• Lykilorð:
  • Stjórnsýsla
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Sýkna
  • Ógildingarmál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 12. apríl 2019 í máli nr. E-4070/2017:

Guðbjörg Hugrún Björnsdóttir

(Flóki Ásgeirsson lögmaður)

gegn

Lánasjóði íslenskra námsmanna

(Kristján Þorbergsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 15. mars 2019, höfðaði Guðbjörg Hugrún Björnsdóttir, [...], [...], hinn 18. desember 2017, á hendur Lánasjóði íslenskra námsmanna, Borgartúni 21, Reykjavík.

            Stefnandi krefst þess að úrskurður málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna nr. L-8/2015 frá 2. september 2015, þar sem staðfest var ákvörðun stefnda í máli stefnanda frá 18. febrúar 2015, verði felldur úr gildi. Þá er krafist málskostnaðar.

            Stefndi krefst sýknu af dómkröfu stefnanda, auk málskostnaðar.

            Samkvæmt stefnu lutu upphaflegar dómkröfur stefnanda jafnframt að nokkrum ákvörðunum stefnda á lægra stjórnsýslustigi. Í greinargerð krafðist stefndi frávísunar þeirra og var á þá kröfu fallist með úrskurði 3. október 2018, sem stefnandi undi, utan þess að stefnandi féll sjálf frá dómkröfum sem lutu að ákvörðun stefnda frá 6. október 2017 við upphaf málflutnings um frávísunarkröfu.

 

I

Málsatvik

Helstu málsatvik eru þau að stefnandi, sem er lántaki hjá stefnda og 75% öryrki, sótti um undanþágu frá greiðslu tekjutengdrar afborgunar námslána með gjalddaga 1. september 2014, vegna fjárhagserfiðleika. Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er stefnda heimilt að veita undanþágu frá afborgun námslána ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.

Umsókn stefnanda var hafnað með bréfi stefnda 7. október s.á. og aftur 18. febrúar 2015, eftir að stjórn stefnda hafði fjallað um málið að beiðni stefnanda.

Stefnandi skaut málinu til málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN), sem staðfesti ákvörðun stjórnar stefnda með úrskurði 2. september 2015.

Stefnandi kveðst hafa fengið undanþágu frá tekjutengdri afborgun námslána árin 2015 og 2016, enda hafi árstekjur hennar þá verið undir fyrirfram ákveðnum tekjuviðmiðum stefnda. Umsókn hennar um sams konar undanþágu vegna afborgunar með gjalddaga 1. september 2017 var hins vegar synjað með bréfi stefnda 6. október 2017, þar sem tekjur hennar voru yfir viðmiði og stefndi taldi ósýnt að hún ætti við verulega fjárhagsörðugleika að etja. Með tölvupósti 12. desember sama ár var henni tilkynnt að mál hennar hefði „eftir ábendingu“ verið tekið til endurskoðunar og að með hliðsjón af heildarmati á aðstæðum hennar hefði verið fallist á beiðni hennar.

Stefna málsins var gefin út 13. desember s.á. og birt 18. s.m. Tóku dómkröfur í öndverðu til ákvörðunar stefnda frá 6. október, en eins og fyrr sagði féll stefnandi frá þeim kröfum undir rekstri málsins. Að teknu tilliti til þess og fyrrgreinds frávísunarúrskurðar 3. október 2018 lýtur ágreiningur í málinu einungis að úrskurði málskotsnefndarinnar frá 2. september 2015.

