• Lykilorð:
  • Húsbóndaábyrgð
  • Skaðabætur
  • Vátryggingamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember í máli nr. E-405/2018:

Sjóvá-Almennar tryggingar hf.

(Ingvar Sveinbjörnsson lögmaður)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Svanhvít Axelsdóttir lögmaður)

A.

(Garðar Steinn Ólafsson lögmaður)

B.

(Ólafur Garðarsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 26. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sjóvá-Almennum tryggingum hf., [...], á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., [...], A., [...] og B, [...], með stefnu birtri 2. og 5. febrúar 2018.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir, sameiginlega, til að greiða stefnanda 38.955.203 kr. ásamt dráttarvöxtum frá 10. apríl 2016 samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi.

Stefndi, A, krefst aðallega sýknu af dómkröfum stefnanda. Til vara er krafist verulegrar lækkunar þeirra. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi, B, krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til vara er krafist verulegrar lækkunar þeirra. Þá er krafist málskostnaðar.

 

I

            Málið varðar kranabifreið af gerðinni Liebherr LTM 1090-4.1 með skráningarnúmerið [...]. Á bifreiðinni er krani sem ber skráningarnúmerið [...] hjá Vinnueftirliti ríkisins. Kranabifreiðin var húftryggð hjá stefnanda, þ.e. bæði undirvagn og krani.

LNS Saga hafði tekið að sér verkefni við lagningu gufulagna frá Hverahlíðarvirkjun að Hellisheiðarvirkjun. Fyrrnefndur krani var notaður til verksins, en LNS Saga mun hafa keypt hann og flutt til landsins. Stefndi, A, er hins vegar umboðs- og þjónustuaðili fyrir Liebherr bílkrana hér á landi.

Tvenns konar réttindi þarf til að stjórna kranabifreiðinni. Annars vegar réttindi til að aka bifreiðinni sjálfri en til þess þarf meirapróf og getur því hver sem hefur þannig próf ekið kranabifreiðinni á milli staða. Hins vegar þarf sérstök réttindi til að vinna á krananum sjálfum við hífingar. Hjá LNS Sögu var starfandi kranamaður sem hafði bæði þessi réttindi og vann sá á kranabifreiðinni.

Sumarið 2015 var kranamaður LNS Sögu á leið í fæðingarorlof. Af þeim sökum þurfti LNS Saga að útvega sér afleysingarmann með viðeigandi réttindi. Mun LNS Saga hafa verið búið að tryggja sér einn slíkan frá Noregi, en sá komst ekki til starfa tímanlega, áður en kranamaður LNS Sögu hæfi töku fæðingarorlofs.

Til að brúa bilið leitaði LNS Saga til stefnda, A, til að kanna hvort mögulegt væri að fá starfsmann þess félags, stefnda B, lánaðan til að ganga í þau störf sem kranamaður LNS Sögu sinnti. Ástæða þess var sú að margir starfsmenn LNS Sögu höfðu unnið með B hjá I. þar á meðal verkstjóri LNS Sögu, C, og vissu því að B væri með þau réttindi sem þurfti.

Stefndi, A, féllst á að lána B, til LNS Sögu þennan tíma, gegn umsömdu endurgjaldi. Um fyrirkomulag vinnunnar og vinnuaðstæður var rætt beint við B. Þá mun ekki hafa legið fyrir hversu lengi B þyrfti að leysa af hjá LNS Sögu þar sem ekki var vitað hvenær afleysingamaðurinn frá Noregi gæti komið.

Hinn 27. maí 2015 hóf B störf hjá LNS Sögu. Verkstjóri á staðnum var D og fékk B fyrirmæli frá honum um það sem gera skyldi hverju sinni.

Óhappið átti sér stað síðla mánudagsins 1. júní 2015. Lögreglan og Vinnueftirlitið voru kölluð til. Í skýrslu Vinnueftirlitsins kemur fram að B hafi verið að hífa samsett andvægi á kranann fyrir notkun. Hann hafi lesið þyngdina af hliðum andvægjanna sem hafi virst tvískipt og hún samtals 6,35 tonn. Kemur fram að B hafi kynnt sér hífitölu kranans og talið hana leyfa þessa þyngd án stoðfóta en hann þó sett þá niður til öryggis. Þá kemur fram að B hafi ekki áttað sig á því að þau samsettu andvægi sem hann hífði voru í þremur hlutum en ekki tveimur eins og virst hafði. Eitt þeirra væri tvískipt og því auka 3,85 tonn sem voru samhliða á kranann en það var of mikið fyrir hann í þessari uppstillingu og hafi kraninn oltið.

