandi hafi byggt ákvörðun sína um kaup á hlutabréfunum á verðmati frá stefnda, sem sennilega afleiðingu af saknæmri háttsemi starfsmanna stefndu og þar með á ábyrgð stefnda. Stefn­andi telur að saknæmi starfsmanna stefndu hafi annaðhvort verið byggt á ásetn­ingi eða stórfelldu gáleysi en tekur hins vegar fram að almennt gáleysi nægi til grund­vallar bótaskyldu stefnda. 

Stefnandi byggir á því að ef verðmat stefnda hefði verið með réttum upp­lýsingum, þar með talið áætlunum sem hefðu verið byggðar á þeim upplýsingum, þá hefði ekkert orðið af kaupum hans á hlutabréfum í Scanco ehf. Stefnandi telur að slíkt blasi við og verði að teljast nægjanlega sannað af hans hálfu. Þannig sé ljóst að ef rétt hefði verið farið með skuldir félagsins og þær sagðar vera 28 milljónir króna í stað 12,5 milljóna króna þá hefði stefnandi áttað sig á því að stórfellt tap hefði verið á rekstri félagsins fyrstu níu mánuði ársins 2013 en tap vegna alls þess árs hefði reynst vera 8,8 milljónir króna. Væntingar stefnda um tveggja milljóna króna EBITDA-hagnað á ár­inu 2013 hefðu því verið fjarstæðukenndar og til þess fallnar að skapa væntingar og ná fram ákvörðunum um kaup á hlutabréfunum með saknæmum og ólög­mætum hætti. Þá byggir stefnandi á því að það standi upp á stefnda að sanna að réttar upplýsingar hefðu engu breytt um ákvörðun stefnanda og stefndi eigi þannig að bera hallann af því verði talið skorta á um sönnun þessa atriðis.

Stefnandi byggir á því að á stefnda hafi hvílt ótvíræð skylda til að gera mögu­legum kaupendum skýra grein fyrir þeirri óvissu og áhættu sem myndi vera samfara því að leggja forsendur verðmatsins til grundvallar í viðskiptum með hlutafé í félag­inu. Hafi stefndi ekki staðreynt skuldastöðu Scanco ehf. þá hefði honum borið að geta þess með skýrum hætti í verðmatinu. Sama eigi við um áætlanir um framtíðarþróun hafi þær verið byggðar á einhverju öðru en sjálfstæðu mati starfsmanna stefnda. Stefn­andi telur að fyrir liggi að kaupverð hans á 30% hlut í Scanco ehf. hafi verið í fullu sam­­ræmi við verðmat stefnda. Stefnandi áréttar að stefndi sé sérfræðingur á þessu sviði og að hann markaðssetji þá starfsemi sína á þeim grundvelli. Í verðmatinu hafi verið búið að leggja sérfræðimat á líkindi þeirrar áætlunar sem matið byggði á í formi eðli­legrar ávöxtunarkröfu, og þá hafi verið búið að færa verðmatið niður af sér­fræðingi um sanngjarnan afslátt vegna seljanleika hlutafjár í Scanco ehf.

Í máli þessu byggir stefnandi jafnframt á því, bæði varðandi aðal- og varakröfu, að stefndi beri ábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli sérstakrar skaðabótareglu um sér­fræðiábyrgð en sú regla sé strangari en almenna sakarreglan. Stefnandi byggir á því að vinnubrögð stefnda verði að samrýmast þeim viðmiðum sem gerð séu um gæði þeirra starfa, sbr. lög nr. 79/2008 um endurskoðendur, þar með talið 8. gr. þeirra laga. Þá vísar stefnandi einnig til C-hluta siðareglna sem settar hafa verið af Félagi löggiltra endurskoðenda og hafi stöðu sem réttarheimild, sbr. 2. mgr. fyrrgreindrar lagagreinar. Stefn­andi byggir á því að stefndi sé endurskoðunarfyrirtæki, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 79/2008, og sú starfsemi sem mál þetta taki til sé því á ábyrgð endurskoðenda félagsins. Stefnandi vísar til 27. gr. fyrrgreindra laga að því er varðar skaðabótaábyrgð endurskoðanda. Þá vísar hann í þessu sambandi til 27. gr. brottfallinna laga nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, að því er varðar skaðabótaábyrgð vegna mistaka við sölu fyrirtækja, en þau lög hafi verið í gildi við setningu laga nr. 79/2008. Í þeim lögum sé kveðið á um starfshætti og ábyrgð fyrirtækjasala og vísi stefn­andi einkum til 10.–16. gr. og 27. gr. þeirra laga. Máli sínu enn frekar til stuðn­ings byggir stefnandi á ákvæðum 5. gr., sbr. 5. tölul. 1. mgr. og 3. tölul. 2. mgr. 1. gr., laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, auk 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, varð­andi sakarmat á bótaskyldu vegna háttsemi stefnda. Þá byggir stefnandi einnig á því að hin stranga sérfræðiábyrgð gildi óháð því hvort stefndi hafi fengið þóknun fyrir störf sín.

