• Lykilorð:
  • Dráttarvextir
  • Frelsissvipting
  • Gjafsókn
  • Gæsluvarðhaldsvist
  • Handtaka
  • Lögreglurannsókn
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Mannréttindi
  • Miskabætur
  • Sakborningur
  • Stjórnarskrá
  • Sönnunarbyrði

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 9. apríl 2019 í máli nr. E-2184/2018:

A

(Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen lögmaður)

 

I.

Dómkröfur o.fl.:

Mál þetta var höfðað 23. júní 2018 og dómtekið 1. apríl 2019. Stefn­andi er A, [..., ...]. Stefndi er íslenska ríkið, Arnarhvoli við Lindar­­­götu, Reykjavík. 

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 3.000.000 króna, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 16. ágúst 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 9. júní 2017 til greiðsludags. Einnig er krafist málskostnaðar að mati dómsins eins og málið væri eigi gjafsóknarmál og að tekið verði tillit til virðis­auka­skatts.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins. Til vara er þess krafist að stefnu­krafa verði lækkuð verulega og máls­­­­­­­­­­kostnaður verði felldur niður.

Með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dagsettu 24. september 2018, var stefnanda veitt gjafsókn samkvæmt 1. mgr. 248. gr., sbr. 246. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð saka­mála vegna reksturs málsins fyrir héraðsdómi. 

 

II.

Málsatvik:

Þann 6. ágúst 2014 kom á lögreglustöðina á Vínlandsleið 2–4 í Reykjavík karl­maður og tilkynnti um meinta líkamsárás, frelsissviptingu o.fl. Til­­­­kynn­andinn var í mikilli geðshræringu og ekki hæfur til skýrslu­töku að mati lög­reglu. Í frásögn til­­­­­­­­­kynn­­­anda var ákveðinn maður nafngreindur sem gerandi. Kom meðal annars fram að til­kynnandi hefði verið sviptur frelsi sínu og fluttur á stað úti á landi. Eftir að hafa rætt við tilkynnanda flutti lögregla hann á slysadeild Landspítalans til aðhlynningar. Þar greindi hann lækni frá atvikum og var frásögn hans af sama toga og áður, það er að hann hefði verið tekinn af nokkrum mönnum og haldið föngnum í nokkrar klukku­stundir. Þá hafi hann verið kýldur, sparkað í hann, honum gefið raflost með raf­byssu o.fl. Tilkynnandi hafi verið með rauða bletti á líkamanum, sem að sögn læknis gátu komið heim og saman við frásögn hans um að beitt hefði verið rafbyssu. Þá hafi hann verið með mar­­­blett við vinstra auga, roða yfir andliti, dökkrauða rák á hálsi og marga blóð­bletti. Því til viðbótar hafi hann verið með margar rauðar rákir víða um bakið eftir högg eða núning. 

Tilkynnandi, sem fékk réttarstöðu brotaþola, gaf skýrslu hjá lögreglu 11. ágúst 2014 þar sem hann lagði fram kæru og greindi nánar frá atvikum. Í skýrslunni kom meðal annars fram að stefnandi hefði í umrætt skipti sótt brotaþola með leigubifreið og látið aka þeim að húsi í [..., ...]. Þar hefði verið karlmaður, sem var hús­ráð­andi, sá hinn sami og brotaþoli hafði upp­haf­lega greint frá sem geranda, og tveir aðrir karl­­menn, auk stúlku, sem hann sagði einhver deili á. Fólkið hefði beitt hann margvíslegu líkam­legu harð­­­ræði, hótunum o.fl. í húsinu. Í því sambandi greindi brota­­þoli frá því að hafa verið kýldur nokkrum sinnum í andlitið og pyntaður í margar klukku­­­stundir, meðal annars með rafbyssu á háls hans og kynfæri, höggum og spörk­um o.fl. Þá hefði fólkið krafið hann um háar peningagreiðslur, tekið úlpu af honum o.fl. Að þessu loknu hefði brota­­þoli farið með stefnanda í bif­reið til Reykjavíkur, en sá háttur hefði verið hafður á til að fylgja eftir fyrrgreindum fjár­kröfum. Brotaþoli hefði hins vegar náð að flýja úr bif­­reiðinni. 