Stefnandi greiddi tjónið sem varð á umræddri kranabifreið úr húftryggingu bifreiðarinnar og gerði í framhaldi af því endurkröfu á A og stefnda, VÍS. Stefndu höfnuðu kröfum stefnanda og höfðar hann því mál þetta og stefnir jafnframt B og gerir þá kröfu að stefndu greiði honum sameiginlega dómkröfu málsins.

 

II

1.         Helstu málsástæður stefnanda gagnvart Vátryggingafélagi Íslands hf. eru eftirfarandi:

Krafa stefnanda byggist á 22. gr. laga nr. 50/1993, 44. grein laga nr. 30/2004 og samskiptum málsaðila. Stefnandi hafi þegar greitt úr húftryggingu 38.955.203 kr. og endurkrefji því um þá upphæð.

Stefnandi telji engan vafa leika á því að A beri ábyrgð á tjóninu, sbr. bréf stefnanda frá 10. september 2015 til A og tölvupóst E, forstjóra frá 10. júní 2015 til VÍS. Af samskiptum stefnanda við A megi ráða að félagið taldi sig vátryggt hjá VÍS fyrir tjónum af þessum toga. Var því endurkröfu beint að VÍS í framhaldinu. Svarbréf VÍS sé frá 18. apríl 2016 og var endurkröfu stefnanda hafnað á tveimur forsendum: Að um væri að ræða samningskröfu, vanefnd á samningi (grein 4.2 í skilmálum) annars vegar og hins vegar með tilvísun til greinar 4.3.2 í skilmálum (vörsluundanþága).

Stefnandi telji það ekki fá staðist að hafna endurkröfu á þessum forsendum. Ljóst sé af bréfi VÍS frá 18. apríl 2016 að A sé með frjálsa ábyrgðartryggingu hjá VÍS sem taki til reksturs félagsins og að um greiðsluskyldu VÍS varðandi tjón sem A valdi fari eftir skilmálum AA20.

2.         Helstu málsástæður stefnanda gagnvart stefnda, A og B, eru eftirfarandi:

Stefnandi telur engan vafa leika á um sök stefnda, B, og vísar til almennu skaðabótareglunnar. Hvað varðar ábyrgð A sé vísað til húsbóndaábyrgðar vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna og almennu skaðabótareglunnar.

Stefnandi telur að LNS Saga hafi hvorki haft tök á né búið yfir þekkingu til að grípa inn í þegar stefndi, B , var að koma krananum fyrir og hífa á hann andvægin. Sú vinna að koma krananum fyrir og gera hann kláran fyrir hífingarvinnu hafi alfarið verið verk stefnda, B , og vinnuveitanda hans, A. Enginn á vegum LNS Sögu hafi komið að því verki eða gat komið að því verki.

Stefnandi telur augljóst að A, sem vinnuveitanda, B , hafi borið að fylgjast með því þegar verið var að koma krananum fyrir á vinnusvæðinu. A sé umboðsaðili krana af þessari gerð og honum hafi verið fullkunnugt um hvernig átti að koma krananum fyrir á vinnusvæði, hvað bar að varast þegar andvægum væri komið fyrir og hvaða varúðarráðstafanir bæri að gera.

Að áliti stefnanda sé ekki eingöngu um að ræða ábyrgð A á grundvelli húsbóndaábyrgðar heldur sé hér einnig sakarábyrgð þar sem verulega hafi skort á eftirlit og eftirfylgni við veitingu sérfræðiþjónustu.

Mistök stjórnanda kranabifreiðarinnar séu þess eðlis að ekki komi til álita að beita lækkunarheimildum 23. og 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Um stórkostlegt gáleysi hafi verið að ræða hjá stjórnanda kranabifreiðarinnar.

 

III

Sýknukrafa stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., byggist m.a. á eftirfarandi málsástæðum.

Stefndi telur að umrætt tjónsatvik falli ekki undir þá ábyrgðartryggingu atvinnurekstrar sem A var með hjá stefnda á þessum tíma.