Með hliðsjón af úrlausn málsins þykja ekki efni til að greina nánar frá máls­ástæðum og lagarökum stefnanda að þessu leyti, sbr. e-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 10. gr. laga nr. 78/2015. Hið sama á við um málsástæður varðandi vexti og dráttarvexti. 

Varðandi varakröfu þá tekur stefnandi fram að um sé að ræða viður­kenningar­kröfu samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Verði aðalkröfu hafnað þá byggir stefnandi á því að sýnt hafi verið fram á nægileg líkindi fyrir því að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna ráðgjafar stefnda. Stefnandi telur ljóst af dómafordæmum að gerð sé krafa um að stefnandi sýni fram á lögvarða hagsmuni af slíkri dómsniðurstöðu. Með vísan til málavaxta og málsástæðna varðandi aðalkröfu þá byggir stefnandi á því að sýnt hafi verið fram á að ráðgjöf stefnda hafi valdið stefnanda miklu tjóni. Stefn­andi telur því að það liggi fyrir með skýrum hætti að stefnandi eigi lögvarða fjárkröfu á hendur stefnda verði bótaskylda stefnda viðurkennd en ekki talið liggja nægilega ljóst fyrir hver fjárhæð tjónsins sé.

Um varnarþing vísar stefnandi til 3. og 4. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 og um máls­­kostnaðarkröfu vísar hann til 130. gr. og annarra ákvæða XXI. kafla sömu laga.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnda:

Stefndi mótmælir málatilbúnaði stefnanda og öllum málsástæðum sem þar er byggt á. Stefndi vísar til þess að ekkert samningssamband hafi verið á milli stefnanda og stefnda. Þá hafi engin samskipti átt sér stað milli forsvarsmanns stefnanda og starfs­­manna stefnda áður en stefnandi tók ákvörðun um að kaupa hlutabréf í Scanco ehf. við hlutafjáraukningu í félaginu. Engin bótaskylda geti því stofnast milli aðila innan samninga.

Stefndi mótmælir því að stefndi eða starfsmenn hans hafi sýnt af sér saknæma hátt­semi gagnvart stefnanda en í stefnu sé fullyrt að stefnandi hafi byggt fjárfestingar­ákvörðun sína alfarið á þeim upplýsingum sem stöfuðu frá stefnda. Stefndi byggir á því að það liggi fyrir að engin samskipti hafi verið milli aðila vegna umræddra hluta­bréfakaupa fyrir 22. janúar 2014, þegar stefnandi undirritaði samning um þau kaup. Í þeim samningi komi hvergi fram að kaupin séu af hálfu stefnanda háð neinum for­sendum sem tengist stefnda. Hvergi í hluthafasamningnum sé vísað til þess verðmats sem stefnandi byggir á að hafi verið forsenda ákvörðunarinnar eða þess skjals um fjár­hagsupplýsingar Scanco ehf. sem stefndi kannast við að hafa unnið fyrir forsvarsmenn félagsins.

Stefndi kannast ekki við það skjal sem stefnandi fullyrðir að stafi frá honum þar sem enginn maður sem starfar eða hafi starfað hjá stefnda kannist við að hafa látið slíkt skjal frá sér. Þá sé skjalið ekki finnanlegt í tölvukerfi fyrirtækisins. Stefndi kunni ekki skýringu á því hvaðan skjalið stafi en tekur fram að hann hyggist ekki hafa uppi neinar getgátur þar um.

Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi ekki verið í neinum samskiptum við stefnda í aðdraganda hlutabréfakaupanna í Scanco ehf. Stefndi tekur fram að ef stefnandi hefði leitað til starfsmanna hans og óskað eftir nánari útskýringum á innihaldi tak­markaða verðmatsins þá hefði honum eflaust verið gert ljóst að það skjal gæti ekki orðið grundvöllur upplýstrar ákvörðunar um kaup á hlutabréfum í félaginu.

Í máli þessu byggir stefndi jafnframt á því að í stefnu sé viðurkennt að kynning á stöðu Scanco ehf. sem fjárfestingarkosts hafi verið unnin af öðrum hluthöfum félags­ins og starfssvið félagsins á íþróttavörumarkaði hafi verið á sérfræðisviði þeirra en ekki stefnda. Einnig er byggt á því að verðmatið sem stefnandi leggi til grundvallar hafi verið með þeim hætti að ekki hafi verið unnt að taka upplýsta eða eðlilega ákvörðun um kaup á félaginu byggða á því skjali, auk þess sem skjalið hafi verið merkt sem trúnaðar­mál. Stefndi byggir einnig á því að það standi upp á stefnanda að útskýra hvernig verðmat það sem hann byggir á hafi komist í hans hendur og á hvaða grund­velli hann hafi talið sér heimilt að nýta sér trúnaðarupplýsingar án heimildar frá stefnda. Þá hafi skýrir fyrirvarar og forsendur komið fram í verðmati því sem stefndi kannast við að hafa unnið fyrir þáverandi eigendur og stjórnendur Scanco ehf. og þær upp­lýsingar verið í nokkru samræmi við ársreikning félagsins 2013 en stefndi hafi þó ekki komið að gerð þess ársreiknings.

