• Lykilorð:
  • Líkamstjón
  • Matsgerð
  • Skaðabætur
  • Sönnun
  • Vátrygging
  • Vinnuslys
  • Örorka
  • Skaðabótamál, miski/örorka

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október í máli nr. E-3435/2017:

A

(Sveinbjörn Claessen lögmaður))

gegn

Eykt ehf. og

Tryggingamiðstöðinni hf.

(Hjörleifur B. Kvaran lögmaður)

 

            Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 30. október 2017 og dómtekið 17. september 2018. Stefnandi er A  og stefndu Eykt ehf., Stórhöfða 34–40, Reykjavík, og Tryggingamiðstöðin hf., Síðumúla 24, Reykjavík.

            Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndu beri óskipta skaðabótaábyrgð á líkamstjóni sem stefnandi varð fyrir í slysi hinn 5. júní 2014 auk málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

            Stefndu krefjast sýknu auk málskostnaðar.

 

I.

Málsatvik og helstu ágreiningsefni

Stefnandi starfaði að uppsetningu rafmagnskerfis við nýbyggingu Fosshótels við Höfðatorg í Reykjavík. Þann 5. júní 2014 var stefnandi staddur á 6. hæð byggingarinnar við að leggja raflagnir. Á hæðinni eru opin göt í gólfplötunni fyrir leiðslur sem ganga á milli hæða. Lokað er fyrir þessi göt á síðari stigum framkvæmdarinnar, en fyllt var upp í götin með frauðplasti þegar slysið varð. Stefnandi steig í eitt gatið með þeim afleiðingum að fóturinn fór í gegnum plastið og meiddist stefnandi á fætinum. Afleiðingar slyssins voru metnar til 5% læknisfræðilegrar örorku. Stefndi Eykt ehf. var með ábyrgðartryggingu hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni hf. á slysdegi. Með bréfi 26. október 2015 fór stefnandi þess á leit að stefndi Tryggingamiðstöðin viðurkenndi greiðsluskyldu sína úr tryggingunni á grundvelli óforsvaranlegra vinnuaðstæðna og vanrækslu aðalverktaka á því að tryggja öryggi starfsmanna á byggingarstað. Með bréfi 7. apríl 2016 var kröfunni hafnað með þeim rökum að stefnanda hefði verið kunnugt um tilveru, frágang og staðsetningu gatanna. Ágreiningur er um það hvort á slysdegi hafi verið búið að steypa vegg við gatið og gatið hafi þar af leiðandi ekki verið í gönguleið, en göt á gönguleiðum eru varin á annan hátt og frágangur þeirra háður aðstæðum hverju sinni.

            Stefnandi bar synjun stefnda undir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum og komst hún með áliti 4. júlí 2017 í máli nr. 400/2016 að þeirri niðurstöðu að bótaskylda væri ekki fyrir hendi.

            Fyrir dómi gáfu skýrslu stefnandi sjálfur og P húsasmiður og verkstjóri hjá stefnda Eykt ehf. Þá liggur fyrir skýrsla I, samstarfsmanns stefnanda, sem varð vitni að slysinu, sbr. vitnamál V-1/2017 frá 3. maí 2017.

            Ágreiningur í þessu máli varðar það hvort stefnandi hafi orðið fyrir bótaskyldu slysi við störf sín þann 5. júní 2014.

 

II.

Helstu málsástæður stefnanda

            Stefnandi byggir á því að stefndi Eykt ehf. beri ábyrgð á líkamstjóninu sem sé afleiðing af óforsvaranlegum umbúnaði á vinnustað og vanrækslu fyrirsvarsmanna Eyktar á því að halda vinnusvæði og gönguleiðum greiðfærum og öruggum og jafnframt tryggja öryggi starfsmanna á byggingarsvæði. Krafa á hendur stefnda Tryggingamiðstöðinni hf. er byggð á 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.

            Stefnandi byggir á því að ekki hafi verið búið að reisa vegg við hliðina á gatinu þegar slysið varð. Það sé staðfest með framburði vitnisins I sem var samstarfsmaður stefnanda og vitni að slysinu. Gatið hafi því ekki verið utan gönguleiðar, heldur á vinnusvæði stefnda og hulið með plasti bæði áður en og eftir að veggurinn var reistur. Vitni hafi jafnframt staðfest að stefnandi hefði ekki farið óvarlega þegar slysið varð og einnig að sambærilegt slys hefði hent annan starfsmann nokkru áður. Að mati vitnisins hafi götin ekki verið sérlega áberandi og mönnum óvönum vinnustaðnum hafi ekki verið kunnugt um hættuna sem af þeim stafaði.

