• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Líkamsárás

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2018 í máli nr. S-522/2018:

Ákæruvaldið

(Fanney Björk Frostadóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Birni Gísla Gíslasyni

Matthíasi Þór Þórusyni og

Ólöfu Gunnarsdóttur

(Jóhannes A. Kristbjörnsson lögmaður)

 

I

       Mál þetta, sem dómtekið var 26. nóvember síðastliðinn, var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 16. ágúst síðastliðinn, „á hendur Birni Gísla Gíslasyni, kennitala 000000-0000, [...],[...], Matthíasi Þór Þórusyni, kennitala 000000-0000, [...],[...] og Ólöfu Gunnarsdóttur, kennitala 000000-0000, [...],[...], fyrir neðangreind brot framin í Reykjavík aðfaranótt sunnudagsins 11. desember 2016:

 

1.        Gegn ákærða Matthíasi Þór fyrir líkamsárás, með því að hafa utan við skemmtistaðinn Kíkí við Klapparstíg, þar sem A sinnti starfi sínu sem dyravörður, slegið A með krepptum hnefa í andlitið og tekið hann hálstaki, með þeim afleiðingum að A hlaut mar og yfirborðsáverka í andliti, opið sár á eyra og tognun og ofreynslu á hálshrygg.

 

       Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

2.        Gegn ákærða Birni Gísla fyrir líkamsárás, með því að hafa utan við skemmtistaðinn Kíkí við Klapparstíg, slegið B með krepptum hnefa í andlitið, með þeim afleiðingum að B hlaut tognun og ofreynslu á hálshrygg og mar og yfirborðsáverka á höfði.

 

       Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

3.        Gegn ákærða Matthíasi Þór fyrir brot gegn lögreglulögum og brot gegn valdstjórninni, með því að hafa utandyra við skemmtistaðinn Kíki við Klapparstíg, ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu og leitast við að hindra handtöku meðákærða Björns Gísla og er lögregla var að handtaka ákærða klipið lögreglumanninn C í utanvert hægra lærið og bitið lögreglumanninn D í hægri handlegg með þeim afleiðingum að D hlaut mar og ummerki eftir bit á hægri framhandlegg. Einnig með því að hafa, í kjölfarið í fangaklefa á lögreglustöðinni við Hverfisgötu, haft í hótunum um að fara heim til þeirra lögreglumanna sem höfðu haft afskipti af honum og gera eitthvað miður skemmtilegt við þá og aðstandendur þeirra.

 

       Telst þetta varða við 19. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

4.        Gegn ákærða Birni Gísla fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa utan við skemmtistaðinn Kíkí við Klapparstíg, bitið lögreglumanninn E í innanvert lærið hægra megin, er E var þar við skyldustörf, með þeim afleiðingum að E hlaut mar og ummerki eftir bit á hægra læri.

 

       Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

5.        Gegn ákærðu Ólöfu fyrir brot gegn lögreglulögum og brot gegn valdstjórninni, með því að hafa utan við skemmtistaðinn Kíkí við Klapparstíg, ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu um að færa sig frá vettvangi er lögreglan var að handtaka meðákærðu Björn Gísla og Matthías Þór, gert tilraun til að sparka í höfuð lögreglumannanna C og D og með því að hafa togað í hár C.

 

       Telst þetta varða við 19. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

       Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

       Ákærði Björn Gísli játar sök í 2. ákærulið en neitar sök að öðru leyti. Hann krefst vægustu refsingar vegna 2. ákæruliðar en sýknu að öðru leyti. Ákærðu Matthías Þór og Ólöf neita sök og krefjast sýknu. Ákærðu öll krefjast þess að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

 

II

       Málavextir eru þeir að lögreglan var kvödd að skemmtistaðnum, er í ákæru greinir, á þeim tíma sem þar segir. Á staðnum fengust þær upplýsingar að maður hefði slegið dyravörð. Þegar lögreglumenn komu á vettvang sáu þeir ákærða Björn Gísla slá brotaþola sem nefndur er í 2. ákærulið. Ákærði var handtekinn og lagður í götuna. Í skýrslunni segir að þá hafi ákærða Ólöf komið að og reynt að ná í meðákærða. Henni var skipað að hafa sig á brott en hlýddi ekki fyrr en henni var ýtt frá. Á meðan handtóku lögreglumenn ákærða Matthías Þór sem hafði gert tilraun til að frelsa meðákærða Björn Gísla úr höndum lögreglumanna. Í lögregluskýrslu er ákærði Matthías Þór sagður hafa barist um eins og greinir í 3. ákærulið og að hann hafi klipið og bitið lögreglumenn eins og þar greinir. Þá segir í skýrslunni að ákærði Matthías Þór hafi viðhaft þau ummæli, er í 3. ákærulið getur, í fangaklefa á lögreglustöð.