Þann 12. ágúst 2014 fór lögregla að umræddu húsi í [...] þar sem fjórir meintir ger­­­endur voru handteknir, en hinn fimmti, stefnandi, reyndist ekki vera á staðn­­um. Við leit í húsinu fundust meðal annars fíkni­efni, rafbyssa og önnur vopn, blóð­­dropar á gólfi og úlpa eins og brotaþoli hafði lýst. Í framhaldi lýsti lögregla eftir stefnanda og náðist sam­­­band við hann 15. ágúst 2014. Féllst hann á að mæta til skýrslu­­­töku daginn eftir, þar sem hann fékk réttar­stöðu sakbornings. Við þá skýrslu­­töku kom meðal annars fram að hann hefði verið í samskiptum við brota­þola 6. ágúst 2014. Kannaðist hann við að hafa farið með honum í leigubifreið í hús í [...] til nafn­­greinds hús­ráð­anda, hins sama og brotaþoli var bú­inn að nafngreina. Stefnandi hefði pantað leigu­bifreiðina og greitt fyrir hana. Stefn­andi var tregur til að greina frá atvik­­um í frjálsri frásögn og bar fyrir sig minnis­leysi vegna ölvunar­ástands en óskaði eftir að fá að svara spurn­ingum. Þegar leið á skýrslutökuna bar stefnandi meðal annars um að brota­­þoli hefði verið beittur ofbeldi í húsinu, af umræddum hús­ráðanda og öðru fólki sem þar var statt. Framburður hans um þetta var fremur óljós í byrjun og virtist hann ófús til að greina frá því. Skýrari mynd fékkst á þessi atvik þegar leið á skýrslu­tökuna en hann gat hins vegar ekki lýst meintu ofbeldi með nákvæmum hætti eða hver hefði gert hvað við brota­þola. Stefn­andi tók hins vegar fram að hann hefði sjálfur ekki beitt neinu of­beldi. Hann hefði haldið sig til hlés og verið hræddur en heyrt hljóð í höggum og raf­byssu, auk þess sem hann hefði heyrt öskur. Stefnandi hefði síðar fylgt brotaþola úr hús­inu og hann hefði verið skelkaður og með tárin í augunum. Brotaþoli hefði beðið hann að að­stoða sig við að út­vega peninga til að borga skuldir. Þeir hefðu farið saman í láns­bifreið frá [...] í samkvæmi á [...] en þaðan ekið í Skeifuna í Reykjavík. Leiðir þeirra hefði skilið í Skeif­unni þegar brotaþoli vildi hafa sam­band við föður sinn. Þá kannaðist stefnandi ekki við að hafa hótað brotaþola með hnífi í Skeif­­unni þegar honum var kynntur framburður brotaþola þess efnis að slíkt hefði gerst í að­drag­anda þess að hann slapp frá stefnanda.

Að lokinni skýrslutöku var stefnandi hand­tekinn. Hann var síðar sama dag færður fyrir dómara við Héraðsdóm Reykjaness þar sem lög­regla gerði kröfu um að stefnandi sætti gæsluvarðhaldi og einangrun í gæslu­varð­­haldi til 27. ágúst 2014, klukkan 16:00. Stefnandi mótmælti kröfunni og krafðist þess að henni væri hafnað, en til vara að henni væri markaður skemmri tími. Í kröfu lög­­reglu var tekið fram að stefn­andi væri undir rök­­studd­um grun um alvar­lega líkams­árás, frelsis­sviptingu, ólögmæta nauð­ung og hót­­anir. Krafan væri reist á því að brýnir rann­­­­­­sóknar­hagsmunir væru uppi sem þyrfti að vernda. Um lagarök var vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og 2. mgr. 98. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr., laga nr. 88/2008. Til rökstuðnings kröf­unni var tekið fram að lög­regla ætti eftir að taka frek­­­ari skýrslur af sak­born­ingum, þar með talið stefnanda, auk þess sem áform væru uppi um frekari skýrslu­tökur af vitnum og brota­þola. Þá var vís­að til þess að sakborn­ing­um bæri ekki saman um hvað hefði gerst á vettvangi í umrætt sinn. Lögregla taldi því nauð­­­synlegt að varna því að stefn­­andi gengi laus til að koma í veg fyrir að hann tor­veldaði rann­sóknina með því að hafa áhrif á aðra sakborninga og eftir atvikum vitni og brota­þola. Með úrskurði héraðsdóms, upp­kveðnum 16. ágúst 2014, var fall­ist á kröfu lög­­reglu á grundvelli þeirra rök­semda sem hún færði fram fyrir dóminn. Stefnandi kærði úr­skurð­­inn sama dag til Hæstaréttar Íslands. Með dómi rétt­ar­­ins 19. ágúst 2014, í máli nr. 547/2014, var niðurstaða hins kærða úr­skurðar stað­fest með vísan til for­sendna.    