Í fyrsta lagi, þar sem sá sem vann á kranabifreiðinni og hífði andvægin á kranann sem undirbúning fyrir notkun hans, B, var ekki starfsmaður A á þeim tíma þegar umstefnt atvik átti sér stað. Í öðru lagi, ef B telst hafa verið starfsmaður A þegar hann vann á kranabifreiðinni og hífði andvægin á kranann, eigi ákvæði skilmálanna, um atriði sem tryggingin bætir ekki, við um umstefnt atvik, auk þess sem saknæm háttsemi sé ósönnuð.

Sýknukrafa stefnda sé í fyrsta lagi byggð á því, að umstefnt atvik falli ekki undir ábyrgðartryggingu A hjá stefnda, þar sem B hafi ekki verið starfsmaður fyrirtækisins á þeim tíma þegar umstefnt atvik átti sér stað. Af þeim sökum komi ekki til álita að bótaréttur sé til staðar úr ábyrgðartryggingunni sem A var með hjá stefnda á þessum tíma.

Um sé að ræða hefðbundna ábyrgðartryggingu atvinnurekstrar sem nái m.a. yfir skaðabótaábyrgð sem fellur á A á grundvelli reglna um vinnuveitandaábyrgð. Til að svo geti verið þarf það skilyrði að vera uppfyllt að tjóni hafi verið valdið af starfsmanni A og í starfi fyrir það félag. B var ekki starfsmaður A og hann var ekki að vinna fyrir það félag þegar óhappið varð.

Stefndi telur að B hafi verið starfsmaður LNS Sögu og að störfum fyrir það félag þegar óhappið varð og þar með undir vinnuveitandaábyrgð þess félags. Kranabifreiðin hafi verið í umráðum LNS Sögu. Það félag stóð að þeim framkvæmdum á Hellisheiði sem nota átti kranabifreiðina til og hafði keypt hana og flutt til landsins. A átti þar engan hlut að máli og kom þannig á engan hátt að eða bar nokkur skylda til að veita LNS Sögu einhvers konar þjónustu tengda kranabifreiðinni, hvort sem var til notkunar hennar, við uppsetningu kranans eða með öðrum hætti. Eina ástæða þess, að A hafi blandast inn í málið, sé að LNS Saga fékk starfsmann A, B, til að ganga tímabundið í störf kranamanns LNS Sögu. Frumkvæðið kom frá LNS Sögu. Verkefni LNS Sögu á Hellisheiði var sinnt af starfsmönnum þess félags og/eða undirverktökum á þess vegum. LNS Saga hafði að öllu leyti yfirstjórnina og verkstjórnarvaldið yfir þeirri vinnu sem sneri að kranabifreiðinni og krananum, af hvaða toga sem var, og gaf B fyrirmæli um þau verk sem hann skyldi vinna. A hafði ekki boðvald sem vinnuveitandi yfir B þegar hann vann á kranabifreiðinni hjá LNS Sögu. Að mati stefnda sé því ekki nokkur vafi á því að vinnuveitandaábyrgð á B, þegar hann leysti kranastjórnanda LNS Sögu af, var alfarið hjá LNS Sögu.

Stefndi telur engu breyta hvort B  hafi talist leigður eða lánaðar starfsmaður í þetta sinn eða hvernig hann hafi fengið greitt á meðan hann vann verkið. Það eina sem skiptir máli sé að um var að ræða verk sem LNS Saga réð hvernig var unnið, hvar og hvenær. LNS Saga hafði allt verkstjórnarvald sem vinnuveitandi yfir þeim starfsmönnum sem unnu við það verk, þar á meðal B .

Þá byggist sýknukrafan á því að atvikið falli utan skilmála tryggingarinnar sem krafan snýr að. Einkum sé vísað til gr. 4.3.2, gr. 4.3.3 og gr. 4.5 í skilmálum þeim sem gilda um trygginguna. Því beri einnig að sýkna stenda VÍS.

Einnig byggist sýknukrafan á því að B  hafi ekki sýnt af sér saknæma háttsemi. Um óhappatilvik hafi verið að ræða og þá allt eins eigin sök starfsmanna LNS Sögu.