Með hliðsjón af úrlausn málsins þykja ekki efni til að greina nánar frá máls­ástæðum og lagarökum stefnda að þessu leyti, sbr. e-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 10. gr. laga nr. 78/2015.

Um málskostnaðarkröfu vísar stefndi til 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

IV.

Niðurstöður:

Í máli þessu er meðal annars uppi ágreiningur um hvort verðmat það sem stefn­andi telur að hafi verið ráðandi þáttur við ákvörðun hans um umrædd hlutabréfa­kaup stafi í raun frá stefnda. Við meðferð málsins hafa verið lögð fram tvö skjöl í ljós­riti, annars vegar skjal með forsíðunni SCANCO Desktop Valuation, í lóðréttu formi, sem stefnandi kveðst hafa fengið sent til sín og stefndi kannast ekki við, og hins vegar skjal með forsíðunni SCANCO Fjárhagsupplýsingar, í láréttu formi, sem stefndi kveðst hafa unnið að beiðni þáverandi stjórnenda og eigenda Scanco ehf. Forsíður beggja skjalanna eru með sömu ljósmynd, dagsetningar skjalanna eru þær sömu, 31. október 2013, skjölin eru bæði auðkennd ofarlega með heitinu Fyrirtækjaráðgjöf, auk auð­kennis stefnda, pwc, með feitletrun neðarlega. Þá eru bæði skjölin merkt sem trúnaðar­mál. Stefndi hefur ekki kannast við að það skjal sem stefnandi vísar til stafi frá honum en hann hefur jafnframt tekið fram að hann hyggist ekki hafa uppi neinar getgátur þar um. Málatilbúnaður stefnda verður ekki skilinn með öðrum hætti en svo að hann byggi ekki á því að umrætt skjal sé falsað en hann hafi hins vegar uppi veru­legar efasemdir um áreiðanleika skjalsins.

Fyrir liggur að fjárhagslegar upplýsingar sem tilgreindar eru í skjölunum eru ekki þær sömu. Hið fyrrnefnda skjal, SCANCO Desktop Valuation, skiptist annars vegar í upp­lýsingar um frjálst sjóðsflæði og hins vegar upplýsingar um niðurstöður verðmats. Engir fyrirvarar eru í skjalinu um áreiðanleika upplýsinga eða hvernig þær hafi verið fengnar. Í skjalinu eru annars vegar tölulegar upplýsingar um rekstur og áætlanir Scanco ehf. og hins vegar tölulegar upplýsingar um verðmat. Þar greinir meðal annars að virði rekstrar hafi verið 72.841.279 krónur, eilífðarvirði rekstrar hafi verið 39.677.232 krónur, skuldir hafi verið 12.500.000 krónur og virði eiginfjár með seljan­leikaafslætti hafi verið 51.290.087 krónur. Hið síðarnefnda skjal, SCANCO Fjárhags­upplýsingar, er hins vegar nokkru ítarlegra en hið fyrrnefnda og skiptist annars vegar í rekstur og áætlanir Scanco ehf. og hins vegar verðmat. Þar greinir meðal annars að virði rekstrar hafi verið 84.594.800 krónur, eilífðarvirði rekstrar hafi verið 51.648.447 krónur, skuldir hafi verið 23.800.000 krónur og virði eiginfjár með seljanleikaafslætti hafi verið 51.675.580 krónur. Þá kemur þar fram að rekstraráætlun fyrir árin 2013–2016 hafi verið unnin af stjórnendum Scanco ehf. og að við verðmat hafi verið not­aður hár veginn fjármagnskostnaður í ljósi áætlana stjórnenda félagsins um mikinn tekju­vöxt.

Meðal gagna er tölvuskeyti frá Grétari Brynjólfssyni, ráðgjafa í fyrirtækjaráðgjöf stefnda, til Birgis Arnar Birgissonar, hluthafa og stjórnarformanns Scanco ehf., frá 9. október 2013, þar sem meðal annars greinir að starfsmenn stefnda séu aðeins komnir af stað með gerð verðmats á Scanco ehf. Stefndi áformi að útbúa lítið verð­mat á félaginu til þess að fá betri tilfinningu fyrir virði þess og jafnframt er tekið fram að niður­staða verðmats sé aðeins til viðmiðunar. Tekið er fram að starfsmenn stefnda þurfi fleiri gögn og upplýsingar en fram komi í kynningu á félaginu og til að byrja með ársreikninga vegna áranna 2011 og 2012 og rekstraráætlun, en það séu grunn­gögn. Þá greinir einnig í tölvuskeytinu að Grétar áformi að vera í frekari samskiptum við Birgi Örn við vinnslu verðmatsins.

