• Lykilorð:
  • Aðilaskýrsla
  • Dráttarvextir
  • Fjárslit milli hjóna
  • Fjöleignarhús
  • Greiðsla
  • Húsaleiga
  • Húsfélag
  • Kröfuréttur
  • Laun
  • Loforð
  • Löggerningur
  • Málskostnaður
  • Skjöl
  • Skuldamál
  • Sönnun
  • Sönnunarbyrði
  • Tómlæti
  • Vanreifun
  • Varnir
  • Verkkaup
  • Verksamningur
  • Vextir
  • Sýkna
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 12. október 2018 í máli nr. E-1/2018:

Tómas Ísleifsson

(Sjálfur ólöglærður)

gegn

Sigrúnu Ragnheiði Ragnarsdóttur

(Birgir Már Björnsson lögmaður)

 

 

I.

Dómkröfur o.fl.:

Mál þetta var höfðað 12. desember 2017 og dómtekið 18. september 2018. Stefn­andi er Tómas Ísleifsson, [...], Rangárþingi ytra. Stefnda er Sigrún Ragnheiður Ragnars­­­­­dóttir, [...], Reykjavík.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefnda greiði honum skuld að fjárhæð 1.282.141 króna, ásamt vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 af 685.000 krónum til 1. júní 2016 og af 1.223.541 krónu frá þeim degi til 1. janúar 2018 og af 1.282.141 krónu frá þeim degi til þingfestingardags málsins en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, svo og málskostnaðar að skað­­­­­­lausu.

Stefnda krefst aðallega sýknu af öllum dómkröfum stefnanda og til vara að dóm­kröfur hans verði lækkaðar verulega á grundvelli gagnkröfu til skuldajöfnuðar. Þá krefst stefnda þess í öllum tilvikum að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu máls­­­­kostnað að skaðlausu.

 

II.

Málavextir:

 Aðilar slitu hjúskap að lögum samkvæmt 39. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993  árið 2014 en til hans var stofnað árið 2006. Á hjú­­skapar­tíma höfðu aðilar sam­eigin­­­legan fjárhag. Með samningi dagsettum 1. októ­ber 2014, sem var móttekinn hjá sýslu­manni 3. sama mánaðar, var gengið frá fjár­skipt­um aðila vegna lögskilnaðar­ins. Í 6. gr. samn­ingsins var gert ráð fyrir skiptingu inn­bús með samkomulagi aðila. Að sögn stefn­anda hefur hann hjálpað stefndu með ýmsum hætti eftir lög­skiln­að­inn þrátt fyrir fjárhagslegt uppgjör þeirra á milli sam­kvæmt skilnaðar­samningnum, bæði með sjálf­boðavinnu og fjárútlátum. Að sögn stefn­­­­anda hafi hann meðal annars geymt muni í eigu stefndu, lánað henni peninga, að­stoðað hana við lagfæringar og endur­bætur á íbúð hennar og gefið þá vinnu en lagt fjármuni út fyrir efnis­kaupum með lof­orði stefndu um að það yrði greitt til baka. Um þetta er ágrein­ingur milli aðila sem nánar greinir í máls­ástæðum.

Stefnandi lagði fram skriflega aðilaskýrslu og gaf auk þess munnlega aðila­skýrslu fyrir dómi að beiðni stefndu. Þá gaf skýrslu vitnis Ragnheiður Högnadóttir, fjármála­stjóri og aðal­bókari við embætti sýslumannsins á Suðurlandi. 

 

III.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda:

Stefnandi telur sig eiga lögmæta kröfu á hendur stefndu, annars vegar um að hún endur­greiði honum lán og hins vegar að hún borgi honum til baka útgjöld sem hann hafi innt af hendi í hennar þágu og hún lofað að greiða honum.

Í fyrsta lagi byggir hluti af fjárkröfu stefnanda á því að hann hafi lánað stefndu sam­­­tals 540.000 krónur á tímabilinu frá 25. nóvember 2014 til 7. ágúst 2015 og að lánið hafi verið veitt með millifærslum. Millifærslurnar hafi hvorki verið greiðsla á skuld eða gjöf heldur hafi verið um að ræða lán til stefndu sem hafi verið í fjár­krögg­um. Að því virtu geri stefnandi kröfu um að stefnda endurgreiði honum lánið.

Í annan stað byggir hluti fjárkröfu stefnanda á því að hann hafi með tveimur greiðslum í banka, 24. ágúst 2015 og 1. desember sama ár, greitt samtals 145.000 krónur sem hafi verið skuld stefndu við Sigurð Jónsson smið. Stefnandi vísar til þess að hann og stefnda hafi árið 2014, á meðan þau voru hjón, haft forgöngu um að byggðar væru nýjar tröppur að íbúð þeirra að Njáls­götu 16 í Reykjavík. Ósamkomulag hafi verið við eigendur annarra íbúða í fasteign­inni um framkvæmdina en hún hafi verið nauð­synleg að mati stefn­anda. Stefn­­andi og stefnda hafi ráðið tvo smiði til að vinna verkið og hafi stefn­­andi keypt allt efni sem til þurfti. Meirihluti stjórnar hús­sjóðsins hafi hins vegar neitað að greiða fyrir fram­­kvæmdina. Stefnandi og stefnda hafi sam­eigin­lega upplýst smið­ina um að ekki lægi fyrir samkomulag við aðra eig­endur vegna verks­ins. Þá hafi smið­­­irnir treyst því að þau myndu ekki hlunnfara þá um verk­launin. Að mati stefnanda fari því ekki á milli mála að honum og stefndu hafi borið að sjá til þess að smið­­irnir fengju launin greidd. Stefnandi hafi við undirskrift skiln­aðar­­samn­ings milli hans og stefndu samþykkt að bera einn kostnað af efnis­kaup­um vegna trapp­­anna. Að mati stefn­­anda sé hins vegar enginn vafi á því að smiðirnir hafi átt rétt­­mæta fjárkröfu á hendur honum og stefndu vegna verklaunanna þar sem þau hafi verið viðsemjendur þeirra. Smiðirnir hafi ekki verið við­semjendur við hús­félagið að Njálsgötu 16. Að mati stefnanda hafi hann og stefnda verið áfram ábyrg fyrir samn­ingnum við smiðina eftir skiln­aðinn, hvort fyrir sínum helm­­ingi. Stefnandi hafi með fyrr­greindum banka­greiðslum greitt þeim samtals 290.000 krónur en með greiðslunum hafi stefnandi gert upp sameiginlega skuld sína og stefndu við smið­­­­­ina. Helming fjár­hæðarinnar, 145.000 krónur, hafi stefn­andi því greitt fyrir stefndu og hún eigi því að endurgreiða honum þá fjárhæð.