            Stefnandi byggir jafnframt á því að óvarin göt sem voru í gólfi vinnustaðarins hafi valdið slysahættu sem gangi gegn lögbundnum skyldum forsvarsmanna Eyktar til að tryggja að á vinnustað sé gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta, sbr. 13. og 1. mgr. 42. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sbr. einnig 1. mgr. 6. gr. reglna nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum.

            Stefnandi vísar til 1. mgr. 8. gr. B-hluta IV. viðauka reglna nr. 547/1996 um að á gólfum vinnustaða megi ekki vera neinar hættulegar upphækkanir, göt eða hallar. Í 33. gr. B-hluta sama viðauka er að finna nánari útfærslu á því hvernig búa skuli um göt í gólfum þannig að af þeim stafi ekki slysahætta. Stefnandi byggir á því að aðstæður á vinnustað hafi ekki samræmst ákvæðum reglnanna, sbr. einkum 3. mgr. 33. gr. þar sem segir að ekki megi loka götum í gólfum með lausum borðum, plönkum, plötum, hurðum eða öðru slíku. Gatinu sem stefnandi steig í gegnum hafi verið lokað með einangrunarplasti sem lætur undan um leið og stigið er á það. Þær ráðstafanir sem stefndi hafi gert til þess að loka götunum hafi alls ekki verið nægjanlegar til að draga úr hættu heldur hafi þau þvert á móti falið hættuna með þeim afleiðingum að stefnandi slasaðist.

            Stefnandi mótmælir því að þegar slysið varð þá hafi kassi verið utan um götin og þau því verið vel sjáanleg eins og stefndi hefur haldið fram. Götin hafi verið afmörkuð með mótum úr tré, eftir að rafvirkjarnir, þ.m.t. stefnandi, höfðu lokið vinnu sinni. Trémótin hafi verið sett upp rétt áður en gólfplatan var steypt í síðara skiptið til að varna því að steypa rynni ofan í götin.

            Stefnandi vísar til þess að stefndi Eykt beri ábyrgð á skaðaverkum sem húsasmíðameistari nýbyggingarinnar, Pétur Guðmundsson, stjórnarformaður stefnda Eyktar ehf., valdi í störfum sínum á grundvelli reglu skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð. Í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé að finna ákvæði um ábyrgðarsvið húsasmíðameistara, sbr. gr. 4.10.3. Þar segi að húsasmíðameistari, sem staðfest hafi ábyrgð sína á verki, beri m.a. ábyrgð á að öll trésmíðavinna sé framkvæmd í samræmi við góða starfshætti, þar með talið steypumót og allir stokkar og göt sem í þau koma, m.a. vegna lagna, sbr. a-lið ákvæðisins. Það hafi verið á ábyrgð húsasmíðameistarans að tryggja öryggi vinnandi fólks í nýbyggingunni með því að gæta að tryggum og öruggum frágangi gatanna í gólfplötunni sem stefnandi steig í. Það sé í samræmi við markmið reglugerðarinnar að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt, sbr. a-lið gr. 1.1.1.

 

III.

Helstu málsástæður stefndu

            Stefndu byggja á því að þeir áverkar sem stefnandi lýsi verði ekki raktir til atviksins 5. júní 2014 og að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir bótaskyldu slysi við störf sín þann dag. Samkvæmt læknisvottorði Jóns Baldurssonar, dagsettu 24. mars 2015, hafi stefnandi leitað til bráðadeildar LSH kl. 20:57 á slysdegi. Þá hafi verið smáhrufl á hægri sköflungi sem stefnandi hafi gert lítið úr og ekki fundið mikil til þar. Örlítil bólga hafi verið á framanverðu vinstra hné, sem hafi þó verið væg. Hreyfigeta hafi verið óhindruð og engin einkenni um los við álagspróf á liðbönd eða krossbönd. Í læknisvottorðinu sé ekki minnst á nein bakmeiðsl. Í tilkynningu til sjúkratrygginga Íslands komi fram að stefnandi hafi verið frá vinnu í þrjár klukkustundir vegna atviksins. Vitnið I segir að stefnandi hafi eitthvað rispast á lærinu.