Einnig er meðal gagna útprentuð skjámynd af tölvuskeyti, ásamt viðhengi, sem Gunnar Einarsson, hluthafi í Scanco ehf., sendi til Ívars Ingimarssonar, fyrirsvars­manns stefnanda, 5. nóvember 2013. Á skjámyndinni kemur fram að Gunnar hafi í það skipti sent Ívari eitt skannað PDF-skjal og bendir forsíða þess skjals til þess að meðal gagna í við­henginu sé hið umþrætta skjal, SCANCO Desktop Valuation. Aðrar blaðsíður skjals­ins koma hins vegar ekki fram á skjámyndinni. Í tölvuskeytinu tekur Gunnar fram að Scanco ehf. sé verðmetið á 72.841.279 krónur.

Þá eru enn fremur meðal gagna tölvuskeyti frá 4. desember 2013 milli Sævars Helga­sonar og Halldórs Þorkelssonar. Í samskiptunum greinir meðal annars að Sævar hafi óskað eftir því að fá sent verðmat á Scanco. Hann hafi talið sig vera bú­inn að fá það sent nokkrum dögum áður en síðan ekki fundið það. Þá greinir í samskiptunum að Hall­dór hafi svarað beiðni Sævars stuttu síðar og tekið fram að hann væri ekki að senda verðmatið en að annar starfsmaður hjá stefnda, Grétar, myndi hins vegar senda honum það innan skamms tíma. Einnig greinir í skeyti Hall­dórs að ekki sé verið að kynna aðilum verðmatið eða senda það frá stefnda en það hafi verið sett saman til þess að stilla saman starfsmenn stefnda og væntingar seljanda og að fara þurfi með skjalið með tilliti til þess. Stuttu síðar kemur svarskeyti frá Sævari þar sem fram kemur að óþarfi sé að senda verðmatið, Grétar sé reyndar búinn að senda honum það í milli­tíð­inni frá fyrra tölvuskeyti og að Sævar muni ekki senda það öðrum. Enn fremur er meðal gagna tölvuskeyti um svipað leyti sama dag þar sem fram kemur að Grétar hafi sent skjal til Sævars en í því tölvuskeyti vísar Grétar til þess að desktop verðmat sé meðfylgjandi sem viðhengi.

Fyrirsvarsmaður stefnanda, Ívar Ingimarsson, bar meðal annars um að hann hefði í nóvember 2013 fengið gögn send frá Gunnari Einarssyni, sem unnin hefðu verið hjá stefnda um Scanco ehf., og þar hefði verið um að ræða hið umþrætta skjal, SCANCO Desktop Valuation. Ívar hefði hins vegar ekki kannað sérstaklega með uppruna skjals­ins eða annað varðandi það hjá stefnda eftir að hann fékk það í hendurnar. Það hefði verið löngu síðar sem Ívar hefði fyrst séð skjalið SCANCO Fjárhagsupplýsingar. Það hefði verið í tengslum við aðdraganda málshöfðunarinnar þegar lögmaður hans leitaði skýr­inga hjá stefnda.

Fyrirsvarsmaður stefnda, Friðgeir Sigurðsson, bar meðal annars um að hann og yfir­­maður tæknisviðs hefðu leitað að hinu umþrætta skjali í vinnugögnum fyrirtækja­ráðgjafar stefnda eftir að lögmaður stefnanda leitaði til fyrirtækisins í að­draganda máls­höfðunarinnar. Gögn fyrirtækjaráðgjafar hefðu verið geymd á sérstöku drifi í tölvu­­kerfi stefnda, nánar tiltekið í möppum merktum verkefnum eða viðskipta­vinum. Vinnu­gögn varðandi Scanco ehf. hefði verið þar að finna, nokkur skjöl, þar með talin Excel- og PowerPoint-skjöl og önnur skjöl. Hið umþrætta skjal hefði hins vegar ekki fundist í tölvukerfi stefnda og hefðu ekki verið nein merki um að slíku skjali hefði verið eytt úr tölvukerfinu. 

