• Lykilorð:
  • Matsgerð
  • Skaðabætur
  • Skip
  • Vátryggingamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2019 í máli nr. E-2018/2018:

Þorgrímur Ómar Tavsen

(Guðmundur Ágústsson lögmaður)

gegn 

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Ingvar Sveinbjörnsson lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð þess þann 14. mars sl., er höfðað af Þorgrími Ómari Tavsen, [--], 220 Hafnarfirði, með stefnu birtri 12. júní 2018 á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum, Kringlunni 5, 103 Reykjavík.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 7.527.000 krónur, ásamt almennum vöxtum, sbr. 6. mgr. 50. gr. vátryggingarlaga nr. 30/2004 og 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 21. júní 2015 til 3. desember 2016, en þá með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 6. mgr. 50. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun, dags. 4. júní 2018, að fjárhæð 1.600.000 krónur, sem dragast skal frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti en að frádreginni innborgun, dags. 4. júní 2018, að fjárhæð 907.470 krónur, sem dragast skal frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi.

Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnda verði dæmdur málskostnaður, en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður falli niður og dráttarvextir verði þá einungis dæmdir frá dómsuppsögu.

 

Ágreiningsefni og málsatvik

Stefnandi, sem er eigandi bátsins Skvettu SK-7, með skipaskráningarnúmer 1428 (nú Dagný IS-34), kveðst hafa tryggt bátinn altryggingu (húftryggingu) hjá stefnda, sbr. fyrirliggjandi vátryggingarsamning aðila nr. 2225408 frá 30. desember 2015 (endurnýjun). Samkvæmt tryggingaskilmálum nr. 410 nær umrædd trygging meðal annars til þess ef báturinn ferst eða skemmist í óveðri. Ekki er ágreiningur í málinu um að slíkt veður gekk yfir Njarðvíkurhöfn 6. mars 2015 þar sem báturinn var í höfn. Telur stefnandi að báturinn hafi í veðrinu slitnað frá bryggju, annað hvort að framan eða að aftanverðu, en honum var bjargað af starfsmönnum hafnarinnar í Njarðvík áður en hann lenti í grjótgarðinum. Kveður stefnandi að hann hafi tilkynnt stefnda um óhappið skömmu síðar, sbr. fyrirliggjandi tölvupóst stefnda til stefnanda frá 21. apríl 2015 og síðari pósta. Í fyrstu var ekki ljóst hvað skemmdirnar voru miklar og hvort gat hefði komið á bol bátsins. Kveðst stefnandi hafa tekið myndir af bátnum skömmu eftir óhappið og sent þær til stefnda að beiðni starfsmanna stefnda, sbr. tölvupóst frá 12. ágúst 2015. Stefnandi kveðst ekki vita til þess að stefndi eða fulltrúar hans hafi komið á vettvang og skoðað bátinn. Að sögn stefnda komu fulltrúar fyrirtækisins hins vegar á vettvang en engin úttekt eða tjónaskýrsla liggi fyrir um það af hálfu stefnda.  

Stefnandi kveðst hafa reynt að fá tjón sitt bætt en stefndi hafi dregið að ganga til uppgjörs. Hafi stefnandi reynt að fá úttekt á tjóninu hjá Njarðvíkurslipp og tekið bátinn á land 9. september 2015. En vegna anna hjá slippnum hafi þeir ekki talið sig getað gert úttektina. Það hafi síðan ekki verið gert fyrr en tæpu ári síðar eftir að samkomulag hafði verið gert á milli stefnanda og stefnda um að úttektin færi fram. Niðurstaða Njarðvíkurslipps, sbr. fyrirliggjandi ódagsett bréf, var sú að það borgaði sig ekki að gera við bátinn þar sem áætlaður sundurliðaður kostnaður við viðgerðir væri hærri en húftryggingaverðmæti bátsins er við tjónsatburð voru 8.000.000 króna.

Þrátt fyrir úttekt og kostnaðarmat þá hafnaði stefndi að bæta stefnanda ætlað tjón á þeirri forsendu að aðeins hluta tjónsins mætti rekja til óveðursins. Hafi það verið mat stefnda að meginorsök þess að starfsmenn Njarðvíkurslipps töldu bátinn ónýtan væri sú að stefnandi hefði ekki gripið til varnaraðgerða til að koma í veg fyrir að regnvatn kæmist inn í bátinn og þá sérstaklega í lúkarinn. Það var því mat stefnda að bæta einungis það tjón sem var á lunningu, öldustokk og línurennu. Taldi stefndi viðgerðarkostnað vegna þessa nema 1.650.000 krónum. Þegar tekið hafði verið tillit til eigin áhættu, 420.000 króna, en bætt við reikningi frá Reykjaneshöfn, 41.810 krónum vegna aðstoðar, var það niðurstaða stefnda að greiða bæri stefnanda 1.271.810 krónur.

Skvetta SK-7 er 12 tonna trébátur, smíðaður árið 1995 í Hafnarfirði, svokallaður Bátalónsbátur. Að sögn stefnanda var báturinn gerður upp af stefnanda á Sauðárkróki 2005-2006. Árið 2011 var hann síðan endurbyggður ofan dekks hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur og var báturinn að sögn stefnanda í góðu lagi þegar óhappið átti sér stað. Árin fyrir óhappið var báturinn að sögn stefnanda leigður til línu- og handfæraveiða, en þar áður hafði hann m.a. verið notaður til skemmtisiglinga með ferðamenn.

Stefnandi kveðst hafa reynt frá því í lok árs 2016 og allt árið 2017 að fá stefnda til að endurskoða afstöðu sína en án árangurs, sbr. fyrirliggjandi tölvusamskipti í málinu.