Í niðurstöðukafla úrskurðarins kemur fram að óumdeilt sé að kærandi (stefnandi) uppfylli það skilyrði úthlutunarreglna lánasjóðsins 2014–2015 að eiga rétt til undanþágu vegna óvinnufærni sökum örorku, en það eitt út af fyrir sig nægi ekki heldur þurfi einnig að vera uppfyllt skilyrði um að verulegir fjárhagslegir erfiðleikar vegna óvinnufærninnar hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddagann. Málskotsnefndin féllst ekki á að stjórn stefnda hefði skort lagaheimild til að festa tekjuviðmið í úthlutunarreglur sjóðsins eða að í ákvörðun viðmiðsins hefði falist ólögmæt lækkun frá fyrra viðmiði. Nefndin tók fram að kærandi hefði að beiðni málskotsnefndar lagt fram gögn með upplýsingum um tekjur sínar og útgjöld sem ekki voru lögð fram á lægra stjórnsýslustigi. Síðan segir svo, í niðurlagi úrskurðarins:

„Eins og áður er komið fram námu tekjur kæranda [...] krónum. Áðurnefnd 3,3 milljón króna árslaunaregla er aðeins viðmið um að ef tekjur umsækjanda eru yfir tiltekinni fjárhæð þá verði almennt ekki litið svo á að hann eigi við verulega fjárhagsörðugleika að stríða. Þetta viðmið er ekki endanlegur mælikvarði og girðir ekki fyrir það að kærandi geti lagt fram frekari gögn sem sýni að hún eigi allt að einu við verulega fjárhagsörðugleika að stríða sökum óvinnufærni. Í framlögðum gögnum kæranda kemur meðal annars fram að á árinu 2014 hafi heildarráðstöfunartekjur hennar eftir skatta numið [...] krónum, en húsnæðiskostnaður og önnur regluleg útgjöld verið á pari við tekjur og því lítill afgangur til að mæta öðrum útgjöldum eins og matarkostnaði. Þessi gögn bera það vissulega með sér að kærandi hafi ekki mikið fé til ráðstöfunar, en það á einnig við um marga þá aðra sem eru í sömu aðstæðum og hún. Þá er óumdeilt að kærandi nýtur ekki sérstakra greiðsluerfiðleikaúrræða og virðist í skilum við lánadrottna sína. Það er því niðurstaða málskotsnefndar að kærandi hafi ekki lagt fram í málinu upplýsingar sem staðfesti að aðstæður hennar séu með þeim hætti að þær valdi henni verulegum fjárhagserfiðleikum, sem sé skilyrði undanþáguheimildar 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN, sbr. grein 5.7.1 í úthlutunarreglum sjóðsins. Var stjórn LÍN því rétt að hafna beiðni kæranda og er hin kærða ákvörðun í máli kæranda því staðfest.“

            Hér á eftir verða málsástæður aðila raktar að því marki sem þörf krefur til úrlausnar málsins, að teknu tilliti til þess að ágreiningur í málinu stendur nú einungis um eina af upphaflegum dómkröfum stefnanda, eftir að öðrum kröfum var vísað frá dómi eða fallið frá þeim.   

 

II

Málsástæður stefnanda

            Stefnandi byggir á því að við töku umræddrar stjórnvaldsákvörðunar hafi verið brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttar um skyldubundið mat, jafnræðisreglu og lögmætisreglu og reglunni um að ákvarðanir skuli byggja á málefnalegum sjónarmiðum. Þá hafi rannsókn málsins verið ófullnægjandi. Eigi þetta jafnt við um ákvarðanir stefnda og úrskurð málskotsnefndarinnar, enda hafi nefndin byggt í grundvallaratriðum á sömu sjónarmiðum og byggt var á í ákvörðunum stefnda.