Vitnið Gunnar Einarsson bar um að leitað hefði verið til stefnda um aðstoð við að fá verðmat á Scanco ehf. vegna áforma á þeim tíma um stækkun fyrirtækisins. Birgir Örn Birgisson hefði leitt það verkefni. Gunnar hefði verið sölustjóri fyrirtækisins og haft með sölumál þess að gera, auk Valdimars Hilmarssonar. Gunnar bar um að hafa í eitt skipti fengið tilkynningu frá Birgi Erni um að hann og Valdimar ættu að koma á fund í starfsstöð stefnda, 30. eða 31. október 2013, þar sem kynna hefði átt fyrir þeim verðmat á fyrirtæki þeirra og að hugsanlegir fjárfestar hefðu áhuga á því að koma að því. Birgir Örn, Gunnar og Valdimar hefðu mætt til fundar af hálfu Scanco ehf. og Halldór Þorkelsson og Grétar Brynjólfsson af hálfu stefnda. Á þeim fundi hefði verið rætt um hverjir væru hugsanlegir fjárfestar sem gætu komið að fyrirtækinu. Á fund­inum hefði verið verðmat sem þeir hefðu allir þrír fengið afhent og hann haft það með sér heim eftir fundinn. Gunnar hefði verið í samskiptum við Ívar Ingimarsson um að Ívar kæmi að fyrirtækinu sem fjárfestir. Gunnar hefði rætt það við Birgi Örn að hann þyrfti að koma einhverjum gögnum til Ívars sem staðfestu stöðu fyrirtækisins og verð­mæti og hvað það þýddi ef hann kæmi inn í reksturinn. Gunnar hefði í framhaldi af þessu skannað fyrrgreint verðmat sem hann fékk á fundinum hjá stefnda og sent það með tölvuskeyti til Ívars 5. nóvember 2013. Þá bar Gunnar um að verðmatið, sem hann fékk á fundinum hjá stefnda, og hann sendi til Ívars, hefði verið skjalið SCANCO Desktop Valuation. Ekkert hefði verið átt við skjalið frá því að hann móttók það frá stefnda uns hann sendi það til Ívars og að enginn annar hefði átt við skjalið á þeim tíma.

Vitnið Halldór Þorkelsson, fyrrverandi sviðsstjóri, bar meðal annars um að hann kannaðist ekki við hið umþrætta skjal en að leitað hefði verið að því í póst- og tölvukerfi fyrirtækisins í aðdraganda málshöfðunarinnar. Skjalið hefði ekki fundist. Halldór kvaðst hins vegar kannast við skjalið SCANCO Fjárhagsupplýsingar, en það hefði verið tekið saman af fyrirtækjaráðgjöf stefnda fyrir þáverandi stjórnendur og eigendur Scanco ehf. Skjalið væri takmarkað verðmat um meint framtíðarvirði félags­ins út frá áætlunum stjórnenda og eigenda þess og það verið kynnt á fundum á skrif­stofu stefnda fyrir tveimur aðilum, ótengdum stefnanda, en þeir hefðu sýnt Scanco ehf. áhuga sem hugsanlegum fjárfestingarkosti. Skjalið hefði aldrei verið ætlað til frek­ari dreifingar. Gerð hefði verið ein undantekning frá því, en það hefði verið þegar skjalið var sent til annars af þeim tveimur fyrrgreindu aðilum sem fundað hefðu með stefnda, sending skjalsins hefði verið að beiðni þess aðila og skjalið ekki verið ætlað til frekari dreifingar. Var þar átt við sendingu skjalsins til Sævars Helgasonar. Hall­dór kann­aðist ekki við að hafa verið á fundi með þáverandi eigendum Scanco ehf., fyrr­greind­um Gunnari, Birgi Erni og Valdimari, auk ráðgjafans Grétars, þar sem skjalið SCANCO Desktop Valuation hefði verið afhent. Halldór kannaðist hins vegar við að hafa fundað með Gunnari og Birgi Erni í tengslum við þetta verkefni en mundi ekki hvort þeir hefðu verið saman á þeim fundi eða hvort fundað hefði verið með þeim í hvorum í sínu lagi. Halldór minntist þess hins vegar ekki að Valdimar hefði komið að þeim fundi. Þá minntist Halldór þess ekki að fleiri en ein útgáfa af skjalinu SCANCO Fjár­hagsupplýsingar hefði verið í umferð á meðan unnið var að gerð skjalsins hjá stefnda.   