Stefnandi gaf skýrslu hjá lögreglu 22. ágúst 2014. Fram­burður hans var af svipuð­um toga og áður. Við skýrslutökuna voru meðal annars framburðir annarra manna sem gefið höfðu skýrslu bornir undir hann. Stefnandi kann­aðist ekki við ótilgreindan fram­burð um að hann hefði hótað að beita brota­þola kyn­ferðis­legu ofbeldi. Stefnandi treysti sér ekki, eins og við fyrri skýrslutöku, til að tjá sig um það hver hefði gert hvað við brota­þola í hús­inu. Hann sagðist ekki hafa heyrt hótanir. Stefn­andi bar um að brota­­þoli hefði lítið tjáð sig um atvik í hús­inu eftir að þeir voru komnir þaðan út. Hann hefði hins haft á orði við stefn­anda að hann væri hræddur og að hann þyrfti að út­vega pen­inga. Stefnandi hefði ætlað að hjálpa hon­um við það. Brota­þoli hefði hringt í föður sinn og beðið hann um peninga og viljað hitta hann í því skyni. Stefnandi hefði hins vegar verið andvígur því og viljað fara með hann til bróður brota­þola. Leiðir þeirra hefði skilið eftir þetta. Hann hefði ekki nennt að veita brotaþola frek­ari hjálp. Stefn­andi kann­aðist ekki við fram­­burð brotaþola um að hann hefði átt að fylgja honum eða halda honum nauðugum þar til búið væri að gera skil á peningum. Þá kann­aðist hann ekki við framburð brota­þola um að hann hefði dregið fram hníf þegar leiðir þeirra skildi. Hið sama gilti um fram­­burð brotaþola þess efnis að hann hefði á þeim tíma­punkti hringt í eða þóst hringja í fyrrgreindan hús­ráðanda. Stefnandi kannaðist ekki við ótilgreindan fram­burð um að hann hefði vitað fyrir fram af því hvað stæði til og að honum hefði verið sagt að koma með brota­þola í umrætt hús. Hann greindi frá því að hringt hefði verið í hann og hann spurður hvort hann vildi koma í [...] og hvort brota­­­­þoli væri með honum. Stefn­andi tók fram að fyrir honum hefði einungis vakað að hjálpa brota­­­þola, hann hefði ekki beitt hann ofbeldi og hann hefði aldrei farið með mann­­eskju í þær aðstæður sem urðu ef hann hefði vitað um þær fyrir fram. 

Stefnandi var látinn laus úr gæsluvarðhaldi 26. ágúst 2014, sem var einum degi áður en gæsluvarðhaldi átti að ljúka samkvæmt fyrrgreindri niðurstöðu dómstóla. Að sögn stefnanda hóf hann sama dag afplánun óskilorðsbundinnar fangelsis­refsingar sam­kvæmt dómi sem hann hafði hlotið áður út af öðru máli. Rann­­­­­sókninni lauk 8. desember 2014, þegar ­gögn máls­ins voru send frá lög­­reglu til ríkis­saksóknara, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 88/2008. Með ákvörðun ríkis­saksóknara 13. febrúar 2015 var málið fellt niður gagnvart stefn­anda á grund­­velli 145. gr. sömu laga þar sem það var ekki talið nægjanlegt eða líklegt til sak­fellis.

Rannsóknarlögreglumaðurinn B gaf skýrslu vitnis við aðal­meðferð.

