• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Sakarkostnaður
  • Umferðarlagabrot
  • Ökuréttur

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2019 í máli nr. S-651/2018:

Ákæruvaldið

(Sigurður Pétur Ólafsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Arnari Freyr Karlssyni

(Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 4. febrúar sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 6. nóvember 2018, á hendur Arnari Frey Karlssyni, kt. [...], [...], [...], fyrir eftirgreind fíkniefna- og umferðarlagabrot, með því að hafa:

 

1. Laugardaginn 29. apríl 2017 í Reykjavík ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti um Flúðasel, skammt frá Fífuseli, uns lögregla stöðvaði aksturinn.

 

2. Sunnudaginn 18. júní 2017 í Helgafellssveit ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og með 121 km hraða á klst. þar sem leyfður hámarkshraði var 90 km á klst. um Snæfellsveg uns lögregla stöðvaði aksturinn.

 

3. Fimmtudaginn 22. júní 2017 í Stykkishólmi ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti um Stykkishólmsveg, skammt frá Atlantsolíu, uns lögregla stöðvaði aksturinn.

 

4. Fimmtudaginn 21. september 2017 í Reykjavík ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 195 ng/ml, metamfetamín 50 ng/ml, tetrahýdrókannabínól 1,0 ng/ml og auk þeirra fannst MDMA í þvagi) vestur Sæbraut uns lögregla stöðvaði aksturinn.

 

5. Mánudaginn 30. október 2017 í Kópavogi ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa slævandi lyfja og ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 300 ng/ml, kókaín 100 ng/ml, MDMA 125 ng/ml, tetrahýdrókannabínól 1,1 ng/ml, fenazepam 6,0 ng/ml, klónazepam 18 ng/ml, kódein 40 ng/ml, nítrazepam 130 ng/ml og auk þeirra fannst metamfetamín í þvagi) um bifreiðastæði í bílakjallara Smáratorgs uns lögregla stöðvaði aksturinn.

 

6. Föstudaginn 8. desember 2017 í Reykjavík ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa slævandi lyfja og ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 30 ng/ml, kókaín 45 ng/ml, MDMA 1400 ng/ml, tetrahýdrókannabínól 0,5 ng/ml, klónazepam 80 ng/ml, nítrazepam 30 ng/ml, brómazepam 25 ng/ml og díazepam 35 ng/ml) austur Borgartún og aftan á bifreiðina [...] sem var stopp á rauðu ljósi og ekki sinnt skyldum sínum við umferðaróhapp heldur ekið á brott og að Hagkaup í Skeifunni þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

 

7. Sunnudaginn 8. júlí 2018 í Reykjavík haft í vörslum sínum 0,99 g af amfetamíni sem lögregla fann við leit á ákærða við Fífusel og lagði hald á.

 

8. Laugardaginn 4. ágúst 2018 í Reykjavík ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa slævandi lyfja og ávana- og fíkniefna (í blóði mældist kókaín 430 ng/ml, tetrahýdrókannabínól 3,2 ng/ml, klónazepam 82 ng/ml, nítrazepam 51 ng/ml og auk þeirra fannst amfetamín í þvagi) vestur Suðurhóla uns lögregla stöðvaði aksturinn við Suðurhóla 24.

 

Teljast brot samkvæmt 1., 2., 3., 4., 5., 6. og 8. lið öll varða við 1. mgr. 48. gr., auk þess sem brot í 4., 5., 6., og 8. lið teljast að auki varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. auk þess sem brot í 5., 6. og 8. lið teljast einnig varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 44. gr., auk þess sem brot í 2. lið telst varða við 2. mgr. 37. gr. og brot í 6. lið auk þess við 1. mgr. 10. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. gr. laga nr. 24/2007 og 5. gr. laga nr. 66/2006 auk þess sem brot í 7. lið teljast varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og auglýsingu nr. 232/2001.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006. Jafnframt er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að sæta upptöku á framangreindum fíkniefnum samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

            Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa, að sakarkostnaður verði lækkaður og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

 

II

Farið var með mál þetta samkvæmt ákvæðum 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og málið tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu en ákæranda og verjanda ákærða var gefinn kostur á að tjá sig sérstaklega um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Játning hans er í samræmi við önnur gögn málsins. Telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um brot þau sem honum eru gefin að sök í ákæru og eru brotin þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

 