Óumdeilt er að skjalið SCANCO Fjárhagsupplýsingar, sem stefndi byggir á, stafar frá honum, en það barst til lögmanns stefnanda frá stefnda í aðdraganda máls­höfðunarinnar. Að mati dómsins er ekki marktækur munur á því skjali og skjalinu SCANCO Desktop Valuation, sem stefnandi byggir á, með tilliti til grafískrar fram­setn­ingar, þar með talið á pwc-auðkenni stefnda, myndefni, leturgerð og letur­stærð. Al­kunna er að almennt er unnt að vinna með skjöl í rafrænu formi og prenta út að vild, ýmist í lóðréttu eða láréttu formi, með fremur einföldum hætti við tölvu­vinnslu. Engin gögn hafa verið lögð fram af hálfu stefnda sem staðfesta eða færa líkur að því að hið gagn­stæða eigi við um skjöl sem verða til í tölvukerfi hans. Þá er einnig alkunna að breyting úr láréttu formi yfir í lóðrétt form getur leitt til röskunar á réttum stærðar­hlutföllum myndefnis o.fl. Hið sama á við um meðferð skjala við ljósritun. Að því virtu getur lögun skjals við útprentun, ljósritun eða rafræna skönnun á útprentaðri eða ljósritaðri útgáfu ekki ráðið úrslitum í máli þessu um það hvort uppruna hins umþrætta skjals, SCANCO Desktop Valuation, megi rekja eða ekki rekja til stefnda eða hversu áreiðan­legur sá uppruni sé með tilliti til útgáfu eða lokagerðar á skjali. Starfsreglur eða verk­ferlar sem stefndi hefur sett sér varðandi lokafrágang skjala hagga ekki þessu mati dóms­ins. Þá liggur fyrir að bæði skjölin eru óundirrituð og getur það atriði því ekki ráðið úrslitum um uppruna eða áreiðanleika hins umþrætta skjals.

Þegar litið er til framangreinds tölvuskeytis 9. október 2013 þá liggur fyrir að ráð­gjafinn Grétar, undirmaður sviðsstjórans Halldórs, vann að gerð verðmats fyrir þá­verandi stjórnendur og eigendur Scanco ehf. og jafnframt að Birgir Örn var tengiliður Grétars við þá vinnu. Frekari samskipti þeirra á milli við gerð verðmatsins voru áform­uð í tölvuskeytinu . Þá liggur fyrir samkvæmt framburði Gunnars, sem að hluta til er studdur framburði Halldórs, að fundur var haldinn á starfsstöð stefnda með eigendum og stjórnendum Scanco ehf., einum eða fleiri, sem verkbeiðanda, vegna þeirrar vinnu undir lok þess sama mánaðar. Að mati dómsins má almennt gera ráð fyrir að á slíkum fundi liggi fyrir skrifleg gögn sem varða vinnu af þeim toga sem hér um ræðir og jafn­framt að verkbeiðanda sé unnt að fara með þess háttar gögn með sér að loknum fundi. Þá gefa málsgögn um samskipti í tengslum við gerð verðmats hjá stefnda ekki til kynna að mikil formfesta hafi verið í samskiptum milli Halldórs sviðs­stjóra og fyrr­greinds Birgis Arnar. Að því virtu eru að mati dómsins enn meiri líkur á því að gögn um ætlað virði Scanco ehf. hafi verið látin af hendi frá stefnda til þeirra sem voru á fyrr­greindum fundi af hálfu verkbeiðanda.

Framangreind skjámynd af tölvuskeyti Gunnars til Ívars 5. nóvember 2013, nokkrum dögum eftir fyrrgreindan fund, styður að mati dómsins að það skjal sem sent var hafi verið það skjal sem hafi legið fyrir á fundinum hjá stefnda og verkbeiðanda og það hafi verið hið umþrætta skjal, SCANCO Desktop Valuation. Mynd af framhlið skjals­ins sem birtist á skjámyndinni líkist mjög skjalinu. Þá er auk þess tekið fram í fyrr­greindu tölvuskeyti, sem fylgir skjámyndinni, að fyrirtækið sé verðmetið á 72.841.279 krónur, en sú fjárhæð samrýmist verðmæti rekstrar fyrirtækisins sem til­greint er á bls. 3 í hinu umþrætta skjali. Þá eru að mati dómsins jafnframt miklar líkur á því, að teknu tilliti til þess hversu stuttur tími var liðinn frá því að gerð verðmatsins hófst uns fundurinn var haldinn, og einnig með hliðsjón af því hversu takmarkað skjalið er varðandi forsendur upplýsinga um verðmat félagsins, að skjalið SCANCO Desktop Valuation hafi ekki verið endanleg útgáfa stefnda á verðmati Scanco ehf. Í fram­burði Friðgeirs, fyrirsvarsmanns stefnda, kom meðal annars fram að nokkur skjöl hefði verið að finna í vinnumöppu stefnda varðandi Scanco ehf. og gefur það að mati dóms­ins til kynna að skjalið kunni að hafa breyst í fyllingu tímans. Þá verður og ráðið af framburði Friðgeirs að stefndi hafi undir höndum fleiri skjöl, sem tengist að ein­hverju leyti gerð á umræddu verðmati og hann hafi ekki lagt fram, og verður stefndi lát­inn bera hallann af því.

