• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Fangelsi

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2019 í máli nr. S-4/2019:

Ákæruvaldið

(Friðrik Smári Björgvinsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Mark Gunnari Roberts

(Unnsteinn Örn Elvarsson lögmaður)

 

       Mál þetta, sem dómtekið var í dag, var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dagsettri 10. janúar 2019, á hendur Mark Gunnari Roberts, kennitala 000000-0000, óstaðsettur í hús í Reykjavík, dvalarstaður fangelsið á Hólmsheiði,fyrir eftirgreind brot gegn almennum hegningarlögum framin í fangelsinu á Hólmsheiði laugardaginn 31. mars 2018:

 

                                                                                                                                                                               I.               

Brot gegn valdstjórninni, með því að hafa kastað sjónvarpsfjarstýringu í andlit fangavarðarins A, sem var við skyldustörf, með þeim afleiðingum að A hlaut af eymsli vinstra megin yfir nefi og milli augnabrúna og mar, sem var 2-3 sentimetrar í þvermál, vinstra megin á nefi.

 

       Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

                                                                                                                                                                            II.               

Brot gegn valdstjórninni, með því að hafa hrækt á fangavörðinn B, sem var við skyldustörf, þannig að hráki fór í andlit hennar og hægra auga.

 

       Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

       Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

       Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið brot þau sem honum eru gefin að sök í ákærunni og er játning hans studd sakargögnum.  Það eru því efni til að leggja dóm á málið samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.  Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir brotin sem eru réttilega færð til refsiákvæða í ákærunni.

       Ákærði var dæmdur í 20 mánaða fangelsi 9. mars 2018 fyrir brot gegn valdstjórninni, líkamsárás, auðgunarbrot og fleiri brot. Þar áður hefur honum allt frá 2005 verið refsað átta sinnum fyrir margvísleg brot.

       Refsing hans verður ákveðin samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga og er hæfilega ákveðin þriggja mánaða fangelsi.

       Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað og málsvarnarþóknun verjanda síns sem ákveðin er með virðisaukaskatti í dómsorði.

 

       Arngrímur Ísberg héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

        Ákærði, Mark Gunnar Roberts, sæti fangelsi í þrjá mánuði.

        Ákærði greiði 62.860 krónur í sakarkostnað og málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Unnsteins Arnar Elvarssonar lögmanns, 252.960 krónur og 6.160 krónur í aksturskostnað.

                                                                       

Arngrímur Ísberg