• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Skilorðsbundnir dómar
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2018 í máli nr. S-523/2018:

Ákæruvaldið

(Pétur Hrafn Hafstein saksóknarfulltrúi)

gegn

Hrafnkeli Dwight Batson

(Ólafur Karl Eyjólfsson lögmaður)

 

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 11. október 2018, var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dags. 16. ágúst 2018 á hendur:

 

„Hrafnkeli Dwight Batson, kennitala 000000-0000,

[...], Reykjavík,

 

fyrir brot gegn valdstjórninni framið í Reykjavík [...] árið 2017:

 

1.      Með því að hafa, er ákærði var handtekinn að [...], hótað lögreglumönnunum A og B og fjölskyldum þeirra lífláti, er þeir gegndu skyldustarfi sínu.

 

Brot ákærða samkvæmt 1. tl. ákæru telst varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

(007-2017-037316)

 

Fyrir eftirfarandi hegningar- og umferðalagabrot framin í Reykjavík að morgni [...] árið 2018:

 

2.      Fyrir umferðalagabrot, með því að hafa ekið bifreiðinni [...] án ökuréttinda og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 100 ng/ml og MDMA 1200 ng/ml) og neyslu slævandi lyfja (í blóði mældist díazepam 510 ng/ml, klónazepam 19 ng/ml, nordíazepam 970 ng/ml og temazepam 33 ng/ml) vestur [...] og inn [...] til norðurs, þar sem bifreiðin hafnaði uppi á umferðareyju milli akreina og festist í snjó.

 

Brot ákærða samkvæmt 2. tl. ákæru telst varða við 2. mgr. 44. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum.

 

3.      Fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa, er ákærði var handtekinn og fluttur með lögreglubifreið á lögreglustöðina við Hverfisgötu í kjölfar þeirra atvika sem lýst er í öðrum ákærulið, hótað lögreglumanninum C líkamsmeiðingum og lífláti.

 

4.      Fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa, á lögreglustöðinni við Hverfisgötu hótað lögreglumönnunum C, D og E líkamsmeiðingum og lífláti er þeir gegndu skyldustarfi sínu.

 

Brot ákærða samkvæmt 3. og 4. tl. ákæru teljast varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

(007-2018-010132)

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga.“

 

            Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

            Ákærði er fæddur árið [...]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærða hefur hann ekki hlotið refsingu fyrir hótanir eða ofbeldistengd brot. Hann gekkst undir sátt [...] 2015 fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann var ekki orðinn  fullra 18 ára þegar hann framdi það brot og hefur það því ekki ítrekunaráhrif, sbr. 71. gr. almennra hegningarlaga. Þá var hann dæmdur til greiðslu sektar með dómi Héraðsdóms Suðurlands frá [...] 2015 en um var að ræða hegningarauka við sáttina.

Við ákvörðun refsingar ákærða nú er litið til greiðrar játningar hans fyrir dómi. Hvað umferðarlagabrot hans varðar er um fyrsta brot hans að ræða eftir að hann náði 18 ára aldri og varðar sektum. Ákærði var undir miklum áhrifum fíkniefna þegar hann framdi valdstjórnarbrotin. Var ástand hans slíkt að vista þurfti hann í fangageymslu þar til hann var viðræðuhæfur. Ástand hans leysir hann ekki undan sök þó ætla megi að ásetningur hans hafi verið þokukenndur. Til þyngingar horfir að um alvarlega háttsemi var að ræða en brot hans beindust gegn nokkrum lögreglumönnum sem voru við skyldustörf.

Ákærði hefur að eigin sögn nýverið lokið meðferð. Hann hefur vísan samastað hjá nánum fjölskyldumeðlimum og hefur í hyggju að halda meðferð áfram þegar losnar pláss. Hann hefur hug á að komast í vinnu sem fyrst.

Með vísan til framangreinds og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir hæfileg refsing ákærða vera 4 mánaða fangelsi en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.  Þegar litið er til ungs aldurs ákærða og aðstæðna hans er ákveðið að binda refsingu ákærða jafnframt skilyrði samkvæmt 1. og 3. tl. 3. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga. Skal hann því ekki neyta áfengis né deyfilyfja á skilorðstímanum og sæta umsjón Fangelsismálastofnunar sem annast eftirlit samkvæmt 1. mgr. 83. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga.

            Ákærði er sviptur ökurétti í  eitt ár frá birtingu dómsins að telja.

            Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns Ólafs Karls Eyjólfssonar lögmanns og annan sakarkostnað samkvæmt framlögðu sakarkostnaðaryfirliti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

 

            Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                            D ó m s o r ð :

            Ákærði, Hrafnkell Dwight Batson, sæti fangelsi í fjóra mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Framangreind frestun skal einnig bundin skilyrði 1. og 3. tl. 3. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga og skal ákærði ekki neyta áfengis né deyfilyfja á skilorðstímanum og sæta umsjón Fangelsismálastofnunar.

            Ákærði er sviptur ökurétti í eitt ár frá birtingu dómsins að telja.

            Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Ólafs Karls Eyjólfssonar lögmanns, 126.480 krónur og 296.072 krónur í annan sakarkostnað.

 

                                                            Sigríður Hjaltested (sign.)