 

III.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda:

Stefnandi reisir mál sitt á því að ekki hafi verið sýnt fram á aðild hans að fyrr­greindu sakamáli að neinu leyti enda hafi hann enga aðkomu haft að því. Mál lögreglu hafi verið fellt niður gagnvart honum með ákvörðun ríkis­saksóknara 13. febrúar 2015. Stefn­andi hafi verið látinn þola langt gæsluvarðhald að ósekju. Hann byggir á því að aðili eigi rétt til bóta samkvæmt 1. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 2. gr. laga nr. 17/2018, hafi mál hans verið fellt niður eða hann sýknaður með endanlegum dómi, án þess að hafa verið talinn ósakhæfur. Þá eigi aðili rétt til bóta samkvæmt 3. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008, þótt hann hafi aldrei verið borinn sökum í sakamáli, hafi hann orðið fyrir tjóni vegna aðgerða sem taldar séu upp í 2. mgr. sömu laga­greinar. Hand­taka og gæsluvarðhald eigi þar undir. Grundvöllur bótakröfu hans sé því skýr. Einnig komi fram í 5. mgr. 246. gr. laganna, að bæði séu greiddar bætur fyrir fjár­­­tjón og miska. Um lagarök að öðru leyti vísar stefnandi til XXXIX. kafla laga nr. 88/2008, einkum 3. og 5. mgr. 246. gr. laganna, þar sem um sé að ræða kröfu um miska­­­bætur, auk þess sem ákæra hafi aldrei verið gefin út vegna stefnanda. Um máls­kostnað vísar stefnandi til 248. gr. sömu laga um lögbundna gjafsókn fyrir héraðs­dómi. 

 

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnda:

Stefndi mótmælir öllum kröfum og málsástæðum stefnanda og krefst aðallega sýknu. Í því sambandi byggir stefndi á því að handtakan hafi fullnægt skilyrðum 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008. Hið sama eigi við um gæsluvarðhald sem stefnanda hafi verið gert að sæta á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. sömu laga. Um hafi verið að ræða nauðsynlegar og lög­­mætar rannsóknaraðgerðir. Stefndi vísar til þess að þegar stefn­­­­­­andi hafi gefið sig fram hjá lögreglu, 16. ágúst 2014, hafi legið fyrir framburður brota­­þola, vitna og annarra sakborninga, þess efnis að stefnandi hefði fært brotaþola með leigubifreið til eins af sakborningum í málinu, sem vildi hitta hann á heimili sínu í [...]. Framburður þeirra hafi enn fremur bent til þess að stefnandi vissi út í hvaða að­stæður brotaþoli væri að fara, auk þess sem hann hafi sjálfur haft uppi hótanir við brota­­þola. Hafi því verið uppi rök­studdur grunur um aðild hans að mjög alvarlegum brot­um sem fælust í frelsis­svipt­ingu, líkamsárás, ólögmætri nauðung og hótunum, auk fíkni­efnalagabrots. Hand­takan hafi því verið nauðsynleg til að tryggja návist hans og koma þannig í veg fyrir að hann spillti sönn­­unargögnum. Stefndi vísar til þess að krafa lög­­­­­­reglu um gæslu­varð­hald hafi verið reist á fyrr­greindu lagaákvæði. Með úrskurði héraðs­­­­­­­dóms hafi verið fallist á með lög­reglu að stefn­andi væri undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem gæti varð­að allt að 16 ára fangelsi. Einnig hafi verið fallist á að brýnir rann­sóknar­­­hagsmunir væru í húfi þar sem eftir var að taka frekari skýrslur af stefnanda og öðrum sakborningum. Hið sama hafi verið uppi varð­andi vitni og brota­þola. Sak­borningum hafi ekki borið saman um hvað hefði gerst á vett­vangi í um­rætt skipti. Að því virtu og með hliðsjón af gögnum máls­ins og rök­studdum grun­semd­um lögreglu hafi þótt brýnt að tryggja rannsóknarhagsmuni með því að varna því að stefnandi gengi laus. Veruleg hætta hafi verið talin á því að ella myndi hann tor­velda rannsókn með því að hafa áhrif á aðra samseka, vitni og brota­þola. Að öllu framan­greindu virtu hafi upp­­­lýs­ingar, sem lágu fyrir í upphafi rann­sóknar, ein­dregið bent til aðildar stefnanda að mjög alvarlegum brot­­um. Það hafi því verið mat stefnda að handtaka og gæslu­varð­hald stefn­anda væri eðli­legur og nauðsynlegur liður í rann­sókn málsins og í fullu sam­­ræmi við heimildir laga nr. 88/2008.

