• Lykilorð:
  • Kynferðisbrot
  • Nauðgun

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2018 í máli nr. S-63/2018:

Ákæruvaldið

(Dagmar Ösp Vésteinsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

Erol Topal

(Bjarni Hauksson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 16. maí sl., er höfðað með ákæru útgefinni af héraðssaksóknara 31. janúar 2018 á hendur Erol Topal, [...], [..., ...], fyrir eftirtalin kynferðisbrot:

I.

Nauðgun, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 3. júlí 2015, á heimili A að [..., ...],, haft önnur kynferðismök en samræði við A, gegn hennar vilja með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung, með því að taka utan um hana og henda henni niður í sófa, draga bolinn hennar niður fyrir brjóstin, káfa á henni og sleikja á henni andlit, háls og öxl, taka niður um hana buxurnar og stinga fingri sínum inn í leggöng hennar en ákærði lét ekki af háttseminni þrátt fyrir að A segði honum ítrekað að hún vildi þetta ekki og reyndi að ýta honum af sér, sparka í hann og bíta hann. (M. 007-2016-40755)

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

II.

Nauðgun, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 16. maí 2016, á heimili sínu að [...], haft samræði við B, gegn hennar vilja með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung, meðal annars með því að slá hana og kýla ítrekað í andlit og líkama, taka hana kverkataki og hóta henni lífláti, halda henni fastri í rúmi og afklæða hana úr nærbuxum og sokkum og draga kjól hennar upp og gera tilraun til þess að setja getnaðarlim sinn í munn hennar og þröngva henni til samræðis í leggöng með því að þvinga fótleggi hennar í sundur og halda höndum hennar föstum fyrir ofan höfuð hennar en ákærði lét ekki af háttseminni þrátt fyrir að B hefði látið hann vita að hún vildi þetta ekki, reynt að öskra eftir hjálp og barist um á meðan á þessu stóð. (M. 007-2016-27867)

Er háttsemi þessi talin varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

1.      Af hálfu brotaþolans A er krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 2.000.000 krónur auk vaxta, skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 3. júlí 2015, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi er mánuður er liðinni frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað.

 

2.      Af hálfu brotaþolans B er krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 2.000.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 16. maí 2016 til þess dags þegar mánuður er liðinn frá því að bótakrafa er kynnt ákærða, og dráttarvaxta eftir þann dag skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þá er krafist greiðslu þóknunar réttargæslumanns úr hendi ákærða.

 

Ákærði neitar sök. Verjandi ákærða krefst sýknu og að skaðabótakröfum verði vísað frá dómi. Loks að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

 

I.kafli ákæru.

            Föstudaginn 15. júlí 2016 mætti brotaþolinn A á lögreglustöð til að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot. Við það tækifæri var tekin lögregluskýrsla af brotaþola þar sem brotaþoli greindi frá atvikum málsins. Í skýrslutökunni greindi brotaþoli m.a. frá því að ákærði hafi sent brotaþola SMS-símaskilaboð sem tengdust málinu. 

Mánudaginn 18. júlí 2018 sendi brotaþoli lögreglu afrit af umræddum skilaboðum. Samkvæmt afriti af SMS-skilaboðum sendi ákærði brotaþola skilaboð, 3. júlí 2015 kl. 00.10, um að ákærði væri á ,,Daskanarinn“ en að brotaþoli væri ekki þar. Brotaþoli spyr ákærða hvort hann hafi sent skilaboðin í rangt númer. Ekki í þetta sinn svarar ákærði. Brotaþoli segist vera að vinna. Ákærði spyr hvort brotaþoli sé enn að vinna og segist brotaþoli vera á grillinu. Ákærði spyr hvort þau geti fengið sér drykk saman eftir vinnu. Brotaþoli segist hafa staðið í þeirri trú að ákærði væri reiður út í sig. Ákærði segir brotaþola of unga til að vera reiða. Hann spyr hvort hann geti hitt hana þetta kvöld. Hún segir nei og segist vera á leið heim. Ákærði spyr hvort þau geti hist fyrir utan og hvort brotaþoli vilji pizzu. Brotaþoli hafnar því. Ákærði spyr hvar hún sé; hann vilji hitta hana í kvöld og sakni hennar. Brotaþoli segist vera að fara að sofa og býður honum góða nótt. Ákærði segist vera á leið heim til hennar og biður hana um að koma niður í garðinn. Hún segist ekki vilja það og sé farin að sofa. Ákærði segist vera að koma og að hún eigi að koma niður í garð. Hann sé fyrir utan. Hún spyr hvað hann vilji og segist hann vilja hitta hana. Brotaþoli segist vera sofandi. Ákærði biður brotaþola aftur um að koma niður, hún sé slæm og hann bíði enn. Hann biður hana um að koma niður og kyssa sig annars muni hann stela einhverjum skóm. Hann biður hana um að hringja á leigubíl fyrir sig. Hún sé slæm. Það hafi samt verið gott að hitta brotaþola. Þennan sama dag kl. 12.28 sendir ákærði brotaþola SMS-skilaboð og spyr hvort húni sé honum reið. Sama dag kl. 19.23 sendir hann henni skilaboð og biðst afsökunar á gærkvöldinu. Hann sjái að hún sé honum reið.

Sunnudaginn 5. júlí 2015 kl. 15.45 sendir ákærði brotaþola SMS-skilaboð og spyr hvort hún sé honum  enn reið. Sama dag kl. 18.26 segir ákærði að hann fái ekki svar frá brotaþola. Þann 9. júlí 2015 kl. 00.39 sendi ákærði brotaþola SMS-skilaboð og spyr hvernig brotaþoli hafi það og hvort allt sé í lagi á milli þeirra. Hann sé á [...] en hún geti látið sem hún sjái ákærða ekki. Þann 10. júlí 2015, kl. 03.00, sendir ákærði brotaþola skilaboð og segir að hún sé slæm. Hún geri ákærða vitlausan. Hann muni koma heim til brotaþola og hringja dyrabjöllunni. Hann biður brotaþola um að svara sér. Ef hún svari ekki muni hann hringja. Hún geri hann sturlaðan. Hún sé slæm og að hann sé ekki nægjanlega ,,sexy“ fyrir hana. Hún vilji ,,Rakki style.“ Hann muni hringja bjöllunni fljótlega. Brotaþoli trúi ákærða ekki. Þann 23. júlí 2015, kl. 19.44, sendi ákærði SMS-skilaboð til brotaþola og segist vera búinn ef brotaþoli vilji ,,cosmopolitan“. Hann bjóði henni tíu ef hún fyrirgefi honum. Sunnudaginn 2. ágúst 2015, kl. 13.03, sendi ákærði brotaþola skilaboð og segist hafa séð til hennar nóttina áður. Hún hafi verið fyndin. 