Í þriðja lagi byggir fjárkrafa stefnanda á því að hann hafi á tímabili frá desember 2015 til apríl 2016 keypt efni, innréttingar og tæki að fjárhæð 538.741 króna til endur­bóta á hús­næði í eigu stefndu að Stórholti 30 í Reykjavík. Stefnandi byggir á því að stefnda hafi beðið hann að flytja eldhús yfir í borðstofu og sjá um ýmsar aðrar við­gerðir á húsnæðinu. Stefnda hafi ekki talið sig hafa reiðufé til að kaupa það sem til þurfti vegna verksins. Stefnandi hafi tekið að sér að vinna verkið fyrir stefndu og gefið henni vinnuna en lánað henni fé til efniskaupa o.fl. Stefnda hafi samþykkt að endur­greiða stefn­anda útlagðan kostnað vegna efniskaupanna o.fl. enda hafi verið um að ræða endur­bætur og viðhald á fasteign í hennar eigu. 

Í fjórða lagi byggir fjárkrafa stefnanda á því að hann hafi á árunum 2015–2018 leigt húsnæði að fjárhæð 45.000 krónur fyrir tjaldvagn stefndu og þá hafi hann greitt 13.400 krónur í skoðunargjald vegna tjaldvagnsins, samtals 58.400 krónur.

Til viðbótar framangreindum fjórum kröfuliðum tekur stefnandi fram að inn­heimtu­­­­­­­maður ríkissjóðs hafi 20. júlí 2014 tekið 578.814 krónur af fjármunum stefndu til að greiða skattskuld stefnanda. Fjárhagur hans og stefndu hafi á þeim tíma verið sam­­­eiginlegur og svo hafi verið fram til 1. október 2014. Þau hafi því verið samábyrg fyrir sköttum og ekki hafi verið gengið út frá öðru við fjárskipti vegna lögskilnaðar. Stefn­­­andi hafi í áranna rás millifært á banka­­­­reikning stefndu meira en 3 milljónir króna umfram greiðslur frá henni til hans. Að mati stefnanda sé enginn eðlismunur á því að vinnutekjur frá honum hafi runnið til stefndu eða að inneign hennar hjá ríkis­sjóði hafi farið í það að greiða skattskuldir hans. Með skilnaðarsamningnum hafi aðilar samþykkt skiptingu á eignum og skuldum án fjárgreiðslna sín á milli. Með samn­­­ingnum hafi verið slegið striki yfir alla tekjuöflun, útgjöld og millifærslur milli aðila á sambúðartímanum og samkvæmt samn­ingnum hafi hvorugu hjónanna borið að greiða hinu. Eftir skilnaðinn hafi stefn­andi og stefnda verið ótengd að lögum um fjár­skipti sín á milli. Stefnandi hafi í meira en ár leitað leiða til að fá stefndu til að greiða lán og önnur útgjöld sem hafi verið í hennar þágu. Í nóvember 2016 hafi stefnandi sent skrif­lega greiðsluáskorun til stefndu ásamt greinargerð og hafi hún fyrst svarað henni skriflega með neitun í september 2017.

Varðandi kröfu stefnanda um vexti þá krefst hann þess að stefnda greiði almenna vexti samkvæmt lögum nr. 38/2001 af skuldum sínum á hverjum tíma allt fram að þing­­­­festingu málsins en frá þeim tíma greiðist dráttarvextir samkvæmt sömu lögum til greiðsludags.

Um lagarök vísar stefnandi til reglna samningaréttar um skuldbindingargildi lof­orða. Gert hafi verið samkomulag við stefndu um að hún fengi fé að láni sem hún myndi endurgreiða en hún hafi ekki staðið við sinn hluta samningsins. Stefnandi byggir á meginreglunni um að samningar skuli standa (l. pacta sunt servanda) og því verði að dæma stefndu til greiðslu lánsfjárins. Þá byggir stefnandi kröfur sínar á almenn­­­­­­­um reglum kröfuréttarins, meðal annars vegna útgjalda í þágu stefndu og vísar hann sérstaklega til auðgunarreglu í því sambandi.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefndu:

Stefnda mótmælir öllum málsástæðum stefnanda í stefnu sem röngum og krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Stefnda telur að kröfur stefnanda séu ósannaðar með öllu auk þess sem stórkostlega skorti á rökstuðning stefnanda fyrir kröfunum sem og gögn að baki þeim svo að frávísun kunni að varða ex officio.

Hvað varðar þann þátt dómkröfu stefnanda sem tekur til meints peningaláns til stefndu á tímabilinu frá 25. nóvember 2014 til 7. ágúst 2015 þá hafnar stefnda því að um lán hafi verið að ræða. Stefnda telur að stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn því til staðfestingar að um hafi verið að ræða peningalán né gert nokkra grein fyrir ástæð­um hinnar meintu lánveitingar. Þá sé krafa hans að þessu leyti van­reifuð með öllu. Stefnda byggir á því að umræddar greiðslur til hennar hafi verið endurgreiðsla stefn­anda á skattskuld hans að fjárhæð 578.814 krónur vegna ársins 2014 sem skuldfærð hafi verið af tekjum og fjármunum stefndu. Framlögð gögn um skattskil stefndu stað­festi þetta. Samkomulag um endurgreiðslu stefnanda á þessari skuld við stefndu hafi verið samþykkt af báðum aðilum í kjölfar samtals og samráðs við Ragnheiði Högna­dóttur, starfsmann hjá embætti sýslu­mannsins á Suðurlandi. Uppgjöri á kröfu stefndu á hendur stefnanda hafi verið lokið með framangreindu samkomulagi þess efnis að stefn­­­­­andi endurgreiddi henni 70.000 krónur á mánuði uns skuldin væri að fullu greidd. Stefnandi hafi að mestu leyti endurgreitt mánaðarlega í samræmi við þetta sam­­­komu­lag fram til 7. ágúst 2015 en enn sé ógreidd krafa stefndu vegna þessa að fjár­­hæð 38.814 krónur. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefndu af þessum þætti dóm­­kröfu stefn­­­anda. Þá hafi stefnandi auk þess sýnt af sér algjört tómlæti við að halda fram slíkri kröfu, ef um lán væri að ræða, en hann hafi fyrst haldið kröfunni fram gagn­vart stefndu með bréfi 2. nóvember 2016.

