• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar
  • Ávana- og fíkniefni
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Hegningarauki
  • Ítrekun
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Umferðarlagabrot
  • Vörslur
  • Ölvunarakstur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2019 í máli nr. S-11/2019:

Ákæruvaldið

(Elín Hrafnsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Pálma Má Þórarinssyni

(Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

            Mál þetta, sem dómtekið var 30. janúar sl., er höfðað með tveimur ákærum á hendur ákærða, Pálma Má Þórarinssyni, kt. [...],[...], Reykjavík.

            Fyrri ákæran er gefin út af héraðssaksóknara á hendur ákærða hinn 14. desember 2018 fyrir brot gegn valdstjórninni og vopnalögum, með því að hafa að kvöldi föstudagsins 8. júní 2018, utandyra við Lækjarvað í Reykjavík, verið íklæddur opinberlega, án heimildar, einkennisjakka sem áskilinn er íslensku lögreglunni sem hluti af einkennisbúningi hennar og fyrir að hafa í vörslum sínum útdraganlega kylfu, sem ekki er ætluð til íþróttaiðkunar og ein handjárn úr máli.

            Telst þetta varða við 117. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og c-lið 2. mgr. 4. mgr. 30. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er krafist upptöku á einkennisjakka lögreglu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og útdraganlegri kylfu og handjárnum sem lagt var hald á skv. 1. mgr. 37. gr. vopnalaga. nr. 16/1998.

            Með framlögðu bréfi ríkissaksóknara, dagsettu 30. nóvember 2018, var embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu falið að fara með mál vegna fyrri ákærunnar, sbr. 2. mgr. 25. gr. og 143. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

            Síðari ákæran er gefin út af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu hinn 10. janúar 2019 á hendur ákærða fyrir eftirtalin brot:

1.      Umferðarlagabrot, með því að hafa föstudaginn 17. nóvember 2017 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti um Rofabæ í Reykjavík, til móts við Árbæjarskóla.

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

2.      Umferðarlagabrot, með því að hafa föstudaginn 30. mars 2018 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis (í blóði mældist vínandamagn 1,93 ‰) um Vesturlandsveg í Reykjavík, á bifreiðastæði við N1, þar sem lögregla hafði afskipti af ákærða.

Telst brot þetta varða við 1., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

3.      Umferðarlagabrot, með því að hafa föstudaginn 13. apríl 2018 ekið þungu bifhjóli, [...], sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis (í blóði mældist vínandamagn 1,41 ‰), austur Laugaveg í Reykjavík, þar sem ákærði ók gegn einstefnu, áfram að Hlemmi og skömmu síðar ók ákærði suður Rauðarárstíg, vestur Njálsgötu að porti aftan við Gullöldina, þar sem lögregla hafði afskipti af ákærða og að hafa ekið bifhjólinu umrætt sinn án lögboðinnar vátryggingar og án skráningarmerkja.

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 5. gr., 1., sbr. 2. mgr. 45. gr., 1. mgr. 48. gr., 64. gr., sbr. 17. og 20. gr. reglugerðar um skráningu ökutækja nr. 751/2003 og 1. mgr. 93. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga.

4.      Umferðarlagabrot, með því að hafa laugardaginn 25. ágúst 2018 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis (í blóði mældist vínandamagn 1,73 ‰) um Sæbraut í Reykjavík, gegn rauðu umferðarljósi við Súðarvog, en lögregla stöðvaði aksturinn skömmu síðar á Vesturlandsvegi, undir Höfðabakkabrú.

Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 5. gr., 1., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

5.      Fíkniefnalagabrot, með því að hafa laugardaginn 25. ágúst 2018 við Litluvör í Kópavogi, haft í vörslum sínum 16,64 g af maríjúana, sem ákærði framvísaði við afskipti lögreglu.

Telst brot þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni  nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006. Krafist er upptöku á 16,64 g af maríjúana, sem hald var lagt á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

            Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærðu og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

            Ákærði er fæddur í [...] og er í máli þessu sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot, valdstjórnarbrot samkvæmt almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og fyrir að aka fjórum sinnum sviptur ökurétti, þar af í þrjú skipti einnig undir áhrifum áfengis. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 10. janúar 2019, á ákærði all nokkurn sakaferil að baki sem nær aftur til ársins 2010 og hefur hlotið nokkra refsidóma fyrir fíkniefnalagabrot, umferðarlagabrot og ýmis hegningarlagabrot. Ákærði hefur þannig ítrekað verið fundinn sekur um að aka undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna, fyrst með sektargerð lögreglustjórans á Ísafirði 10. júlí 2010 og nú síðast með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 16. mars 2018, þá einnig sviptur ökurétti. Samkvæmt framangreindu verður við ákvörðun refsingar í málinu miðað við það að ákærði gerist nú sekur um að aka undir áhrifum áfengis- og/eða ávana- og fíkniefna í sjötta sinn og sviptur ökurétti í þriðja sinn innan ítrekunartíma, sbr. 3. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Brot samkvæmt I. lið ákæru var framið fyrir uppkvaðningu fyrrgreinds dóms Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2018 og verður ákærða því dæmdur hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, hvað það brot varðar. Ákærði hefur svo sem fyrr greinir skýlaust játað þá háttsemi sem honum er gefin að sök í málinu og verður það virt honum til refsilækkunar. Með hliðsjón af framangreindu, sakarefni þessa máls, sem og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði. Að virtum sakaferli ákærða þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.

            Með vísan til lagaákvæða í ákæru er áréttuð ævilöng svipting ökuréttar ákærða.

            Með vísan til lagaákvæða í ákæru er gert upptækt til ríkissjóðs 16,64 g af maríjúana, einkennisjakki lögreglu, útdraganleg kylfa og handjárn, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

            Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 105.400 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 120.805 krónur í annan sakarkostnað.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Haukur Gunnarssonar saksóknarfulltrúi fyrir hönd Elínar Hrafnsdóttir aðstoðarsaksóknara.

            Þórhildur Líndal, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð:

            Ákærði, Pálmi Már Þórarinsson, sæti fangelsi í 8 mánuði.

            Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða frá birtingu dómsins að telja.

            Upptækt er gert til ríkissjóðs 16,64 g af maríjúana, einkennisjakki lögreglu, útdraganleg kylfa og handjárn.

            Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 105.400 krónur og 120.805 krónur í annan sakarkostnað.

 

Þórhildur Líndal