Til að varpa frekara ljósi á tjónið óskaði stefnandi síðan eftir því við Héraðsdóm Reykjaness að dómkvaddur yrði óháður matsmaður til þess að lýsa ástandi bátsins og leggja mat á það hvort rekja mætti skemmdirnar á bátnum til óhappsins 6. mars 2015. Jafnframt var farið fram á það að matsmaðurinn tæki afstöðu til þeirrar mótbáru stefnda að rekja mætti tjónið að stórum hluta til þess að stefnandi hefði ekki gripið til fyrirbyggjandi aðgerða til þess að varna frekara tjóni. Daníel Friðriksson skipatæknifræðingur var dómkvaddur 7. mars 2018. Hann boðaði til matsfundar sem haldinn var 21. mars 2018 og skilaði síðan matgerð, dags. 16. apríl 2018. Það var meginniðurstaða matsmanns „að ekki borgi sig að gera við bátinn, þar sem viðgerðarkostnaður er hærri en húftryggingaverðmæti hans“. Taldi matsmaðurinn að öldustokkur, lunning, svínahryggur og meginþylja hefðu skemmst í óhappinu. Þá taldi hann að þar sem vatn hafi legið undir þilfari þá hafi vatn einnig legið undir klæðingu í þilfari. Þá taldi matsmaður að „þótt breiða hefði átt yfir skemmdirnar til varnar leka þá hefði skaðinn verið skeður varðandi skemmdir í innréttingum í lúkar“.

Þegar matið lá fyrir var stefnda þegar sent matið og krafa gerð á grundvelli þess um bætur með vísan til samnings aðila um vátryggingu á bátnum, sbr. tölvupóst 16. apríl 2018. Samkvæmt svari stefnda í tölvupósti þá hafnaði stefndi kröfu stefnanda og gerði athugasemdir við matsgerðina. Í framangreindum tölvupósti vísar stefndi til þess að matið sé stórlega gallað og ekki í samræmi við fyrirliggjandi gögn, þ.m.t. tölvubréf frá stefnanda, þar sem hann taldi í lýsingu sinni á tjóninu að vatn hefði ekki komist inn í lúkarinn í óveðrinu. Þá vísaði stefndi til þess að matsmaður hefði ranglega miðað við það að úttekt Njarðvíkurslipps hefði farið fram um haustið 2015 en hið rétta sé að það hafi farið fram haustið 2016. Þá hafi stefndi gert athugasemdir við að aðili sem matsmaður hafi haft sér til aðstoðar hafi verið skráður á matsfund með honum.

Stefndi lýsti sig hins vegar reiðbúinn til að greiða fyrrgreindar 1.271.810 krónur og mat stefndi því tjón stefnanda sem óbreytt frá því um haustið 2016. Í tilefni svars stefnda þá sendi stefnandi tölvupóst til matsmannsins annars vegar um aðstoðarmann hans og hins vegar um það hvort það hefði breytt mati hans að úttekt Njarðvíkurslipps hafi farið fram á árinu 2016 en ekki árið 2015 eins og fram kemur í mati hans. Stefndi gerði engar athugasemdir við það að þessar spurningar yrðu lagðar fyrir matsmanninn. Í svari matsmannsins kemur fram að Róbert Gíslason sem getið er um í matsgerð starfi með honum. Þá verður að mati stefnanda að túlka svar matsmannsins þannig að engu máli hafi skipt hvort úttekt Njarðvíkurslipps hafi verið gerð haustið 2015 eða 2016.

Stefndi lagði síðan inn á reikning lögmanns stefnanda 2.437.470 krónur með millifærslu, dags. 4. júní 2018, með sundurliðun um ráðstöfun þeirrar greiðslu, en þrátt fyrir matið hafa engar sættir tekist og er stefnda því nauðsyn að höfða mál þetta.

Stefndi vísar hins vegar til þess að við vettvangsskoðun í Ytri-Njarðvíkuhöfn 14. september 2018 hafi báturinn verið á landi og enn borið nafnið Skvetta SK-7. Báturinn var tryggður hjá stefnda frá 19. nóvember 2014 fyrir 8.000.000 króna. Samkvæmt mati fjárhæðanefndar fiskiskipa var verðmæti bátsins þá 14.444.000 krónur en eftir því sem næst verði komist hafi vátryggingarfjárhæð verið ákveðin af eiganda bátsins.

Leiða megi að því líkur að visst tjón hafi orðið á bátnum í Ytri-Njarðvíkurhöfn þann 6. mars 2015. Þetta sé þó engan veginn óumdeilt í ljósi þess að atvikið hafi ekki verið tilkynnt til stefnda fyrr en um einum og hálfum mánuði eftir að það átti sér stað. Báturinn var þá í höfninni bundinn utan á öðrum bát og mun hafa losnað frá að framan en ekki að aftan. Hafnsögumenn komu á vettvang á hafnsögubát og færðu bátinn að og bundu á ný. Atvikið var ekki skráð í dagbók hafnarinnar, sbr. tölvupóst frá 7. september 2018, en Karl Einar Óskarsson hafnsögumaður var á vakt á þessum tíma.