Hvað varðar þann þátt dómkröfu stefnanda er lýtur að meintri endurgreiðslukröfu hans vegna greiðslna sem hann innti af hendi til fyrrgreinds smiðs þá krefst stefnda sýknu af kröfunni vegna aðildarskorts. Stefnda vísar til þess að reikn­ingur smiðsins beri það með sér að hann hafi beinst að húsfélaginu að Njálsgötu 16 vegna viðgerðar á sam­­­­eign hússins. Reikningurinn hafi verið gefinn út á húsfélagið í samræmi við lög nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefndu af þessum hluta kröfu stefnanda.

Varðandi þann þátt dómkröfu stefnanda sem tekur til endurgreiðslu vegna efnis, inn­­­­réttinga og tækja að fjárhæð 538.741 króna þá hafnar stefnda því alfarið að hún hafi samþykkt greiðsluskyldu vegna hinna meintu útgjalda eins og þeim hafi verið lýst í stefnu og þá sérstaklega vegna þeirra tækja sem stefnandi kveðst hafa keypt vegna að­­­stoðar sinnar við stefndu í tengslum við fasteignina að Stórholti 30. Þá hafnar stefnda því að hin meintu útgjöld hafi falið í sér lán til stefndu. Stefnda tekur fram í þessu sambandi að hið rétta sé að stefnandi hafi í tengslum við samkomulag um inn­bús­­­­­­skipti í kjölfar skilnaðar milli aðila aðstoðað stefndu við ýmiss konar smærra við­hald fasteignarinnar og greitt kostnað eftir eigin óskum og ákvörðunum án aðkomu stefndu. Um hafi verið að ræða smærri viðgerðir á fasteign sem stefnandi hafi búið í ásamt stefndu í framhaldi af skilnaði þeirra og auk þess komið á móti leigukröfu stefndu vegna búsetu stefnanda í fasteigninni. Hvoru tveggja hafi einnig verið hluti af skipt­­­ingu innbús aðila samkvæmt skilnaðarsamningi sem gert hafi verið ráð fyrir með sér­­­stöku samkomulagi. Þessu til frekari skýringar vísar stefnda til bréfs frá henni til stefn­­­­­anda 7. september 2017 en í því komi fram að stefnandi hafi fengið hluta annars inn­­bús aðila, tæki og muni fyrir tilteknar endurbætur á fasteigninni að Stórholti 30. Þá telur stefnda, þegar tekið sé tillit til leigukröfu hennar á hendur stefn­anda og innbús­skipta, að enn halli á hana og að hún eigi enn útistandandi kröfu á hendur stefnanda sem eigi að leiða til þess að hún verði sýknuð af þessum þætti kröfu stefnanda.

Stefnda bendir einnig á að gögnum og rökstuðningi stefnanda fyrir kröfu vegna við­halds og endurbóta í Stórholti 30 sé verulega áfátt og ósannað sé að um sé að ræða út­gjöld vegna fasteignarinnar. Þá telur stefnda að stefnandi krefjist jafnframt greiðslu vegna ýmissa tækjakaupa sem augljóslega sé ætlaður lengri endingartími en fyrir eitt verk. Stefnda hafi aldrei séð þessi tæki, hvorki þá né eftir að viðgerðum, sem hafi verið lítils háttar, lauk í húsnæðinu. Til frekari skýringar vísar stefnda meðal annars til þess að stefn­andi byggi á því að hafa keypt tommustokk, hníf, stormjárn, bora, sparsl­spaða, þvingur, kerstokk, handsög, stólvinkil, rasp, pensla o.fl., en allt séu þetta munir sem stefnda hafi aldrei séð og stefnandi tekið með sér að verki loknu. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfu stefnanda hvað alla þessa liði varði. Varðandi kostnað sam­­­­kvæmt reikningi frá Bauhaus að fjárhæð 32.320 krónur vegna borðplötu, olíu og verk­­­­færa þá tekur stefnda fram að hún hafi áður verið búin að kaupa olíuborna borð­plötu sem stefnandi hafi fyrir mistök sagað með röngum hætti og eyðilagt. Stefnandi hafi því keypt aðra borðplötu í staðinn og handsög sem annars hefði ekki verið nein þörf á ef ekki hefði verið fyrir mistök stefnanda sjálfs við vinnuna.

Stefnda hafnar öllum kröfum stefnanda um að hún greiði honum kostnað vegna geymslu og skoðunar á tjaldvagni. Stefnda vísar til þess að stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn, svo sem millifærslukvittanir, sem sýni fram á það að stefnandi hafi greitt geymslugjald til þriðja aðila. Þá eigi að sýkna hana af kröfu um greiðslu skoð­unar­­­­gjalds enda hafi verið tekið tillit til þeirrar kröfu í samkomulagi um innbús­skipt­ingu aðila.