            Skyldubundið mat ekki framkvæmt, rannsókn ófullnægjandi

            Stefnandi rekur ákvæði 2. málsl. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna, ákvæði 13. gr. reglugerðar nr. 478/2011, þar sem sjóðsstjórn er veitt heimild til að setja nánari almennar reglur um framkvæmd þess heimildarákvæðis, og gr. 7.5.1 í úthlutunarreglum sjóðsins 2014–2015 þar sem fram kemur meðal annars að almennt sé miðað við að ekki séu veittar undanþágur ef árstekjur lánþega eru yfir 3,3 milljónum króna. Bendir stefnandi á að í lagaákvæðinu felist matskennd lagaheimild til töku stjórnvaldsákvörðunar, en þar sé gert ráð fyrir því að stjórn stefnda meti hverju sinni hvort umsækjandi glími við verulega fjárhagslega örðugleika. Ákvæðið mæli m.ö.o. fyrir um skyldubundið mat stefnda. Í málinu liggi fyrir að umsækjendur sem falli innan tekjuviðmiða í úthlutunarreglum stefnda fái sjálfkrafa undanþágu. Þeir sem séu yfir viðmiðunum fái aftur á móti „almennt ekki“ undanþágu. Þannig telji stefnandi það „óumdeilt“ að hið skyldubundna mat, sem stjórn stefnda sé skylt að framkvæma skv. 2. málsl. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1991, hafi verið afnumið að miklu leyti.

            Í úthlutunarreglunum sé ekki mælt nánar fyrir um hvernig umsækjandi skuli sýna fram á verulega fjárhagsörðugleika, en eðli málsins samkvæmt geti fjárhagsörðugleikar verið af ýmsum toga og ástæðum. Í 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 sé þó tekið fram að stjórn stefnda geti kallað eftir þeim upplýsingum sem hún telur skipta máli við mat á umsókn skv. 6. mgr. 8. gr. laganna, sbr. einnig 13. gr. reglugerðar nr. 478/2011. Af orðalagi þessara ákvæða sé ljóst að stefndi skuli meta hvaða upplýsingar og gögn skipti máli hverju sinni. Stefnda sé óheimilt að setja vinnureglu sem ákveði fyrirfram hvaða upplýsingar og gögn skuli nota í öllum tilvikum.

            Stefnandi hafi verið með árstekjur rétt yfir nefndum viðmiðum. Henni hafi einungis verið gefinn kostur á að sýna fram á verulega fjárhagslega örðugleika með staðfestingu á að hún nyti greiðsluerfiðleikaúrræða hjá viðskiptabanka eða umboðsmanni skuldara. Stefndi hafi ekki viljað líta til annarra gagna sem höfðu þýðingu við afgreiðslu málsins og ekki séð ástæðu til að óska eftir staðfestingu á atriðum sem stefnandi nefndi máli sínu til stuðnings.

            Þar sem stjórn stefnda neitaði að taka við gögnum frá stefnanda hafi ákvörðunin verið tekin án þess að nokkurt mat hefði farið fram á fjárhag stefnanda. Synjunin hafi því einungis verið byggð á þeim grundvelli að árstekjur stefnanda væru yfir nefndum viðmiðum. Með hliðsjón af málsmeðferðinni liggi fyrir að stjórn stefnda hafi sett sér óskráða vinnureglu um að umsækjandi, sem sé yfir viðmiðum, þurfi að njóta greiðsluerfiðleikaúrræða hjá viðskiptabanka eða Umboðsmanni skuldara til að eiga möguleika á undanþágu frá afborgun skv. 2. máls. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992.

            Framangreind tekjuviðmið úthlutunarreglna stefnda takmarki óhóflega það skyldubundna mat sem stefnda sé skylt að framkvæma skv. 2. málsl. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992. Við það bætist afdráttarlaus krafa stefnda um framlagningu tiltekinna gagna og höfnun á að líta til annarra gagna. Málsmeðferðin hafi falið það í sér að hið skyldubundna mat hafi verið afnumið í tilviki stefnanda. Með vísan til framangreindra málsástæðna hafi rannsókn málsins einnig verið verulega ábótavant og brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

            Skilyrði úthlutunarreglna og framkvæmd stefnda skortir lagastoð og er í andstöðu við lög

            Stefnandi byggir sérstaklega á því að vinnureglur stefnda, annars vegar skráð regla í úthlutunarreglum um að undanþágur séu almennt ekki veittar í tilvikum þar sem umsækjandi er yfir tekjuviðmiðum og hins vegar óskráð regla um að einungis verði vikið frá tekjuviðmiðum ef fyrirfram ákveðnar upplýsingar liggja fyrir, hafi hvorki stoð í lögum nr. 21/1992 né reglugerð nr. 478/2011 og brjóti raunar í bága við 13. gr. reglugerðarinnar og það heildarmat á aðstæðum sem eigi að framkvæma samkvæmt ákvæði 6. mgr. 8. gr. laganna.