Fyrir liggur mynd af bátnum þar sem hann er bundinn utan á öðrum bát í höfninni. Myndin gæti verið tekin fyrir eða eftir atvikið en ekki liggur fyrir fyrir víst hvenær hún var tekin. Svo sem sjá megi á myndinni og af aðstæðum í höfninni hafi báturinn verið langt frá grjótgarðinum. Ekki sé því rétt sem stefnandi haldi fram að bátinn hafi rekið upp í grjótgarðinn, en samkvæmt upplýsingum frá hafnarverði þá gerðist það ekki. Ekki liggi heldur fyrir upplýsingar frá stefnanda um hvernig báturinn hafi verið bundinn eða hvaða ráðstafanir hann hafi gert vegna veðursins sem gekk yfir 6. mars 2015. Ekki liggi t.d. fyrir hvort stefnandi hafi hugað að festingum bátsins áður en veðrið gekk yfir en algengt sé að bátaeigendur hugi að slíku þegar veðra er von. Ekkert liggi fyrir af hálfu stefnanda hvenær hann hugði að bátnum eða fékk vitneskju um að hugsanlega hafi orðið tjón á bátnum þegar hann losnaði frá í umrætt sinn.

Stefndi hafi enga tilkynningu fengið um umrætt atvik fyrr en um einum og hálfum mánuði síðar, eða 20. apríl 2015, en þá hafi stefnandi komið á skrifstofu stefnda og tilkynnt um atvikið. Tilkynnir stefnandi þá að skemmdir séu á bol bátsins, sbr. fyrirliggjandi samskiptaskjal. Daginn eftir hefur Hlynur Jónsson, starfsmaður stefnda, samband við stefnanda og biður hann þá um myndir af tjóninu. Þær myndir komu þó ekki fyrr en með tölvupósti 12. ágúst 2018 og lýsi stefnandi þá tjóninu eins og fram komi og rakið sé af hálfu stefnda víða í gögnum málsins. Á þessum tíma er báturinn enn í höfninni og augljóst af þessari lýsingu að enginn sjór er þá í bátnum og tjónið lítið. Engu tjóni hafi þá t.d. verið lýst af hálfu stefnanda í lúkarnum sem þó hefði verið fullt tilefni til. Báturinn virðist síðan hafa verið tekinn á land skömmu síðar en samkvæmt tölvupósti frá stefnanda 9. september 2015 er tilkynnt að báturinn sé kominn í slipp. Ekki sé heldur í þessari tilkynningu minnst nokkuð á tjón í lúkarnum.

Í framhaldi fóru menn á vegum stefnda á vettvang að skoða bátinn. Báturinn er skoðaður 11. september 2015 af Jóni Ásmundssyni og kemur þá í ljós að báturinn er ormétinn á stöku stað enda kominn til ára sinna. Allt hafi þá virst í lagi með stýri og legu í stýrisstamma og fóðringu í hæl. Varðandi svínahrygginn þá virðist hafa verið um að ræða fúa og þungi línuspils hafi haft þar áhrif. Myndir voru teknar við umrædda skoðun og sýna að mati stefnda að báturinn hafi þá ekki verið í góðu ásigkomulagi.

Það er síðan ekki fyrr en ári síðar sem eigandi bátsins hefur samband og þá eftir að báturinn var orðinn hálffullur af regnvatni. Báturinn virðist þá hafa staðið óvarinn upp á landi í rúmt ár. Í framhaldi af því fara Hlynur Jónsson og Jón Ásmundsson á vettvang og skoða bátinn að nýju í lok október 2016 og komu þá í ljós ummerki um að vatn hefði komist í lúkarinn. Samskipti málsaðila í tengslum við þetta eru rakin í fyrirliggjandi tölvupóstum árin 2016-2017. Hafi verið reynt að gera stefnanda grein fyrir því að hér væri um að ræða tvo aðskilda tjónsatburði, annars vegar meint tjón eftir atvikið 6. mars 2015, en hins vegar tjón á bátnum vegna rigningarvatns eftir að báturinn var tekinn á land haustið 2015. 

Í framhaldi af þeim viðræðum setur stefndi fram áður greint tilboð sitt um bætur til stefnanda og hafi það verið gert eftir viðræður við Þráin í Skipasmíðastöð Njarðvíkur. Tilboðið hafi stefndi sett fram til að leysa málið. Stefndi hafi haft miklar efasemdir um það að umrætt tjón á borðstokk og bol væri í raun af völdum atviksins 6. mars 2015. Komi þar til bæði ástand bátsins (fúi) og ekki síður lýsing hafnarvarða á atvikinu. Stefndi hafi og haft verulegar efasemdir um að stefnandi hafi bundið bátinn nægilega vel og að eftirlit með bátnum hafi verið í samræmi við venjur. Stefndi hafi þó ákveðið að setja fram tilboð til þess að leysa málið og bera ekki fyrir sig varnir sem vörðuðu gáleysi og eftirlitsskort af hálfu stefnanda. Stefndi bar heldur ekki fyrir sig að vart svaraði kostnaði að gera við bátinn í ljósi ástands á bol. Stefndi mat það sem svo að gangverð á bátnum í því ástandi sem hann var í væri langt undir vátryggingarverði.

Stefndi hafni því alfarið að félagið hafi tekið við bátnum til viðgerðar eða að báturinn hafi verið afhentur stefnda til viðgerðar. Fyrir þeim staðhæfingum stefnanda sé enginn fótur enda í andstöðu við fyrirliggjandi skilmála húftryggingar þar sem segi að vátryggður annist viðgerð, sbr. 18. og 19. grein umræddra skilmála.