Stefndi byggir á því að eingöngu hafi verið við LNS Sögu að sakast hvernig fór fyrir krananum. Það félag réð því hvar unnið var með kranabifreiðina og hafði allt verkstjórnarvald á því sem var gert, hvar og hvernig. Ekki sé við kranamanninn, B , að sakast um hvernig fór enda hann fenginn til að vinna þetta verk fyrir LNS Sögu sem bar að sjá til að allar nauðsynlegar leiðbeiningar væru til staðar fyrir hann, í tengslum við kranabifreiðina og kranann, til að vinna eftir, eins og nánar er mælt fyrir um í lögum nr. 46/1980. Ósannað sé að svo hafi verið eða að hann hafi fengið alla þá aðstoð sem þurfti. Hafi það verið sérstaklega mikilvægt þegar litið sé til þess hvernig það kom til að B tók þetta verk að sér, auk þess sem hann sé ekki vanur stjórn kranabifreiða eins og þeirrar sem um ræðir, enda er það ekki hans starf. 

Þá bendir stefndi á að samkvæmt skýrslu Vinnueftirlitsins hafi ekki verið hægt að sjá með skýrum hætti, að um þrjú andvægi væri að ræða en ekki tvö. Sé ekki við B  að sakast um það heldur frekar LNS Sögu enda kraninn í umráðum þess félags.

Að mati stefnda hafi því ekki verið um að ræða neina saknæma háttsemi af hálfu B, heldur hafi þetta allt eins verið hreint og klárt óhapp sem engum verði kennt um, nema þá tjónþola sjálfum, og enginn ber því skaðabótaábyrgð á. Leiðir af því að ábyrgð á tjóni á krananum verður ekki lögð á annan, heldur verður tjónþoli, eigandi/umráðamaður kranans, að bera það að fullu sjálfur og byggir það á dómvenju.

IV

Helstu málsástæður stefnda, A , eru eftirfarandi:

Stefndi mótmælir að skapast hafi skilyrði til endurkröfu stefnanda gagnvart honum skv. 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eða öðrum réttarheimildum. Ekkert í lögum, reglugerðum, munnlegum eða skriflegum samningum aðila eða vátryggingaskilmálum gerir það að verkum að stefnandi eigi endurkröfurétt á stefnda A vegna tjóns á bílkrananum.

Þá hafnar stefndi skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda vegna óhappatilviksins 1. júní 2015. Engar forsendur séu til bóta byggðum á almennu sakarreglunni. Ósannað sé að stefndi, A, hafi vanrækt lögboðnar skyldur eða samningsskyldur, gerst sekur um háttsemi sem varðar við lög eða bakað sér á annan hátt skaðabótaskyldu með athöfn eða athafnaleysi.

Stefndi byggir á því, að samkomulag það sem E og F komust að f.h. félaganna, hafi verið takmarkað við að lána LNS Sögu nafngreindan starfsmann, til að starfa þar við þau verk sem verkstjórar teldu þörf á hverju sinni. Ekki var ábyrgst um réttindi hans eða kunnáttu sem kranamanns, þar sem hann starfaði við viðgerð á krönum hjá stefnda, A . Þaðan af síður var hann kynntur sem sérfræðingur í Liebherr LTM 1090-4 bílkrönum. Aðkoma stefnda, A, að verki LNS Sögu á Hellisheiði í maí og júní 2015 var einungis sú að gefa stefnda, B , þau fyrirmæli að mæta til vinnu hjá LNS Sögu á lánstímabilinu og fylgja fyrirmælum yfirmanna þar.

Stefndi, A, byggir á því sem málsástæðu, að venjubundin framkvæmd við skammtímalán á starfsmönnum milli fyrirtækja á þessu sviði sé að húsbóndaábyrgð á starfsmanni beri sá sem hafi boðvald yfir honum á hverjum tíma og sé í aðstöðu til að stjórna aðstæðum á vinnusvæði.

Þá skiptir engu þótt stefndi, A., hafi greitt laun stefnda, B, í þá daga sem hann var í láni. Stafaði það af hagræði fyrir stuttan lánstíma, en ekki þekkist innan byggingageirans að lán á starfsmanni í nokkra daga fari fram með því að hann sé settur á launaskrá hjá nýjum aðila. Fyrirkomulag launagreiðslna eða form reikninga hafði hins vegar ekki áhrif á fyrirkomulag vinnu eða þá staðreynd að uppfyllt voru öll skilyrði þess að telja stefnda, B, starfsmann LNS Sögu á dögunum 26. maí til og með 1. júní 2015.