            Brot gegn jafnræðisreglu og ákvörðun byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum

            Stefnandi byggir á því að henni hafi verið mismunað við málsmeðferð stefnda og málskotsnefndarinnar, auk þess sem úthlutunarreglur stefnda fari í bága við þau jafnræðissjónarmið sem stjórnvöldum sé skylt að starfa eftir.

            Málskotsnefndin hafi engar athugasemdir gert við það hversu fortakslaust stefndi beitti vinnureglum sínum. Þrátt fyrir að málskotsnefndin hafi tekið við frekari gögnum frá stefnanda sé ekki að finna neina úrvinnslu þeirra upplýsinga í úrskurðinum. Eins og í ákvörðunum stefnda leggi málskotsnefndin ríka áherslu á vægi tiltekinna gagna en telji önnur gögn léttvæg. Vísar stefnandi sérstaklega til þess rökstuðnings málskotsnefndarinnar að ljóst sé að „húsnæðiskostnaður og önnur regluleg útgjöld [hafi] verið á pari við tekjur og því lítill afgangur til að mæta öðrum útgjöldum eins og matarkostnaði. Þessi gögn [beri] það vissulega með sér að kærandi hafi ekki mikið fé til ráðstöfunar, en það [eigi] einnig við um marga þá aðra sem eru í sömu aðstæðum og hún.“ Stefnandi kveður framangreinda úrlausn með ólíkindum. Nefndin komist að því að stefnandi sé í slíkum fjárhagserfiðleikum að hún eigi varla fyrir mat. Í stað þess að nota þær upplýsingar til þess að veita undanþágu beiti nefndin því sjónarmiði að margir aðrir séu í sömu stöðu. Þetta sjónarmið sé ómálefnalegt en tilgangur og markmið lagaákvæðisins sé að meta aðstæður einstaklinga og komast að því hvort þeir séu í fjárhagserfiðleikum sem réttlæti að veita þeim undanþágu frá afborgun. Engin önnur sjónarmið eigi að blandast þar inn í og fullyrðing um að aðrir hafi það jafnslæmt og stefnandi sé ekki lögmæt ástæða til að synja um undanþágu.

            Stefnandi hafi selt bifreið sína til þess að borga hluta af skuldum sínum og hafi þurft að reiða sig á aðra vegna matarinnkaupa. Með hliðsjón af framansögðu hefði stefnanda verið rétt að halda bifreiðinni og sleppa því að standa skil á skuldum sínum. Í framhaldinu hefði hún síðan getað sótt um greiðsluerfiðleikaúrræði hjá viðskiptabanka eða Umboðsmanni skuldara og framvísað umbeðnum gögnum til stefnda.

            Þar sem stefndi og málskotsnefndin líti ekki til annarra upplýsinga en tekna og greiðsluerfiðleikaúrræða sé stefnanda (og eflaust fleirum) mismunað með ólögmætum hætti. Stefnandi hafi fengið aðra úrlausn á máli sínu en einstaklingur í sambærilegum fjárhagsörðugleikum. Fjárhagsörðugleikar ráðist ekki einungis af tekjum heldur einnig skuldum, fjölskylduhögum, útgjöldum o.s.frv. Með því að líta einungis til afmarkaðra þátta fáist ekki rétt heildarmynd af stöðu einstaklingsins og af því leiði að ekki sé tekin rétt ákvörðun í máli hans. Ljóst sé af framangreindri afstöðu málskotsnefndarinnar að tveir aðilar með sama fjárhag fái ólíka meðferð eftir því hvort þeir njóta greiðsluerfiðleikaúrræða hjá viðskiptabanka eða Umboðsmanni skuldara og einnig eftir því hvort þeir ráðstafa sínum takmörkuðu tekjum til þess að greiða skuldir sínar eða ekki. Reglurnar, sem stefndi hafi sett og málskotsnefndin fari einnig eftir, hafi því leitt til þeirra öfugsnúnu niðurstöðu að þeim sem eru í vanskilum sé ívilnað, en þeim sem standi skil á skuldum sínum, á kostnað mannsæmandi lífs, sé aftur á móti refsað. Þessi túlkun feli í sér brot gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar og sé auk þess ómálefnaleg.