 

Ákærði kvaðst hafa unnið með brotaþola í um tveggja ára skeið á [...]. Þau hafi verið góðir vinir og brotaþoli stundum skutlað honum heim eftir vinnu. Að því hafi komið að tilfinningar hafi myndast á milli þeirra. Honum hafi fundist hún of ung fyrir sig og ekki vitað hvað hann hafi átt að halda, en hún hafi sótt í hann. Hún hafi m.a. hrósað honum mikið. Þau hafi rætt mikið saman, bæði í síma og í gegnum SMS-samskipti. Kvöld eitt sumarið 2015 hafi þau hist á bar niðri í bæ. Brotaþoli hafi ,,daðrað“ við mann sem hafi verið kallaður Raggi. Umræddur Raggi hafi verið samstarfsmaður þeirra. Þau hafi skemmt sér vel þetta kvöld. Ákærði hafi fundið fyrir afbrýðissemi gagnvart Ragga, en brotaþoli hafi daðrað við hann. Ákærði hafi orðið pirraður, en samt ekki reiður. Að kvöldi föstudagsins 3. júlí 2015 hafi ákærði farið á [...] þar sem brotaþoli hafi verið að vinna. Hafi ákærði beðið á barnum þar til brotaþoli myndi ljúka vinnu. Ákærða hafi ekki liðið neitt sérstaklega vel. Hann hafi verið búinn að senda brotaþola SMS-skilaboð sem hafi verið ,,óhefluð“. Það hafi tengst því þegar brotaþoli og Raggi voru að skemmta sér saman. Brotaþoli hafi ætlað að hitta ákærða þetta kvöld. og þau hafi ætlað að ræða hið svokallaða ,,Ragga“ mál, sem ákærða hafi liðið illa yfir. Hann hafi ætlað að biðja brotaþola afsökunar á framkomu sinni. Hún hafi hins vegar farið beint heim til sín án þess að koma til hans og hann hafi  fengið skilaboð í símann um það. Hann hafi við það orðið leiður. Hann hafi verið búinn að drekka nokkuð á barnum og verið orðinn ölvaður. Myndi hann því ekki alla atburðarásins. Hann hafi ákveðið að fara á eftir brotaþola heim til hennar. Hann hafi farið inn í garð heima hjá henni og vonast til þess að hún kæmi út þannig að hann gæti rætt við hana. Hann myndi ekki eftir því hvort hann hefði farið upp í íbúð til hennar þetta kvöld. Hún hafi við það tækifæri sýnt honum heimili sitt. Kvöldið sem ákærði hafi farið heim til brotaþola frá [...] hafi ákærði beðið töluvert lengi eftir leigubifreið fyrir utan húsið. Hann hafi verið búinn að biðja brotaþola um að hringja á leigubifreið fyrir sig. Ákærði kvaðst ekki hafa gert brotaþola neitt líkamlegt þetta kvöld. Að því er SMS-samskiptin varðaði hafi ákærði verið að grínast er hann hafi beðið brotaþola um að kyssa sig. Hann hafi verið úti að bíða eftir leigubifreið og verið orðið kalt. Að því er skilboðin varðaði, þar sem hann bæðist afsökunar, kvaðst hann hafa gert það þar sem hann hefði farið heim til brotaþola þessa nótt og beðið fyrir utan íbúð hennar. Það hafi valdið  henni vandræðum. Ákærði kvaðst ekki hafa brotið gegn brotaþola með þeim hætti er lýst væri í I. kafla ákæru.

Brotaþoli kvaðst hafa unnið með ákærða á [...] allt frá því hún hafi verið 17 ára gömul. Þau hafi verið ágætir vinir. Fyrir atvikið 3. júlí 2015 hafi ákærði aldrei komið í íbúð hennar. Hún hafi einu sinni verið að skemmta sér með ákærða er hann hafi reynt að kyssa hana. Eftir það hafi hún forðast hann. Hún hafi verið að vinna á [...] að kvöldi föstudagsins 3. júlí 2015 þegar ákærði hafi sent henni SMS- skilaboð þar sem hann hafi spurt hvort hún ætlaði í bæinn. Hún hafi svarað honum þannig að hún ætlaði að fara að sofa. Hann hafi komið óboðinn heim til hennar þetta kvöld. Hann hafi í fyrstu verið fyrir utan hús hennar. Hún hafi farið til ákærða og spurt hvað hann vildi. Þau hafi rætt stuttlega saman og því næst hafi hún farið aftur upp í íbúðina til sín. Ákærði hafi sent henni skilaboð um að hann myndi taka skó ef hún talaði ekki við hann og hún ákveðið að opna fyrir honum. Hún hafi verið farin að sofa og verið klædd í bol, buxur og nærbuxur. Ákærði hafi komið upp í íbúð til hennar. Hann hafi farið úr jakka og peysu sem hann hafi verið í. Hann hafi lokað hurðinni að íbúðinni og ýtt brotaþola niður í sófa. Hann hafi tekið bolinn sem hún var í niður fyrir brjóst hennar, kysst hana og káfað á brjóstum hennar. Ákærði hafi legið ofan á henni í sófanum og haldið henni niðri með þunga sínum. Hún hafi reynt að komast burtu, en ákærði hafi haldið henni niðri. Hún hafi reynt að ýta honum af sér; sparkað í hann og reynt að bíta hann. Ákærði hafi girt niður um hana og stungið fingri upp í leggöng hennar. Hún hafi sagt honum að hætta og fara, hún vildi þetta ekki. Hún hafi reynt að öskra þannig að einhver heyrði til hennar en enginn hafi heyrt. Hún hafi verið með síma í hendi, sem ákærði hafi tekið af henni. Hún hafi sagt að hún ætlaði að hringja á herbergisfélaga sinn. Ákærði hafi orðið hræddur um að hún ætlaði að hringja á lögreglu og yfirgefið íbúðina í framhaldi. Hann hafi sent henni skilaboð og beðið hana um að hringja á leigubíl fyrir sig. Það hafi hún ekki gert. Þá hafi hún haft samband við vin sinn, E þar sem henni hafi liðið illa vegna atvikins og því beðið hann um að hitta sig. Hún hafi farið á bíl heim til hans. Þau hafi í kjölfarið ekið saman um bæinn en hún hafi ekki greint E frá því sem gerst hefði um kvöldið.  Brotaþoli hafi síðar sagt vinkonum sínum, C og D, frá því sem gerst hefði; D þessa sömu helgi, en C einhverjum dögum síðar. Um mánuði síðar hafi brotaþoli sagt yfirmanni sínum á [...], F, frá atvikinu. Ákærði hafi sent brotaþola SMS-skilaboð eftir atvikið en hún hafi ekki svarað ákærða. Brotaþoli kvaðst hafa farið í ,,heimsreisu“ í janúar 2016 og komið heim í júní það ár. Eftir að heim kom hafi hún rekist á ákærða í bænum. Vinkona hennar, C, hafi verið með henni. Hún hafi forðað sér til að þurfa ekki að tala við hann. Hún kvaðst hafa vonað að brot hans myndi ekki trufla sig þegar frá liði. Það hafi ekki orðið raunin. Henni hafi liðið illa og hún átt erfitt með svefn. Atvikið hafi þannig sótt á hana og hún hafi ekki getað gleymt því. Að endingu hafi hún ákveðið að leggja fram kæru á hendur ákærða.