       Í skýrslum einstakra lögreglumanna um atvik málsins segir að ákærða Ólöf hafi rifið í hár lögreglumanns og reynt að sparka í hana, eins og hún er ákærð fyrir í 5. ákærulið. Einnig að ákærði Björn Gísli hefði bitið lögreglumann eins og hann er ákærður fyrir í 4. ákærulið.

       Brotaþolar, sem nefndir eru í 1. og 2. ákærulið, og lögreglumenn, sem nefndir eru í 3. og 4. ákærulið, fóru á slysadeild í kjölfar átakanna. Í vottorðum þaðan segir að þeir hafi allir borið þá áverka er í ákæru greinir.

 

III

       Ákærði Björn Gísli viðurkenndi að hafa slegið brotaþola sem greindur er í 2. ákærulið. Hann kvaðst hafa farið mannavillt. Hann hefði ætlað að slá mann sem hefði áreitt vinkonu hans á öðrum skemmtistað fyrr um kvöldið. Ákærði kvaðst hafa slegið með krepptum fingrum. Eftir þetta kvaðst hann hafa lent í átökum og ekki almennilega vitað hvað hefði gengið á þar til vinkona hans hefði kallað „lögreglan“ en þá hefði hann hætt allri mótspyrnu. Meðan á þessu stóð kvaðst hann ekki hafa fylgst með meðákærðu. Lögreglumenn hefðu reist hann upp og fært inn í lögreglubíl. Hann hefði síðan verið fluttur á lögreglustöð og vistaður í fangaklefa. Ákærði neitaði að hafa bitið lögreglumann, eins og hann er ákærður fyrir í 4. ákærulið. Hann kvaðst ekki hafa verið í aðstöðu til að bíta enda legið með höfuðið á grúfu.

       Við aðalmeðferð bar ákærði Matthías Þór að hann og meðákærðu hefðu farið í bæinn að skemmta sér. Hann kvaðst hafa verið mjög ölvaður. Ákærði kvaðst hafa gengið út af skemmtistaðnum og gengið á keðju, en það hefði stafað af ölvun hans. Hann kvað sig minna að dyravörður, líklegast brotaþoli í 1. ákærulið, hefði rifið í sig og þá hefði eitthvað komið upp á, eins og hann orðaði það, sem hann myndi ekki nógu vel. Þá kvaðst ákærði hafa séð meðákærða Björn Gísla slá létt til manns og hefði höggið komið á kinnina. Ákærði kvaðst ekki muna til þess að hafa slegið brotaþola og tekið hann hálstaki, eins og hann er ákærður fyrir í 1. ákærulið. Ákærði kvaðst hafa séð lögreglumann ýta harkalega í meðákærða Björn Gísla og síðan hefði meðákærði verið barinn til óbóta að mati ákærða. Ákærði kvað það hafa verið sér erfitt að horfa upp á meðferðina á meðákærða og þess vegna farið til lögreglumannanna og sagt ýmislegt við þá í hita leiksins. Hann kvaðst ekki hafa ætlað að frelsa meðákærða heldur ræða við lögreglumennina og þá tekið í öxl eins þeirra og sagt „þið eruð að drepa manninn“ og þá átt við meðákærða. Ákærði kvað lögreglumenn hafa sagt eitthvað við sig en hann kvaðst ekki muna hvað það var. Hann neitaði að hafa reynt að hindra handtöku meðákærða. Ákærði neitaði að hafa klipið og bitið lögreglumenn. Þá neitaði hann að hafa hótað að fara heim til lögreglumanna og gera eitthvað miður skemmtilegt við þá og aðstandendur þeirra eins og hann er ákærður fyrir í 3. ákærulið. Þá lýsti ákærði átökum á vettvangi og sérstaklega handtöku konu sinnar, meðákærðu Ólafar. Hann kvaðst ekki hafa séð hana veitast að lögreglumönnum og gat ekki borið um hvað gerðist milli meðákærða Björns Gísla og lögreglumanna umfram það sem að framan getur. Þá tók ákærði fram að áverkar á lögreglumönnum væru ekki af hans völdum.