Til stuðnings varakröfu um verulega lækkun á dómkröfum stefnanda þá byggir stefnda á gagnkröfu um skuldajöfnuð sem reist er á tveimur kröfuliðum. Í fyrsta lagi er krafa á hendur stefnanda um ógreidda húsaleigu, nánar tiltekið 400.000 krónur vegna búsetu stefnanda í fjóra mán­uði í húsnæði stefndu eftir skilnað aðila. Miðast gagn­­­­­­krafa stefndu við þá­ver­­andi leigu­verð fasteignarinnar, 175.000 krónur á mánuði, að viðbættum 25.000 krónum á mán­uði vegna hita, rafmagns og internets, nánar til­tekið 200.000 krónur í fjóra mán­uði, samanlagt 800.000 krónur, sem skiptist að jöfnu milli aðila á framan­greindu tíma­bili, 400.000 krónur (200.000 x 4 x 0,5 = 400.000). Í annan stað er gagnkrafan reist á því að stefndu beri réttur til greiðslu á 785.500 krón­um úr hendi stefnanda vegna hlutdeildar hennar í hagnaði Sólheimajökuls ehf. fram til 30. september 2014.

Um lagarök vísar stefnda meðal annars til meginreglna samninga- og kröfuréttar um efndir samninga og tómlæti. Þá byggir sýknukrafa hennar einnig á III. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 16. gr. þeirra laga. Um gagnkröfu til skulda­­­­­­­­­jafnaðar vísar stefnda til 1. mgr. 28. gr. sömu laga og þá er krafa hennar um máls­­­­kostnað reist á XXI. kafla laganna.

 

IV.

Um málatilbúnað stefnanda:

Stefnda hefur gert athugasemdir við málatilbúnað stefnanda svo kunni að varða frá­­vísun málsins ex offico. Athugasemdir stefndu lúta annars vegar að því að rök­stuðn­­­­ingi stefn­anda í stefnu sé verulega áfátt og hins vegar því að nægjanleg gögn hafi ekki verið lögð fram af hálfu stefnanda til stuðnings dómkröfum, sbr. e-lið 1. mgr. 80. gr. og 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991. Að mati dómsins er að nokkru leyti unnt að taka undir með stefndu um það að skýrleiki málsástæðna og gagnaframlagning stefn­anda er ekki með besta móti. Hið sama á við um dómkröfu, einkum varðandi vaxta­kröfu, sbr. d-lið 1. mgr. 80. gr. fyrrgreindra laga. Við mat á þessum atriðum ber hins vegar að taka tillit til þess að stefn­andi er ólög­lærður og flytur mál sitt sjálfur. Þá hefur stefn­andi í meginatriðum gert grein fyrir máls­ástæðum og lagt fram gögn til stuðnings dóm­kröfum og verður ekki ráðið af mála­tilbúnaði stefndu að henni sé ómögulegt að halda uppi vörnum. Að þessu virtu eru ekki efni til þess að vísa málinu frá dómi ex officio.

 

Niðurstaða um kröfulið um endurgreiðslu á peningaláni:

Í málinu er ágreiningslaust að stefnandi millifærði samtals 540.000 krónur inn á banka­reikning stefndu á tímabili frá 25. nóvember 2014 til 7. ágúst 2015. Samkvæmt yfir­liti sem stefnandi hefur lagt fram var um að ræða ellefu milli­­­­­­færslur, þar af var ein milli­færsla 25. nóvember 2014 að fjárhæð 10.000 krónur og tíu millifærslur á tímabili frá 6. janúar 2015 til 7. ágúst sama ár samanlagt að fjárhæð 530.000 krónur. Aðila greinir hins vegar á um það hvort um hafi verið að ræða peningalán til stefndu eða hvort stefnandi hafi verið að greiða stefndu til baka skattskuld sem hafi tilheyrt honum en stefndu verið gert að standa skil á gagnvart ríkissjóði með skulda­jöfnuði á móti inn­eign sem hún átti hjá ríkissjóði á árinu 2014. Jafnframt greinir aðila á um, ef lagt verður til grundvallar að um sé að ræða skuld stefndu við stefnanda, hvort skuldin sé fallin niður vegna tómlætis stefnanda.

Stefnda hefur lagt fram afrit af innheimtuseðli frá innheimtumanni ríkissjóðs vegna ársins 2014 þar sem greinir meðal annars að 578.814 krónum, vegna opinberra gjalda samsköttunaraðila með kennitölu stefnanda, hafi verið skuldajafnað á móti inn­eign stefndu hjá ríkissjóði á þessum tíma. Í stefnu er ekki gerður ágrein­­ingur um að inn­­heimtumaður ríkissjóðs hafi tekið um­rædda fjárhæð af fjár­mun­um stefndu til að greiða skattskuld stefnanda, skulda­jöfn­uður­­inn hafi farið fram 20. júlí 2014 og þá hafi fjár­hagur þeirra verið sam­eiginlegur sem hjóna og svo hafi verið fram til 1. október sama ár er þau skildu að lög­um. Þau hafi því verið samábyrg fyrir sköttum á þessum tíma og ekki hafi verið gengið út frá öðru við fjárskipti þeirra vegna lögskilnaðarins.

Vitnið Ragnheiður Högnadóttir, fjármálastjóri og aðal­bókari við embætti sýslu­manns­­­ins á Suðurlandi, bar um það fyrir dómi að stefnda hefði haft samband við sig vegna skuldajöfnunarinnar. Stefnda hefði ekki áttað sig á því hvers vegna umrædd ráð­­­­­stöfun var gerð vegna inneignar hjá henni og hún talið að hún væri búin að greiða alla sína skatta. Vitnið hefði af þessu tilefni athugað nánar hvað skýrði skulda­jöfn­un­ina. Við þá athugun hefði komið í ljós að um hefði verið að ræða skattbreytingu vegna nýrra upplýsinga sem hefðu verið sendar til skattyfirvalda og vörðuðu stefnanda og hefðu orðið þess valdandi að skuld varð til hjá stefndu hjá innheimtumanni ríkis­sjóðs en hún og stefnandi hefðu verið samsköttuð á þessum tíma. Stefnda hefði verið mjög ósátt við þessa ráðstöfun en vitnið tjáð henni að hún hefði engar forsendur til að gera neitt annað en að krefja hana um greiðslu skuldarinnar. Stefnda hefði tjáð vitninu að hún ætlaði að ræða við stefn­anda og fá hann til að greiða sér fjárhæðina til baka með mán­­aðarlegum greiðslum. Þá hefði stefnda sagt vitninu að stefnandi ætlaði sér að greiða henni fjár­hæðina til baka en vitnið tók sérstaklega fram í því sambandi að hún hefði aðeins orð stefndu fyrir því. 