C kvaðst hafa verið með brotaþola í grunnskóla og þær væru mjög góðar vinkonur. Brotaþoli hafi greint vitninu frá atvikinu 3. júlí 2015. Það hafi verið nokkrum dögum eftir að það átti sér stað. Brotaþoli hafi lýst því að ákærði hafi komið heim til hennar og verið með læti allt þar til hún hafi hleypt honum inn. Er inn hafi verið komið hafi ákærði ráðist á brotaþola, hent henni í sófa, káfað á henni og stungið fingri inn í leggöng hennar. Brotaþoli hafi lýst því að hún hafi öskrað og hafi henni liðið mjög illa eftir þetta atvik og verið ólík sjálfri sér. Einhverju sinni hafi brotaþoli og vitnið verið saman á ferð niðri í bæ og rekist á ákærða. Þær hafi hlaupið á brott og hafi brotaþola liðið illa. 

D kvaðst hafa unnið með ákærða og brotaþola á [...]. Brotaþoli hafi tekið vaktir á [...], þar sem ákærði hafi starfað. Hafi brotaþoli sagt vitninu frá því að henni fyndust samskiptin við ákærða óþægileg. Þau hafi oft verið niðrandi fyrir brotaþola og einkennst af virðingarleysi, en ákærði hafi verið yfir barnum. Hann hafi verið að snerta brotaþola og áreita. Vitnið hafi ekki séð að brotaþoli sýndi ákærða neinn áhuga en brotaþoli hafi alltaf verið vinaleg og góð við alla. Hún hafi greint vitninu frá því sem gerst hafði daginn eftir atvikið og sagt við vitnið ,,ég vildi það ekki“. Þrátt fyrir það hafi ákærði haldið áfram. Brotaþoli hafi lýst atvikinu þannig að ákærði hafi haldið henni niðri og stungið fingri inn í hana meðan hún hafi reynt að streytast á móti. Hafi brotaþoli notað orðið nauðgun. Er vitnið hafi gefið skýrslu í gegnum síma hjá lögreglu hafi hún sagt að ákærði hefði sett getnaðarlim sinn í leggöng brotaþola en hún hafi ályktað það út frá orðinu nauðgun, sem brotaþoli hafi viðhaft. Brotaþoli hafi aldrei lýst því sjálf að ákærði hafi sett lim sinn í leggöng hennar. Hún hafi verið í miklu uppnámi er hún hafi lýst atvikinu og hafi  vitnið aldrei séð hana í viðlíka ástandi. Það hafi verið greinilegt að eitthvað mikið hafi gerst. Brotaþoli hafi verið langt niðri eftir atvikið og lokað á málið. Vitninu finnist eins og málið sé enn að hafa áhrif á brotaþola.

E kvaðst hafa unnið með brotaþola og ákærða á [...] og verið vinur beggja. Vitnið hafi ekki tekið sérstaklega eftir samskiptum þeirra á vinnustaðnum þó hann hafi þekkt til þess að ákærði hafi haft áhuga á brotaþola. Það hafi vitnið heyrt frá öðrum starfsmönnum á vinnustaðnum. Vitnið kvað brotaþola hafa haft samband um miðja nótt, aðfaranótt laugardagsins 4. júlí 2015, í þeim tilgangi að fá að hitta vitnið. Brotaþoli hafi komið á bifreið í framhaldinu og þau ekið um bæinn. Brotaþola hafi greinilega ekki liðið vel. Hann hafi reynt að fá upp úr brotaþola hvað hafi gerst, en brotaþoli ekki viljað segja frá því. Hún hafi hins vegar sagt að hún vildi ekki vera ein. Þau hafi ekið um í hálftíma til klukkustund. Hann hafi þurft að vakna næsta morgun, en hún hafi ekki viljað að hann yfirgæfi sig. Þetta hafi verið í eina skiptið sem brotaþoli hafi gert eitthvað í þessa áttina. Er vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu greindi það frá því að hann hafi grunað þessa nótt að líðan brotaþola tengdist ákærða á einhvern hátt vegna fyrri samskipta þeirra. Hann hafi m.a. dregið ályktunina út frá því að brotaþoli hafi áður verið búin að greina frá því að ákærði hafi einhverju sinni komið að heimili hennar og staðið fyrir utan íbúð hennar. 

F kvaðst hafa starfað sem yfirmaður brotaþola á [...]. Brotaþoli hafi oft leitað til hennar varðandi atriði tengd vinnustaðnum. Ákærði hafi starfað [...] og verið góður vinur vitnisins og samstarfsmaður. Vitnið kvaðst ekki hafa veitt því eftirtekt að brotaþoli sýndi ákærða einhvern kynferðilegan áhuga. Þau hafi verið góðir samstarfsmenn. Vitnið kvaðst hafa veitt því athygli að í byrjun júlí 2015 hafi brotaþoli verið ómöguleg í vinnunni. Enginn hafi mátt koma nálægt henni og hún hafi ekki hleypt neinum að sér. Hafi vitnið gengið á brotaþola með það hvað væri að hrjá hana. Brotaþoli hafi ekki viljað greina frá því. Vitnið hafi næstu daga á eftir haldið áfram að ganga á hana. Að lokum hafi hún greint frá því að eitthvað hafi komið upp á milli brotaþola og ákærða. Það hafi verið utan vinnutíma og ekki á vinnustaðnum. Vitninu hafi þótt sorglegt að heyra þetta. Einhverju síðar hafi ákærði verið með boð og boðið vitninu. Ákærði hafi beðist afsökunar á því sem gerst hefði milli hans og brotaþola. Í framhaldi þessa hafi vitnið gengið á brotaþola að segja sér nákvæmlega hvað hefði gerst. Hafi brotaþoli þá sagt að ákærði hefði nauðgað sér.     

 

Niðurstaða:

            Ákærða er í I. kafla ákæru gefin að sök nauðgun, með því að hafa haft önnur kynferðismök en samræði við brotaþola, gegn vilja hennar, með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung, með því að taka utan um hana og halda henni niðri í sófa, draga bol hennar niður fyrir brjóstin, káfa á henni og sleikja andlit hennar, háls og öxl, taka niður um hana buxurnar og stinga fingri í leggöng. Er háttsemi ákærða talin varða við 1. mgr. 194. gr. laga nr. 19/1940.

            Ákærði neitar sök. Hann hefur viðurkennt að hafa komið óboðinn og staðið fyrir utan heimili brotaþola, að [..., ...], umrædda nótt. Hann lýsir því að þau hafi rætt saman, en hann hafi verið undir áhrifum áfengis. Hann kveðst ekki viss um hvort hann hafi farið upp í íbúð til brotaþola þessa nótt, en hann hafi einhverju sinni komið í íbúð hennar. Hann hafi ekkert gert á hlut hennar þessa nótt.

            Brotaþoli hefur lýst atvikum þannig að ákærði hafi óboðinn elt hana heim þessa nótt. Hann hafi sent henni SMS-skilaboð og ekki hætt fyrr en hún hafi opnað fyrir honum. Er ákærði hafi komið inn í íbúðina hafi hann hrint henni í sófa, dregið bol hennar niður fyrir brjóst, káfað á henni og sleikt andlit hennar, háls og öxl og stungið fingri í leggöng hennar. Hún hafi náð í síma og ætlað að hringja í herbergisfélaga sinn. Ákærði hafi orðið hræddur og sennilega talið að brotaþoli væri að hringja í lögreglu. Í kjölfarið hafi hann farið á brott. Brotaþoli kveðst hafa hringt í vin sinn, E, eftir að ákærði hafi verið farinn. Hún hafi hitt E síðar um nóttina og þau ekið um saman. Henni hafi liðið illa en ekki viljað segja E frá atvikinu um nóttina. Hún hafi í upphafi tekið ákvörðun um að reyna að bæla minningu um atvikið niður. Það hafi ekki tekist og að lokum hafi hún ákveðið að leggja fram kæru í málinu.