Stefnandi hafi svo beðið um dómkvaðningu matsmanns til að meta það tjón sem hann telji að hafi orðið á bátnum. Að mati stefnda þá hafi matspurningar í málinu verið settar fram einhliða af hálfu stefnanda og án samráðs við stefnda. Matsspurningarnar séu leiðandi og villandi og þeim annmarka háðar að beðið hafi verið um mat á ástandi bátsins eins og það hafi verið þegar beðið hafi verið um matið á árinu 2018. Sé þar ekkert tillit tekið til þess að ágreiningur málsins standi fyrst og fremst um það hvaða tjón hafi átt sér stað 6. mars 2015. Þrátt fyrir ábendingar af hálfu stefnda hafi því í engu verið sinnt af hálfu matsmanns að meta sérstaklega það tjón sem stefndi telji að hafi komið til við atvikið 6. mars 2015. Matið sé því að mati stefnda haldið slíkum annmörkum að ekki sé unnt að leggja það til grundvallar í málinu sem sönnunargagn. Ber að geta þess að stefndi fór síðan fram á það að sami matsmaður mæti sérstaklega kostnað vegna þess tiltekna tjóns sem stefndi áleit að hefði mögulega getað hafa orðið til við atvikið þann 6. mars 2015, sbr. fyrirliggjandi viðbótarmatsgerð frá 11. desember 2018 sem stefndi hefur lagt fram í málinu.

 

Málsástæður og lagarök af hálfu stefnanda

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að gerður hafi verið vátryggingarsamningur á milli stefnda og stefnanda þar sem stefndi hafi lofað að greiða stefnanda bætur ef bátur hans, Skvetta SK-7, skemmdist í óveðri. Slíkt atvik hafi átt sér stað 6. mars 2015 þegar mikið óveður gekk yfir suðvesturhorn landsins. Hafi umræddur bátur stefnanda þá slitnað frá bryggju annað hvort að framan eða að aftanverðu. Sú festing sem hélt hafi komið í veg fyrir að bátinn ræki upp í steingarðinn þar skammt frá. Stefnandi hafi tilkynnt stefnda eins skjótt og honum hafi verið unnt um óhappið og um skemmdirnar á bátnum. Stefnandi hafi tekið myndir af bátnum og sent stefnda. Í upphafi hafi hvorki stefnanda né stefnda verið ljóst hversu miklar skemmdirnar væru. Það hafi þó sést að öldustokkur, lunning, svínahryggur og meginþylja urðu fyrir töluverðum skemmdum. Það hafi hins vegar ekki verið hægt að átta sig á því þá hvort skemmdir hefðu orðið á skrokk bátsins fyrr en hann yrði tekin upp á land. Báturinn hafi síðan verið tekinn upp á land um haustið 2015 og þá komið í ljós að gat hefði ekki komið á skrokk bátsins.    

Um haustið 2015 og vorið 2016 hafi verið reynt að fá Njarðvíkurslipp til að meta skemmdir á bátnum. Síðla sumars 2016 hafi úttektin síðan farið fram eftir að stefndi og stefnandi höfðu þrýst á Njarðvíkurslipp um gerð úttektarinnar. Niðurstaðan hafi orðið sú að báturinn væri það mikið tjónaður að ekki borgaði sig að gera við hann.

Á því sé byggt að tjónið, er staðfest hafi verið af Njarðvíkurslipp og síðan hinum dómkvadda matsmanni, megi rekja til óhappsins 6. mars 2015. Í matsgerðinni frá 16. apríl 2018 á bls. 11 komi fram að svínahryggur hafi brotnað og tógkefinn slitnað úr. Einnig hafi losnað um meginþilju og öldustokk. Við höggið sem báturinn hafi orðið fyrir í óveðrinu „hefur losnað um ísláttin, þannig að þilfarið lekur víða“. Þá segi á bls. 12 í matsgerðinni að „styttur hafa losnað upp úr meginþiljunni stjórnborðsmegin og skjólborð og öldustokkur brotnað á nokkrum stöðum“. Á bls. 16 í matsgerðinni er fjallað um skemmdir á lúkar. Um þetta segi þar í matsgerðinni: „Skemmdir í lúkar vegna vatns. Ljóst er að þónokkuð vatn hefur á tímabili verið í bátnum, sennilega yfir bekki. Þar sem þilfarið hefur lekið eftir atvikið hefur vatn einnig legið á klæðningu undir þilfari. Matsmaður álítur að þótt breiða hefði átt fyrir skemmdirnar til varnar leka, þá hafi skaðinn verið skeður varðandi skemmdir á innréttingum í lúkar.“

Það sé álit matsmanns í matsgerð að kostnaður við viðgerð bátsins séu 9.661.000 krónur, en síðan segi þar: „Matsmaður álítur að ekki borgi sig að gera við bátinn, þar sem viðgerðarkostnaður er hærri en húftryggingaverðmæti hans. Matsmaður álítur að markaðsvirði bátsins eins og hann er sé nánast ekkert.“  Niðurstaða matsmannsins hafi annars verið eftirfarandi: „Skipið verður fyrir svo miklum skemmdum, að kostnaður við að bjarga því og gera við það nemur hærri fjárhæð en vátryggingaverðmætið“. Það sé því niðurstaða matsmannsins að um altjón hafi hér verið að ræða.

Stefndi hafni samt kröfu stefnanda með vísan til þess að matsmaður hafi lagt til grundvallar við matið að Njarðvíkurslippur hafi framkvæmt úttekt á bátum um haustið 2015, en ekki haustið 2016, en sú úttekt sé ódagsett. Telji stefndi að matið hafi verið byggt á þeirri úttekt. Stefnandi telji að engu máli skipti fyrir gildi matsgerðarinnar hvort Njarðvíkurslippur hafi gert úttekt sína árið 2015 eða 2016. Það sem skipti meginmáli sé lýsing matsmanns á tjóninu sem hafi orðið á bátnum við óhappið og afleiðing þeirra skemmda. Þannig telji matsmaður á bls. 11, 12 og 16 í matsgerðinni að svínahryggur á hvalbaksþilfari hafi brotnað og losnað um meginþilju og öldustokk og vatn/sjór átt greiða leið í bátinn, þ.m.t. inn í lúkar bátsins sem staðsettur sé undir svínahryggnum. Telji hann að vatn/sjór hafi við óhappið komist í bátinn og legið í klæðningu undir þilfarinu og það sé orsök tjónsins í lúkar. Telji hann að engu máli hefði skipt að breiða yfir bátinn eftir óhappið þar sem skaðinn hafi þegar verið skeður.