Þá tekur stefndi, A, undir málsástæður annarra stefndu um að um óhappatilvik hafi verið að ræða og að ósönnuð sé saknæm háttsemi sem geti orðið grundvöllur skaðabótaábyrgðar. Ef talið yrði að um skaðabótaábyrgð væri að ræða, þá beri LNS Saga þá ábyrgð að hluta eða heild, þar sem skorti á skipulag, verkstjórn, aðstoð og undirbúning sem LNS Saga var ábyrgt fyrir.

 

V

            Helstu málsástæður stefnda, B.

Stefndi, B, hafnar því að stefnandi eigi endurkröfurétt gagnvart honum eða að hann beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda. Ósönnuð sé saknæm háttsemi af hálfu stefnda. Málsástæða stefnda sé að um óhappatilvik hafi verið að ræða og að hann beri ekki skaðabótaábyrgð á tjóninu.

Ef stefndi væri talinn bera einhverja ábyrgð á tjóninu væri um að ræða afsakanlega vanþekkingu á búnaði sem stefndi hefur ekki unnið með áður eða í versta falli einfalt gáleysi. Ákvæði 23. og 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 ættu óhjákvæmilega við, ef um einhverja sök væri að ræða. Vinnuveitendaábyrgð LNS Sögu sé skýr í málinu og húftrygging hjá stefnanda hefur bætt allt tjónið. Ekkert í vátryggingaskilmálum gerir það að verkum að stefnandi eigi endurkröfurétt á stefnda.

Það sé málsástæða stefnda að allt mögulegt tjón sem gæti hafa hlotist af þeim verkum sem stefndi vann sé á ábyrgð LNS Sögu og vátryggingaraðila þeirra. Hafi aðstæður á vinnustað stuðlað að óhappinu á einhvern hátt var verkstjórn og undirbúningur að öllu leyti í höndum LNS Sögu. Ábyrgð á því að kenna stefnda á tækið og kynna honum á hvaða hátt það væri frábrugðið krönum, sem hann hafði áður stjórnað, var í höndum LNS Sögu og ábyrgð á verkstjórn var það einnig.

LNS Sögu bar að sjá til þess að allar nauðsynlegar leiðbeiningar væru til staðar fyrir bílkranann, sbr. ákvæði í lögum nr. 46/1980. Fram kemur í stefnu að „gera megi ráð fyrir“ að slíkar leiðbeiningar hafi verið fyrir hendi. Málsástæða stefnda sé að með þessu sé viðurkennt af hálfu stefnanda að ósannað sé að LNS Saga hafi uppfyllt skyldu sína sem vinnuveitandi að þessu leyti. Sönnur um slíkt standa stefnanda næstar.

Stefndi hafi verið lánaður LNS Sögu þar sem hann hafði réttindi til að stjórna bílkrana, en stefndi gaf sig aldrei út fyrir að vera sérfræðingur í Liebherr LTM 1090-4.1 bílkrönum, enda hafði hann aldrei stjórnað slíkum krana áður. Þá tók stefndi ekki að sér verkstjórn eða veitingu sérfræðiþjónustu, aðeins að aka og stjórna bílkrana sem LNS Saga útvegaði, eftir fyrirmælum verkstjóra LNS Sögu.

Það var samkvæmt fyrirmælum verkstjóra hjá LNS Sögu að stefndi fór að þeim stað sem óhappið átti sér stað án aðstoðarmanns og fyrirmæli verkstjóra um að flýta sér að gera bílkranann tilbúinn að hífa olli því að ekki var unnt að bíða eftir aðstoðarmanni. Svæðið þar sem andvægin voru hífð á var sömuleiðis valið af verkstjóra LNS Sögu.

Hafi saknæm vanræksla átt sér stað sé það málsástæða stefnda, að sú vanræksla hafi verið við verkstjórn LNS Sögu, undirbúning verksins og ónógri fræðslu um hvernig vinnutæki væru frábrugðin þeim sem stefndi væri vanur. Sá flýtir sem stefnda var skipað að hafa á og það að hann hafi ekki fengið aðstoðarmann við verkið voru óhjákvæmilega þættir sem stuðluðu að því óhappi sem varð.