            Í málinu liggja fyrir gögn um SMS-samskipti á milli ákærða og brotaþola. Lét brotaþoli lögreglu í té umrædd gögn við rannsókn málsins. Hún kveðst hafa tekið skjáskot af síma sínum til að varðveita skilaboðin. Að mati dómsins er ekkert sem bendir til þess að gögn þessi séu tilbúningur. Skilaboðin á milli brotaþola og ákærða kunna  að vera fleiri, svo sem brotaþoli hefur sjálf gert grein fyrir. Gögnin leiða í ljós að ákærði hefur þrýst mjög á um náin kynni við brotaþola. Hann biður brotaþola m.a. um að kyssa sig. Brotaþoli hefur sjálf lýst því að hún hafi reynt að forðast ákærða eftir að hann hafi reynt að kyssa hana. Vitni sem vann með ákærða og brotaþola á [...] á þessum tíma lýsti því að ákærði hafi sýnt brotaþola áhuga umfram það að stofna til venjulegs vinskapar.

            Þegar litið er til tilvitnaðra SMS-samskipta, á milli ákærða og brotaþola, er framburður ákærða ótrúverðugur um það að brotaþoli hafi sóst eftir nánum kynnum við hann. Þá rennir heldur ekkert stoðum undir þá staðhæfingu ákærða að tilfinningar hafi myndast á milli þeirra. Þvert á móti hafnar brotaþoli ýmist að hitta ákærða eða svarar ekki ítrekuðum skilaboðum hans. Samskiptin lýsa því mun frekar, svo sem brotaþoli staðhæfir, að ákærði hafi verið ágengur við hana og að hún hafi þurft að bægja honum frá sér. Samkvæmt SMS-skilaboðum ákærða gekk hann mjög á eftir henni, aðfaranótt föstudagsins 3. júlí 2015, til að fá að hitta hana. Næsta dag biður ákærði hana afsökunar á hegðun sinni umrædda nótt og aftur síðar þetta sama sumar. Hann hefur ekki skýrt á trúverðugan hátt hvaða ástæður liggi að baki því að hann biður brotaþola ítrekað afsökunar á framkomu sinni þessa nótt.  

Brotaþoli hefur verið trúverðug í framburði sínum fyrir dóminum. Er innbyrðis samræmi í framburði hennar við rannsókn og meðferð málsins um meginatriði. E hefur staðhæft að brotaþola hafi liðið illa síðla þessa nótt. Lýsti hann því að hann hafi reynt að fá upp úr henni hvað hafi gerst, en hún hafi ekki viljað segja frá því. Hún hafi hins vegar ekki viljað vera ein. Samkvæmt þessu urðu einhver þau atvik þessa nótt, sem urðu þess valdandi, að brotaþola leið afar illa. Loks lýsti fyrrum yfirmaður brotaþola því að í byrjun júlí 2015 hafi brotaþoli verið ómöguleg í vinnunni, eins og vitnið orðaði það. Enginn hafi mátt koma nálægt henni. Hafi vitnið gengið á brotaþola hverju þetta sætti. Hún hafi ekki viljað greina frá því fyrr en eftir að ákærði hafi komið til vitnisins og beðist afsökunar á því sem hann hafi gert á hlut brotaþola. Styður þessi framburður það einnig að eitthvað alvarlegt kom fyrir í samskiptum ákærða og brotaþola aðfaranótt föstudagsins 3. júlí 2015. 

Sem fyrr greinir er ákærði ótrúverður um tiltekin meginatriði málsins. Þegar litið er til trúverðugs framburðar brotaþola, sem stuðning hefur í SMS- samskiptum í málinu, til framburðar vitnanna E og F, sem bæði bera um að eitthvað alvarlegt hafi komið fyrir brotaþola umrædda nótt tengt ákærða, og að síðustu til óútskýrðrar afsökunarbeiðni ákærða, verður trúverðugur framburður brotaþola lagður til grundvallar niðurstöðu. Er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi brotið gegn brotaþola svo sem brotaþoli staðhæfir og lýst er í ákæru. Með hliðsjón af öllu þessu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemi hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

 

 

II.kafli ákæru.

Aðfaranótt mánudagsins 16. maí 2016, kl. 08.30, fékk lögregla tilkynningu um að kona væri að öskra á hjálp í íbúð að [...]. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að húsið að [...] sé íbúðarblokk með þremur stigagöngum. Lögregla hafi ýtt á dyrabjöllur og einhver íbúa opnað með fjartakka. Hafi lögreglumenn gengið upp á aðra hæð stigahússins. Fljótlega hafi mátt heyra kvennmannsgrátur koma úr íbúð á annarri hæð til vinstri. Lögreglumenn hafi knúið dyra. Enginn hafi svarað og þeir hafi því bankað aftur. Ákærði hafi opnað dyrnar. Hann hafi verið á nærbuxum einum fata og boðið lögreglu inn. Inni í íbúðinni hafi mátt heyra kvennmannsgrátur og hafi lögreglumenn gengið á hljóðið. Inni í svefnherbergi hafi brotaþoli setið uppi í rúmi, grátandi og í miklu uppnámi. Hún hafi sagt að ákærði hefði nauðgað sér. Hann hefði haldið henni niðri, tekið fyrir munn hennar og háls og slegið hana í andlitið og hún haldið að hann ætlaði að drepa sig. Hún hafi reynt að kalla svo hátt á hjálp að heyrðist út um glugga á svefnherberginu. Hún hafi lýst því fyrir lögreglu að hana verkjaði í andlitið. Í frumskýrslu er tekið fram að sjá hafi mátt blóðbletti í koddaveri og rúmlaki í svefnherberginu. Ákærði hafi verið handtekinn í þágu rannsóknar málsins og brotaþoli verið flutt á slysadeild. Í skýrslunni kemur fram að einn lögreglumanna er sinnt hafi útkallinu hafi verið með myndavél meðferðis á meðan á veru lögreglumanna í íbúðinni hafi staðið. Myndskeið úr myndavélinni er á meðal rannsóknargagna málsins.

Á meðal gagna málsins er skýrsla tæknideildar um vettvangsrannsókn í íbúðinni á 2. hæð til vinstri að [..., ...]. Í skýrslunni er vettvangi lýst og hann ljósmyndaður. Þá voru teknar ljósmyndir af gögnum sem haldlögð voru á vettvangi í þágu rannsóknar málsins.