Stefndi byggir sýknukröfu meðal annars á því að stefnandi eigi ekki rétt á bótum í málinu þar sem hann hafi valdið og stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir bóta­kröfu sína á, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008. Í því sambandi vísar stefndi til nokkurra meginatriða, en hann haldi því hins vegar ekki fram að stefnandi hafi þrátt fyrir allt verið sekur. Stefndi bendir á að framburður brotaþola og sak­born­inga, annarra en stefnanda, hafi bent til aðildar hans að því að hafa svipt brotaþola frelsi og beitt hann ofbeldi og hót­un­­um á umræddum stað. Stefnandi hafi haft augljós tengsl við málið þar sem fyrir hafi legið að hann hafi farið með brotaþola í leigubifreið í umrætt hús og aftur til baka. Stefnandi hafi neitað sök við skýrslutöku hjá lögreglu en viður­kennt að hafa farið með honum fyrrgreinda ferð. Hann hafi einnig viðurkennt að hafa sjálfur pantað leigu­bifreiðina og greitt fyrir hana. Hins vegar hafi hann borið um að hafa haldið sig fjarri þegar hann heyrði að barsmíðar byrjuðu og sagst ekki hafa séð það sem fram fór því hann hefði verið að nota tölvu. Hann hafi alfarið neitað því að hafa beitt brotaþola ofbeldi eða haft í frammi hótanir um ofbeldi. Töluvert misræmi hafi verið í fram­burði brotaþola, vitna og annarra sak­borninga, annars vegar, og stefn­anda, hins vegar, um þátt hans í meint­um atvikum. Hjá lögreglu hafi meðal annars legið fyrir skýrslur um að einn af sak­borningunum hefði beðið stefnanda að koma með brotaþola á heimili sitt í [...]. Því hafi stefnandi hins vegar neitað. Þá hafi full­yrðing stefnanda um að hann hefði ekki vitað að til stæði að beita brota­þola ofbeldi ekki þótt sannfærandi hjá lögreglu. Hið sama hafi gilt um framburð hans um það að hann hefði ekki séð það sem gerðist í hús­inu. Framburðurinn hafi þótt vera misvísandi og ónákvæmur og gefa til kynna að hann vissi meira en hann léti uppi. Þá verði að hafa í huga að um var að ræða mjög alvar­leg brot. Stefnanda hafi því mátt vera ljóst mikil­vægi þess að skýra undan­­bragða­laust og greinilega frá öllum atvikum og aðkomu hans og annarra að þeim og á þann hátt að unnt væri að staðfesta að rétt væri frá greint. Sú skylda hafi hvílt á honum þrátt fyrir þá meginreglu réttarfars að sakborn­ingi sé óskylt að svara spurn­ing­um um refsi­verða hegðun sem honum sé gefin að sök. Að mati stefnda hafi stefn­­andi sjálfur stuðlað að gæsluvarðhaldinu með því að gefa ónákvæm­an og óskýr­an fram­burð. Þessu til viðbótar hafi legið fyrir að stefnandi var í hús­inu þegar um­ræddir atburðir áttu sér stað. Að öðru leyti vísar stefndi til sjónar­­miða lögreglu sem fram komi í gæslu­varðhalds­úrskurði. Þá byggir stefndi á því að stefn­anda hafi ekki verið haldið lengur en þörf var á og að tími gæsluvarðhaldsins hafi verið vel nýttur.

Varðandi varakröfu um lækkun á stefnufjárhæð þá tekur stefndi fram að hann byggi á sömu málsástæðum og sjónarmiðum og greinir varðandi aðalkröfu. Stefndi byggir á því að stefnukrafan sé allt of há og því eigi að lækka hana veru­lega. Þá tekur stefndi fram að hann byggi á því að lækka eigi bætur til stefnanda á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 þar sem stefnandi hafi valdið og stuðlað að þeim að­gerðum sem hann reisi kröfu sína á.