            Kröfugerð

            Krafa um ógildingu sé reist á því að sú stjórnvaldsákvörðun sem fólst í úrskurði málskotsnefndarinnar, þar sem synjun stefnda var staðfest, sé ólögmæt og haldin verulegum efnisannmörkum. Verulegir efnisannmarkar á stjórnvaldsákvörðun eigi með réttu að leiða til ógildingar nema sérstaklega sé sýnt fram á önnur atriði sem réttlæti það að ógilda ekki ákvörðun. Auk þess hafi rannsókn stjórnvaldanna verið haldin miklum annmörkum en slíkt veiti löglíkur fyrir því að efnisleg niðurstaða hafi verið röng og þar með ógildanleg.

            Aðild málsins byggist á dómvenju Hæstaréttar Íslands í málum þar sem krafist er ógildingar á úrskurði sjálfstæðrar kærunefndar innan stjórnsýslunnar.

            Um lagarök er í stefnu vísað til þeirra ákvæða laga nr. 21/1992, reglugerðar nr. 478/2011 og úthlutunarreglna stefnda sem þegar hefur verið fjallað um, en um fyrirsvar er vísað til 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 og um varnarþing til 4. mgr. 33. gr. sömu laga. Um málskostnað er vísað til 1. mgr. 129. og 1. og 3. mgr. 130. gr. sömu laga.

 

 

III

Málsástæður stefnda

            Stefndi byggir á því að þótt í reglunni um skyldubundið mat felist að stjórnvaldshöfum sé óheimilt að setja reglur sem afnemi matið eða takmarki það óhæfilega sé það fyllilega viðtekin framkvæmd að stjórnvaldshafar geti sett viðmiðunarreglur til að gæta jafnræðis og samræmis í mati sínu. Undir þeim formerkjum beri að virða þau almennu viðmið sem stjórn stefnda hafi sett fram í úthlutunarreglum sínum, og staðfestar séu af ráðherra og birtar í Stjórnartíðindum. Þá sé til þess að horfa að í 13. gr. reglugerðar nr. 478/2011 um stefnda sé lagt fyrir sjóðsstjórn að setja almennar reglur um framkvæmd þeirrar heimildar sem henni sé búin, til að veita undanþágu frá afborgun námsláns, sbr. og 3. mgr. 3. gr. laga nr. 21/1992.

            Þau viðmið sem sett séu í úthlutunarreglunum séu ekki fortakslaus heldur almenn. Tekið sé fram í þeim að þær ástæður sem valdi örðugleikum umsækjanda skuli að jafnaði hafa varað a.m.k fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar og að almennt séu undanþágur ekki veittar séu árstekjur lánþega yfir 3,3 milljónum króna. Bæði þessi viðmið bjóði samkvæmt hljóðan sinni upp á frávik byggð á mati.

            Hvað fyrrnefnda viðmiðið varði, þ.e. um tímabilið fyrir gjalddaga, sé óumdeilt að aðstæður stefnanda séu innan marka þess.

