• Lykilorð:
  • Laun
  • Ráðningarsamningur
  • Tómlæti
  • Vinnulaunamál

 

 

 

 

D Ó M U R

Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 15. maí 2018 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 28. mars sl. Stefnandi er Á, [...]. Stefndi er Keimur ehf., [...]. Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til greiðslu 28.368.068 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags, en til vara 11.381.887 króna með sömu vöxtum. Hann krefst einnig málskostnaðar. Stefndi krefst aðallega sýknu, en til vara lækkunar á kröfu stefnanda. Hann krefst einnig málskostnaðar.

 

Helstu ágreiningsefni og yfirlit yfir atvik málsins

            Í málinu deila aðilar um endurgjald fyrir vinnu stefnanda hjá stefnda frá 10. september 2014 til 8. febrúar 2017. Óumdeilt er að stefnandi var starfsmaður stefnda á umræddu tímabili. Hins vegar er ágreiningur með aðilum um ýmis nánari atvik málsins, einkum launakjör stefnanda.

            Stefndi rak heildverslun sem sérhæfði sig í innflutningi og sölu á heilsutengdum vörum, en hefur nú hætt starfsemi samkvæmt því sem fram kom í aðilaskýrslu A, stjórnarmanns stefnda. Svo sem áður greinir hóf stefnandi störf hjá stefnda 10. september 2014 og starfaði hjá honum allt til 8. febrúar 2017. Því er ekki mótmælt að stefnandi fullnægði vinnuskyldu sinni á umræddu tímabili og er ekki ástæða til að lýsa því sérstaklega í hverju þær skyldur stefnanda fólust. Aðila greinir á um nánari tildrög þess að stefnandi hóf störf hjá stefnda og einnig um nánari atvik við starfslok hans. Er vikið að þeim ágreiningi aðila í niðurstöðum dómsins eftir því sem þýðingu þykir hafa fyrir niðurstöðu málsins. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda. Heldur stefnandi því fram, gegn mótmælum stefnda, að munnlega hafi verið samið um 850.000 krónur í mánaðarlaun, eða u.þ.b. 550.000 krónur eftir skatta og gjöld. Af hálfu stefnanda er á því byggt að samkomulag hafi verið um að launagreiðslum til hans yrði frestað þar til hagur félagsins vænkaðist. Stefndi lítur hins vegar svo á að endurgjald fyrir störf stefnanda hafi einungis átt að felast í eignarhaldi hans í félaginu. Ekki er um það deilt að í janúar, febrúar, mars og apríl 2016 greiddi stefndi svo stefnanda laun samkvæmt launaseðlum sem lagðir hafa verið fram í málinu. Aðila greinir hins vegar á hvort um var að ræða full mánaðarlaun eða einungis hluta af slíkum launum. Stefnandi kveðst hafa móttekið umræddar launagreiðslur með þeim fyrirvara.

            Við aðalmeðferð málsins gáfu stefnandi og áðurnefndur A aðilaskýrslur.

 