Við úrlausn á þessum ágreiningi er til þess að líta að aðilar voru á þessum tíma ekki skilin að lögum og báru þau sem hjón óskipta ábyrgð á skattgreiðslum hvort annars, sbr. 1. mgr. 116. gr., sbr. 62. gr. og 80. gr., laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Í skiln­­­­­­­­­aðarsamningi aðila, dagsettum 1. október 2014, er ekki kveðið á um að stefnandi skuli greiða stefndu framangreinda skattskuld. Vitnið Ragnheiður Högnadóttir bar um að hún hefði aðeins orð stefndu fyrir því að stefnandi ætlaði að endurgreiða stefndu um­­­­­­­­­rædda skattskuld. Að þessu virtu og þar sem annarra gagna nýtur ekki sem styðja sér­staklega þá fullyrðingu stefndu að um­ræddar greiðslur stefnanda til hennar hafi verið endurgreiðslur á fyrrgreindri skatt­skuld þá telst hún ósönnuð. Hefur þannig ekki verið hnekkt þeirri staðhæfingu stefn­anda að hann hafi greitt stefndu féð sem lán og ber að leggja það til grundvallar.

Við mat á því hvort stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti þá verður litið til þess að sam­­­­­­­kvæmt gögnum málsins þá beindi stefnandi fyrst kröfu að stefndu um endur­greiðslu á skuld­­­inni með tölvuskeyti og fylgigögnum 3. nóvember 2016, sem var tæp­um tveimur árum eftir að fyrsta milli­færsla átti sér stað og rúmu ári eftir þá síð­ustu. Þá liggja fyrir gögn um samskipti af sama toga milli stefnanda og stefndu vegna greiðslu­kröfu hins fyrrnefnda o.fl. 11., 13., 15. og 16. nóvember 2016 og 1. des­ember sama ár, auk bréfs 7. september 2017 og tölvu­skeyta 5. maí 2017, 4. október 2017 og 1. des­ember 2017 varð­andi uppgjör o.fl. Að virtum framangreindum dagsetningum á milli­færslum, endur­greiðslubeiðni og síðari samskiptum sem að framan greinir, auk út­gáfu­­dags stefnu, 6. desember 2017, þá verður ekki fallist á með stefndu að svo langur tími hafi liðið frá lánveitingum uns stefnandi krafðist endurgreiðslu á láninu að hann hafi sýnt af sér tómlæti við innheimtu kröfunnar.

Að öllu framangreindu virtu og með vísan til meginreglna samningaréttar um skuld­­­­bindingargildi loforða og almennra reglna kröfuréttarins um efndir fjárskuld­bindinga þá verður fallist á með stefnanda að stefndu beri að greiða honum hina samanlögðu láns­fjárhæð til baka, sam­tals 540.000 krónur.

 

Niðurstaða um kröfulið vegna endurbóta á kjallaratröppum að Njálsgötu 16:

Af málatilbúnaði aðila verður ráðið að ágreiningslaust sé að endurbætur voru gerðar á kjallara­­tröppum í desember 2013 og fyrri hluta árs 2014 sem voru hluti af sam­­­eign á um­ræddu húsnæði að Njálsgötu 16, sem er fjöleignarhús í skilningi 2. mgr. 1. gr. laga nr. 26/1994. Einnig er ágreiningslaust að stefnandi greiddi samtals 290.000 krónur til Sigurðar Jónssonar smiðs, þar af 140.000 krónur með milli­færslu 24. ágúst 2015 og 150.000 krónur með millifærslu 1. desember sama ár. Þá verður ráðið af mála­­­tilbúnaði stefndu að ekki sé ágreiningur um að hin greidda fjárhæð hafi verið vegna verk­launa fyrir fyrrgreindar endur­bætur. Af málatilbúnaði stefnanda verður ráðið að hann byggi á því að hann hafi efnt sam­­­­­­eiginlega lögmæta fjárskuld­bindingu hús­­félags­ins gagnvart Sigurði Jónssyni smið, sem stofnað var til á þeim tíma þegar stefnandi og stefnda voru í hjúskap og um­rædd íbúð var í sam­eigin­legri eigu þeirra, og jafn­­framt að stefnda hafi, með stefn­anda, lofað smiðnum því að taka þátt í greiðslu verk­­­launanna fengist ekki greitt af hús­félagsins hálfu. Í 2. tölul. 5. gr. skiln­aðar­­samnings stefnanda og stefndu frá 1. október 2014 greinir að umrædd íbúð að Njáls­götu 16 hafi verið meðal sam­eiginlegra eigna þeirra við fjárskiptin. Stefnda krefst sýknu á grund­­­­­­velli aðildar­skorts þar sem endur­bæturnar varði hús­félagið að Njáls­götu 16 vegna kostnaðar sem tilheyri sam­eign húss­ins.

Í stefnu greinir meðal annars að ágreiningur hafi verið um verkið á vettvangi hús­félagsins en stefn­­andi og stefnda hafi verið sam­mála um að réttmætt væri að hússjóður greiddi fyrir alla fram­­kvæmd­ina. Afstaða stefndu af sama toga birtist í bréfi frá henni til stefn­anda 7. sept­ember 2017, sem svar við kröfu hans um endurgreiðslu á helmingi fyrr­­greindrar greiðslu til smiðsins, en þar greinir hins vegar að stefnda telji að stefn­andi hafi greitt reikn­inginn í andstöðu við vilja hennar og hann verði að sækja rétt sinn gagn­vart hús­félaginu.