            Tekjuviðmiðið sé sótt í lægsta launataxta í kjarasamningi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna og geti þar af leiðandi vart talist ómálefnalegt. Þrátt fyrir að stefnandi væri yfir því viðmiði hafi henni gefist kostur á að sýna fram á verulega fjárhagsörðugleika. Það sé rangt að möguleiki til þess að sýna fram á slíkt einskorðist við þá sem njóta greiðsluerfiðleikaúrræða hjá viðskiptabanka eða umboðsmanni skuldara. Fullgilt sé að tilgreina önnur atriði sem staðfest geti verulega fjárhagsörðugleika og séu þau atriði þá tekin til mats.

            Greiðsluörðugleikaúrræði hjá viðskiptabanka eða umboðsmanni skuldara séu hins vegar metin vera í þeirri sérstöðu að sé þeirra leitað og neytt sé það tekið sem afdráttarlaus staðfesting verulegra fjárhagsörðugleika. Það útiloki hins vegar engan veginn að sýnt sé fram á verulega fjárhagsörðugleika með öðrum gögnum, enda hafi önnur gögn sem stefnandi lagði fram verið tekin til mats hjá málskotsnefnd.

            Stefndi mótmælir sérstaklega staðhæfingum í stefnu um að óumdeilt sé að hið skyldubundna mat sem stjórn stefnda sé skylt að framkvæma skv. 2. málsl. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 hafi verið afnumið nánast að öllu leyti. Þá sé mótmælt staðhæfingum stefnanda um að greiðsluerfiðleika megi einungis sýna fram á með tilteknum afmörkuðum gögnum, en engum öðrum, og að neitað hafi verið að veita viðtöku upplýsingum um eignir stefnanda og lífeyri.

            Heimild til gagnaframlagningar af hálfu umsækjanda sé alls ekki takmörkuð við tiltekin gögn þegar umsækjandi leitast við að sýna fram á verulega fjárhagserfiðleika, en tilteknum tegundum gagna sé gefið aukið vægi fyrir matið.

            Hinum almennu viðmiðunum stefnda sé ætlað að stuðla að jafnræði umsækjenda, samræmi við framkvæmd matsins og málefnalegri meðferð umsókna. Því verði að mótmæla eindregið þeim málsástæðum sem stefnandi færi fram, þ.m.t. þeim sem vísi til brota á jafnræðisreglu og ómálefnalegra sjónarmiða.

            Þá áréttar stefndi þau sjónarmið sem sett voru fram af hans hálfu til málskotsnefndarinnar og þau sem birtast í niðurstöðum hennar.

            Við upphaf aðalmeðferðar féll stefndi frá málsástæðu um tómlæti sem byggt er á í greinargerð.

 

IV

Niðurstaða

            Eins og fram er komið stendur ágreiningur aðila um það hvort úrskurður málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 2. desember 2015 sé haldinn annmörkum sem varða eigi ógildingu hans. Byggir stefnandi í meginatriðum á því að við töku þeirrar stjórnvaldsákvörðunar sem í úrskurðinum felst hafi verið brotið gegn meginreglu stjórnsýsluréttar um skyldubundið mat, jafnræðisreglu, lögmætisreglu og reglu um að ákvarðanir skuli byggja á málefnalegum sjónarmiðum, auk þess sem rannsókn málsins hafi verið áfátt.

Í óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar um skyldubundið mat stjórnvalds felst að þegar skilyrði til töku stjórnvaldsákvörðunar eru ekki að öllu leyti lögbundin, heldur að einhverju leyti matskennd, þá er stjórnvaldi ekki heimilt að afnema það mat með öllu með setningu verklagsreglna. Það útilokar þó ekki að matið sé þrengt með slíkum reglum, í þágu þeirrar skyldu stjórnvalds að gæta jafnræðis.

            Ekki verður séð að með setningu tekjuviðmiðs sem var að finna í úthlutunarreglum stefnda 2014–2015, grein 7.5.1, og er enn að finna í reglum lánasjóðsins, hafi verið gengið of langt í að afnema það mat sem stefnda og málskotsnefndinni er falið að lögum við ákvörðun um veitingu undanþágu frá afborgun námslána, enda er ekki með því viðmiði komið í veg fyrir að undanþága verði veitt lánþega sem er með tekjur umfram það, sbr. orðið „almennt“ í nefndri grein úthlutunarreglnanna.