Um kröfu um málskostnað vísar stefndi til 130. gr. laga nr. 91/1991. 

 

IV.

Niðurstöður:

Í 1. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 2. gr. laga nr. 17/2018, er kveðið á um að maður sem borinn er sökum í sakamáli eigi rétt til bóta samkvæmt 2. mgr. sömu laga­greinar, ef mál hans hefur verið fellt niður eða hann sýknaður með endanlegum dómi án þess að það hafi verið gert vegna þess að hann var talinn ósakhæfur. Sam­kvæmt 1. málsl. 2. mgr. 246. gr. lag­­anna skal dæma bætur vegna aðgerða á grundvelli IX.–XIV. kafla téðra lag­a ef skilyrði 1. mgr. 246. gr. laganna eru fyrir hendi. Sömu bóta­­reglur voru í gildi á þeim tíma þegar umræddar þvingunarráðstafanir gagnvart stefn­­­­anda áttu sér stað, sbr. 228. gr. fyrrgreindra laga áður en þeim var breytt. Af þessu leiðir að bætur vegna saka­­máls verða ákveðnar á hlutlægum grundvelli og skiptir þá ekki máli þótt fullt til­efni hafi verið til ráðstafana gagnvart sakborningi eins og málið horfði við lög­reglu þegar gripið var til aðgerða. Þó er sá fyrirvari settur í 2. málsl. 2. mgr. 246. gr. laganna að fella megi bætur niður eða lækka þær ef sakborn­ingur hefur valdið eða stuðlað að þeim að­­­gerðum sem hann reisir kröfur sínar á. Af framan­­­­greindu leiðir að úrlausn þess hvort stefnandi hafi fyrirgert rétti þeim til bóta sem mælt er fyrir um í 1. málsl. 2. mgr. 246. gr. téðra laga, eða hvort bætur skuli sæta lækkun, veltur á því hvort stefnandi hafi í skilningi 2. málsl. 2. mgr. 246. gr. valdið eða stuðlað að þeim að­gerð­um sem bóta­kröfur hans eru reistar á. Er í þessu sambandi til þess að líta að ákvæði 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 5. gr. laga nr. 97/1995 og 5. mgr. 5. gr. mann­réttinda­sáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, ber að túlka, eins og rakið er í dómi Hæsta­­réttar Íslands frá 12. október 2000, í máli nr. 175/2000, með hlið­sjón af almenn­um reglum skaða­bótaréttar, þar á meðal eigin sök.

Stefnandi var handtekinn 16. ágúst 2014 í framhaldi af skýrslutöku. Þá var hand­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­tökunni viðhaldið eftir skýrslutökuna uns hann var færður fyrir dómara sama dag, sem úr­skurðaði hann í gæsluvarðhald og einangrun á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008. Fyrir liggur að gæslu­varð­hald­inu lauk 26. ágúst 2014. Með þessu var skertur réttur stefnanda til persónu­­­frelsis sem almennt er varinn af 67. gr. stjórnar­skrárinnar og 5. gr. mann­­­­rétt­­inda­­sátt­mála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Ágreiningslaust er að framan­greindar rann­sóknar­aðgerðir sem stefn­andi sætti falla undir bóta­skyldu sam­kvæmt 1. málsl. 2. mgr., sbr. 1. mgr., 246. gr. laga nr. 88/2008. Þá liggur fyrir og er ágrein­ings­laust að ákvörðun ríkis­saksóknara 13. febrúar 2015 um niður­­fellingu máls stefn­anda var loka­­­­­­ákvörðun í skiln­­ingi 1. mgr. sömu laga­greinar.