Í skýrslu í gögnum málsins, um réttarlæknisfræðilega skoðun á brotaþola, kemur fram að brotþoli hafi komið á neyðarmóttöku 16. maí 2016 kl. 9.56. Um ástand við skoðun kemur fram að brotþoli hafi verið …. Hún hafi í upphafi skoðunar þolað illa snertingu en jafnað sig nokkuð. Hún hafi endurtekið lýst hræðslu sinni á meðan á atburðinum hafi staðið. Hún hafi sagt að ákærði hefði getað drepið sig.

Um áverka er tekið fram að brotaþoli hafi verið með ….

Í niðurstöðu læknis er því lýst að brotaþoli hafi að eigin sögn farið heim með manni. Hann hafi rifið kjólinn af henni, gerst ofbeldisfullur, hótað henni m.a. lífláti, og barið hana í andlit og skrokk. Hann hafi þvingað getnaðarlimi upp í brotþola, munn og leggöng. Brotaþoli hafi verið með áverka sem komið hafi vel heim og saman við frásögn hennar af höggum í andlit með lófa og hnefa, mar á kinnbeinum, bólgu og eymsli; mar og eymsli undir kjálkabörðum komi vel heim og saman við kverkatak, sem brotaþoli hafi lýst, marblettir víða á útlimum geti verið eftir þyngri högg og minni blettir, margir hverjir á stærð við fingurgóma, geti komið heim og saman við lýsingu brotaþola á því að ákærði hafi tekið um úlnlið hennar. Í niðurlagi skýrslunnar er þess getið að sýni til DNA-rannsóknar hafi verið tekin úr brotaþola, auk sýna fyrir eiturefnarannsókn. Teknar voru ljósmyndir af áverkum brotaþola á neyðarmóttöku og eru þær á meðal gagna málsins.

Samkvæmt matsgerð rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, frá 24. júní 2016, mældist 1,65 o/oo alkóhóls í blóðsýni er tekið var úr brotaþola á neyðarmóttöku. 

Sálfræðingur hefur, 28. október 2016, ritað vottorð vegna viðtala við brotaþola. Í vottorðinu kemur fram að sálfræðingurinn hafi fyrst rætt við brotaþola 16. ágúst 2016. Eftir það hafi sálfræðingurinn hitt brotaþola alls sex sinnum, auk þess að hafa átt símtöl við hana og verið í samskiptum í gegnum tölvupóst. Brotaþoli hafi ekki getað mætt í fjögur bókuð viðtöl en hún hafi skýrt það þannig að hún hafi ekki treyst sér til að mæta í viðtölin sökum vanlíðunar. Í samantekt sálfræðingsins kemur fram að allt viðmót brotaþola bendi til þess að hún hafi í ætluðu kynferðisbroti upplifað mikla ógn, ofsaótta, bjargarleysi og lífshættu. Sálræn einkenni í kjölfar áfallsins samsvari einkennum sem þekkt séu hjá fólki sem upplifað hafi alvarleg áföll. Niðurstöður sjálfsmatskvarða hafi samsvarað vel frásögn hennar. Hún hafi virst hreinskilin, trúverðug og samkvæm sjálfri sér. Hún hafi orðið fyrir mörgum alvarlegum áföllum á lífsleið sinni og alist upp við erfiðar aðstæður allt frá barnæsku.  Hún hafi verið í áfallameðferð vegna annars kynferðisbrots þegar hið ætlaða brot hafi átt sér stað, 16. maí 2016, og muni hún þurfa yfirgripsmikla áfallameðferð til að takast á við afleiðingar áfalla sinna. Í ljósi fyrri áfalla og þess að hún hafi þegar þjáðst af áfallastreituröskun vegna fyrra kynferðisbrots hafi sérstök áhersla verið lögð á mismunagreiningu og þróun einkenna. Niðurstaðan hafi verið að brotaþoli hafi uppfyllt öll greiningarviðmið áfallastreituröskunar eftir hið ætlaða brot, 16. maí 2016.

Samkvæmt gögnum málsins var framkvæmd réttarlæknisfræðileg skoðun á ákærða í framhaldi af handtöku. Samkvæmt skoðun læknis hafi ákærði verið með mjög grunnt mar á vinstri öxl, samliggjandi á þremur svæðum. Þá hafi mátt sjá roðarák á hægri upphandlegg rétt ofan við olnbogabót. Loks hafi verið þrjár rákir ofarlega á hægri rasskinn. Þær hafi litið út fyrir að vera nýjar rispur. Við hina réttarlæknisfræðilegu skoðun hafi verið tekin sýni úr ákærða til DNA- og eiturefnarannsóknar. Samkvæmt matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði frá 28. júní 2016 mældist 1,53 o/oo alkóhóls í blóðsýni er tekið var úr honum.

Á meðal gagna málsins eru myndir úr eftirlitsmyndavélakerfi frá Kiki bar við Laugaveg 22 í Reykjavík og Kalda bar við Laugaveg 20b, teknar á tímabilinu 00.00 til 03.30 þann 16. maí 2016.

Samkvæmt skýrslu um hringingar í neyðarnúmerið 112, sem er á meðal gagna málsins, var útkall lögreglu vegna málsins skráð kl. 08.36. Í hljóðskrám voru samskipti G, [...] við 112. Samkvæmt skránni gaf starfsmaður 112 G samband við lögreglu. Í aðalatriðum kom fram að G hafi heyrt konu öskra í um klukkustund og að hafi líka heyrt í karlmanni.

Í greinargerð vegna DNA-sýnagreiningar kemur fram að sýni, sem tekin hafi verið í tengslum við málið, hafi verið send til rannsóknar til Svíþjóðar. Um hafi verið að ræða þrettán sýni; átta voru vegna rannsóknar á sængurfatnaði, þrjú frá neyðarmóttöku af brotaþola og eitt frá ákærða. Í sýnum úr sængurfatnaði hafi reynst blóð og voru þau sýni með sama DNA-sniði og úr brotaþola. Sýni sem tekið var utarlega á hálsi brotaþola var með blöndu-DNA sniða. DNA-snið í meirihluta úr því sýni hafi verið úr ákærða, en DNA-snið í minnihluta úr brotaþola. DNA-sýni úr nærfötum og af limi ákærða hafi leitt í ljós sama snið og af ákærða. Sýni tekin af brjósti og úr ,,vulva“ brotaþola hafi ekki gefið niðurstöður. 

 

Ákærði kvaðst hafa hitt brotaþola á Kiki bar við Laugaveg í Reykjavík aðfaranótt mánudagsins 16. maí 2016. Þau hafi drukkið áfengi saman. Einhver atlot hafi verið á milli ákærða og brotaþola og þau kysst. Þau hafi síðan farið út af staðnum og tekið leigubíl saman. Í leigubílnum hafi ákærði boðið brotaþola heim til sín. Þau hafi bæði setið aftur í leigubifreiðinni og haldist í hendur. Þau hafi farið heim til ákærða að [...]. Er þangað hafi verið komið hafi þau farið saman inn í svefnherbergi. Þau hafi kysst og faðmast og farið úr fötum eftir að upp í rúm var komið. Þau hafi sjálf klætt sig úr. Ákærði hafi snert kynfæri brotaþola með hendi og sett fingur inn í leggöng hennar. Þegar hún hafi verið komin úr fötunum hafi hann séð að hún hafi verið með mikið af örum á handleggjum, kviði og fótleggjum. Þegar hann hafi séð þessi ör hafi hann misst allan áhuga á frekari kynferðislegum athöfnum með henni. Þau hafi legið í rúminu og hún sofnað. Sjálfur hafi hann mókt. Þannig hafi þau legið í um eina og hálfa klukkustundu. Sími brotaþola hafi hringt og ákærði beðið hana um að athuga símann sinn en hún hafi ekki rumskað. Síminn hafi verið í töskunni hennar og hafi ákærði reynt að finna símann hennar þar. Hann hafi veitt því athygli að brotaþoli hafi verið með tvo síma og hafi honum ekki fundist hún vera ,,örugg kona.“ Brotaþoli hafi vaknað og hann viljað að hún færi og sagt henni það. Hún hafi brjálast.