Að öllu þessu virtu verður lagt til grundvallar að skjalið SCANCO Desktop Valu­ation stafi frá stefnda og það hafi verið afhent þáverandi eigendum og stjórn­endum Scanco ehf. í lok október 2013 en ekki sem lokaútgáfa verðmats. Skjalið hafi síðan í framhaldi borist frá Gunnari Einarssyni til stefnanda með tölvuskeyti 5. nóv­ember 2013. Þá verður jafnframt lagt til grundvallar að skjalið SCANCO Fjár­hags­upplýsingar, sem stefndi sendi til fjárfestisins Sævars Helgasonar um mánuði síðar, 4. desember 2013, hafi verið lokaútgáfa skjalsins reist á endanlegum upplýsingum frá þá­verandi eigendum og stjórnendum Scanco ehf. og frágangur þess tekið mið af því, þar með talið varðandi fyrirvara stefnda um forsendur verðmatsins. 

Að mati dómsins gefa tölulegar upplýsingar í lokaútgáfu verðmatsins fremur lakari mynd af félaginu sem vænlegum fjárfestingarkosti en fyrri útgáfan, sem Ívar fékk senda til sín frá Gunnari, þegar litið er til ætlaðrar skuldastöðu félagsins saman­borið við þær upplýsingar sem fram komu í skjalinu frá Gunnari. Niðurstöður í báðum skjölunum eru hins vegar áþekkar um verðmat miðað við virði eiginfjár með seljan­leika­afslætti. Þá eru lykiltölur lokaútgáfu verðmatsins í nokkru sam­ræmi við stað­festan ársreikning félagsins vegna ársins 2013, dagsettan 16. sept­ember 2014, sem Ívar samþykkti sem stjórnarmaður í Scanco ehf., einkum að því er varðar skuldastöðu félagsins. Að þessu virtu má fallast á það með stefnanda að skjalið sem Ívar fékk sent 5. nóvember 2013 frá Gunnari hafi ekki gefið nægjanlega rétta mynd af stöðu Scanco ehf.

Í máli þessu eru atvik með nokkuð sérstökum hætti. Það liggur fyrir að stefn­andi og stefndi voru ekki í neinum samskiptum varðandi gerð eða afhendingu verð­matsins. Ekkert samningssamband var á milli þeirra og stefndi tengdist því á engan hátt að stefnandi kom að félaginu sem hluthafi í janúar 2014. Engin gögn hafa verið lögð fram af hálfu stefnanda sem sýna fram á það að stefnda hafi verið sérstaklega kunn­ugt um það að stefnandi hefði undir höndum gögn frá Gunnari í framhaldi af fyrr­greindum fundi í lok október 2013 sem stöfuðu frá stefnda um ætlað virði félagsins. Í tölvu­skeyti Birgis Arnar til Halldórs 7. janúar 2014, sem liggur fyrir meðal gagna máls­ins, þar sem upplýst var um að Ívar hefði sýnt félaginu áhuga sem fjárfestir, er ekkert vikið að því að nein gögn hefðu verið send til Ívars né heldur að stefnda hefði verið ætlað sérstakt hlutverk varðandi það að láta þau kaup ganga eftir. Vitnið Halldór bar um það við aðalmeðferð að honum hefði við móttöku fyrrgreinds tölvuskeytis ekki verið ljóst að gögn sem unnin hefðu verið hjá stefnda hefðu verið send til stefnanda og hann hefði enga ástæðu haft til að ætla að svo hefði verið. Í því sambandi skal einnig tekið tekið tillit til þess að á þeim tíma sem Halldór fékk tölvuskeytið frá Birgi Erni þá lá fyrir lokaútgáfa verðmats stefnda sem hafði verið kynnt á fundum um mánuði áður fyrir öðrum fjárfestum og auk þess send á þeim tíma frá stefnda til fjárfestisins Sævars Helga­sonar. Að því virtu er að mati dómsins enn ólíklegra að Halldóri hefði mátt vera ljóst að verðmatið SCANCO Desktop Valuation, sem unnið var fyrr í ferlinu, hefði verið sent frá Gunnari eða öðrum verkbeiðendum til stefnanda. Að mati dómsins er þannig ósannað að stefndi hafi haft vitneskju um eða mátt hafa vitneskju um að stefn­andi hefði undir höndum hina eldri útgáfu verðmatsins.