            Stefnandi hafi leitað til Heilsugæslunnar á Seltjarnarnesi þann 1. apríl 2015, eða um 10 mánuðum síðar, og þá kvartað um verk í vinstra hnénu. Ekkert sé minnst á bakmeiðsl eða bakverki. Í vottorði Andra Karlssonar læknis, dagsettu 29. júní 2015, komi fram að það hafi ekki verið fyrr en í fyrstu komu til læknisins þann 29. apríl 2015 sem stefnandi hafi kvartað yfir verkjum í mjóbaki og hálsi, eða tæplega ellefu mánuðum eftir slysið. Þá sé fyrst getið um einkenni í hægra hné þann 25. ágúst 2015. Einkenni í vinstra hné, sem hafi verið minni háttar við komu til læknis, endi með aðgerð í desember 2015. Atvinnurekanda stefnanda, Rafís ehf., hafi ekki orðið kunnugt um slysið fyrr en í maí 2015 eða 11 mánuðum eftir að það gerðist og stefnda Eykt ekki fyrr en í nóvember 2015.

            Stefndu vísa til þess að stefnandi var reyndur rafvirki sem hafði starfað í níu mánuði hjá atvinnurekanda sínum, Rafís ehf., sem var undirverktaki við byggingu Fosshótels. Frágangur á 6. hæð byggingarinnar hafi verið með sama hætti og á neðri hæðum hennar, sem stefnandi hafði unnið við og hafi hann því þekkt vel til allra aðstæðna.

            Stefndi byggir á því að umrædd göt í gólfinu séu í samræmi við hefðbundið fyrirkomulag, sem þeim sem vinna við slíkar byggingar sé fullkunnugt um. Götin séu afmörkuð með mótum úr tré og standi upp úr steyptri plötu. Þau séu ekki í gönguleið heldur með veggjum. Í einhverjum tilvikum séu þau klædd með plasti til að verja vatnsgang niður á næstu hæðir. Starfsmönnum sem hafi unnið við veitulagnir og uppsteypu hafi verið fulljóst um frágang á götum og tilgang þeirra.   

            Stefndi vísar til þess að vitnisburður I hafi verið gefinn þremur árum eftir atvikið og verði að skoðast í því ljósi. Samkvæmt fundargerðum sem færðar voru á þessum tíma hafi uppsteypan verið langt komin 5. júní því 11. júní hafi verið byrjað að steypa plötu ofan á 6. hæð, en það sé ekki gert fyrr en búið sé að setja upp og steypa milliveggi fyrir neðan. Mótum sé slegið upp töluvert fyrr. Á slysdegi hafi því verið kominn veggur við gatið, annaðhvort steyptur eða í formi steypumóta.

            Stefndu byggja á því að stefndi Eykt ehf. hafi að öllu leyti fylgt þeim lögum og reglum sem gildi um starfsemi hans eftir því sem hægt var og aðstæður leyfðu. Stefnandi hafi aldrei komið á framfæri við atvinnurekanda sinn, Rafís ehf., eða stefnda Eykt athugasemdum um að aðbúnaði væri áfátt eða öryggisráðstafanir á vinnustaðnum ófullnægjandi, sbr. 1. og 2. mgr. 26. gr. laga nr. 46/1980.

            Stefndi vísar til þess að slys stefnanda hafi ekki verið tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins fyrr en í maí 2015 enda vafasamt að það hafi verið skylt samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980. Í því tilviki sem hér um ræðir hafi stefnandi einungis verið þrjár klukkustundir frá vinnu. Atvinnurekandinn Rafís ehf. hafi fengið vitneskju um slysið í maí 2015 og stefndi Eykt í nóvember 2015. Hvorugum hafi því gefist tækifæri til að kanna atvikið og grípa til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar séu þegar slys gerast. Þeim verði því ekki kennt um skort á samtímaupplýsingum um atvikið. Þvert á móti leiði þessi skortur til þess að stefndi beri hallann af því að fullnægjandi sönnun um málsatvik liggur ekki fyrir.

            Loks vísar stefndi til þess að samkvæmt vitnisburði I hafi svokallað uppsteypugengi unnið við uppsteypu og fengið hjálp þegar mikið var að gera. Þeir sem komu að hjálpa hafi oft ekki verið vanir og vissu þá mögulega ekki af hættunni. Stefnandi hafi verið óreyndur í þessum störfum og kallaður til þegar aðstoð vantaði. Stefndi geti ekki borið ábyrgð á því að vinnuveitandi stefnanda hafi falið óreyndum mönnum að vinna þetta verk. Þá hafi stefnanda borið að hlíta öryggisreglum vinnuveitanda síns, Rafís ehf., þegar hann hafi verið að setja rafmagn í veggi. 