Helstu málsástæður og lagarök aðila

Stefnandi byggir kröfu sína á því að hann eigi rétt til vangreiddra launa samkvæmt ráðningarsamningi og meginreglum vinnuréttar. Óumdeilt sé að stefndi hafi samþykkt vinnuframlag hans sem sölu- og markaðsstjóra og síðar fjármálastjóra. Stefnandi telur það engu skipta þótt ekki hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur, enda leiði vanræksla stefnda í því efni til þess að túlka verði allan vafa um inntak ráðningarsambandsins stefnanda í hag. Stefnandi byggir fjárhæð krafna sinna á munnlegum ráðningarsamningi aðila málsins og því að umsamin mánaðarleg heildarlaun hafi numið 850.000 krónum á mánuði, sem hafi einnig verið hæfilegt endurgjald. Stefnandi gerir einnig kröfu um þriggja mánaða laun á uppsagnarfresti samkvæmt því sem tíðkist á almennum vinnumarkaði, en stefnanda hafi fyrirvaralaust verið sagt upp starfi 8. febrúar 2017 og gert að yfirgefa starfsstöðvar stefnda. Stefndi hafi fallið frá vinnuframlagi stefnda á uppsagnarfresti þar sem vinnuframlags hans var ekki frekar óskað. Þá gerir stefnandi kröfu um greiðslu orlofs á öll vangreidd laun. Stefnandi vísar til þess að lágmarkskjör vinnuréttar gildi um stefnanda, þar á meðal orlofslög nr. 30/1987. Samkvæmt 7. gr. laganna eigi launþegi rétt til orlofslauna í samræmi við áunninn orlofsrétt á síðasta orlofsári. Reiknist orlofslaun við hverja launagreiðslu þannig að af heildarlaunum reiknist orlofslaunahlutfall að lágmarki 10,17% miðað við lágmarksorlof samkvæmt 3. gr. laganna. Stefnandi hafi ekki fengið greidd orlofslaun eins og hann hafi átt rétt á úr hendi stefnda. Þá skuli vinnuveitandi greiða öll áunnin orlofslaun launþega við starfslok, sbr. 8. gr. laganna. Áunnið orlof stefnanda hafi ekki verið gert upp í kjölfar þess að ráðningu hans var slitið 8. febrúar 2017. Ekki sé þó gerð krafa um orlofslaun vegna orlofsársins frá 8. september 2014, er stefnandi hóf störf, til 30. apríl 2015, þar sem orlofslaun fyrir þann tíma séu niður fallin, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 30/1987 og 13. gr. laganna. Varakrafa stefnanda byggist á því að hann eigi rétt til launa miðað við framlagða launaseðla, eða 356.035 króna á mánuði. Þá er gerð krafa um greiðslu orlofs ofan á vangreidd laun. Að öðru leyti byggist varakrafan á sambærilegum grundvelli og aðalkrafan.

Í ljósi þess að ekki er uppi tölulegur ágreiningur um fjárhæð aðal- og varakröfu stefnanda er ekki ástæða til að rekja sérstaklega sundurliðun kröfugerðar hans.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að ósannað sé að samið hafi verið munnlega um tiltekin mánaðarlaun. Stefnandi hafi sjálfur byggt á því í öðru dómsmáli að samið hafi verið um að hann fengi hlut í fyrirtækinu en ekki hafi verið samið um laun að öðru leyti. Stefnandi hafi hins vegar ekki gert kröfu um hlut í fyrirtækinu nú heldur byggi á ætluðum munnlegum ráðningarsamningi. Þá sé málatilbúnaður stefnanda einnig á reiki um það hvort krafa hans miðist við gildandi kjarasamning Verslunarmannafélags Reykjavíkur eða munnlegan samning. Með öllu sé ósannað að samið hafi verið um þau laun sem bæði aðal- og varakrafa stefnanda byggist á. Varðandi varakröfu stefnanda tekur stefndi jafnframt fram að ósannað sé að þrír launaseðlar frá árinu 2016 sýni fram á að fyrir hendi hafi verið samningur um tiltekin laun. Stefndi byggir enn fremur á því að allar hugsanlegar kröfur stefnanda séu niður fallnar sökum tómlætis og vísar því til stuðnings til þess að stefnandi kveðist sjálfur hafa starfað sem fjármálastjóri stefnda og því verið kunnugt um að bókhald félagsins hafi ekki sýnt skuld stefnda við félagið. Lækkunarkrafa stefnda er á því reist að krafa stefnanda sé hvorki byggð á lögum né gildandi kjarasamningum heldur á munnlegum samningi sem enginn sönnun liggi fyrir um. Krafa stefnanda er að mati stefnda úr hófi og geti aldrei orðið hærri en lágmarksréttur samkvæmt kjarasamningum.