Stefndi vísi til tölvupósts 12. ágúst 2015 sem stefnandi hafi sent stefnda nokkru eftir óhappið en þar hafi hann verið að lýsa því sem hann hafi séð og reynt að gera stefnda grein fyrir því sem sjá hafi mátt berum augum. Hafi stefnanda á þeim tíma ekki verið að fullu ljósar skemmdir og talið nauðsyn að taka bátinn á þurrt svo ganga mætti úr skugga um hvort gat væri á skrokki. Á þeim tíma hafi ekki verið hægt að gera sér fyllilega grein fyrir umfangi tjónsins. Þeirri mótbáru stefnda að meginorsök tjónsins megi rekja til athafnaleysis stefnanda sé því algjörlega hafnað. Stefnandi hafi reglulega dælt úr bátnum enda viljað eiga bátinn og halda áfram að gera hann út.   

Nánari skýring á kröfugerð stefnanda sé sú að aðalkrafan í málinu að fjárhæð 7.527.000 krónur sé byggð á húftryggingaverðmæti bátsins, Skvettu SK-7, 8.000.000 króna, að frádreginni eigin áhættu, 473.000 krónum, sbr. vátryggingarskírteini nr. 22254408. Þann 4. júní 2018 hafi stefndi greitt inn á kröfu stefnanda 2.437.470 krónur sem stefndi hafi sundurliðað þannig: 1. Brotin lunning, brotinn öldustokkur, línurenna aflöguð og laus úr dekki, samtals, sbr. fyrra tjónamat stefnda, 1.650.000 krónur. 2. Annar kostnaður, svo sem hafnargjöld, málning, kostnaður við slipp, daggjöld, 400.000 krónur. 3. Kostnaður vegna matsgerðar, 507.470 krónur. 4. Hæfilegur kostnaður og annað tilfallandi, svo sem lögmannskostnaður, 300.000 krónur. 5 Frá dragist eigin áhætta, 450.000 krónur. Samtals 2.437.470 krónur. Greiðslu stefnda hafi verið ráðstafað í samræmi við fyrirmæli hans og taki krafa stefnanda mið af þessari sundurliðun. Til frádráttar kröfu stefnanda reiknist því 1.600.000 krónur og sú fjárhæð dragist því frá stefnufjárhæð. Frádrátturinn sé fundinn út með því að taka liði 1 og 2 hér að framan, samtals 2.050.000 krónur og draga síðan frá eigin áhættu, sbr. lið 5, 450.000 krónur eða samtals 1.600.000 krónur. Ástæðan sé sú að eigin áhætta hafi þegar verið dregin frá, sbr. lýsingu hér að framansögðu. 

Krafa stefnanda um vexti og dráttarvexti miðist við 50. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Samkvæmt 1. mgr. 50. gr. þá eigi vátryggður rétt á almennum vöxtum þegar tveir mánuðir séu liðnir frá því að tilkynning um vátryggingaratburð hafi verið send félaginu. Sú tilkynning hafi verið send í síðasta lagi 21. apríl 2015, sbr. fyrirliggjandi tölvupóst þann dag, og sé því miðað við að vextir reiknist frá 21. júní 2015. Samkvæmt 6. mgr. 50. gr. sé mælt fyrir um það að almennir vextir skuli vera sömu og greiða beri á skaðabætur samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Samkvæmt ákvæðum vaxtalaga sé mælt fyrir um slíka vexti í 8. gr. laganna. Almennir vextir séu reiknaðir mánuði eftir að úttekt Njarðvíkurslipps hafi legið fyrir en dráttarvextir frá þeim tíma í samræmi við III. kafla vaxtalaga, sbr. lok ofangreindrar 6. mgr. 50. gr.. Eftir úttekt Njarðvíkurslipps, sem hafi í síðasta lagi átt sér stað 1. október 2016, hafi orðið ljóst að ekki borgaði sig að gera við bátinn enda viðgerðarkostnaður hærri en húftryggingarverðmæti hans. Eftir að sú úttekt hafi legið fyrir kveðist stefnandi hafa gert kröfu um greiðslu sem stefndi hafi svarað með bréfi þar sem tilboð hans komi fram. Telji stefnandi því rétt að miða dráttarvaxtakröfu sína við mánuð eftir að úttekt Njarðvíkurslipps hafi legið fyrir eða 1. nóvember 2016. En þar sem matskostnaður sé hluti málskostnaðar þá verði því í síðasta lagi við flutning málsins lagður fram málskostnaðarreikningur þar sem dregin verði frá málskostnaði innborgun stefnda, sbr. sundurliðun í lið 3 og 4 hér að ofan, samtals 907.470 krónur.

 

Málsástæður og lagarök af hálfu stefnda

Sýknukrafa stefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf., í málinu sé í fyrsta lagi á því byggð að stefndi hafi þegar greitt það tjón sem á bátnum hafi orðið við atvikið 6. mars 2015. Stefnandi hafi annars alfarið sönnunarbyrði fyrir því hvaða tjón hafi orðið í umræddu atviki, sbr. 24. gr. tryggingarskilmálanna. Samkvæmt því sem rakið hafi verið í málavaxtalýsingu þá hafi báturinn aldrei losnað alveg frá. Hugsanlegt sé, þótt stefndi dragi það í efa, að eitthvert tjón hafi orðið enda hafi stefndi fallist á það. 