Er ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu vegna málsins lýsti hann því að brotaþoli hafi brjálast við það að ákærði hefði misst áhuga á brotaþola. Er það hafi verið borið undir ákærða fyrir dómi ítrekaði hann að brotaþoli hafi brjálast er hann hefði beðið hana um að fara. Ákærði lýsti því að brotaþoli hafi beðið hann um peninga, sennilega til að greiða fyrir leigubifreið. Hún hafi sparkað í hann og lamið í veggi. Þá hafi hún öskrað á hjálp og barið hnúum í veggi. Ákærði kvaðst hafa beðið hana um að róa sig og að sagt að hann myndi greiða fyrir leigubifreið. Brotaþoli hafi áfram öskrað og kallað hann ,,rasista“. Hún hafi sett höfuð út um glugga og endurtekið hrópað á hjálp. Hann hafi reynt að ná henni til baka, en hún hafi verið sterk og barist á móti. Hann hafi ætlað að hringja á lögreglu en ekki getað það þar sem rafhlaða í síma hans hafi verið tóm. Hann hafi reynt að róa brotaþola, en skömmu eftir þetta hafi lögregla komið á staðinn.

Ákærði kvaðst ekki hafa verið valdur að neinum áverkum brotaþola þessa nótt. Hann hafi reynt að halda henni er hún hafi lamið í veggi. Þá hafi hann reynt að ná henni inn er hún hafi sett höfuð út um glugga íbúðarinnar. Geti hún hafa fengið einhverja áverka við að setja höfuðið út, en glugginn hafi verið lítill. Hann hafi tekið um axlir og höfuð hennar til að reyna að ná henni inn. Geti DNA-snið, sem greinst hafi á henni, hafa komið úr honum við það tækifæri. Þá hafi hún reynt að valda sjálfri sér einhverjum áverkum. Hún hafi meitt sjálfa sig þannig að blætt hafi úr handleggjum hennar. Þá gæti hún hafa fengið einhverja marbletti á fætur er hún hafi sparkað í hann. Hún hafi verið stjórnlaus og ákærði í áfalli. Rangt væri er brotaþoli héldi fram að hann  hafi afklætt hana, tekið hana kverkataki, kýlt og löðrungað í andlit eða að hann hafi reynt að setja lim sinn í munn hennar. Þá hafi hafi hann ekki haft samræði við hana um leggöng. Ákærði kvaðst hafa fengið rispu á rasskinn er hann hafi reynt að stöðva brotaþola um nóttina. Hann kvaðst hafa verið aðeins ölvaður þessa nótt en drukkið vatn eftir að heim kom og verið orðinn nánast alsgáður er brotaþoli hafi brjálast.  

Brotaþoli kvaðst hafa ætlað að hitta vinkonu sína í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt mánudagsins 16. maí 2016. Vinkonan hafi síðan sent brotaþola skilaboð um að hún kæmi ekki. Hún hafi þá ákveðið að fara ein í bæinn. Hún hafi farið á bar við Laugaveg og veitt þar athygli manni, ákærða í máli þessu, sem fylgst hafi með henni. Hún hafi farið út af staðnum og ákærði elt hana. Hún hafi næst farið á Kiki bar við Laugaveg og hann hafi einnig komið þangað. Hún hafi reynt að blanda geði við annað fólk inni á staðnum. Ákærði hafi á einhverjum tímapunkti komið aftan að brotaþola og dregið upp pils hennar. Það hafi verið niðurlægjandi fyrir hana. Hún hafi orðið reið og skammað hann. Ákærði hafi beðist afsökunar og boðið henni áfengan drykk sem hún hafi þegið. Hún hafi áfram blandað geði við gesti inni á staðnum allt þar til staðnum hafi verið lokað. Þá hafi hún farið út og ætlað að taka ,,skutlu“ af staðnum heim til sín. Sá bíll hafi ekki komið og ákærði hafi lagt til að þau tækju leigubíl saman. Henni hafi fundist það koma til greina, en nokkuð væri um að gestir í miðborginni tækju leigubíl saman til að deila kostnaði. Ákærði hafi verið búinn að biðjast afsökunar á fyrra framferði sínu, auk þess sem kalt hafi verið í veðri og hafi það verið ástæðan fyrir því að hún hafi ákveðið að deilda leigubíl með honum.

Hún myndi lítið eftir sér í leigubifreiðinni, en hún hafi dottið út og myndi ekki eftir sér fyrr en í íbúð ákærða í [...]. Hann hafi verið að stinga getnaðarlim sínum í munn hennar er hún hafi rankað við sér. Hún hafi reynt að stöðva það. Hún hafi ýtt ákærða frá sér og reynt að berjast gegn honum en hann hafi beitt hana líkamlegu ofbeldi, öskrað á hana að hann myndi drepa hana, tekið hana kverkataki og kýlt hana með hnefa bæði í andlit og líkama. Þá hafi hann sett hendur hennar  upp yfir höfuð hennar og haldið þeim þar. Henni hafi ekki fundist hún geta andað og að hún væri að deyja. Upplifunin hafi verið hræðileg. Illska hafi skinið úr andliti ákærða. Hún hafi reynt að ná í símann sinn en ákærði sagt að hann myndi drepa hana ef hún hringdi í lögreglu. Ákærði hafi þröngvað getnaðarlim sínum inn í leggöng hennar  og samtímis haldið henni niðri í rúminu með höndunum. Hún hafi barist á móti með höndum og fótum og hrópað á hjálp í þeirri von að einhver kæmi. Á einhverjum tímapunkti hafi ákærði hætt og farið út úr svefnherberginu. Hún hafi tekið símann og ætlað að hringja í lögreglu og á sama tíma klætt sig í fötin sín. Ákærði hafi komið aftur inn og henni hafi því ekki tekist að hringja í lögreglu en skömmu síðar hafi lögregla komið á staðinn. Brotaþoli kvaðst hafa fengið mikla áverka í árásinni og verið með bólgur í andliti dögum saman eftir atvikið. Þá hafi hún verið með marbletti um allan líkamann.

Brotaþoli kvaðst hafa drukkið þrjá drykki þessa nótt. Það væri ólíkt henni að detta út, eins og gerst hefði. Líðan hennar væri mjög slæm eftir atvikið og henni hafi fundist hún eins og væri gölluð vara. Erfitt væri að lýsa líðaninni en hún væri ófær til kynlífsmaka eftir atvikið. Hún væri einmanna og treysti ekki fólki. Þá óttaðist hún ákærða.