Stefnandi hefur lagt fram skrif­­­lega yfir­lýsingu, undirritaða með nafni Sigurðar Jóns­sonar, dagsetta 1. mars 2018, þar sem greinir meðal annars að stefnandi og stefnda hafi í desember 2013 upp­lýst Sigurð og nafn­greindan samstarfsmann hans, sem nú sé látinn, um það að ekki væri sam­­komulag við aðra eigendur hússins um að endurnýja tröppurnar en þau hjónin hefðu talað einu máli um að þeim myndi takast að fá verkið greitt af hússjóði, auk þess sem stefnandi hefði sagt að þau hjón væru ábyrg fyrir því að þeir fengju greitt fyrir vinnu sína og að stefnda hefði engu bætt þar við. Við mat á sönnunargildi skjals­­­ins er til þess að líta að undirritun skjalsins er án votta, óljóst er um tilefni eða atvik varð­andi útgáfu þess og þá hefur Sigurður Jónsson ekki komið fyrir dóminn sem vitni og gert nánar grein fyrir efni skjalsins eða staðfest efni þess. Að þessu virtu verður ekki byggt á skjalinu við sönnunarmatið.

Í fyrrgreindu bréfi stefndu frá 7. september 2017, sem stefnandi hefur lagt fram, kemur beinlínis fram að umrædd greiðsla stefnanda til smiðsins hafi verið gegn hennar vilja og að hún hafi talið að húsfélagið ætti að greiða fyrir verkið. Þá er ekki vikið að slíkri skuldbindingu í skilnaðarsamningi aðila. Þar sem annarra gagna nýtur ekki við til stuðnings kröfunni þá hefur stefnanda ekki tekist sönnun fyrir því að stefnda hafi lofað því að ábyrgjast greiðslu verklauna til smiðs­­­­­­ins. Að framangreindu virtu og með vísan til 4. mgr. 54. gr. laga nr. 26/1994 þá verður fallist á kröfu stefndu um sýknu af þess­um kröfulið vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. 

 

Niðurstaða um kröfulið vegna viðhalds og endurbóta að Stórholti 30:

Í málinu er uppi ágreiningur um greiðsluskyldu stefndu vegna útlagðs kostnaðar stefnanda af efniskaupum o.fl. í vegna endurbóta og viðhalds á fasteign stefndu að Stór­­­holti 30. Ágreiningur er uppi um umfang verksins en ágreiningslaust er að það var innt af hendi á fjögurra mánaða tímabili frá desember 2015 til og með mars 2016. Stefn­andi byggir á því að um hafi verið að ræða talsverðar endurbætur, nánar tiltekið að eld­hús hafi verið fært til í hús­næðinu, auk annarra viðgerða, en stefnda byggir á því að um hafi verið að ræða að­stoð við ýmiss konar smærra viðhald fasteignarinnar. Þá er uppi ágreiningur um hvort stefnda hafi samþykkt einstök útgjöld og að stefnandi hafi með gögnum sem hann hafi lagt fram ekki fært sönnur á það að þau tengist viðhaldi og endur­bótum fasteignarinnar, auk þess sem óréttmætt sé af stefnanda að krefja hana um endur­­­­gjald vegna verkfæra sem hann hafi keypt til verksins og hann hafi enn í fór­um sínum o.fl. Þá byggir stefnda enn fremur á því að verkið og efniskaup hafi átt að ganga upp í húsaleigu, sbr. gagn­kröfu stefndu á hendur stefnanda til skuldajöfnuðar, auk þess sem verkið hafi verið liður í samkomu­lagi aðila um innbússkipti í kjölfar lög­skilnaðar þeirra.

Við úrlausn á þessum ágreiningi er til þess að líta að stefnandi hefur lagt fram fjölda rafrænna ljósmynda á minnislykli sem styðja málatilbúnað hans um að hann hafi sett upp eldhús í íbúð stefndu með nýjum tækjum, lögnum o.fl., auk annars minna vi­ð­halds, svo sem með því að koma fyrir nýju stormjárni í glugga o.fl. Raf­rænar upp­lýs­ingar í bakskrám varðandi dagsetningu ljósmyndanna samrýmast í megin­atriðum framan­­­­­greindum verk­tíma. Að virtum þessum gögnum telur dómurinn að fyrir liggi nægjan­leg sönnun fyrir því að stefnandi hafi í raun sett upp nýtt eldhús í fasteign stefndu og sinnt öðru viðhaldi á framangreindu tímabili og verður þannig ekki fallist á með stefndu að um hafi verið að ræða smærra viðhald fasteignar.

Stefnandi hefur lagt fram afrit af fjölda kvittana til stuðnings umræddum kröfulið. Um er að ræða kvittanir frá Bauhaus, Byko, Gastec, Húsasmiðjunni, IKEA, Múrbúð­inni, Reykjafelli, Sorpu og Verkfærasölunni, samtals að fjárhæð 538.292 krónur. Dag­­­­setn­ingar á kvittununum sam­rýmast framangreindum verk­­­­­­­­tíma. Þá geta upp­lýsingar sem fram koma á kvittunum í meginatriðum samrýmst því að um sé að ræða efnis­­kaup vegna framangreinds verks o.fl. Engin kvittan­anna er hins vegar með undir­ritun stefndu til staðfestingar á útgjöld­unum. Að því virtu og með hliðsjón af vörnum stefndu og þar sem annarra gagna nýtur ekki við sem styðja sérstaklega útgjöldin verður allur vafi um það hvort umrædd útgjöld tengist framangreindum efniskaupum virtur stefndu í hag.