Í tölvuskeyti Gunnars til Ívars 5. nóvember 2013, þegar hann sendi hið fyrra verð­mat til Ívars, SCANCO Desktop Valuation, var tekið fram, án nokkurra fyrirvara, að þá­verandi eigendur og stjórnendur Scanco ehf. hefðu fengið óháðan sérfræðing til að verð­meta fyrirtækið og verðmatið hefði verið unnið út frá tólf mánaða uppgjöri 2012 og níu mánaða uppgjöri 2013, allt væri í rétta átt o.fl. Að mati dómsins samrýmist tölvu­skeytið ekki því sem fram kemur í öðru tölvuskeyti milli Gunnars og Halldórs 2. nóv­ember 2016, sem rekja má til aðdraganda málshöfðunarinnar, og er meðal gagna máls­ins, þar sem Gunnar staðfesti að hafa séð skjalið SCANCO Desktop Valuation, auk þess sem hann tók fram að legið hefði ljóst fyrir honum o.fl. að verðmatið væri byggt á gögn­um frá Birgi Erni og jafnframt að skjalið hefði þá verið kynnt með öllum fyrir­vörum af hálfu stefnda. Verður þannig dregin sú ályktun af tölvuskeytinu 2. nóvember 2016 að kynning starfsmanna stefnda á skjalinu fyrir Gunnari o.fl. í lok október 2013 hafi í raun verið með fyrirvörum um áreiðanleika upplýsinganna, áþekkum þeim sem síðar komu fram í lokaútgáfu verðmatsins, SCANCO Fjárhags­upplýsingar. Þær skýringar frá vitninu Gunnari sem fram komu við skýrslutöku við aðalmeðferð, að umræddir fyrir­varar sem hann vísaði til í tölvuskeytinu 2. nóvember 2016 tengdust öðru en um­ræddri kynningu hjá stefnda, geta ekki samrýmst skýrum texta skeytisins og þá eru skýr­ingarnar auk þess ótrúverðugar og verða ekki lagðar til grundvallar við úrlausn þessa máls. 

Kaup á hlutabréfum í óskráðu og nýlega stofnuðu einkahlutafélagi, eins og Scanco ehf., verður að teljast áhættusöm fjárfesting í almennu tilliti. Fyrirsvars­maður stefnanda, Ívar, bar um það fyrir dómi að hann hefði áður komið að kaupum á hluta­bréfum o.fl. og verður af því ráðið að hann hafi einhverja reynslu af slíkum við­skiptum. Stefnandi hefur verið eigandi 30% hlutabréfa í Scanco ehf. frá 22. janúar 2014 en ágreiningslaust er að mjög hefur hallað undan fæti hjá félaginu frá þeim tíma og það er í raun verðlaust miðað við stöðu þess í dag. Ívar átti sæti í stjórn Scanco ehf. frá fyrrgreindum tíma uns hann sagði sig úr stjórn með tilkynningu til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra 14. mars 2017. Ívar átti þannig á þeim tíma sem hann var stjórnar­maður í Scanco ehf. aðkomu að stjórn og samþykkt ársreikninga félagsins, þar með talið vegna ársins 2013.

Við úrlausn þessa máls verður ekki litið fram hjá því að stefnandi virðist fyrst hafa gert reka að því að leita skaðabóta hjá stefnda með bréfum 26. október 2016 og 26. janúar 2017, það er um þremur árum eftir umrædd hlutabréfakaup. Að mati dóms­ins hefur þessi langi tími áhrif á sönnunarmatið svo hallar á stefnanda. Stefnandi er í raun einn til frásagnar um að hann hafi reist ákvörðun sína um kaup á hlutabréfum í Scanco ehf. á því verðmati sem hann fékk sent frá Gunnari eða að það hafi ráðið úr­slit­um í því sam­bandi. Af hálfu stefnanda virðist alveg litið fram hjá því að aðrir sem komu að Scanco ehf., sem eigendur og stjórnendur, og fyrirsvarsmaðurinn Ívar var í sam­skiptum við þegar umrædd hlutabréfakaup áttu sér stað, þar með talið fyrrgreint tölvuskeyti frá Gunnari til Ívars 5. nóvember 2013, sem var án allra fyrir­vara, hefðu mátt vera með öðrum og áreiðanlegri hætti en virðist hafa verið reyndin og að það hefði allt eins orðið þess valdandi að stefnandi ákvað að kaupa um­rædd hlutabréf. Í hlut­hafasamningi Scanco ehf. frá 22. janúar 2014, sem fyrirsvars­maður stefnanda undirritaði ásamt öðrum hluthöfum, kemur hvergi fram með skýrum og óyggjandi hætti að hlutabréfakaupin hafi af hálfu stefnanda verið háð neinum for­sendum sem tengjast stefnda og er hvergi í samningnum vísað til verðmats sem unnið var af stefnda. Verður því talið ósannað að það hafi ráðið ákvörðun stefnanda um kaup á hluta­bréfunum. Þegar að þessu virtu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefn­anda.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 1.800.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

       Daði Kristjánsson héraðsdómari og dómsformaður kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Kolbrúnu Sævarsdóttur héraðsdómara og Lárusi Finnbogasyni, löggiltum endurskoðanda.

 

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, PricewaterhouseCoopers ehf., er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Ferða­þjónustunnar Óseyri ehf., í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 1.800.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðis­aukaskatti.

 

Daði Kristjánsson

Kolbrún Sævarsdóttir

Lárus Finnbogason