       Ákærða Ólöf kvað sig og meðákærðu hafa verið í röð að skemmtistaðnum. Meðákærði Björn Gísli hefði opnað lás á keðju og hefði dyravörður brugðist illa við því og meinað honum um aðgang að skemmtistaðnum. Meðákærði Matthías Þór hefði hins vegar verið kominn og kvaðst ákærða hafa farið inn og sagt honum að meðákærði Björn Gísli kæmist ekki inn. Meðákærði Matthías Þór, sem var mjög ölvaður, hefði flækt sig í keðjur og þá hefði sami dyravörður komið og sagt meðákærða að hann ætti að fara annars staðar út. Við þetta hefði allt „espast upp“, eins og ákærða orðaði það. Þarna voru komnir tveir dyraverðir „sem ætluðu að hjóla í strákana og þeir ætluðu að hjóla í dyraverðina“ eins og hún orðaði það. Með strákunum kvaðst hún eiga við meðákærðu. Hún kvaðst hafa gengið á milli og sagt þeim öllum að hætta og í framhaldinu hefðu dyraverðirnir horfið til starfa sinna. Skömmu síðar hefðu meðákærðu farið aftur að barnum. Hún kvaðst nú hafa verið að ræða við fólk á vettvangi en þegar hún hefði snúið sér við hefðu lögreglumenn verið með meðákærðu í götunni. Ákærða kvaðst hafa gengið að og staðið með fæturna milli höfða meðákærðu. Jafnframt hefði hún haldið í trékarm og beðið lögreglumenn um að hætta. Henni hefði verið sagt að fara í burtu en hún hefði haldið um karminn þar til hann datt. Í framhaldinu hefði hún verið handjárnuð og handtekin. Hún hefði verið lögð á magann. Ákærða kvaðst að vissu leyti ekki hafa hlýtt fyrirmælum lögreglu en hún neitaði að hafa reynt að sparka í lögreglumenn og að hafa rifið í hár lögreglumanns.

       Brotaþoli, sem nefndur er í 1. ákærulið, bar að hann hefði verið dyravörður á skemmtistaðnum. Hann kvaðst hafa staðið við útidyrnar en þar hafi verið keðja sem skildi milli þeirra sem fóru inn og út af staðnum. Maður hafi komið út og gengið á keðjuna þar sem gengið er inn á staðinn. Brotaþoli kvaðst hafa beðið hann að ganga út þar sem eigi að ganga út. Hann neitaði því og reiddist mikið. Síðan kvaðst brotaþoli hafa fengið eitt högg í höfuðið og því næst muni hann eftir því að vera kominn í hálstak. Brotaþoli benti á ákærða Matthías Þór og kvað hann hafa slegið sig og tekið sig hálstaki. Brotaþoli kvaðst hafa rankað við sér í hálstakinu og þá hefðu fleiri dyraverðir verið komnir. Sjálfur kvaðst hann hafa átt erfitt með andardrátt og farið upp og skolað framan úr sér. Þegar hann kom niður aftur hefðu verið mikil læti en hann kvaðst ekki hafa heyrt orðaskil. Nú kom lögreglan á vettvang og kvað hann einn lögreglumann hafa verið bitinn en ekki kvaðst hann hafa séð hver það var sem beit. Þá hefði stúlka á vettvangi rifið niður dyrakarm. Hann kvað lögreglumenn hafa átt í mestu vandræðum með ákærða Matthías Þór, enda hefði hann verið snaróður, eins og hann orðaði það. Þá hefði vinur ákærða verið þarna og kona og hefðu þau einnig verið mjög æst.