Samkvæmt munnlegri aðilaskýrslu stefnanda fyrir dómi kannaðist hann við að hafa í fórum sínum áhöld sem hann notaði til verksins. Að því virtu fellst dómurinn ekki á að stefnda greiði útlagðan kostnað stefn­anda vegna áhaldakaupa, samtals að fjár­hæð 15.091 króna, þar af 1.121 króna vegna tommu­­stokks og 798 krónur vegna hnífs (Verkfærasalan dags. 19.12.2015), 7.752 krónur vegna bors (Verkfærasalan dags. 15.01.2016), 632 krónur vegna sparsl­spaða (Byko dags. 27.01.2016), 625 krónur vegna þvingu (Byko dags. 29.01.2016), 2.770 krónur vegna handsagar (Bauhaus dags. 08.02.2016), 585 krónur vegna rasps (Byko dags. 13.02.2016), 285 krónur vegna díla­bors (Byko dags. 17.02.2016), og 523 krónur vegna Lux-fúguspaða (Byko dags. 28.02.2016). Að mati dómsins hefur stefnanda ekki tekist sönnun á því að hann hafi greitt kostnað vegna kaupa á efni eða tækjum sam­tals að fjárhæð 119.050 krónur, þar af kvittun að fjárhæð 28.900 krónur (IKEA dags. 06.02.2016), kvittun að fjárhæð 46.250 krónur (IKEA dags. 20.02.2016) og kvittun að fjárhæð 43.900 krónur (IKEA dags. 21.02.2016) þar sem kvittanirnar eru á nafni og kennitölu stefndu. Þá er hluti fram­­­lagðra kvittana ýmist ólæsilegur eða án upplýsinga um það hvað var keypt. Að því virtu fellst dómurinn ekki á að stefnda greiði útlagðan kostnað stefnanda vegna þeirra kaupa, samtals að fjárhæð 93.408 krónur, þar af kvittun að fjárhæð 5.355 krónur (Byko ólæsilegt), kvittun að fjárhæð 65.895 krónur (IKEA dags. 03.01.2016), kvittun að fjárhæð 8.330 krónur (IKEA dags. 16.01.2016), kvittun að fjárhæð 591 króna (Byko dags. 15.01.2016), kvittun að fjárhæð 1.495 krónur (Byko dags. 01.02.2016), kvittun að fjárhæð 1.663 krónur (Húsasmiðjan dags. 01.02.2016), kvittun að fjárhæð 3.300 krónur (IKEA dags. 05.02.2016), kvittun að fjárhæð 700 krónur (Byko dags. 12.02.2016), kvittun að fjárhæð 2.329 krónur (Byko ólæsilegt), og kvittun að fjárhæð 3.750 krónur (IKEA dags. 06.03.2016).

Að öðru leyti samrýmast upplýsingar sem fram koma á framlögðum kvittunum því að um hafi verið að ræða útlagðan kostnað stefnanda vegna efniskaupa við upp­setn­­ingu á eldhúsi o.fl. Í þeim gögnum greinir meðal annars að keypt hafi verið múr­efni, múr­tappar, tréskrúfur, storm­járn, raflagnaefni, tengi, rofar, raf­magnsklær, rammar, tenglar, vinklar, endalok, tré­lím, plaströr, hólkar, stál­saumar, viðgerðargifs, sparsl, beygjur, tengikranar, eld­húsinnrétting, eld­hús­tæki, ómeð­­höndluð eikar­borð­plata, hús­gagnaolía, hilla o.fl. Að öllu þessu virtu hefur stefn­andi í meginatriðum sýnt fram á að þau efnis­kaup hafi tengst umræddu verki á heimili stefndu og hann hafi lagt út fyrir þeim og verða þau því lögð til grundvallar við úrlausn máls­­ins, samtals að fjárhæð krónur 310.743 krónur.

Stefnda hefur ekki lagt fram gögn eða með öðrum hætti sýnt fram á að hún hafi ekki samþykkt umrædd útgjöld en í því sambandi ber að líta til þess að stefnda bjó á þeim stað þar sem verkið var unnið og hlýtur hún þar með að hafa fylgst með fram­kvæmd verksins og innkaupum á efni og samþykkt þau kaup eða látið þau við­gangast. Er staðhæfing stefndu um hið gagnstæða ósönnuð og verður hún látin bera hallann af því. Stefnda hefur ekki lagt fram viðhlítandi gögn eða sýnt fram á það með öðrum hætti að stefn­andi hafi eyðilagt fyrir henni olíuborna borðplötu sem hún hafi verið búin að kaupa og að það hafi leitt til efniskaupa hjá Bauhaus fyrir 32.340 krónur. Að mati dómsins er sú stað­­hæfing einnig ósönnuð og verður hún ekki lögð til grund­vallar í málinu. Þá er sú stað­hæfing stefndu auk þess ósönnuð að efniskaupin hafi verið liður í sam­komulagi aðila um innbússkipti vegna lögskilnaðarins og verður hún ekki lögð til grundvallar í málinu.

Að öllu framangreindu virtu og með vísan til reglna samningaréttar um skuld­bind­­ingargildi loforða og almennra reglna kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga verður stefndu gert að greiða stefn­anda 310.743 krónur vegna framangreindra efnis­kaupa.

 

Niðurstaða um kröfulið vegna geymslu og skoðunar á tjaldvagni:

Ágreiningur er milli aðila um það hvort stefnandi hafi sannanlega greitt gjald að fjárhæð 45.000 krónur vegna leigu á geymsluhúsnæði fyrir tjald­vagn, VB-726, í eigu stefndu, á tíma­bilinu 2015–2018, og hvort stefndu beri að greiða skoðunargjald vegna tjald­vagns­ins, 13.400 krónur. Meðal málsgagna er tölvuskeyti frá stefndu til stefnanda 4. október 2017 þar sem meðal annars greinir að hún hafi óskað eftir því við stefnanda að hann tæki að sér að flytja tjaldvagn fyrir hana í vetrargeymslu á ótilgreindan stað þar sem hann hefði verið geymdur árinu á undan. Þá greinir auk þess í tölvuskeytinu að vilji stefndu hafi staðið til þess að tjaldvagninn væri skoðaður á skoðunarstöð til að gera vagninn söluvænlegri. Einnig er meðal gagna kvittun nafn­greinds manns, búsetts í Djúpa­dal, Rangárþingi eystra, dagsett 23. nóvember 2017, um að hann hafi mót­tekið greiðslu frá stefn­anda vegna geymslu á fyrrgreindum tjaldvagni veturna 2015–2016, 2016–2017 og 2017–2018, samtals að fjárhæð 45.000 krónur. Jafnframt eru meðal gagna ljósmyndir af tjaldvagni með framangreint skrán­ingarnúmer o.fl. í geymslu­hús­næði fyrir tjaldvagna og verður ráðið af myndunum að um sé að ræða hús í dreif­býli. Þá er meðal gagna kvittun frá Frumherja hf., dagsett 23. október 2017, að fjár­hæð 13.400 krónur, vegna skoðunar á fyrrgreindum tjald­vagni í skoðunarstöð á Hvols­velli. Að virtum þessum gögn­­um, sem eru að mati dómsins trú­verðug, þá telst sannað að stefn­­­andi hafi greitt framangreinda fjárhæð vegna geymslu og skoðunar tjald­vagnsins og það hafi verið samkvæmt beiðni og samþykki stefndu. Stefnda hefur engin gögn lagt fram til stuðnings þeirri málsástæðu að greiðsla skoð­unar­gjaldsins hafi verið liður í sam­komu­­lagi hennar og stefnanda um innbússkipti og er sú staðhæfing ósönnuð og verður hún látin bera hallann af því.