 

Niðurstaða

            Í málinu er ágreiningslaust að stefnandi hóf störf hjá stefnda 10. september 2014 og starfaði hjá honum óslitið til 8. febrúar 2017. Hvað sem líður hugmyndum aðila um að stefnandi yrði með tímanum meðeigandi stefnda er ekki annað komið fram en að stefnandi hafi verið starfsmaður stefnda í skilningi vinnuréttar og átt rétt til launa samkvæmt því. Einnig er óumdeilt að enginn skriflegur ráðningarsamningur var gerður við stefnanda og nýtur ekki annarra gagna við um starfskjör hans og stöðu hjá stefnda en fullyrðinga hans sjálfs. Gegn mótmælum stefnda telur dómurinn þar af leiðandi að stefnanda hafi ekki tekist sönnun fyrir því að laun hans hafi átt að nema 850.000 krónum, svo sem kröfugerð hans byggist á. Hins vegar liggur fyrir að stefnandi fékk greidd laun í fjóra mánuði, frá janúar til apríl 2016, og eru mánaðarlaun hans þar tilgreind 356.035 krónur að meðtöldum ökutækjastyrk. Er og ekki annað komið fram en að þau laun hafi a.m.k. numið lágmarkslaunum samkvæmt þeim kjarasamningum sem giltu um kjör stefnanda. Eins og atvik málsins liggja fyrir samkvæmt þessu verður að miða við að föst mánaðarlaun stefnanda hafi numið téðri fjárhæð. Samkvæmt þessu nema heildarlaun stefnanda fyrir störf hans á áðurgreindu tímabili 10.297.652 krónum, en frá þeirri fjárhæð ber að draga þau laun sem stefnandi fékk sannanlega greidd frá janúar til apríl 2016. Nema ógreidd heildarlaun stefnanda vegna tímabilsins 8.873.512 krónum. Eins og atvikum málsins er háttað verður ekki á það fallist að stefnandi hafi tapað rétti til þessara launa niður fyrir tómlæti.

            Í innheimtubréfi lögmanns stefnanda 8. febrúar 2017 var hvorki gerð krafa um laun í uppsagnarfresti né krafa um ógreitt orlof. Í máli sem stefnandi höfðaði 30. mars 2017 til greiðslu ógreiddra launa voru heldur engar kröfur hafðar uppi á þessum grundvelli. Verður því að leggja til grundvallar að stefnandi hafi fyrst haft uppi þessar kröfur með höfðun máls þessa 15. maí 2018, eða rúmlega tveimur árum eftir starfslok sín hjá stefnda. Lýsingar atvika eru á reiki um það hvort stefnandi lauk störfum sínum hjá stefnda að eigin frumkvæði eða hvort honum var sagt upp starfi sínu. Þá er engum gögnum til að dreifa í málinu sem sýna að stefnandi hafi áskilið sér rétt til launa í uppsagnarfresti við eða í beinu framhaldi af starfslokum sínum. Í málinu liggur ekkert fyrir um það hvort stefnandi tók út orlof sitt með leyfi, svo sem tíðkanlegt er um fastráðna starfsmenn, en ekkert er fram komið um að stefnandi hafi haft uppi athugasemdir um orlofsgreiðslur til sín meðan á störfum hans hjá stefnanda stóð. Að mati dómsins er ekkert fram komið í málinu sem réttlætt getur tómlæti stefnanda við að hafa uppi kröfu um laun í uppsagnarfresti eða ógreitt orlof, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar 9. febrúar 2012 í máli nr. 211/2011, 14. apríl 2011 í máli nr. 273/2010 og  27. mars 2019 í máli nr. 31/2018. Er þar af leiðandi hafnað þeim hluta kröfu hans sem lýtur að launum í uppsagnarfresti, orlofi í uppsagnarfresti, svo og orlofsgreiðslum vegna orlofstímabilsins 1. maí 2015 til 30. apríl 2016. Hins vegar átti stefnandi rétt til útgreiðslu orlofs við starfslok sín 8. febrúar 2017 og er ekki sérstaklega deilt um að áunnið orlof vegna yfirstandandi orlofsárs hafi þá numið 334.235 krónum.

            Samkvæmt framangreindu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 9.207.747 krónur með dráttarvöxtum frá þingfestingardegi, svo sem gerð er krafa um í stefnu og nánar greinir í dómsorði.

            Eftir úrslitum og umfangi málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 620.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

            Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Keimur ehf., greiði stefnanda, Á, 9.207.747 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. maí 2018 til greiðsludags.

            Stefndi greiði stefnanda 620.000 krónur í málskostnað.

 

Skúli Magnússon