       Annar dyravörður bar að piltur hefði verið að ganga út af skemmtistaðnum og gengið á keðjur sem afmarka svæði þeirra sem ganga inn og út af staðnum. Framangreindur brotaþoli hefði beðið piltinn um að ganga þar sem honum var ætlað að ganga. Það hafi komið til orðaskipta milli piltsins og brotaþola. Í framhaldinu hefði pilturinn kýlt brotaþola og tekið hann hálstaki. Lögreglan hefði handtekið piltinn síðar og hefði það verið ákærði Matthías Þór. Í framhaldinu hefðu hafist átök. Þá kvað dyravörðurinn brotaþola þann, sem nefndur er í 2. ákærulið, hafa verið sleginn. Hann var ekki viss um hver gerði það. Einnig nefndi hann stúlku á vettvangi sem var mjög óróleg og hefði hún verið handtekin, enda hefði hún ekki hlýtt fyrirmælum þegar hún reyndi að trufla störf lögreglu við handtökurnar.

       Þriðji dyravörður kvaðst hafa komið að eftir að brotaþoli í 1. ákærulið hafði fengið áverka. Hún hefði séð hann alblóðugan og sagt honum að fara inn. Hún kvaðst hafa hringt á lögreglu. Hún kvað tvo menn hafa verið fyrir utan að tala við dyravörð þegar lögreglan kom og í því hefði annar þeirra slegið brotaþola, sem nefndur er í 2. ákærulið. Í framhaldinu hefði allt farið í bál og brand og hefðu þessir menn verið handteknir. Einnig hefði verið þarna stúlka sem var með mönnunum og hefði hún reynt að hindra handtöku þeirra. Þá hefði hún rifið niður dyrakarm og hefði hún verið handtekin í framhaldinu. Loks kvað hún lögreglumann hafa kallað að verið væri að bíta hann en ekki kvaðst hún hafa séð það. Þá kvaðst hún hafa séð nefnda konu reyna að rífa í hár lögreglumanns. Dyravörðurinn kvað stúlkuna ekki hafa hlýtt fyrirmælum lögreglumanna. Hún kvaðst hafa heyrt lögreglumenn tilkynna mönnunum, sem voru handteknir, að þeir væru handteknir. 

       Brotaþoli, sem nefndur er í 2. ákærulið, bar að hann hefði verið fyrir utan skemmtistaðinn umrædda nótt og þar hefðu verið mikil læti. Lögreglan hefði komið og verið að handtaka mann. Brotaþoli kvaðst hafa spurt mann hvað væri að gerast og þá hefði maðurinn slegið sig. Hann kvað manninn hafa verið félaga þess sem var handtekinn. Önnur samskipti hefðu þeir ekki átt sín á milli. Þetta hefði verið fyrirvaralaust sem hann var sleginn með krepptum hnefa. Lögreglan hefði umsvifalaust handtekið manninn. Brotaþoli kvaðst hafa vankast og ekki fylgst mikið með vettvangi eftir þetta. Hann hefði þó tekið eftir því þegar stúlkan var handtekin að hún reif með sér hurðarkarm. Þá kvaðst hann hafa heyrt lögreglumann kalla að verið væri að bíta hann og taldi hann það hafa verið ákærði Björn Gísli sem hefði verið að bíta.

       Lögreglumaður, sem kom á vettvang og ritar frumskýrslu málsins, staðfesti hana. Þegar hún kom á vettvang var allt rólegt en dyraverðir hefðu bent á tvo menn er hefðu verið til vandræða. Áður en lögreglumenn komust að þeim kvaðst hún hafa séð mann slá annan mann er hefði verið í röðinni. Hún kvað lögreglumenn hafa handtekið árásarmanninn sem væri ákærði Björn Gísli. Hann hefði verið rólegur en þegar lögreglumenn voru með hann hefði kona komið og verið að skipta sér af málunum. Lögreglumaður hefði ýtt henni í burtu og síðan sagt sér að fara til að aðstoða aðra lögreglumenn sem voru að handtaka annan mann. Hún kvaðst hafa gripið í vinstri handlegg mannsins en hann hefði streist mikið á móti. Þegar búið var að koma manninum í götuna hefði kona komið og farið að skipta sér af. Hún kvað hafa verið rifið í hárið á sér, en ekki sá hún hver gerði það. Hún kvaðst hins vegar hafa gert ráð fyrir að ákærða Ólöf hefði verið að verki, enda hefði hún verið sú eina er gat komið til greina. Í þessum átökum kvað hún ákærða Matthías Þór hafa klipið sig og þá kvaðst hún hafa heyrt lögreglumann, sem nefndur er í 3. ákærulið, segja að ákærði hefði bitið hann. Þá kvað hún ákærðu hafa verið skipað að hlýða lögreglumönnum en án árangurs. Einnig hefði ákærða Ólöf reynt að sparka í sig.