Við mat á bótaskyldu vegna framan­greindra þvingunar­ráðstafana verður meðal annars að horfa til þess hvernig staðan á rann­­­sókn lög­reglu var á þeim tíma þegar þvingunar­­ráðstöfunum var beitt gagnvart stefnanda. Einnig verður við matið, til við­bótar laga­heimildum að baki fyrrgreindum þvingunarráðstöfunum, að taka mið af skyld­­­­­­um og heimildum lögreglu við rannsókn saka­máls sam­kvæmt 1. og 2. mgr. 52. gr., 53. gr. og 1. mgr. 54. gr. laga nr. 88/2008. Samhliða þarf að líta til réttinda og skyldna stefnanda sem sakbornings við rannsókn málsins.

Í máli þessu liggur fyrir að þegar lög­regla hand­tók stefn­­anda og gerði kröfu um að hann sætti gæslu­varðhaldi höfðu meint brot ný­lega verið framin. Einnig lá fyrir að brota­­­­þoli var með áverka sem taldir voru sam­rýmast fram­burði hans um ætlað ofbeldi. Þá voru aðrir sak­born­­ingar, auk brota­þola, búnir að bera um aðild stefn­anda að meint­um brot­um. Að þessu virtu var á frumstigi rannsóknar uppi rök­studdur grunur um að stefn­­­­andi ætti aðild að meint­um brotum gagnvart brotaþola með sak­næm­um hætti. Því til viðbótar lá fyrir framburður stefn­­anda, með réttar­stöðu sak­born­­ings, sama dag og hann var hand­tek­inn, þar sem hann gerði tak­mark­aða grein fyrir að­­komu sinni að meint­­­­­­­um brotum, en hann kann­aðist þó við að hafa verið í fylgd með brota­þola um­ræddan dag, farið með hon­um í hús í [...], greitt fyrir leigubifreið o.fl. Í þeim fram­burði gerði stefnandi meðal annars lítið úr meintum hlut sínum að meintum brotum, bar fyrir sig minnis­leysi, vildi ekki svara spurn­­­ingum eða sagðist ekki hafa vit­­neskju um það sem spurt var um. Eftir því sem leið á skýrslu­tökuna veitti hann meiri upp­lýs­ingar um málsatvik, eins og þau horfðu við honum. Þá fékkst skýrari mynd af atvikum máls­ins og meintri að­komu stefn­anda að þeim við síðari skýrslu­töku hans 22. ágúst 2014, sem samkvæmt skýrslu stóð frá klukkan 10:47 til klukkan 11:04, en þar voru fram­burðir annarra sakborninga meðal annars bornir undir hann.

Að þessu virtu var uppi rökstuddur grunur og aðstæður við rannsókn sem gerðu það að verkum að handtaka stefnanda samkvæmt 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 var nauð­synleg. Hið sama á við um gæslu­­varð­hald og einangrun sem honum var gert að sæta á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. og 2. mgr. 98. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Þá ber einnig að líta til þess að umrædd rann­sókn lögreglu laut að meint­um alvarlegum ofbeldisbrotum fleiri en eins sakbornings, þar með talið stefn­anda, gagnvart sama brotaþola á sama stað og tíma. Meint brot gátu varðað fangelsis­refsingu. Þegar þannig háttar til þarf að ljá lög­reglu svigrúm til að ná utan um rann­sókn máls, þar með talið að taka skýrslur af sak­born­­­ing­um sem taldir eru tengjast meint­­­­um brotum, hafa uppi á vitnum og fara yfir og bera fram­burði annarra undir sak­born­­­inga. Á sama tíma þarf lögregla einnig að gæta þess að sakborningar eigi þess ekki kost að sam­ræma eða hafa áhrif á framburði annarra eða koma undan sakar­gögn­um o.fl. Þá þarf lög­­regla um leið að rann­saka ummerki og hald­lagða muni og bera undir sak­borninga eftir því sem við á. Vitnið B rannsóknar­lögreglu­­­maður bar meðal annars um það fyrir dómi að vinna lögreglu við rannsókn máls­­ins á handtöku- og gæslu­­­­varðhaldstíma stefn­anda hefði tekið til framan­greindra verk­­þátta. Teknar hefðu verið tvær til þrjár skýrslur af hverjum sakborningi fyrir sig, en fyrir liggur að þeir voru alls fimm að meðtöldum stefn­anda. Þá bar vitnið um að staða stefnanda, sem sak­­bornings í málinu, hefði eink­um skýrst eftir síðari skýrslu hans hjá lögreglu.