Það sé einnig málsástæða stefnda, að það geti aldrei verið stórkostlegt gáleysi að hafa ekki séð að annað andvægið var tvískipt og þannig þörf að telja þyngd þess tvisvar. Án aðstoðarmanns var stefnda ómögulegt að sjá það úr sæti sínu og það tók Hannes Snorrason frá Vinnueftirliti nokkurn tíma að finna út úr því þegar hann rannsakaði kranann eftir óhappið.

Aðferð sú sem stefndi beitti við að hífa á andvægi var eðlileg og örugg, ef þyngd andvægjanna hefði verið sú, sem stefndi las af þeim. Stefndi var fjarri öðrum starfsmönnum og var engum stefnt í hættu. Vegna fyrirmæla um að hafa hraðann á gat stefndi ekki fengið aðstoð og var það ákvörðun verkstjóra að senda engan með honum.

Hafi stefndi við þær aðstæður gert mistök, með að sjá ekki að þörf væri að leggja saman þyngdir á báðum hliðum annars andvægisins, voru það afsakanleg mistök. Ekki væri sanngjarnt, sbr. 23. og 24. gr. skaðabótalaga, að fella ábyrgð á stefnda í stað vinnuveitanda og vátryggingaraðila. Þá væri það stefnda mjög þungbært að bera einhvern hluta tjónsins, sbr. 24. gr. skaðabótalaga.

 

VI

            Meginágreiningsefni málsins lýtur að því hvort stefndi, B, hafi hinn 1. júní 2015 verið starfsmaður stefnda, A eða LNS Sögu. Fyrir dómi gáfu hann og E, forstjóri A aðilaskýrslur. Vitnaskýrslur gáfu G, þjónustustjóri A, og þáverandi starfsmenn LNS Sögu, þeir F, H og D. Í meginatriðum voru framburðir þeirra samhljóða um ráðningu stefnda, B, til LNS Sögu og hvernig vinnu hans hefði verið háttað þar.

            Fyrir dómi kom fram að tildrög þess að stefndi, B, var lánaður LNS Sögu voru þau að kranamaður þess fyrirtækis fór í fæðingarorlof. Fram kom að búið var að leita að kranamanni hér á landi en enginn með tilskilin réttindi hafi fundist og beðið var eftir afleysingarmanni frá Noregi. Starfsmenn LNS Sögu þekktu til stefnda, B, þar sem hann hafði unnið með einhverjum þeirra áður. Jafnframt vissu þeir að hann hafði tilskilin réttindi á kranann. F hitti E og falaðist eftir því að fá B  lánaðan. Það var auðsótt mál af hendi E og kvað E fyrir dómi, LNS Sögu vera einn helsta viðskiptavin stefnda, A. E kvaðst hafa gert þetta af greiðasemi og vísað á G um framhald málsins. Úr varð að B  var lánaður til verksins. Af framburðum fyrir dómi verður ekki annað ráðið en að stefndi, B, hafi verið lánaður LNS Sögu af greiðasemi þar sem hann var sá eini sem vitað var um að hefði tilskilin réttindi á kranann. Þar af leiðandi er því hafnað að stefndi, A , hafi verið að lána sérfræðing með þeirri ábyrgð sem því fylgir eða að selja út sérfræðiþjónustu.

B starfaði á vinnusvæði LNS Sögu ásamt öðrum starfsmönnum þess fyrirtækis. LNS Saga ákvað vinnutilhögun B, það er hvað hann ætti að gera, hvernig og hvar. Þá var hann með sama vinnutíma og aðrir starfsmenn LNS Sögu og notaði sama mötuneyti og þeir. B laut boðvaldi verkstjóra LNS Sögu og ágreiningslaust er að verkið var unnið í þágu LNS Sögu. Samkvæmt framburðum fyrir dómi hafði A engin afskipti af störfum B á því tímabili er hann var lánaður LSN Sögu og starf hans tengdist ekki neinu verki hjá A.

Stefnandi byggir á því að stefndi, A, hafi greitt laun stefnda, B. Til að takmarka tjón sitt sendi stefndi, A, reikning á LNS Sögu sem mun hafa dekkað laun B. Með hliðsjón af dómi Hæstaréttar frá 1976 á bls. 167 skiptir ekki máli hver greiðir laun þegar starfsmaður er lánaður í tiltekið verk. Þegar litið er heildstætt á atvik málsins er það niðurstaða dómsins að LNS Saga hafi borið vinnuveitendaábyrgð vegna starfa B  er óhappið átti sér stað.