Það sé að mati stefnda fráleitt að vatn og/eða sjór hafi komist í bátinn við atvikið 6. mars 2015 enda nefni stefnandi það í engu fyrr en haustið 2016. Skoðun á bátnum í september 2015 hafi ekki bent til þess að vatn og/eða sjór hafi komist í bátinn. Í þessu sambandi megi velta fyrir sér hvers vegna stefnandi hafi ekki tilkynnt um það fyrr en haustið 2016 að vatn og/eða sjór hafi komist í bátinn. Eina raunhæfa skýringin á því sé að mati stefnda sú er hann haldi fram og rakin sé í málavaxtalýsingu stefnda í málinu.

Það tjón sem hugsanlega hafi orðið hafi stefndi þegar greitt. Það sé í samræmi við lýsingu á tjóninu þegar það hafi verið tilkynnt 20. apríl 2015, það er tjón á bol, sbr. fyrirliggjandi samskiptaskjal. Hafi sjór og/eða vatn komist í bátinn við umrætt atvik sé það með ólíkindum að það hafi ekki verið tilkynnt fyrr. Ljóst sé að stefnandi hafi ekki nefnt þetta 20. apríl 2015 þegar hann hafi tilkynnt stefnda um tjónið. Gera megi ráð fyrir, samkvæmt eigin orðum stefnanda, að hann hafi þá margsinnis farið um borð í bátinn, þar sem hann hafi legið í höfn, lensað hann og sinnt öðru reglubundnu eftirliti. Stefndi bendi einnig á í þessu sambandi að stefnanda beri hér að sýna fram á það að þetta tjón falli undir vátryggingarsamning þeirra, eins og áður segi, og að honum beri þá einnig að sýna fram á umfang tjónsins, sbr. 24. gr. vátryggingarskilmálanna.

Í öðru lagi krefjist stefndi sýknu á grundvelli 25. gr. í vátryggingarskilmálum fyrir húftryggingu bátsins. Stefnanda hafi samkvæmt því borið að tilkynna um kröfu sína innan árs frá því að hann hafi vitað um tjónsatvikið. Það sé ekki fyrr en um haustið 2016 sem stefnandi tilkynni um það að vatn og/eða sjór hafi komist í lúkar og eyðilagt innréttingar. Samkvæmt skýru orðalagi vátryggingarskilmálanna í gr. 25.1, þá hafi stefnandi þegar af þessari ástæðu glatað öllum rétti til bóta hvað hið meinta tjón varði.

Í þriðja lagi hafi stefnandi glatað öllum frekari rétti til bóta á grundvelli gr. 25.2 í vátryggingarskilmálunum. Þar sé skýrt kveðið á um það að vátryggður glati öllum rétti til bóta hafi hann ekki höfðað mál eða krafist meðferðar málsins fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum innan árs frá því að kröfu um bætur hafi verið hafnað. Kröfu stefnanda um bætur hafi verið hafnað bréflega og bréfið borist stefnanda í nóvember 2016. Þessi frestur hafi því verið löngu liðinn þegar málið hafi verið höfðað.

Í fjórða lagi haldi stefndi því fram að tjón vegna regnvatns sem hafi komist í bátinn eftir að hann hafi verið tekinn á land sé ekki bótaskylt samkvæmt skilmálum í vátryggingunni, en slík atvik rúmist ekki innan skilgreindra tjónstilvika í skilmálum. 

Auk framangreinds sé óhjákvæmilegt að benda á að stefnanda hafi borið að hafa reglubundið eftirlit með bátnum, sbr. 13. gr. í skilmálum. Augljóst virðist að verulega hafi skort á að svo hafi verið. Hafi stefnandi með þeirri háttsemi sinni glatað öllum hugsanlegum rétti til bóta. Óhjákvæmilegt sé einnig að benda á gr. 10 í skilmálunum um upplýsingaskyldu og gr. 11 um tilkynningaskyldu og ráðstafanir til að varna tjóni. Ákvæði þessi geti valdið brottfalli bótaréttar og telji stefndi að þau geti hér átt við. Líta verði einnig til þess að verulegar líkur séu fyrir því að stórkostlegt gáleysi stefnanda sé orsök þess að tjónið hafi orðið, þ.e. tjón vegna rigningarvatns og/eða sjós. Að mati stefnda teljist stórkostlegt gáleysi að hafa bát eftirlitslausan og illa bundinn í höfn. Það teljist líka stórkostlegt gáleysi að bátur sé án umhirðu á landi þar sem rignt geti inn í bátinn. Hafa verði í huga að um sé ræða gamlan bát þar sem megin byggingarefnið í bol sé fura og eik og báturinn auk þess ormétinn á nokkrum stöðum. 

Hafi tjónið komið til eftir að báturinn hafi verið tekinn á land sé augljóst að mati stefnda að það tjón sé ekki bótaskylt þar sem þess háttar tjón rúmist ekki innan skilgreindra tjónsorsaka. Önnur sjónarmið, svo sem um skort á reglubundnu eftirliti og fleira, eins og áður segi, leiði hér einnig til þess að vátryggður glati rétti til bóta.