G kvaðst búa að [...]. Hún hafi vaknað snemma að morgni mánudagsins 16. maí 2016 en hún hafi farið með ung börn  sín inn í stofu til að leika. Eiginmaður hennar, H, hafi sofið áfram inni í rúmi í svefnherberginu. Vitnið hafi heyrt hróp og vein koma úr íbúð í húsinu og  hún hafi heyrt kvenmann öskra. Konan hafi veinað og vælt. Í fyrstu hafi vitnið talið að hún heyrði hljóð úr bíómynd, sem væri í gangi. Síðan hafi heyrst hljóð sem gátu vísað til þess að átök væru í gangi. Þá hafi vitninu orðið ljóst að ekki væri um bíómynd að ræða heldur þess að verið væri að meiða einhvern. Vitnið hafi greint þessa einu rödd án þess að heyra orðaskil. Öskrin og hrópin hafi staðið yfir í meira en klukkutíma en vitnið hafi í fyrstu ekki áttað sig á því hvað væri í gangi. Eiginmaður vitnisins hafi vaknað en í framhaldi hafi hún hringt í lögreglu. Átökin hafi verið mikil.

   H kvaðst hafa vaknað að morgni mánudagsins 16. maí 2016. Hann hafi heyrt öskur koma úr annarri íbúð en það herbergi sem hljóðin hafi komið úr og svefnherbergi hafi hafi legið saman. Öskrin hafi verið tryllingsleg og konurödd öskrað að hún vildi ekki kynmök. Eiginkona hans hafi fyrr þennan morgun farið með ung börn þeirra fram í stofu og leyft honum að sofa áfram. Hann hafi verið búinn að heyra þessi hróp í um 30 mínútur er eiginkonan hafi hringt á lögreglu.  

I, íbúi að [...], kvaðst hafa vaknað þessa nótt og heyrt öskur. Sennilega hafi kona verið að öskra og hljóðin verið óeðlileg.

J og K lýstu því að þau hafi verið vakandi þessa nótt og verið að horfa á sjónvarpið. Þau hafi heyrt er ákærði hafi komið upp að húsinu og kona verið honum samferða. Hafi konan spurt ákærða hvort hann væri ,,graður“. Ákærði hafi sagt svo ekki vera en konan þá sagt að allir menn væru ,,graðir“.

Læknir er annaðist réttarlæknisfræðilega skoðun á ákærða staðfesti skoðun sína og greindi nánar frá niðurstöðum hennar. Fram kom að grunnt mar hafi verið á vinstri öxl ákærða, en um hafi verið að ræða þrjú samliggjandi svæði. Hafi áverkinn getað verið eftir fingur. Allir áverkar er greinst hafi á ákærða hafi verið nýir eða nokkurra klukkustunda gamlir.

Leigubifreiðastjóri staðfesti að hafa ekið karli og konu úr miðbæ Reykjavíkur að [...], aðfaranótt mánudagsins 16. maí 2016. Ekki myndi vitnið sérstaklega eftir fólkinu en væri þó minnistætt hve langan tíma hafi tekið að fá þau til að yfirgefa bifreiðina. Hafi maðurinn viljað að konan kæmi með inn en konan hafi viljað halda áfram með leigubílnum. Hafi manninum tekist að tala um fyrir konunni og fá hana inn með sér. Þau hafi bæði verið drukkin, en konan töluvert mikið.

Læknir á neyðarmóttöku sem skoðaði brotaþola við komu á neyðarmóttöku gerði grein fyrir læknisrannsókn á brotaþola. Læknirinn kvað sér sérstaklega minnisstætt hve hrædd brotaþoli hafi verið við hinn grunaða í málinu. Brotaþoli hafi verið með áverka eins og eftir átök. Hún hafi verið með nýlega marbletti og eymsli. Hún hafi lýst kverkataki í átökunum og hafi mátt sjá þess merki á henni. Hún hafi verið með mar á kjálkum og kjálkabörðum. Hún hafi lýst höggum í andlit og áverkar á kinnbeinum og augum hafi samrýmst því. Þá hafi brotaþoli verið með nýlega áverka á höndum og fótum. 

Hjúkrunarfræðingur á neyðarmóttöku staðfesti skoðun sína á brotaþola.

Sálfræðingur sem ritaði vottorð vegna brotaþola lýsti því að henni hafi verið vísað til sálfræðingsins eftir komu á neyðarmóttöku. Sálfræðingurinn hafi einnig haft brotaþola til meðferðar vegna annars áfalls. Brotaþoli hafi uppfyllt greiningarviðmið fyrir áfallastreituröksun tengt þessu tiltekna tilviki.

Lögreglumenn er unnu að rannsókn málsins komu fyrir dóminn og gerðu grein fyrir einstökum þáttum í rannsókninni. Sérfræðingur er kom að DNA rannsókn lýsti niðurstöðum úr DNA-rannsókn á sýnum úr ákærða og brotaþola. Í ljósi þess hve mikið hafi mælst úr ákærða í sýni sem tekið hafi verið af hálsi brotaþola megi álykta að meira en stroku þurfi til að slíkt magn mælist.  

 

Niðurstaða:

Ákærða er í þessum kafla ákæru gefin að sök nauðgun, með því að hafa á heimili sínu að [...] haft samræði við brotaþola, gegn vilja hennar,  með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung meðal annars með því að slá hana ítrekað og kýla í andlit og líkama, taka hana kverkataki og hóta henni lífláti, halda henni fastri í rúmi og afklæða hana nærbuxum og sokkum, draga kjól hennar upp og gera tilraun til að setja getnaðarlim sinn í munn hennar og þröngva henni til samræðis í leggöng með því að þvinga fótleggi hennar í sundur og halda höndum hennar föstum fyrir ofan höfuð hennar. Er brot ákærða talið varða við 1. mgr. 194. gr. laga nr. 19/1940.

Ákærði neitar sök. Hefur hann lýst atvikum á þann hátt að brotaþoli hafi komið sjálfviljug heim til hans umrætt sinn. Þau hafi farið saman inn í svefnherbergi og byrjað kynferðisleg atlot. Hann hafi snert brjóst brotaþola og sett fingur í leggöng hennar. Er hún hafi afklæðst og hann séð ör á líkama hennar hafi hann misst áhuga á frekari kynferðislegum athöfnum. Hún hafi sofnað en hann dottað. Nokkru síðar, er hann hafi sagt henni að fara, hafi hún brjálast. Hún hafi öskrað og lamið í veggi. Eins hafi hún sett höfuð út um glugga á íbúðinni og öskrað á hjálp. Hún hafi sjálf valdið sér áverkum.

Brotaþoli hefur lýst atvikum þannig að hún hafi ákveðið að deila leigubifreið með ákærða. Það hafi ekki staðið til að fara með honum heim. Brotaþoli hafi dottið út í leigubifreiðinni en rankað við sér inni í rúmi heima hjá ákærða. Ákærði hafi verið að reyna að setja lim sinn upp í munn hennar. Hún hafi reynt að ýta honum frá sér. Eins hafi hún reynt að sparka í hann og bíta hann. Hún hafi hrópað á hjálp í þeirri von að einhver kæmi henni til hjálpar. Ákærði hafi kýlt hana í andlit og líkama og hótað að drepa hana. Þá hafi hann tekið hana kverkataki og haldið henni niðri í rúmi og, gegn vilja hennar, sett getnaðarlim sinn í leggöng hennar.