Af bréfum stefnda til stefnanda í aðdraganda synjunar á umsókn hennar um undanþágu frá afborgun námsláns haustið 2014 verður ráðið að rík áhersla hafi verið lögð á það á lægra stjórnsýslustigi að stefnandi sýndi fram á fjárhagserfiðleika sína með tilteknum gögnum, þ.e. yfirlýsingu viðskiptabanka og/eða umboðsmanns skuldara. Við meðferð málsins hjá málskotsnefnd LÍN bauð nefndin stefnanda aftur á móti að leggja fram þau gögn sem hún sagðist hafa viljað leggja fyrir stefnda um tekjur sínar og gjöld, en ekki gert þar sem stefndi taldi þau gögn ekki hafa þýðingu. Kemur þetta fram í úrskurði málskotsnefndarinnar frá 2. september 2015 og er í niðurstöðukafla vísað til þeirra gagna og lagt mat á þau. Með því bætti nefndin úr hugsanlegum ágöllum málsmeðferðar stefnda á lægra stjórnsýslustigi. Verður því hafnað þeim málsástæðum stefnanda sem lúta að því að úrskurður málskotsnefndar sé haldinn ógildingarannmörkum vegna brota á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og meginreglu stjórnsýsluréttar um skyldubundið mat. Með sömu rökum verður að hafna þeim málsástæðum stefnanda ógilda beri úrskurðinn vegna þess að skilyrði úthlutunarreglna og framkvæmd stefnda hafi skort lagastoð og verið í andstöðu við lög. Verður ekki annað séð en að málskotsnefndin hafi lagt heildstætt mat á einstaklingsbundnar aðstæður stefnanda, eins og lög gera ráð fyrir.

            Stefnandi lagði við málflutning megináherslu á þá málsástæðu að stjórn stefnda hefði ekki lagt málefnalegt og forsvaranlegt mat á það hvort stefnandi uppfyllti skilyrði síðari málsliðar 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um verulega fjárhagsörðugleika vegna örorku sinnar og að úr því hefði ekki verið bætt við málsmeðferð málskotsnefndarinnar, eins og rökstuðningur í úrskurði hennar væri til marks um. Stefnandi telji fráleita þá niðurstöðu að hún hafi ekki átt í verulegum fjárhagslegum örðugleikum, þótt málskotsnefnd teldi hana vart eiga fyrir mat, bara vegna þess að hún hafi ekki verið í vanskilum við lánardrottna sína eða nýtt sér greiðsluerfiðleikaúrræði banka eða umboðsmanns skuldara.

            Í niðurstöðukafla úrskurðar málskotsnefndarinnar, sem að hluta er tekinn upp orðrétt í kafla I hér að framan, er tekið fram að á árinu 2014 hafi húsnæðiskostnaður og önnur regluleg útgjöld stefnanda verið „á pari við tekjur“ og því „lítill afgangur“ til að mæta öðrum útgjöldum, eins og matarkostnaði. Sömu gögn og stefnandi lagði fyrir málskotsnefndina um tekjur sínar og útgjöld hefur hún einnig lagt fram hér fyrir dómi. Meðal þeirra er yfirlit ráðstöfunartekna eftir skatt og helstu útgjalda. Sýnir það yfirlit að mismunur til ráðstöfunar var jákvæður um 24.370 krónur á árinu 2014. Þá sýna fylgigögn yfirlitsins að húsnæðiskostnaður stefnanda fólst í afborgunum lána og rekstri á 140 fermetra fasteign, með tilheyrandi kostnaði af fasteignagjöldum, hita, rafmagni og tryggingum, auk þess sem hún rak bifreið lungann af árinu, eða fram til þess er hún seldi bifreiðina [...] desember 2014. Við munnlegan málflutning vakti lögmaður stefnda athygli á þessu og því að úrskurður málskotsnefndar væri byggður á mati á þessum gögnum. Mótmælti stefnandi því sem of seint fram kominni málsástæðu og auk þess sem efnislega röngu að úrskurður málskotsnefndar hafi byggst á því að föst útgjöld stefnanda, m.a. vegna húsnæðis, hefðu verið talin óþarflega há. Ekki verður á það fallist að um of seint fram komna málsástæðu sé að ræða, enda er byggt á því í greinargerð stefnda að gögn um tekjur og útgjöld stefnanda hafi verið tekin til mats hjá málskotsnefndinni.