Þá bendi stefndi á það að hann hafi þegar greitt bætur í máli þessu sem samsvarað geti raunverulegu verðmæti bátsins eins og það hafi verið á tjónsdegi hefði báturinn verið seldur um það leyti sem tjónið hafi orðið. Stefndi telji að hámarksverð á bát af þessari gerð í góðu ástandi hafi verið 5.000.000 króna. Fyrir liggi í málinu að umræddur bátur hafi ekki verið í góðu ástandi, eins og komið hafi í ljós þegar hann hafi verið tekinn á land, en þá hafi komið í ljós að hann hafi á nokkrum stöðum verið ormétinn. Það eitt og sér bendi til þess að það hafi ekki svarað kostnaði að gera við bátinn. Gera megi ráð fyrir því að hámarksverð á bátnum hafi verið 2-3 milljónir á tjónsdegi, hefði yfirhöfuð verið unnt að selja hann, er stefndi dragi þó í efa. 

Umræddur bátur hafi verið í svokölluðum núll útgerðarflokki en það séu eftir því sem næst verður komist kvótalausir bátar. Eins og þekkt sé og nánar verði útskýrt við munnlegan málflutning þá ráðist verðmæti báta mjög af þeim kvóta sem þeim fylgi. Svokallað mat fjárhæðanefndar, er gefið sé út um báta, sé fyrst og fremst til hliðsjónar um viðgerðarkostnað og segi ekkert til um raunverulegt verðmæti í kaupum og sölum.  

Samkvæmt almennum reglum um skaðatryggingar þá beri ekki að greiða bætur nema til þess að bæta raunverulegt tjón, sbr. 35. og 36. gr. vátryggingarsamningalaga nr. 30/2004. Reglur þessar hafi komið í stað eldri reglna og lagaákvæða án þess að ætlunin hafi verið að breyta fyrri framkvæmd í meginatriðum. Af greinargerð laganna megi ráða að í þessum efnum sé að nokkru leyti slakað til um það sem áður hafi verið. Stefndi vísi í þessu sambandi til skýrs fordæmis Hæstaréttar Íslands í máli nr. 82/2006, en þessi framangreindu sjónarmið leiði, að mati stefnda, ein og sér til sýknu.

 

Niðurstaða.

Krafa stefnanda gagnvart stefnda í máli þessu grundvallast á því að stefndi beri samkvæmt framangreindum vátryggingarsamningi aðila ábyrgð á tjóni því sem liggur fyrir á bátnum Skvettu SK-7 (nú Dagný IS-34), sbr. einkum ódagsetta úttekt er virðist hafa verið gerð af tveimur tréskipasmiðum á vegum Þráins Jónssonar forstöðumanns hjá Njarðvíkurslipp að beiðni málsaðila og verið látin þeim í té 3. nóvember 2016, og matsgerð dómkvadds matsmanns Daníels Friðrikssonar, dags. 16. apríl 2018, sem báðir komu hér fyrir dóminn og gerðu þar grein fyrir þessum gögnum í málinu. En tjónsatvik það sem um ræðir leiddi óumdeilt af óveðri sem gekk yfir þar sem Skvetta SK-7 lá við festar upp við annan bát í höfn í Njarðvík, 6. mars 2015, og leiddi til þess að báturinn losnaði a.m.k. að framanverðu og skemmdist, eins og hér hefur verið lýst.

Í megindráttum greinir málsaðila hér á um það hvort allt það tjón er stefnandi vill nú fá bætt frá stefnda stafi sannanlega af umræddu atviki 6. mars 2015. Liggur fyrir að stefndi hefur þegar greitt stefnanda bætur, 4. júní 2018, vegna þess tjóns er hann telur sér rétt að bæta, alls 2.437.470 krónur, sbr. framangreinda sundurliðun. Stefnandi vill hins vegar fá bætt ætlað altjón á bátnum m.t.t. framangreinds mats og þess hámarks sem skilmálar vátryggingarinnar sem hann hefur haft hjá stefnda gera ráð fyrir. Er þar miðað við 8.000.000 króna sem bótahámark en metið tjón á bátnum er umfram það.

Af hálfu stefnda er hér krafist sýknu af þessum umframkröfum stefnanda í málinu byggt annars vegar á skilyrðum um tilkynningar og málshöfðun í 25. gr. vátryggingar- skilmála sem hér eiga óumdeilt við, en hins vegar er vísað til áskilnaðar 24. gr. þeirra um að stefnda beri að sanna þetta frekara tjón, sem hann hafi ekki gert að mati stefnda. Það er þá einkum það tjón vegna vatns eða sjós sem varð innanstokks í lúgar bátsins og sem stefndi telur að ekki sé sýnt að hafi átt sér stað vegna atviksins 6. mars 2015 heldur allt eins og líklegar vegna þess hvernig stefnandi hafi ekki búið að bátnum með fullnægjandi hætti eftir að hann var tekinn á land haustið 2015 og fram til ársins 2018. En auk þess þá telur stefndi vafa leika á því hvert hafi verið raunverulegt virði bátsins á tjónsdegi sem hafi óumdeilt verið afskráður og legið í höfn allt frá því í júní 2014. 

Hvað varðar þá í fyrsta lagi skilyrði um málshöfðun samkvæmt 25. gr. skilmála stefnda, þá vísar stefndi til þess að stefnandi hafi ekki tilkynnt um kröfu sína vegna þessa viðbótartjóns neðan þilja í bátnum innan árs frá því hann hafi fyrst vitað um tjónsatvikið, auk þess sem stefnandi hafi ekki hafið málsókn vegna þessa meinta tjóns innan árs frá því að kröfu hans um bætur vegna þess hafi verið hafnað af stefnda.