Lögregla var kölluð að [...] síðla þessa nótt eftir að nágranni hafði hringt í lögreglu og tilkynnt að kona í húsinu væri að öskra á hjálp. Vitni þetta kom fyrir dóminn og lýsti því að kona í íbúð í húsinu hafi hrópað og veinað á hjálp í langan tíma þessa nótt. Hafi vitnið talið að um hljóð frá bíómynd væri að ræða en eftir að hafa orðið vör við að átök ættu sér stað hafi vitninu orðið ljóst að ekki væri um mynd að ræða. Hrópin og hávaðinn hafi staðið í meira en klukkustundu. Eiginmaður vitnisins heyrði þessi hróp og heyrði konu öskra að hún vildi ekki kynlíf. Í málinu eru gögn um að leigubifeiðastjóri hafi ekið ákærða og brotaþola í [...] klukkan 05.19 um nóttina. Lögreglu barst beiðni um aðstoð í [...] kl. 8.36 þennan morgun.

Í rannsóknargögnum málsins er upptaka úr myndavél er lögreglumenn báru á sér við komu í íbúðina umrætt sinn. Á myndskeiði sést ákærði koma til dyra. Brotaþoli er inni í svefnherbergi í íbúðinni í miklu uppnámi og grætur með ekkasogum. Hún er sjáanlega töluvert bólgin í andliti.

Framburður ákærða er ótrúverðugur um mikilvæga þætti málsins. Er ótrúverðug sú skýring hans að brotaþoli hafi sjálf veitt sér áverka þessa nótt. Fær það á engan hátt staðist, en ferskir áverkar er hún greindist með voru dreifðir um allan líkamann. Þeir voru m.a. á kjálkum og kjálkabörðum, sem að mati læknis samrýmist því að vera eftir kverkatak. Afar ósennilegt er að brotaþoli hafi sjálf veitt sér þá áverka. Þá hefur ákærði ekki gefið trúverðuga skýringu á því af hverju brotaþoli hafi linnulítið hrópað á hjálp þessa nótt ef hann hefur ekkert á hlut hennar gert. Staðhæfingar ákærða um þessa þætti dregur mjög úr trúverðugleika framburðar hans.  

Brotaþoli var trúverðug í framburði sínum fyrir dóminum. Samrýmist framburður hennar vætti nágranna sem heyrðu langvinn öskur hennar á hjálp þessa nótt. Áverkar sem hún greindist með samrýmast frásögn hennar af árás ákærða.

Með hliðsjón af trúverðugum framburði brotaþola, sem styðst við vætti nágranna og niðurstöður úr læknisrannsókn á henni, verður framburður hennar lagður til grundvallar niðurstöðu í málinu. Er sannað að ákærði hafi haft samræði við brotþola, gegn vilja hennar, með því að beita hana líkamlegu ofbeldi og ólögmætri nauðung, meðal annars með því að slá hana og kýla ítrekað í andlit og líkama, taka hana kverkataki og hóta henni lífláti, halda henni fastri í rúmi og afklæða hana og gera tilraun til að setja getnaðarlim sinn í munn hennar og þröngva henni til samræðis um leggöng með því að þvinga fótleggi hennar í sundur og halda höndum hennar fyrir ofan höfuð hennar. Samkvæmt því verður ákærði sakfelldur samkvæmt II. kafla ákæru og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

            Ákærði er fæddur í apríl 1972. Hann var, 22. september 2014, dæmdur í 6 mánaða fangelsi skilborðsbundið til tveggja ára fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Að öðru leyti er ekki ástæða til að gera grein fyrir sakaferli ákærða. Ákærði hefur með brotum sínum, samkvæmt ákæru, rofið skilorð refsidómsins frá 22. september 2014. Verður dómurinn tekinn upp eftir ákvæðum 60. gr.  laga nr. 19/1940 og sá hluti dæmdur með þeim í þeim dómi sem hér verður kveðinn upp, sbr. 77. gr.  laga nr. 19/1940. Brot ákærða eru alvarleg, en hann hefur verið sakfelldur fyrir nauðgun gagnvart tveimur brotaþolum. Í öðru tilvikinu var árás ákærða langvinn og heiftúðleg. Með hliðsjón af því, sbr. og 1., 3. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 5 ár. Frá refsingu dregst gæsluvarðhald ákærða frá 16. til 20. maí 2016.

            Af hálfu brotaþolans A er krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 2.000.000 króna, auk vaxta. Um bótakröfuna er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ákærði hefur með ólögmætri og saknæmri háttsemi sinni valdið brotaþolanum miskatjóni. Ekki nýtur sérfræðigagna um miska brotaþola. Kynferðisbrot eru hins vegar til þess fallin að valda brotaþolum miskatjóni. Verða miskabætur ákveðnar að álitum og þykja hæfilega ákveðnar 1.000.000 króna. Um vexti fer sem í dómsorði greinir. 

            Af hálfu brotaþolans B er krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 2.000.000 króna, auk vaxta. Um bótakröfuna er vísað til 26. gr. laga nr. 50/1993. Ákærði hefur með ólögmætri og saknæmri háttsemi sinni valdið brotaþolanum miskatjóni. Í málinu liggur fyrir vottorð sálfræðings um greiningu á líðan brotaþola í kjölfar brots ákærða. Samkvæmt vottorðinu uppfyllti hún greiningarviðmið fyrir áfallastreituröskun. Í vottorðinu kemur fram að allt bendi til að brotaþoli hafi upplifað mikla ógn, ofsaótta, bjargarleysi og lífshættu í hinu ætlaða broti. Atlaga ákærða að brotaþola var í senn langvinn og ofsafengin. Með hliðsjón af líðan brotaþola og árásinni eru miskabætur hæfilega ákveðnar 1.800.000 krónur. Um vexti fer sem í dómsorði greinir.

Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt yfirliti, málsvarnarlaun og þóknun skipaðra réttargæslumanna, sem nánar greinir í dómsorði. Við ákvörðun málsvarnarlauna og þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Dagmar Ösp Vésteinsdóttir saksóknarafulltrúi.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

 

                                                              D ó m s o r ð :

            Ákærði, Erol Topal, sæti fangelsi í 5 ár. Frá refsingu dregst gæsluvarðhald ákærða frá 16. til 20. maí 2016.

            Ákærði greiði A 1.000.000 króna í miskabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 3. júlí 2015 til 24. september 2016, en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna, frá þeim degi til greiðsludags.

            Ákærði greiði B 1.800.000 krónur í miskabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 16. maí 2016 til 24. september 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

            Ákærði greiði 4.250.533 krónur í sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar lögmanns, 2.023.680 krónur, þóknun réttargæslumanna brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur lögmanns, 421.600 krónur og Gunnhildar Pétursdóttur lögmanns, 547.187 krónur og Helgu Leifsdóttur lögmanns á rannsóknarstigi 297.600 krónur.

 

                                                            Símon Sigvaldason