            Í stefnu er ekki sjálfstætt á því byggt sem ógildingarannmarka að rökstuðningi málskotsnefndar hafi verið áfátt. Enda þótt rökstuðningur í úrskurðinum hefði að ósekju mátt vera skýrari verður að ætla að málskotsnefndin hafi litið til framangreindra upplýsinga um húsnæðiskostnað og regluleg útgjöld við mat á því hvort stefnandi ætti í verulegum fjárhagsörðugleikum og metið það svo að stefnandi hefði að þessu leyti nokkurt borð fyrir báru. Verður ekki séð að mat málskotsnefndar á gögnum málsins hafi verið ómálefnalegt eða óforsvaranlegt.

            Þá er ljóst af rökstuðningi málskotsnefndarinnar að niðurstaða um að staðfesta synjun stefnda á umsókn stefnanda um undanþágu byggðist jafnframt á því að stefnandi væri í skilum við lánardrottna sína og nyti ekki sérstakra greiðsluerfiðleikaúrræða. Þau sjónarmið geta ekki talist ómálefnaleg við mat á því hvort um verulega fjárhagsörðugleika sé að ræða. 

            Í stefnu er enn fremur byggt á því að stefnanda hafi verið mismunað, því ljóst sé að tveir aðilar með sama fjárhag fái ólíka meðferð eftir því hvort þeir njóta greiðsluerfiðleikaúrræða hjá viðskiptabanka eða Umboðsmanni skuldara eða ekki og einnig eftir því hvort þeir ráðstafa sínum takmörkuðu tekjum til þess að greiða skuldir sínar eða ekki. Leiði reglur og framkvæmd stefnda og málskotsnefndarinnar til þeirrar öfugsnúnu niðurstöðu að þeim sem eru í vanskilum sé ívilnað, en þeim sem standi skil á skuldum sínum, á kostnað mannsæmandi lífs, sé refsað. Þessi túlkun feli í sér brot gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar og sé auk þess ómálefnaleg.

            Í jafnræðisreglum laga felst ekki aðeins að meðhöndla eigi lík mál líkt, heldur einnig að meðhöndla beri ólík mál ólíkt. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að aðstæður hennar á árinu 2014 hafi verið sambærilegar aðstæðum annarra sem fengu umsókn um undanþágu samþykkta. Verður ekki séð að ómálefnalegt geti talist að gera greinarmun á aðstæðum hennar og aðstæðum þeirra sem voru í vanskilum og þurft höfðu að nýta sér greiðsluerfiðleikaúrræði. Verður því að hafna málsástæðu hennar um brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar.

            Samkvæmt öllu framanrituðu, og þar sem öllum málsástæðum stefnanda sem þýðingu geta haft hefur verið hafnað, ber að sýkna stefnda af þeirri einu dómkröfu stefnanda sem eftir stendur í málinu, um að úrskurður málskotsnefndar LÍN frá 2. september 2015 verði felldur úr gildi.

            Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir, eins og atvikum málsins er háttað, rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

            Hildur Briem héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

            Stefndi, Lánasjóður íslenskra námsmanna, er sýkn af öllum dómkröfum stefnanda, Guðbjargar Hugrúnar Björnsdóttur, í máli þessu.

            Málskostnaður fellur niður.

 

                                                                 Hildur Briem