Að mati dómsins verður ekki fallist á þessar framangreindu málsástæður stefnda byggðar á 25. gr. vátryggingarskilmálanna, þar sem fyrir liggur að stefndi hafi tilkynnt stefnda um tjón á bátnum þann 21. apríl 2015, en þá ekki getað gert sér fullnægjandi grein fyrir umfangi tjónsins, auk þess sem fyrir liggur að ekki er unnt að staðhæfa í málinu að stefndi hafi ótvírætt og endanlega neitað kröfugerð stefnanda fyrr en þann 4. júní 2018, þegar stefndi gengur frá uppgjöri við stefnanda. Þá verður hér að fallast á það með stefnanda að ósannað sé í málinu að tilvísanir stefnda til þess að stefnandi hafi ekki fullnægt skilyrðum í 10., 11. og 13. gr. vátryggingarskilmálanna eigi hér við.

Skal þá vikið að þeirri málsástæðu stefnda í málinu um að stefnandi hafi engu að síður ekki getað sannað að umrætt viðbótartjón á lúgar bátsins o.fl. vegna sjógangs hafi leitt af atvikinu 6. mars 2015, sbr. 24. gr. vátryggingarskilmálanna. Byggir stefndi þá einkum á þeim atvikum málsins að stefnandi hafi ekki 20.-21. apríl 2015 tilkynnt stefnda um þetta tiltekna tjón á bátnum, og raunar ekki ljáð máls á því fyrr en haustið 2016, en þá hafði báturinn verið geymdur óvarinn fyrir regni á landi frá haustinu 2015. Enn fremur að óljóst sé um virði bátsins fyrir tjónsatvikið sem hafði sem fyrr segir legið í Njarðvíkurhöfn frá því sumarið 2014 eftir að hafa verið afskráður í júní það ár.

Að mati dómsins þá verður í þessu sambandi einkum að líta til þess að stefnandi hefur aflað sér matsgerðar þar sem fjallað er um metið umfang tjónsins og jafnframt um sennilegar orsakir þess, eins og rakið er nánar hér að framansögðu. Fyrir dóminn kom enn fremur dómkvaddur matsmaður, Daníel Friðriksson skipatæknifræðingur, og staðfesti þar matsgerð sína, dags. 16. apríl 2018. Kemur þar meðal annars fram varðandi umræddar skemmdir í lúgar, að þótt breiða hafi átt yfir skemmdirnar til varnar leka, þá hafi skaðinn verið skeður varðandi skemmdir á innréttingum þar. Það er þá vegna sjógangs í umræddu tjónsatviki sem gengið hafi ofan í skipið vegna þess tjóns sem þá hafi orðið. Enn fremur er það þar mat matsmannsins að metið tjón vegna óhappsins sé eins og þar er nánar sundurliðað 9.661.000 krónur, sem jafngildi altjóni þar sem viðgerðarkostnaður er þá hærri en húftryggingarverðmæti bátsins. Geta ber þess að það viðbótarmat sem stefndi lét gera og liggur fyrir í málinu hnekkir í engu ofangreindri matsgerð, en stefndi afréð ekki að láta vinna yfirmat um þessa matsþætti. Jafnframt verður að telja ósannað að metið tjón eigi að teljast annað en hér um ræðir. Verður þá einnig að leggja til grundvallar að ástand bátsins hafi þrátt fyrir afskráningu hans 2014 verið nokkuð gott, en í málinu liggja fyrir gögn og frásögn stefnanda sjálfs um verulegar endurbætur á bátnum árið 2011, meðal annars á því sem skemmist 2015.

Með hliðsjón af framangreindu verður það niðurstaða dómsins að leggja verði við svo búið umrædda matsgerð til grundvallar bæði umfangi tjónsins og tjónsorsökum er leiðir þá til þess að fallast beri á dómkröfu stefnanda gagnvart stefnda þar að lútandi. Verður stefndi þar af leiðandi að bera halla af því að ekki liggja fyrir önnur gögn sem gætu mögulega hnekkt því mati á umræddu tjóni stefnanda og líklegum orsökum þess. Einnig ber þá með vísan til þessa að fallast á vaxtakröfu stefnda, enda hér ekki gerðar athugasemdir varðandi hana af hálfu stefnda sérstaklega. En hvað varðar dráttarvexti þá er fallist á með stefnanda að þeir skuli reiknast frá mánuði frá birtingardegi stefnu enda lá endanleg kröfugerð stefnanda ekki tölulega ótvírætt fyrir gagnvart stefnda fyrr en við það tímamark, sbr. 4. tölulið 5. gr. laga nr. 38/2001, sbr. og 9. gr. sömu laga.        

Með hliðsjón af þessum úrslitum málsins þykir rétt að stefndi verði enn fremur dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, 2.936.060 krónur, en þó að frádregnum 907.470 krónum með tilliti til kröfugerðar stefnanda það að lútandi, eða alls 2.028.590 krónur.      

Mál þetta flutti Guðmundur Ágústsson lögmaður fyrir stefnanda, en Ingvar Sveinbjörnsson lögmaður fyrir stefnda.

Pétur Dam Leifsson héraðsdómari kvað upp dóminn. 

 

D ó m s o r ð

 

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar, greiði stefnanda, Þorgrími Ómari Tavsen, 7.527.000 krónur ásamt almennum vöxtum, sbr. 6. mgr. 50. gr. vátryggingarlaga nr. 30/2004 og 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 21. júní 2015 til 12. júlí 2018, en þá með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 6. mgr. 50. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun, dags. 4. júní 2018, að fjárhæð 1.600.000 krónur, sem dragast skal frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi.

Stefndi greiði stefnanda 2.936.060 krónur, en þó að frádregnum 907.470 krónum, eða alls 2.028.590 krónur í málskostnað.

 

Dóminn kveður upp Pétur Dam Leifsson héraðsdómari.