Þegar litið er til framangreindra skýrslna stefnanda, 16. og 22. ágúst 2014, er það mat dóms­ins að framburður hans, einkum sá fyrri, hafi ekki verið nægjan­lega skýr og stöð­­ugur og að hann hafi ekki gætt nægjanlega að sann­­­leiks­skyldu sem á honum hvíldi í ljósi þess að hann kaus að gefa skýrslu um sakar­efnið, sbr. 2. og 3. mgr. 64. gr. laga nr. 88/2008. Fyrir liggur að verjandi var viðstaddur báðar skýrslutökurnar. Þá bera þær með sér að stefn­anda var leið­beint um réttindi og skyldur og ekkert í skýrslun­­um bendir til þess að fram­­kvæmd þeirra hafi verið áfátt. Að þessu virtu er það mat dóms­ins að stefnandi hafi sjálfur stuðlað að umræddri frelsissviptingu og ein­angrun á tíma­bilinu frá 16. ágúst 2014 þar til hann gaf hina síðari skýrslu 22. sama mánaðar, með því að haga fram­burði sínum með fyrr­­­greind­um hætti, og því sé rétt að fella niður bætur til hans vegna þess tímabils. Stefn­­andi var hins vegar látinn sæta áfram gæslu­varðhaldi og einangrun eftir að hann gaf hina síðari skýrslu 22. ágúst 2014 uns hann var látinn laus úr gæsluvarðhaldi 26. sama mán­aðar og færður til af­plánunar. Engar haldbærar skýringar liggja fyrir í gögn­um máls­ins um ástæður þess að hann var látinn sæta áfram­­haldandi gæsluvarðhaldi og ein­angrun á því tímabili. Þá er ekkert í gögnum máls­ins sem bendir til þess að stefn­andi hafi sjálfur stuðlað að gæslu­­varðhaldi og einangrun vegna þess tímabils. Fram­burður fyrrgreinds rannsóknar­lögreglu­­­­manns, sem gaf skýrslu vitnis, dró ekki fram skýr­ari mynd af þessum hluta rannsóknar máls­ins. Verður stefndi lát­inn bera hall­ann af þessu. Það er því niður­­staða dómsins að stefnandi eigi rétt til miska­­bóta þar sem hon­um hafi að ósekju verið haldið of lengi í gæslu­­varðhaldi og ein­­angrun, nánar til­tekið vegna tímabilsins frá 22. ágúst 2014, eftir að skýrslutöku lauk þann dag, til og með 26. sama mán­aðar. Gæsluvarðhald er mikið inn­grip í persónu­frelsi manns, og þá ekki síst þegar sá sem því sætir er látinn vera í ein­angrun á meðan það varir. Að þessu virtu teljast miska­bætur til stefnanda hæfilega ákvarð­aðar 800.000 krónur.

Fyrir liggur að stefnandi beindi bótakröfu fyrst til ríkis­lögmanns með kröfubréfi 9. maí 2017. Þá sendi hann frekari gögn til þess embættis 24. sama mánaðar svo því væri unnt að taka afstöðu til bótaskyldu stefnda, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001. Af gögnum verður ráðið að svar hafi ekki borist frá ríkislögmanni eftir þann tíma. Að þessu virtu verður lagt til grundvallar að höfuðstóll framan­greindra miska­bóta beri vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. ágúst 2014, en að hann beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 24. júní 2017 til greiðslu­­dags.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

Allur gjafsóknar­kostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutn­ings­­þóknun lög­manns hans, Stefáns Karls Kristjánssonar, sem telst hæfilega ákveðin 700.000 krón­ur að með­­töldum virðisaukaskatti. 

Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Stefán Karl Kristjánsson lögmaður. Af hálfu stefnda flutti málið Óskar Thorarensen lögmaður.

 

Daði Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

 

 

D Ó M S O R Ð:

       Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, A, 800.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. ágúst 2014 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 24. júní 2017 til greiðsludags.

       Málskostnaður milli aðila fellur niður.

       Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutn­ings­þóknun lögmanns hans, Stefáns Karls Kristjánssonar, 700.000 krónur.

 

                                                           

                                                                                    Daði Kristjánsson (sign.)