       Lögreglumaður, sem kom á vettvang ásamt öðrum, kvað fyrst hafa verið tilkynnt um að dyravörður hefði orðið fyrir árás. Á vettvangi var bent á mann er hefði ráðist á dyravörðinn. Þá kvaðst hann hafa séð ákærða Björn Gísla slá mann. Annar lögreglumaður hefði tekið ákærða en sjálfur kvaðst hann hafa séð ákærða Matthías Þór sem hefði verið mjög æstur. Lögreglumaðurinn kvaðst hafa farið til hans og beðið hann að róa sig og halda sig fjarri. Ákærði hlýddi ekki. Hann hefði svo verið tekinn í tök og handjárnaður sem hefði gengið illa en tókst að lokum. Lögreglumaðurinn kvað ákærða hafa bitið sig í hægri framhandlegg og hefði hann borið hringlaga mar eftir það. Hann kvaðst ekki muna hvort hann hefði fylgt ákærða í fangaklefa en hann hefði verið í bílnum sem flutti ákærða á lögreglustöð. Í bílnum hefði ákærði verið með hótanir í garð lögreglumanna.

       Lögreglumaður, sem kom á vettvang með framangreindum lögreglumönnum, kvað ekkert hafa verið að gerast er þau komu. Þeim hefði verið bent á tvo menn í röðinni sem hefðu verið til vandræða. Þegar lögreglumenn nálguðust þá hefði annar mannanna slegið mann í röðinni. Hann kvað árásarmanninn hafa verið handtekinn og hefði þá félagi hans farið að skipta sér af þessu og verið handtekinn líka. Lögreglumaðurinn kvað ákærða Björn Gísla hafa náð að bíta sig en ákærði Matthías Þór hefði bitið lögreglumanninn sem nefndur er í 3. ákærulið. Hann kvaðst ekki hafa séð það en lögreglumaðurinn hefði sagt sér það og hann hefði séð áverkann. Þá kvaðst hann ekki hafa séð er ákærði Björn Gísli beit en hann hefði fundið það. Þá kvað hann konu hafa verið á vettvangi sem síðar var handtekin. Hún hefði margoft verið beðin um að fara frá og vera ekki að skipta sér af. Hún hefði ekki hlýtt því og kvaðst hann hafa endað á því að ýta henni frá. Lögreglumaðurinn kvaðst hvorki hafa séð konuna rífa í hár lögreglumanns né reyna að sparka til hennar.

       Lögreglumaður sem kom á vettvang bar að hafa ekið lögreglubíl á vettvang. Á vettvangi hafi allt verið rólegt en tilkynnt hafði verið að ráðist hefði verið á dyravörð. Hann kvaðst hafa verið að leggja bílnum þegar slagsmál hafi hafist. Hann kvaðst hafa handtekið mann ásamt tveimur öðrum lögreglumönnum. Annar lögreglumannanna hefði kallað að hinn handtekni hefði bitið sig. Lögreglumaðurinn bar að kona hafi komið aðvífandi og reynt að sparka í lögreglumann og rifið tvisvar í hárið á henni. Hann kvaðst hafa náð að taka konuna lögreglutökum og var hún handtekin í framhaldinu. Hann tók fram að allt þetta fólk hefði verið mjög æst og ekki hlýtt fyrirmælum.   