Að öllu framan­­­greindu virtu og með vísan til reglna samningaréttar um skuld­bind­ingar­gildi loforða og almennra reglna kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga verður fallist á kröfu stefn­anda um að stefndu beri að endurgreiða honum framan­greindan útlagðan kostnað vegna tjaldvagnsins, samtals 58.400 krónur.

 

Niðurstaða um gagnkröfur stefndu til skuldajafnaðar:

Ágreiningur er uppi um það hvort gagnkrafa stefndu að fjárhæð 400.000 krónur um ógreidda leigu stefnanda vegna afnota af húsnæði hennar að Stórholti 30, á tíma­bili frá desember 2015 til og með mars 2016, eigi rétt á sér. Í munnlegri aðila­skýrslu stefn­anda staðfesti hann að hann hefði búið í hús­næðinu á fyrr­greind­­um tíma án þess að greiða húsaleigu fyrir en hann kannaðist ekki við að útlagður kostnaður hans vegna efnis­kaupa o.fl. vegna við­gerðar og endurbóta á húsnæðinu hefði átt að ganga upp í húsaleigu. Stefnandi tók fram í því sambandi að hann hefði búið í húsnæðinu þar sem hann hefði verið að hjálpa stefndu við endur­bætur á því og það hefði verið að hennar beiðni. Við úrlausn á þess­um ágreiningi er til þess að líta að stefnda hefur ekki fært fram gögn sem stað­festa eða færa líkur að því að um það hafi verið samið, eða að til þess hafi verið ætlast, að stefnandi greiddi henni húsaleigu á þeim tíma sem hann bjó í húsnæðinu, eða að hann hefði með réttu mátt vænta þess að hann ætti að greiða henni fyrir slík afnot af hús­næðinu á meðan hann vann að endurbótum í því o.fl. Af fyrir­liggjandi gögnum um sam­­­skipti stefnanda og stefndu í aðdraganda málshöfðunar verður ráðið að slík krafa hafi fyrst komið fram á þeim tíma þegar stefnandi fór þess á leit við hana að hún endur­greiddi honum fyrrgreindan efniskostnað. Þá liggur auk þess fyrir að stefnandi vann að endurbótum á húsnæðinu á þeim tíma sem hann bjó í því án þess að krefja stefndu um vinnulaun. Að þessu virtu og með hliðsjón af atvikum máls þá verður ekki fallist á það með stefndu að hún eigi gagnkröfu á hendur stefnanda um leigu­greiðslu vegna afnota stefnanda af húsnæðinu sem komi til skuldajafnaðar og verður þeirri kröfu hafnað.

Í málinu er einnig uppi ágreiningur um gagnkröfu stefndu að fjárhæð 785.500 krónur vegna meintrar hlutdeildar hennar í hagnaði Sólheimajökuls ehf. fram til 30. sept­ember 2014. Við úrlausn á þessum ágreiningi er til þess að líta að í 4. mgr. 6. gr. skiln­aðar­­samnings aðila frá 1. október 2014 greinir að stefnandi hafi fengið í sinn hlut fyrr­greint einkahlutafélag með öllum eignum og skuldum og er enginn fyrir­vari eða áskiln­aður í samningnum um hlutdeild stefndu í hagnaði félagsins fram að þeim tíma sem samn­ingur­inn var gerður. Samningurinn er í gildi milli aðila og hefur hann ekki verið ógiltur fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 31/1993. Að þessu virtu fellst dómur­inn ekki á með stefndu að fyrir hendi sé gagn­krafa hennar á hendur stefn­anda í framan­greindu tilliti sem komi til skulda­jafnaðar, og verður henni hafnað

 

Niðurstaða um vexti, málskostnað o.fl.:

Að mati dómsins verður að skilja kröfu stefnanda um vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 með þeim hætti að að hann krefjist þess að stefnda greiði slíka vexti frá þeim tíma þegar stofnað var til skulda samkvæmt framangreindum kröfuliðum. Í mál­inu liggur ekkert fyrir um að samið hafi verið um slíka vexti og verður þeirri kröfu því hafnað. Að öðru leyti verður fallist á kröfu stefnanda um að stefnda greiði honum dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 en að virtum atvikum máls og með vísan til 3. mgr. 5. gr. sömu laga þykir rétt að þeir falli á höfuðstól mánuði frá upp­kvaðningu dóms þessa til greiðslu­dags. 

Að öllu framangreindu virtu verður stefndu gert að greiða stefnanda skuld sam­kvæmt því sem áður segir um fyrrgreinda kröfuliði að við­bættum dráttarvöxtum, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Með hliðsjón af atvikum og niðurstöðum máls þessa og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að málskostnaður falli niður milli aðila.

Stefnandi, sem er ólöglærður, flutti mál sitt sjálfur. Af hálfu stefndu flutti málið Birgir Már Björnsson lögmaður.

Daði Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

Stefnda, Sigrún Ragnheiður Ragnarsdóttir, greiði stefnanda, Tómasi Ísleifssyni, 909.143 krónur, auk dráttarvaxta af þeirri fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 mánuði frá uppkvaðningu dóms þessa til greiðslu­dags.

Málskostnaður milli aðila fellur niður.

 

Daði Kristjánsson