 

III.

Niðurstaða

            Í skýrslu stefnanda fyrir dómi skýrði hann frá því að hann hefði verið fjarverandi í eina viku eftir slysið þann 5. júní 2014 og síðan verið að missa úr vinnu öðru hvoru eftir það. Þrátt fyrir það liggur fyrir að vinnuveitandi hans vissi ekki af slysinu fyrr en í maí 2015 og stefndu varð ekki kunnugt um slysið fyrr en í nóvember 2015. Í tilkynningu stefnanda til Sjúkratrygginga Íslands, dagsettri 21. apríl 2015 og undirritaðri af stefnanda og Rafís, sem var atvinnurekandi hans á þessum tíma, kemur fram að stefnandi var einungis óvinnufær vegna slyssins í þrjár klukkustundir á slysdegi eða á tímabilinu frá kl. 15:00 til 18:00. Í tilkynningu um vinnuslysið til Vinnueftirlitsins þann 26. maí 2015, sem er undirrituð af Rafís ehf., kemur fram að fyrirtækinu hafi, sem atvinnurekanda stefnanda, ekki verið tilkynnt um slysið fyrr en í maí 2015, en það fær ekki staðist ef stefnandi var fjarverandi í vikutíma í kjölfar slyssins. Í matsgerð sem stefnandi aflaði einhliða er vísað til bréfs Rafís ehf. Þar kemur fram að stefnandi er frá vinnu í tíu daga á árinu 2014, þar af átta daga áður en slysið varð. Fullyrðingar hans um fjarveru frá vinnu í framhaldi af slysinu stangast því á við fyrirliggjandi gögn sem stafa frá honum sjálfum.

            Í læknisvottorði sem er byggt á sjúkraskýrslum bráðadeildar Landspítala Háskólasjúkrahúss er áverkanum lýst við komu sem örlítilli bólgu á vinstra hné sem þó hafi verið væg og engin eymsli yfir beinabyggingunni. Hreyfigeta hafi verið óhindruð og engin einkenni við álagspróf á liðbönd eða krossbönd. Varðandi áframhaldandi meðferð var vísað til þess að ef ekki væri komin klár framför að viku liðinni þyrfti bæklunarlæknir að líta á stefnanda, og voru bæklunarlæknar í Orkuhúsinu beðnir að taka það að sér ef á þyrfti að halda. Ekki er getið um frekari komur til lækna Landspítalans vegna þessa og ekkert er fyrirliggjandi um að leitað hafi verið til bæklunarlækna í Orkuhúsinu fyrr en 29. apríl 2015. Nokkru áður hafði stefnandi komið á Heilsugæsluna á Seltjarnarnesi þar sem hann sagðist hafa verið með stöðugan verk í vinstra hné frá slysinu.

            Í stefnu og í skýrslugjöf fyrir dómi kemur fram að stefnandi hafi strax í kjölfar slyssins fundið fyrir verkjum í mjóbaki og hálsi. Lýsingu á þessum verkjum er einnig að finna í læknisvottorði Andra Karlssonar, bæklunarlæknis hjá Orkuhúsinu, sem dagsett er 29. júní 2015, en þar kemur fram að ekki sé unnt að greina annað en góða verkjalausa hreyfigetu bæði í hálsi og baki. Þá kvartar stefnandi yfir eymslum í hægra hné í eftirliti hjá Orkuhúsinu 25. ágúst 2008. Stefnandi minnist hvorki á þessa áverka við komu til bráðadeildar Landspítalans þann 5. júní 2014 né Heilsugæslunnar á Seltjarnarnesi þann 1. apríl 2015.

            Í málinu liggur fyrir matsgerð, dagsett 16. nóvember 2016, sem unnin var að beiðni stefnanda og Vátryggingafélags Íslands hf. á grundvelli laga nr. 50/1993. Þar er varanleg læknisfræðileg örorka stefnanda metin 5%. Slíkt mat hefur ekki sömu stöðu og matsgerð samkvæmt IX. kafla einkamálalaga nr. 91/1991. Stefndu áttu ekki aðild að matinu, heldur var þess aflað án samráðs við þá. Þeir voru ekki boðaðir á matsfund, en gafst tækifæri til að koma athugasemdum á framfæri við matsmann eftir að skoðun hafði farið fram. Í matinu segir að meiri líkur en minni séu á því að um orsaka-samhengi sé að ræða milli slyssins 5. júní 2014 og einkenna frá vinstra hné. Hins vegar sé ekki hægt að tengja einkenni frá hálsi og baki við slysið þar sem þeim sé fyrst lýst svo löngu eftir slysið.