       Vinkona ákærðu, sem var með þeim umrædda nótt, kvaðst hafa séð ákærða Björn Gísla slá annan mann og hefði hann verið handtekinn í framhaldinu. Hún kvað ákærða hafa villst á þessum manni og öðrum. Hún kvað ákærða hafa látið ófriðlega allt þar til hún hefði sagt honum að þetta væri lögreglan. Eftir það hefði hann verið til friðs. Upphafið að átökunum kvað hún hafa verið ágreining um hvar og hvernig ætti að ganga inn og út af skemmtistaðnum. Þá kvað hún ákærðu Ólöfu hafa ætlað að spyrja lögreglumenn af hverju verið væri að handtaka ákærða Matthías Þór. Loks kvaðst vinkonan hafa beðið um að farið yrði varlega með ákærðu þar eð hún væri nýkomin úr aðgerð.

       Læknir á slysadeild, sem ritar framangreind vottorð, staðfesti þau. Hann kvað áverkana geta samrýmst þeim lýsingum sem hinir slösuðu gáfu á slysadeild. Hann staðfesti að þeir sem sögðust hafa verið bitnir hefðu verið með bitfar eins og lýst er.

 

IV

       Í 1. ákærulið er ákærða Matthíasi Þór gefin að sök líkamsárás á dyravörð á nefndum skemmtistað. Ákærði neitar sök. Brotaþoli, sem er dyravörður á skemmtistaðnum, bar fyrir dómi að ákærði hefði slegið sig, eins og rakið var. Annað vitni, sem einnig er dyravörður á skemmtistaðnum, bar að ákærði hafi slegið brotaþola. Með framburði þessara tveggja vitna er sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um líkamsárás, eins og honum er gefið að sök í þessum ákærulið. Verður ákærði því sakfelldur og er brot hans rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.

       Í 2. ákærulið er ákærða Birni Gísla gefin að sök líkamsárás. Ákærði hefur játað sök og styðst játning hans við framburð vitna sem rakinn hefur verið. Ákærði verður því sakfelldur fyrir það sem hann er ákærður fyrir og er brot hans rétt fært til refsiákvæðis á ákærunni.

       Í 3. ákærulið er ákærða Matthíasi Þór í fyrsta lagi gefið að sök að hafa ekki hlýtt fyrirmælum og leitast við að hindra handtöku meðákærða Björns Gísla. Ákærði neitar sök. Hér að framan var gerð grein fyrir því að meðákærði Björn Gísli sló mann, eins og hann hefur verið sakfelldur fyrir, og handtóku lögreglumenn hann í framhaldinu. Ákærði bar fyrir dómi að hafa rætt við lögreglumenn er voru að handtaka meðákærða og tekið í öxl eins þeirra. Lögreglumenn hafa borið að ákærði hafi ekki hlýtt fyrirmælum þeirra og þá kemur fram í framburði þeirra og dyravarða að ákærði hafi verið mjög æstur og erfiður, eins og rakið var. Er ekki óvarlegt að telja sannað að hann hafi ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu, eins og hann er ákærður fyrir. Ekkert vitni ber um að ákærði hafi leitast við að hindra handtöku meðákærða Björns Gísla og verður hann sýknaður af því. Þá er ákærða gefið að sök að hafa klipið lögreglumann í lærið. Ekki bera önnur vitni um þetta en viðkomandi lögreglumaður. Gegn neitun ákærða er því ósannað að hann hafi klipið lögreglumann í lærið og verður hann sýknaður af því. Þá er ákærða gefið að sök að hafa bitið lögreglumann. Um þetta bera viðkomandi lögreglumaður og þrír aðrir lögreglumenn. Gegn neitun ákærða er því sannað að hann hafi bitið lögreglumann og verður hann sakfelldur fyrir það. Ekkert vitni gat borið um ummæli ákærða í fangaklefa sem honum er gefið að sök að hafa viðhaft og í ákæru greinir. Hann verður því sýknaður af því ákæruatriði. Brot þau, sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir, eru rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.

       Í 4. ákærulið er ákærða Birni Gísla gefið að sök að hafa bitið lögreglumann. Ákærði neitar sök. Lögreglumaður, sem nefndur er í ákæruliðnum, bar að ákærði hefði bitið sig. Brotaþoli í 2. ákærulið kvaðst hafa heyrt lögreglumann kalla að hann hefði verið bitinn og taldi að það hefði verið ákærði sem hefði bitið. Þá bar lögreglumaðurinn merki þess samkvæmt áverkavottorði að hafa verið bitinn. Í skýrslu sem hann ritar eftir átökin kemur fram lýsing á því hvernig ákærði beit hann. Þegar allt framangreint er virt er það niðurstaða dómsins að komin sé fram lögfull sönnun þess að ákærði hafi bitið lögreglumann eins og honum er gefið að sök í þessum ákærulið. Ákærði verður því sakfelldur, gegn neitun sinni, og er brot hans rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.