Krafa stefnanda byggist á 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en þar segir að stofnist skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem skaðatrygging taki til öðlist vátryggingarfélagið rétt tjónþola á hendur hinum skaðabótaskylda að svo miklu leyti sem það hefur greitt bætur. Með vísan til þess sem að framan greinir hvílir vinnuveitendaábyrgðin á LNS Sögu en ekki A og ber því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.

            Stefnandi krefst þess að stefndi, B, verði dæmdur til að bæta stefnanda tjóns sitt og vísar til almennu skaðabótareglunnar. Stefnandi heldur því fram að LNS Saga hafi hvorki haft tök á né búið yfir þekkingu til að grípa inn í það þegar stefndi, B, var að koma krananum fyrir og hífa á hann andvægin. Það hafi verið verk stefnda B, og vinnuveitanda hans, A. Enginn frá LNS Sögu hafi komið að því verki. Þá telur stefnandi augljóst að A, sem vinnuveitanda A, hafi borið að fylgjast með þegar verið var að koma krananum fyrir á vinnustæðinu. Þá byggir stefnandi á því að einnig sé um sakarábyrgð að ræða hjá A þar sem verulega hafi skort á eftirlit og eftirfylgni við veitingu sérfræðiþjónustu. Að lokum telur stefnandi að um stórkostlegt gáleysi sé að ræða hjá stefnda, B.

            Stefndi, B, hafnar því að stefnandi eigi endurkröfurétt á hendur honum og að hann beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda. Telur stefndi, B, að um óhappatilvik hafi verið að ræða. Hann sé hvorki sjálfstæður verktaki né hafi hann veitt sérfræðiþjónustu á vegum stefnda, A. Hann telur að allt mögulegt tjón sem gæti hafa hlotist af þeim verkum sem hann sinnti sé á ábyrgð LNS Sögu og vátryggingaraðila þeirra.

            Hér er til þess að líta að stefndi, B, var lánaður LNS Sögu af greiðasemi. Hann hafði aldrei unnið á sambærilegan krana og LNS Saga notaði, og þekkti hann ekki sérstaklega, enda sennilega eini kraninn þessarar tegundar hér á landi. Stefndi hafði þó réttindi til að stjórna honum. Hér að framan hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að LNS Saga hafi borið vinnuveitendaábyrgð á stefnda, B. Telja verður að LNS Saga hafi ekki sinnt þeirri skyldu sem á því félagi hvíldi er B kom til starfa hjá félaginu. Honum var sagt að lyklarnir að krananum væru ofan á vinstra framhjóli. Hvorki voru nauðsynlegar leiðbeiningar veittar af hálfu LNS Sögu né heldur var honum látin í té aðstoð, sem hefði verið til bóta að hans mati.

            Í skýrslu Vinnueftirlitsins kemur fram að stefndi, B, hafi kynnt sér hífitölur kranans og álitið að hún leyfði þessa þyngd án stoðfóta. B hafði þó sett stoðfætur niður, án þess að draga þá út, til frekara öryggis. Í skýrslunni kemur fram að B hafi ekki áttað sig á hvað hefði orsakað óhappið fyrr en eftirlitsmaður benti honum á að samsettu andvægin væru í þremur hlutum en ekki tveimur eins og virtist við fyrstu sýn. Þegar þetta er metið er það niðurstaða dómsins að ekki hafi verið um saknæma háttsemi að ræða hjá stefnda, B, heldur sé hér um óhappatilvik að ræða, sem engum er um að kenna og er stefndi, B, því sýknaður af kröfum stefnanda.

            Niðurstaða málsins er sú að stefnandi hafi ekki sýnt fram á stefndu beri ábyrgð á tjóni því sem varð 1. júní 2015 og verða stefndu því sýknaðir af öllum kröfum stefnanda.

            Með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefndu málskostnað svo sem greinir í dómsorði.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ

Stefndu, Vátryggingafélag Íslands hf., A. og B, eru sýknaðir af öllum kröfum stefnanda.

Stefnandi, Sjóvá Almennar tryggingar hf., greiði stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., 1.240.000 kr., A 1.240.000 kr. og B 1.500.000 kr. í málskostnað.