            Fyrir liggur að stefnandi leitaði ekki til lækna Orkuhússins í kjölfar slyssins, þó að sérstök áhersla hefði verið lögð á það strax við skoðun á slysdegi, ef afgerandi bati væri ekki kominn fram innan viku. Jafnframt var bæklunarlæknum í Orkuhúsinu sérstaklega gert viðvart um að taka að sér meðhöndlun stefnanda að viku liðinni, ef batinn myndi láta á sér standa. Stefnandi heldur því fram að hann hafi haft stöðuga verki í vinstra hné frá slysinu og verið frá í vikutíma. Þrátt fyrir það leitaði hann hvorki þeirrar meðhöndlunar sem lögð var til grundvallar á slysdegi né upplýsti stefndu um slysið. Frásögn hans er ekki í samræmi við fyrirliggjandi gögn, og matsgerðir sem einhliða var aflað af stefnanda sjálfum, án aðkomu stefndu, breyta því ekki að líta verður svo á að stefnanda hafi ekki tekist að sanna að hann hafi orðið fyrir bótaskyldu slysi við störf sín þann 5. júní 2014.

            Stefnandi steig ofan í eitt af þeim lagnagötum sem voru í gólfplötunni á hótelbyggingunni við Þórunnartún. Þessi göt voru 23 x 80 cm og 23 x 100 cm. Lagnagötin voru nauðsynleg til þess að hægt væri að leiða lagnir á milli hæða, en vinna stefnanda fólst í því að leggja raflagnir í gegnum þessi göt. Það var því óhjákvæmileg forsenda í verkferlinu að skilja eftir lagnagöt í gólfplötunni til að stefnandi gæti innt vinnu sína af hendi. Þegar slysið varð var hann að vinna á sjöttu hæð hússins. Stefnandi hafði komið að raflagnavinnu á neðri hæðum byggingarinnar, en frágangur þar var með sama hætti. Honum var því fullkunnugt um það hvar umrædd göt voru staðsett og hvernig frágangi á þeim var háttað. 

            Í málinu er deilt um hvort búið hafi verið að steypa veggi eða slá upp mótum á þeim degi þegar slysið varð. Jafnframt er deilt um hvort götin hafi verið afmörkuð með mótum úr tré sem standa 5–10 cm upp úr steyptri plötu. Stefnandi gat ekki tilgreint nákvæmlega í skýrslugjöf fyrir dómi hvar slysið hefði orðið, en samkvæmt vitnisburði samstarfsmanns stefnanda fyrir dómi þann 3. maí 2017, eða tæplega þremur árum eftir að slysið varð, var veggurinn ekki kominn á þessum tíma. Samkvæmt staðarfundargerðum er byrjað að steypa plötu ofan á 6. hæð þann 11. júní en það er ekki gert fyrr en búið er að steypa upp milliveggi á hæðinni fyrir neðan. Áður en veggirnir eru steyptir er búið að slá upp mótum fyrir veggina. Þar sem stefndu var ekki tilkynnt um slysið höfðu þeir enga möguleika á því að fara yfir þær aðstæður sem voru á vinnustaðnum þegar slysið varð. Stefnandi verður því að bera hallann af því að fullnægjandi sönnun um málsatvik og vinnuaðstæður liggur ekki fyrir.

            Með vísan til þess að umrædd lagnagöt voru nauðsynleg forsenda fyrir vinnu stefnanda, sem vegna vinnu sinnar á neðri hæðum byggingarinnar hlaut að hafa þekkt nákvæmlega til staðsetningar og frágangs þeirra, auk þess sem ekki liggur fyrir að frágangur þeirra hafi verið óhefðbundinn, þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að stefndu beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda.

            Með hliðsjón af atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

            Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 1.500.000 krónur.

            Af hálfu stefnanda flutti málið Sveinbjörn Claessen lögmaður.

            Af hálfu stefndu flutti málið Hjörleifur Kvaran lögmaður.

            Helgi Sigurðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                            Dómsorð:

            Stefndu, Eykt ehf. og Tryggingamiðstöðin hf., eru sýknaðir af kröfum stefnanda.

            Málskostnaður fellur niður.

            Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Sveinbjörns Claessen, 1.500.000 krónur.

 

                                                            Helgi Sigurðsson (sign.).