       Í 5. ákærulið er ákærðu Ólöfu gefið að sök að hafa ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu, gert tilraun til að sparka í höfuð lögreglumanna og að hafa togað í hár lögreglumanns. Ákærða neitar sök en viðurkenndi þó að hafa, að vissu leyti, ekki hlýtt fyrirmælum lögreglumanna. Hér að framan var rakinn framburður vitna sem bera að ákærða hafi ekki hlýtt fyrirmælum lögreglumanna á vettvangi. Samkvæmt þessu er sannað að hún hlýddi ekki fyrirmælum eins og hún er ákærð fyrir. Einn lögreglumaður ber að hafa séð ákærðu reyna að sparka í lögreglumann en aðrir sem voru á vettvangi bera ekki um það. Gegn neitun ákærðu er því ósannað að hún hafi gert tilraun til að sparka í höfuð lögreglumanna og verður hún sýknuð af þeim þætti ákærunnar. Dyravörður kvaðst hafa séð ákærðu reyna að rífa í hár lögreglumanns. Lögreglumaður bar að rifið hefði verið í hárið á sér og væri ákærða sú eina sem kæmi til greina að hafa gert það. Annar lögreglumaður bar að hafa séð ákærðu rífa í hár lögreglumannsins. Samkvæmt þessu er sannað, gegn neitun ákærðu, að hún hafi togað í hár lögreglumanns eins og hún er ákærð fyrir. Brot ákærðu varða við þau lagaákvæði sem í ákæru getur.

       Ákærðu, Birni Gísla og Matthíasi Þór, hefur ekki áður verið refsað og sakavottorð ákærðu Ólafar hefur ekki þýðingu við úrlausn málsins. Refsing ákærðu, Björns Gísla og Matthíasar Þórs, verður ákveðin samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga. Refsing ákærða Björns Gísla er hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði, refsing ákærða Matthíasar Þórs er hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði og refsing ákærðu Ólafar er hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Allar skulu refsingarnar bundnar skilorði eins og í dómsorði greinir.

       Krafa ákæruvaldsins um greiðslu sakarkostnaðar er annars vegar fyrir læknisvottorð vegna brotaþola í 1.-4. ákærulið. Hins vegar er krafist greiðslu á reikningi fyrir tæknivinnu og akstur sem er, að því er virðist, fyrir upptökur úr myndavél sem dottnar eru út, eins og segir í reikningnum. Á upptökum þessum hefur ekkert verið byggt í málinu og verður ákærðu ekki gert að greiða þann kostnað. Ákærðu, Björn Gísli og Matthías Þór, verða dæmdir til að greiða kostnað vegna áverkavottorða eins og í dómsorði greiðir en annan sakarkostnað skal greiða úr ríkissjóði. Loks verða ákærðu dæmd til að greiða óskipt málsvarnarlaun verjanda síns sem ákvörðuð eru með virðisaukaskatti í dómsorði. Einnig aksturskostnað eins og þar greinir.

      

       Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

        Ákærði, Björn Gísli Gíslason, sæti fangelsi í 3 mánuði.

       Ákærði, Matthías Þór Þóruson, sæti fangelsi í 3 mánuði.

       Ákærða, Ólöf Gunnarsdóttir, sæti fangelsi í 30 daga.

       Fresta skal fullnustu refsinga allra ákærðu og falli þær niður að liðnum tveim árum frá deginum í dag að telja, haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

       Ákærði, Björn Gísli, greiði 59.940 krónur í sakarkostnað.

       Ákærði, Matthías Þór, greiði 50.970 krónur í sakarkostnað.

       Ákærðu öll greiði óskipt málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Kristbjörnssonar lögmanns, 400.520 krónur og 33.315 krónur í aksturskostnað.

                                                                       

Arngrímur Ísberg