III

Ákærði er fæddur í [...]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 1. nóvember 2018, hefur honum ítrekað verið gerð refsing vegna umferðarlagabrota og brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Ákærði var dæmdur til greiðslu sektar vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna samkvæmt 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987, með dómi héraðsdóms 12. febrúar 2014. Þá gekkst hann undir sektargerð lögreglustjóra 20. nóvember 2014 vegna samskonar brots og vegna aksturs sviptur ökurétti samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga nr. 50/1987, og á ný vegna aksturs sviptur ökurétti með sektargerð lögreglustjóra 18. maí 2015. Þá var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt með dómi héraðsdóms 18. september 2015 vegna sömu brota auk brota gegn 2., sbr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og taldi dómurinn að um hegningarauka væri að ræða, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með dómi héraðsdóms 8. febrúar 2017 var ákærði dæmdur í þriggja mánaða fangelsi og svipting ökuréttar áréttuð vegna sömu brota.

Við ákvörðun refsingar er litið til þess að þau brot ákærða að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna og aka sviptur ökurétti eru nú ítrekuð í fjórða sinn. Þá eru brot ákærða að miklu leyti hegningarauki vegna þriggja sektargerða sem ákærði gekkst undir hjá lögreglustjóra vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni 28. september 2017, 15. desember 2017 og 8. ágúst 2017. Að því virtu, og með hliðsjón af dómvenju og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 14 mánuði.

Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða.

Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni eru gerð upptæk til ríkissjóðs 0,99 g af amfetamíni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að ákærða verði gert að greiða sakarkostnað samtals af fjárhæð 1.006.405 krónur í samræmi við framlagt yfirlit og hefur þá verið tekið tilliti til lækkunar sem gerð var undir rekstir málsins. Af hálfu ákærða er fjárhæð kröfu ákæruvalds um sakarkostnað mótmælt. Byggir hann á því að af hálfu lögreglu séu blóðsýni rannsökuð meir en þörf er á og leiði það til þess að sakarkostnaður verði óþarflega hár. Hafi mælst svo mikið magn fíkniefna blóði sakbornings að refsing verði ekki hærri vegna brotsins sé óþarfi að rannsaka blóðið frekar til að kanna hvort þar reynist vera fleiri tegundir fíkniefna með tilheyrandi kostnaði sem leggst á sakborning. Þá telur ákærði að ekki séu forsendur til að dæma hann til að greiða kostnað vegna etanólákvörðunar vegna ákæruliðar 8.

Samkvæmt c-lið 1. mgr. 233. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála telst til sakarkostnaðar óhjákvæmileg útgjöld vegna rannsóknar og meðferðar sakamáls, þ. á m. kostnaður við sérfræðilegar álitsgerðir. Samkvæmt 53. gr. laganna er það markmið rannsóknar að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til saka. Í reglugerð nr. 288/2018, sbr. áður reglugerð nr. 930/2006 með síðari breytingum, um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim, segir í viðauka I að finnist fleiri en ein tegund ávana- og fíkniefna í blóði ökumanns skuli leggja til grundvallar við ákvörðun refsingar það efni sem hefur hæst mæligildi. Er þannig gert ráð fyrir að sú staða kunni að verða uppi að rannsakað sé hvort tiltekið fíkniefni mælist í blóði sakbornings án þess að sú mæling verði síðar grundvöllur ákæru. Samkvæmt þessu kann hæsta gildi að reynast annað en það sem fyrst mælist svo hátt að það gæti leitt til þess að viðkomandi verið dæmur í þá refsingu sem hæst getur orðið vegna brotsins. Hvað varðar kostnað vegna etanólákvörðunar vegna 8. ákæruliðar þá má af framlögum gögnum ráða að grunur var upp um að ákærði væri undir áhrifum áfengis þegar lögregla hafi afskipti af honum í umrætt sinn og kvaðst hann sjálfur vera búinn að drekka áfengi. Í ljósi framangreinds eru ekki efni til að fallast á athugasemdir ákærða og verður hann því dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar í samræmi við framlagt yfirlit ákæruvalds.

Ákærði ber með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 að greiða málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 130.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti. Við ákvörðun málskostnaðar er haft mið af reglum dómstólasýslunnar um málsvarnarlaun eða þóknun til verjanda o.fl. nr. 11/2018. Þá greiði ákærði 1.006.405 krónur í annan sakarkostnað, eins og að framan er rakið.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigurður Pétur Ólafsson aðstoðarsaksóknari.

Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Arnar Freyr Karlsson, sæti fangelsi í 14 mánuði.

Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða.

Upptækt er gert til ríkissjóðs 0,99 g af amfetamíni.

Ákærði greiði 1.136.405 krónur í sakarkostnað þar með talin þóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 130.000 krónur.

 

Sigríður Elsa Kjartansdóttir